Ferill 598. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1312  —  598. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um eftirfylgni með þingsályktun um aðgengi að stafrænum smiðjum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður áætlunargerð um uppbyggingu reksturs stafrænna smiðja með það að markmiði að fyrst og fremst framhaldsskólanemendur hafi aðgang að slíkum smiðjum, sbr. þingsályktun um aðgengi að stafrænum smiðjum sem samþykkt var 6. júní 2018? Hvenær má búast við að þeirri áætlunargerð verði lokið?

    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa komið sér saman um verklag við áframhaldandi vinnu um aðgengi að stafrænum smiðjum. Á næstu vikum eru skipulagðir fundir með þeim aðilum sem koma að rekstri stafrænu smiðjanna.
    Lagt er upp með að áætlun og tillögur um útfærslu liggi fyrir á haustmánuðum. Starfsemi stafrænna smiðja er í samræmi við áherslur stjórnvalda um aukna samvinnu milli skóla og atvinnulífs og stuðning við frumkvöðlamennsku og skapandi starfsemi um land allt.
    Áskorunin er að skapa skýra umgjörð og rekstrargrundvöll fyrir stafrænar smiðjur (Fab Lab). Lausnin felst í því að skilgreina aðkomu helstu aðila sem málið varðar. Aðkoma ráðuneytis atvinnuvega- og nýsköpunar hefur einkum verið í gegnum Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem hefur veitt ráðgjöf og stuðning við rekstur smiðjanna. Aðkoma ráðuneytis mennta- og menningarmála hefur einkum verið í gegnum þá framhaldsskóla sem hýsa stafrænu smiðjurnar. Þá gegna heimamenn og atvinnulíf á viðkomandi svæði mikilvægu hlutverki fyrir rekstur og framgang smiðjanna.
    Fab Lab-smiðjurnar starfa í umhverfi hraðrar tækniþróunar og því er símenntun kennara og endurnýjun tækjabúnaðar stór þáttur í rekstri þeirra. Það er því mikilvægt að tryggja þeim farsælan rekstrargrunn þar sem þjálfun í tæknikunnáttu og skapandi hugsun sem og fjárfestingar í búnaði þurfa að ganga vel fyrir sig. Leitast verður við að efla samstarf milli smiðjanna þannig að menntun og fjárfestingar nýtist sem best.