Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 888  —  45. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (brottfall kröfu um ríkisborgararétt).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sverri Jónsson og Söru Lind Guðbergsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands og Hrannar Má Guðmundsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB).
    Nefndinni bárust umsagnir frá Fjölmenningarráði Reykjavíkurborgar, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Samtökum kvenna af erlendum uppruna og Viðskiptaráði Íslands.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, verði felldur brott. Þar segir að til þess að fá skipun eða ráðningu í starf þurfi viðkomandi að hafa íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum. Þegar sérstaklega stendur á megi þó víkja frá þessu ákvæði þegar um er að ræða aðra erlenda ríkisborgara.
    Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins. Samhljómur var um markmið og tilgang þess.

Samráðsskylda.
    Samkvæmt 52. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal við samningu stjórnvaldsfyrirmæla samkvæmt lögum þessum, annarra en verklagsreglna, svo og við endurskoðun þeirra, jafnan gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Alþýðusambandi Íslands kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði þau sem upp kunna að koma.
    Við meðferð málsins nú og þegar frumvarpið var lagt fram á 146. löggjafarþingi (289. mál) og 148. löggjafarþingi (35. mál) hefur bandalögum opinberra starfsmanna skv. 52. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gefist kostur á að skila inn umsögn vegna málsins og að mæta á fund nefndarinnar. Bandalögin gera engar athugasemdir við efni frumvarpsins. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin að samráðsskyldu við bandalögin hafi verið gætt.

Brottfall kröfu um íslenskan ríkisborgararétt.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að þótt umrætt skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt félli brott úr lögunum yrði enn heimilt að setja ákveðin hæfisskilyrði þegar störf væru auglýst. Nefndin áréttar að ávallt þurfi að líta til eðlis starfa við setningu slíkra skilyrða. Þannig geti sum störf verið þess eðlis að gera þurfi þá efnislegu kröfu að viðkomandi hafi fullkomið vald á íslensku til að geta sinnt starfinu. Að öðru leyti hafi frumvarpið ekki í för með sér efnislega breytingu eða breytingar á öðrum lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 5. febrúar 2019.

Páll Magnússon,
form.
Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.