Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 659  —  319. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um atvinnutækifæri fólks með þroskahömlun.


     1.      Hefur verið kannað hversu margir vinnustaðir hafa einstaklinga með þroskahömlun í vinnu? Ef svo er, hversu margir starfsmenn unnu á þessum stöðum árið 2017?
    Hjá Vinnumálastofnun voru samtals gerðir 377 vinnusamningar öryrkja vegna einstaklinga með þroskahömlun á árinu 2017 við 153 atvinnurekendur á almennum og opinberum vinnumarkaði. Lutu þessir samningar að vinnu 342 einstaklinga en þar af starfaði þrjátíu og einn einstaklingur hjá tveimur atvinnurekendum auk þess sem tveir einstaklingar störfuðu hjá þremur atvinnurekendum á umræddu ári.

     2.      Hefur verið kannað hver miðgildislaun og fjórðungsmörk á tekjum fólks með þroskahömlun voru á árinu 2017? Ef svo er, hver voru þau?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun starfa um 88% einstaklinga með þroskahömlun, sem eru þátttakendur á vinnumarkaði á grundvelli vinnusamninga öryrkja, í hlutastörfum. Í töflu 1 er unnt að sjá neðri fjórðungsmörk, miðgildi og efri fjórðungsmörk raunlauna umræddra starfsmanna sem og miðað við að þeir hefðu verið ráðnir til að gegna 100% starfshlutfalli. Einungis var miðað við einn samning vegna hvers einstaklings. Í þeim tilvikum þegar um var að ræða fleiri en einn samning vegna sama einstaklings var miðað við nýjasta samninginn í hverju tilviki fyrir sig.

    Tafla 1.
Laun m.v. 100% starf Raunlaun
Neðri fjórðungsmörk 304.229 kr. á mánuði 136.306 kr. á mánuði
Miðgildi 323.564 kr. á mánuði 167.327 kr. á mánuði
Efri fjórðungsmörk 344.355 kr. á mánuði 243.822 kr. á mánuði
Heimild: Vinnumálastofnun.

     3.      Hefur verið kannað hvert var miðgildi starfshlutfalls og fjórðungsmörk starfshlutfalls fólks með þroskahömlun á árinu 2017? Ef svo er, hver voru þau?
    Líkt og komið hefur fram starfa um 88% einstaklinga með þroskahömlun, sem eru þátttakendur á vinnumarkaði á grundvelli vinnusamninga öryrkja, í hlutastörfum. Í töflu 2 má sjá neðri fjórðungsmörk, miðgildi og efri fjórðungsmörk hvað varðar starfshlutfall umræddra einstaklinga.

    Tafla 2.
Starfshlutfall
Neðri fjórðungsmörk 45,5% starf
Miðgildi 50,0% starf
Efri fjórðungsmörk 75,0% starf
Heimild: Vinnumálastofnun.

     4.      Liggja fyrir áætlanir um að fjölga atvinnutækifærum að hálfu hins opinbera fyrir fólk með þroskahömlun? Ef svo er, hverjar eru þær áætlanir?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur stofnunin það að markmiði að fjölga stuðningsúrræðum og starfsmöguleikum fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, þar með talið einstaklinga með þroskahömlun. Sem dæmi má nefna að stofnunin vinnur samkvæmt þeirri áætlun að fjölga vinnusamningum öryrkja um 250 samninga á árinu 2019 í því skyni að mæta aukinni þörf fyrir slíka samninga og hefur stofnunin fengið aukið fjármagn til þess að standa straum af kostnaði vegna þess. Enn fremur hefur Vinnumálastofnun sett sér það markmið að á næstu þremur árum fari hlutfall fatlaðs fólks, sem nýtur sértækrar þjónustu hjá stofnuninni og fær starf eða úrræði sem leiðir til starfs, úr 55% í 61%. Þá má nefna að Vinnumálastofnun stefnir að því að á árinu 2019 verði aukið enn frekar en nú er samstarf stofnunarinnar við menntakerfið og endurhæfingaraðila í tengslum við fjölgun tilboða um virkniúrræði fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu. Auk þess er stefnt að því að móta nýtt þjónustukerfi Vinnumálastofnunar og sveitarfélaganna í þessu sambandi en kerfinu verður meðal annars ætlað að auðvelda yfirsýn og skilvirkni vegna ýmiss konar hæfingar og iðjuúrræða.