Ferill 710. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1713  —  710. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn leggur ríka áherslu á að þjóðin fái hlutdeild í arðinum af nýtingu auðlinda hennar. Telur minni hlutinn rétt að til viðbótar við gjald skv. 2. gr. frumvarpsins greiði rekstrarleyfishafar auðlindarentu af þeim arði sem myndast í rekstrinum og af ávöxtun þess fjár sem bundið er í starfsemi þeirra og er talin eðlileg með tilliti til þeirrar áhættu sem í starfseminni felst. Þó verði að taka tillit til árssveiflu í afkomu fyrirtækja. Gjald skv. 2. gr. komi til frádráttar þessum skatti. Auðlindarenta þjóðarinnar gæti þannig numið háum fjárhæðum á komandi árum. Leggur minni hlutinn til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði gert að leggja fram frumvarp þess efnis.
    Minni hlutinn bendir á að auðlindarenta verður til vegna verðmætis auðlinda víða um land og að nærsamfélögin þurfa oft að færa fórnir og taka á sig kostnað vegna nýtingar, þróunar og hagræðingar í einstökum auðlindagreinum. Telur minni hlutinn því bæði sjálfsagt og eðlilegt að tryggja að hluti auðlindarentunnar renni til þessara samfélaga, ekki síst til eflingar innviða og fjölbreyttara atvinnulífs.
    Minni hlutinn tekur því undir sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni um að ekki þyrfti að stofna sérstakan innviðasjóð og leggur til að minnst helmingur tekna vegna gjaldtöku renni í sérstaka deild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annist skiptingu teknanna. Með því móti verði komist hjá dýrri yfirbyggingu og þannig renni meira af fjármagninu beint til sveitarfélaganna. Minni hlutinn leggur til að nánar verði kveðið á um úthlutun framlaga til sveitarfélaga í III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og í reglugerð sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setur í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      7. gr. orðist svo, ásamt fyrirsögn:

Ráðstöfun tekna.

                  Tekjur af innheimtum gjöldum samkvæmt lögum þessum, að frátöldum innheimtukostnaði, skulu renna í ríkissjóð. Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til sérstakrar deildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem nemur a.m.k. helmingi af áætlun fjárlaga um tekjur af gjöldunum. Hin sérstaka deild annast skiptingu teknanna milli sveitarfélaga á þeim svæðum þar sem fiskeldisstarfsemi, sem fellur undir þessi lög, fer fram.
     2.      Við bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
         a. (III.)
                     Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, skal lagt fram á næsta löggjafarþingi. Þar skal kveðið á um úthlutun framlaga til sveitarfélaga, sbr. 7. gr.
         b. (IV.)
                     Ráðherra skal leggja fram frumvarp sem kveður á um að rekstrarleyfishöfum verði gert að greiða auðlindarentu af arði sem myndast í rekstri þeirra. Við útreikning gjaldsins verði tekið tillit til áhættu í rekstrinum og skal gjald skv. 2. gr. koma til frádráttar.

Alþingi, 31. maí 2019.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
frsm.
Jón Þór Ólafsson.