Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1371  —  450. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um endurskoðun laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Stendur til að endurskoða lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, í kjölfar #metoo-byltingarinnar til að auðvelda stjórnendum opinberra stofnana að bregðast við þegar kynbundin áreitni og/eða ofbeldi kemur upp á vinnustaðnum, einkum hvað varðar áminningarferli eða uppsagnir?


    Af hálfu ráðherra hefur verið til skoðunar um nokkurn tíma að endurskoða í heild sinni lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, m.a. með hliðsjón af þeim álitaefnum sem upp hafa komið við framkvæmd laganna og fyrir dómstólum. Álitaefnin varða m.a. stjórnunarheimildir forstöðumanna og til hvaða viðbragða forstöðumenn geta gripið gagnvart starfsfólki, svo sem vegna kynbundinnar áreitni, ofbeldis á vinnustað eða annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi. Endurskoðun laganna hefur ekki verið tímasett og til álita kemur að fara í heildarendurskoðun laganna, í kjölfar stefnumótunar í mannauðsmálum ríkisins. Þá er rétt að geta þess að endurskoðun laganna verður gerð í samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna þegar þar að kemur.
    Vegna fyrirspurnarinnar er rétt að geta þess að opinberar stofnanir eiga að hafa gert skriflega áætlun um viðbrögð vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi og kynnt starfsfólki sínu. Þar skal m.a. koma fram hvernig skal bregðast við slíkum aðstæðum og rannsókn máls hagað. Mælt er fyrir um slíka áætlun í reglugerð nr. 1009/2015, sem félags- og barnamálaráðherra hefur sett í samræmi við lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.