Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1363  —  326. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um sölu á upprunaábyrgðum raforku.


     1.      Hversu margar upprunaábyrgðir raforku hafa íslensk orkufyrirtæki selt árlega frá árinu 2011 og hvert er heildarverðmæti seldra upprunaábyrgða, annars vegar úr landi og hins vegar innan lands árlega frá 2011?
    Samkvæmt lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl., heldur Orkustofnun utan um upplýsingar um útgefnar upprunaábyrgðir íslenskra orkufyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun er útgáfa upprunaábyrgða á Íslandi sem hér segir frá árinu 2011 (tölurnar eru í TWst.):

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.









    Til útskýringar skal tekið fram að við sölu á upprunaábyrgðum eru skráðar útgefnar upprunaábyrgðir. Ef útgefnar upprunaábyrgðir eru notaðar á Íslandi er það skilgreint sem „afskráðar upprunaábyrgðir“.
    Ekki liggja fyrir opinberar upplýsingar um heildarverðmæti seldra upprunaábyrgða íslenskra orkufyrirtækja. Leitað var til söluaðila upprunaábyrgða raforku á Íslandi og samkvæmt upplýsingum frá þeim má áætla að verðmæti seldra upprunaábyrgða fyrir árið 2018 verði samtals á bilinu 800–850 millj. kr., sjá nánar svar við 2. lið.

     2.      Hvaða orkufyrirtæki voru seljendur og hverjir kaupendur upprunaábyrgða raforku og á hvaða verðbili var söluverð upprunaábyrgða, árlega frá 2011?
    Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun selja eftirfarandi íslensk orkufyrirtæki eða gefa út (án þess að taka fyrir það gjald) upprunaábyrgðir raforku: Landsvirkjun, Orka náttúrunnar, Orkusalan og HS Orka. Meðalverð upprunaábyrgða á markaði undanfarin ár hefur verið á bilinu 0,2–2 evrur á MWst.
    Tekjur HS Orku vegna sölu upprunaábyrgða frá árinu 2011 nema samtals 140 millj. kr. samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Þar af eru 107 millj. kr. frá 1. janúar 2016. Engar upprunaábyrgðir frá HS Orku hafa verið seldar til einstaklinga eða annarra almennra raforkunotenda á Íslandi og allir viðskiptavinir HS Orku, að stóriðju undanskilinni, hafa upprunavottaða raforku. Sami háttur er hafður á hjá Orkusölunni sem selur ekki upprunaábyrgðir heldur hefur frá 2015 látið upprunaábyrgðir fylgja með fyrir allan sinn markað.
    Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun er áætlað að tekjur Landsvirkjunar vegna sölu upprunaábyrgða raforku verði um 600 millj. kr. árið 2018. Landsvirkjun hefur látið upprunaábyrgðir fylgja með í heildsölu undanfarin ár, án gjalds, þannig að heimili og fyrirtæki á Íslandi geti staðfest að þau noti orku úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. Fyrirtæki þurfa hins vegar að kalla eftir upprunavottorði frá smásöluaðila.
    Samkvæmt upplýsingum frá Orku náttúrunnar hafa árlegar tekjur vegna sölu upprunaábyrgða verið 20–60 millj. kr. Á þessu ári er gerir tekjuáætlun ráð fyrir sölu upprunaábyrgða að verðmæti 150 millj. kr. Upprunaábyrgðir fylgja með sölu raforku Orku náttúrunnar til almennra notenda.

     3.      Kann sala á upprunaábyrgðum raforku að hafa áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum? Ef svo er, hvernig?
    Í skýrslu um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi, sem unnin var af Environice fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og kom út í mars 2016, er m.a. fjallað um tengsl upprunaábyrgða við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í orku- og loftslagsmálum. Þar kemur fram að sala upprunaábyrgða frá Íslandi hefur engin tengsl við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Upprunaábyrgðir hafa skv. 2. mgr. 15. gr. tilskipunar 2009/28/EB þann eina tilgang að sýna fram á að tiltekið magn endurnýjanlegrar orku hafi verið framleitt og hefur upplýsingagjöfin eingöngu þýðingu í tengslum við viðskipti með viðkomandi orku. Sérstaklega er tekið fram í ákvæðinu að sala upprunaábyrgða milli landa hafi ekki áhrif á upplýsingagjöf ríkja í tengslum við skuldbindingar tilskipunarinnar um lágmarkshlutfall endurnýjanlegrar orku. Upplýsingar sem Orkustofnun birtir árlega um endanlega samsetningu orkugjafa á íslenskum raforkumarkaði hafa þar af leiðandi enga þýðingu hvað varðar lágmarkshlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

     4.      Kann sala á upprunaábyrgðum raforku að hafa áhrif á möguleika innlendra kaupenda raforku til að sýna fram á hreinan uppruna raforkunotkunar sinnar? Ef svo er, hvernig?
    Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun er langalgengast að íslensk orkufyrirtæki afskrái upprunaábyrgðir fyrir allri raforkusölu og þá geta kaupendur raforku hjá viðkomandi fyrirtæki gefið það út að þeir kaupi 100% endurnýjanlega raforku. Sala á upprunaábyrgðum raforku á því almennt ekki að hafa áhrif á möguleika innlendra kaupenda raforku til að sýna fram á hreinan uppruna raforkunotkunar sinnar. Nánar er vísað í svar við 2. lið varðandi aðgerðir þeirra fyrirtækja sem selja upprunaábyrgðir raforku til að tryggja að innlendi almenni markaðurinn geti sýnt fram á hreinan uppruna raforkunotkunar sinnar, án kostnaðar.

     5.      Má búast við að verð á upprunaábyrgðum hafi áhrif á raforkuverð innan lands? Hvert er samhengið milli þessara þátta að mati ráðherra?
    Ekki er ástæða til að ætla að sala á upprunaábyrgðum hafi áhrif á raforkuverð innan lands. Ef um einhver áhrif á raforkuverð væri að ræða gætu þau helst falist í því að nýir tekjumöguleikar orkufyrirtækja vegna sölu upprunaábyrgða gætu leitt til lækkunar á raforkuverði og/eða stuðlað að nýjum fjárfestingum í endurnýjanlegum virkjanakostum.

     6.      Telur ráðherra það þjóna íslenskum hagsmunum að íslensk orkufyrirtæki selji upprunaábyrgðir úr landi? Ef ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að breyta þessu fyrirkomulagi hjá orkufyrirtækjum í eigu hins opinbera?
    Kerfi seljanlegra upprunaábyrgða raforku er aðferð til að setja markaðsverð á hreinleika raforku. Kerfið stuðlar að því að þeir sem telja sig geta haft ávinning af því að vörur þeirra eða þjónusta sé knúin grænni orku greiði orkuframleiðendum markaðsverð fyrir þann ávinning. Á Íslandi er svo til öll raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Orkugjafarnir sjálfir eru vitaskuld auðlind en líta má á hreinleika þeirra sem sjálfstæða auðlind út af fyrir sig. Ísland hefur augljósa hagsmuni af því að hámarka verðmæti þeirrar auðlindar, þ.e. hreinleikans. Leiða má líkur að því að það markmið náist betur með því að unnt sé að selja hana á alþjóðlegum markaði fremur en eingöngu til þess tiltölulega litla hóps sem kaupir raforku hér á landi. Á hitt ber að líta að neytendur hér á landi telja það margir hverjir sanngirnismál að þeir fái þessi verðmæti afhent án endurgjalds. Markaðurinn hefur brugðist við þeirri kröfu og lætur upprunaábyrgðir fylgja með raforku inn á almennan markað án endurgjalds, eins og nánar er fjallað um hér að framan. Í því ljósi virðist ekki vera tilefni til inngrips af því tagi sem fyrirspurnin lýtur að.