Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 987  —  587. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (fæðingarstaður barns).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Álfheiður Eymarsdóttir, Guðjón S. Brjánsson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Í þjóðskrá skal m.a. skrá upplýsingar um fæðingarstað barns. Skrá skal sveitarfélag fyrsta lögheimilis barns sem fæðingarstað þess. Jafnframt skal skrá upplýsingar um þann stað þar sem fæðing átti sér stað.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á þingskjali 659 á 148. löggjafarþingi (273. mál) kemur fram að fæðingarstaður barns er heiti þess sveitarfélags þar sem fæðing á sér stað. Í skýrslu frá Fæðingaskrá fyrir árið 2016 kemur fram að 74,1% allra fæðinga eiga sér stað á Landspítalanum (LSH), 9,8% á Sjúkrahúsinu á Akureyri, 7,3% á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, 2,1% á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 1,5% á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, 0,1% á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum, 0,9% á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði, 1,9% á Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað, 0,3% á leið á fæðingarstað og 2,1% fæðinga eru heimafæðingar. Samkvæmt þessu fæðast börn í raun aðallega bara í átta sveitarfélögum í landinu.
    Nauðsynlegt er að halda utan um fjölda fæðinga á heilbrigðisstofnunum og á öðrum stöðum en vegna þess að oft þarf af illri nauðsyn að fara langar vegalengdir til þess að fæða börn mætti taka tillit til þess í þjóðskrá, þar sem fæðingarstofnun er skráð í sjúkrasögu, að skrá lögheimili barns sem fæðingarstað þess. Sveitarfélag fæðingarstofnunar er ekki lýsandi fyrir þann uppruna sem skilja má að fæðingarstaður barns sé. Að foreldrar sem búa á Selfossi en þurfa jafnvel að fara til Akureyrar vegna fæðingar þurfi að skrá fæðingarstað barnsins síns sem Akureyri (sjá fyrrgreint svar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra) getur verið mjög ruglandi. Það færi betur í því tilviki að skrá fæðingarstofnun sem Sjúkrahúsið á Akureyri og fæðingarstað sem Árborg.
    Til þess að mæta framangreindum vanda er í þessu frumvarpi mælt fyrir um að fæðingarstaður barns sé sveitarfélag fyrsta lögheimilis. Þá er jafnframt lagt til með frumvarpi þessu að upplýsingum um þann stað þar sem fæðing fer fram sé haldið til haga.