Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 853  —  523. mál.
Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2018.

1. Inngangur.
    Á Norðurlandaráðsþingi 2018 var samþykkt að auka verulega þýðingar á fundargögnum og öðru efni sem tengist starfi Norðurlandaráðs af og á íslensku og finnsku og jafnframt að efla túlkun á fundum ráðsins. Frá 1. janúar 2020 verða sænska, danska, norska, finnska og íslenska skilgreind sem opinber tungumál Norðurlandaráðs en á skrifstofu ráðsins í Kaupmannahöfn verða skandinavísku málin eftir sem áður vinnumál. Ákvörðunin um þessar breytingar var tekin í framhaldi af tillögu sem landsdeildir Finnlands og Íslands lögðu fram í sameiningu árið 2016 um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við sænsku, dönsku og norsku.
    Landsdeild Íslands beitti sér á árinu gegn áformum Norrænu ráðherranefndarinnar um að skera niður í áföngum fjárveitingar til fjögurra norrænna rannsóknarstofnana, þar á meðal Norræna eldfjallasetursins á Íslandi. Ráðgert hafði verið að í staðinn yrði stofnuninni Nordforsk í Noregi falið að úthluta fjármagninu í formi verkefnastyrkja. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tóku undir viðhorf íslensku þingmannanna í Norðurlandaráði og jafnframt lýstu ýmsir aðrir þingmenn í Norðurlandaráði sömu afstöðu. Tillagan um niðurskurðinn komst því ekki til meðferðar í Norðurlandaráði og Norræna ráðherranefndin hefur tekið málið til endurskoðunar.
    Vorþing Norðurlandaráðs var haldið á Akureyri og var það helgað málefnum hafsins. Í september hélt Norðurlandaráð nefndarfundi sína í Nuuk, höfuðstað Grænlands, og var það í fyrsta sinn sem slíkur norrænn fundur var haldinn þar í landi.
    Íslendingar hlutu tvenn af fimm verðlaunum Norðurlandaráðs sem afhent voru í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Osló í lok október. Auður Ava Ólafsdóttir fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Ör og Benedikt Erlingsson hlaut kvikmyndaverðlaunin fyrir myndina Kona fer í stríð.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þeir þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs um mánaðamótin október/nóvember er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi, og norræn vinstri græn. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2018 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs var þannig skipuð í upphafi árs 2018: Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, þingflokki Framsóknarflokksins, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, þingflokki Samfylkingar, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Ísleifsson, þingflokki Flokks fólksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokksins, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Miðflokksins. Sú breyting varð 7. desember að Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, tók sæti Ólafs Ísleifssonar sem aðalmaður og Inga Sæland tók sæti Guðmundar Inga sem varamaður.
    Helgi Þorsteinsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2018.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Fulltrúar Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í nefndir og embætti voru kosnir á janúarfundum Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 23.–24. janúar 2018. Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir tóku sæti í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Steinunn Þóra Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson og Anna Kolbrún Árnadóttir voru skipuð í velferðarnefnd. Ólafur var einnig skipaður varaformaður eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs. Vilhjálmur Árnason og Kolbeinn Óttarsson Proppé tóku sæti í sjálfbærninefnd. Á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var í Osló 29. október til 1. nóvember fluttist Ólafur Ísleifsson úr velferðarnefnd í hagvaxtar- og þróunarnefnd, Steinunn Þóra Árnadóttir fór úr velferðarnefnd í forsætisnefnd og Kolbeinn Óttarsson Proppé fluttist úr sjálfbærninefnd í velferðarnefnd. Jafnframt var ákveðið að Anna Kolbrún Árnadóttir yrði formlega færð úr velferðarnefnd í þekkingar- og menningarnefnd en breytingin tók gildi 1. janúar 2019.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Steinunn Þóra Árnadóttir sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins og sótti fundi hennar í Þórshöfn 29.–30. maí og í Kaupmannahöfn 30. nóvember. Hún fór jafnframt á stefnumótunarfund sjóðsins sem haldinn var í Kaupmannahöfn 8. febrúar. Vilhjálmur Árnason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og sótti fund hennar í Helsinki 9. mars. Silja Dögg Gunnarsdóttir var aðalfulltrúi Norðurlandaráðs á fundum Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC). Hún sótti fund fastanefndar BSPC í Brussel 22. febrúar og 27. ársfund samtakanna sem haldinn var í Maríuhöfn á Álandseyjum 26.–28. ágúst. Silja Dögg fór einnig fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs á fund í Helsinki um málefni Hvíta-Rússlands sem haldinn var 8. maí. Kolbeinn Óttarsson Proppé var fulltrúi Alþingis í BSPC. Hann sótti ársfundinn í ágúst og fundi fastanefndarinnar í Koli-þjóðgarðinum í Finnlandi 14.–15. maí og í Þrándheimi 13. nóvember.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði ellefu sinnum á árinu. Fundað var í janúar (tvisvar), febrúar, apríl (tvisvar), júní, september, október, nóvember og desember (tvisvar). Til funda deildarinnar var boðið fulltrúum Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Norræna félagsins, Norðurlandaráðs æskunnar, upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd, Norræna hússins og fleiri einstaklingum og samtökum sem tengjast norrænu samstarfi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, kom þrisvar sinnum á fund Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á árinu, í apríl, september og október.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd var árið 2018 skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.
    Oddný G. Harðardóttir sótti alla fundi forsætisnefndar á árinu. Silja Dögg Gunnarsdóttir sótti fundi nefndarinnar í janúar, apríl, júní og september. Steinunn Þóra Árnadóttir sótti fundi nefndarinnar í október og desember.
    Nefndin fundaði alls sex sinnum á árinu, fjórum sinnum á sama tíma og fagnefndir ráðsins í janúar, mars, september og október, og tvisvar á eigin vegum í júní og desember.
    Sex tillögur sem afgreiddar voru úr forsætisnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi, um aukið norrænt samstarf í Norður-Ameríku, um norræn áhrif og samstarf við G20, um norrænt áhrifamat á löggjafarstarfi ESB, um eflt norrænt samstarf um netvarnir, um áætlanir um heildarvarnir, hættuástand og dreifingaröryggi og um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2019. Þá afgreiddi forsætisnefnd þrjú mál sem urðu að ákvörðunum um innri málefni: um tungumál í Norðurlandaráði, um norrænan fánadag á degi Norðurlanda 23. mars og um breytingar á starfsreglum Norðurlandaráðs.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og afl og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytileg list og menning, og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.
    Anna Kolbrún Árnadóttir sótti fundi þekkingar- og menningarnefndar sem varamaður en varð aðalmaður í nefndinni frá byrjun árs 2019. Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Miðflokksins, leysti Önnu Kolbrúnu af á sumarfundi þekkingar- og menningarnefndarinnar. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Fimm tillögur sem afgreiddar voru úr þekkingar- og menningarnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um stuðning við námsfólk í hættu, um gagnkvæma viðurkenningu á refsiaðgerðum vegna hagræðingar úrslita, um stuðning við verkefnið Stories from the Ice, um greinargerð varðandi menningarstefnu og um að kanna möguleika á að koma á fót samnorrænu doktorsnámi.

Hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu – þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta, og í framhaldi af því frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar. Ólafur Ísleifsson sótti fundi nefndarinnar í apríl og júní sem varamaður og Norðurlandaráðsþing í Osló í október sem aðalmaður. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Fjórar tillögur sem afgreiddar voru úr hagvaxtar- og þróunarnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um aðild að stéttarfélögum, um landsbundnar ráðgjafarnefndir um stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, um stefnu í samgöngumálum á Norðurlöndum og um góð starfsskilyrði í siglingum.

Sjálfbærninefnd.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd, náttúruauðlindir – þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar – þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórnun, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni. Vilhjálmur Árnason sótti alla fundi nefndarinnar á árinu. Kolbeinn Óttarsson Proppé sótti alla fundi nefndarinnar fram að Norðurlandaráðsþingi í Osló.
    Níu tillögur sem afgreiddar voru úr sjálfbærninefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um norræna samstöðu á vettvangi ESB um málefni skóga (tvær samnefndar tillögur), um sameiginlegan norrænan staðal um hafnargjöld á grundvelli umhverfissjónarmiða, um endurskoðun á tilskipun um móttökuaðstöðu í höfnum fyrir afhendingu úrgangs frá skipum, um minni losun frá siglingum á Norðurlöndum, um plastagnir í drykkjarvatni, um áhrif Norðurlanda í viðræðum um alþjóðlegan samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika, um þróun fyrirkomulags varðandi áhrif Norðurlanda í viðræðum um alþjóðlegan samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika og um nýja samstarfsáætlun á umhverfis- og loftslagssviði.

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á norræna velferðarlíkanið. Nefndin fæst m.a. við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda. Ólafur Ísleifsson sótti janúarfund nefndarinnar en eftir það fundi hagvaxtar- og þróunarnefndar. Steinunn Þóra Árnadóttir sótti alla fundi nefndarinnar fram að Norðurlandaráðsþingi en fluttist þá í forsætisnefnd. Kolbeinn Óttarsson Proppé sótti fund nefndarinnar í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Fimm tillögur sem afgreiddar voru úr velferðarnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um skyldubundna sáttameðferð fyrir forsjárhafa við skilnað að borði og sæng, um sameiginlega norræn jafnlaunavottun, um jafnrétti á vinnumarkaði, um forvarnir gegn kulnun í starfi, um samræmingu á löggjöf um hinsegin fólk á Norðurlöndum, um aukið norrænt samstarf í heilbrigðismálum og um framkvæmdaáætlun fyrir norrænt samstarf um málefni fatlaðs fólks 2018–2022.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgdist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Ólafur Ísleifsson átti sæti í eftirlitsnefndinni og var varaformaður hennar frá janúar og fram að Norðurlandaráðsþingi í október. Anna Kolbrún Árnadóttir leysti hann af á fundi nefndarinnar í Nuuk í september. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd. Enginn íslensku þingmaður átti sæti í nefndinni á þessu ári.

5. Fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda fjórum sinnum árið 2018, í janúar og september og í apríl og október í tengslum við þingfundi ráðsins. Á fundunum var fjallað um og afgreidd þau mál sem lögð voru til samþykktar fyrir þingfundi Norðurlandaráðs í apríl og október/nóvember eða fyrir forsætisnefnd milli þingfunda.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn þau Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Anna Kolbrún Árnadóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson og Vilhjálmur Árnason, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Fundurinn fór fram í sænska þinginu í Stokkhólmi. Í tengslum við fundinn var einnig haldið málþing um stafræna þróun.
    Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs 25. janúar var rætt um fjárhagsáætlun og áherslur í norrænu samstarfi fyrir árið 2019. Margot Wallström, utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda í Svíþjóð, og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, komu á fund forsætisnefndar til að ræða þessi mál. Fram kom í máli Høybråtens að fjárveitingar til norræns samstarfs hefðu verið skornar niður á árunum 2014–2016 en síðan þá hefðu þær verið óbreyttar. Wallström sagði að samstaða væri meðal samstarfsráðherra Norðurlanda um að halda þeim áfram óbreyttum árið 2019. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók til máls sem fulltrúi flokkahóps jafnaðarmanna og lýsti áhyggjum af því að fjárveitingar til norræns samstarfs hefðu dregist saman sem hlutfall af landsframleiðslu á síðustu árum. Hún lagði einnig áherslu á að séð yrði til þess að tillögur sem Norðurlandaráð samþykkti yrðu fjármagnaðar og að barátta gegn kynbundnu ofbeldi yrði framvegis í forgangi í norrænu samstarfi í ljósi metoo-byltingarinnar.
    Einnig var í þessu sambandi rætt um breytingar sem þá voru fyrirhugaðar á framlögum Norrænu ráðherranefndarinnar til rannsókna. Ráðgert var að skera niður í áföngum fasta árlega styrki til fjögurra rannsóknastofnana sem hafa verið starfandi áratugum saman, þar á meðal Norrænu eldfjallastöðvarinnar á Íslandi. Hinar þrjár stofnanirnar eru Norræna kjarneðlisfræðistofnunin í Stokkhólmi, Norræna sjóréttarstofnunin í Osló og Norræna stofnunin um Asíurannsóknir í Kaupmannahöfn. Fjármagninu átti í staðinn að úthluta í formi verkefnastyrkja sem hægt yrði að sækja um frá norrænu stofnuninni Nordforsk í Noregi. Sænski þingmaðurinn Hans Wallmark, lýsti áhyggjum af þessari ákvörðun og Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs, tók undir þær. Þeir sitja báðir í flokkahópi hægrimanna í Norðurlandaráði. Tveir danskir þingmenn úr öðrum flokkahópum, Christian Juhl úr flokkahópi norrænna vinstri grænna og Bertel Haarder úr flokkahópi miðjumanna, töldu einnig að kanna þyrfti málið betur. Haarder mælti með því að eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs yrði falið að athuga rannsóknastofnanirnar fjórar og einnig Nordforsk og jafnvel fleiri þætti í rannsóknasamstarfi Norðurlanda. Tillaga Norrænu ráðherranefndarinnar um niðurskurð fjárframlaga til stofnananna fjögurra var samþykkt á fundi þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs í Stokkhólmi en hún var einnig á dagskrá vorþings Norðurlandaráðs á Akureyri í apríl 2018.
    Á fundi forsætisnefndar var töluvert rætt um skipulag funda Norðurlandaráðs. Fundirnir eru haldnir til skiptis í norrænu löndunum, þ.m.t. á Grænlandi, Álandseyjum og Færeyjum. Að jafnaði eru stærri fundir ráðsins haldnir í höfuðborgum. Skrifstofa Norðurlandaráðs hafði tekið saman tillögur að ýmsum breytingum á skipulaginu, m.a. í því skyni að draga úr kostnaði við framkvæmdina, ekki síst vegna þess að óskir um túlkun og kostnaður sem henni fylgir hafa aukist á síðustu árum. Skiptar skoðanir voru um það hvort setja ætti fastar reglur um það að halda ætti alla stærri fundi í höfuðborgum til að draga úr kostnaði og ferðatíma þingmanna og jafnframt um tillögu um að halda alltaf janúarfundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn á skrifstofu Norðurlandaráðs. Jafnframt mótmæltu sumir hugmyndum um að fækka árlegum fundum ráðsins um einn.
    Skrifstofa Norðurlandaráðs kynnti einnig á fundinum ýmsa valkosti varðandi skilgreiningu á stöðu tungumála í norrænu samstarfi í tengslum við sameiginlega tillögu Finna og Íslendinga um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin. Sú tillaga var lögð fram árið 2016 og hefur síðan ítrekað verið rædd og skoðuð á vettvangi ráðsins. Í minnisblaði skrifstofu Norðurlandaráðs var m.a. bent á þann möguleika að skilgreina skandinavísku málin áfram sem vinnutungumál en að finnska og íslenska teldust ásamt skandinavísku málunum vera opinber tungumál samstarfsins. Einnig var nefndur sá möguleiki að allir þingmenn fengju að tala og skrifa á eigin tungumáli en að allt efni yrði aðeins túlkað og þýtt á ensku. Finnski þingmaðurinn Erkki Tuomioja benti á að enn væri ekki búið að greina nákvæmlega hvaða afleiðingar það hefði og hvað þyrfti að gera til að hrinda í framkvæmd upprunalegri tillögu Íslendinga og Finna. Tuomioja vildi að lögð yrði áhersla á það verkefni. Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og þingmaður Framsóknarflokks, tók undir orð Tuomioja og sagði að með breytingum á skipulagi funda Norðurlandaráðs og með tæknilegum lausnum, t.d. með því að nota fjartúlkun, mætti bæta þjónustu án þess að setja Norðurlandaráð á hliðina fjárhagslega.
    Meðal annarra mála sem voru til umræðu á fundi forsætisnefndar voru breytingar á skipulagi verðlauna Norðurlandaráðs, stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum og formennskuáætlun Svía í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2018.
    Á fundinum var samþykkt skipan þingmanna Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í nefndir. Oddný G. Harðardóttir hélt sæti sínu í forsætisnefnd og Silja Dögg Gunnarsdóttir tók einnig sæti þar. Einnig var samþykkt að Oddný yrði áheyrnarfulltrúi og skýrslugjafi forsætisnefndar gagnvart Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál (SCPAR) og að Silja Dögg yrði í sama hlutverki gagnvart þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC). Steinunn Þóra Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson og Anna Kolbrún Árnadóttir tóku sæti í velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Anna Kolbrún kom þó ekki á fund velferðarnefndar í Stokkhólmi heldur sat í staðinn fund þekkingar- og menningarnefndar sem varamaður. Ólafur var einnig skipaður varaformaður eftirlitsnefndar. Vilhjálmur Árnason og Kolbeinn Óttarsson Proppé tóku sæti í sjálfbærninefnd.

Þemaþing Norðurlandaráðs á Akureyri.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið þau Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ólafur Ísleifsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Vilhjálmur Árnason, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Á fundinn komu jafnframt Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
    Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, setti þingið. Í setningarræðu sinni lýsti hann sterkri trú á framtíð norræns samstarfs og sagði m.a.: „Norrænt samstarf er og mun áfram vera hornsteinn í alþjóðlegu þingmannasamstarfi okkar. Við eigum mörg sameiginleg gildi, m.a. hvað varðar jafnrétti, umhverfisvernd og lýðræði. Í heimi sem stendur frammi fyrir stríði, óstöðugleika, róttækri þjóðernishyggju og öfgastefnu víða um lönd þurfa Norðurlönd að standa saman. Umheimurinn hefur jafnframt þörf fyrir sameinuð og sterk Norðurlönd sem geta stuðlað að betri heimi á grundvelli sameiginlegra gilda sinna.“
    Þema þingsins var hafið og tengdist bæði formennskuáætlun Norðmanna í Norðurlandaráði 2018, en þar er lögð áhersla á umhverfis- og öryggismál á sjó, og sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna númer 14 um að vernda og nýta auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt. Af þessu tilefni óskaði Norðurlandaráð eftir greinargerð frá Norrænu ráðherranefndinni um stöðu Norðurlanda gagnvart þessu markmiði. Sigurður Ingi Jóhannsson kynnti greinargerðina á þinginu og sagði að Norðurlönd stæðu framarlega þegar kæmi að málefnum hafsins, hvort sem litið væri til hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sjálfbærrar nýtingar, verndunar fiskstofna, stjórnunar hafsvæða eða baráttunnar gegn mengun frá landi. „En við vitum jafnframt að við þurfum að gera betur. Áhrif loftslagsbreytinga á fiskistofna, vaxandi vandi vegna súrnunar hafsins, mengun í Eystrasaltinu og síaukin plastmengun í höfunum allt í kringum okkur, og árekstrar vegna mismunandi nýtingar hafsvæða; allt eru þetta áskoranir sem þola ekki bið,“ sagði Sigurður Ingi m.a. Í umræðum í kjölfarið sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, að með auknum rannsóknum og nýsköpun væri hægt að afla aukinna verðmæta úr hafinu og fá þannig jafnframt aukna fjármuni til að vernda það. Í þessu sambandi væri samspil ríkisstjórna og atvinnulífs mikilvægt þannig að leikreglur hvettu fyrirtæki til að taka þátt í nýtingu og verndun hafsins. Hann nefndi íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sem dæmi um vel heppnað fyrirkomulag að þessu leyti enda hefði íslenskur sjávarútvegur náð miklum árangri í umhverfismálum. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði að hugsunarháttur fyrri tíma um að hafið gæti „lengi tekið við“ væri sem betur fer úr sögunni. Engu að síður væri þörf á að taka til hendinni á ýmsum sviðum, t.d. varðandi plast, eldsneyti og úrgang frá skipum sem fer út í hafið. Kolbeinn sagði að sjálfbærnihugsunin þyrfti að ná til allrar starfsemi sem tengdist hafinu, þar á meðal sjávarútvegs, fiskeldis, ferðamennsku og daglegs lífs í byggðum landa.
    Á dagskrá þingsins var tillaga frá Norrænu ráðherranefndinni um að beinni fjármögnun fjögurra norrænna samstarfsstofnana sem heyra undir ráðherra menntamála og rannsókna á Norðurlöndum, þar á meðal Norræna eldfjallasetursins í Reykjavík, verði hætt í áföngum og að fjármununum verði í staðinn úthlutað sem styrkjum til tímabundinna rannsóknarverkefna. Markmiðið er að auka sveigjanleika, að fjármögnun ráðist af rannsóknarstefnu landanna hverju sinni og að hún fari fram á samkeppnisgrundvelli. Íslandsdeild Norðurlandaráðs lagði á þinginu fram tillögu um að Norðurlandaráð frestaði ákvörðun um málið og fæli Norrænu ráðherranefndinni að gera úttekt annars vegar á áhrifum ákvörðunarinnar á starfsemi stofnananna fjögurra sem ráðgert er að Norræna ráðherranefndin hætti að fjármagna og hins vegar á stofnuninni NordForsk sem á að fá til ráðstöfunar og úthlutunar þá fjármuni sem áður fóru til hinna stofnananna. Í tillögunni er m.a. bent á að stofnanirnar fjórar hafa starfað áratugum saman við góðan orðstír og að þær hafi komið mjög vel út úr óháðu mati. „Í umfjöllun um málið hefur komið fram að ekki er uppi óánægja með störf stofnananna fjögurra. Íslandsdeildin telur því innviði og reynslu þessara stofnana sérstök verðmæti sem ekki má kasta á glæ nema fyrir því séu haldbær og mjög sterk rök“, segir m.a. í tillögunni. Í ljós kom að afstaða Íslendinga naut verulegs stuðnings í öllum flokkahópum. Þegar kom að málinu á dagskrá þemaþingsins lagði Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs, því til að meðferð málsins yrði frestað. Hann vísaði bæði til þeirra efasemda sem komið höfðu fram á fundum flokkahópanna og til þess að Norræna ráðherranefndin hefði gefið til kynna að hún sækti það ekki mjög fast að tillagan yrði samþykkt í núverandi mynd. Hann sagði einnig frá því að hann hefði beðið skrifstofu Norðurlandaráðs um að senda Norrænu ráðherranefndinni bréf með ósk um nánari upplýsingar til að Norðurlandaráð væri betur í stakk búið til að fjalla um málið síðar. Tillaga Tetzschners var samþykkt athugasemdalaust.
    Tillaga Norrænu ráðherranefndarinnar um framkvæmdaáætlun fyrir norrænt samstarf um málefni fatlaðs fólks fyrir tímabilið 2018–2022 var samþykkt samhljóða. Steinunn Þóra Árnadóttir var talsmaður flokkahóps Norrænna vinstri grænna í umræðum um framkvæmdaáætlunina. Hún lýsti ánægju sinni með að gott samráð hefði verið haft við hagsmunasamtök fatlaðra við gerð áætlunarinnar og vonaðist til þess að það samtal héldi áfram á gildistíma áætlunarinnar.
    Á þinginu var einnig m.a. samþykkt tillaga frá flokkahópi norrænna vinstri grænna um að draga úr losun frá skipum í siglingum á Norðurlöndum, tillaga frá flokkahópi jafnaðarmanna um skipulag vinnumarkaðar og aðild að stéttarfélögum, tillaga um samgöngumál frá hagvaxtar- og þróunarnefnd Norðurlandaráðs þar sem m.a. er lagt til að ráðherranefnd samgöngumála verði endurreist, tillaga frá flokkahópi jafnaðarmanna um norræn áhrif á og samstarf við G20-ríkin, tillaga frá flokkahópi hægrimanna um samstarf Norðurlanda um heildarvarnir, hættuástand og dreifingaröryggi og tillaga frá norrænum vinstri grænum um samræmingu löggjafar um hinsegin fólk á Norðurlöndum. Tillaga frá flokkahópi vinstri grænna um kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi var samþykkt með töluverðum breytingum.

Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Noregi.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn þau Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður og Oddný G. Harðardóttir varaformaður, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Sumarfundur forsætisnefndar var að þessu sinni haldinn á herragarðinum Hoel Gård við vatnið Mjøsa, norður af Osló.
    Á dagskrá fundarins var m.a. sameiginleg tillaga Finna og Íslendinga um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin. Samkvæmt núgildandi reglum eru sænska, norska og danska vinnutungumál í ráðinu en finnskir og íslenskir þingmenn geta fengið túlkun á fundum. Jafnframt er hluti fundargagna þýddur á tungumálin tvö. Tillagan um að jafna stöðu tungumálanna hefur verið til umræðu í Norðurlandaráði um skeið og vakti mikla athygli fjölmiðla í Finnlandi þegar hún var til meðferðar á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki 2017. Fyrir forsætisnefndarfundinn hafði skrifstofa Norðurlandaráðs skilgreint fjóra mismunandi valkosti um stöðu tungumálanna. Fyrsti kosturinn var óbreytt ástand, annar að fallast á ýtrustu kröfur Íslendinga og Finna, sá þriðji var málamiðlunartillaga sem kom að hluta til móts við kröfurnar og sá fjórði að innleiða ensku í auknum mæli í starfi Norðurlandaráðs. Landsdeildir Íslands og Finnlands höfðu ákveðið fyrir fram að styðja málamiðlunartillöguna sem felur í sér að íslenska, finnska og skandinavísku málin verði öll gerð að opinberum tungumálum Norðurlandaráðs en að á skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn verði eingöngu notast við sænsku, dönsku og norsku. Tillagan felur í sér árlega kostnaðaraukningu fyrir Norðurlandaráð upp á um 3 millj. danskra kr. Á fundinum lýstu Erkki Tuomioja, formaður landsdeildar Finnlands, Oddný G. Harðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir skilningi á því að finna yrði málamiðlun en Silja Dögg sagði jafnframt að Íslendingar myndu ekki sætta sig við óbreytt ástand. Hún tók jafnframt fram að Íslendingar vildu alls ekki taka upp ensku á fundum Norðurlandaráðs. Eftir töluverðar umræður þar sem ýmsir skandinavískir þingmenn lýstu áhyggjum sínum af auknum kostnaði vegna breytinganna og þar sem rætt var um erfiðleika við að finna túlka var að lokum samþykkt að fela skrifstofu Norðurlandaráðs að vinna áfram að málinu á grundvelli málamiðlunartillögu C, þeirrar sem Íslendingar og Finnar höfðu lýst stuðningi við. Ráðgert var að ræða tillöguna aftur á fundum Norðurlandaráðs í september og að taka endanlega ákvörðun á Norðurlandaráðsþingi í Osló í lok október.
    Af öðrum málum má nefna að tillaga frá flokkahópi jafnaðarmanna um að efla rannsóknir á plastögnum í drykkjarvatni á Norðurlöndum og á áhrifum þeirra á heilbrigði var samþykkt mótatkvæðalaust. Einnig var samþykkt tillaga um að kanna grundvöll fyrir auknu markaðsstarfi Norðurlanda í Bandaríkjunum og Kanada og samstarfi norrænna landa um það. Jafnframt samþykkti forsætisnefnd tillögu frá flokkahópi miðjumanna um að fela Norrænu ráðherranefndinni að kanna möguleika á að innleiða þá starfshætti að samnorrænt áhrifamat fari fram á löggjafarstarfi þar sem norrænu ríkin ráðast sameiginlega í framkvæmd á lagagerningum ESB. Tillaga um að hvetja Norrænu ráðherranefndina til að bjóðast til að miðla málum í deilunum um stöðu Katalóníu gagnvart Spáni var felld eftir töluverðar umræður.
    Í tengslum við fundinn sótti Oddný G. Harðardóttir jafnframt ráðstefnu um norræn varnar- og öryggismál og tók þátt í hringborðsumræðum um sama efni í Osló. Hún heimsótti einnig miðstöð um net- og upplýsingaöryggismál (n. Senter for cyber- og informasjonssikkerhet) í bænum Gjøvik.

Fundir Norðurlandaráðs í Nuuk.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn þau Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður og Oddný G. Harðardóttir varaformaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason og Guðmundur Ingi Kristinsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Septemberfundir Norðurlandaráðs voru að þessu sinni haldnir í Nuuk á Grænlandi.
    Á dagskrá fundarins var m.a. sameiginleg tillaga Finna og Íslendinga um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin. Á fundi forsætisnefndar var samþykkt að styðja breytingu á starfsreglum Norðurlandaráðs þess efnis að sænska, danska, norska, íslenska og finnska yrðu opinber tungumál Norðurlandaráðs. Endanleg ákvörðun um breytinguna var síðan tekin á Norðurlandaráðsþingi í Osló. Á skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn verður eins og áður unnið á sænsku, dönsku og norsku, en tryggja á að hverju sinni séu á skrifstofunni starfsmenn með góða kunnáttu í öllum tungumálunum fimm. Jafnframt verður í fyrsta sinn tekið fram í starfsreglunum að ekki eigi að þýða eða túlka milli sænsku, dönsku og norsku. Breytingin tekur gildi 1. janúar 2020. Enn á eftir að taka ákvörðun um hversu langt verður gengið í að efla þýðingar og túlkun fyrir finnska og íslenska þingmenn en rætt hefur verið um að auka þá þjónustu verulega. Skammt er síðan íslenskur starfsmaður var ráðinn í fyrsta sinn á túlka- og þýðingadeild Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.
    Af öðrum málum má nefna að samþykkt var tillaga um að hvetja Norrænu ráðherranefndina til að styðja áform ólympíu- og íþróttasambanda norrænna landa um að Norðurlönd verði fyrsta svæði í heimi sem kemur á fót kerfi um gagnkvæma viðurkenningu á refsiaðgerðum vegna hagræðingar úrslita í íþróttakappleikjum. Það felur í sér að íþróttafólk sem hefur tekið þátt í hagræðingu úrslita íþróttakappleikja í einu landi og hefur verið sett í bann vegna þess verði einnig útilokað frá íþróttinni í öðrum norrænum löndum.
    Samþykkt var tillaga sem upprunalega er komin frá norrænu félögunum um að hvetja þing Norðurlanda til að draga á stöng þjóðfána norrænu landanna og norræna svansfánann á degi Norðurlanda 23. mars á hverju ári. Í minnisblaði með tillögunni kemur fram að þessi háttur hafi þegar verið tekinn upp í þingunum í Danmörku og Noregi. Á Íslandi var flaggað á degi Norðurlanda 2018 en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið. Færeyingar ganga lengst allra í þessum málum því að þar eru allir þjóðhátíðardagar norrænu ríkjanna og dagur Norðurlanda almennir fánadagar.

Norðurlandaráðsþing í Osló.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn þau Oddný G. Harðardóttir starfandi formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason og Ólafur Ísleifsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Einnig komu á þingið Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. Norðurlandaráðsþing var að þessu sinni haldið í Stórþinginu í Osló.
    Nokkrar breytingar á nefndarsetu íslensku þingmannanna voru samþykktar í tengslum við þingið. Steinunn Þóra Árnadóttir fluttist úr velferðarnefnd í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Kolbeinn Óttarsson Proppé fór úr sjálfbærninefnd í velferðarnefnd og Ólafur Ísleifsson fluttist úr velferðarnefnd í hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Á þinginu var samþykkt tillaga um að gera íslensku og finnsku að opinberum tungumálum í Norðurlandaráði til jafns við sænsku, dönsku og norsku. Það voru landsdeildir Finnlands og Íslands sem upprunalega óskuðu eftir því að jafna stöðu tungumálanna í Norðurlandaráði. Sú tillaga sem samþykkt var á Norðurlandaráðsþingi var málamiðlun en felur í sér að túlkun og þýðingar aukast verulega á fundum Norðurlandaráðs. Enn á þó eftir að ræða nánari útfærslu. Í tillögunni segir einnig að skrifstofa Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn eigi framvegis alltaf að vera þannig mönnuð að til staðar sé góð kunnátta í öllum málunum fimm. Vinnutungumálin á skrifstofunni verða þó eftir sem áður sænska, danska og norska.
    Samþykkt var tillaga frá flokkahópi jafnaðarmanna um samnorræna jafnlaunavottun sem byggist á reynslu Íslendinga á þessu sviði. Velferðarnefnd Norðurlandaráðs hafði tillöguna til ítarlegrar meðferðar og umræðu og lagði til ýmsar viðbætur. Í tillögunni eins og hún var samþykkt á Norðurlandaráðsþingi eru tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar um að aðstoða ríkisstjórnir Norðurlanda við gerð samnorrænnar jafnlaunavottunar, um að miðla milli Norðurlanda góðum dæmum um aðgerðir gegn kynjuðu námsvali til að forðast kynjaskiptan vinnumarkað og um að miðla góðum dæmum um tækifæri til að velja fullt starf í stað hlutastarfs.
    Á þinginu var samþykkt samhljóða tillaga um að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að láta gera úttekt á tækifærum til aukins norræns samstarfs í Norður-Ameríku, m.a. í tengslum við kynningarstarf og í samstarfi milli norrænna sendiskrifstofa. Oddný G. Harðardóttir mælti fyrir málinu fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Hún benti á að í Bandaríkjunum og Kanada væru tólf milljónir manna sem skilgreindu sig sem norrænnar ættar og í því fælust mikil tækifæri til samstarfs og norrænna áhrifa.
    Í þinginu var tekin til fyrstu umræðu tillaga frá flokkahópi hægri manna, sem komin er til að frumkvæði Vilhjálms Árnasonar, um samstarf norrænna lögregluyfirvalda gegn tölvubrotum og á sviði réttartækni.
    Kolbeinn Óttarsson Proppé mælti fyrir tillögu frá flokkahópi vinstri grænna um að ríkistjórnir Norðurlanda ynnu saman að því að draga úr og hætta vinnslu jarðanefnaeldsneytis á Norðurlöndum fyrir árið 2030. Kolbeinn sagði að Norðurlöndum og öðrum vel stæðum löndum bæri sérstök skylda til að bregðast af krafti við þeim alvarlega vanda sem steðjaði að í loftslagsmálum.
    Sænski þingmaðurinn Jessica Polfjärd var kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2019. Hún er úr Hægriflokknum (Moderaterna) og hefur setið á þingi frá árinu 2006 og var í Norðurlandaráði fram til ársins 2010. Hún var þingflokksformaður Hægriflokksins 2015–2017. Polfjärd tekur við forsetaembættinu af norska þingmanninum Michael Tetzschner. Í ræðu Polfjärd eftir kjörið kom fram að í formennskutíð Svía yrði lögð áhersla á jafnrétti, loftslagsmál, stjórnsýsluhindranir og lýðræði. Sænski jafnaðarmaðurinn Gunilla Carlsson var kjörin varaforseti. Aðildarlöndin skiptast á að fara með formennsku í Norðurlandaráði. Næst kemur að Íslandi árið 2020.
    Íslendingar hlutu tvenn af fimm verðlaunum Norðurlandaráðs sem afhent voru við hátíðlega athöfn í óperuhúsinu í Osló 30. október í tengslum við þingið. Auður Ava Ólafsdóttir fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Ör og Benedikt Erlingsson hlaut kvikmyndaverðlaunin fyrir myndina Kona fer í stríð. Þetta er í annað sinn sem Benedikt hlýtur verðlaunin. Færeyski rithöfundurinn Bárður Oskarsson hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndabókina Træið, tónlistarverðlaunin komu í hlut norska tónskáldsins Nils Henrik Asheim fyrir verkið Muohta og náttúruauðlindaráðið í Attu á vesturströnd Grænlands fékk umhverfisverðlaunin fyrir starf að skrásetningu upplýsinga um hafsvæði og tillögur um stjórnun þeirra.
    Forsætisráðherrar Norðurlanda funduðu með forsætisráðherra Bretlands í Osló undir yfirskriftinni Northern Future Forum dagana 29.–31. október, en þetta var í sjötta sinn sem slíkur fundur er haldinn. Að þessu sinni var þema fundarins þróun og nýsköpun á sviði heilsutækni og heilbrigðismála. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti jafnframt tvíhliða fundi með May, Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands.
    Að forsætisráðherrafundunum loknum ávarpaði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, Norðurlandaráðsþing. May lagði áherslu á að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu þýddi ekki að Bretar væru að snúa baki við heiminum og því síður Norðurlöndunum. Bretar myndu áfram vera virkir þátttakendur í starfi Sameinuðu þjóðanna, NATO, Northern Future Forum og öðru fjölhliða og tvíhliða samstarfi við Norðurlönd. Hún nefndi að Norðurlandaþjóðirnar og Bretland ættu samleið í ýmsum málum, þar á meðal í þróunar- og umhverfismálum, og sagði í því sambandi að hún fagnaði þeirri áherslu sem Íslendingar ætluðu að leggja á hafið í formennskutíð sinni í Norðurskautsráðinu frá 2019. May sagði að Norðurlönd og Bretland þyrftu að taka höndum saman um að verja sameiginleg gildi landanna sem tengjast lýðræði, jafnrétti og mannréttindum og vinna gegn öflum sem reyndu að grafa undan alþjóðakerfinu og reglum þess. Hún nefndi þar sérstaklega hvernig Rússar hefðu nýlega beitt efnavopnum í Bretlandi og að þar hefðu Norðurlöndin fimm öll sýnt Bretum stuðning.
    Að ræðu Theresu May lokinni beindu fulltrúar flokkahópa til hennar fyrirspurnum. Efni þeirra snerist fyrst og fremst um það hvernig tryggja mætti áframhaldandi samstarf landanna, viðskipti og frjálsa för. Finnski þingmaðurinn Wille Rydman, talsmaður flokkahóps hægrimanna, sagðist harma úrsögn Bretlands úr ESB vegna þess að Bretar hefðu verið öflugir bandamenn Norðurlanda þar. Hann spurði hvernig Bretland hygðist sinna mikilvægu hlutverki sínu í evrópskum öryggismálum framvegis. May sagði að Bretar hygðust áfram leggja áherslu á öryggismál á norðurslóðum og kanna möguleika á tvíhliða samstarfi og taka höndum saman við önnur lönd þegar aðstæður krefjast þess eins og gerðist í tengslum við efnavopnaárás Rússa í Salisbury í Bretlandi. Danski þingmaðurinn Christian Juhl, sem var talsmaður flokkahóps norrænna vinstri grænna, sagði að flokkahópur hans vonaðist til þess að framvegis yrði auðveldara fyrir lönd að segja sig úr Evrópusambandinu, úrsögn Breta hefði verið of flókið ferli. Hann sagðist þó vonast til þess að Bretar veldu „mjúka“ úrsögn. Hann spurði May hvaða leið Bretar myndu fara í umhverfis- og loftslagsmálum eftir úrsögn, hvort áfram yrði starfað í evrópskum og norrænum anda og á grundvelli samninga eða hvort farið yrði að fyrirmynd Bandaríkjamanna sem farið hefðu sínar eigin leiðir á síðustu árum. May sagði að Bretar hefðu ekki fylgt í fótspor Bandaríkjamanna, að þeir yrðu áfram aðilar að Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum og myndu sýna metnað í þessum málum.
    Forsætisráðherrar Norðurlanda fluttu að vanda framsögur og sátu fyrir svörum á þinginu. Katrín Jakobsdóttir fjallaði í ræðu sinni um áhrif nýrrar tækni á pólitíska umræðu. Hún væri að sumu leyti til góðs en jafnframt væri hægt að nýta hana til skaðlegs áróðurs með því að misnota persónulegar upplýsingar og senda sérsniðnar, falskar og villandi upplýsingar til einstaklinga eða hópa í því skyni að skapa glundroða. Í þessu fælist áskorun fyrir opin samfélög á borð við Norðurlönd sem byggjast á trausti. Hún sagðist þó bjartsýn á að hægt væri að takast á við þessar áskoranir með hjálp menntunar og með því að gera fólk meðvitað um hætturnar. Katrín kynnti jafnframt á þinginu formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Í henni er lögð áhersla á þrjú málefni: Ungt fólk, sjálfbæra ferðamennsku og málefni hafsins.
    Í fyrirspurnum til forsætis- og samstarfsráðherra lögðu Steinunn Þóra Árnadóttir og Oddný G. Harðardóttir áherslu á jafnréttismál og misskiptingu auðs. Oddný spurði Margot Wallström, utanríkis- og samstarfsráðherra Svíþjóðar, hvort Norðurlönd þyrftu ekki að snúa bökum saman til að verja sjálfsákvörðunarrétt kvenna í ljósi pólitískrar þróunar á Norðurlöndum, víðar í Evrópu og í Bandaríkjunum. Wallström tók undir orð Oddnýjar og sagði það áhyggjuefni að kvenfjandsamlegir einræðisherrar hefðu komist til valda víða um heim.

Forsætisnefndarfundur í Espoo.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Oddný G. Harðardóttir, starfandi formaður, og Steinunn Þóra Árnadóttir, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Fundur forsætisnefndar var að þessu sinni haldinn í sænsk-finnsku menningarmiðstöðinni Hanaholmen í Espoo í Finnlandi.
    Ýmsir hliðarviðburðir voru haldnir í tengslum við forsætisnefndarfundinn og var meginþema þeirra samfélagsöryggi. Dagskráin mánudaginn 10. desember hófst á námsstefnu þar sem sérfræðingar fluttu erindi um öryggismál og svæðisbundið samstarf á Eystrasaltssvæðinu. Meðal fyrirlesara voru Kirsti Narinen, sem starfar fyrir öndvegissetur um blandaðar ógnir í Helsinki þar sem ýmis ESB- og NATO-lönd vinna saman, Jarkko Saarimäki, forstjóri finnsku netöryggismiðstöðvarinnar, og Kadri Kaska frá öndvegissetri NATO í netöryggismálum í Tallinn. Í erindunum og pallborðsumræðunum sem fram fóru í kjölfarið var fjallað vítt og breitt um þetta svið og m.a. komið inn á blandaðar ógnir (e. hybrid threats), net-, orku- og samgönguöryggi. Mikael Wigell frá finnsku alþjóðamálastofnuninni sagði frá blönduðum ógnum og þeim aðferðum sem ákveðin ríki beita til að grafa undan öðrum. Reynt er að ýta undir deilur milli innlendra aðila og m.a. reynt að virkja ýmsa minnihlutahópa í þessu skyni, falsfréttum er dreift og efnahagslegum áhrifum beitt þar sem það er hægt. Sem dæmi um síðastnefndu aðferðina nefndi hann hvernig Rússar hefðu notað gasleiðslur sem liggja frá Rússlandi í gegnum Úkraínu til Vestur-Evrópu til að hafa efnahagsleg og pólitísk áhrif. Wigell sagði að vestræn ríki væru að mörgu leyti viðkvæm fyrir blönduðum ógnum vegna þess hversu þau væri opin og vegna þess að ríkisvaldið í þessum löndum stjórnar ekki fréttaflutningi og starfsemi fyrirtækja. Þannig væri hægt að koma villandi upplýsingum á framfæri við frjálsa fjölmiðla og nýta sér opin hagkerfi ríkjanna til að valda glundroða.
    Að námsstefnunni lokinni var haldinn árlegur fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með fulltrúum forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins sem eru samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litháens. Þar var m.a. rætt um minnihlutahópa í Eystrasaltsríkjunum og réttindi þeirra. Christian Juhl, þingmaður danska einingarlistans (Enhedslisten), sagði að það væri lykillinn að góðu samkomulagi Þjóðverja og Dana nú á dögum að Dönum væri samkvæmt samkomulagi landanna frá 1920 – þegar Danir endurheimtu ákveðin landamærasvæði með dönskumælandi íbúum – heimilt að styðja með ýmsum hætti danska minni hlutann í Þýskalandi og Þjóðverjar fengju á móti að styðja þýska minni hlutann í Danmörku. Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna, Janis Vucans frá Lettlandi og Aadu Must og Johannes Kert frá Eistlandi, lýstu því hversu flókin staða rússneskumælandi minnihlutahópa væri í löndum þeirra. Misjafnt er eftir löndum hvers fjölmennir rússneskumælandi íbúar eru, sumir þeirra hafa búið í löndunum síðan fyrir rússnesku byltinguna 1917, aðrir komu á síðustu árum Sovétríkjanna. Flestir eru frá Rússlandi en einnig eru allmargir frá Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og fleiri fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna. Einnig eru viðhorfin mismunandi milli kynslóða. Must sagði frá því að hann hefði nýlega heimsótt rússneskumælandi fjölskyldu í borginni Narva í Eistlandi. Þar hefði amman lýst yfir söknuði eftir Sovétríkjunum, næsta kynslóð var hæstánægð og stolt af því að vera rússneskumælandi Eistlendingar, en barnabörnin vildu læra ensku og flytja til Bandaríkjanna. Johannes Kert talaði um að líta þyrfti á rússneskumælandi minni hlutann í Eystrasaltsríkjunum sem auðlind, ekki vandamál, en benti jafnframt á að rússnesk yfirvöld ýttu undir erfiðleika með því að dreifa áróðri sem útmálaði minnihlutahópana í Eystrasaltsríkjunum sem fórnarlömb kúgunar.
    Á fundi forsætisnefndanna tveggja sögðu þingmenn einnig frá ýmsum málum sem eru ofarlega á baugi í löndunum. Oddný G. Harðardóttir sagði frá svonefndu Klaustursmáli á Íslandi og sagði að álit Alþingis hefði skaðast vegna þess. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði frá hátíðarhöldum í tilefni af 100 ára fullveldisafmælinu og heimsókn Danadrottningar. Hún sagði að það væri ánægjulegt að þrátt fyrir ólgu vegna Klaustursmáls hefði verið hægt að halda opið hús á Alþingi sem tekist hefði vel. Við ýmsa erfiðleika væri að stríða en lýðræði stæði samt sterkum fótum á Íslandi.
    Mánudagsmorguninn 11. desember hófst dagskráin með fundi nýstofnaðs vinnuhóps forsætisnefndar Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi. Oddný G. Harðardóttir á sæti í hópnum. Á fundinum var rætt um hlutverk hópsins og starfshætti og finnski þingmaðurinn Wille Rydman skipaður formaður hópsins. Oddný nefndi fæðu-, lyfja- og netöryggi sem viðfangsefni fyrir hópinn og tók jafnframt undir tillögu frá Christian Juhl um að skoða mætti vandamál tengd loftslagsbreytingum. Hún sagði að jafnframt þyrfti að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að aðgerðir til að auka samfélagsöryggi græfu undan grundvallargildum norræns samfélags.
    Helstu mál á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs voru fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og endurskoðun á fyrirkomulagi verðlauna Norðurlandaráðs. Norðurlandaráð hefur ákveðið að reyna að hafa meiri áhrif en áður á fjárhagsáætlun norræns samstarfs en þingmenn telja að ráðherrar og Norræna ráðherranefndin hafi ráðið of miklu fram að þessu. Á fund forsætisnefndarinnar í Espoo komu formenn fagnefnda Norðurlandaráðs og sögðu frá áherslum þeirra varðandi fjárhagsáætlunina.
    Unnið er að endurskoðun á fyrirkomulagi verðlauna Norðurlandaráðs. Fengin voru tvö dönsk ráðgjafarfyrirtæki til að vinna skýrslu um verðlaunin og hugsanlegar umbætur. Í skýrslunni er m.a. lagt til að einni stofnun eða skrifstofu verði falið að hafa umsjón með öllum verðlaununum til að auka samhæfingu og samfellu í starfinu. Umsjón verðlaunanna skiptist nú á þrjá staði. Norræna húsið á Íslandi hefur umsjón með bókmennta-, barna- og unglingabókmennta- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs en aðrir aðilar hafa umsjón með tónlistar- og kvikmyndaverðlaunum ráðsins. Í skýrslunni er jafnframt lagt til að dregið verði úr fjölda tilnefninga og vandað verði meira til þeirra, að unnin verði samhæfð kynningaráætlun, að unnið verði yfirlit yfir allan kostnað vegna verðlaunanna, að tryggð verði ákveðin lágmarksfjárhæð til verðlaunaafhendingarinnar þannig að minni munur verði á gæðum verðlaunahátíðarinnar milli ára og að meiri áhersla verði lögð á einstaklinga úr menningar- og umhverfisgeiranum fremur en embættis- og stjórnmálamenn í tengslum við afhendinguna. Sjálfbærninefnd og þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráð hafa skilað umsögnum um tillögurnar og taka undir margar þeirra en með ýmsum fyrirvörum. Á fundi forsætisnefndar lagði norski þingmaðurinn Jorodd Asphjell áherslu á að verðlaunabækur yrðu þýddar á tungumál minni málsvæða á Norðurlöndum, þ.e. íslensku, færeysku, grænlensku og samísku. Fram kom að ef fyrirkomulagi verðlaunaafhendingarinnar yrði breytt myndi það í fyrsta sinn koma til framkvæmda á Norðurlandaráðsþingi á Íslandi árið 2020.

6. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins í Hamborg.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sótti fundinn Kolbeinn Óttarsson Proppé, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Silja Dögg Gunnarsdóttir sat fundinn sem fulltrúi Norðurlandaráðs. Sumarfundur forsætisnefndar var að þessu sinni haldinn í þinghúsinu í Maríuhöfn á Álandseyjum. Um 100 þingmenn frá löndunum við Eystrasalt auk Noregs, Íslands og Færeyja, sem einnig eiga aðild að samtökunum, sátu fundinn en alls voru þátttakendur um 170.
    Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Gun-Mari Lindholm, forseti þings Álandseyja, töluðu við setningu fundarins í þinghúsi Álandseyja. Niinistö lagði áherslu á umhverfismál í ávarpi sínu og nefndi sérstaklega vanda vegna ofauðgunar næringarefna í Eystrasalti og plastmengun. Hann sagði að þörf væri á aðgerðum strax, ábyrgðin ætti ekki að hvíla á herðum komandi kynslóða. Lindholm fjallaði um sögu Álandseyja og stöðu eyjanna nú til dags en þær öðluðust sjálfsstjórn, sem hluti af Finnlandi, og voru jafnframt skilgreindar sem herlaust svæði samkvæmt ákvörðun Þjóðabandalagsins árið 1921. Lindholm sagði að þetta væri enn mikilvæg undirstaða öryggismála á Eystrasaltssvæðinu. Paula Lehtomäki, aðstoðarmaður forsætisráðherra Finnlands, sagði enn fremur frá gerð áætlunar finnsku ríkisstjórnarinar um málefni Eystrasaltsins, en í henni er lögð áhersla að tryggja sjálfbæran vöxt með því að standa vörð um hafið, á þróun sjávarklasa og bláa hagkerfið og á skipulag flutninga og aðföng.
    Meginviðfangsefni ársfundarins var að ræða drög að ályktun um almenna samvinnu, sjálfbærni og snjallorku (e. smart energy) sem fastanefnd og sérstök undirbúningsnefnd samtakanna hafði tekið saman í aðdraganda ársfundarins. Sérstök umræða fór fram um hvern þessara þriggja liða í ályktuninni. Undir fyrsta lið sagði Jörgen Pettersson, þingmaður frá Álandseyjum og fráfarandi forseti BSPC, frá starfsemi BSPC á formennskuári Álandseyja og sagði að vel hefði gengið að hafa áhrif á aðgerðir ríkisstjórna landanna við Eystrasalt. Sérstök áhersla var lögð á það á árinu að fá ungt fólk til að taka þátt í umræðum um framtíð Eystrasaltssvæðisins. Í byrjun formennskuársins var stofnaður nýr vinnuhópur um aðlögun og fólksflutninga. Sænski þingmaðurinn Hans Wallmark er formaður þess hóps. Hann kynnti áfangaskýrslu hópsins á ársfundinum. Undir þessum lið talaði jafnframt sænski sendiherrann Hans Olsson, en hann er fráfarandi formaður Eystrasaltsráðsins (CBSS), samstarfssamtaka ríkisstjórna landa við Eystrasalt, og Juris Bone, formaður embættismananefndar ráðsins.
    Ýmsir embættismenn og sérfræðingar fluttu fyrirlestra undir liðunum sjálfbær þróun og snjallorka. Fram kom að ástand umhverfismála við Eystrasalt væri ekki mjög gott. Þörungavöxtur af völdum ofauðgunar næringarefna, sem rekja má til ofnotkunar áburðar í landbúnaði, var stærra vandamál en áður en vegna mikillar hitabylgju við Eystrasalt sumarið 2018. Margir þátttakenda á fundinum töluðu um plastmengun í höfum og í ályktun fundarins var fagnað reglugerðum sem banna eða takmarka notkun einnota plastumbúða sem menga hafið. Í fyrirlestrum um snjallorku var sagt frá ýmsum tilraunaverkefnum sem unnið hefur verið að á þessu sviði, m.a. á Álandseyjum.
    Í lokaályktun ársfundar BSPC var því fagnað að utanríkisráðherrar aðildarlanda Eystrasaltsráðsins eru á ný farnir að funda reglubundið, en það gerðist m.a. að frumkvæði Íslendinga í formennskutíð Íslands í Eystrasaltsráðinu 2016–2017, en jafnframt var hvatt til þess að forsætisráðherrar landanna tækju á ný upp þá reglubundna fundi sem haldnir voru frá miðjum tíunda áratugnum og þangað til fyrir nokkrum árum. Hvatt var til aukins samstarfs Eystrasaltsríkja um málefni innflytjenda.
    Að tillögu Norðmanna, sem verða í forsvari fyrir BSPC til hausts 2019, voru valin fjögur þemu fyrir starfsáætlun ársins: Fólksflutningar og aðlögun innflytjenda, stafræn tækni á vinnumarkaði, sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og góð samskipti nágrannalanda og samvinna á grundvelli lýðræðislegra gilda, réttarríkis, mannréttinda og jafnra tækifæri fyrir allra. Nýr forseti BSPC er norski þingmaðurinn Jorodd Asphjell sem jafnframt hefur um árabil starfað í Norðurlandaráði. Næsti ársfundur samtakanna verður haldinn í Osló 25.–27. ágúst 2019.

7. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. danskar kr.
    Verðlaun ráðsins 2018 voru afhent 30. október við hátíðlega athöfn í óperuhúsinu í Osló í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Afhending verðlaunanna var með þeim hætti að öllum tilnefndum var boðið til athafnarinnar og tilkynnt um verðlaunahafa og verðlaun afhent samtímis.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað árlega síðan 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af málum Norðurlanda. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk og verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og málum nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Bókmenntaverðlaunin 2018 komu í hlut Auðar Övu Ólafsdóttur fyrir skáldsöguna Ör. Norska krónprinsessan Mette-Marit afhenti verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Í Ör kynnumst við miðaldra karlmanni sem ferðast til stríðshrjáðs Evrópulands í þeim tilgangi að fyrirfara sér, með verkfærakassa í farteskinu. Meðan á ferðinni stendur rennur upp fyrir honum að allir eiga sér verkfærakassa og geta valið hvernig þeir beita verkfærunum. Ör er lítil bók með stórt hjarta. Hún er full af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli og spyr jafnframt áleitinna spurninga um lífið og dauðann, um einstaklinginn gegn heildinni, um forréttindi fólks, réttindi þess og skyldur í heiminum. Ekki síst þá skyldu að leyfa mennskunni að storka myrkrinu.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Norska tónskáldið Nils Henrik Asheim hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir verkið Muohta.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2018 hlýtur tónverk sem er einkar nútímalegt en býr jafnframt yfir sögulegri meðvitund. Fyrsta hljóðfæri okkar allra, mannsröddin, leikur lykilhlutverk í þessu verki þar sem tungumálið er fléttað varfærnislega inn í hljóðheiminn. Hlustendum er boðið að stíga inn í öðruvísi upplifun á tíma, eða öllu heldur inn í síbreytilegt ástand sem inniheldur snert af áhættu og óróleika. Verkið er í 18 hlutum og í hverjum hluta er rýnt í eitt orð úr samískri tungu sem tengist snjó. Orðin eru fengin úr doktorsritgerð Inger Marie Gaup Eira, Muohttaga jávohis giella (Hið þögla tungumál snjósins). Sum orðin ná beint yfir snjó en önnur lýsa áhrifum hans á hversdagslíf manna – t.d. ulahat, sem þýðir „vetrarslóði sem hefur snjóað yfir og er vart sýnilegur“. Muohta, verk Nils Henrik Asheim fyrir kór og strengjasveit, lýsir hægum breytingum sem eru nánast ósýnilegar mannsauganu. Verkið var frumflutt í Osló árið 2017 ásamt Árstíðunum eftir Joseph Haydn. Í tengslum við viðburðinn sagðist tónskáldið hafa fengið innblástur til að stíga út fyrir þá heimssýn sem á rætur að rekja til tíma Haydns og gerir ráð fyrir stöðugum framförum og stjórn mannsins á umhverfi sínu, og halda á vit upprunaþjóða og reynslu þeirra af nánu samlífi með náttúrunni. Nils Henrik Asheim er fæddur árið 1960. Hann hefur starfað sem tónskáld, orgelleikari, skipuleggjandi og listrænn stjórnandi frá upphafi ferils síns og er gæddur einstökum hæfileikum til að opna heim samtímatónlistar fyrir ólíkum tónlistarstefnum og þar með tengjast nýjum hlustendum.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar.
    Náttúruauðlindaráðið í Attu við vesturströnd Grænlands hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2018. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, afhenti verðlaunin. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Veiðimenn og fiskimenn á Attu-svæðinu í vesturhluta Grænlands hafa um árabil sýnt gott fordæmi með þátttöku sinni í starfi náttúruauðlindaráðsins á svæðinu. Þeir hafa skrásett athuganir sínar á náttúrunni og tekið virkan þátt með því að deila viðamikilli þekkingu sinni á staðháttum, m.a. með því að leggja til nýjar leiðir til stjórnunar og leggja af mörkum þekkingu til fjölda rannsóknarverkefna.
    Náttúruauðlindaráðið í Attu var stofnað árið 2014 og er eitt af fimm ráðum á sama sviði sem eru hvað virkust á Grænlandi. Ráðin starfa á vegum opinberu áætlunarinnar PISUNA, 1 sem var ýtt úr vör árið 2009. Markmiðið með áætluninni er að efla aðkomu almennings að skrásetningu og stjórnun á umhverfinu og lifandi auðlindum þess með aðgengilegum og nýskapandi hætti.
    Athuganir náttúruauðlindaráðanna á vegum PISUNA sýna hvernig lýðræðisleg aðkoma almennings eykur þekkingu á hafsvæðum og umhverfi, eflir stjórnun og eykur ábyrgðartilfinningu og tengslamyndun íbúa svæðisins gagnvart umhverfi og náttúru.
    Náttúruauðlindaráðin eru uppspretta félagslegrar samkenndar sem eflir samráð og samstarf milli almennings, vísindasamfélagsins og stjórnunaraðila. Þau hafa þegar getið af sér svipuð verkefni m.a. í Finnlandi og Rússlandi og hafa alla burði til að breiðast út til margra fleiri landa og sviða, á hafi og landi, á norðurslóðum sem og utan þeirra, til góðs fyrir náttúru og umhverfi.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda, og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
     Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson, leikstjóra, handritshöfund og framleiðanda, Ólaf Egil Egilsson handritshöfund og framleiðendurna Marianne Slot og Carine Leblanc hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Í Kona fer í stríð er alvarlegum og brýnum vanda miðlað gegnum sterkan persónuleika sem gefst ekki upp. Halla, konan sem tekur lögin í sínar hendur til að vernda vistkerfi jarðarinnar, er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur sem sýnir afburðagóða og agaða frammistöðu. Þegar Halla verður þess vör að eitthvað togar sterkar í hana en hugsjónirnar, nefnilega löngunin til að stofna fjölskyldu, er það sett fram á íhugulan hátt og án tilfinningasemi. Raunar má segja að Benedikt Erlingsson, sem leikstýrði myndinni og skrifaði einnig handrit ásamt Ólafi Egilssyni, sýni jafnmikla dirfsku og aðalpersóna myndarinnar. Dómnefndin kann vel að meta það sjálfsöryggi sem Benedikt sýnir þegar hann fléttar sérstöku andrúmslofti framandgervingar inn í spennuþrungin atriði og innileg augnablik með því að hafa lifandi tónlistarflutning í mynd og láta hljóðfæraleikarana túlka skap- og tilfinningasveiflur persónanna. Útkoman er frábær kvikmynd sem er leiftrandi skemmtileg í meðferð sinni á hápólitísku viðfangsefni, svo og einkalífi 48 ára gamallar konu sem er hin óvænta hasarhetja myndarinnar. Og ástin sem liggur til grundvallar frásögninni – ást á náttúrunni og á umkomulausu barni – skín í gegnum allt saman.“

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2013. Verðlaunin skulu veitt á hverju ári fyrir bókmenntaverk sem er skrifað fyrir börn og ungmenni á einu af tungumálum norrænu landanna. Bókmenntaverkin geta verið í formi ljóða, prósa, leikrits, samspil texta og mynda, eða annað verk sem uppfyllir miklar bókmenntalegar og listrænar kröfur.
    Færeyski rithöfundurinn Bárður Oskarsson hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir myndabókina Træið. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Á tímum sem markast af kröfu um síaukinn hraða í samfélaginu höfum við valið að verðlauna frásögn sem þorir að fara sér hægt. Veruleiki fólks í dag einkennist af stöðugu áreiti. Við höfum valið verk þar sem skemmtilegri og djúpviturri frásögn er komið til skila með fáum orðum og einföldum myndum. Bókin er sannkallað listaverk og greinilegt að höfundurinn treystir lesendum til að kunna að undrast og hugsa sjálfstætt. Spjall tveggja vina skilur eftir sig vangaveltur um hvort maður geti látið sér nægja frásagnir af reynslu annarra, eða verði kannski að leggja eitthvað í sölurnar til að svala forvitninni og komast að því hvað leynist bak við ystu sjónarrönd. Í myndabókinni Træið beitir Bárður Oskarsson ýmsum smáatriðum og blæbrigðum til að skapa óvenju ánægjulega lestrarupplifun fyrir bæði börn og fullorðna. Hann hlýtur því verðlaunin í ár.“

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2019.
    Svíar fara með formennsku í Norðurlandaráði 2019. Jessica Polfjärd er forseti ráðsins 2019 og Gunilla Carlsson varaforseti.
    Árið 2019 verður vorþing Norðurlandaráðs haldið dagana 8.–9. apríl í Kaupmannahöfn og aðalþingfundur ráðsins verður haldinn 28.– 31. október í Stokkhólmi.
    Helstu áhersluatriði í formennskuáætlun Svía árið 2019 eru norrænt samstarf um jafnréttismál, loftslagsmál, afnám stjórnsýsluhindrana og lýðræði.

Alþingi, 25. janúar 2019.

Oddný G. Harðardóttir,
varaform.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Vilhjálmur Árnason.Fylgiskjal I.


Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2018.
Tilmæli.     
Tilmæli 1/2018/sjálfbærninefnd: Sameiginlegur norrænn staðall um hafnargjöld á grundvelli umhverfissjónarmiða.
Tilmæli 2/2018/sjálfbærninefnd: Endurskoðun á tilskipun um móttökuaðstöðu í höfnum fyrir afhendingu úrgangs frá skipum.
Tilmæli 3/2018/sjálfbærninefnd: Draga úr losun frá siglingum á Norðurlöndum.
Tilmæli 4/2018/velferðarnefnd: Framkvæmdaáætlun fyrir norrænt samstarf um málefni fatlaðs fólks 2018–2022.
Tilmæli 5/2018/hagvaxtar- og þróunarnefnd: Aðild að stéttarfélögum.
Tilmæli 6/2018/hagvaxtar- og þróunarnefnd: Stefna í samgöngumálum á Norðurlöndum.
Tilmæli 7/2018/forsætisnefnd: Norræn áhrif og samstarf við G20.
Tilmæli 8/2018/forsætisnefnd: Áætlanir um heildarvarnir, hættuástand og dreifingaröryggi.
Tilmæli 9/2018/forsætisnefnd: Kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.
Tilmæli 10/2018/velferðarnefnd: Samræming á löggjöf um hinsegin fólk á Norðurlöndum.
Tilmæli 11/2018/þekkingar- og menningarnefnd: Stuðningur við námsfólk í hættu.
Tilmæli 12/2018/þekkingar- og menningarnefnd: Stuðningur við verkefnið Stories from the Ice.
Tilmæli 13/2018/velferðarnefnd: Forvarnir gegn kulnun í starfi.
Tilmæli 14/2018/sjálfbærninefnd: Um plastagnir í drykkjarvatni.
Tilmæli 15/2018/þekkingar- og menningarnefnd: Greinargerð varðandi menningarstefnu.
Tilmæli 16/2018/þekkingar- og menningarnefnd: Um gagnkvæma viðurkenningu á refsiaðgerðum vegna hagræðingar úrslita.
Tilmæli 17/2018/forsætisnefnd: Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2019.
Tilmæli 18/2018/sjálfbærninefnd: Ný samstarfsáætlun á umhverfis- og loftslagssviði.
Tilmæli 19/2018/forsætisnefnd: Aukið norrænt samstarf í Norður-Ameríku.
Tilmæli 20/2018/forsætisnefnd: Eflt norrænt samstarf um netvarnir.
Tilmæli 21/2018/sjálfbærninefnd: Norræn samstaða á vettvangi ESB um málefni skóga.
Tilmæli 22/2018/sjálfbærninefnd: Norræn samstaða á vettvangi ESB um málefni skóga.
Tilmæli 23/2018/þekkingar- og menningarnefnd: Möguleikar kannaðir á að koma á fót samnorrænu doktorsnámi.
Tilmæli 24/2018/forsætisnefnd: Norrænt áhrifamat á löggjafarstarfi ESB.
Tilmæli 25/2018/hagvaxtar- og þróunarnefnd: Landsbundnar ráðgjafarnefndir um stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum.
Tilmæli 26/2018/hagvaxtar- og þróunarnefnd: Góð starfsskilyrði í siglingum.
Tilmæli 27/2018/velferðarnefnd: Norræn samstarfsáætlun um jafnréttismál 2019-2022.
Tilmæli 28/2018/velferðarnefnd: Sameiginleg norræn jafnlaunavottun.
Tilmæli 29/2018/velferðarnefnd: Jafnrétti á vinnumarkaði.
Tilmæli 30/2018/velferðarnefnd: Aukið norrænt samstarf í heilbrigðismálum.
Tilmæli 31/2018/velferðarnefnd: Skyldubundin sáttameðferð fyrir forsjárhafa við skilnað að borði og sæng.
Tilmæli 32/2018/sjálfbærninefnd: Áhrif Norðurlanda í viðræðum um alþjóðlegan samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika.
Tilmæli 33/2018/sjálfbærninefnd: Þróun fyrirkomulags varðandi áhrif Norðurlanda í viðræðum um alþjóðlegan samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika.
Tilmæli 34/2018/velferðarnefnd: Áætlun fyrir löggjafarsamstarfið 2019–2022.

Ákvarðanir um innri málefni.
Innri ákvörðun 1/2018/forsætisnefnd: Norrænn fánadagur á degi Norðurlanda 23. mars.
Innri ákvörðun 2/2018/forsætisnefnd: Tungumál í Norðurlandaráði.
Innri ákvörðun 3/2018/forsætisnefnd: Breytingar á starfsreglum Norðurlandaráðs.Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Norðmanna í Norðurlandaráði 2018.

Sjálfbær og örugg Norðurlönd.
    Í heimi sem einkennist af breytingum og óróleika er norrænt samstarf mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Andspænis ófyrirsjáanlegum öryggispólitískum veruleika og mikilli þörf fyrir endurskipulagningu standa norrænu löndin betur að vígi sameinuð en sundruð. Traust það og samstaða sem ríkir milli Norðurlandaþjóðanna gefur okkur forskot sem við megum til með að nýta okkur og efla. Við, sem búum á einu samþættasta svæði heims, eigum að halda áfram að standa vörð um norrænt samfélag og norræna líkanið.
    Árið 2018 verður áfram unnið að því að ryðja burt stjórnsýsluhindrunum milli landanna okkar og við höldum áfram að auka norrænt notagildi fyrir þær 26 milljónir sem í löndunum búa. Formennska Noregs setur sérstaklega á oddinn árið 2018 að efla norrænt samstarf á sviði heilbrigðis, mennta, hafs og varnarmála. Með öflugu norrænu samstarfi um heilbrigðistækni, samþættingu, lífríki hafsins og varnir, svo að dæmi séu tekin, munum við tryggja sjálfbært, stöðugt og öruggt norrænt samfélag, einnig til langframa.

Heilbrigðistækni og öryggi sjúklinga.
    Ónæmi gegn sýklalyfjum er einhver alvarlegasta heilsufarsógn okkar tíma. Harðsnúnar bakteríur og örverur kosta nú á dögum milljónir manna lífið og kosta milljarða. Neysla þessara lyfja er ekki lengur sjálfbær og hana verður að takmarka. Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi verður þess vegna ofarlega á dagskrá í Norðurlandaráði árið 2018 eins og áður. Fá verður öll viðkomandi svið samfélagsins til þátttöku í samhæfðu átaki og markvissri pólitískri aðgerð til að vinna gegn sýklalyfjaónæmi. Formennskan hefur þess vegna í hyggju að fylgja eftir ábendingunum í hvítbók Norðurlandaráðs um sýklalyfjaónæmi.
    Velferðartækni, rafrænt heilbrigði og nýjar hugmyndaríkar lausnir stuðla að nauðsynlegri endurnýjun og bættri nýtingu úrræða innan velferðargeirans. Á árinu 2018 vill formennska Noregs að samstarf um rafrænt heilbrigði og velferðartækni sé í brennidepli. Norrænu löndin búa yfir góðum heilbrigðis- og gæðaskrám sem ætti að gera aðgengilegar fyrir sameiginlegar rannsóknir um meðferðir. Við notkun skránna verður að gæta að tölvu- og gagnaöryggi og persónuvernd.
    Á meðan Norðmenn hafa með höndum formennskuna mun Norðurlandaráð því eigi frumkvæði að viðræðum við norrænu ráðherrana um rannsóknarsamstarfið á heilbrigðissviði, sameiginlega þróun á nákvæmnislækningum (þ.e. persónumiðaðri læknisfræði), álitaefni tengd einsleitari heilbrigðisskráningu sem einfaldar samnýtingu auk gagnanotkunar þvert á landamæri. Formennskan mun fylgja eftir þeirri vinnu sem þegar er hafin um sameiginlega norræna skrá um heilbrigðisstarfsmenn sem hafa misst réttindi sín. Stefnt er að því að halda ráðstefnu um þessi viðfangsefni á fyrir helmingi ársins 2018.

Menntun, aðlögun og frjáls för.
    Menntun er aðgangsmiði að samfélaginu. Skólinn og leikskólinn eru mikilvægur vettvangur virkrar samfélagsþátttöku, aðlögunar og lýðræðislegs ríkisborgararéttar. Um leið verðum við vitni að því að mörg börn og ungmenni verða útundan og ljúki ekki framhaldsnámi. Þess vegna vill formennskan norska beita sér fyrir því á árinu 2018 að efla hið samnorræna framlag til ráðstafana sem stuðla að menntun og virkri þátttöku barna og ungmenna, m.a. með því að fylgja eftir áætluninni „0–24“.
    Tungumál og menning eru lykillinn að norrænni samveru og frjálsri för. Sameiginlegur málskilningur styrkir norræna ímynd og hið norræna samfélag. Börn og ungmenni eiga að kunna skil á norrænni menningu, sögu, samfélagi og tungumálum. Árið 2018 mun formennskan hvetja kennara og skólastjórnendur til að setja Norðurlönd og norræn tungumál á stundaskrá.
    Formennska Noregs hefur einnig í hyggju á árinu 2018 að leggja sitt af mörkum til að samræma frekar kröfur til fagþekkingar og leyfisveitinga í því skyni að iðnaðarmenn með viðurkennda norræna menntun geti starfað hvar sem er á Norðurlöndum. Auk þess verður að hanna umgjörð um kortlagningu, viðurkenningu og kröfur um viðbætur erlendrar menntunar og fagþekkingar sem gerir kleift að starfa á Norðurlöndum. Formennskan stefnir að því að afla upplýsinga frá löndunum um þetta efni til að leiða út bestu mögulegu framkvæmd.

Umhverfi og öryggi til sjós.
    Hafið er mikilvægt öllum norrænu löndunum. Sjávartengdar rannsóknir eiga sér langa sögu á Norðurlöndum. Ríkisstjórn Noregs sendi Stórþinginu umsögn sem nefnist „Hav i utenriks- og utviklingspolitikken“ (hafið í utanríkismála- og þróunarstefnunni) og benti á þörfina fyrir aukna þekkingu um hafið og miðlun á kunnáttu og hæfni. Þekking sem byggist á rannsóknum og samstarf milli atvinnugreina ræður úrslitum um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindanna.
    Þörfin á auðlindum sjávar til fæðuöflunar og orkuvinnslu mun aukast. Á sama tíma stafar hafinu ógn af umhverfisvandamálum eins og mengun og úrgangslosun, loftslagsbreytingum og ofveiði. Formennskan mun bjóða til ráðstefnu um nýtingu sjávarauðæfa á grundvelli sjálfbærni og þekkingar sem byggist á rannsóknum. Auk þess verður norrænu plastáætluninni fylgt eftir. Formennskan hyggst vinna að því að Norðurlönd séu sameiginlegur þrýstihópur á alþjóðavettvangi um hafréttarmál og um stjórn á nýtingu sjávarauðlinda með sjálfbærni að markmiði. Þessu til viðbótar vill norska formennskan stuðla að því að tillögunum í skýrslunni Norrænt samstarf og sjálfbærnimarkmiðin 2030 verði fylgt eftir.
    Siglingar hafa úrslitaþýðingu hvað það snertir að tryggja alþjóðaverslun og verðmætasköpun. Norðurlönd eru í fararbroddi viðvíkjandi þróun á tækni sem dregur úr umhverfismengun af völdum siglinga. Formennskan norska vill efla samkeppnisforskot Norðurlandanna á þessu sviði.
    Hafsvæðin í norðri eru einstaklega viðkvæm og berskjölduð, ekki síst við skipsskaða. Vegna vaxandi ferðamennsku á þessum svæðum er nauðsynlegt að efla norrænt samstarf um leit og björgunaraðgerðir. Formennska Noregs vill stuðla að því að þetta viðfangsefni verði ofarlega á dagskrá á Norðurlöndum.

Varnarmál og öryggi.
    Norrænt samstarf um utanríkismál og öryggis- og varnarmál felur m.a. í sér samfélagsöryggi, sáttamiðlun, framlag til aðgerða SÞ, ógnir gegn alþjóðlegu öryggi og varnir gegn öfgahyggju. Norrænu löndin eru framarlega á sviði stafrænnar þróunar og er hæfni á því sviði í okkar samfélagi mikil. Á sama tíma sætum við hótunum og árásum í hinu stafræna rými sem ógna stafrænum varnarvirkjum okkar. Tölvu- og netglæpir virða engin landamæri og baráttan gegn netógnum krefst aukinnar samvinnu yfir landamærin. Norska formennskan setur þess vegna norrænt samstarf um samfélagsöryggi og öruggari stafræna tilveru á dagskrá árið 2018.
    Þrengri fjárhagsrammi og verðhækkun á hátæknilegum varnarbúnaði gerir að verkum að norrænu löndin hafa sameiginlega hagsmuni af því að þróa áfram varnarsamstarf sitt. Því vill Norðurlandaráð styðja frekar við norrænt varnarsamstarf á árinu 2018, m.a. með því að halda norrænan fund í samstarfi við norsku formennskuna í NORDEFCO 2018.

1    PISUNA er skammstöfun á grænlenska heitinu Piniakkanik sumiiffinni nalunaarsuineq (ísl. „skrásetning og stjórnun lifandi auðlinda“).