Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1182  —  599. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Þór Gunnarssyni um kolefnisspor matvæla.

     1.      Eru uppi áform hjá ráðherra, til að mynda í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðherra, að krefjast þess eða mælast til þess við framleiðendur matvæla að kolefnisspors matvæla sé getið í verslunum og á veitingastöðum?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt er að því að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif. Hinn 1. febrúar sl. undirritaði ráðherra ásamt Bændasamtökum Íslands, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum iðnaðarins samkomulag um að gera gangskör að því að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga. Skipaður hefur verið samráðshópur með fulltrúum neytenda, bænda, verslunar, iðnaðar og atvinnurekenda og er hlutverk hans að ráðast í eins árs átaksverkefni um merkingar og hvernig megi betur upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Í þeirri vinnu verður m.a. tekið til skoðunar hvernig betur megi upplýsa neytendur um kolefnisfótspor matvæla.
    Árið 2018 skipaði ráðherra starfshóp sem vinnur að því að móta innkaupastefnu matvæla fyrir opinbera aðila. Hlutverk hópsins er að tryggja neytendum matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa og skal stefnan m.a. taka mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli að minnkun kolefnisspors við framleiðslu og flutning. Á vettvangi hópsins hefur verið til umræðu að leggja til að hannað verði opinbert reiknilíkan fyrir kolefnisspor matvæla. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum til ráðherra í apríl 2019. Komi til þess að slíkt reiknilíkan verði hannað gæti það nýst framleiðendum við að upplýsa neytendur um kolefnisfótspor matvæla.
    Í ágúst 2018 skipaði ráðherra verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að móta matvælastefnu fyrir Ísland. Við mótun stefnunnar mun verkefnastjórnin hafa ákveðna þætti að leiðarljósi, m.a. að stuðla að sjálfbærri matvælaframleiðslu í gegnum virðiskeðjuna, uppruna matvæla, merkingar og matvælaöryggi og aðgengi að upplýsingum og gegnsæi. Áætlað er að drög að matvælastefnu liggi fyrir í árslok 2019.

     2.      Hefur verið kannað hversu mikill kostnaður hlytist af slíkri aðgerð?
    Hversu mikill kostnaður mundi hljótast af slíkri aðgerð veltur að mörgu leyti á því hvaða leið yrði fyrir valinu til þess að upplýsa neytendur um kolefnisfótspor matvæla. Í ljósi þess að ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvaða leið telst ákjósanlegust í þeim efnum liggur ekki fyrir hversu mikill kostnaður hlytist af því.

     3.      Er ráðherra kunnugt um að verið sé að skoða sambærilegar aðgerðir í nágrannalöndum?
    Hvorki ráðherra né Matvælastofnun er kunnugt um að sambærilegar aðgerðir séu í vinnslu í nágrannaríkjum en það verður kannað nánar í tengslum við þá vinnu sem getið er í svari við 1. tölul.