Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 559  —  261. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um losun gróðurhúsalofttegunda.


     1.      Hver var árleg losun fólksbifreiða á gróðurhúsalofttegundum á árunum 2013–2017 borið saman við losun flutningabifreiða fyrir farm og farþega?
     a.      Hvað losar meðalþung flutningabifreið af gróðurhúsalofttegundum á við margar fólksbifreiðar?
     b.      Hvað losar meðalþung fólksflutningabifreið af gróðurhúsalofttegundum á við margar fólksbifreiðar?
     c.      Hve mikið losar flutningabifreið af þyngstu gerð með þyngstu tengivagna á við sparneytna fólksbifreið?

    Umhverfisstofnun flokkar ekki bifreiðar eða tekur saman tölur um losun frá mismunandi bílategundum á því formi sem hér er spurt um og því liggja þær upplýsingar ekki fyrir í opinberu loftslagsbókhaldi Íslands.
    Meðfylgjandi tafla sýnir losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá fólksbifreiðum annars vegar og hóp- og vörubifreiðum hins vegar og byggjast þær tölur á opinberu losunarbókhaldi sem Umhverfisstofnun vinnur og skilar til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Losunarbókhaldi er skilað fyrir 1. apríl ár hvert og eru nýjustu fyrirliggjandi tölur fyrir árið 2016.
    Bent er á að á vefsíðu Orkuseturs eru ýmsar reiknivélar sem bjóða upp á samanburðarútreikninga á mismunandi tegundum bifreiða eftir ólíkum forsendum.

Losun GHL (kílótonn CO2-ígilda) 2013 2014 2015 2016
Fólksbifreiðar 594,43 554,89 580,61 615,88
Hóp- og vörubifreiðar 178,15 147,92 163,92 193,51

     2.      Telur ráðherra losun flugfara í háloftunum á gróðurhúsalofttegundum hættulegri lofthjúpnum en losun farartækja á jörðu niðri, skipa og verksmiðja? Hvaða rannsóknir sem birst hafa á ritrýndum vettvangi leggur ráðherra til grundvallar svari sínu?
    Í losunarbókhaldi Íslands er gefin upp losun frá flugi, vegaumferð, skipum, verksmiðjum o.fl. og er stuðst við leiðbeiningar milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) í því bókhaldi. Að því er snertir það hvort áhrif losunar séu mismunandi eftir því hvaðan hún kemur, þá er ekki gerður neinn slíkur greinarmunur í bókhaldinu og hefur ráðherra ekki sett fram neina skoðun á losun flugfara í samanburði við aðra losun út frá því hversu hættuleg lofthjúpnum hún kunni að vera.

     3.      Hversu mikil var losun á gróðurhúsalofttegundum á árunum 2013–2017 fyrir tilverknað flugfara í lofti, skipa á sjó, verksmiðja og iðnaðar og samgangna á landi?
    Losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum á Íslandi er skipt í þrjá flokka í samræmi við leiðbeiningar milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC): fiskiskip, strandsiglingar og alþjóðasiglingar. Til fiskiskipa teljast öll þau fiskiskip sem tóku olíu á Íslandi, óháð því hvort þau eru íslensk eða erlend. Til strandsiglinga teljast þau skip sem sigla milli tveggja hafna á Íslandi en til alþjóðasiglinga teljast þau skip sem sigla milli Íslands og annars ríkis. Umhverfisstofnun tekur ekki sérstaklega saman tölur um losun frá flutningaskipum.
    Taflan hér á eftir sýnir losun gróðurhúsalofttegunda í þeim flokkum sem spurt er um.

Losun GHL (kílótonn CO2-ígilda) 2013 2014 2015 2016
Alþjóðaflug* 502,8 564,3 679,7 924,7
Innanlandsflug 19,8 40,7 20,6 22,8
Alþjóðasiglingar* 79,1 71,5 149,8 187,0
Strandsiglingar 15,9 20,5 26,8 28,0
Fiskiskip (íslensk og erlend) 617,5 608,9 624,2 521,5
Vegasamgöngur 824,3 800,8 847,4 923,1
Iðnaður utan ETS 194,2 194,9 218,8 205,7
Iðnaður innan ETS* 1784,5 1760,3 1817,0 1781,4
* Fellur undir ETS-kerfið og er því ekki hluti af skuldbindingum á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

    Ítarlegri upplýsingar og umfjöllun um losun í einstökum flokkum er hægt að finna í skýrslu Umhverfisstofnunar um losunarbókhald Íslands, National Inventory Report 2018, sem má finna á vef stofnunarinnar.

     4.      Hver er munurinn á losun gróðurhúsalofttegunda af hálfu fiskiskipa og flutningaskipa með tilliti til magns og í ljósi þess hve mengandi losunin er?
    Umhverfisstofnun heldur ekki sérstaklega utan um tölur um losun frá flutningaskipum, en sú losun fellur ýmist undir strandsiglingar eða alþjóðasiglingar eftir því hvort viðkomandi skip siglir milli tveggja íslenskra hafna eða milli íslenskrar og erlendrar hafnar. Yfirlit yfir heildarlosun í þessum flokkum er að finna í 3. tölul. svars þessa.

     5.      Hversu mikla losun af hálfu skipa knúnum svartolíu telur ráðherra unnt að fyrirbyggja með breytingum á losunargjaldi á svartolíu þannig að ekki verði hagkvæmt að nota svartolíu? Hefur ráðherra beitt sér fyrir aðgerðum í þá átt? Ef ekki, hvers vegna?
    Kolefnisgjald er innheimt almennt af eldsneyti í hlutfalli við losun CO2 vegna bruna þess. Ekki er innheimt sérstakt losunargjald af svartolíu sem ekki er innheimt af öðru eldsneyti.
Í greinargerð Umhverfisstofnunar frá því í maí 2018 kemur fram að í raun sé ekki marktækur munur á losun koldíoxíðs eftir tegund skipaeldsneytis, þ.e. eimaðs skipaeldsneytis eða svartolíu. Kolefnisgjald eitt og sér væri því ekki vel til þess fallið að letja frá notkun svartolíu. Hins vegar gæti sérstakur skattur á innihald eða losun brennisteins eða losun sóts hvatt til notkunar annars eldsneytis en svartolíu. Unnið er nú að endurskoðun á lögum til að takmarka frekar notkun svartolíu við Íslandsstrendur. Er það í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála auk þess sem fjallað er um útfösun á svartolíu í nýútkominni aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

     6.      Hve miklu munar árlega í losun gróðurhúsalofttegunda og sóts hjá meðaltogara sem annars vegar brennir hreinni skipagasolíu og hins vegar svartolíu?
    Umhverfisstofnun reiknar ekki losun fyrir meðaltogara heldur aðeins heildarlosun frá öllum fiskiskipum sem taka eldsneyti á Íslandi og því liggja ekki fyrir tölur um mismun losunar vegna brennslu mismunandi eldsneytis hjá einstökum skipum.
    Yfirlit yfir heildarmagn eldsneytis sem selt er til fiskiskipa, skipt eftir eldsneytistegund, ásamt árlegri losun gróðurhúsalofttegunda og sóts, má finna í eftirfarandi töflu.

Fiskiskip 2013 2014 2015 2016
Magn eldsneytis (kílótonn)
Svartolía 60,10 66,04 52,45 29,00
Skipagasolía 132,93 124,43 142,52 133,61
Losun GHL (kílótonn CO2-ígilda)
Frá notkun svartolíu 189,73 208,46 165,56 91,55
Frá notkun skipagasolíu 427,78 400,42 458,63 429,95
Losun sóts (kílótonn)
Frá notkun svartolíu 0,0447 0,04913 0,039 0,0216
Frá notkun skipagasolíu 0,0618 0,0579 0,0663 0,0621

Ítarefni:
     *      Losunarbókhald Íslands, National Inventory Report 2018 (losun árið 2016): ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Loftslagsbreytingar/NIR%202018%2015%20April%20submission.pdf
     *      Almennar upplýsingar um losun á Íslandi á heimasíðu Umhverfisstofnunar: ust.is/einstaklingar/loftslagsbreytingar/losun-islands/
     *      Greinargerð Umhverfisstofnunar um bann við notkun svartolíu: www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=9bbb7021-6430-11e8-942c-005056bc530c
     *      Orkusetur. Ýmsar upplýsingar um losun frá samgöngum og fleira: www.orkusetur.is