Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1138  —  712. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum (Grænland og Færeyjar).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Inga Sæland, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: auk Grænlands og Færeyja.

2. gr.

    Á eftir orðunum „Evrópska efnahagssvæðið“ í 5. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: auk Grænlands og Færeyja.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Mál þetta er flutt af þingmönnum Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Þórunn Egilsdóttir, varaformaður ráðsins, tók þátt í undirbúningi málsins en í fjarveru hennar stendur varamaður hennar í ráðinu, Halla Signý Kristjánsdóttir, að flutningi þess.
    Á grundvelli laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, er unnt að fá endurgreiðslu á því sem nemur 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til vegna kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi. Jafnt innlendir sem erlendir aðilar geta sótt um endurgreiðslu. Hafi meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði verkefnis fallið til hér á landi eru jafnframt endurgreidd 25% af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Gildistími laganna hefur tvívegis verið framlengdur og gilda lögin nú út árið 2021.
    Endurgreiðslan sem kveðið er á um í lögunum er ein helsta forsenda þess að erlendir aðilar ráðist í kvikmyndaverkefni hér á landi enda lækkar framleiðslukostnaður um það sem endurgreiðslunni nemur. Kvikmyndaverkefni sem framleidd eru á Íslandi hljóta 25% endurgreiðslu falli þau undir lögin að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig hjálpar þetta fyrirkomulag íslenskum fyrirtækjum, svo sem til að sækjast eftir samvinnuverkefnum með erlendum aðilum.
    Sem fyrr segir fæst fjórðungur alls framleiðslukostnaðar sem fellur til á Evrópska efnahagssvæðinu endurgreiddur hafi a.m.k. 80% heildarframleiðslukostnaðarins fallið til á Íslandi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Okkar næstu nágrannar og vinir, Grænlendingar og Færeyingar, sem hafa mikla þörf á stuðningi við atvinnuuppbyggingu, eru ekki í EES. Það gerir það að verkum að kostnaður sem fellur til þar fæst ekki endurgreiddur að neinu leyti. Leiðir það af sér að kvikmyndagerðarmenn á Íslandi eru ragir við að fara þangað til að kvikmynda. Sökum nándar við Grænland og Færeyjar verða Íslendingar að teljast líklegri en aðrar þjóðir til að ráðast í verkefni á borð við kvikmyndagerð í löndunum tveimur en hvatinn til þess mundi stóraukast ef sömu reglur giltu um endurgreiðslur vegna framleiðslukostnaðar sem fellur til þar og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Að auki væri um að ræða innspýtingu fyrir grænlenskan og færeyskan efnahag ef þessi hvati væri fyrir hendi.
    Í lok árs 2015 svaraði þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýrslubeiðni um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin áhrif. Í skýrslunni kemur fram að stuðningur hins opinbera við kvikmyndagerð hafi aðallega verið með tvennum hætti; annars vegar með styrkjum Kvikmyndasjóðs og hins vegar með endurgreiðslu hluta kostnaðar við gerð kvikmynda á Íslandi. Einnig kemur þar fram að endurgreiðslur séu styrkir til greinarinnar sem styrki hlutfallslega stöðu hennar umfram greinar sem ekki njóta stuðnings. Ef einungis er litið til beinna áhrifa eru skatttekjur af kvikmyndaframleiðslu alla jafna hærri en sem nemur endurgreiðslum vegna kostnaðar. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að sé einnig tekið tillit til styrkja úr Kvikmyndasjóði eru beinar skatttekjur af kvikmyndaframleiðslu lægri en styrkir hins opinbera. Seinna í skýrslunni eru taldir upp þrír meginflokkar markmiða endurgreiðslukerfisins. Í fyrsta lagi er markmiðið að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru. Í öðru lagi að laða að erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi og í þriðja lagi að efla þekkingu og reynslu innlends kvikmyndagerðarfólks með þátttöku í fleiri, stærri og fjölbreyttari verkefnum. Í skýrslunni er bent á að þessum markmiðum hafi verið náð og ýmislegt sem bendi til að styrkjakerfi við kvikmyndagerð á Íslandi sé einfalt og gagnsætt í samanburði við fyrirkomulag í ýmsum öðrum löndum.
    Með þessu frumvarpi er ætlunin að sömu endurgreiðslureglur gildi um framleiðslukostnað sem fellur til á Grænlandi og í Færeyjum annars vegar og í aðildarríkjum EES hins vegar. Þannig verði fjórðungur framleiðslukostnaðar kvikmyndar eða sjónvarpsefnis sem fellur til í þessum löndum hæfur til endurgreiðslu samkvæmt reglum laganna að því gefnu að 80% heildarframleiðslukostnaðarins falli til á Íslandi. Frumvarpinu er ætlað að auka hvata kvikmyndaiðnaðarins til að ráðast í verkefni á grænlenskum og færeyskum slóðum í stað þess að þar sé töluvert dýrara að taka upp kvikmyndir en á Evrópska efnahagssvæðinu.