Ferill 880. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1664  —  880. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í ráðuneytinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?


    1. Í forsætisráðuneytinu eru starfræktar fimm skrifstofur sem öllum er stýrt af skrifstofustjóra. Þetta eru:
    Skrifstofa yfirstjórnar með 13 starfsmenn. Helstu verkefni skrifstofunnar eru málefni ríkisstjórnar og ríkisráðs, lög um Stjórnarráð Íslands, samskipti við Alþingi og forseta Íslands, alþjóðasamskipti, málaskrá og skjalasafn, þjóðartákn og orður, þjóðaröryggisráð og upplýsingagjöf til fjölmiðla og almennings.
    Skrifstofa fjármála með 14 starfsmenn. Helstu verkefni skrifstofunnar eru rekstur ráðuneytisins, fjármál, fjárlagagerð, stefnumótun málaflokka ráðuneytisins, mannauðsmál og fjármál stofnana.
    Skrifstofa löggjafarmála með 11 starfsmenn. Helstu verkefni skrifstofunnar eru stjórnarskráin og þróun stjórnskipunarréttar, stjórnsýslu- og upplýsingalög, gæði lagasetningar og einföldun, þjóðlendur og siðareglur.
    Skrifstofa stefnumála með sex starfsmenn. Helstu verkefni skrifstofunnar eru þjóðhagsmál og almenn hagstjórn, peningastefna, vinnumarkaðssamskipti, eftirfylgni með stefnu ríkisstjórnar, samhæfing lykilverkefna sem ganga þvert á ráðuneyti, framtíðarþróun og sjálfbærni og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
    Skrifstofa jafnréttismála með sex starfsmenn, þrjá í ótímabundnum stöðum. Helstu verkefni skrifstofunnar eru jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla, jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, jöfn meðferð á vinnumarkaði, kynrænt sjálfræði, stefnumótun á sviði jafnréttismála, alþjóðastarf á sviði jafnréttismála, kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttissjóður Íslands.

    2. Tveir starfsmenn ráðuneytisins hafa skipun í embætti skrifstofustjóra en stýra ekki skrifstofu. Gegnir annar þeirra starfi ritara þjóðaröryggisráðs og hinn starfi fulltrúa forsætisráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel.

    3. Starfsmenn, þar á meðal skrifstofustjórar, greiða skatt af fæðishlunnindum vegna máltíða.

    4. Yfirvinna skrifstofustjóra er mismikil milli mánaða og milli ára. Meðaltal yfirvinnustunda skrifstofustjóra á mánuði, frá áramótum, er sýnd í eftirfarandi töflu.

Meðaltal yfirvinnustunda á mánuði það sem af er árinu 2019 Meðaltal
Skrifstofustjóri skrifstofu yfirstjórnar 47
Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála 66
Skrifstofustjóri skrifstofu löggjafarmála 54
Skrifstofustjóri skrifstofu stefnumála 72
Skrifstofustjóri skrifstofu jafnréttismála* 28
* Skrifstofustjóri skrifstofu jafnréttismála hóf störf 18. febrúar.

    5. Skrifstofa fjármála hefur fjárhags- og rekstrarlega tengingu við allar undirstofnanir ráðuneytisins. Skrifstofa löggjafarmála annast fagleg samskipti við embætti ríkislögmanns, umboðsmann barna, óbyggðanefnd og úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Skrifstofa stefnumála annast fagleg samskipti við Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands og skrifstofa jafnréttismála annast fagleg samskipti við Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála.