Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 589  —  308. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um sálfræðiþjónustu og geðlæknaþjónustu.


     1.      Hvernig er samstarfi og samráði sálfræðinga og geðlækna háttað innan heilbrigðiskerfisins?
    Samstarfi og samráði sálfræðinga og geðlækna er háttað með ýmsu móti innan heilbrigðiskerfisins en hagur skjólstæðinga er alltaf hafður að leiðarljósi. Oft fer slíkt samstarf fram í þverfaglegum teymum á sjúkrahúsum eða í heilsugæslu sem starfa með formlegum eða óformlegum hætti til lengri tíma. Dæmi um slík teymi eru þverfagleg teymi á geðdeildum Landspítalans og Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Víða í heilsugæslu eru einnig starfandi samráðsteymi þar sem fulltrúar heilsugæslu, Barna- og unglingageðdeildar, félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu skóla og barnaverndar fara yfir mál þeirra skjólstæðinga sem þarfnast aðkomu geðdeildar eða eru þess eðlis að samráð er nauðsynlegt til að tryggja góða þjónustu við skjólstæðinginn. Einnig getur verið um að ræða óformlegra samráð þar sem sérfræðingar leita álits og leiðsagnar hverjir hjá öðrum svo hægt sé að veita skjólstæðingi sem besta meðferð. Sömuleiðis hafa sálfræðingar, geðlæknar og annað heilbrigðisstarfsfólk samstarf og samráð í tilvikum þar sem sameiginlegur skjólstæðingur flyst á milli þjónustustiga og tryggja þarf samfellu í þjónustu.

     2.      Hefur ráðherra undir höndum gögn eða upplýsingar sem gefa til kynna hver reynsla sjúklinga innan kerfisins er af þjónustu sálfræðinga og geðlækna?
    Að svo stöddu hefur ráðherra ekki undir höndum niðurstöður formlegra kannana á reynslu sjúklinga innan kerfisins af þjónustu sálfræðinga og geðlækna.

     3.      Hversu margir einstaklingar undir 30 ára leituðu til geðlæknis á árunum 2015–2017?
    Á árunum 2015–2017 leituðu samtals 6.299 einstaklingar undir 30 ára til geðlækna og barnageðlækna. Þannig leituðu 3.377 einstaklingar eftir þjónustu á árinu 2015, 3.453 á árinu 2016 og 3.447 á árinu 2017. Ekki er hægt að leggja saman fjölda einstaklinga milli ára því sami einstaklingur getur hafa leitað eftir þjónustu í meira en eitt ár.

     4.      Hversu margir voru á örorkubótum vegna andlegrar örorku 2016–2018?
    Í upphafi árs 2016 voru 7.108 einstaklingar með gilt 75% örorkumat þar sem fyrsti sjúkdómsgreiningarflokkur var geðraskanir. Í upphafi árs 2017 voru það 7.313 einstaklingar og í upphafi árs 2018 voru það 7.392 einstaklingar.

     5.      Hversu margir hafa nýtt sér sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum? Er biðlisti eftir þeirri þjónustu og ef svo er, hversu langur er biðlistinn?
    Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins:
    Á árinu 2017 nýttu alls 2.351 einstaklingur sér sálfræðiþjónustu og í nóvember 2018 höfðu 2.478 einstaklingar nýtt sér þá þjónustu á árinu. Biðtími hjá aldurshópnum sem er yngri en 18 ára er misjafn eftir stöðvum, oftast á bilinu 0–4 vikur, en einstaka heilsugæslustöð getur verið með allt að 8 vikna biðtíma. Biðtími hjá þeim sem eru 18 ára og eldri er þrjár til átta vikur.
    Heilbrigðisstofnun Norðurlands:
    Á árinu 2017 nýttu 481 einstaklingur sér sálfræðiþjónustu. Biðlisti er lengstur á Akureyri, ekki eru tiltækar upplýsingar um hversu langir biðlistar eru.
    Heilbrigðisstofnun Suðurnesja:
    Alls nýttu 503 einstaklingar sér sálfræðiþjónustuna árið 2017 og í lok október höfðu 597 nýtt sér þjónustuna það sem af er árinu. Í lok október voru 79 á biðlista sem skiptist þannig: Í forvarna- og meðferðarteymi barna voru 24 börn og 26 mæður að bíða eftir þjónustu. Í geðteymi fullorðinna voru 29 einstaklingar á biðlista. Bið eftir þjónustu er fimm til sjö mánuðir.
    Heilbrigðisstofnun Austurlands:
    Alls hafa um 267 manns fengið sálfræðiþjónustu, þar af einstaklingsmeðferð 169 manns og hópmeðferð 98 einstaklingar. Auk þessa hafa foreldrar 27 barna fengið hópmeðferðina Klókir krakkar. Alls 36 einstaklingar eru á biðlista í dag eftir sálfræðiþjónustu og biðtíminn er tveir til sex mánuðir.
    Heilbrigðisstofnun Vesturlands:
    Komur til sálfræðinga voru í lok september þessa árs alls 756. Ekki eru tiltækar upplýsingar um fjölda einstaklinga á bak við þessar komur. Myndast hefur biðlisti í sálfræðiþjónustu á Vesturlandi fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri. Biðlisti telur nú um 37 börn og áætlaður biðtími er um þrír til fjórir mánuðir. Alls hafa verið haldin 11 sex vikna hópmeðferðarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð fyrir fullorðna. Engin bið er eftir því að komast í þessi námskeið.
    Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: Svör bárust ekki frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    Heilbrigðisstofnun Suðurlands: Svör bárust ekki frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Rétt er að benda á að sálfræðiþjónusta í heilsugæslu hefur verið að byggjast upp í samræmi við samþykkt þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum á undanförnum árum. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um bið er þörf á að efla sálfræðiþjónustu í heilsugæslu enn frekar á komandi árum, og ráðherra mun leggja áherslu á þá eflingu þjónustunnar. Núgildandi geðheilbrigðisáætlun gildir út árið 2020 og er ljóst að við endurskoðun þeirrar áætlunar verður framboð á þjónustu sálfræðinga endurmetið í ljósi reynslunnar.