Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1402  —  393. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um þungunarrof.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur og Þórunni Oddnýju Steinsdóttur frá heilbrigðisráðuneytinu, Ölmu D. Möller og Sigríði Haraldsdóttur frá embætti landlæknis, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur og Þórdísi Viborg frá Öryrkjabandalagi Íslands, Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur og Fríðu Rós Valdimarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Söndru Kristínu Jónasdóttur, Birtu Rós Antonsdóttur og Sólveigu Daðadóttur frá Femínistafélagi Háskóla Íslands, Þórdísi Ingadóttur frá Félagi áhugafólks um Downs-heilkennið, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Halldóru Gunnarsdóttur frá Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Ástríði Stefánsdóttur og Vilhjálm Árnason frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Huldu Hjartardóttur og Sigurlaugu Benediktsdóttur frá Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Helgu Sól Ólafsdóttur og Maríu Rúnarsdóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands og Helgu Gottfreðsdóttur, prófessor í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Andlegu þjóðarráði Bahá'ía á Íslandi, April McKnight Frigge, Arnrúnu Sveinu Kevinsdóttur, Árnýju Björgu Blandon, biskupi Íslands, Daníel E. Arnarssyni, Denis O'Leary, DíaMat – félagi um díalektíska efnishyggju, embætti landlæknis, embætti umboðsmanns barna, Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Frelsisflokknum, Guðmundi Pálssyni, Guðna Þór Þrándarsyni, Guðrúnu Sæmundsdóttur og Kjartani Birgissyni, Gyðu Margréti Pétursdóttur og Katrínu Önnu Guðmundsdóttur, Herdísi Helgu Schopka, Hjálpræðishernum á Íslandi, Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Hvítasunnukirkjunni í Keflavík, Ívari Halldórssyni, Jóhönnu Long, Jóni Val Jenssyni, Jónasi Sen, Jórunni I. Kjartansdóttur, Katrínu Auðbjörgu Aðalsteinsdóttur, Kaþólsku kirkjunni á Íslandi, Kvenréttindafélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp og Félagi áhugafólks um Downs-heilkennið, Lofstofunni Baptistakirkju, Magnúsi Inga Sigmundssyni, Málefnahópi kristinna stjórnmálasamtaka, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Maríu Jónsdóttur, Maríu Magnúsdóttur, Marie Jannie Madeleine Legatelois, Ólafi Magnúsi Ólafssyni, Ólafi Þórissyni, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, Ósk Óskarsdóttur, Öryrkjabandalagi Íslands, Rósu Aðalsteinsdóttur, Rótinni – félagi um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, Samfélagi trúaðra, Sigfúsi Bergmanni Svavarssyni, Sigurði Ragnarssyni, Sigurði Sigurbjörnssyni, Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Siðmennt, félagi siðrænna húmanista, Skurðlæknafélagi Íslands, Steindóri Sigursteinssyni, Sveinbirni Gizurarsyni og Þóru Kristínu Þórsdóttur.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um þungunarrof með það að markmiði að tryggja og undirstrika rétt kvenna til sjálfsforræðis yfir líkama sínum og rétt hvers einstaklings til þess að taka ákvörðun um barneignir.
Heimild til þungunarrofs og fræðsla samhliða ákvörðun.
    Að mati meiri hlutans er tímabært að endurskoða lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975. Almenn ánægja var með þá áherslu sem er í frumvarpinu á sjálfsákvörðunarrétt kvenna og afnám orðalags gildandi laga sem fela í sér mismunun á grundvelli fötlunar. Eigi að síður gerðu ýmsir umsagnaraðilar og hagsmunasamtök fatlaðs fólks athugasemdir við að heimila þungunarrof til loka 22. viku líkt og lagt er til í 4. gr. frumvarpsins. Var á það bent að þótt frumvarpið fæli í sér afnám á orðalagi eldri laga, sem heimila mismunun á grundvelli fötlunar, væri afnám mismununar ekki tryggt í raun. Þannig kæmu margar fatlanir í ljós við 20 vikna fósturskimun sem gætu enn orðið grundvöllur ákvörðunar um þungunarrof. Í því sambandi komu fram hugmyndir um að binda heimildina við lok 18. viku, líkt og lagt var upp með í frumvarpsdrögum, eða við lok 20. viku.
    Umfjöllun um hvort heimila eigi þungunarrof fram til loka 22. viku var umfangsmikil í nefndinni. Að mati meiri hlutans eru rökin fyrir því að heimila þungunarrof fram til loka 22. viku tvíþætt. Annars vegar geti ýmis alvarleg frávik komið í ljós við 20 vikna fósturskimun sem ekki sé hægt að greina á fyrri stigum þungunar. Hins vegar hafi konur sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður ekki alltaf möguleika á því að átta sig á því að þær séu þungaðar fyrr en seint á meðgöngu. Því hafi þær konur takmarkaða möguleika á að leita hjálpar til að rjúfa þungun sína vegna félagslegra aðstæðna.
    Hvað fyrra atriðið varðar kom fram að almennt væri skimað eftir 20 vikna meðgöngu þar sem þá fáist fyrst nógu skýr mynd af fóstrinu. Væri skimunin gerð fyrr væri illmögulegt að greina niðurstöðurnar með fullnægjandi hætti og auknir möguleikar á því að kona fengi óljósar eða misvísandi upplýsingar. Með því móti gæti konan ekki tekið ákvörðun sem væri að fullu upplýst. Þá væri jafnframt mikilvægt að veita svigrúm til að greina niðurstöður skimunar sem og að veita konunni tíma til þess að taka ákvörðun. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið.
    Hvað síðara atriðið varðar kom fram að í undantekningartilfellum hefðu íslenskar konur, sem byggju við afar slæmar félagslegar aðstæður, þurft að fara til Bretlands í þungunarrof. Þetta ætti t.d. við um konur sem ættu við alvarleg fíkniefnavandamál að stríða og konur sem væru í ofbeldissambandi og gætu ekki hugsað sér að eignast barn með ofbeldismanninum. Í þeim tilvikum þyrftu konurnar, sem almennt væru afar illa fjárhagslega settar, að greiða að fullu fyrir þær aðgerðir. Meiri hlutinn telur alvarlegt að heilbrigðiskerfið komi ekki til móts við konur í þessum aðstæðum en með samþykkt frumvarpsins verði stigið mikilvægt framfaraskref sem bæti stöðu þessara kvenna.
    Þá bendir meiri hlutinn á að með því að takmarka heimild til þungunarrofs við lok 18. viku væri aðgengi kvenna að þungunarrofi takmarkað meira en gert er í gildandi lögum. Slík breyting eigi sér því ekki stoð í markmiði laganna um að auka sjálfsákvörðunarrétt kvenna.
    Í ljósi þeirra atriða sem hér hafa verið rakin telur meiri hlutinn veigamikil rök fyrir því að heimila þungunarrof fram til loka 22. viku en leggur til orðalagsbreytingu á 1. mgr. 4. gr. sem taki af allan vafa um að það sé réttur konunnar að láta binda enda á þungun.
    Að mati meiri hlutans er óhjákvæmilegt að fjalla samhliða um heimild til þungunarrofs fram til loka 22. viku, sbr. 4. gr. frumvarpsins, og þá fræðslu sem kona á rétt á við töku ákvörðunar um þungunarrof, sbr. 8. gr.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að sjálfsákvörðunarréttur kvenna verði ótvíræður. Í því felist að konan ein fái ráðið þeim forsendum sem liggja að baki ákvörðun um að rjúfa þungun. Að því sögðu sé nauðsynlegt að tryggja eftir fremsta megni að ákvörðun verði alltaf upplýst og ekki tekin á grundvelli fordóma, upplýsingaskorts eða vanþekkingar. Að því skilyrði uppfylltu að ráðgjöf og fræðsla sé veitt á óhlutdrægan hátt, með virðingu fyrir mannréttindum og með mannlega reisn að leiðarljósi er það álit meiri hlutans að enginn geti tekið ákvörðun um hvort bundinn verði endi á þungun nema konan sjálf. Eigi að síður sé ekki hægt að skikka konur í fræðslu, enda fæli slík skylda í sér annars konar takmörkun á sjálfsákvörðunarrétti kvenna auk þess sem vandséð er hvernig slík fræðsla gagnast konum sem ekki vilja hana. Því verður að tryggja eftir fremsta megni að konur sem þurfa að taka ákvörðun um hvort þær bindi enda á þungun veigri sér ekki við að nýta sér þá fræðslu sem í boði er vegna hræðslu við þá fordóma sem þær kunni sjálfar að mæta innan heilbrigðiskerfisins. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu á 8. gr. frumvarpsins að skýrt verði tekið fram að kona eigi rétt á fræðslu og ráðgjöf læknis, hjúkrunarfræðings, ljósmóður og félagsráðgjafa, eftir því sem þörf krefur.
    Samhliða framangreindri breytingartillögu beinir meiri hlutinn því til heilbrigðisráðuneytisins að koma á samstarfi við undirstofnanir sínar til að tryggja að þeir heilbrigðisstarfsmenn sem komi að framkvæmd þungunarrofs og ráðgjöf samhliða því fái fræðslu um efni frumvarpsins, þær breytingar sem það hefur í för með sér og skyldu þeirra til að veita konum sem hyggjast undirgangast þungunarrof óhlutdræga fræðslu. Í því sambandi bendir meiri hlutinn einnig á að fræðsluskyldan er ein af starfsskyldum heilbrigðisstarfsmanns samkvæmt frumvarpinu og varði brot á henni viðurlögum skv. 11. gr. þess.

Þungunarrof gegn læknisráði.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram sú spurning hver staða heilbrigðisstarfsmanns væri þegar kona óskar eftir þungunarrofi þrátt fyrir ráðleggingar læknis um annað eða þegar framkvæmd þungunarrofs stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að skv. 14. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, er heilbrigðisstarfsmanni heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans, enda sé tryggt að sjúklingur fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Auk þess var bent á að fæðing barns væri í öllum tilvikum hættulegri en þungunarrof og því væru rök heilbrigðisstarfsmanns fyrir því að víkjast undan því að framkvæma þungunarrof með vísan til þess að lífi konu væri stefnt í hættu afar takmörkuð. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið en bendir þó á að erfitt geti verið að skikka heilbrigðisstarfsmann til þess að veita þjónustu sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans. Þótt ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn gildi við framkvæmd þungunarrofs er það mat meiri hlutans að það auki á skýrleika og festi í sessi rétt kvenna til að binda enda á þungun að bæta nýrri málsgrein við 4. gr. laganna um að skorist heilbrigðisstarfsmaður undan skyldu sinni skuli réttur konunnar eigi að síður tryggður. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis.

Framkvæmd þungunarrofs.
    Í umsögnum Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna og Skurðlæknafélags Íslands voru gerðar athugasemdir við ákvæði 7. gr. frumvarpsins um framkvæmd þungunarrofs. Töldu framangreind félög það skilyrði að þungunarrof yrði framkvæmt undir handleiðslu sérfræðings á sviði kvenlækninga fela í sér of þrönga afmörkun á því hvaða sérfræðingar mættu annast aðgerð. Með ákvæðinu væri ekki tryggt að hægt yrði að veita heilbrigðisþjónustu vegna þungunarrofs í öllum heilbrigðisumdæmum landsins, líkt og gert væri ráð fyrir í 6. gr. Þannig hefðu almennir skurðlæknar, m.a. á Ísafirði og í Neskaupstað, gert aðgerðir á meðgöngu og í fæðingu, svo sem tæmingu á legi vegna þungunarrofa og fósturláta og keisaraskurð. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til þá breytingu á ákvæðinu að á eftir orðunum „sérfræðings á sviði kvenlækninga“ komi: eða sérfræðings í almennum skurðlækningum með reynslu og þjálfun í tæmingu á legi.

Aðrar breytingartillögur meiri hlutans.
    Samkvæmt gildistökuákvæði 12. gr. frumvarpsins áttu lög um þungunarrof að taka gildi 1. febrúar 2019. Meiri hlutinn leggur til að gildistöku laganna verði frestað til 1. september 2019 m.a. svo að heilbrigðisráðuneytinu gefist kostur á að koma á samstarfi um fræðslu til þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem munu starfa á grundvelli laganna og svo að svigrúm gefist til að aðlaga nauðsynleg skráningarkerfi sjúkraskrár að þeim kröfum sem leiðir af frumvarpinu, í samræmi við athugasemdir í umsögn embættis landlæknis.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á 13. gr. til að tryggja samræmi við frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir sem lagt var fram samhliða frumvarpi þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.


Alþingi, 29. apríl 2019.

Halldóra Mogensen,
form., frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson. Andrés Ingi Jónsson.
Guðjón S. Brjánsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.