Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1410  —  393. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um þungunarrof.

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Annar minni hluti er sammála því sem fram kemur í áliti meiri hlutans um að heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, sé tímabær þrátt fyrir að vera að hluta ósammála nokkrum meginatriðum frumvarpsins. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um þungunarrof með það að markmiði að tryggja og undirstrika rétt kvenna til sjálfsforræðis yfir líkama sínum og rétt hvers einstaklings til þess að taka ákvörðun um barneignir. Þegar líf er myndað af tveimur einstaklingum þá er að mati 2. minni hluta of langt gengið að annar einstaklingurinn hafi einn ákvörðunarvald um það hvort enda skuli meðgönguna. Þannig er mikil ábyrgð lögð á verðandi móður eina.
    Annar minni hluti fagnar þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi til laganna varðandi það að ekki verði lengur heimilt að framkvæma þungunarrof nema að uppfylltum læknisfræðilegum skilyrðum, þannig verði ekki lengur um að ræða heimildir sem byggjast á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Það er þó vert að velta því upp á tíma mikilla tækniframfara að skimanir verða fullkomnari með hverjum deginum sem líður og því mikilvægt að sett séu einhver mörk um hvað sé túlkað sem læknisfræðileg skilyrði. Það fallega við lífið er að það eru mörg mislit blóm í garðinum.
    Hvar á að setja mörkin ef á að binda enda á líf í móðurkviði? Við lok 12. viku þungunar, lok 22. viku þungunar eða á foreldri að geta ákveðið að binda enda á þetta líf strax eftir fæðingu? Lífið er heilagt og það er sannfæring 2. minni hluta að það beri að vernda með öllum tiltækum ráðum. Fóstureyðing eða þungunarrof hljóti alltaf að vera neyðarráðstöfun og að mati 2. minni hluta hlýtur hún helst að koma til greina ef þungunin ógnar lífi eða heilsu hinnar verðandi móður eða ef ljóst þykir að fóstrið sé ekki lífvænlegt. Fremur en að tala um að rýmka rétt til fóstureyðinga væri okkur nær að finna leiðir til að hjálpa verðandi mæðrum í vanda að eignast börn sín. Í umsögn biskups Íslands um frumvarpið segir: „Samkvæmt kristinni trú okkar er lífið heilagt, náðargjöf sem Guð gefur og Guð tekur. Það er hlutverk mannsins að varðveita það og vernda eftir fremsta megni og bera virðingu fyrir mannhelginni, sköpuninni og skaparanum.“ 2. minni hluti tekur undir þau orð.
    Um frumvarpið bárust 57 erindi og umsagnir sem sýnir að margir láta sig málið varða. Drjúgur meiri hluti þeirra sem sendu umsagnir leggjast gegn frumvarpinu eða hvetja til þess að málið fái meiri skoðun. Ljóst er að mjög skiptar skoðanir eru um málið og spurning hvort það þurfi ekki lengri umræðu. Í því sambandi bendir 2. minni hluti á niðurstöðu Siðfræðistofnunar þar sem segir: „Það er niðurstaða Siðfræðistofnunar að mikilvægt sé að flýta ekki um of afgreiðslu þessa frumvarps. Í fyrsta lagi telur Siðfræðistofnun varasamt að heimila þungunarrof allt til 22. viku því þá getur fóstur verið orðið lífvænlegt utan líkama móður, í öðru lagi þarf að huga vel að þeirri spennu sem er á milli þessa frumvarps og samnings Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðs fólks. Hér eru í húfi grundvallarspurningar og álitamál um siðferðisstöðu fósturs, rétt fatlaðs fólks og sjálfsákvörðunarrétt kvenna sem þarfnast djúprar og upplýstrar umræðu í samfélaginu.“
    Að framangreindu virtu leggst 2. minni hluti gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 30. apríl 2019.

Ásmundur Friðriksson.