Ferill 881. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1893  —  881. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í ráðuneytinu.


     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
    Skipulag aðalskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er ákveðið af ráðherra í samræmi við lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Það er endurskoðað reglulega. Upplýsingar um skipulag og verkaskiptingu skrifstofa eru birtar á vefsíðu ráðuneytisins og þær upplýsingar sem hér eru birtar eru teknar af vefsíðunni. Öllum skrifstofum er stýrt af skrifstofustjóra.
     Skrifstofa yfirstjórnar fer með samhæfingu í starfsemi ráðuneytisins, undirbýr og fylgir eftir settum áherslum í starfsemi þess. Skrifstofan fer með mál er varða dagskrá ráðherra, undirbúning funda og mál sem varða þingstörf ráðherra. Hún ber meginábyrgð á samskiptum við Alþingi og stofnanir þess og þróun stjórnsýsluhátta innan ráðuneytisins almennt. Skrifstofan sinnir sérstökum og tímabundnum úrlausnarefnum og áherslumálum sem ráðuneytið fæst við í samstarfi við aðrar skrifstofur ráðuneytisins og önnur ráðuneyti eftir atvikum. Þá framkvæmir hún sértækar og almennar greiningar vegna málefna ráðuneytisins og hefur yfirsýn og fylgist með starfi verkefnahópa sem settir eru á fót og starfa þvert á ráðuneytið. Skrifstofan, sem ráðuneytið allt, veitir ráðherra ráðgjöf og stuðning í daglegum störfum á hlutlægum og málefnalegum grunni. Starfsmenn eru sex.
     Skrifstofa stjórnunar og umbóta sinnir fjárstýringu og rekstrarmálefnum ríkisins, lánamálum, umbótastarfi, eigna- og framkvæmdamálum og stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum. Það felur í sér fjármálastjórnun og fjárstýringu, lánsfjáröflun og skuldastýringu ríkissjóðs, eftirlit með framkvæmd fjárlaga í samstarfi við aðrar skrifstofur ráðuneytisins, mat á afkomu ríkissjóðs og einstakra ríkisaðila, ásamt þróun rekstraráætlana og reikningsskila. Skrifstofan vinnur að umbótum og nýsköpun í rekstri og stofnanakerfi ríkisins, stefnumótun og árangursstjórnun, þróun stafrænna innviða, notkun upplýsingatækni í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, innkaupamál, ríkisaðstoðarmál og samskipti við einkamarkaðinn. Skrifstofan fer með eigna- og framkvæmdamál ríkisins, þ.m.t. eignarhald félaga, og undirbúning og framkvæmd eigendastefnu hluta- og sameignarfélaga í ríkiseigu. Skrifstofan fer með eignarráð ríkisins í fast- og jarðeignum og samninga vegna nýtingar auðlinda þeirra. Undir skrifstofuna fellur stefnumörkun varðandi mannauðsmál ríkisins og málefni er varða réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, kjarasamninga, launa- og lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna, og greiningar á mannaflaþörf og launum. Starfsmenn eru sextán. Auk þess starfa undir skrifstofunni átta starfsmenn á verkefnastofu um stafrænt Ísland.
     Skrifstofa skattamála mótar stefnu í skattamálum og eftir atvikum fyrir aðra tekjuöflun ríkisins. Skrifstofan annast mótun og undirbúning skattalöggjafar og gerð lagafrumvarpa og reglugerða á sviði skattamála með hliðsjón af stefnumótun ríkisfjármála og efnahagsmálum almennt, þ.m.t. er löggjöf um tolla og vörugjöld. Skrifstofan annast mat á forsendum og áhrifum skattbreytinga sem telst vera hluti af gerð lagafrumvarpa og tekjuáætlunar ríkissjóðs. Skrifstofan undirbýr setningu heildarmarkmiða fyrir tekjuöflun ríkissjóðs og setur fram langtímaáætlanir um þróun tekna í samvinnu við aðrar skrifstofur ráðuneytisins. Þá hefur skrifstofan umsjón með gerð tekjuáætlunar fjárlaga ár hvert og sinnir samtímaeftirliti með innheimtu og þróun einstakra skatt- og tekjustofna. Þá annast skrifstofan undirbúning tvísköttunar- og upplýsingaskiptasamninga við önnur ríki. Starfsmenn eru tíu.
     Skrifstofa opinberra fjármála undirbýr stefnumörkun í opinberum fjármálum á grundvelli lögbundinna grunngilda: sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæis og tölusettra fjármálareglna. Skrifstofan leiðir gerð fjármálastefnu, fjármálaáætlunar, fjárlaga og fjáraukalaga, bæði innan ráðuneytisins og gagnvart öðrum ráðuneytum. Í því felst undirbúningur að setningu heildarmarkmiða fyrir hið opinbera, þ.m.t. er varðar umfang, afkomu, skuldir og skuldaþróun, og fyrir opinbera aðila í heild. Í því felst m.a. ábyrgð á samhæfingu fjármálastefnu ríkisins og sveitarfélaga. Þá undirbýr skrifstofan ráðstafanir í ríkisfjármálum og fylgir eftir áherslum ráðherra og ríkisstjórnar varðandi fjármál ríkissjóðs. Skrifstofan leiðir samstarf við aðrar skrifstofur um þróun og rekstur á þeim gagnasöfnum og samtengdum reiknilíkönum ráðuneytisins sem þjóna stefnumörkuninni og áætlanagerðinni, þ.m.t. fjárlagakerfi ráðuneyta og Alþingis. Þá yfirfer skrifstofan mat ráðuneyta á fjárhagsáhrifum stjórnarfrumvarpa, reglugerða, samkomulaga og annarra stjórnvaldsráðstafana og leggur mat á samninga og aðrar skuldbindingar sem ná yfir lengri tíma en fjárlagaárið. Skrifstofan hefur forystu um gerð útgjaldagreininga (e. spending reviews) til að meta skilvirkni og árangur og skýra forgangsröðun varðandi ráðstöfun opinberra fjármuna. Skrifstofan greinir horfur og þróun í fjármálum hins opinbera til lengri tíma í samræmi við ákvæði laga. Starfsmenn eru átta.
     Skrifstofa fjármálamarkaðar annast málefni fjármálamarkaðar og undirbýr laga- og reglusetningu á því sviði. Þar undir fellur umgjörð og eftirlit með fjármálafyrirtækjum, málefni verðbréfamarkaða, innstæðutryggingar og Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, vátryggingar og vátryggingastarfsemi, viðlagatryggingar, greiðslukerfi og greiðsluþjónusta. Skrifstofan sinnir málefnum sem varða fjármálastöðugleika og viðbúnað vegna erfiðleika eða áfalla í fjármálakerfinu, en þar undir fellur m.a. þátttaka í starfi kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs. Að auki fer skrifstofan með málefni Fjármálaeftirlitsins. Þá fer skrifstofan með málefni er varða lífeyrissjóði, almenna löggjöf um starfsemi þeirra og stjórnsýsluverkefni sem af henni leiða, og lög um gjaldeyri og vexti og verðtryggingu, eftir atvikum í samvinnu við aðrar skrifstofur ráðuneytisins. Starfsmenn eru tíu.
     Skrifstofa efnahagsmála hefur umsjón með undirbúningi og eftirfylgni með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, samhæfingu opinberrar hagstjórnar og kynningu á efnahags- og hagstjórnarmálum innan lands og utan. Í því skyni annast skrifstofan mat á þróun og horfum í efnahagsmálum og samskipti við Hagstofu Íslands um gerð þjóðhagsspár. Skrifstofan annast gerð hagfræðilegra athugana, sviðsmynda- og frávikagreiningar, vöktun hagstærða og samskipti við erlend matsfyrirtæki og ýmsar alþjóðlegar stofnanir á sviði efnahagsmála, þ.m.t. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Að auki fer skrifstofan með málefni Seðlabanka Íslands að því marki sem þau heyra undir ráðuneytið, eftir atvikum í samvinnu við aðrar skrifstofur ráðuneytisins. Starfsmenn eru fjórir.
     Skrifstofa rekstrar og innri þjónustu (rekstrarsvið) styður við innra starfs ráðuneytisins og þróun þess í nánu samstarfi við yfirstjórn. Það annast rekstur og fjármál ráðuneytisins, mannauðsmál, innra eftirlit, stoðþjónustu og áætlanagerð. Sviðið samræmir framsetningu stefnumörkunar ráðuneytisins á þeim málefnasviðum og í þeim málaflokkum sem það ber ábyrgð á. Það hefur umsjón með fjárveitingum til málaflokka sem ráðuneytið ber ábyrgð á og fer með rekstrarlegt eftirlit með stofnunum ráðuneytisins ásamt stefnumótun og árangursstjórnun er þeim við kemur. Rekstrarsvið leiðir mannauðsmál og ber ábyrgð á ráðningum, launasetningu, fræðslu og starfsþróun. Sviðið ber ábyrgð á gæðamálum, skjalavistun og málaskrá ráðuneytisins. Það hefur umsjón með upplýsingamiðlun, fjölmiðlasamskiptum og útgáfumálum. Rekstrarsvið vinnur náið með yfirstjórn ráðuneytisins að framgangi verkefna sem varða ráðuneytið í heild eða að hluta og styður við starf verkefnahópa sem settir eru á fót og starfa þvert á ráðuneytið. Starfsmenn eru ellefu.
    Sérstök ráðuneytisstofnun, sbr. 17. gr. stjórnarráðslaga, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, starfar sem hluti af ráðuneytinu og sinnir verkefnum á sviði mannauðsmála ríkisins sem henni eru falin, þar á meðal ráðgjöf og stuðningi við ráðuneyti og ríkisstofnanir, leiðbeiningum um ákvæði starfsmannalaga og framkvæmd kjarasamninga, fræðslumálum, málefnum forstöðumanna og stjórnenda, starfsþróun og samstarfi við samtök launþega og samtök sveitarfélaga um launa- og kjaramál og umbætur á vinnumarkaði. Hún starfar með samninganefnd ríkisins að gerð kjarasamninga. Ráðuneytisstofnuninni stýrir skrifstofustjóri sem er embættismaður í skilningi laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfsmenn eru tólf.

     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
    Einn skrifstofustjóri heyrir undir annan skrifstofustjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
    Seta í nefndum, ráðum og starfshópum á vegum ráðuneytisins er skilgreind sem hluti af störfum skrifstofustjóra og því ekki greitt sérstaklega fyrir þá vinnu. Skrifstofustjórar hafa farsíma til umráða og kostnaður vegna þeirra er greiddur af ráðuneytinu. Önnur hlunnindi eru ekki greidd.

     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
    Það er breytilegt eftir skrifstofum og árstíma hversu mikla yfirvinnu skrifstofustjórar vinna. Á árinu 2018 unnu skrifstofustjórar á jafnaði á bilinu 25–50 yfirvinnustundir á mánuði.

     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?
    Þær undirstofnanir ráðuneytisins sem byggja starfsemi sína á framlögum úr ríkissjóði tengjast rekstrarskrifstofu ráðuneytisins. Að öðru leyti eru samskipti við ýmsar skrifstofur á faglegum grunni eftir eðli verkefna.