Ferill 770. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1227  —  770. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (aðsetur Félagsdóms).

Frá félags- og barnamálaráðherra.

1. gr.

    1. málsl. 38. gr. laganna orðast svo: Setja skal á stofn dómstól fyrir allt landið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í 38. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, er meðal annars kveðið á um að í höfuðstað landsins skuli setja á stofn dómstól fyrir allt landið og að dómstóllinn skuli nefnast Félagsdómur. Með frumvarpi þessu er lagt til að ekki verður lengur í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur kveðið á um að aðsetur Félagsdóms skuli vera í höfuðstað landsins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Félagsdómur hefur frá árinu 1998 verið með aðsetur í dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur er til húsa en í 38. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er kveðið á um að Félagsdómur skuli hafa aðsetur í höfuðstað landsins. Með frumvarpi þessu er verið að tryggja að aðsetur Félagsdóms geti verið annars staðar en í höfuðstað landsins finnist hentugra húsnæði fyrir dómstólinn utan Reykjavíkur.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarps þessa er að í 1. málsl. 38. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur verði ekki lengur kveðið á um að aðsetur Félagsdóms skuli vera í höfuðstað landsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Að teknu tilliti til efnis frumvarps þessa er ekki talin ástæða til að meta sérstaklega sam-ræmi þess við stjórnarskrá Íslands eða alþjóðlegar skuldbindingar stjórnvalda.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu. Í ljósi þess að í frumvarpinu er einungis um að ræða breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að því er varðar aðsetur Félagsdóms en að öðru leyti ekki gert ráð fyrir breytingum hvað varðar dómstólinn sjálfan, svo sem á hlutverki hans eða skipun dómara við dómstólinn, þykir ekki ástæða til sérstaks samráðs við gerð frumvarpsins. Þess ber þó að geta að efni frumvarpsins hefur verið kynnt Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að áhrif þess verði óveruleg á fjárhag ríkissjóðs, hvort heldur rekstraráhrif eða áhrif á efnahagsreikning. Félagsdómur er þegar í leiguhúsnæði og er gert ráð fyrir að svo verði áfram í nánustu framtíð jafnvel þó að aðsetur dómstólsins kunni að verða utan Reykjavíkur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að í 1. málsl. 38. gr. laganna verði ekki lengur kveðið á um að aðsetur Félagsdóms skuli vera í höfuðstað landsins. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að unnt sé að finna Félagsdómi aðsetur utan Reykjavíkur þyki sú tilhögun henta starfsemi dómstólsins.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.