Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 900  —  475. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um eiðstaf dómara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa dómarar við íslenska dómstóla undirritað eiðstaf þegar þeir hefja störf? Ef svo er, hvernig er sá eiðstafur nú á dögum og hefur hann breyst í tímans rás?

    Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, skal hver embættismaður vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Eftirfarandi svar miðast við að elstu skjöl sem varðveitt eru í skjalasafni ráðuneytisins eru frá árinu 1988.
    Drengskaparheit dómara við Hæstarétt Íslands 1988–1994 var svohljóðandi:
    „Ég undirrituð/undirritaður, sem skipuð/skipaður er dómari við Hæstarétt Íslands, heiti því að vera stjórnvöldum landsins trú/r og hlýðin/n, halda stjórnskipunarlög ríkisins og gegna af árvekni og samviskusemi skyldum þeim, er starf mitt og skipunarbréf leggja mér á herðar.“
    Drengskaparheit dómara við Hæstarétt Íslands 1994–2010 var svohljóðandi:
    „Ég undirrituð/undirritaður, sem skipuð/skipaður hef verið dómari við Hæstarétt Íslands, heiti því hér með að halda stjórnskipunarlög ríkisins og gegna af árvekni og samviskusemi skyldum þeim, er starf mitt og skipunarbréf leggja mér á herðar.“
    Drengskaparheit héraðsdómara 1994–2010 var svohljóðandi:
    „Ég undirrituð/undirritaður, sem skipuð/skipaður hefur verið héraðsdómari, heiti því að vera stjórnvöldum landsins trú/r og hlýðin/n, halda stjórnskipunarlög ríkisins og gegna af árvekni og samviskusemi skyldum þeim, er starf mitt og skipunarbréf leggja mér á herðar.“
    Frá árinu 2010 hafa drengskaparheit héraðsdómara, hæstaréttardómara og nú landsréttardómara verið samhljóða:
    „Ég undirrituð/undirritaður, sem skipuð/skipaður hef verið héraðsdómari/landsréttardómari/hæstaréttardómari/, heiti því að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og gegna af árvekni og samviskusemi skyldum þeim, er starf leggur mér á herðar.“