Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 856  —  526. mál.
Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2018.


1. Inngangur.
    
Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál ( SCPAR) á árinu 2018 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir hafa verið í brennidepli.
    Fyrst ber að nefna þrettándu þingmannaráðstefnuna um norðurskautsmál sem haldin var í Inari í Finnlandi 16.–19. september. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan haldin í Reykjavík árið 1993. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu.
    Á ráðstefnu þingmannanefndarinnar voru fjögur meginþemu valin til sérstakrar umræðu. Í fyrsta lagi var sjónum beint að loftslagsbreytingum á norðurslóðum og hvernig draga megi úr neikvæðum afleiðingum þeirra. Loftslagsbreytingar eru stærsta váin á norðurslóðum og ræddu þátttakendur m.a. hvernig draga mætti úr hækkun hitastigs af völdum loftslagsbreytinganna sem eru tvisvar sinnum meiri á svæðinu en annars staðar í heiminum. Í öðru lagi var rætt um stafrænt norðurskaut og hvernig tryggja megi að íbúar norðurskautssvæðisins geti verið virkir þátttakendur í hinum stafræna heimi. Í þriðja lagi fór fram umræða um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvernig tryggja megi að íbúar norðurskautsins njóti góðs af auknum umsvifum á svæðinu. Í fjórða lagi var rætt um velferð með áherslu á þær nýjungar sem nýta má til að tryggja velferð íbúa norðurskautsins.
    Í yfirlýsingu ráðstefnunnar er tilmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum. Einnig er lögð áhersla á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika á svæðinu. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu m.a. áherslu á hvernig styrkja megi samfélög á norðurslóðum, málefni hafsins, sjálfbærni og jafnréttismál. Enn fremur lagði Íslandsdeild til að siglingakort og siglingakerfi á hafsvæðum norðurslóða yrði bætt og ítrekaði mikilvægi þess að styðja við þróun stafrænnar tækni fyrir tungumál á norðurslóðum.
    Á árinu fagnaði þingmannanefndin 25 ára afmæli og gaf af því tilefni út bækling um starfsemi nefndarinnar. Markmið afmælisársins var m.a. að auka sýnileika og þekkingu á störfum nefndarinnar og móta henni fjölmiðlastefnu á breiðum grundvelli. Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu má nefna versnandi samskipti milli Rússlands og Bandaríkjanna, stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, mikilvægi þess að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og eflingu Norðurskautsráðsins.
    


2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR).
    
Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál ( CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál ( SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Sérstök áhersla hefur einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar. Í því sambandi var þingmannanefndin leiðandi í hugmyndavinnu fyrir ritun skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum, Arctic Human Development Report (AHDR I), sem kom út undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 og framhaldsskýrslunnar (AHDR II) sem var gefin út seinni hluta árs 2014.   Einnig hefur opnun nýrra siglingaleiða, orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Áhersla hefur verið lögð á verkefni sem snúa að ýmsum málum sem snertu forgangsverkefni Norðurskautsráðsins, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsóknin á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Spár skýrslunnar gefa til kynna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Þá færist mörk gróðurlendis æ norðar með hlýnandi loftslagi. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem verða á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig hækki á norðurslóðum eins og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna en annars staðar kólnar þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.
    Norðurskautsráðið hefur í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur er leitað leiða til þess að draga úr mengun á norðurslóðum og auka enn samstarf og skuldbindingar ríkjanna. Á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011 var undirritaður fyrsti bindandi samningur aðildarríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Samningurinn er sögulegur þar sem um er að ræða fyrsta alþjóðasamninginn milli aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Jafnframt má segja að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við fyrirsjáanlega aukinni umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem sérhvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Þá var á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013 undirritaður samningur milli norðurskautsríkjanna átta um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi.

3. Skipan Íslandsdeildar.

    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2018 Ari Trausti Guðmundsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata. Varamenn eru Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Smári McCarthy, þingflokki Pírata. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu 2018.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2018.
    
Þingmannanefndin hélt tvo fundi á árinu og tók Íslandsdeild þátt í þeim báðum. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar og þingmannaráðstefnunnar í Inari.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Kiruna 14. maí 2018.
    
Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður þingmannanefndar um norðurskautsmál, og Arna Gerður Bang, ritari. Helsta verkefni fundarins var að ræða áherslur næstu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var haustið 2018 og drög að ráðstefnuyfirlýsingu. Önnur mál á dagskrá voru kynning á málefnum Sama í Svíþjóð, umbreytingar á samfélögum í Norður-Svíþjóð og kynning á formennsku Finna í Norðurskautsráðinu. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Gestir fundarins voru Björn Lyrwall, sendiherra Svíþjóðar gagnvart norðurslóðum, Per-Olof Nutti, stjórnarformaður þings Sama í Svíþjóð, Lars Bäckström, yfirmaður byggðaþróunar í Kiruna, og Mats Nilsson, deildarstjóri hjá Kiruna. Kynning og umræða fór fram um reynslu Svía af umbreytingum á samfélögum á norðurslóðum og tók Líneik Anna Sævarsdóttir þátt í henni. Hún vísaði í kynningu Nilssons og rök hans fyrir mikilvægi þess að halda hefðbundinni hreindýrabeit áfram og spurði hvern hann teldi vera sameiginlegan skilning á þessum rökum, svo sem hjá sveitarfélögum og ríkinu og alþjóðlega. Hann sagði skort á skilningi hamla framþróun á svæðinu en vonaðist til að breyting yrði á með auknu samstarfi og rannsóknum.
    Samu Paukkunen, framkvæmdastjóri nefndarinnar, kynnti stuttlega drög að dagskrá þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem fyrirhugað var að halda dagana 16.–19. september 2018 í þingi Sama í Inari í Finnlandi. Farið var yfir drög að ráðstefnuyfirlýsingu og þær breytingartillögur sem nefndarmenn hefðu lagt fram. Þá kynnti Eirik Sivertsen, formaður nefndarinnar, þemu ráðstefnunnar en þau voru í fyrsta lagi stafrænt norðurskaut, þ.e. hvernig eigi að undirbúa norðurslóðir undir hina svokölluðu 4. iðnbyltingu og hvernig hægt sé að tryggja það að íbúar norðurskautsins geti tekið þátt í hinum stafræna heimi. Í öðru lagi voru það loftslagsbreytingar á norðurslóðum, hvernig hægt væri að draga úr þeim og lifa með afleiðingum þeirra, sér í lagi þiðnun sífrera. Í þriðja lagi má nefna samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, hvernig tryggja megi að íbúar norðurskautsins njóti góðs af auknum umsvifum á svæðinu og að fyrirtæki fylgi alþjóðlegum stöðlum við störf sín á þessu viðkvæma svæði. Í fjórða lagi má nefnda velferð og þá einna helst hvaða nýjungar mætti nýta til að tryggja velferð íbúa norðurskautsins.
    Þá fór fram umræða um drög að yfirlýsingu ráðstefnu nefndarinnar og lagði Sivertsen áherslu á að þar kæmi fram skýr stuðningur við Parísarsamkomulag Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Líneik Anna Sævarsdóttir tók þátt í umræðunum og lagði áherslu á að hafa yfirlýsinguna hnitmiðaða og stutta. Þannig næði hún frekar eyrum stjórnvalda og Norðurskautsráðsins og auðveldaði eftirfylgni.
    Jafnframt voru valdir framsögumenn nefndarinnar fyrir þemu ráðstefnunnar í Inari og var Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar, valinn framsögumaður um loftslagsbreytingar á norðurslóðum en hann hefur m.a. lagt áherslu á mikilvægi þess að fræða almenning um norðurslóðir og loftslagsmál. Þá var Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður Íslandsdeildar, valin fundarstjóri umræðu um þriðja þemað á ráðstefnunni.
    Að lokum var rætt um málefni norðurslóða innan einstakra aðildarríkja. Katri Kulmuni, formaður finnsku landsdeildarinnar, greindi frá reynslu Finnlands af formennsku í Norðurskautsráðinu sem hófst í maí 2017. Hún benti á að Finnland hefði áður gegnt formennsku í ráðinu, árin 2000–2002, en sagði verkefnið mun umfangsmeira í þetta skiptið. Helsta ástæða fyrir því væri sú að Norðurskautsráðið hefði aukið umsvif sín. Þrír alþjóðasáttmálar hefðu litið dagsins ljós auk þess sem norðurslóðir stæðu frammi fyrir alvarlegum áskorunum, einna helst loftslagsbreytingum. Kulmuni benti jafnframt á að versnandi alþjóðleg samskipti væru áhyggjuefni en sagði þau þó enn ekki hafa haft áhrif á samvinnu um málefni norðurskautsins og mikilvægt væri að svo yrði ekki . Þá sagði hún það ekki hlutverk formennskuríkis Norðurskautsráðsins að breyta algjörlega áherslum heldur væri mikilvægt að tryggja samfellu og að ráðið setti sér langtímamarkmið. Þema formennsku Finna er m.a. sameiginlegar lausnir og með því er vísað til Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
    Þá greindi Líneik Anna Sævarsdóttir frá myndun nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi í nóvember 2017 og sagði að málefni norðurslóða yrðu áfram í forgangi. Hún sagði málefni norðurslóða hafa fengið aukna athygli innan Alþingis. Sem dæmi um það hafi sérstök umræða um málefni norðurslóða verið haldin á þinginu fyrr í mánuðinum að frumkvæði Ara Trausta Guðmundssonar, formanns Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál. Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefði tekið þátt í umræðunum. Þá væri undirbúningur fyrir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu hafinn en Ísland tæki við formennsku af Finnum í maí 2019 og yrði í því hlutverki til 2021. Undanfarin ár hefðu áhersluatriði Íslands í norðurslóðamálum m.a. snúið að aukinni alþjóðlegri samvinnu varðandi umhverfismál, ekki síst þegar kæmi að málefnum hafsins, sjálfbærri nýtingu auðlinda, endurnýtanlegri orku og félagshagfræðilegum skilyrðum. Þá greindi hún frá því að fyrirhugað væri að kynna áherslur Íslands formlega á fundi æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í október 2018.
    Enn fremur var rætt um starfsemi Norðurskautsráðsins og loftslagsbreytingar sem stærsta málefni þess sem þarf að skoða í tengslum við alla starfsemina. Þá lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum af óljósri stefnu Bandaríkjastjórnar sem lýst hefur því yfir að hún muni ekki fullgilda Parísarsamkomulagið og hvernig það hefði áhrif á starf Norðurskautsráðsins. Enn hefur þó engin breyting orðið á þátttöku Bandaríkjamanna í starfsemi ráðsins.

Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál og fundir þingmannanefndar í Inari 16.–19. júní 2016.
    
Þrettánda þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin í Inari 16.–19. september 2018. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefnd um norðurskautsmál ráðstefnu um málefni norðurslóða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu sem og að fylgjast með störfum Norðurskautsráðsins . Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, og Björn Leví Gunnarsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Ráðstefnan hófst með því að gestir voru ávarpaðir og boðnir velkomnir af Eirik Sivertsen, formanni þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR), Katri Kulmuni, formanni finnsku þingmannanefndarinnar, og Toni Laine, bæjarstjóra Inari. Í opnunarræðu sinni ræddi Eirik Sivertsen m.a. um mikilvægi samstarfs norðurskautsríkjanna þar sem sjónum er beint að loftslagsbreytingum og mannlífsþróun á svæðinu. Einnig ræddi hann um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og góðan árangur Norðurskautsráðsins í því sambandi. Sameiginleg markmið allra ríkja norðurslóða væru að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu og Norðurskautsráðið gegndi þar lykilhlutverki.
    Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um stafrænt norðurskaut, þ.e. hvernig mögulegt sé að undirbúa norðurslóðir undir hina svokölluðu 4. iðnbyltingu og hvernig tryggja megi að íbúar norðurskautsins geti verið virkir þátttakendur í hinum stafræna heimi. Rússneski þingmaðurinn Igor Chernyshenki stýrði umræðunni og grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen hélt erindi um efnið. Hún lagði áherslu á mikilvægi stafrænnar þróunar fyrir menntun og efnahagslíf á norðurslóðum. Björn Leví Gunnarsson lagði m.a. til að bætt yrði við málsgrein í yfirlýsingu ráðstefnunnar um það hvernig styðja mætti við þróun stafrænnar tækni fyrir tungumál á norðurslóðum með því að veita aðgang að rannsóknum, tækni og menntun um tölvuvæðingu tungumála, og var það samþykkt.
     Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um loftslagsbreytingar á norðurslóðum og hvernig mögulegt væri að draga úr neikvæðum afleiðingum þeirra. Ari Trausti Guðmundsson hélt erindi um efnið og svaraði spurningum fundargesta. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að auka menntun og skilning almennings á afleiðingum loftslagsbreytinga þar sem þekking væri besta vopnið í baráttunni. Þá sagði hann þingmenn m.a. geta lagt sitt af mörkum með því að stuðla að auknu samstarfi milli ríkja og alþjóðastofnana, styðja við gerð alþjóðlegra sáttmála sem stuðla að sjálfbærri þróun og efla löggjöf heima fyrir sem ynni gegn loftslagsbreytingum. Jafnframt sagði hann mikilvægt að umræða um það hvernig draga mætti úr losun gróðurhúsalofttegunda, tryggja lífsskilyrði og miðla þekkingu á svæðinu væri heiðarleg og opin.
    Oddný G. Harðardóttir tók þátt í umræðum fyrir hönd Norðurlandaráðs og greindi frá því að á síðasta ári hefði ráðið gefið út leiðbeiningarrit fyrir þingmenn, með titlinum Clever climate legislation, um hvernig ná ætti markmiðum Parísarsamkomulagsins. Alþjóðlegt samstarf milli þjóðþinga gegndi þar mikilvægu hlutverki og því væru fundir sem þessi afar gagnlegir.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, hvernig tryggja mætti að íbúar norðurskautsins nytu góðs af auknum umsvifum á svæðinu og að fyrirtæki fylgdu alþjóðlegum stöðlum í starfsemi sinni. Líneik Anna Sævarsdóttir var fundarstjóri og hélt Larry Bagnell, varaformaður þingmannanefndarinnar, erindi um efnið. Hann sagði mikilvægt að sjónum yrði beint að því hvernig auka mætti möguleika á því að heimamenn högnuðust á auðlindum sínum á sama tíma og sjálfbærni væri gætt. Líneik Anna Sævarsdóttir tók þátt í umræðum og ítrekaði mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru. Þannig skapaðist tækifæri til að stuðla að raunverulegum breytingum þar sem ábyrgð fyrirtækja gagnvart íbúum norðurslóða væri skýr.
    
Fjórði hluti ráðstefnunnar var tileinkaður velferð og þá einna helst hvaða nýjungar mætti nýta til að tryggja velferð íbúa norðurskautsins. Elena Kudryashova, rektor Háskóla norðurskautsins í Rússlandi, lagði í erindi sínu áherslu á mikilvægi þess að skilgreina hvað fælist í sjálfbærri skipulagsgerð sem hentaði á norðurslóðum. Guðjón Brjánsson, varaformaður Vestnorræna ráðsins, greindi frá samstarfi ráðsins við íslensku rannsóknastofnunina Rannsóknir og greiningu við kortlagningu á högum ungmenna í því skyni að draga úr vímuefnaneyslu. Þá hefði Vestnorræna ráðið ráðgert að koma málinu á dagskrá hjá Norðurskautsráðinu í formennskutíð Íslands, í samvinnu við íslensk stjórnvöld.
    Því næst greindi Ari Trausti Guðmundsson frá því að Ísland tæki við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum í maí 2019 og undirbúningur væri kominn vel á veg. Formennskuáætlunin yrði kynnt á næsta fundi æðstu yfirmanna Norðurskautsráðsins sem haldinn yrði í Rovaniemi í nóvember 2018. Sjálfbær þróun yrði meginþema formennskuáætlunarinnar og áhersla lögð á að styrkja og efla samstarf Norðurskautsráðsins innan allra þriggja stoða sjálfbærnihugtaksins, umhverfismála, efnahagsmála og félagsmála. Þá yrði áhersla lögð á málefni hafsins, lofslagsmál og grænar lausnir í orkuframleiðslu og styrkingu samfélaga. Jafnframt var þess minnst að 25 ár væru liðin frá því að fyrsta ráðstefna þingmannanefndarinnar var haldin í Reykjavík árið 1993.
    Við undirbúning ráðstefnuyfirlýsingarinnar var skipuð sérstök nefnd sem hittist á þremur fundum og fór yfir framkomnar athugasemdir og tillögur. Ari Trausti Guðmundsson var fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni og lagði m.a. áherslu á að mikilvægi þess að styrkja samfélög á norðurslóðum og huga að málefnum hafsins auk jafnréttismála og sjálfbærni. Þá lagði hann jafnframt til á síðasta fundi nefndarinnar að bætt yrði við málsgrein um mikilvægi þess að bæta siglingakort og siglingakerfi á hafsvæðum norðurslóða.
    Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt samhljóða ráðstefnuyfirlýsing sem að hluta til er beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Einnig er lögð áhersla á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika á svæðinu. Að lokum var þátttakendum boðið til næstu ráðstefnu þingmannanefndar um norðurskautsmál sem fyrirhugað er að halda í Noregi árið 2020.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni. Á fyrri fundi nefndarinnar, 16. september, var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum um drögin og þeim komið á framfæri við nefnd sem vann að gerð yfirlýsingar ráðstefnunnar.
    Á síðari fundi nefndarinnar, 19. september, var Eirik Sivertsen, fulltrúi norska þingsins, endurkjörinn formaður nefndarinnar og kanadíski þingmaðurinn Larry Bagnell endurkjörinn varaformaður til næstu tveggja ára. Samu-Ville Paukkunen, starfsmaður finnska þingsins, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra þingmannanefndarinnar í tvö ár gaf jafnframt kost á sér til áframhaldandi starfa. Það var samhljóma álit nefndarmanna að ráðstefnan í Inari hefði heppnast vel og mikilvægt væri að samþykktri yfirlýsingu ráðstefnunnar yrði komið á framfæri við Norðurskautsráðið, stjórnvöld og hlutaðeigandi í aðildarríkjum nefndarinnar. Árangur ráðstefnunnar fælist í því sem þátttakendur hennar tækju með sér heim og kæmu í framkvæmd.

Alþingi, 28. janúar 2019.

Ari Trausti Guðmundsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
varaform.
Björn Leví Gunnarsson.