Ferill 724. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1152  —  724. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (strandveiðar).

Frá atvinnuveganefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
     a.      Orðin „og aflaheimilda á tímabil og landsvæði“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla, að ufsa undanskildum, verði náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.
     c.      Við 3. málsl. 4. mgr. bætist: sbr. þó 9. mgr.
     d.      Á eftir 6. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Heimilt er hverju skipi að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.
                      Fiskistofa skal auglýsa árlega eftir umsóknum um leyfi til strandveiða. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa í því magni sem ráðherra ákveður með reglugerð ár hvert án þess að sá afli teljist til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips gilda eftirtalin skilyrði:
              a.      Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
              b.      Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. þó 2. málsl. 9. mgr.
                      Sé heimild skv. 8. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þ.e. ákvæði laganna um strandveiðar.
    Strandveiðar hafa verið stundaðar frá því í júní 2009. Kerfið hefur gengið upp eins og lagt var upp með og reynst nýbreytni innan stjórnkerfis fiskveiða. Frá árinu 2010 hafa að meðaltali 674 bátar stundað strandveiðar ár hvert.
    Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi hafa veiðarnar verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilt er á sem skemmstum tíma þar til leyfilegum heildarafla á viðkomandi svæði hefur verið náð. Talið hefur verið að af þessu hafi getað stafað aukin slysahætta.
    Við gerð þessa frumvarps hefur verið leitast við að nýta þá reynslu sem skapaðist við tímabundna breytingu á ákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem fjallar um strandveiðar og gerð var á vorþingi 2018, sbr. lög nr. 19/2018. Sú tímabundna breyting fól í sér að hver bátur gat stundað strandveiðar í 12 daga í hverjum mánuði svo lengi sem ráðstöfuðum heildarafla var ekki náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setti um strandveiðar fyrir árið 2018. Með þessu frumvarpi er áformað að taka mið af þeirri reynslu og lögfesta ákvæði með svipuðu efni varanlega með það að markmiði að bæta umhverfi strandveiða og auka öryggi sjómanna á strandveiðum.
    Með frumvarpinu er lagt til að breytt verði ákvæði 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem fjallar um strandveiðar á þann veg að það verði með svipuðu sniði og ákvæði til bráðabirgða sem lögfest var með lögum nr. 19/2018, um breytingu á sömu lögum, sem giltu um strandveiðar fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins eru m.a. að gert er ráð fyrir að hverju strandveiðiskipi verði heimilt að stunda strandveiðar í 12 daga innan hvers mánaðar í fjóra mánuði á ári, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.
    Strandveiðar verða háðar sérstöku leyfi Fiskistofu með sama hætti og verið hefur.
    Engar breytingar eru gerðar á svæðaskiptingu. Ráðherra mun áfram kveða nánar á um skiptingu landsvæða með reglugerð og við þessi svæði miðast skráning skipa. Sú breyting verður gerð að aflaheimildum verður ekki lengur skipt á landsvæði eða tímabil heldur miðað við að heimilt verði að stunda veiðar frá öllum landsvæðum þar til veitt hefur verið það heildaraflamagn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.
    Ekki er gert ráð fyrir að ráðherra geti stöðvað veiðar þegar áætluðu aflamagni er náð eins og var samkvæmt umræddu bráðabirgðaákvæði sem lögfest var með lögum nr. 19//2018 og heldur ekki að Fiskistofa geti stöðvað veiðar á einstökum landsvæðum þegar áætluðu aflamagni er náð eins og var samkvæmt eldri reglum. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofa skuli stöðva strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa, að frátöldum ufsa, fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.
    Áfram verða í gildi sömu reglur um að sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi til strandveiða frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili.
    Einnig er miðað við að reglur um heimilisfesti verði óbreyttar eins og þær voru fyrir gildistöku laga nr. 19/2018, þ.e. að leyfið skuli veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að umsóknarferli um leyfi til veiðanna verði með þeim hætti að Fiskistofa auglýsi árlega eftir umsóknum með svipuðum hætti og verið hefur.
    Þá eru í frumvarpinu svipaðar reglur og voru í áðurnefndu ákvæði til bráðabirgða, sem lögfest var með lögum nr. 19/2018, um að hverju strandveiðiskipi sé heimilt að landa ufsa í því magni sem ráðherra ákveður með reglugerð ár hvert án þess að sá afli teljist til heildarafla eða hámarksafla hverrar veiðiferðar. Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips skulu gilda eftirtalin skilyrði: 1) Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður. 2) Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. þó 2. málsl. 3. mgr. Sé heimild þessi nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um. Með frumvarpinu er því gert ráð fyrir að andvirði selds ufsa skiptist milli útgerðar og sjóðs skv. 3. mgr. 1. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla í hlutfallinu 80/20.
    Ekkert hámarksaflamagn er sett á ufsa sem heimilt er að veiða á strandveiðitímabilinu án þess að sá afli reiknist til aflamarks heldur miðað við að ráðherra ákveði það með reglugerð fyrir ár hvert. Gera má ráð fyrir að ráðherra ákveði það með reglugerð um veiðar í atvinnuskyni sem sett er fyrir hvert fiskveiðiár.
    Nefndin telur brýnt að málið verði afgreitt fyrir nýtt strandveiðitímabil. Frumvarpið kemur til nánari umfjöllunar í nefndinni eftir fyrstu umræðu og gefst þar svigrúm til að skoða einstaka þætti þess betur.