Ferill 943. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2091  —  943. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um tekjulægstu hópa aldraðra.


     1.      Hyggst ráðherra fylgja eftir tillögum, sem fram koma í niðurstöðum skýrslu starfshóps um kjör aldraðra frá desember 2018, varðandi aldraða sem eiga takmörkuð réttindi í almannatryggingum á Íslandi vegna fyrri búsetu erlendis og ef svo er, til hvaða úrræða hyggst ráðherra grípa?
    Gert er ráð fyrir að á næsta þingi verði lagt fram frumvarp byggt á tillögum starfshópsins. Þar verði kveðið á um viðbótarstuðning ríkisins við aldraða einstaklinga sem hafa ekki búið nægjanlega lengi á Íslandi til að öðlast full réttindi til ellilífeyris almannatrygginga. Þessi viðbótarstuðningur verði eingöngu fyrir þá sem búsettir eru og dvelja á Ísland og sem hafa heildartekjur undir ákveðnu tekjuviðmiði og sem ekki eiga eignir í peningum eða verðbréfum yfir tiltekinni fjárhæð.

     2.      Hverjar verða tillögur ráðherra til úrbóta fyrir þá sem hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum?
    Almannatryggingakerfið er mikilvægt fyrir þá sem hafa áunnið sér lítil sem engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að styrkja stoðir velferðarkerfisins, og ekki síst almannatryggingakerfið. Viðmiðunarfjárhæðir í bótaflokkum almannatrygginga taka breytingum árlega í samræmi við fjárlög og þær fjárveitingar sem Alþingi heimilar fyrir hvert fjárlagaár með hliðsjón af launaþróun eða hækkun verðlags. Þannig er leitast við að bæta hag lífeyrisþega jafnt og þétt í samræmi við þróun velferðar í landinu á hverjum tíma.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir bættum hag þeirra sem eingöngu eða nánast eingöngu lifa á bótum almannatrygginga?
    Almannatryggingakerfið er sérstaklega mikilvægt fyrir þann hóp lífeyrisþega sem eingöngu eða nánast eingöngu lifir á bótum almannatrygginga. Stefnt er að því að setja á fót nýjan starfshóp um málefni aldraðra þar sem í samráði við hagsmunasamtök aldraðra verði áfram fjallað um málefni aldraðra og unnið að tillögum um það hvernig bæta megi hag þeirra á breiðum grunni.

     4.      Mun ráðherra beita sér fyrir lausn á óviðunandi stöðu efnalítilla aldraðra sem búa í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu húsnæði?
    Ljóst er að efnalitlir aldraðir sem búa í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu húsnæði eru í erfiðri stöðu, sérstaklega hafi þeir nánast eingöngu bætur almannatrygginga sér til framfærslu. Ríkisstjórnin vinnur nú að margvíslegum aðgerðum til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði sem munu koma öllum tekjulágum leigjendum og íbúðareigendum til góða og það er óháð aldri. Skal hér sérstaklega bent á víðtækar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum í tengslum við lífskjarasamningana og tillögur átakshóps stjórnvalda um húsnæðismál. Miða þær að því að auka framboð á hagkvæmum íbúðum og bæta stöðu á húsnæðismarkaði, m.a. til að auka aðgengi tekjulágra að íbúðum á viðráðanlegu verði og stuðla að öruggari leigumarkaði og lægri byggingarkostnaði sem aftur skilar sér í lægra fasteigna- og leiguverði. Íbúðalánasjóði hefur verið falið að annast eftirfylgni með innleiðingu aðgerðanna og gefur sjóðurinn út stöðuskýrslur um málið þrisvar á ári. Síðast gaf Íbúðalánasjóður út skýrslu um efnið í apríl sl. 1 en næsta stöðuskýrsla er væntanleg í lok september.
1     Sjá: www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=28cae8d6-5f77-11e9-943c-005056bc530c