Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 472  —  4. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum (verðlagsuppfærsla).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hlyn Hallgrímsson, Steinar Örn Steinarsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Matthildi Magnúsdóttur frá ríkisskattstjóra og Bergþóru Halldórsdóttur og Ásdísi Kristjánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust umsagnir og önnur erindi um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Bandalagi háskólamanna, Fjármálaeftirlitinu, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til hækkanir margvíslegra gjalda í lögum um aukatekjur ríkissjóðs í samræmi við þróun verðlags en flest þessara gjalda hafa verið óbreytt að krónutölu frá árinu 2010. Vegna þessa er hlutfallsleg hækkun töluverð en frá ársbyrjun 2010 hefur vísitala neysluverðs hækkað um nær 30% og vísitala launa um liðlega 70%. Í frumvarpinu er lagt til að nær öll gjöld í lögunum uppfærist til árslokaverðlags miðað við áætlaða vísitölu neysluverðs í desembermánuði. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að hækkunin skili samtals um 500 millj. kr. viðbótartekjum í ríkissjóð á komandi ári. Mest munar um hækkun dómsmálagjalda sem fram kemur að skili um 180 millj. kr. og hækkun gjalda fyrir ýmis vottorð og leyfi sem skila eigi 125 millj. kr.

Samræmi gjalda og kostnaðar.
    Nefndin sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrirspurn í nokkrum liðum um frumvarpið. Í svari ráðuneytisins kemur m.a. fram að ekki hafi farið fram greining á kostnaði við þjónustu og gjaldtöku vegna hennar fyrir hvert einstakt gjald í aukatekjulögunum. „Að mati ráðuneytisins hefði slík greining mjög mikinn kostnað í för með sér sem vart verður unninn upp með hækkun á umræddum gjöldum. Hins vegar kann vel að vera þörf á því varðandi tiltekin afmörkuð gjöld sem vega þungt gagnvart almenningi. Dæmi eru um að slík greining hafi farið fram, t.d. í tengslum við útgáfu vegabréfa og ökuskírteina. Ekki er fyrirhuguð almenn greining á aukatekjulögunum, a.m.k. ekki í bráð, en ekki er útilokað að sú þörf komi upp á einhverjum tímapunkti. Þar þarf hins vegar að vega saman kostnað við slíka greiningu og þann ávinning sem af hlýst.“
    Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að segja megi að rökréttara sé „að hækka/lækka hvert og eitt gjald í aukatekjulögunum um raunhækkun/lækkun kostnaðar sem að baki liggur, en uppfærsla í takt við almennar verðlagsbreytingar er hins vegar talin nægja til að viðhalda raungildi gjaldtökunnar. Á hinn bóginn væri eðlilegt að fara í gegnum lögin á einhverju árabili með það í huga að leiðrétta tilteknar gjaldskrár fyrir augljósum kostnaðarhækkunum.“
    Augljóst er að almenningur hefur notið góðs af því að gjöld sem mælt er fyrir um í lögum um aukatekjur ríkissjóðs hafa ekki hækkað undanfarin átta ár. Meiri hluti nefndarinnar bendir hins vegar á að ekki er góð aðferð að hækka gjöld á almenning fyrir veitta þjónustu opinberra aðila með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir með Samtökum atvinnulífsins sem segja í umsögn um frumvarpið að óheppilegt sé að „ráðast í slíka færibandahækkun á gjöldum með reglulegu millibili með vísan til verðlagshækkana enda felur það í sér sjálfvirka víxlverkan til lengri tíma“.
    Nauðsynlegt er að fylgt sé þeirri meginreglu við endurskoðun á gjöldum fyrir opinbera þjónustu að þau endurspegli tilkostnað viðkomandi stofnana. Þetta á jafnt við til hækkunar og lækkunar. Þannig er það réttlætismál að almenningur fái að njóta þess með beinum hætti þegar kostnaður stofnana lækkar m.a. með aukinni sjálfvirkni og rafrænni þjónustu.
    Meiri hlutinn beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að undirbúa endurskoðun laga um aukatekjur ríkissjóðs með það fyrir sjónum að miðað verði við að gjöld þjónustustofnana verði skýrt skilgreind sem gjöld fyrir veitta þjónustu en ekki skatttekjur. Jafnframt telur meiri hlutinn eðlilegt að gera þær kröfur til annarra ráðuneyta og stofnana þeirra að þau rökstyðji fjárhæðir gjalda sem innheimt eru með hliðsjón af þeim kostnaði sem til fellur í viðkomandi stofnun.

Gjöld fyrir skráningu félaga skv. 13. gr.
    Samkvæmt 3. tölul. 13. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs skal greiða 250.000 kr. fyrir skráningu erlendra félaga (útibúa) eða sömu fjárhæð og greitt er fyrir skráningu hlutafélags og samvinnufélags skv. 1. tölul. sömu greinar. Í a-lið 13. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta gjald hækki í 323.000 kr. Í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið er vakin athygli á því að kostnaður við skráningu erlendra félaga hafi áður fyrr verið mun lægri. Eftir hækkun skráningarkostnaðar hafi slíkum skráningum fækkað en ásókn í að skrá félög á utangarðsskrá aukist. Ríkisskattstjóri bendir á að skráning í utangarðsskrá feli eingöngu í sér útgáfu á kennitölu vegna bankaviðskipta og „hafa verið viss vandkvæði við eftirlit með því að kennitala sem gefin er út á slíkum forsendum sé ekki notuð við önnur umsvif hér á landi“.
    Í umsögn ríkisskattstjóra segir enn fremur: „Þá skal tekið fram að við skráningu í utangarðsskrá eru lagðar fram mun minni upplýsingar um félögin en við hefðbundna skráningu og ekki fylgir skylda til að leggja fram ársreikninga. Til grundvallar skráningu í utangarðsskrá liggur því einungis áhættumat þeirra sem biðja um skráninguna, s.s. banka og lögmanna. Ríkisskattstjóri telur að ástæða sé til heildstæðrar skoðunar á því hvaða (útibú) erlendra félaga skuli undantekningarlaust skrá hér á landi og þá hvernig ásamt því hvaða skilyrði þau þurfa að uppfylla í því sambandi, þannig að síður komi til þeirrar skörunar sem fjallað hefur verið um hér að framan.“
    Með hliðsjón af umsögn ríkisskattstjóra leggst meiri hlutinn gegn þeirri hækkun sem lögð er til í a-lið 13. gr. frumvarpsins. Á sama hátt og til að gæta samræmis er einnig lagst gegn hækkunum í b–e-lið 13. gr. frumvarpsins sem snúa að gjöldum vegna skráningar einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur, skráningar firma eins manns eða fleiri og umskráningar hluta- og einkahlutafélaga. Leggur meiri hlutinn til að a–e-liður 13. gr. frumvarpsins falli brott.
    Meiri hlutinn tekur undir með ríkisskattstjóra að nauðsynlegt sé að endurskoða hvaða erlendu félög (útibú) skuli undantekningarlaust skrá hér á landi. Meiri hlutinn telur jafnframt nauðsynlegt að við endurskoðun á lögum um aukatekjur ríkissjóðs verði sérstaklega litið til þess að lækka kostnað við stofnun og skráningu fyrirtækja óháð félagaformi og í því sambandi verði litið til skráningarkostnaðar í helstu viðskiptalöndum Íslands.

Aðrar breytingartillögur meiri hlutans.
    Meiri hlutinn leggst gegn hækkun á gjöldum fyrir útgáfu vegabréfa til annarra en um getur í 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. aukatekjulaga en í þann hóp falla einkum aldraðir og öryrkjar. Með sama hætti er lagst gegn hækkun gjalds fyrir útgáfu ökuskírteina 65 ára og eldri. Lítil efnisleg rök eru fyrir því að hækka þessi gjöld enda gengur slík hækkun gegn yfirlýstu markmiði stjórnvalda um að standa vörð um hag öryrkja og aldraðra. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á 14. gr. frumvarpsins í því skyni.
    Samkvæmt 16. gr. frumvarpsins hækka m.a. gjöld fyrir sérstaka þjónustu sem starfsmenn utanríkisþjónustunnar veita vegna millifærslu fjármuna til og frá útlöndum en gjöldin eru mishá eftir fjárhæðarbili millifærslu. Meiri hlutinn telur eðlilegt að samhliða hækkun gjaldanna hækki fjárhæðarviðmiðin og leggur til breytingu þess efnis.
    Með minnisblaði til nefndarinnar kom fjármála- og efnahagsráðuneytið á framfæri tillögu dómsmálaráðuneytisins um tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er lagt til að í stað orðsins „héraðsdómarar“ í 2. mgr. 19. gr. laganna komi „dómstólar“ þar sem héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur innheimti gjöld samkvæmt lögunum. Hins vegar er í minnisblaðinu lagt til að nýr stafliður bætist við 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna þar sem fram komi að útgáfa vegabréfa fyrir útlendinga og ferðaskilríkja fyrir flóttamenn fari skv. 2. tölul. ákvæðisins, líkt og m.a. á við um útgáfu vegabréfa öryrkja og aldraðra, þar sem lagastoð fyrir gjaldtöku fyrir slíka útgáfu virðist hafa skort. Meiri hlutinn fellst á tillögurnar og leggur til breytingar í þessa veru. Loks leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin öðlist gildi 1. janúar 2019.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      A–e-liður 13. gr. falli brott.
     2.      Við 14. gr.
                  a.      D-liður orðist svo: Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Útgáfa vegabréfa til útlendinga og ferðaskilríkja fyrir flóttamenn fer skv. 2. tölul.
                  b.      E-, f- og s-liður falli brott.
     3.      Á eftir d-lið 16. gr. komi tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
             e.    Í stað „50.000 kr.“ í a- og b-lið 5. tölul. kemur: 75.000 kr.
             f.     Í stað „200.000 kr.“ í b- og c-lið 5. tölul. kemur: 280.000 kr.
     4.      Á eftir 19. gr. komi ný grein er orðist svo:
                 Í stað orðanna „sýslumenn, héraðsdómarar“ í 2. mgr. 19. gr. laganna kemur: dómstólar, sýslumenn.
     5.      20. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Alþingi, 14. nóvember 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.