Ferill 710. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1561  —  710. mál.
Viðbót.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóhann Guðmundsson, Arnór Snæbjörnsson, Ástu Einarsdóttur, Gunnar Atla Gunnarsson og Brynhildi Benediktsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Jón Helga Björnsson, Óðin Sigþórsson og Árna Snæbjörnsson frá Landssambandi veiðifélaga, Neil Shiran Þórisson frá Arctic Fish, Kjartan Ólafsson frá Arnarlaxi og Kristínu Edwald lögmann, Hauk Oddsson, Gísla Jón Hjaltason og Davíð Kjartansson frá Hábrún ehf., Kristján G. Jóakimsson frá Háafelli ehf. og ÍS 47 ehf., Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Jóhannes Sturlaugsson og Valdimar Inga Gunnarsson, Einar Má Sigurðarson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrú, Karl Óttar Pétursson frá Fjarðabyggð, Þór Steinarsson frá Vopnafjarðarhreppi, Gauta Jóhannesson frá Djúpavogshreppi og Rúnar Gunnarsson frá Seyðisfjarðarkaupstað, Rögnvald Guðmundsson og Jón Örn Pálsson frá AkvaFuture, Jón Þór Ólason, Ara Wendel og Óttar Yngvason frá Náttúruverndarfélaginu Laxinn lifi, Friðleif Guðmundsson frá NASF, verndarsjóði villtra laxastofna, Jón Steinar Eyjólfsson frá Veiðifélagi Laxdæla, Magnús Ólafsson, Kristján Þór Björnsson og Gunnar Rúnar Kristjánsson frá Veiðifélagi Vatnsdalsár, Gunnlaug Ingólfsson frá Veiðifélagi Breiðdalsár, Björn Magnússon frá Veiðifélagi Víðidalsár, Gunnlaug Stefánsson frá Veiðifélagi Breiðdæla og Jón Þór Ólason frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, Jón Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson.
    Nefndinni bárust umsagnir frá AkvaFuture ehf., Arctic Fish, Dalvíkurbyggð, Djúpavogshreppi, Fiskistofu, Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði, Húnavatnshreppi, Ísafjarðarbæ, Landssambandi veiðifélaga, Náttúruverndarfélaginu Laxinn lifi og NASF, verndarsjóði villtra laxastofna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum eigenda sjávarjarða, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Tálknafjarðarhreppi, Vestfjarðastofu og Vesturbyggð.
    Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp gjaldtaka vegna fiskeldis í sjó og að stofnaður verði fiskeldissjóður. Þá er lagt til að Fiskistofa annist framkvæmd laganna. Samkvæmt frumvarpinu verður gjald lagt á þá aðila sem hafa gildandi rekstrarleyfi í sjókvíaeldi frá Matvælastofnun til að ala lax og regnbogasilung. Annað fiskeldi er undanskilið gjaldinu þar sem það er ýmist á tilraunastigi eða svo smátt í sniðum að ekki þykir rétt að mæla fyrir um gjaldtöku. Við afmörkun gjaldstofnsins var horft til þess að sjókvíaeldi er stundað á grundvelli opinbers leyfis á hafsvæðum sem ekki eru háð beinum eignarrétti.
    Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á umræddum svæðum.
    Fyrir nefndinni kom almennt fram ánægja með gerð frumvarps um gjaldtöku í fiskeldi. Nefndinni var bent á að uppbygging fiskeldis hafi jákvæð áhrif á byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á þeim svæðum þar sem hún nái fótfestu. Var bent á að nauðsynlegt væri að gjaldtöku verði stillt í hóf til að byrja með til þess að rekstrarleyfishafar hefðu svigrúm til að þróa starfsemi sína og byggja upp rekstur sinn. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og telur að sú gjaldtaka sem lögð er til í frumvarpinu sé í samræmi við þau.
    Nefndinni var bent á að nauðsynlegt væri að í gjaldtöku fælust hvatar fyrir rekstrarleyfishafa til að stunda umhverfisvænni framleiðslu. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og leggur því til breytingu á 4. mgr. 2. gr. þess efnis að gjaldtöku á ófrjóan lax og lax sem alinn er í lokuðum eldisbúnaði verði frestað til ársins 2029.
    Fram kom gagnrýni um að of lítið hlutfall fyrirhugaðs gjalds mundi renna til sveitarfélaganna. Var bent á að uppbyggingu fiskeldis fylgdi þörf á uppbyggingu innviða viðkomandi sveitarfélaga. Fyrirkomulag úthlutunar úr sjóðnum var jafnframt gagnrýnt. Nefndinni var bent á að skilyrði fyrir úthlutun væru óskýr og að sá háttur að auglýsa eftir umsóknum frá sveitarfélögunum úr sjóðnum væri til þess fallinn að etja sveitarfélögunum saman og láta þau keppast um úthlutun. Betra væri að gjaldið rynni beint til sveitarfélaganna sjálfra. Var bent á að með fyrirkomulaginu væri vegið að sjálfstæði sveitarfélaganna, sem væri varið í stjórnarskrá. Þá var bent á að óhagkvæmt væri að stofna nýjan sjóð með tilheyrandi kostnaði við rekstur heldur ætti frekar að nýta þær stofnanir sem þegar væru til.
    Meiri hlutinn bendir á að fyrirhuguð gjaldtaka er fyrir afnot af hafsvæði sem ekki lýtur beinum eignarrétti, enda liggi sjókvíar á hafsvæði sem er utan umráðasvæðis sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru því ekki svipt réttindum og ekki vegið að sjálfstæði þeirra. Meiri hlutinn tekur hins vegar undir þau sjónarmið að tryggja þurfi að þau fái hlutdeild í þeim tekjum sem skapast enda geri frumvarpið ráð fyrir því. Meiri hlutinn bendir á að hlutverk fiskeldissjóðs er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi er stundað. Með því er ætlunin að styrkja stoðir atvinnulífs sveitarfélaganna og hjálpa til við uppbyggingu samfélagsins. Bendir meiri hlutinn á að fiskeldi er enn að byggjast upp sem atvinnugrein og mikilvægt er að henni verði veitt nauðsynlegt aðhald. Meiri hlutinn telur mikla kosti felast í því að hafa sérstakan fiskeldissjóð sem haldi utan um þær tekjur sem skapist og úthluti í samræmi við umsóknir. Þannig verði jafnræðis gætt við úthlutun úr sjóðnum og skýr yfirsýn fáist yfir atvinnugreinina og hægt verði að meta hvar þörf fyrir uppbyggingu er mest. Í 5. mgr. 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að fiskeldissjóður fái ráðstöfunarfé af fjárlögum. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að 2. málsl. 5. mgr. 7. gr. falli brott, enda sé ekki rétt að kveða á um fjárheimildir í sérlögum. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að frá og með árinu 2021 fái sjóðurinn framlag úr ríkissjóði.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að gjaldtaka vegna fiskeldis í sjó sé ávallt byggð á sanngjörnum og málefnalegum grunni þar sem litið er til umhverfisþátta og jafnvægis í tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Á yfirstandandi ári er von á hvítbók um gjaldtöku í fiskeldi í Noregi. Gera má ráð fyrir að þar komi fram gagnlegar upplýsingar og eðlilegt að fram fari heildarendurskoðun gjaldtöku hér á landi. Þá telur meiri hlutinn einnig rétt að við þá endurskoðun verði litið til fyrirkomulags gjaldtöku í Færeyjum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðunina verði sérstaklega horft til þess að hafa öflugar hagrænar ívilnanir sem hvetji til umhverfisvænni framleiðslu og horft til tekjuskiptingar á milli ríkis og sveitarfélaga, en um leið tryggt að gjaldið standi undir nauðsynlegu eftirliti. Þá þarf að horfa til heildarumfangs allra gjalda sem á greinina eru lagðar, hvaða áhrif þau hafa á uppbyggingu á frumbýlingsárunum og hvenær rétt sé að þau taki gildi að fullu. Leggur meiri hlutinn til að endurskoðun á fyrirkomulagi gjaldtöku verði lokið 1. janúar 2021.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Við 2. gr.
                  a.      Orðin „nýjasta 12 mánaða“ í 2. mgr. falli brott.
                  b.      Á eftir orðinu „Atlantshafslaxi“ í 2. mgr. komi: frá ágúst til október næst.
                  c.      Orðin „íslensku krónunnar“ í 5. mgr. falli brott.
     2.      Í stað orðsins „eigi“ í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. komi: ekki.
     3.      Í stað orðanna „nýtingar á eldissvæðum í sjó“ í 1. mgr. 6. gr. komi: fiskeldis í sjó.
     4.      Við 7. gr.
                  a.      Í stað orðsins „fjármála“ í 2. mgr. komi: sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál.
                  b.      2. málsl. 5. mgr. falli brott.
     5.      Við 8. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 4. mgr. 2. gr. kemur þó fyrst til framkvæmda með álagningu gjalds á fisk sem slátrað er frá og með 1. janúar 2029.
     6.      Ákvæði til bráðabirgða II falli brott.

Alþingi, 17. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Jón Þór Þorvaldsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson.