Ferill 794. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1731  —  794. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um skráningu raunverulegra eigenda.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands og Jónu Björk Guðnadóttur og Aldísi Bjarnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Persónuvernd, ríkisskattstjóra, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög taki gildi um skráningu raunverulegra eigenda, sbr. skilgreiningu á raunverulegum eiganda í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Frumvarpið er liður í viðbrögðum stjórnvalda við skýrslu alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF (Financial Action Task Force) um úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem birt var í apríl 2017 og leiddi í ljós ýmsa veikleika í íslenskri löggjöf.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Gildissvið laganna (2. gr.).
    Í 2. gr. frumvarpsins er gildissvið laganna skilgreint með upptalningu aðila sem undir þau heyra auk almenns ákvæðis um aðra aðila sem fengið hafa útgefna kennitölu að undanskildum lögaðilum í eigu hins opinbera og aðilum sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar sker ríkisskattstjóri úr leiki vafi á hvort aðili heyri undir lögin.
    Ákvæðið hefur sætt gagnrýni, einkum sem varðar 14. tölul. þess um að stéttarfélög sem skráð eru í fyrirtækjaskrá heyri undir lögin. Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að greiðandi félagsmenn á hverjum tíma séu raunverulegir eigendur stéttarfélaga og að óheimilt sé að nota félagaskrár eða upplýsa um stéttarfélagsaðild manna nema í ákveðnum tilgangi. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar vegna þessarar athugasemdar er tekið fram að aldrei kæmi til þess að einstakir félagsmenn yrðu skráðir sem raunverulegir eigendur í skilningi laganna, með vísan til skilgreiningar á raunverulegum eiganda í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Í minnisblaðinu kemur enn fremur fram að afmörkun gildissviðsins byggist á 1. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 þar sem fram kemur að ákvæðið taki til viðskiptafyrirtækja og annarra lögaðila (e. corporate and other legal entities) sem eru stofnaðir á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.
    Fulltrúar ráðuneytisins hafa bent nefndinni á að í sambærilegum ákvæðum í norskum, sænskum og finnskum lögum hafi verið farin sú leið að afmarka gildissviðið með skilgreiningu á eðli þeirra aðila sem undir lögin heyra í stað þess að telja upp flokka líkt og gert er í frumvarpinu. Að mati nefndarinnar er að mörgu leyti óheppilegt að telja þá aðila sem heyra undir lögin upp með tæmandi hætti. Með því að fara þá leið að kveða með almennum hætti á um eðli þeirra aðila sem falla undir gildissvið laganna er m.a. komið í veg fyrir að breyta þurfi ákvæðinu þegar ný félagaform verða til. Bendir nefndin í því samhengi á frumvarp til laga um félög til almannaheilla, sbr. 785. mál á yfirstandandi þingi. Jafnframt er með því móti girt fyrir að undan gildissviði laganna verði komist með því að velja starfsemi félagaform sem ekki er sérstaklega fram tekið í upptalningu í lagaákvæði. Leggur nefndin til breytingu á 2. gr. þannig að gildissvið laganna verði skilgreint með almennu orðalagi líkt og samkvæmt fyrirmyndum frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Í ákvæðinu verði tekið fram að lögin gildi ekki um fyrirtæki og stofnanir í eigu opinberra aðila né heldur um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir. Hið síðarnefnda leiðir af skilgreiningu á raunverulegum eiganda í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, en auk 2. gr. afmarkast gildissvið laganna af þeirri skilgreiningu.
    Með breytingunni er ekki ætlunin að gildissvið laganna verði annað en lagt var upp með í frumvarpinu. Lagt er til að ákvæði um að ríkisskattstjóri skeri úr í vafatilvikum um hvort aðili heyri undir lögin. Þá er lagt til að við reglugerðarákvæði 19. gr. bætist heimild til ráðherra til að skýra gildissvið laganna nánar innan ramma 2. gr.

Frestur til að skrá raunverulega eigendur (ákvæði til bráðabirgða).
    Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er aðilum sem undir lögin heyra og þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá veittur frestur til að veita upplýsingar skv. 2. mgr. 4. gr. til 1. desember 2019. Að tillögu ráðuneytisins leggur nefndin til að frestur þessi verði framlengdur til 1. júní 2020.
    Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. maí 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Brynjar Níelsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy.