Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 451  —  1. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Hlutverk stjórnvalda er að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Fjárlagafrumvarpið tryggir því miður hvorugt. Ríkisstjórnin ætlar hvorki að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né í nauðsynlega tekjuöflun fyrir hið opinbera sem kemur niður á velferðarkerfi okkar allra.
    Það skiptir miklu máli að stjórn á ríkisfjármálum sé ábyrg á sama tíma og þörf fyrir opinbera fjárfestingu er uppfyllt. Hætt er við að þegar hægir á í efnahagslífinu, eins og stefnir í, dugi tekjur ríkissjóðs ekki til að fjármagna núverandi útgjöld. Þess vegna er nauðsynlegt að líta á bæði gjaldahlið frumvarpsins og tekjuhliðina.
    Ljóst er að fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér þá framtíðarsýn sem Íslendingar hafa kallað eftir. Einnig ber að hafa talsverðar áhyggjur af aukinni óvissu í efnahagslífinu og forsendum fjárlagafrumvarpsins sem eru brostnar.
    Breytingartillögur 1. minni hluta fjárlaganefndar upp á um 24 milljarða kr., sem eru að öllu leyti fjármagnaðar, boða hins vegar forgangsröðun til framtíðar og á það bæði við um breytingar á ríkisútgjöldum og um hugmyndir um breytt tekjuúrræði hins opinbera.
    Þá gerir 1. minni hluti ráð fyrir hærri afgangi á ríkissjóði á næsta ári heldur en ríkisstjórnarflokkarnir gera ráð fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi en það er gert til þess að tryggja að ef efnahagurinn tekur dýfu þurfi ekki að skera niður mikilvæga þjónustu við almenning.
    Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar, sem að langstærstum hluta koma frá ráðherrum, eru hins vegar mikil vonbrigði. Eftir umfangsmikla vinnu fjárlaganefndar eru afar litlar breytingar gerðar og sumar hverjar eru skref aftur á bak frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í haust.

Vondar breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar:
     1.      Öryrkjar fá 1.100 millj. kr. lækkun frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu gerði ráð fyrir í haust en það var ekki beysið til að byrja með. Verður það að teljast köld tuska í andlit öryrkja að fá lækkun milli umræðna á fjárlagafrumvarpinu. Enn er því afnám „króna á móti krónu“-skerðingar ófjármagnað.
     2.      Húsnæðisstuðningur fær 91 millj. kr. niðurskurð þrátt fyrir litla sem enga viðbót þegar frumvarpið var lagt fram og þrátt fyrir ákall verkalýðshreyfingarinnar um að húsnæðismálin séu eitt stærsta baráttumál þeirra.
     3.      Samgöngur fá um 550 millj. kr. niðurskurð frá því sem til stóð í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í haust og þrátt fyrir vanfjármagnaða samgönguáætlun.
     4.      Framhaldsskólastigið fær til viðbótar 80 millj. kr. niðurskurð þrátt fyrir að fá lækkun milli ára þegar frumvarpið var lagt fram.
     5.      Framkvæmdir við uppbyggingu nýs Landspítala fá 2,5 milljörðum kr. minna vegna seinkunar framkvæmda.
     6.      Einungis er lagt til að hjúkrunarheimili fái um fimmtung af því sem þau hafa talið nauðsynlegt til viðbótar í rekstur þeirra.
     7.      Þá er einnig lagt til að setja um 730 millj. kr. minna í rekstur hjúkrunarheimila vegna seinkunar á uppbyggingu.
     8.      Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum ásamt rannsóknarstarfsemi á háskólastigi fá 200 millj. kr. niðurskurð milli umræðna.
     9.      Þróunarsamvinna fær 80 millj. kr. niðurskurð milli umræðna þrátt fyrir skammarlega lágar fjárhæðir hjá einni ríkustu þjóð í heimi.
     10.      Útlendingamál fá tæplega 30 millj. kr. niðurskurð milli umræðna.
     11.      Náttúruvernd, skógrækt og framkvæmdasjóður ferðamannastaða fá um 170 millj. kr. niðurskurð milli umræðna og sýnir það vel hug ríkisstjórnarinnar til grænna málefna

    Fjárlaganefnd sér einnig enga þörf fyrir að standa fyrir raunverulegum viðbótum til aldraðra, háskóla, framhaldsskóla, almennrar löggæslu eða í barnabætur og vaxtabætur. Þá er það reginhneyksli að fjárlaganefnd setji ekki krónu til viðbótar í almennan rekstur heilbrigðisstofnana úti á landi sem þurfa 800 millj. kr. til að ná að „sinna grunnþjónustu“. Þá er einungis settur helmingur af því sem talið hefur verið nauðsynlegt svo að SÁÁ verði kleift að stytta biðlista og tryggja starfsemi sína á Akureyri.

Vanræksla félagslegra innviða.
    1. minni hluti fjárlaganefndar sér ástæðu til að taka undir umsögn ASÍ sem gagnrýnir þróun opinberra fjármála á undanförnum árum og að fjármál hins opinbera tryggi ekki félagslegan stöðugleika hér á landi. ASÍ hefur í því samhengi áður varað við veikingu nauðsynlegra tekjustofna og vanrækslu félagslegra innviða. Hætta er á því að verði efnahagshorfur veikari en gert er ráð fyrir standi tekjustofnar hins opinbera ekki undir nauðsynlegri velferð hér á landi.
    Jafnframt hefur miðstjórn ASÍ ítrekað ályktað um opinber fjármál, nú síðast hinn 19. september þar sem segir að fjárlagafrumvarp „gefi ekki tilefni til mikillar bjartsýni í þeim kjaraviðræðum sem í hönd fara, þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda í samskiptum við verkalýðshreyfinguna um aukna áherslu á félagslegan stöðugleika“. Þá vill 1. minni hluti fjárlaganefndar gera þessi orð Alþýðusambands Íslands að sínum: „Sú fjármálastefna sem fylgt hefur verið á Íslandi á undanförnum árum hefur leitt af sér aukin útgjöld ríkisins á sama tíma og tekjustofnar hafa verið veiktir með þensluaukandi áhrifum, t.d. skattkerfisbreytingum á borð við afnám auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda, lækkanir á neyslusköttum, afnám tolla og vörugjalda og lækkun tekjuskatta. Fyrir vikið hefur afkoma ríkisins verið í járnum ef tekið er tillit til áhrifa hagsveiflunnar en á sama tíma hefur aðhald m.a. falist í að ráðast ekki í velferðarumbætur og veikja stuðning í gegnum tilfærslukerfin, þ.e. barna- og vaxtabætur. Slík fjármálastefna mun einungis ýta undir ójöfnuð á Íslandi og grafa undan félagslegum stöðugleika og því ekki líkleg til að byggja undir sátt á vinnumarkaði.“
    Áhugavert er að rifja upp að samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að samneyslan minnki næstu fimm árin þrátt fyrir hækkandi aldur þjóðarinnar og fyrirheit um innviðauppbyggingu. Útlit er fyrir að hlutur samneyslu í vergri landsframleiðslu verði að meðaltali um 23,1% en til samanburðar var meðaltal undanfarinna 20 ára tæp 23,5%. Einnig lækka framlög til opinberrar fjárfestingar næstu fimm ár.
    Viðskiptaráð bendir einnig á að lítið megi út af bregða svo að tekjuforsendur frumvarpsins bresti.

Brostnar forsendur.
    Að lokum má benda á að forsendur fjármálaáætlunarinnar og að sumu leyti fjárlagafrumvarpsins eru nokkuð óraunsæjar en þær byggjast á að hér verði 13 ára samfleytt hagvaxtarskeið sem hefur aldrei gerst í sögu Íslandsbyggðar.
    Útreikningur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 á kostnaði í erlendum gjaldmiðlum miðast við meðalgengi júlímánaðar 2018 og brast sú forsenda mjög fljótt en gengi krónunnar hefur lækkað um 12,4 prósentustig síðan í júlí 2018. Nú hafa gengisforsendur verið endurmetnar hjá fjármálaráðuneytinu og miðast við gengi í október sem alls óvíst er að haldist næsta árið.
    Einnig er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar næstu fimm ár í fjármálaáætlun en gengið er nú þegar farið að gefa eftir. Á síðustu þremur mánuðum hefur gengið lækkað um 12% sem til lengri tíma þýðir um 4–6% verðbólgu. 10% gengisfall þýðir 10% verðhækkun á innfluttum vörum, sem er um þriðjungur af heildarútgjöldum, en um ¾ hlutar af innflutningi koma frá Evrópu. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á verðlag og verðbólgu, vexti, hagvöxt, einkaneyslu, skatttekjur o.s.frv. og þá er nú lítið eftir. Seðlabankinn er þegar farinn að hefja vaxtahækkunarferil sinn. Hagvaxtarspár byggjast að miklu leyti á einkaneyslu og ef frekari breytingar verða á henni, sem margt bendir til að gerist, hefur það víðtæk áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Þá er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að launakostnaður ríkisins hækki um 3,6% miðað við að kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði taki gildi 1. apríl nk. í takt við gerða samninga. 1. minni hluti fjárlaganefndar leyfir sér að efast um að sú forsenda haldi.

Mikill eignaójöfnuður.
    Enn á ný virðist ríkisstjórnin ekki vera tilbúin að ráðast gegn þeim mikla eignaójöfnuði sem ógnar stöðugleika, m.a. á vinnumarkaði. Núverandi staða kallar á aðgerðir í átt að réttlæti og jafnari tækifærum. Ísland er langneðst allra Norðurlanda á lista Oxfam þegar kemur að aðgerðum gegn ójöfnuði.
    Um 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna, 5% landsmanna eiga næstum jafnmikið og það sem 95% af þjóðinni eiga og einungis 10% landsmanna tóku tæpan helming þeirra hreinu eigna sem urðu til árið 2016. Því hærri sem tekjur fólks eru því meira hafa ráðstöfunartekjur hækkað hlutfallslega.
    Ríkasta eina prósent landsmanna stendur saman af um 2.000 fjölskyldum og á hver um sig um 300 millj. kr. í hreinni eign. Sé litið til hvað ríkasta 0,1%-ið, sem eru um 200 fjölskyldur, á mikið í hreinni eign sést að sérhver fjölskylda þar á meira en 1.000 millj. kr. í hreinni eign. Tíu eignamestu einstaklingar landsins eiga tæplega þriðjung alls eigin fjár í íslenskum félögum, sem er í höndum einstaklinga.
    Í skýrslu hagdeildar ASÍ sem gefin var út haustið 2017 var skattbyrði launafólks rakin frá árinu 1998. Meginniðurstaða skýrslunnar sem birtist í umsögn ASÍ við fjárlagafrumvarpið var sú að skattbyrði flestra hópa á vinnumarkaði hefði aukist á tímabilinu en langmest þó hjá lágtekjuhópum. Þróunina mætti rekja til þriggja atriða; í fyrsta lagi til misgengis í þróun launa og persónuafsláttar þar sem uppbygging kerfisins leiðir til sjálfvirkrar aukningar skattbyrði þegar laun hækka umfram verðlag, í öðru lagi til aukinna skerðinga og veikingar vaxtabótakerfisins og í þriðja lagi til aukinna skerðinga barnabótakerfisins. Þessi þróun hefur ekki verið óvænt og hafa félagshyggjuflokkar og verkalýðshreyfingin um langt skeið bent á hana.
    Samfylkingin hefur lagt fram tillögur við fimm síðustu fjárlög til að snúa þessari þróun við, en tillögurnar hafa allar verið felldar.

Öryrkjar og aldraðir enn skildir eftir.
    Öryrkjar eru hópur sem hefur allt of lengi verið vanræktur af stjórnvöldum. Því miður verður lítil breyting þar á með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Aukin fjárveiting til aldraðra er að mestu vegna fjölgunar í þeim hópi en enn vantar talsverða fjármuni í þann málaflokk svo að vel megi við una.
    Þeir fjármunir sem áttu að renna til öryrkja umfram fjölgun þeirra í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í haust dygðu einungis fyrir um þriðjungi af því sem kostar að afnema svokallaða „króna á móti krónu“-skerðingu en enn þá hefur sú nauðsynlega aðgerð ekki verið fjármögnuð. Í meðförum meiri hluta fjárlaganefndar er þessi fjárhæð meira að segja lækkuð úr 4 milljörðum kr. í 3 milljarða kr.
    Stjórn FEB lýsir yfir sárum vonbrigðum með þau áform ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að grunnupphæðir lífeyris almannatrygginga eigi aðeins að hækka um 3,4% á næsta ári, sbr. fjárlagafrumvarp 2019. Stjórn FEB telur að þetta feli í sér bæði vanefndir á viljayfirlýsingum og loforðum ráðamanna á undanförnum misserum um að bæta kjör eldri borgara og brot á 69. gr. laga um almannatryggingar um að upphæðir lífeyris og bóta almannatrygginga skuli breytast til samræmis við launaþróun, þó aldrei minna en neysluverðsvísitala.
    Að mati FEB ná einungis 26% lífeyrisþega 300.000 kr. lágmarkslaunum og sér hver maður að hér er verk að vinna. Forsvarsmenn eldri borgara sögðu á fundi fjárlaganefndar að þeir hefðu „aldrei séð jafnlágar tölur fyrir þennan hóp í samfélaginu“. 1. minni hluti fjárlaganefndar lýsir sérstökum áhyggjum af fátækt meðal eldri borgara.
    Gagnvart ellilífeyrisþegum hefur sú leið verið farin undanfarin ár að hækka heimilisuppbót til þeirra sem búa einir umtalsvert umfram almenna hækkun ellilífeyris. Sú leið hefur aukið muninn á lífeyri þeirra ellilífeyrisþega sem búa einir og þeirra sem eru í sambúð. Segja má að með þessu séu teknar upp tekjutengingar vegna maka að nýju í breyttu formi.
    Verði áform ríkisstjórnar sem lesa má um í fjárlagafrumvarpinu að veruleika héldi kaupmáttur lífeyris frá Tryggingastofnun áfram að dragast aftur úr kaupmætti launa á næsta ári að mati FEB.
    Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), sem mörg hver þjónusta eldri borgara og reka hjúkrunarheimili, voru mjög harðorð í garð þessa fjárlagafrumvarps. Meira að segja töldu þau að ef ekki yrði bætt í þá neyddust sum hjúkrunarheimili til að skerða gæði matar handa eldri borgurum, svo sem á sunnudögum og jólum.
    Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið varð niðurskurður á greiðslum til flestra aðildarfélaga SFV árið 2018. Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp felur í sér enn frekari niðurskurð á greiðslum ríkisins til þessara aðila á árinu 2019. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður sá niðurskurður einnig a.m.k. árin 2020 og 2021. Hjá sumum aðilum verður hann enn meiri árin 2020 og 2021 en á árunum 2018 og 2019 eins og segir m.a. í umsögn SVF: „Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 boðar ríkisstjórnin áframhaldandi niðurskurð á greiðslum til flestra aðildarfélaga SFV með sama hætti og þau hafa staðið frammi fyrir undanfarin ár, ekki síst á yfirstandandi ári. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur einnig til að skerða greiðslurnar enn frekar árin 2020 og 2021, að minnsta kosti. Standi þessi ákvörðun ríkisstjórnar í meðförum Alþingis í umræðum um fjárlagafrumvarpið verður niðurskurðurinn meiri árin 2020 og 2021 heldur en á yfirstandandi ári og fyrirsjáanlegur er á næsta ári. Þetta kemur á óvart þar sem í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er meðal annars sérstaklega minnst á rekstrargrunn hjúkrunarheimila. […] Í frumvarpinu er á hinn bóginn gert ráð fyrir að skera áfram niður rekstrarframlög til hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrýma þótt ætlunin sé að fjölga slíkum rýmum.“
    Einnig segir í umsögninni að í fjárlögum ársins 2019 séu málefnasvið 25 Hjúkrunarrými og endurhæfing og málefnasvið 32 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit einu málefnasvið heilbrigðisþjónustunnar sem fá á sig aðhaldskröfu en enga fjármuni til að mæta henni með styrkingu á rekstrargrunni á móti. Þá virðist sú fjármögnun nýrra hjúkrunarrýma vera vanreiknuð. Skemmst er að minnast þess að málefnasviðið sem lýtur að hjúkrunarrýmum og endurhæfingu fékk beinlínis lækkun í fjárlögum þessa árs.
    Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem gildir til ársins 2023 og liggur til grundvallar fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019, er gert ráð fyrir frekari niðurskurði fjárframlaga til stofnana innan SFV. Þannig er áfram gert ráð fyrir 0,5% niðurskurði á öllum málefnasviðum aðildarfélaga Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu árin 2020 og 2021. Hjá sumum aðilum er gert ráð fyrir enn frekari niðurskurði en það, jafnvel um 2% á ári, samkvæmt framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019.
    Öryrkjar og eldri borgarar þurfa því að bíða enn eitt árið eftir réttlæti og nauðsynlegum kjarabótum.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til aldraðra verði aukin um 4.000 millj. kr. sem er tvöfalt hærri upphæð en ríkisstjórnarflokkarnir ætla að setja til eldri borgara vegna fjölgunar þeirra.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til öryrkja (málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks) verði aukin um 4.000 millj. kr. en með því eru meira en tvöfaldaðir þeir fjármunir sem ríkisstjórnarflokkarnir setja í málaflokkinn umfram hækkun vegna fjölgunar í hópnum.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til hjúkrunarheimila (málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta) verði hækkuð um 1.000 millj. kr.

Aukin skerðing barnabóta.
    Það er þjóðarskömm hversu mörg börn búa við óviðunandi aðstæður á Íslandi en talið er að allt að 6.000 börn líði skort í okkar ríka samfélagi. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og auka húsnæðisstuðning. Þrátt fyrir það hefur barnabótakerfið fengið að grotna niður undanfarin ár sem er afskaplega miður í ljósi þess að barnabætur eru mjög góð leið til að aðstoða ungar fjölskyldur í landinu.
    Það sem virðist jákvætt er að ríkisstjórnarflokkarnir eru loksins sammála Samfylkingunni um að barnabætur eigi ekki að skerðast við upphæð sem er langt undir lágmarkslaunum. Hins vegar eru einungis nokkrir mánuðir síðan ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögu frá Samfylkingunni um breytingu þar á. Á móti virðist sem skerðingar aukist hjá millitekjuhópum en að mati 1. minni hluta er barnabótakerfið enn fjársvelt enda hefur ¼ hluti dottið úr því kerfi undanfarin ár vegna skerðinga. Barnabætur hafa á liðnum árum rýrnað mikið að raunvirði. Eftir hækkunina nú eru útgjöld til barnabóta svipuð að raunvirði og á árinu 2013 en um 8% lægri en árið 2010.
    Nú byrja barnabætur að skerðast við upphæð sem er undir lægstu launum en með breytingunum hefst tekjuskerðing barnabóta við 300.000 kr. mánaðartekjur foreldris í stað 241.000 kr. Nýtt þrep skerðinga verður til þess að skerðingar aukast fari tekjur foreldris umfram 458.000 kr. á mánuði. Í því samhengi má nefna að neðri fjórðungsmörk heildarlauna voru 496.000 kr. á mánuði á árinu 2017 eins og ASÍ bendir á.
    Barnabætur hjóna verða að fullu skertar við mánaðartekjur sem nema um 625.000 kr. á hvort foreldri (samanlagðar tekjur hjóna 1,2 millj. kr.). Miðgildi heildarlauna nam á árinu 2017 um 618.000 kr. sem þýðir að hjón sem hafa tekjur í kringum miðgildi fá engar barnabætur. Hefðu tekjuskerðingarreglur verið óbreyttar hefðu bætur orðið fullskertar við mánaðartekjur sem næmu um 667.000 kr. á hvort foreldri og við um 1,4 millj. kr. mánaðartekjur hjá einstæðum foreldrum.
    Þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar á barnabótum staðfestir BHM að enn eru barnabætur ekkert annað en fátækrastyrkur. Í ljósi þess að mikið hefur dregið úr útgjöldum til barnabóta á síðustu árum ætti að vera nægt svigrúm til að hækka grunnfjárhæðir án þess að hækka skerðingarprósentur á móti.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að barnabætur (málefnasvið 29 Fjölskyldumál) verði auknar um 2 milljarða kr. sem er tvöföldun miðað við það sem ríkisstjórnarflokkarnir tíma að bæta í kerfið.

Húsnæðismálin á hakanum.
    Þrátt fyrir ummæli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins um að húsnæðismálin séu lykillinn að samkomulagi í komandi kjarasamningum helst heildarfjárhæð vegna húsnæðisstuðnings nánast óbreytt milli ára. Árið 2019 verða vaxtabætur einungis 3,4 milljarðar kr. sem er minna en til stóð að hafa þær árið 2018 þegar þær áttu að nema 4 milljörðum kr. (en verða einungis 3 milljarðar kr. í ár vegna skerðinga). Lækkunin nemur 15% milli ára.
    1. minni hluti minnir á að helmingur er dottinn úr vaxtabótakerfinu en þegar Samfylkingin var síðast í ríkisstjórn setti hún 100 milljarða kr. í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu sem er mun hærri fjárhæð en það sem sitjandi ríkisstjórn setur í málaflokkinn.
    Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um ríflega 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkaði um tæplega 19.000 milli áranna 2013 og 2017.
    Þá hafa bótafjárhæðir (hámarksbætur) verið óbreyttar frá árinu 2010 en gert er ráð fyrir 5% hækkun þeirra samkvæmt frumvarpinu. Til samanburðar má nefna að verðlag hefur frá árinu 2010 hækkað um 25% og launavísitala um ríflega 76%. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu (20%) fær nú lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.
    Á leigumarkaði búa um 50 þúsund manns og af þeim eru tekjulágir og ungt fólk í meiri hluta og verja leigjendur að jafnaði 18,7% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað á meðan eigendur verja 6,1%. Leigjendur eru því síður í aðstöðu til að kaupa fasteign og sitja fastir í fátæktargildru á óstöðugum leigumarkaði.
    Gert er ráð fyrir 64 millj. kr. lækkun á framlögum til húsnæðisbóta til leigjenda. Af því má ætla að ekki standi til að hækka bótafjárhæðir til samræmis við hækkandi verðlag og leigu og þar með verði dregið úr stuðningi við leigjendur, sem eru sá hópur sem stendur hvað verst að vígi á húsnæðismarkaði. BSRB leggur t.d. á það áherslu að húsnæðisstuðningur verði jafnaður óháð búsetuformi þannig að leigjendur fái sambærilegan stuðning í formi húsnæðisbóta og eigendur fá í formi vaxtabóta.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur áherslu á að einnig þurfi að auka stuðning þegar kemur að framboði á húsnæði. Íslensk stjórnvöld þurfa að koma að uppbyggingu á a.m.k. 5.000 leiguíbúðum á næstu árum til að koma fótunum undir leigumarkað sem er rekinn án hagnaðarsjónarmiða.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að vaxtabætur (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur) verði auknar um 2 milljarða kr.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að stofnframlög til almennra íbúða (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur) verði aukin um 2 milljarða kr.

Fæðingarorlof.
    1. minni hluti vekur athygli á nauðsyn þess að lengja fæðingarorlof og hækka tekjuþakið svo að markmiðinu um aukið jafnrétti á vinnumarkaði verði mætt með betri hætti. Einnig þarf að huga sérstaklega að hækkun svokallaðs fæðingarstyrks gagnvart þeim foreldrum sem eru í námi eða utan vinnumarkaðarins.
    Þá er ekki gert ráð fyrir fjármunum til að mæta tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem lagði til að tekjur að 300.000 kr. yrðu ekki skertar og að fæðingarorlof yrði lengt í 12 mánuði í áföngum. Jafnframt er vert að benda á að þrátt fyrir hækkun á hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í 600.000 kr. verður kaupmáttur hámarksgreiðslunnar enn um þriðjungi lægri en á árinu 2007.
    Umönnunarbilið, tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði, hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði eru það að meginstefnu mæður sem axla ábyrgð á umönnun barna sinna á þessu tímabili og því má áætla að þær séu að meðaltali fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna en feður.

Háskólarnir sviknir aftur og framhaldsskólar fá lækkun.
    Við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum á næstu áratugum þar sem allt bendir til þess að atvinnulíf muni taka stakkaskiptum. Með aukinni sjálfvirknivæðingu og gervigreind hverfa mörg störf, önnur lifa og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika.
    Þegar litið er til menntamála í fjárlagafrumvarpinu er vandséð að hafin sé stórsókn í þeim málaflokki eins og ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu.
    Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar fjárlagafrumvarpið í núverandi mynd eins og segir í umsögn þess. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til háskóla hækki um 1,6% umfram launa- og verðlagsbreytingar. Á sama tíma er beinlínis gert ráð fyrir að framlög til framhalds- og vinnumarkaðsfræðslu fari lækkandi milli ára. Í því samhengi er vert að nefna að samkvæmt gögnum Hagstofunnar eru um 40 þúsund manns á vinnumarkaði sem hafa eingöngu grunnmenntun.
    Háskólarnir fá enn helmingi minna fé en lofað var í stjórnarsáttmálanum samkvæmt fjármálaáætlun og framhaldsskólarnir fá meira að segja lækkun milli ára. 1. minni hluti fjárlaganefndar spyr eins og aðrir: Hvar er stórsóknin í menntamálum? Þeir fjármunir sem spöruðust við styttingu framhaldsskólans virðast ekki einu sinni halda.
    BHM segir í umsögn sinni að markmið ríkisstjórnarinnar um fjármögnun háskólastigsins séu „orðin tóm“.
    Stefnt er að því í stjórnarsáttmála að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og meðaltali Norðurlanda árið 2025. Ef takast ætti að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um 3–3,5 milljarða kr. til háskólastigsins á næstu árum. Til þess að ná meðaltali Norðurlanda þyrfti háskólastigið að fá um það bil 11 milljarða kr. aukningu. Raunhækkun háskólastigsins fyrir árið 2019 er um 705 millj. kr. (1,6%) og fjármálaáætlun 2019–2023 gerir ráð fyrir um 2,7 milljarða kr. viðbót næstu fimm árin til háskólastigsins í heild sinni.
    Það liggur því í augum uppi að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að standa við þau loforð að háskólar á Íslandi nái meðaltali OECD-ríkjanna eða Norðurlanda á tímabilinu.
    Í umsögn stúdentaráðs Háskóla Íslands segir: „Á Norðurlöndunum eru heildartekjur háskóla á ársnema að meðaltali 4,4 millj. kr. á ári en á Íslandi eru þær aðeins 2,6 millj. kr. Nemendur á Íslandi fá því um 1,8 millj. kr. minna. Í fjárlögunum er raunhækkun Háskóla Íslands um 200 millj. kr. Launa- og verðlagsbætur eru stór hluti af þessari hækkun en fjöldi ársnema sem greitt er fyrir stendur nánast í stað í frumvarpi til fjárlaga 2019. Nemendur fá 70% meira í Svíþjóð. Nemendur fá 42% meira í Finnlandi. Nemendur fá 85% meira í Danmörku. Nemendur fá 81% meira í Noregi.“
    Kennarasamband Íslands ítrekar þá afstöðu sína að framhaldsskólastigið sé enn ekki búið að jafna sig á langvarandi og alvarlegu fjársvelti. Sú viðbót sem kemur til skólastigsins er ekki nægileg til að bregðast við þeim vanda. Þá kemur skýrt fram að fjárlagafrumvarpið ber ekki þess merki að hér sé á ferðinni stórsókn í menntamálum eins og ríkisstjórnarflokkarnir þreytast seint á að tala um.
    Þá er afar brýn nauðsyn að huga sérstaklega að eflingu starfs- og iðnnáms hér á landi. Það nægir ekki einungis að ræða slíkt heldur þarf að leggjast í beinar aðgerðir og jafnvel hugarfarsbreytingu gagnvart slíku námi.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að framlög til framhaldsskólastigsins verði aukin um 400 millj. kr.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til háskólastigsins verði aukin um 1.000 millj. kr.

Heilbrigðismál.
    1. minni hluti telur mikla þörf á að styðja vel við alhliða uppbyggingu á hinu opinbera heilbrigðiskerfi sem þarf sárlega á því að halda eftir hrunið sem lék samfélagið grátt. Þá vill 1. minni hluti huga sérstaklega að mönnun og álagi starfsfólks innan heilbrigðiskerfisins.
    Langstærstan hluta aukins fjár til heilbrigðismála að frátöldum launa- og verðlagshækkunum má rekja til framkvæmda við nýjan Landspítala eða um 60% af upphæðinni.
    Halli LSH í ár stefnir í 1,8 milljarða kr. að mati forsvarsmanna LSH.
    Þegar litið er til rekstrarframlaga ríkisins sést að sjúkrahúsþjónustan fær einungis 2,5 milljarða kr. hækkun vegna hækkandi aldurs og íbúafjölgunar sem er meira en helmingi minna en það sem Landspítalinn sagði að hann þyrfti að lágmarki fyrir næsta ár sem voru 5,4 milljarðar kr. Enn vantar um 3 milljarða kr. fyrir næsta ár til að mæta þeirri þörf sem LSH hefur metið í samræmi við markmið stjórnvalda í málaflokknum.
    Í þessu sambandi leyfir 1. minni hluti sér að rifja upp að Landspítalinn taldi að vantaði 87 milljarða kr. næstu fimm ár miðað við fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Þegar vantar 87 milljarða kr. er ekki hægt að tala um stórsókn eða björgun heilbrigðiskerfisins.
    Heilbrigðisstofnun Suðurnesja telur að fjárveitingar þurfi að aukast um 280 millj. kr. til að mæta þörf og ef einungis á að tryggja óbreytta starfsemi er fjárþörfin 219 millj. kr. Þá vantar um 280 millj. kr. á árinu 2019 vegna mönnunar lögbundinnar grunnþjónustu í heilsugæslu og sjúkrarýmum á Suðurlandi og 130 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Svipaða sögu má segja af Heilbrigðisstofnunum Vesturlands, Norðurlands og Austurlands en í sameiginlegri yfirlýsingu allra þessara stofnana er sagt að annað árið í röð virðist aukningar til heilbrigðisþjónustu fara fram hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Er það skoðun þessara stofnana að rekstur þeirra þurfi að lágmarki 800 millj. kr. til viðbótar einungis til að þær geti sinnt grunnþjónustu.
    1. minni hluti fjárlaganefndar tekur undir umsögn Eyþings um að mikilvægt sé að sérfræðiþjónusta lækna einskorðist ekki við höfuðborgarsvæðið og einnig er brýn nauðsyn að styrkja þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 400 millj. kr. framlagi til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Útfærsla á því liggur ekki fyrir en almennir notendur greiða nú að hámarki ríflega 71.000 kr. á ári fyrir heilbrigðisþjónustu sem fellur undir kerfið, sem er umtalsvert meira en það 50.000 kr. hámark sem fyrirheit voru gefin um við afgreiðslu breytinga á greiðsluþátttökukerfinu á Alþingi vorið 2016.
    Fjárhagsstaða margra aðildarfélaga innan SFV, svo sem hjúkrunarheimila, er nú þegar orðin alvarleg eins og segir í umsögn þeirra. Má þar nefna að árið 2018 var framlag ríkisins til meðferðarsviðs SÁÁ 278 millj. kr. lægra en árið 2009 á föstu verðlagi. Framlagið dugði ekki fyrir launakostnaði þrátt fyrir að stöðugildum á meðferðarsviði hefði fækkað um tæplega 11 talsins frá árinu 2000. Um þessar mundir greiðir ríkið einungis fyrir 1.530 innritanir á sjúkrahúsið Vog af 2.200 árlegum innritunum. Á árinu 2018 hefur biðlisti á Vog verið í kringum 580–590 manns að staðaldri.
    Til þess að SÁÁ geti sinnt vaxandi hlutverki sínu sem bráðamóttaka mjög veikra sjúklinga og unnið á sífellt lengri biðlistum þarf 165–200 millj. kr. til viðbótar í þjónustusamning um sjúkrahúsið Vog. Þá þarf sérstaklega að huga að starfsemi SÁÁ á Akureyri og var beiðni SÁÁ til fjárlaganefndar um 300 millj. kr.
    1. minni hluti lýsir miklum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála hér á landi og kallar eftir aðgerðum þar sem unnið verði gegn þunglyndi og fíknisjúkdómum.
    Svipaða sögu og um SÁÁ má segja um Krabbameinsfélagið. Fjárveitingar til félagsins hafa minnkað undanfarin ár, á sama tíma og launa- og rekstrarkostnaður hefur hækkað verulega. Virðist sem enn frekari niðurskurður verði á fjárframlögum til Krabbameinsfélagsins árið 2019.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu, sem gagnast fyrst og fremst Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri, verði aukin um 2 milljarða kr.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til almennrar sjúkrahúsaþjónustu, sem gagnast m.a. heilbrigðisstofnunum úti á landi, verði hækkuð um 800 millj. kr.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til SÁÁ (málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta) verði hækkuð um 150 millj. kr.

Vanfjármögnuð samgönguáætlun.
    Löggæslan virðist fá litla hækkun umfram það sem fellur til vegna landamæravörslu, fjölgunar ferðamanna og þyrlukaupa. Þá er 138 millj. kr. aðhaldskrafa gerð til löggæslunnar.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til löggæslu (málefnasvið 09 Almanna- og réttaröryggi) verði aukin um 800 millj. kr. þannig að m.a. verði hægt að ráðast í nauðsynlega fjölgun lögreglumanna.
    Mikið ákall er víðs vegar í samfélaginu eftir uppbyggingu innviða og þjónustu við landsmenn og mikilvægt að svara því kalli. Þá er mikilvægt að fjárfesta meira í mikilvægum innviðum eins og til að mynda bættum samgöngumannvirkjum og sterkara raforkuflutningskerfi, enda er þá ekki síður verið að greiða niður skuldir, en á síðustu árum hefur orðið mikil skuldasöfnun í innviðum landsins.
    Augljóst er að þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna og fjarskipta nægja engan veginn til að mæta þeirri þörf sem fyrir er í landinu. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa lýst áhyggjum af ástandi vegakerfisins sem er orðið mjög bágborið. Þar kemur til að ekki hefur verið veitt nægt fé í viðhald og nýframkvæmdir og sömuleiðis álag vegna fjölgunar ferðamanna, einkum á ákveðnum svæðum landsins. Fjárfestingar í innviðum snúast um aukið öryggi og aukin lífsgæði, auk þess sem þær styðja við loftslagsmarkmið Íslands. Bættar samgöngur skila sér á ýmsan hátt til íbúa landsins. Betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnuvegina og búsetuskilyrðin og stuðla að uppbyggingu og bættri líðan fólks á landsvæðum þar sem samgöngur eru svo slæmar að ástandið bitnar á lífsgæðum íbúa. Eitt af meginskilyrðunum fyrir búsetu um allt land er að fjarskipti séu í góðu lagi alls staðar. Því þarf að styrkja þá áætlun sem fyrir er í fjarskiptamálum og flýta því að kerfið virki á öllu landinu. Að sama skapi er mikilvægt að byggja upp varaflugvelli Keflavíkurflugvallar, á Egilsstöðum og á Akureyri, stækka flughlöð þeirra og fjölga flugstæðum til að þeir geti raunverulega virkað sem varaflugvellir.
    Samgönguáætlun er enn vanfjármögnuð og ekki verður séð að í henni sé gert ráð fyrir fjármagni til undirbúnings eða nauðsynlegra framkvæmda sem lúta að eflingu almenningssamgangna og uppbyggingar hágæðaalmenningssamgöngukerfis. Sú framkvæmd, sem m.a. og ekki síst felur í sér að skapa sérrými fyrir akstur almenningsvagna, er forsenda þess að markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins um hagkvæma uppbyggingu og hlutfallslega minnkun umferðar nái fram að ganga. Það er því ljóst að gera verður ráð fyrir fjármagni til að mæta hlutdeild ríkisins í ofangreindum samstarfsverkefnum vegna samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst uppbyggingu borgarlínu. Þá ber að hafa í huga að uppbygging borgarlínu er ekki einungis samgöngumál heldur einnig risavaxið umhverfismál. Ætli ríkisstjórnin sér ekki að leggja til fjármagn til uppbyggingar almenningssamgangna er ljóst að leggja verður strax fram áætlun um það hvernig stjórnvöld ætla að fjármagna kaup á kvóta vegna losunar koltvíoxíðs þar sem við stöndum ekki við skuldbindingar okkar þess efnis. Engin merki sjást um slíka áætlun í fjármálaáætlun.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til samgangna (málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál) verði aukin um 2.000 millj. kr.

Aðrir þættir frumvarpsins.
    Í umsögn Viðskiptaráðs segir: „Nokkuð holur hljómur virðist vera í örvun nýsköpunar þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir samdrætti útgjalda til málaflokksins á meðan engar sérstakar skattalegar aðgerðir virðast miða að því að örva rannsóknir og þróun til að auka verðmætasköpun í framtíðinni.“ Þá er bent á að það veki nokkra furðu að áætlað er að fjárframlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina dragist saman um 2,6% eða 377 millj. kr. milli ára og um 9% ef frá eru talin aukin framlög um 848 millj. kr. í rammaáætlanir ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun.
    Útfærsla á aðgerðum í umhverfismálum er jákvæð en þó ber að minna á að þeir fjármunir sem eiga að renna í þær virðast vera fjármunir sem ákveðið var á síðasta þingi að verja í málaflokkinn. Hækkun kolefnisgjalds er enn lægri en til stóð að ráðast í áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum.
    Einnig þarf sérstaklega að gæta að auknum verkefnum opinberra aðila vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar.
    1. minni hluti gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi íslenskrar menningar og vill sérstaklega huga að stöðu leikins sjónvarpsefnis. Hver króna, sem varið er í slík verkefni, skilar sér margfalt til baka.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til sjónvarpssjóðs (leikið sjónvarpsefni) sem heyrir undir Kvikmyndamiðstöð Íslands verði aukin um 300 millj. kr. (málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál).
    Framlög til þróunarsamvinnu eru enn einungis helmingur af því sem sum nágrannaríkja Íslands verja til þessa mikilvæga málaflokks. Skemmst er að minnast þess að Ísland er 11. ríkasta land í heimi. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur meira að segja til niðurskurð frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í haust.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögu um 400 millj. kr. aukningu til þróunarmála sem skuli renna í neyðarhjálp UNICEF fyrir börn í Jemen.

Breytingartillögur 1. minni hluta.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur til nokkrar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið en þær eru að fullu leyti fjármagnaðar.
     1.      Framlög til aldraðra (málefnasvið 28 Málefni aldraðra) aukist um 4 milljarða kr.
     2.      Framlög til öryrkja (málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks) aukist um 4 milljarða kr.
     3.      Stofnframlög til almennra íbúða (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur) aukist um 2 milljarða kr.
     4.      Barnabætur (málefnasvið 29 Fjölskyldusvið) aukist um 2 milljarða kr.
     5.      Vaxtabætur (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur) aukist um 2 milljarða kr.
     6.      Framlög til háskóla (málefnasvið 21 Háskólastig) aukist um 1 milljarð kr.
     7.      Framlög til framhaldsskóla (málefnasvið 20 Framhaldsskólastig) aukist um 400 millj. kr.
     8.      Sjónvarpssjóður sem heyrir undir Kvikmyndamiðstöð Íslands (málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál) verði aukinn um 300 millj. kr.
     9.      Framlög til samgangna (málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál) aukist um 2 milljarða kr.
     10.      Framlög til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri (málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta) aukist um 2 milljarða kr.
     11.      Framlög til heilbrigðisþjónustu úti á landi með almenna sjúkrahúsþjónustu (málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta) aukist um 800 millj. kr.
     12.      Framlög til hjúkrunarheimila (málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta) aukist um 1.000 millj. kr.
     13.      Framlög til SÁÁ (málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta) aukist um 150 millj. kr.
     14.      Framlög til þróunarsamvinnu (málefnasvið 4 Utanríkismál) aukist um 400 millj. kr. og sú aukning renni til neyðarhjálpar UNICEF fyrir börn í Jemen.
     15.      Framlög til löggæslu (málefnasvið 09 Almanna- og réttaröryggi) aukist um 800 millj. kr.
     16.      Gistináttagjald renni til sveitarfélaga en það nemur um 1.300 millj. kr.
     17.      Sykurskattur (vörugjöld á sykur og sætuefni) verði lagður á en það mun færa ríkissjóði um 1.000 millj. kr.
    Séu viðbótarútgjöld af tillögum 1. minni hluta fjárlaganefndar dregin saman eru heildaráhrifin á ríkissjóð rúmir 24 milljarðar kr. sem hægt er að fjármagna með betri nýtingu tekjustofna ríkisins og annarri forgangsröðun í skattamálum.
    Hins vegar er augljóst að 1. minni hluti er hér með ekki að leggja fram fullmótað fjárlagafrumvarp eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert. Þess vegna vill 1. minni hluti fjárlaganefndar leggja áherslu á að hefði Samfylkingin verið í ríkisstjórn hefði fjármögnun annarra og fleiri verkefna komið til greina. Þá hefði tekjugrunnur ríkisins verið styrktur samhliða slíkri útgjaldaaukningu.

Vannýtt tekjuúrræði.
    Í fjárlagafrumvarpinu eru enn vannýtt tekjuúrræði, svo sem hækkun fjármagnstekjuskatts, álagning auðlegðarskatts, auknar tekjur af erlendum ferðamönnum og aukin auðlindagjöld. Yfirlit yfir þessi tekjuúrræði má finna hér á eftir.
    Í skýrslu hagdeildar ASÍ frá árinu 2013 um lífskjör á Norðurlöndum var m.a. bent á að skattar á hæstu tekjur séu lægstir á Íslandi af Norðurlöndunum. Einnig er vert að gagnrýna að við endurskoðun á skattkerfinu sé ekki horft til skatta á arðgreiðslur og aðrar fjármagnstekjur og auðlegð í samhengi við skattlagningu launatekna. Aðhald er ekki einungis hugsanlegur samdráttur í gjöldum ríkisins heldur getur aukið aðhald einnig verið fólgið í betri nýtingu tekjuúrræða.
    Veiðileyfagjald næsta árs stefnir í að verða einungis 7 milljarðar kr. Í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar átti veiðileyfagjaldið að nema um 10 milljörðum kr. fyrir árið 2018. Því er um að ræða 3 milljarða kr. lækkun veiðileyfagjalda milli ára. Áfram verða veiðileyfagjöld minna en 1% af tekjum ríkisins, sem verður að teljast mjög sérstakt í ljósi þess að um er að ræða eina helstu sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Til samanburðar er tóbaksgjaldið svipað og fyrirhugað veiðileyfagjald, eða um 6 milljarðar kr.
    Einnig er áhugavert að hafa í huga að í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar um veiðigjald er fjallað um að veiðileyfagjald eigi m.a. að mæta kostnaði ríkisins vegna sjávarútvegsins, svo sem vegna rannsókna, stjórnunar og eftirlits. Sá kostnaður ríkisins sem verður vegna greinarinnar er um 5 milljarðar. Eftir standa 2 milljarðar kr. sem eru nettógjaldið sem rennur til eiganda auðlindarinnar. Sú upphæð er einungis tvöfalt hærri en það sem ríkisvaldið fær vegna umferðarsekta.
    Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 340 milljarða kr. á sjö árum (2009–2016). Slík upphæð er hærri en það sem allt heilbrigðiskerfið kostar (240 milljarðar kr.) og er um þriðjungur af ríkisútgjöldum eins árs. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var 55 milljarðar kr. árið 2016 og nam hagnaður eins fyrirtækis (Samherja) um 86 milljörðum kr. á sex árum en hluti af því er vegna starfsemi erlendis. Útborgaður arður til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja fyrir þrjú ár (2013–2015) var 40 milljarðar kr. og var arðurinn fyrir sex ár (2010–2016) 66 milljarðar kr. Heildareignir sjávarútvegsins voru um 620 milljarðar kr. 2017 og hefur bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja aukist um 300 milljarða kr. frá hruni.
    Takmarkað framboð auðlinda getur gert eigendum þeirra kleift að njóta arðsemi sem er umfram það sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum með sambærilega áhættu. Hagræn renta er skilgreind sem greiðslur til framleiðsluþátta, svo sem fjármagns og vinnuafls, umfram fórnarkostnað. Umframarðsemi er oft nefnd auðlindarenta (e. resource rent).
    Þrátt fyrir að Ísland sé í 180. sæti meðal þjóða heims að því er snertir fólksfjölda er Ísland 19. mesta sjávarútvegsþjóð í heimi. Auðvitað skiptir miklu máli að sjávarútvegur búi við stöðugt og gott rekstrarumhverfi en hins vegar er alveg ljóst að greinin ætti að greiða meira til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlind sem þjóðin á.
    Á sama tíma og berast fréttir af miklum hagnaði og arðgreiðslum til fáeinna stórútgerðarmanna vill ríkisstjórnin lækka veiðileyfagjöldin. Það er ljóst að stórútgerðarmenn þurfa ekki að fara í mikla kjaradeilu við þessa ríkisstjórn eins og ljósmæður þurftu að gera og mörg verkalýðsfélög munu gera á næstunni.
    Fjármagnstekjuskattur skilar 2 milljörðum kr. minna í ríkiskassann á næsta ári en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Sem dæmi um hvað fjármagnstekjuskatturinn á vel við þá sem hæstar tekjur hafa má nefna að einungis 2% fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. 98% greiddu þennan hluta ekki enda tekur frítekjumark til minni viðskipta.
    Þá stendur enn til að lækka bankaskattinn um 7 milljarða kr. á næstu árum sem verður að teljast sérkennileg forgangsröðun.
    Mjög mikilvægt er að koma sér saman um auknar tekjur af erlendum ferðamönnum en fjölmargar hugmyndir hafa heyrst af slíku í áranna rás. Þótt blikur séu á lofti í ferðaþjónustu er greinin samt enn stærsta atvinnugrein landsins þegar litið er til hlutfalls af landsframleiðslu og þótt vöxtur greinarinnar minnki er hún stór og aflögufær. Hins vegar þarf að taka af skarið með gjaldtöku enda þarf greinin aðlögunartíma ef gjaldtaka verður aukin.
    Undanfarin ár hafa verið ár glataðra tækifæra þegar kemur að auknum tekjum af erlendum ferðamönnum. 1. minni hluti minnir á að erlendir ferðamenn nýta sér sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, rétt eins og sjávarútvegs- og orkufyrirtækin gera, og eru það fyrst og fremst náttúra landsins og menning þess.
    Hins vegar er lækkun tryggingargjalds jákvæð enda löngu tímabær og skiptir máli fyrir ýmis fyrirtæki, ekki síst á sviði nýsköpunar.
    Þá er jákvætt að áherslan hefur færst frá flatri tekjuskattslækkun yfir í að hækka persónuafsláttinn, en betur má ef duga skal. Breytingar á persónuafslætti, sem færir launþegum einungis um 540 kr. á mánuði í hærri persónuafslátt umfram lögbundna vísitöluhækkun, og breytt viðmið skattþrepa kostar um 1,7 milljarða kr. Það er einungis um helmingur þeirrar upphæðar sem ríkisstjórnin vill lækka veiðileyfagjöld um. Hafa ber í huga að persónuafsláttur væri 78.000 kr. á mánuði hefði hann þróast í takt við launaþróun undanfarinna ára.
    Þá vekur 1. minni hluti athygli á því að skattafsláttur í formi samnýtingar skattþrepa, sem í raun vinnur gegn jafnrétti, kostar um 2,7 milljarð kr. Um 93% af endurgreiðslunni nýtast til hækkunar ráðstöfunartekna karla og hvetur samnýtingin til minni atvinnuþátttöku tekjulægri maka í samsköttun sem oftast eru konur. Þá er samnýting algengust meðal tekjuhæstu sambúðaraðila og leggur því 1. minni hluti til að þessari samnýtingu verði hætt.
    1. minni hluti fjárlaganefndar tekur undir þær kröfur að sveitarfélögin fái auknar tekjur af ferðaþjónustu og hefur í því sambandi einkum verið horft til gistináttaskatts sem er um 1,3 milljarðar kr. Í stjórnarsáttmála kemur fram að tekjur af gistináttaskatti skuli færast yfir til sveitarfélaga og það verði gert í tengslum við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga, án þess að því sé nánar lýst. Í fjárlagafrumvarpi 2018 var hins vegar nokkuð dregið í land og talað um að flutningur gistináttaskatts yrði skoðaður. Nú bregður svo við að ekki er minnst einu orði á þessi áform. Rétt er að hafa samráð við sveitarfélög um hvernig þessum fjármunum verði skipt.
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur til að gistináttaskattur renni til sveitarfélaganna.
    Hinn 1. mars 2013 voru vörugjöld á sykur og sætuefni hækkuð umtalsvert og almennt nefnd sykurskattur. Tilgangurinn var að draga úr neyslu á sætindum og um leið að afla ríkinu aukinna tekna. Sykurskatturinn var afnuminn 1. janúar 2015 og var því aðeins í gildi í 21 mánuð. 1. minni hluti fjárlaganefndar telur að vegna lýðheilsusjónarmiða eigi að taka aftur upp sykurskatt, enda er ein af meginreglum hagfræðinnar sú að fjárhagslegir hvatar hafi áhrif á hegðun neytenda. Minnt er á að sykurskatturinn þarf að vera talsverður eigi hann að hafa teljandi áhrif á neytendahegðun. Þegar sykurskattur var síðast lagður á átti hann að færa ríkissjóði um 800 millj. kr. Áður en sykurskatturinn var hækkaður í mars 2013 var innheimt töluvert lægra magngjald af mörgum flokkum sætra vara. Sykur bar sem dæmi 60 kr. vörugjöld á hvert kíló (XA). Tók tollheimta margra annarra vara mið af því gjaldi þannig að vörugjald var oft í samræmi við algengt sykurinnihald viðkomandi vöruflokks. Auk þess að hækka innheimt magngjald upp í 210 kr./kg hreins sykurs og nota algengt hlutfall sykurs af þyngd vöruflokks í samræmi við það var innflytjendum að auki heimilað að greiða eingöngu sykurskatt af vottuðu innihaldi sætuefnis vörunnar (X1 eða X2).
    1. minni hluti fjárlaganefndar leggur til að sérstakur sykurskattur í formi vörugjalda á sykur og sætuefni verði lagður á og nemi 1.000 millj. kr., en fari hækkandi næstu ár. Þessar skatttekjur skulu renna til forvarna og meðferðarúrræða fyrir ungmenni í vanda.
    Hugsanlegar nýjar tekjur ríkisins miðað við fjárlagafrumvarpið eru þessar:
     1.      Aukin auðlindagjöld.
     2.      Hækkun fjármagnstekjuskatts.
     3.      Hækkun kolefnisgjalds.
     4.      Tekjutengdur auðlegðarskattur.
     5.      Auknar tekjur af erlendum ferðamönnum.
     6.      Sykurskattur.
     7.      Afnám samnýtingar skattþrepa.
     8.      Hert skatteftirlit, sér í lagi vegna skattaskjóla.
    Sé einungis litið til fyrrgreindra hugmynda um auknar tekjur ríkisins væri hægt að auka ríkistekjur um 26 milljarða kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þannig væri hægt að fjármagna nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins.
    Tillögur og hugmyndir 1. minni hluta gera því einnig ráð fyrir meiri afgangi í fjárlögum næsta árs en ríkisstjórnarflokkarnir gera.
    Til lengri tíma væri einnig hægt að huga að auknum arðgreiðslum úr bönkunum til að mæta einskiptisaðgerðum stjórnvalda og falla frá lækkun bankaskatts en sú fyrirhugaða aðgerð ríkisstjórnarinnar kostar rúma 7 milljarða kr.
    Eignaójöfnuður er mikill á Íslandi og ljóst að fjölmargir geta lagt meira af mörkum til sameiginlegrar uppbyggingar innviða í landinu. Er hægt að líta bæði til hærri fjármagnstekjuskatts og innleiðingar tekjutengds auðlegðarskatts í þeim efnum.
    1. minni hluti fjárlaganefndar vill einnig árétta að afar mikilvægt er að arðurinn af auðlindum landsins nýtist til að bæta lífskjör landsmanna og standa undir fjármögnun öflugs velferðarkerfis. Þar þarf að horfa sérstaklega til þess að ríkið innheimti sanngjarna auðlindarentu í sjávarútvegi og orkuvinnslu og innheimti tekjur af ferðamönnum, bæði til þess að standa undir uppbyggingu við ferðamannastaði og öðrum kostnaði vegna komu þeirra, svo sem í heilbrigðiskerfinu, við löggæslu og björgunarstörf og viðhaldi vega.
    Til að tryggja sanngjarnan arð af auðlindunum verður t.d. að horfa til aukins arðs af fiskveiðiauðlindinni, til álagningar nýrra raforku- eða umhverfisskatta og sömuleiðis að auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Arðurinn ætti að ganga til sveitarfélaga, í sóknaráætlanir og til heilbrigðiskerfisins og annarrar innviðauppbyggingar sem nýtist landsmönnum öllum.

Hópar skildir eftir og sviknir.
    Barnafólk, milli- og lágtekjufólk, sjúklingar, aldraðir og öryrkjar og í raun þorri almennings er illa svikinn af þessu fjárlagafrumvarpi. Þá eru tekjumöguleikar hins opinbera illa nýttir og bitnar það á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Fjárlagafrumvarpið svarar engan veginn kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir rúmi ári í kosningunum og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 14. nóvember 2018.

Ágúst Ólafur Ágústsson.