Ferill 873. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1807  —  873. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um óbyggð víðerni og friðlýsingar.


     1.      Hvernig hefur verið háttað starfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis og undirstofnana þess að verkefni um kortlagningu óbyggðra víðerna í Evrópu frá því að Evrópuþingið samþykkti yfirlýsingu um vernd óbyggðra víðerna árið 2009? En frá gildistöku laga nr. 60/2013 sérstaklega? Hvenær mun kortlagning óbyggðra víðerna á Íslandi liggja fyrir?
    Í skýrslu Þorvarðar Árnasonar og félaga, „Kortlagning víðerna á miðhálendi Íslands: Tillögur að nýrri aðferðafræði“ (2017), 1 er að finna greinargott yfirlit yfir sögu kortlagningar víðerna á Íslandi (2. kafli). Í skýrslunni er gerð tillaga að nýrri aðferðafræði við kortlagningu víðerna, sem byggist á eldri kortum og vinnu fræðimanna, bæði íslenskra og erlendra.
    Fyrsta yfirlitskort af ósnortnum víðernum á Íslandi var unnið af starfshópi á vegum umhverfisráðuneytisins. Í kjölfar þingsályktunar nr. 13/121 um varðveislu ósnortinna víðerna, sem samþykkt var á Alþingi árið 1997, var starfshópnum falið að skilgreina hugtakið ósnortið víðerni og kortleggja þau svæði á Íslandi sem falla undir það. Kortið sem hópurinn skilaði af sér er „gróft yfirlitskort sem gefur vísbendingar um þau svæði sem talist gætu ósnortin víðerni skv. tillögu starfshópsins“, eins og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu Þorvarðar Árnasonar og félaga (bls. 5).
    Næsti áfangi í kortlagningu víðerna hérlendis var árið 2009 þegar Umhverfisstofnun gaf út kort af ósnortnum víðernum sem byggði á skilgreiningu á þeim í þágildandi náttúruverndarlögum, nr. 44/1999. Þetta kort má sjá á bls. 7 í áðurnefndri skýrslu.
    Með lögum nr. 60/2013 breyttist skilgreiningin á víðernum. Nú eru þau kölluð óbyggð víðerni, sbr. 19. tölul. 5. gr. laganna.
    Haustið 2018 var skipaður hópur undir stjórn Skipulagsstofnunar, með þátttöku Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, til að vinna fram viðmið vegna kortlagningar óbyggðra víðerna. Hópurinn hóf störf í október 2018 og eru áætluð skil á skýrslu hans haustið 2019. Verkefnið felur í sér framfylgd á gr. 1.1.4 í landsskipulagsstefnu 2015–2026, sbr. markmið hennar „1.1 Víðerni og náttúrugæði“. 2 Markmið vinnu hópsins eru tvíþætt; annars vegar liggur fyrir að útfæra skýr viðmið fyrir afmörkun víðerna og hvernig ólík mannvirki skerða víðerni í samræmi við lög um náttúruvernd; hins vegar að skapa yfirsýn yfir umfang og útbreiðslu víðerna, með korti og/eða öðrum landupplýsingagögnum.
    Framhald kortlagningar óbyggðra víðerna mun væntanlega byggjast á niðurstöðum starfshópsins.

     2.      Hefur ráðherra í hyggju að leggja til fullgildingu Íslands á landslagssáttmála Evrópu og að innleiða hann í íslensk lög og þá hvenær?
    Unnið hefur verið að fullgildingu Evrópusamnings um landslag frá því að Ísland undirritaði samninginn 29. júní 2012. Í mars sl. samþykkti ríkisstjórnin, að tillögu utanríkisráðherra, að Ísland fullgilti og gerðist aðili að Evrópusamningi um landslag frá árinu 2000. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur samningurinn verið fullgiltur hér á landi í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið ber ábyrgð á innleiðingu og framfylgd samningsins í samvinnu við viðkomandi stofnanir. Í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, er hugtakið landslag skilgreint, kveðið er á um verndarmarkmið fyrir landslag auk þess sem mögulegt er nú að friðlýsa landsvæði til verndar landslagi. Að mati ráðuneytisins kallar því fullgilding samningsins ekki á frekari lagabreytingar hér á landi.

     3.      Hversu mörg svæði hafa verið friðlýst sem óbyggð víðerni frá gildistöku laga nr. 60/2013?
    Ekkert svæði hefur enn verið friðlýst sem óbyggt víðerni frá gildistöku laga nr. 60/2013.

     4.      Hve mörg svæði sem falla undir skilgreiningu laga á óbyggðum víðernum, en eru utan þess svæðis sem skilgreint er miðhálendi Íslands, hyggst ráðherra friðlýsa á árinu 2019? En 2020? Hvaða svæði eru það? Hvað er sú vinna langt á veg komin?
    Unnið er að friðlýsingu eins svæðis sem óbyggðs víðernis, en um er að ræða jörðina Dranga á Ströndum sem landeigendur óskuðu eftir að yrði friðlýst á þessum forsendum. Áform um friðlýsingu jarðarinnar voru auglýst á vef Umhverfisstofnunar 19. febrúar 2019 en frestur til að skila inn athugasemdum var til og með 10. apríl 2019. Í samráðshópi, sem í eiga sæti fulltrúar landeigenda, sveitarfélagsins Árneshrepps, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar, eru nú unnin drög að friðlýsingarskilmálum fyrir svæðið. Þegar þeirri vinnu lýkur verða drögin lögð fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélag og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu er þrír mánuðir. Þegar því ferli er lokið mun Umhverfisstofnun vísa málinu til ráðherra með tillögu að friðlýsingarskilmálum eins og lög kveða á um. Á þessu stigi málsins er ekki ljóst hvenær hægt verður að ljúka friðlýsingu svæðisins en gera má ráð fyrir því að málinu verði vísað til ráðherra haustið 2019.
    Þess má geta að samkvæmt náttúruverndaráætlunum, sem samþykktar voru af Alþingi árið 2004 og 2010, eru nokkur dæmi um svæði utan miðhálendisins sem gætu vel fallið undir skilgreiningu náttúruverndarlaga um óbyggð víðerni. Unnið er að átaki í friðlýsingum, sem umhverfis- og auðlindaráðherra hleypti af stokkunum á síðasta ári, m.a. að friðlýsingum nokkurra svæða af eldri náttúruverndaráætlunum.

     5.      Hver er skýringin á því að á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er ekki lengur að finna lögbundna framlagningu þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár?
    Samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 60/2013, gefur ráðherra út náttúruminjaskrá þegar Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um framkvæmdaáætlun um friðlýsingu og friðun, svokallaðan b-hluta hennar, til næstu fimm ára. Framlagning tillögunnar var ráðgerð á 149. löggjafarþingi en hefur nú verið frestað til 150. löggjafarþings. Náttúrufræðistofnun Íslands skilaði á síðasta ári tillögum til ráðherra að náttúruminjum sem mynda net verndarsvæða vegna vistgerða annars vegar og búsvæða fugla hins vegar auk tillagna um nokkur jarðminjasvæði. Sú aðferð að skipuleggja náttúruvernd í neti verndarsvæða hefur verið þróuð í tengslum við framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni og einnig Bernarsamningsins um villtar plöntur og dýr og búsvæði þeirra í Evrópu.
    Í kjölfar þess að tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands bárust ráðuneytinu var óskað eftir því að stofnunin mundi einnig vinna viðbótartillögur að svæðum sem tækju mið af vernd hella, fossa, heitra og kaldra linda, selalátra og víðerna.
    Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. laga nr. 60/2013 hefur Umhverfisstofnun það lögbundna hlutverk að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun og kostnað við þær. Umhverfisstofnun hefur unnið að mati vegna fyrri tillagna en mun síðan fá viðbótartillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands til frekari vinnslu. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár verður því á þingmálaskrá 150. löggjafarþings eins og áður sagði.

     6.      Telur ráðherra nægilega skýrt að friðlýsingu samkvæmt lögum nr. 60/2013 skuli gera á forsendum náttúrunnar sjálfrar? Tefjist það úr hófi að Alþingi fái tillögu að framkvæmdaáætlun til afgreiðslu er ráðherra þá valdalaus hvað varðar úrræði til friðlýsingar svæða, þar á meðal óbyggðra víðerna, sem ekki er að finna á eldri náttúruverndaráætlun? Hvernig er unnt að bregðast við séu slík svæði ekki friðlýst og í hættu á að verða raskað endanlega, eins og ávallt er raunin með rask á óbyggðum víðernum?
    Fjallað er um friðlýsingu svæða í VII. kafla laga nr. 60/2013. Þar segir í 2. mgr. 38. gr. að ráðherra skuli byggja ákvarðanir um friðlýsingar á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Síðar í ákvæðinu segir að ráðherra sé heimilt að ákveða friðlýsingu með samþykki landeiganda og viðkomandi sveitarfélags þótt ekki sé gert ráð fyrir henni á framkvæmdaáætlun. Ráðherra getur því ávallt friðlýst svæði, sé um það samkomulag við landeiganda og sveitarfélag, til að koma í veg fyrir að viðkomandi svæði verði raskað. Með gildistöku laga nr. 60/2013 voru ákvæði um málsmeðferð vegna friðlýsinga svæða skýrð. Mikilvægt er að hafa í huga að ákvörðun um friðlýsingu svæðis er stjórnvaldsákvörðun gagnvart landeigendum og rétthöfum lands sem getur takmarkað nýtingarmöguleika á viðkomandi svæði. Er því í lögunum gerður greinarmunur á svæðum sem eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár eða náttúruverndaráætlun annars vegar og friðlýsingu annarra svæða hins vegar en í tilviki hins fyrrnefnda hefur friðlýsing viðkomandi svæðis fengið umfjöllun Alþingis sem ákvarðað hefur verið að svæðið skuli friðlýst. Önnur svæði hafa ekki fengið slíka umfjöllun og því eðlilegt að kveðið sé á um samþykki landeiganda eða rétthafa lands í þeim tilvikum. Vinnan við undirbúning friðlýsingar Drangajarðarinnar hér á undan er gott dæmi um svæði sem ekki er að finna á slíkum áætlunum. Þess ber einnig að geta að með átaki í friðlýsingum, sem umhverfis- og auðlindaráðherra hleypti af stokkunum á síðasta ári, er nú unnið að friðlýsingum nokkurra svæða, m.a. á eldri náttúruverndaráætlunum og undir álagi ferðamanna, þó að ekki liggi fyrir samþykkt framkvæmdaáætlun, svokallaður b-hluti náttúruminjaskrár.

1    Sjá www.skipulag.is/media/pdf-skjol/Kortlagning_Viderna_Web2.pdf
2    Sjá www.landsskipulag.is/media/pdf-skjol/Landsskipulagsstefna2015-2026_asamt_greinargerd.pdf