Ferill 650. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1220  —  650. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Þór Gunnarssyni um gistinætur í hús- og ferðaþjónustubifreiðum.


     1.      Hefur ráðherra upplýsingar um fjölda gistinátta í bifreiðum á vegum bílaleiga, þ.m.t. húsbílum og svokölluðum „campers“?
    Í þeim gistináttatölum sem Hagstofan safnar eru eingöngu teknar saman gistinætur sem greitt er gjald fyrir. Þetta er í samræmi við aðferðafræði sem skilgreind er í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 692/2011. Hins vegar er upplýsingar og gögn um dvalarflokkun ferðamanna sem gista í bifreiðum á vegum bílaleiga, þ.m.t. húsbílum og svokölluðum „campers“, að finna í könnun sem fór af stað árið 2017 og er framkvæmd mánaðarlega á vegum Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands. Þar er bæði talað um flokkun á gistingu sem greinir á milli greiddrar gistingar (skráðar gistinætur) og ógreiddrar gistingar (óskráðar gistinætur).
    Í bráðabirgðatölum Hagstofunnar um „Áætlaðar óskráðar erlendar gistinætur 2017–2019“ má finna áætlaðar tölur fyrir hvern mánuð af gistinóttum sem ekki er greitt fyrir. Skilgreiningin er eftirfarandi: „Bílar, ógreitt; Gisting í húsbíl, tjaldi, tjaldvagni eða hjólhýsi utan gjaldskyldra tjaldsvæða.“


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ef greitt er fyrir framantaldar tegundir gistimáta á tjaldsvæði eru þær taldar með á tjaldsvæðum í gistináttatalningu Hagstofunnar.

     2.      Hefur ráðherra upplýsingar um í hvaða mæli gistináttagjald vegna slíkra bifreiða skilar sér í ríkissjóð af tjaldsvæðum og frá ferðaþjónustuaðilum?
    Gistináttagjald vegna húsbíla eða svokallaðra „campers“ er ekki innheimt nema viðkomandi dvelji á tjaldsvæði og greiði þar fyrir gistingu. Þær gistináttatölur eru í gagnagrunni Hagstofunnar í gistiflokknum tjaldsvæði. Tölur fyrir tjaldsvæði árið 2018 í gagnagrunni Hagstofunnar hafa enn ekki verið birtar.
    Á tjaldsvæðum er ekki aðgreint á milli húsbíla, „campera“, tjaldvagna, hjólhýsa eða tjalda á tjaldsvæðum. Árið 2017 voru gistinætur á tjaldsvæðum samtals 1.070.969. Miðað við 300 kr. á gistieiningu á tjaldsvæðum ættu tekjur af gistináttagjaldi vegna þeirra að hafa verið 321.300.000 kr.
    Út frá töflu sem má nálgast á Mælaborði ferðaþjónustunnar kemur fram að hlutfallið fyrir ógreidda gistingu í húsbíl eða tjaldi er 1,71% af heildinni fyrir árið 2018 en það er eina árið til þessa sem tölur eru tiltækar fyrir.
    Í eftirfarandi töflu má sjá dreifingu gistingar fyrir árið 2018.

Greidd/ógreidd gisting, Dvalarflokkun Hlutfall% Miðgildi dvalarlengdar Meðaldvalarlengd ferðamanna
Ekki greitt fyrir næturdvöl, Vinir/ættingjar, íbúðaskipti o.fl. 3,83% 6 8,4
Ekki greitt fyrir næturdvöl, Tjald/húsbíll (ekki greitt fyrir) 1,71% 5 5,5
Ekki greitt fyrir næturdvöl, Önnur gisting 2,68% 3 5,5
Ekki greitt fyrir næturdvöl, Gisti ekki 1,68% 0 0,0
Greitt fyrir næturdvöl, Hótel, gistiheimili 46,25% 4 4,5
Greitt fyrir næturdvöl, Íbúðagisting 15,78% 4 5,0
Greitt fyrir næturdvöl, Hostel 9,97% 3 3,7
Greitt fyrir næturdvöl, Tjald (greitt fyrir) 2,56% 6 6,9
Greitt fyrir næturdvöl, Hótelíbúð 7,05% 3 3,8
Greitt fyrir næturdvöl, Sumarhús eða skálar 5,18% 3 3,9
Greitt fyrir næturdvöl, Húsbíll (greitt fyrir) 3,11% 7 6,9
Greitt fyrir næturdvöl, Önnur gisting 0,20% 2 4,0
     Vefur Mælaborðs ferðaþjónustunnar, 18. mars 2019.
     www.maelabordferdathjonustunnar.is/is/kannanir/landamaerakonnun

     3.      Telur ráðherra koma til greina að innheimta gistináttagjald vegna slíkrar gistingar af bílaleigum fremur en gististöðum og stuðla þannig að því að leigutakar velji að gista á skipulögðum ferðamannastöðum þó að í bílum sínum sé?
    Á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála er nú að störfum starfshópur sem hefur það verkefni að kanna leiðir til gjaldtöku í ferðaþjónustu samkvæmt stjórnarsáttmála. Meðal verkefna hópsins er að tilgreina helstu leiðir til gjaldtöku og fjalla um kosti þeirra og galla út frá a) mismunandi tilgangi gjaldtöku; b) völdum markmiðum Vegvísis í ferðaþjónustu (þ.m.t. dreifingu ferðamanna um landið); c) lagalegum álitaefnum. Þá er hópnum ætlað að gera rökstudda tillögu til gjaldtöku á grundvelli þess sem segir í tillögunni.
    Hópurinn hefur ekki lokið störfum en eitt af því sem hann hefur að leiðarljósi í störfum sínum er að stuðla að sanngjörnu samkeppnisumhverfi í ferðaþjónustu og auknu jafnræði í innheimtu gistináttagjalds. Sú leið sem spurt er um gæti þegar af þeim sökum hlotið brautargengi í tillögum hópsins sem síðan verða teknar til skoðunar á vettvangi þeirra ráðherra sem hlut eiga að máli.