Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1788, 149. löggjafarþing 803. mál: ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga (eftirlit með tekjum ríkisins o.fl.).
Lög nr. 69 24. júní 2019.

Lög um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016 (eftirlit með tekjum ríkisins o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sbr. lög um fjárreiður ríkisins“ í a-lið kemur: sbr. lög um opinber fjármál.
  2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: eftirlits með tekjum ríkisins, forsendum þeirra og innheimtu.


2. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Eftirlit með tekjum ríkisins.
     Eftirlit með tekjum ríkisins felur í sér að yfirfara forsendur álagningar opinberra gjalda og annarra skatta, kanna forsendur afskrifta skattkrafna og annarra krafna hins opinbera og opinberra hlutafélaga, fylgjast með innheimtu opinberra gjalda og annarra gjalda sem meðal annars opinber hlutafélög innheimta og hafa eftirlit með innheimtu rekstrartekna stofnana.

3. gr.

     Í stað orðanna „sbr. lög um fjárreiður ríkisins“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: sbr. lög um opinber fjármál.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætast sex nýir málsliðir, svohljóðandi: Ríkisendurskoðandi hefur aðgang að þeim upplýsingum sem geymdar eru í upplýsingakerfum opinberra aðila sem nauðsynlegar teljast svo að hann geti haft eftirlit með og endurskoðað eignir og fjárreiður ríkisins hverju sinni. Í því felst m.a. að skattyfirvöld skulu veita ríkisendurskoðanda aðgang að niðurstöðum álagningar með viðeigandi afstemmingum á því formi sem ríkisendurskoðandi óskar. Þá skulu skattyfirvöld veita ríkisendurskoðanda aðgang að þeim skattgögnum sem nauðsynleg eru hverju sinni svo að unnt sé að staðfesta að tekjur ríkisins séu rétt ákvarðaðar. Aðgangur að upplýsingum framangreindra aðila skal veittur án endurgjalds. Ríkisendurskoðandi heldur skrá yfir öll skattframtöl einstaklinga og lögaðila sem veittur er aðgangur að í því skyni að sannreyna réttar tekjur ríkisins. Viðkomandi einstaklingi eða lögaðila verður tilkynnt um slíka uppflettingu.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal ríkisendurskoðandi hafa aðgang að bókhaldi, þ.m.t. frumgögnum þess, hjá þeim aðilum sem fá framlög úr ríkissjóði, hvort heldur það er með beinum framlögum eða endurgreiðslum kostnaðar að hluta eða öllu leyti, svo sem til kvikmyndagerðar eða nýsköpunar-, rannsóknar- og þróunarverkefna.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
  1. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Ákvæði laga um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, taka ekki til ríkisendurskoðanda.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gildissvið gagnvart öðrum lögum.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

7. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     3. mgr. 14. gr. laga um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, orðast svo:
     Lög þessi gilda ekki um Alþingi, umboðsmann Alþingis eða ríkisendurskoðanda.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2019.