Ferill 651. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1219  —  651. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um úttekt á InterRAI-mælitækjum og færni- og heilsumati.


     1.      Mun heilbrigðisráðuneytið fylgja eftir öllum þeim ábendingum sem embætti landlæknis setti fram í minnisblaði, dagsettu 18. júní 2018, í framhaldi af úttekt KPMG á InterRAImælitækjum og færni- og heilsumati? Ef ekki, þá hvaða ábendingum og af hverju?
    Í kjölfar úttektar KPMG skipaði ráðherra vinnuhóp í lok september sem var falið að fara yfir tillögur KPMG og ábendingar embættis landlæknis og koma með tillögur um áframhald vinnunnar með það að markmiði að vinna að úrbótum varðandi notkun á InterRAI-mælitækjum og framkvæmd við færni- og heilsumat. Í starfshópnum sitja fulltrúar ráðuneytisins, embættis landlæknis og Sjúkratrygginga Íslands. Beðið er eftir niðurstöðu vinnuhópsins og mun ráðuneytið ekki bregðast við úttektinni og minnisblaðinu fyrr en hún liggur fyrir.

     2.      Hefur vinnuhópur um RAI-NH verið stofnaður eins og lagt er til í minnisblaðinu? Ef svo er, hefur fulltrúum þjónustuveitenda verið boðið að hafa fulltrúa í þeim vinnuhópi?
    Eins og greinir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þá hefur ráðherra skipað vinnuhóp eins og lagt er til í minnisblaði embættis landlæknis. Í skipunarbréfi var vinnuhópnum gert að hafa samráð við hlutaðeigandi aðila eftir þörfum. Vinnuhópurinn hefur haldið þrjá samráðsfundi. Á þann fyrsta voru boðaðir fulltrúar Landssambands eldri borgara, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Á annan samráðsfund voru boðaðir fulltrúar færni- og heilsumatsnefnda höfuðborgarsvæðisins, Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja. Á þriðja samráðsfundinn voru boðaðir fulltrúar Heimahjúkrunar Reykjavíkur, Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands, Suðurnesja og Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar auk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala – öldrunarlækninga.

     3.      Er endurskoðun hafin á reglugerð um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma nr. 466/2012 eins og bent er á í minnisblaðinu að nauðsynlegt sé?
    Endurskoðun á reglugerð um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma nr. 466/2012 er ekki hafin. Ákvörðun um endurskoðun verður tekin þegar tillögur vinnuhópsins liggja fyrir.