Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 921  —  309. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um mengandi lífræn efni í jarðvegi sem losaður er í Bolaöldu.


     1.      Telur ráðherra öruggt að öll jarðefni, mold, möl, grjót og steinsteypubrot sem flutt eru á jarðvegslosunarsvæðið í Bolaöldu í landi Ölfuss séu með öllu laus við mengandi lífræn efni? Ef ekki, hvernig getur ráðherra réttlætt slíka losun með tilliti til vatnsverndarsjónarmiða og þess að losunin á sér stað hátt yfir sjávarmáli og úrgangur getur þannig runnið í átt til sjávar og mengað jörð, vatn o.fl. sem á vegi hans verður?
    Um nýtingu á óvirkum jarðvegsúrgangi, svo sem mold, möl og grjóti, til landmótunar í Bolaöldu gilda ákvæði sem fram koma í starfsleyfisskilyrðum fyrir starfsemina. Heilbrigðisnefnd Suðurlands gefur út starfsleyfið og hefur eftirlit með að ákvæðum þess sé fylgt. Starfsleyfið takmarkast við afmarkað svæði í Bolaöldum, sem merkt er sem E1 í aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss. Þetta svæði er ekki á skilgreindu vatnsverndarsvæði samkvæmt aðalskipulaginu.
    Ákvæði laga og reglugerða um gerð aðalskipulags, afmörkun vatnsverndarsvæða, og starfsleyfi og eftirlit með stafsleyfisskyldri starfsemi eru m.a. sett til þess að vernda umhverfið og búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði. Varðandi starfsemina í Bolaöldu hefur þessum ákvæðum verið fylgt. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að vikið hafi verið frá ákvæðum starfsleyfisins.

     2.      Hvaða fráviksmörk telur ráðherra hugsanleg í þessu efni og hvaða hlutfall lífrænna efna í jarðvegsefnum telur ráðherra viðunandi? Hvaða rannsóknir leggur ráðherra til grundvallar svari sínu?
    Ekki er ljóst um hvaða fráviksmörk eða lífrænu efni er spurt.
    Almennt gildir að heimilt er að nota jarðveg til landmótunar í Bolaöldu, en innihald lífrænna efna í jarðvegi er mjög mismunandi eftir uppruna. Hæst er kolefnisinnihaldið í svokallaðri mójörð (yfir 20% kolefni) en minnst í sandjörð (minna en 1,5% kolefni). Í starfsleyfinu eru ekki sett skilyrði hvað þetta varðar, hins vegar er óheimilt að taka móti lífrænum úrgangi eins og húsdýraáburði og landbúnaðarhrati.

     3.      Til hvaða aðgerða hefur ráðherra gripið til að verja vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins fyrir áhrifum lífrænna mengandi efna í jarðvegi sem losaður er í Bolaöldu? Hvaða áform hefur ráðherra um frekari aðgerðir?
    Eins og fram kemur í svari 1. tölul. fyrirspurnarinnar er ákvæðum gildandi laga og reglugerða um starfsemina í Bolaöldu framfylgt. Ekki hafa komið fram upplýsingar um að þar séu losuð lífræn mengandi efni. Ef fyrirspyrjandi eða aðrir aðilar hafa upplýsingar um þess háttar losun er viðeigandi farvegur að koma þeim á framfæri við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Það er síðan hlutverk eftirlitsaðila að bregðast við slíkum upplýsingum.