Ferill 717. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1318  —  717. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um ábyrgð á vernd barna gegn einelti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða aðilar sem heyra undir ráðherra bera ábyrgð á því að börn verði ekki fyrir einelti í ljósi þess að ráðherra fer með málefni sifjaréttar, þar á meðal málefni barna, sbr. 19. tölul. 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018? Óskað er eftir því að tilgreindir verði allir aðilar sem bera ábyrgð á því að koma í veg fyrir einelti og vernda þolendur þess, hvernig ábyrgð þeirra skiptist og samkvæmt hvaða lögum og reglum sú ábyrgð hvílir á þeim.

    Vernd barna gegn einelti snertir málefnasvið margra ráðuneyta, stofnana sem og sveitarfélaga. Má til dæmis benda á að dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem m.a. er kveðið á um rétt barna til verndar gegn hvers kyns ofbeldi eða illri meðferð. Einnig heyra barnalög, nr. 76/2003, undir dómsmálaráðuneytið, en samkvæmt þeim lögum bera foreldrar ábyrgð á uppeldi barna sinna og ber að vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.
    Það eru engar stofnanir sem heyra undir dómsmálaráðuneytið sem vinna beinlínis að eineltismálum eða bera ábyrgð á að koma í veg fyrir einelti, enda er almennt reynt að vinna að forvörnum og viðbrögðum við einelti á vettvangi skóla eða frístunda, eftir atvikum með aðkomu sveitarfélaga eða fagráðs eineltismála. Hins vegar heyra til dæmis lögreglustjórar, dómstólar, Persónuvernd og sýslumenn undir ráðuneytið og geta þessir aðilar haft aðkomu að málum þar sem einelti kemur við sögu með einum eða öðrum hætti. Þá getur einelti í einhverjum tilvikum talist það alvarlegt að einstaka þættir þess teljist refsiverðir í skilningi almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í slíkum tilvikum hefur lögreglan hlutverki að gegna við að rannsaka málið og eftir atvikum tryggja barni nauðsynlega vernd í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili.