Ferill 518. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 897  —  518. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um jafnlaunavottun Stjórnarráðsins.


     1.      Hvernig er staðan á jafnlaunavottun Stjórnarráðsins?
    Hinn 1. febrúar 2019 höfðu eftirfarandi ráðuneyti öðlast jafnlaunavottun: forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti. 1 Þau ráðuneyti sem hafa lokið úttekt og bíða afhendingar vottunarskírteinis voru samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Utanríkisráðuneyti bíður eftir úttektardagsetningu frá vottunaraðila.

     2.      Hver var niðurstaða launagreininga hvað varðar kynbundinn launamun?
    Niðurstöður launagreiningar varðandi kynbundinn launamun hjá forsætisráðuneytinu voru 0,73% þegar búið var að taka tillit til frávika sem leiða af ákvæðum laga, m.a. um launaákvarðanir embættismanna. Kynbundinn launamunur reyndist hins vegar vera 4,3% þegar greining var gerð á öllu úrtakinu. Í báðum tilfellum var um að ræða hærri laun hjá konum en körlum.
    Launagreiningar í jafnlaunakerfum ráðuneyta eru á ábyrgð hvers ráðuneytis fyrir sig. Forsætisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um launagreiningar annarra ráðuneyta né niðurstöðum um launamun kynjanna hjá þeim. Óski fyrirspyrjandi upplýsinga um niðurstöður launagreininga í öðrum ráðuneytum er rétt að hann beini fyrirspurnum þar að lútandi til hlutaðeigandi ráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis.

     3.      Hver var ástæða þess að ekki var unnið að jafnlaunavottun fyrir Stjórnarráðið sem eina heild eins og undirstrikað var að gera ætti í nefndaráliti á þingskjali 942 á 146. löggjafarþingi (437. mál) í stað hvers ráðuneytis fyrir sig?
    Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. lög nr. 56/2017, skulu fyrirtæki eða stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlast vottun, sbr. 10. tölul. 2. gr. laganna, að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85, sbr. 1. gr. c staðalsins. Samkvæmt ákvæðinu hvílir lagaskyldan til að afla jafnlaunavottunar sjálfstætt á hverri stofnun og hverju fyrirtæki fyrir sig.
    Í fyrirspurninni er vísað til umfjöllunar í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp sem varð að lögum nr. 56/2017, þar sem segir:
    „Þá leggur meiri hlutinn til að Stjórnarráð Íslands skuli hafa öðlast vottun skv. 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu skv. 5 mgr. 19. gr. á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2018. Meiri hlutinn undirstrikar að líta skuli á Stjórnarráð Íslands sem eina heild, þ.e. að öll ráðuneytin sem mynda Stjórnarráð Íslands fari í gegnum ferli til að öðlast jafnlaunavottun sem ein heild eða einn vinnustaður.“
    Eins og kunnugt er er ríkisstjórn Íslands ekki fjölskipað stjórnvald og telst hvert ráðuneyti fyrir sig sérstök stofnun og sérstakt stjórnvald, sbr. 1. og 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, þar sem þessi meginatriði íslenskrar stjórnskipunar eru áréttuð. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er sérstaklega fjallað um stöðu ráðuneyta en þar segir:
    „Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“
    Samkvæmt framangreindu voru ekki lagalegar forsendur til að fylgja áherslum meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem fram koma í nefndaráliti um málið og vísað er til að framan.
1    Í samræmi við forsetaúrskurð nr. 118/2018, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, sbr. þingsályktun nr.1/149, um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, var gerð sú breyting að í stað velferðarráðuneytis kom annars vegar heilbrigðisráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti og tók breytingin gildi um síðustu áramót. Þar sem um er að ræða ný ráðuneyti, þ.e. ný sérstök stjórnvöld, er ljóst að til að uppfylla áskilnað laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um jafnlaunavottun þarf að hefja vottunarferli að nýju í hvoru ráðuneyti fyrir sig. Ekki hefur verið staðfest hvenær sú vinna hefst í félagsmálaráðuneytinu annars vegar og í heilbrigðisráðuneytinu hins vegar.