Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 901  —  458. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um störf nefndar um dómarastörf.


     1.      Hvers vegna hafa ekki verið birt álit nefndar um dómarastörf vegna áranna 2017 og 2018 eins og skylt er skv. 2. mgr. 10. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016? Hvenær má vænta þess að álitin verði birt?
    Samkvæmt lögum um dómstóla, nr. 50/2016. sem tóku gildi 1. janúar 2018 skipar dómstólasýslan þrjá menn í nefnd um dómarastörf. Nefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og hefur aðsetur hjá dómstólasýslunni. Til að afla svara við fyrirspurninni hefur ráðuneytið óskað upplýsinga frá dómstólasýslunni.
    Í tíð eldri laga um dómstóla nr. 15/1998 birti nefnd um dómarastörf álit sín fyrir árin 2010–2016. Fyrir þeirri framkvæmd var hins vegar ekki skýr lagaheimild og var því beðið með frekari birtingu álita þar til ný lög um dómstóla, nr. 50/2016, tóku gildi 1. janúar 2018. Í lögunum er kveðið á um skyldu nefndarinnar til birtingar á álitum hennar. Jafnframt er þar gert ráð fyrir því að nefndin setji í samráði við dómstólasýsluna reglur um birtingu álita. Með nýjum lögum um dómstóla varð jafnframt breyting á starfsemi nefndarinnar og nýtur hún nú þjónustu dómstólasýslunnar. Nokkurn tíma hefur tekið að fella hið nýja fyrirkomulag í fastar skorður. Varð allt framangreint til þess að dráttur varð á birtingu álita nefndarinnar. Öll álit ársins 2017 hafa nú verið birt á heimasíðu dómstólasýslunnar og eitt þriggja álita ársins 2018. Ástæða þess að tvö álit ársins 2018 hafa ekki enn verið birt er sú að þeim var lokið 8. janúar 2019 og nokkra undirbúningsvinnu þarf áður en álit er birt.

     2.      Hvað voru mörg álit gefin á árunum 2017 og 2018 og hversu mörg mál bíða afgreiðslu nefndarinnar?
    Árið 2017 bárust nefndinni sjö kvartanir. Voru þær allar nema ein afgreiddar það ár, en einni var lokið í janúar 2018. Engin eldri mál voru óafgreidd í ársbyrjun 2017. Árið 2018 bárust nefndinni þrjár kvartanir og var ein þeirra afgreidd sama ár en hinar tvær í janúar 2019. Hjá nefndinni er nú eitt óafgreitt mál og barst það í janúar 2019.

     3.      Hvernig er tryggt að meðferð mála hjá nefnd um dómarastörf fari eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, eins og kveðið er á um í 3. gr. 9. gr. fyrrgreindra laga? Eru í gildi verkferlar, innri verklagsreglur eða málsmeðferðarreglur vegna erinda sem nefndinni berast?
    Nefnd um dómarastörf er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og telst hluti dómskerfisins. Ákvarðanir nefndarinnar verða ekki endurskoðaðar af öðru stjórnvaldi. Skv. 3. mgr. 9. gr. laga um dómstóla gilda stjórnsýslulög um meðferð mál hjá nefndinni. Að öðru leyti hefur nefndin ekki sett sér sérstakar verklagsreglur.