Ferill 601. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1629  —  601. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um ábyrgð á vernd barna gegn einelti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða aðilar sem heyra undir ráðherra bera ábyrgð á því að börn verði ekki fyrir einelti í ljósi þess að ráðherra fer með málefni félags- og fjölskyldumála, þar á meðal barnavernd, sbr. 2. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018? Óskað er eftir því að tilgreindir verði allir aðilar sem bera ábyrgð á því að koma í veg fyrir einelti og vernda þolendur þess, hvernig ábyrgð þeirra skiptist og samkvæmt hvaða lögum og reglum sú ábyrgð hvílir á þeim.

    Félags- og barnaverndaryfirvöldum sem heyra undir félags- og barnamálaráðherra er falið víðtækt hlutverk. Þótt lagaákvæði um félagsþjónustu sveitarfélaga og um barnavernd séu aðgreind í tveimur ólíkum lagabálkum, ekki síst með tilliti til sjálfsákvörðunarréttar notenda og forræðis máls, er sveitarfélögum falin framkvæmd hvors tveggja.

Félagsþjónusta sveitarfélaga.
    Sveitarfélög skulu sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Markmið félagsþjónustunnar er skv. 1. gr. laganna að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, tryggja uppeldisskilyrði barna og veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og búið við sem mest lífsgæði. Einnig skal grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Í 2. gr. laganna er skilgreint hvað felst í félagsþjónustu og segir þar að félagsþjónusta feli m.a. í sér þjónustu, aðstoð og félagslega ráðgjöf í málefnum barna og ungmenna. Fjallað er nánar um félagslega ráðgjöf í V. kafla laganna þar sem segir að markmið hennar sé „að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar“. Einnig er tekið fram að félagslegri aðstoð skuli beitt í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð samkvæmt lögunum og í samvinnu við aðra aðila sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo sem skóla og heilsugæslu eftir því sem við á. Um málefni barna og ungmenna er síðan sérstaklega fjallað í VIII. kafla laganna. Þar segir að félagsmálanefnd sé skylt, í samvinnu við foreldra, forráðamenn og aðra þá aðila sem hafa með höndum uppeldi, fræðslu og heilsugæslu barna og ungmenna, að gæta velferðar og hagsmuna þeirra í hvívetna.

Barnaverndaryfirvöld.
    Barnaverndarlög ná til barna að 18 ára aldri. Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Í því felst meðal annars skylda til að kanna aðstæður barna þegar grunur leikur á að þau búi við framangreindar aðstæður, veita stuðning og beita úrræðum til verndar börnum þegar við á. Hagsmunir barna skulu ávallt settir í forgang í öllu starfi barnaverndarnefnda og ætíð ber að leita þeirra lausna sem eru börnum fyrir bestu. Barnaverndaryfirvöld hafa sértækum skyldum að gegna við að aðstoða og vernda börn og fjölskyldur. Þau eiga aðeins að grípa til íþyngjandi aðgerða þegar skýrar og ríkar ástæður eru fyrir hendi og vægari úrræði hafa ekki eða munu ekki bera árangur.
    Í barnaverndarlögum er að finna lagaákvæði um tilkynningarskyldu bæði almennings og svo þeirra sem vinna með börnum. Í 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, segir m.a. að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Þá hvílir sérstök tilkynningarskylda, skv. 17. gr. laganna, á þeim sem hafa afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna stöðu sinnar vegna og verða varir við aðstæður þær sem lýst er í 16. gr. laganna.

Samspil barnaverndar, félagsþjónustu og skólasamfélagsins.
    Einelti getur átt sér stað hvar sem er í samfélaginu en almennt eru þó miklar líkur á því að barn verði fyrir einelti í skólanum. Samkvæmt 30. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, skulu skólar hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu á grundvelli barnaverndarlaga og um hvernig brugðist er við einelti, öðru ofbeldi og félagslegri einangrun. Í 5. mgr. 33. gr. b laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er einnig að finna sambærilegt ákvæði.
    Nánar er kveðið á um stefnur og aðgerðir skólasamfélagsins hvað þetta varðar í reglugerðum, m.a. í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Er þar tekið fram að í aðgerðaáætlunum sem skólum er skylt að setja gegn einelti skal vikið að aðilum í grenndarsamfélaginu sem starfa með börnum og unglingum og þeir upplýstir um vinnu skólans gegn einelti og óskað eftir samráði við þá eftir því sem þörf krefur.
    Svar við því hvaða aðilar beri ábyrgð á því að koma í veg fyrir einelti og vernda þolendur þess og hvernig ábyrgð þeirra skiptist er ekki einfalt þó svo að ljóst sé að mikilvægur þáttur greiningar og viðbragða fari fram í skólasamfélaginu. Mikilvægt er að litið sé á heildarmynd af aðstæðum barns þar sem oft þurfa að vinna saman ýmis ólík kerfi. Þá skiptir máli hversu alvarlegar aðstæðurnar eru, m.a. þegar kemur að tilkynningarskyldu á grundvelli barnaverndarlaga og hvernig gengur hjá skólasamfélaginu að bregðast við tilteknum aðstæðum. Settar hafa verið verklagsreglur um tilkynningarskyldu á grundvelli barnaverndarlaga fyrir starfsfólk skóla, sjá www.bvs.is/media/skjol/file755.pdf. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að starfsmenn leik-, grunn- og framhaldsskóla meti hvort ástandi, líðan eða umönnun barns sé þannig háttað að tilkynna eigi um það til barnaverndarnefndar þar sem barn er búsett.
    Þegar um eineltismál er að ræða þarf oft á tíðum að veita börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi ráðgjöf og stuðning innan eða utan skólans en einnig þarf stundum að leysa úr aðstæðum barns og fjölskyldu þess sem tengjast ekki skólaumhverfinu þó að vandinn komi gjarnan fyrst fram þar. Því geta þurft að koma að borðinu félagsþjónusta og/eða í alvarlegri tilvikum barnaverndaryfirvöld. Í þessu sambandi er mikilvægt að tryggja samtal þeirra kerfa er koma að mismunandi þáttum í lífi barns og að þjónusta við börn sé veitt með heildstæðum hætti þvert á kerfi. Að því snýr einmitt umfangsmikil vinna margra ráðherra og ráðuneyta þeirra að endurskoðun á þjónustu við börn á Íslandi sem leidd er af félagsmálaráðuneytinu í samvinnu við þverpólitíska nefnd þingmanna.