Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1414  —  393. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um þungunarrof.

Frá 3. minni hluta velferðarnefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að fóstureyðingar verði heimilar til loka 22. viku þungunar. Í gildandi lögum er kveðið á um að fóstureyðingar skuli framkvæma helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans og aldrei eftir 16. viku, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu eða að miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Ekki eru slíkir fyrirvarar í frumvarpinu og því heimilar frumvarpið fóstureyðingar í öllum tilvikum til loka 22. viku.
    Þriðji minni hluti telur þessa útvíkkun heimildar til fóstureyðinga algjörlega óverjandi, siðferðilega ranga og ganga gegn lífsrétti ófæddra barna. Við lok 22. viku er meðganga hins ófædda barns rúmlega hálfnuð. Einungis 18 vikur eru þá í fæðingu barnsins miðað við fulla meðgöngu. Það er og langt í frá að vera hafið yfir allan vafa að ótímabær fæðing við lok 22. viku þýði að fyrirburinn geti ekki lifað af. Um er að ræða aðgerð sem bindur enda á líf ófædds barns sem hugsanlega gæti lifað af fæðingu á þessu stigi meðgöngunnar. Læknar sverja eið að því að bjarga og vernda líf ef þess er nokkur kostur, ekki að eyða því. Þessi óhóflega rýmkun á fóstureyðingarlöggjöfinni gengur þvert gegn sannfæringu og siðferði allra þeirra sem virða rétt ófædda barnsins til lífs.
    Þriðji minni hluti telur að miða beri heimild til fóstureyðinga við núgildandi löggjöf, þ.e. við 12 vikur nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar sé stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Það er almennt viðurkennt að í nær öllum tilvikum er konum fullkunnugt um þungun sína fyrir 12. viku meðgöngu og því ætti það að heyra til undantekninga ef konur geta ekki leitað þess úrræðis sem fóstureyðing er fyrir þann tíma. 3. minni hluti virðir að sjálfsögðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna og yfirráð þeirra yfir eigin líkama, en dregur að þessu leyti mörkin gagnvart lífsrétti hins ófædda barns.
    Þá leggst 3. minni hluti alfarið gegn þeirri hugtakanotkun sem frumvarpið byggist á. Fóstureyðing er hugtak sem endurspeglar þann verknað sem felst í aðgerðinni. Hugtakið þungunarrof er hins vegar tilraun til þess að horfa fram hjá alvarleika aðgerðarinnar og freista þess að færa hana í búning hefðbundinnar læknisaðgerðar svo mögulega verði horft fram hjá því að verið er að binda enda á líf ófædds barns í móðurkviði.
    Benda má á þá staðreynd að samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis voru 1.044 fóstureyðingar framkvæmdar á árinu 2017, eða að jafnaði fjórar fóstureyðingar hvern virkan dag ársins. Engri konu var neitað um aðgerðina.
    Þriðji minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „þungunarrofi“ í 1. mgr. 1. gr. og hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarfalli: fóstureyðingu.
     2.      3. tölul. 2. gr. orðist svo: Fóstureyðing: Lyfjagjöf eða önnur læknisaðgerð sem framkvæmd er að beiðni konu í því skyni að binda enda á líf fósturs.
     3.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað „22.“ í 1. og 2. mgr. komi: 12.
                  b.      2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Fóstureyðing skal ætíð framkvæmd eins fljótt og auðið er.
                  c.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Skorist heilbrigðisstarfsmaður undan framkvæmd á grundvelli 14. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, skal tryggt að kona njóti réttinda skv. 1. mgr.

Alþingi, 30. apríl 2019.

Guðmundur Ingi Kristinsson.