Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 812  —  496. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, með síðari breytingum (táknmálstúlkar o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.


Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  4. Nú gefur maður skýrslu fyrir dómi sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta og skal þá aðilinn sem hlutast til um skýrslugjöfina kalla til táknmálstúlk. Um heit táknmálstúlks og staðfestingu fer eftir ákvæðum 2. mgr. Þóknun og annar kostnaður vegna starfa táknmálstúlks greiðist úr ríkissjóði.
     b.      Á eftir orðinu „ekki“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: fyllilega; og á eftir orðinu „máli“ í sama málslið kemur: eða íslensku táknmáli.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þóknun og annar kostnaður vegna starfa kunnáttumanns greiðist úr ríkissjóði.
     d.      4. mgr. verður 5. mgr.

2. gr.

    Á eftir orðunum „fyrirliggjandi gagna“ í 3. málsl. 3. mgr. 158. gr. laganna kemur: og að jafnaði.

3. gr.

    Á eftir orðunum „fyrirliggjandi gagna“ í 3. málsl. 3. mgr. 182. gr. laganna kemur: og að jafnaði.

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Nú gefur maður skýrslu fyrir dómi sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta og skal þá ákæruvaldið sjá um að kalla til táknmálstúlk. Um heit slíks manns og staðfestingu fer eftir ákvæðum 2. mgr.
     b.      Á eftir orðinu „ekki“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: fyllilega; og á eftir orðinu „máli“ í sama málslið kemur: eða íslensku táknmáli.
     c.      5. mgr. orðast svo:
                  Þann einn má kveðja til sem dómtúlk, táknmálstúlk, þýðanda eða kunnáttumann sem er orðinn 20 ára að aldri. Að auki má dómtúlkur, táknmálstúlkur eða kunnáttumaður ekki vera vanhæfur til að taka starfann að sér, sbr. 6. gr. Dómari ákveður þóknun til handa dómtúlki, táknmálstúlki, þýðanda eða kunnáttumanni og greiðist þóknunin og annar kostnaður vegna starfa hans úr ríkissjóði.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Á sama hátt skal lögregla kalla til táknmálstúlk ef skýrslugjafi reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta.
     b.      Á eftir orðinu „ekki“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: fyllilega; og á eftir orðinu „máli“ í sama málslið kemur: eða íslensku táknmáli.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar í þá átt að kveða sérstaklega á um réttindi þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál til að njóta þjónustu táknmálstúlka í dómsmálum. Þá er kveðið á um að ríkissjóður greiði kostnað vegna starfa táknmálstúlka í þeim tilvikum sem skýrslugjafi í einkamáli reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta sem og vegna starfa kunnáttumanna sem aðstoða þá sem geta ekki fyllilega haft orðaskipti á mæltu máli eða íslensku táknmáli við skýrslugjöf, en samkvæmt gildandi lögum er það sá sem kallar til slíkan mann sem greiðir þann kostnað.
    Þá er einnig með frumvarpinu brugðist við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 6. desember 2007 í máli Súsönnu Rósar Westlund gegn Íslandi og lagt til að heimilt verði að flytja mál munnlega þegar einkamáli er áfrýjað en gagnaðili tekur ekki til varna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í samræmi við e-lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu hefur um árabil verið kveðið á um í lögum að þóknun dómtúlka, þýðenda eða annarra kunnáttumanna, þ.m.t. táknmálstúlka, og annar kostnaður vegna starfa þeirra í sakamálum greiðist úr ríkissjóði. Sambærileg skylda hvílir aftur á móti ekki á ríkissjóði að því er varðar einkamál, hvorki samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu né íslenskum lögum. Af því leiðir að málsaðilar þurfa sjálfir að bera kostnað vegna starfa táknmálstúlka við meðferð einkamála.
    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting þar á og er þar ekki síst litið til þeirrar réttarverndar sem íslenskt táknmál og þeir sem reiða sig á það til samskipta njóta eftir samþykkt laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra laga er íslenskt táknmál fyrsta mál bæði þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, og skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. sömu laga skulu ríki og sveitarfélög tryggja að allir sem þurfa eigi kost á þjónustu á íslensku táknmáli og í 2. mgr. 13. gr. er enn fremur kveðið á um að íslenskt táknmál sé jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og óheimilt sé að mismuna fólki eftir því hvort málið það noti. Samkvæmt 9. gr. fer aftur á móti um rétt til túlkaþjónustu og skyldur dómstóla til að leita aðstoðar túlka og táknmálstúlka samkvæmt lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.
    Þykir rétt í ljósi framangreinds að íslenska ríkið greiði kostnað vegna táknmálstúlka sem aðilar kalla til við meðferð einkamála líkt og við meðferð sakamála og líkt og almennt á við þegar þeir sem reiða sig á íslenskt táknmál hafa samskipti við stjórnvöld.
    Þá er í frumvarpinu lögð til breyting á lögum um meðferð einkamála til að bregðast við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 6. desember 2007 í máli Súsönnu Rósar Westlund gegn Íslandi. Í því máli var komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti kæranda til réttlátrar málsmeðferðar skv. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem 3. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála girti alfarið fyrir að áfrýjandi gæti flutt mál sitt munnlega fyrir æðra dómstigi tæki stefndi ekki þar til varna. Dómur þessi hefur verið gagnrýndur hér á landi og áhöld verið uppi um hvort hann kalli á breytingar á íslenskri réttarfarslöggjöf, en mjög hefur verið þrýst á slíkar breytingar af hálfu fullnustudeildar Evrópuráðsins. Það er mat dómsmálaráðuneytisins að rétt sé að leggja slíka breytingu til nú þannig að lög geri ráð fyrir þeim möguleika að einkamál verði flutt munnlega fyrir Landsrétti og Hæstarétti Íslands þrátt fyrir að stefndi taki þar ekki til varna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagðar eru til þrenns konar breytingar með frumvarpi þessu. Í fyrsta lagi er með 1. gr. lagt til að ríkissjóður greiði þóknun og annan kostnað vegna starfa táknmálstúlks í einkamálum í þeim tilvikum sem skýrslugjafi reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta. Það er gert með því að leggja til að ný málsgrein bætist við 10. gr. laga um meðferð einkamála þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir störfum táknmálstúlka líkt og gert er í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í því sambandi er bent á að táknmálstúlkar eru ekki nefndir í gildandi réttarfarslöggjöf heldur falla þeir undir kunnáttumenn sem kallaðir eru til í þeim tilvikum þegar skýrslugjafi er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála og 4. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála. Þrátt fyrir að táknmálstúlkar njóti ekki löggildingar sem starfsstétt þykir rétt að kveða sérstaklega á um hlutverk þeirra við meðferð dómsmála enda liggur þar að baki sérhæft háskólanám og þeirra er getið í lögum um íslenska tungu og íslenskt táknmál. Rétt er að geta þess að táknmálstúlkar teljast ekki löggiltir dómtúlkar í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála og 2. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála, sem kalla skal til ef skýrslugjafi kann ekki íslensku nægilega vel. Löggiltir dómtúlkar geta þannig einungis verið þeir sem túlka af íslensku á erlent tungumál eða öfugt. Þar sem táknmálstúlkar falla ekki í hóp löggiltra dómtúlka og störf þeirra eru bundin við þá sem tala táknmál og því annars eðlis en annarra kunnáttumanna er lagt til að um störf þeirra verði fjallað í sérstakri málsgrein. Þar sem táknmálstúlkar teljast ekki til löggildra dómtúlka er einnig lagt til að þeir undirriti heit í þingbók um að þeir muni rækja starfa sinn eftir bestu getu líkt og gildir um kunnáttumenn og þýðendur í þeim tilvikum þegar þeir njóta ekki löggildingar. Þá er í frumvarpinu lagt til að ríkissjóður greiði jafnframt kostnað vegna starfa kunnáttumanna sem aðstoða þá sem ekki geta fyllilega haft orðaskipti á mæltu máli eða íslensku táknmáli. Er þar höfð hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk frá 13. desember 2006, sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 23. september 2016, en samkvæmt 13. gr. samningsins skulu aðildarríkin tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga alla málsmeðferð að þörfum þess.
    Í öðru lagi eru með 4. og 5. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála, nánar tiltekið á 12. gr. laganna sem fjallar um skýrslutökur fyrir dómi og 63. gr. sem fjallar um skýrslutöku hjá lögreglu. Breytingarnar eru í samræmi við þær sem lagðar eru til með 1. gr. frumvarpsins á lögum um meðferða einkamála og er ætlað að tryggja að ákvæði lagabálkanna tveggja um þetta efni séu sambærileg og samhljóða að breyttu breytanda.
    Í þriðja lagi eru í 2. og 3. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 3. mgr. 158. gr. og 3. mgr. 182. gr. laga um meðferð einkamála í tilefni af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 6. desember 2007 í máli Súsönnu Rósar Westlund gegn Íslandi. Eins og nefnt var í kafla 2 var í því máli komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti kæranda til réttlátrar málsmeðferðar skv. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem 3. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála girti alfarið fyrir að áfrýjandi gæti flutt mál sitt munnlega fyrir æðra dómstigi tæki stefndi ekki þar til varna. Þær breytingar sem lagðar eru til gera ráð fyrir þeim möguleika að í þeim tilvikum sem stefndi tekur ekki til varna fyrir Landsrétti eða Hæstarétti Íslands verði mál þrátt fyrir það flutt munnlega en sú ótvíræða meginregla gildi aftur á móti að slíku máli verði að jafnaði lokið án þess.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpi þessu eru tryggð betur en nú réttindi þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál undir rekstri einkamála fyrir íslenskum dómstólum. Þá er með frumvarpinu brugðist við dómi frá Mannréttindadómstól Evrópu og tilmælum fullnustudeildar Evrópuráðsins um lagabreytingar í tilefni af honum. Frumvarpið vekur ekki upp álitaefni tengd stjórnarskrá eða alþjóðlegum skuldbindingum.

5. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við Félag heyrnarlausra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra um efni þess og orðfæri og að mestu leyti komið til móts við athugasemdir þessara aðila. Rétt er að geta þess að Félag heyrnarlausra vakti athygli á því að nauðsynlegt kynni að vera að taka til athugunar greiðslu fyrir táknmálstúlkun í samskiptum réttargæslumanna og verjenda við skjólstæðinga sína. Afstaða ráðuneytisins er sú að það mál sé annars eðlis en það sem efni frumvarpsins lýtur að og þurfi nánari athugunar við. Þá var frumvarpið kynnt fyrir réttarfarsnefnd og höfðu nefndarmenn ekki athugasemdir við efni þess.
    Í ljósi þess að frumvarpið felur í sér mikilvæga og að má telja óumdeilda réttarbót sem fyrst og fremst varðar þá sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta var talið mikilvægt hafa sérstaklega samráð við þann hóp. Þar sem frumvarpið felur ekki í sér víðtækar breytingar að öðru leyti þótti ekki nauðsynlegt að kynna það sérstaklega í samráðsgátt Stjórnarráðsins.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta felur í sér að þóknun og annar kostnaður vegna starfa táknmálstúlka í einkamálum greiðist af ríkissjóði. Sá kostnaður er óverulegur. Samkvæmt upplýsingum frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur verið óskað eftir táknmálstúlkun í samtals átta málum sem rekin hafa verið fyrir héraðsdómstólum. Að hverju máli starfa tveir táknmálstúlkar og um tímagjald þeirra fer eftir gjaldskrá Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, sbr. reglugerð nr. 444/2013, sem sett er af mennta- og menningarmálaráðherra. Hefur kostnaður á hvert mál verið á bilinu 80–120 þús. kr.
    Sé áætlað að eitt einkamál, þar sem þörf er á táknmálstúlkun, verði að meðaltali rekið á ári fyrir dómstólum má ætla að kostnaðarauki ríkissjóðs verði á bilinu 80–120 þús. kr. árlega. Gert er ráð fyrir að útgjöldin rúmist innan gildandi útgjaldaramma viðkomandi málaflokks.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með þessari grein lagt til að við 10. gr. laga um meðferð einkamála bætist ný málsgrein þar sem sérstaklega verði fjallað um störf táknmálstúlka við meðferð slíkra mála fyrir dómi og að þar verði lögfest skylda ríkissjóðs til að bera kostnað vegna þóknunar og annarra starfa þeirra. Í ljósi þess að táknmálstúlkun nýtur ekki lögverndar hér á landi og táknmálstúlkar ekki löggildingar sem slíkir er rétt að taka fram að með þeim er í ákvæðinu átt við þá sem hafa lokið að minnsta kosti BA-prófi í táknmálstúlkun. Þá er gert ráð fyrir að táknmálstúlkur sem starfar við meðferð einkamáls undirriti heit í þingbók um að hann muni rækja starfann eftir bestu getu og beri að staðfesta þýðingu fyrir dómi ef hún er vefengd.
    Þá er jafnframt lögð til sú breyting með ákvæðinu að ríkissjóður greiði þóknun og annan kostnað kunnáttumanna sem kallaðir eru til aðstoðar þeim sem geta ekki fyllilega tjáð sig á mæltu máli eða íslensku táknmáli við skýrslugjöf. Í einhverjum tilvikum kann jafnvel að reynast nauðsynlegt að kalla til bæði táknmálstúlk og kunnáttumann til aðstoðar skýrslugjafa. Í þessu ljósi þykir rétt að víkka út orðalag ákvæðisins til að tryggja að undir það falli allir þeir sem þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Um 2. og 3. gr.

    Samkvæmt gildandi 3. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála skal mál dómtekið án málflutnings í Landsrétti berist réttinum ekki tilkynning um að stefndi muni skila greinargerð eða hann skilar ekki greinargerð innan tilskilins frests. Samsvarandi reglu að því að varðar meðferð mála fyrir Hæstarétti Íslands er að finna í 3. mgr. 182. gr. sömu laga. Hefur Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að þessi fortakslausa regla brjóti í bága við 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu svo sem lýst var í köflum 2 og 3. Í því ljósi er lagt til að í þeim tilvikum sem stefndi tekur ekki til varna fyrir Landsrétti eða Hæstarétti Íslands skuli mál dómtekið og að jafnaði án munnlegs málflutnings. Með því er opnað fyrir þann möguleika að munnlegur málflutningur geti fari fram í slíkum tilvikum en jafnframt sé skýrt að slíkt verði einungis í undantekningartilvikum; meginreglan sé áfram sú að mál verði dómtekið án munnlegs málflutnings. Verður það háð mati viðkomandi dómstóls hvort hann telji þörf á leyfa munnlegan málflutning við þessar aðstæður.

Um 4. og 5. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til með þessum greinum eru efnislega þær sömu og lagðar eru til með 1. gr. frumvarpsins, að því frátöldu að nú þegar hvílir sú skylda á ríkissjóði að greiða þóknun og annan kostnað vegna táknmálstúlkunar við meðferð sakamála, bæði við skýrslutökur fyrir dómi og hjá lögreglu. Til að tryggja samræmi er lagt til að ákvæði laga um meðferð einkamála og laga um meðferð sakamála verði samhljóða að þessu leyti að breyttu breytanda. Að öðru leyti þarfnast ákvæðin ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.