Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 704  —  471. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað (starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka).

Flm.: Birgir Ármannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Jón Þór Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson, Inga Sæland.


1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka.

    Heimilt er að ráða starfsmenn fyrir þingflokka, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hvers árs, til þess að aðstoða þingmenn í störfum þeirra. Um þá gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að undanskildum ákvæðum 7., 21., 44. og 45. gr. Þá gilda ákvæði 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, ekki um starfsmenn þingflokka.
    Formaður þingflokks stýrir daglegum störfum starfsmanna þingflokks og skiptir með þeim verkum. Þingflokkar skulu gera skriflega starfslýsingu fyrir starfsmenn sína.
    Skrifstofustjóri Alþingis ræður starfsmenn þingflokka að fenginni tillögu þingflokks og þegar við á segir skrifstofustjóri þeim upp störfum. Um laun og önnur starfskjör starfsmanna þingflokka fer samkvæmt kjarasamningi starfsamanna Alþingis og forseta Alþingis, sbr. 3. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Skrifstofustjóri Alþingis er í fyrirsvari gagnvart starfsmönnum þingflokka þegar fjallað er um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, og starfsskilyrði samkvæmt öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningi. Skrifstofa Alþingis annast framkvæmd og umsýslu með ráðningarsamningum starfsmanna þingflokka.
    Formönnum stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, er heimilt að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf. Um kjör aðstoðarmanns formanns stjórnmálaflokks og starfsaðstöðu fer samkvæmt sömu reglum og gilda fyrir starfsmenn þingflokka.
    Í reglum forsætisnefndar má setja nánari fyrirmæli um ráðningu starfsmanna þingflokka og aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka, aðstöðu þeirra, starfslok o.fl.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Ráðningarsamningar sem formenn stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, hafa gert á grundvelli eldri laga og reglna forsætisnefndar um aðstoðarmenn þingmanna halda gildi sínu við gildistöku laga þessara.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er liður í áætlun um að styrkja Alþingis og starf þess. Tilgangur þess er sérstaklega að auka aðstoð við þingmenn og þá einkum að þessu sinni þingmenn sem enga beina aðstoð hafa.
    Fyrst var áætlað fyrir nýjum aðstoðarmönnum þingmanna í fjármálaáætlun 2017 og hefur verið gert ráð fyrir að það taki gildi veturinn 2018–2019. Framlög hafa nú verið tryggð með beinum fjárheimildum í fjárlögum 2019. Við undirbúning málsins er miðað við að hið nýja skipulag aðstoðarmanna taki gildi frá og með næstu áramótum.
    Formenn þingflokka eða fyrirsvarsmenn þeirra hafa rætt nánari útfærslu á þessari aðstoð við þingmenn og þingflokka og náð samkomulagi um fyrirkomulagið 2019–2021. Fylgir það samkomulag með greinargerð þessari sem fylgiskjal og er í formi bréfs til forsætisnefndar Alþingis.
    Forsætisnefnd Alþingis tók áform um aukna aðstoð við þingmenn og þingflokka til umræðu á fundi sínum 12. ágúst sl. þegar fyrir lágu áætlanir um fjármagn og umfang aðstoðarinnar. Rætt var þar um ýmsar leiðir til útfærslu en á endanum samþykkt að vísa málinu til formanna þingflokka. Forsætisnefnd hefur fyrir sitt leyti fallist á þá áætlun sem formennirnir hafa orðið sammála um.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er heitið átaki af hennar hálfu til að styrkja Alþingi. Þegar sl. haust voru í fjárlagafrumvarpi tillögur um nýja starfsmenn á nefndasvið skrifstofunnar og lagaskrifstofu í því skyni að efla löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk þingsins, svo og tillaga um aukin framlög til sérfræðiaðstoðar. Þess má svo vænta að áfram verði haldið á þessari braut en þar munar mest um endurbætur á húsakosti þingsins með nýrri skrifstofubyggingu á Alþingisreit sem einkum er hugsuð fyrir nefndastarf þingsins, þingmenn og þingflokka. Í því munu felast miklar umbætur og um leið mun þingið hætta að leigja húsnæði í nágrenni þess með þeim mikla kostnaði sem því fylgir.
    Starfshættir Alþingis og starfsumhverfi þingmanna hefur breyst mikið á undanförnum áratugum. Mikil breyting varð 1964 þegar þingmenn fengu í fyrsta sinn mánaðarlaun eins og aðrir á vinnumarkaði, í stað dagpeninga yfir þingtímann eins og áður var. Árið 1971 voru sett lög um sérfræðiaðstoð handa þingflokkum sem fól m.a. í sér að þingflokkarnir gátu ráðið sér framkvæmdastjóra og greitt fyrir aðfengna sérfræðiþjónustu. Árið 2008 var komið á fót aðstoðarmannakerfi fyrir þingmenn af landsbyggðinni, svo og formenn stjórnmálaflokka sem voru utan ríkisstjórnar. Eftir bankahrunið 2008 var mjög dregið úr þessari aðstoð og sérfræðiaðstoðin hækkaði ekki í takt við verðlag. Nú þykir komið lag til þess að endurvekja aðstoðarmannakerfið, en í breyttri mynd.
    Aðstoðarmenn þingmanna tíðkast í flestum þjóðþingum og er talsverð reynsla af þeim. Þykja þeir víðast hvar ómissandi þáttur í störfum þinganna og til að styrkja þingin og starf þingmanna sem eru afar fjölbreytt. Nánari grein er gerð fyrir slíkri aðstoð í nágrannaþingum hér á eftir.
    Aðstoðarmenn þingmanna munu vinna margvísleg undirbúningsstörf fyrir þingmenn, t.d. við gerð þingmála, fyrirspurna og breytingartillagna o.s.frv. og aðstoða þingmenn við gagnaöflun, nefndastörf, með því að gera drög að nefndarálitum eftir forsögn þingmanna, og enn fremur annast samskipti við aðila utan þings fyrir hönd þingmanna, þar á meðal einstaklinga og stofnanir í kjördæmum þeirra. Verkefnin eru eðli máls mörg og af ýmsu tagi og má segja að starfsmennirnir séu þannig pólitískir ráðgjafar þingflokka og þingmanna.
    Lögð er áhersla á að þingflokkarnir hafi sem mest frelsi til að ákveða um störf starfsmannanna, enda misjafnar áherslur hjá þeim, og mismunandi þarfir eftir því hvort þingflokkur er í stjórn eða stjórnarandstöðu.
    Reiknað er með því að starfsmenn þingflokka fái almennt þá aðstöðu í þinginu sem aðrir starfsmenn Alþingis hafa.
    Með setningu laga nr. 161/2007, er breyttu ákvæðum þingskapa, má segja að sú stefna hafi verið mörkuð að færa störf ritara þingflokka á skrifstofu Alþingis til þingflokka. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að þeim lögum kemur fram að frumvarpið hafi falið í sér niðurstöðu af umræðum í forsætisnefnd og hjá þingflokkum, þ.e. að líta bæri á það sem áfanga á þeirri leið að móta ný viðbrögð þingsins þannig að þau yrðu færð meira í samræmi við tíðaranda og tæknibreytingar síðustu ára. Jafnframt kemur fram að samhliða frumvarpinu væri samkomulag þingflokka, sem að því stóðu, að bæta starfsaðstöðu þingmanna. Meðal þeirra ráðstafana sem nefndar voru í þessu skyni var að bæta aðstöðu þingflokka: „Stefnt verði að því að færa ritaraþjónustu þingmanna, sem nú er á vegum skrifstofu þingsins, á forræði þingflokkanna þannig að þeir geti betur lagt þær áherslur í starfi sínu sem þeir kjósa. Stöðugildi eru nú átta. Alþingi greiddi áfram laun ritara og léti þeim í té starfsaðstöðu (eins og nú er) en ráðning þeirra væri eftir tillögu þingflokkanna.“ Í bréfi forseta Alþingis 30. nóvember 2007 til formanns Félags starfsmanna Alþingis um breytinguna er áréttað að einungis nýtt starfsfólk, sem ráðið yrði til ritarastarfa, yrði á vegum þingflokka. Málið hefur einnig verið til umfjöllunar á fundum forsætisnefndar undir þeim formerkjum að breytingar hefðu orðið á hlutverki ritara þingflokka þar sem áhersla væri orðin meiri á sérfræðiþjónustu fyrir þingflokkana.
    Af hálfu skrifstofu þingsins hefur verið unnið eftir framangreindri stefnumörkun og er hún að mestu komin til framkvæmda. Ritarar þingflokka hafa verið ráðnir af skrifstofustjóra Alþingis, sbr. 3. mgr. 11. gr. þingskapa Alþingis á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, (starfsmannalög) að fenginni tillögu þingflokka. Með frumvarpinu er lagt til að skotið verið styrkari stoðum undir grundvöll ráðningar starfsmanna þingflokka sem jafnframt taki til aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar.

Um hlutverk þingflokka.
    Ekki er fjallað um hlutverk þingflokka í stjórnarskrá og þeir gegna ekki formlegu hlutverki í stjórnskipuninni. Þeir gegna þó þýðingarmiklu hlutverki við framgang þingstarfa samkvæmt þingsköpum Alþingis. Þeir eru hin pólitíska grunneining í starfi þingsins og forsenda fyrir skilvirkum störfum á Alþingi. Skv. 7. tölul. 2. gr. laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, merkir þingflokkur samtök þingmanna sem uppfylla skilyrði þingskapa til að teljast þingflokkur. Í 4. gr. þeirra er fjallað um framlög til þingflokka úr ríkissjóði. Á grundvelli ákvæðisins samþykkti forsætisnefnd 5. febrúar 2007 reglur um greiðslu framlaga á fjárlögum til þingflokka. Greiðslum til þingflokka („sérfræðiaðstoðinni“) er skipt eftir einingum sem forsætisnefnd ákveður, sbr. 2. gr. reglnanna. Framkvæmdina má rekja til setningar laga nr. 56/1971, um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka, sem voru felld brott með lögum nr. 162/2006.
    Eftir þær breytingar sem gerðar voru á þingsköpum Alþingis með 27. gr. laga nr. 68/2007, sbr. nú 85. gr. þingskapa, skulu a.m.k. þrír þingmenn vera í þingflokki. Af 1. mgr. 85. gr. leiðir að ekki er gert ráð fyrir því að þingmönnum sé skylt að skipa sér í þingflokka. Geri þeir það skulu þeir velja sér formann sem komi fram fyrir þeirra hönd gagnvart forseta og öðrum þingflokkum og þingmönnum. Almenna reglan er samt sú að þingmenn stjórnmálasamtaka, sem kjörnir hafa verið á Alþingi, skipi sér í þingflokka þótt þeir séu aðeins tveir.
    Sú starfsemi, sem fram fer á vegum þingflokka, er í þágu starfa Alþingis sem fulltrúasamkomu. Á þeim grundvelli er í frumvarpinu lagt til að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildi um starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka líkt og gildir um aðra starfsmenn Alþingis sem einnig sinna opinberum störfum í þágu Alþingis. Starfsumhverfi þeirra er á hinn bóginn frábrugðið starfsumhverfi annarra starfsmanna Alþingis. Ræður þar mestu að ekki er unnt að líta á starf þeirra sem varanlegt í sama skilningi og störf almennra ríkisstarfsmanna þar sem almenna reglan er ótímabundin ráðning með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Þá fela störf starfsmanna þingflokka í sér aðstoð við þingmenn, þátttöku í innra starfi þingflokksins, t.d. við þingmálagerð og annað sem varðar framgang einstakra mála þingflokksins eða þingmanna hans. Meginreglan við ráðningu starfsmanna þingflokka er því tímabundin ráðning sem að hámarki miðast við lengd kjörtímabils. Ekki verður skylt að auglýsa laus störf þeirra og einfaldari reglur gilda um starfslok.

Um ráðningu aðstoðarmanna alþingismanna.
    Með lögum nr. 8/2008 var sú breyting gerð á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, að tekin var upp heimild í 10. gr. laganna fyrir alþingismenn til þess að ráða sér aðstoðarmenn. Um ráðninguna, fyrirkomulag og kjör aðstoðarmanna skyldu enn fremur gilda nánari reglur forsætisnefndar. Reglur um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka og alþingismanna úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi voru settar af forsætisnefnd í mars 2008. Í sparnaðarskyni ákvað nefndin í maí 2009 að ekki yrði veitt fé til að greiða laun og starfskostnað aðstoðarmanna í nefndum kjördæmunum. Frá þeim tíma hafa formenn stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og ekki eru jafnframt ráðherrar, einir getað ráðið sér aðstoðarmann í fullt starf. Skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/1995 taka laun aðstoðarmanna, sem þannig eru ráðnir, mið af þingfararkaupi hverju sinni. Að öðru leyti fer um laun aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka samkvæmt reglum forsætisnefndar um starfskjör og starfsaðstöðu aðstoðarmanna. Tekið er fram í 3. mgr. 10. gr. laganna að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim gilda ekki um aðstoðarmenn alþingismanna, og enn fremur að ákvæði 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, eigi ekki heldur við um aðstoðarmenn alþingismanna.
    Frumvarp þetta felur í sér að í stað 10. gr. gildandi laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, sbr. lög nr. 8/2008, kemur ný grein um starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar. Gert er ráð fyrir því að sömu reglur gildi að meginstefnu um réttarstöðu þessara starfsmanna. Þó er sá munur að starfsmenn þingflokka lúta verkstjórn formanns þingflokks og eru ráðnir af skrifstofustjóra Alþingis eftir tillögu þingflokks. Formenn stjórnmálaflokka gera á hinn bóginn ráðningarsamning við aðstoðarmenn sína og stýra stöfum þeirra með sama hætti og nú er skv. 10. gr. gildandi laga. Enn fremur er gert ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis annist alla framkvæmd og umsýslu með ráðningarsamningum starfsmanna þingflokka og aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka.

Fyrirkomulag aðstoðar við þingmenn og þingflokka á Norðurlöndum.
     Danmörk.
    Fjárhagslegur stuðningur þingsins við þingflokka fer eftir reglum forsætisnefndar og er hægt að sjá fjárhæðina í ársreikningum þingsins á heimasíðu þess. Á árinu 2017 nam hún 3,3 milljörðum ísl. kr. Stjórnmálaflokkar mega einungis nýta fjármagnið samkvæmt gildandi reglum og gera grein fyrir notkuninni árlega. Ekki eru neinar fjárhæðir sérstaklega eyrnamerktar ráðningu aðstoðarmanna fyrir þingmenn. Starfsfólk er ráðið til þingflokksins en ekki einstakra þingmanna. Þingmaður getur þó krafist þess að þingflokkurinn greiði sér mánaðarlegt framlag sem nú nemur um 286.000 ísl. kr. á mánuði og má nýta í þjónustu aðstoðarmanns (sekretærbistand). Fái þingmaður slíka greiðslu ræður viðkomandi sjálfur starfsmann og tekur ákvörðun um laun og starfsskilyrði.
     Noregur.
    Fjárhagslegur stuðningur þingsins við þingflokka fer eftir reglum sem byggjast á lögum frá 2012/2013. Í reglum er kveðið á um fjárhæðir, notkun, uppgjör og eftirlit en um er að ræða grunnframlag til flokka og svo framlag til hvers þingmanns. Heildarframlag Stórþingsins til þingflokka var árið 2017 um 2,7 milljarðar ísl. kr. Í því felst grunnframlag á hvern þingmann sem nemur um einu stöðugildi á mánuði eða um 947.000 ísl. kr. auk ýmissa framlaga sem fara eftir stærð þingflokks, til reksturs skrifstofu (gruppesekretariat) þar sem eru pólitískir ráðgjafar og aðstoðarmenn fyrir þingflokkinn. Starfsfólkið getur sérhæft sig eftir málaflokkum fremur en að einn aðstoðarmaður sé fyrir einn ákveðinn þingmann.
     Svíþjóð.
    Fjárhagslegur stuðningur þingsins við þingflokka fer eftir lögum 2016:1109 sem tóku gildi 1. janúar 2017. Fyrir 1. júlí ár hvert þurfa flokkarnir að standa skil á því hvernig greiðslum var ráðstafað fyrir liðið ár. Framlög þingsins til stjórnmálaflokka fara m.a. eftir þingstyrk og hvort flokkurinn er í ríkisstjórn. Auk þess er sérstaklega tiltekinn stuðningur við hvern þingmann til að ráða aðstoðarmann (politiska sekreterare) og samsvarar fjárhæðin því að hver þingmaður geti ráðið í eina stöðu fyrir sig. Miðað er við 827.000 ísl. kr. á mánuði fyrir aðstoðarmann og ráða þingmenn hvernig þeir nýta sér stuðning hans.
     Finnland.
    Framlag finnska þingsins til þingflokka er samsett af grunnframlagi og framlagi á hvern þingmann. Þingmenn fá svo framlag upp á 472.000 ísl. kr. til að ráða aðstoðarmann sem þingmaðurinn velur, en laun hans eru greidd af þingskrifstofunni. Þingflokkar geta gert samkomulag um að fá til sín þetta fjármagn vegna aðstoðarmanna þingmanna þannig að allir aðstoðarmenn séu starfsfólk þingflokka. Sýnir reynslan að þá eru ráðnir aðstoðarmenn sem sérhæfa sig í málaflokkum og vinna þannig sem stuðningsteymi í stað þess að vera eyrnamerktir ákveðnum þingmanni. Finnar hafa nú nýlega endurskoðað reglur um aðstoðarmenn. Helstu niðurstöður er þær að áfram verður hægt að velja tvær leiðir: a) Skrifstofa þingsins úthlutar fjármagni til þingflokksins í samræmi við þingstyrk, þingflokkurinn ákveður svo hversu margir aðstoðarmenn verða ráðnir, hvaða hæfniskröfur verða gerðar o.s.frv. Ráðningarsambandið er við þingflokkinn. b) Skrifstofa þingsins ræður aðstoðarmann sem þingmaður hefur valið sér. Ráðningarsambandið er við skrifstofu þingsins

Um pólitíska aðstoðarmenn í evrópskum þjóðþingum.
    Rannsóknarþjónusta skrifstofu Alþingis tekur þátt í samstarfi rannsóknarþjónusta þjóðþinga Evrópu (European Centre for Parliamentary Research and Documentation) sem deila á milli sín ýmsum upplýsingum um lagasetningu og starfsemi þjóðþinga. Niðurstöður athugunar ECPRD frá 2012 (uppfærð 2015) um aðstoðarmenn og starfsfólk þingflokka má sjá í eftirfarandi töflu. Lagðar eru saman tölur um aðstoðarmenn þingmanna og starfsfólk þingflokka.Þingmenn
Aðstoðarmenn og starfsfólk þingflokka Fjöldi á hvern þingmann
Spánn – efri deild 266 37 0,14
Króatía 151 23 0,15
Eistland 101 28 0,28
Grikkland 300 119 0,40
Spánn – neðri deild 350 205 0,59
Ungverjaland 386 229 0,59
Sviss 246 190 0,77
Bretland – efri deild 826 6501 0,79
Serbía 250 250 1,00
Svíþjóð 349 349 1,00
Portúgal 230 240 1,04
Slóvenía 90 96 1,07
Noregur 169 190 1,12
Finnland 200 226 1,13
Kýpur 59 68 1,15
Lettland 100 126 1,26
Þýskaland – neðri deild 600 850 1,42
Austurríki 245 390 1,59
Írland 226 392 1,73
Danmörk 179 400 2,23
Tékkland 200 474 2,37
Slóvakía 150 3752 2,50
Holland 150 390 2,60
Tyrkland 550 1.723 3,13
Belgía 221 737 3,33
Litháen 141 5303 3,76
Bretland – neðri deild 650 2.500 3,85
1 Margir ólaunaðir.
2 Ágiskun, þingið heldur ekki utan um fjöldann.
3 Mjög margir í hlutastarfi.

    Beðið var um uppfærslu á þessari athugun árið 2015 og þá kom eftirfarandi fram til viðbótar/skýringar:
     Belgía-öldungadeild: Einungis 10 þingmenn sem kjörnir eru „sénateurs cooptés“ fá að ráða til sín aðstoðarmann (ráðinn af þingskrifstofunni). Árið 2014 var reglum breytt þannig að í stað aðstoðarmanns í fullu starfi fá aðrir þingmenn að ráða til sín tvo aðstoðarmenn í hlutastarfi, þó ekki minna en 30% starf.
     Lúxemborg: Þingmenn ráða sér oftast ekki aðstoðarmenn en þingflokkar ráða til sín aðstoðarmenn og er ekkert hámark á fjölda þeirra en fjármagnið er sem nemur u.þ.b. einu stöðugildi á þingmann. Ekki er haldið utan um fjölda aðstoðarmanna.
     Holland: Þingflokkar halda utan um þetta, sumir ráða einn fyrir hvern þingmann en aðrir þingmenn ráða aðstoðarmann/-menn sem teymi. Þróunin hefur verið frá því að hver þingmaður hafi einn aðstoðarmann yfir í að flokkarnir ráða aðstoðarmenn sem geta skipt verkum og aðstoðað hópinn sem heild.
     Spánn: Fulltrúadeildin úthlutar eftir þingstyrk sem hér segir (upplýsingar frá 2015 en miðað við kosningaúrslit 2011):

Þingflokkar Þingmenn Aðstoðarmenn Fjöldi á hvern
þingmann
Þjóðarflokkurinn 185 91 0,49
Sósíalistaflokkurinn 110 73 0,66
Kosningabandalag Katalóna 16 11 0,68
Kosningabandalag vinstri manna 11 9 0,81
Baskneski þjóðernisflokkurinn 5 4 0,80
Samband um framþróun og lýðræði 5 4 0,80
Aðrir flokkar 18 13 0,72

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að 10. gr. gildandi laga falli brott og í stað hennar komi ný grein um starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka. Í greininni er annars vegar fjallað um starfsmenn þingflokka, sbr. 1.–4. mgr., og hins vegar aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, sbr. 5. mgr. Réttarstaða þessara starfsmanna er ólík að því leyti að starfsmenn þingflokka eru ráðnir af skrifstofustjóra Alþingis að fenginni tillögu þingflokks. Hlutverk þeirra er að meginstefnu að aðstoða þingmenn í störfum þeirra og að fylgja eftir málum þeirra og þingflokksins. Aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka eru á hinn bóginn ráðnir af formönnum flokkanna líkt og nú er og starfa í þeirra þágu samkvæmt ráðningarsamningi og starfslýsingu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að réttarstaða starfsmanna samkvæmt greininni verði hin sama. Loks er í 6. mgr. mælt fyrir um heimild forsætisnefndar til þess að setja nánari reglur um ráðningu starfsmanna þingflokka og aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka.
    Í 1. mgr. er tekið fram að um starfsmenn þingflokka gildi lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þó gilda ákvæði þeirra um auglýsingu starfs, sbr. 7. gr., um áminningu, sbr. 21. gr., og um starfslok sem rekja má til sakar starfsmanns eða brots í starfi, sbr. 44. og 45. gr., ekki um starfsmenn þingflokka. Þar sem meginreglan er tímabundin ráðning starfsmanna þingflokka er tekið fram að 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, gildi ekki um starfsmenn þingflokka. Er þar byggt á sömu sjónarmiðum og lögð voru til grundvallar setningu 10. gr. gildandi laga, sbr. lög nr. 8/2008.
    Ráðning starfsmanna þingflokka er bundin við fjárheimildir samkvæmt fjárlögum og skiptingu þeirra milli þingflokka. Gera verður ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis fylgist með því að fjárheimildir einstakra þingflokka samkvæmt greininni séu nýttar til ráðningar starfsmanns þar sem til grundvallar liggi skriflegur ráðningarsamningur og starfslýsing.
    Tekið er fram í 2. mgr. að formaður þingflokks stýri daglegum störfum starfsmanna þingflokks og skipti með þeim verkum. Hin daglega verkstjórn liggur samkvæmt þessu hjá formanni þingflokks. Til þess að tryggja markvissari framkvæmd og nýtingu þeirra fjármuna sem um er að ræða skulu þingflokkar gera skriflega starfslýsingu fyrir starfsmenn sína.
    Samkvæmt 3. mgr. er það skrifstofustjóri sem ræður starfsmenn þingflokka. Er það í samræmi við þá reglu 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, að skrifstofustjóri Alþingis ráði starfsmenn Alþingis og 5. gr. laga nr. 70/1996. Skilyrði er þó að ráðning starfsmanns þingflokks skv. 1.–4. mgr. sé samkvæmt tillögu þingflokks. Er það í samræmi við þær skipulagsbreytingar sem markaðar voru með setningu laga nr. 161/2007, er breyttu ákvæðum þingskapa, og fjallað er um í almennum athugasemdum hér að framan, að ráðning starfsmanna þingflokka „væri eftir tillögu þingflokkanna“. Gert er ráð fyrir því að í ráðningarsamningi og reglum forsætisnefndar séu nánari ákvæði um starfslok starfsmanna þingflokka. Renni tímabundinn ráðningarsamningur starfsmanns þingflokks ekki út án uppsagnar er gert ráð fyrir því að þingflokkur tilkynni skrifstofustjóra um það og hann segi ráðningarsamningnum upp, sbr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Um starfslok starfsmanna þingflokka er eðlilegt að miða við sama fyrirkomulag og hefur gilt um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka sem ekki eru jafnframt ráðherrar. Þar hefur almennt verið miðað við að ráðningin standi úr kjörtímabilið og ráðningarsamband endar á kjördag. Ef formaður flokksins hættir sem formaður stjórnmálaflokksins, tekur við ráðherraembætti, andast, afsalar sér þingmennsku, missir kjörgengisskilyrði eða uppfyllir ekki lengur skilyrði reglna forsætisnefndar Alþingis um rétt til aðstoðarmanns telst ráðningarsamningnum sjálfkrafa sagt upp og gildir þá uppsagnarfrestur. Uppsagnarfrestur aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka er þrír mánuðir.
    Þá er í 3. mgr. tekið fram að um laun og önnur starfskjör starfsmanna þingflokka fari samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og forseta Alþingis í samræmi við fyrirmæli laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Um röðun starfs starfsmanna þingflokka fer því samkvæmt kjarasamningi og stofnanasamningi starfsmanna Alþingis. Er við það miðað að röðunin taki mið af störfum nefndarritara á nefndasviði Alþingis. Almennt er miðað við að launakjör aðstoðarmanna formanna flokkanna verði óbreytt en þau verði samt ekki lögbundin, þ.e. bundin við þingfararkaup eins og nú er, heldur fari eftir samsvarandi launaflokki í launatöflu Starfsmannafélags Alþingis. Sama gildi um störf framkvæmdastjóra þingflokka þar sem þingflokkar hafa ráðið slíka starfsmenn. Tekið er fram í 3. mgr. að skrifstofustjóri sé í fyrirsvari gagnvart starfsmönnum þingflokka um réttindi þeirra samkvæmt kjarasamningi. Á það t.d. við um fyrrgreinda röðun starfa aðstoðarmanna þingflokka og formanna stjórnmálaflokka í launaflokka samkvæmt kjara- og stofnanasamningi.
    Í 4. mgr. er áréttað að skrifstofustjóri sé í fyrirsvari gagnvart starfsmönnum þingflokka þegar fjallað er um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, og starfsskilyrði samkvæmt öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningi. Með slíku er jafnframt áréttuð sú ábyrgð sem hvílir á skrifstofustjóra um að aðbúnaður starfsmanna Alþingis samkvæmt öðrum lögum, t.d. lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga, nær einnig til starfsumhverfis starfsmanna þingflokka og aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka. Gert er ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis annist alla framkvæmd og umsýslu með ráðningarsamningum starfsmanna þingflokka. Er þannig miðað við að sú eining skrifstofu Alþingis sem sinnir starfsmannamálum og launaafgreiðslu sé í fyrirsvari gagnvart þingflokkum og starfsmönnum þeirra við daglega umsýslu, þ.m.t. að fylgjast með því hvenær starfsmenn koma til starfa og láta af störfum. Til slíkrar umsýslu skrifstofunnar fellur enn fremur að útvega starfsaðstöðu, þ.m.t. tölvubúnað, uppsetningu hans og þjónustu. Óhjákvæmilegt er annað en að gera ráð fyrir að af slíkum umsvifum hljótist viðbótarútgjöld fyrir skrifstofuna.
    Samkvæmt 5. mgr. er áfram gert ráð fyrir því að formönnum stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar sé enn fremur heimilt að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf. Til samræmis er gert ráð fyrir því að um starfskjör þeirra fari eftir sömu reglum og um starfsmenn þingflokka, sbr. 3. og 4. mgr. greinarinnar. Eins og að framan er rakið er ekki gert ráð fyrir að kjör þeirra séu lögbundin en engin breyting er áformuð á launum þeirra að þessu sinni. Má að öðru leyti vísa til umfjöllunar hér að framan um þann mun sem er á störfum starfsmanna þingflokka og aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka.
    Í 6. mgr. er forsætisnefnd veitt heimild til þess að setja nánari fyrirmæli um ráðningu starfsmanna þingflokka og aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka, aðstöðu þeirra, starfslok o.fl.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að í stað núverandi ákvæðis til bráðabirgða, sem runnið hefur sitt skeið, komi ákvæði til bráðabirgða um að þeir samningar sem gerðir hafa verið um ráðningu aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka skuli halda gildi sínu þar til að þeir hafa runnið sitt skeið eða verið sagt upp.

Um 3. gr.

    Miðað er við að lögin taki gildi 1. janúar 2019, með nýju fjárhagsári.


Fylgiskjal I.


Alþingi, 27. nóv. 2018.

Til forsætisnefndar,
Steingrímur J. Sigfússon.

    Formenn þingflokka (eða fulltrúar þeirra) hafa að undanförnu fjallað um fyrirkomulag þeirrar aðstoðar sem fyrirhuguð er í fjármálaáætlun og fjárlögum handa þingflokkunum, sbr. umfjöllun forsætisnefndar um málið sl. sumar. Formenn þingflokka hafa farið yfir þau gögn sem forsætisnefnd hafði á sumarfundi sínum eins og óskað var eftir. Nokkur viðbótargögn hafa borist. Málið snýst um 17 störf aðstoðarmanna þingflokka sem bætast við á næstu þrem árum, þ.e. á þessu kjörtímabili, u.þ.b. þriðjungur á hverju ári 2019–2021.
    Forustumenn þingflokka hafa nú náð samkomulagi um fyrirkomulagið og óska þess hér með að forsætisnefnd staðfesti það.
    Megindrættir aðstoðar við þingmenn og þingflokka eru þá þessir:
    a) sérfræðiaðstoð fyrir þingflokka, eins og hún er ákveðin í fjárlögum hverju sinni, verður óbreytt og skiptiregla hennar sú sama og verið hefur,
    b) fyrirkomulag aðstoðar við formenn stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar verður óbreytt,
    c) störfum ritara þingflokka (einn hjá hverjum þingflokki) verður breytt í störf aðstoðarmanns þingflokka (að mestu leyti komið til framkvæmda),
    d) nýjum störfum aðstoðarmanna (17) verði skipt milli þingflokka eftir d'Hondt-reglu, þó þannig að á næsta ári, árið 2019, fái allir þingflokkar einn aðstoðarmann. Skiptingin miðast við fjölda þingmanna í hverjum þingflokki sem ekki hefur þegar aðstoðarmann, þ.e. ráðherrar og formenn stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar.
    Aðstoðarmenn verði ráðnir í þrem áföngum:
    2019: 8 aðstoðarmenn.
    2020: 5 aðstoðarmenn.
    2021: 4 aðstoðarmenn.
    Tölur við skiptinguna skv. d'Hondt, þ.e. þingsætatala að frádregnum þeim þingmönnum og ráðherrum sem hafa aðstoðarmenn nú þegar, eru þá þessar raðað eftir listabókstöfum flokkanna:
    B 5, C 3, D 11, F 3, M 6, P 5, S 6, V 9.
    Skipting milli þingflokkanna er þannig:
    2019: Einn aðstoðarmaður á hvern þingflokk.
    2020: D 2, M 1, S 1, V 1.
    2021: B 1, D 1, P 1, V 1.
    Formenn þingflokka (eða fulltrúar þeirra) munu flytja frumvarp sem samkomulag er um að lögfest verði fyrir áramót með þeim breytingum á þingfararkaupslögum (10. gr. laga nr. 88/1995) að aðstoðarmenn þingflokka verði ráðnir tímabundið eftir tillögum þingflokka en heyri að öðru leyti undir lög um starfsmenn ríkisins og verði taldir starfsmenn Alþingis. Þingflokkarnir setji aðstoðarmönnum erindisbréf.
    Skrifstofa Alþingis annist launaumsýslu fyrir aðstoðarmenn. Laun þeirra verði áþekk launum nefndarritara. Skrifstofa þingsins annist líka launaumsýslu fyrir framkvæmdastjóra þingflokka, sem fá greiðslur af sérfræðiaðstoð, ef þingflokkar óska þess.