Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1067  —  654. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um umbótasjóð opinberra bygginga.


Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson,
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, að stofna umbótasjóð sem styðji við uppbyggingu nýrrar þjónustu eða nýtt hlutverk opinberra bygginga sem misst hafa fyrra hlutverk sitt og nýtist sjóðurinn jafnframt til að mæta miklum viðhaldskostnaði á sögufrægum byggingunni.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi feli forsætisráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, að stofna umbótasjóð sem styðji við uppbyggingu nýrrar þjónustu eða nýtt hlutverk opinberra bygginga sem misst hafa fyrra hlutverk sitt og hægt sé að leita til vegna viðhaldskostnaðar.
    Víða um land eru vegleg hús sem eiga glæsta sögu og vitna um menningarlegan stórhug þeirra sem reistu þau en hafa glatað tilgangi sínum í áranna rás. Verndun slíkra bygginga ætti að vera eðlilegur og sjálfsagður hluti af skipulagi borga og byggða en þess í stað hefur hún verið nokkuð handahófskennd hér á landi og undir hælinn lagt hvernig viðhaldi hefur verið háttað. Það er þjóðhagslega mikilvægt verkefni að finna sögufrægum byggingum verðugt hlutverk þegar þær hafa misst upprunalegt hlutverk sitt. Þess eru dæmi að slíkar byggingar hafi verið látnar standa auðar í langan tíma og grotna niður. Dæmi eru einnig um sögufrægar byggingar sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk, en þá hefur viljað brenna við að eigendur hafa þurft að standa straum af miklum viðhaldskostnaði, sem hefur svo bitnað á rekstrinum.
    Evrópusambandið hefur sett á laggirnar sjóð með heitinu Svæðisbundnir innviðir fyrir félagslega og fjárhagslega samhæfingu (e. Local infrastructure for Social and Economic Cohesion). Markmiðið með sjóðnum er m.a. að styrkja endurreisn bygginga sem áður voru staðarprýði svo að þær gagnist nærsamfélaginu á sem hagkvæmastan hátt og öðlist hlutverk á ný. Þetta fyrirkomulag gæti verið Íslendingum fyrirmynd. Sjóðurinn gæti heyrt undir Ríkiseignir, sem hafa m.a. umsjón með fasteignum ríkisins enda hlutverk sjóðsins í tengslum við það hlutverk sem Ríkiseignir hafa með höndum.
    Flutningsmenn telja að verndun bygginga, nýtt hlutverk þeirra og uppbygging nýrrar þjónustu ætti að vera hluti af framtíðarstefnu sjóðs á vegum ríkisins. Stefnu sjóðsins yrði framfylgt með tilliti til gildismats og með réttláu vali á verkefnum út frá því hvernig best megi nýta byggingar sem misst hafa upprunalegt hlutverk sitt.