Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 67  —  67. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.


Flm.: Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Karl Gauti Hjaltason, Birgir Þórarinsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skoða hvort á Hornafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.

Greinargerð.

    Tillaga þessi hefur áður verið flutt á 141.–146. og 148. löggjafarþingi (149. mál) og 149. löggjafarþingi (131. mál).
    Hornafjarðarflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins. Mikilvægt er að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. Ljóst er að staðsetning vallarins býður upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega í kjölfar tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skoða hvort til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi.
    Í janúar 2008 unnu Flugstoðir greinargerð að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn að millilandaflugvöllum, til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika og hver kostnaðurinn við breytingar af þessu tagi gæti orðið. Í greinargerðinni kemur fram að gera þurfi endurbætur á öryggis- og eftirlitsþáttum á umræddum flugvöllum þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi. Í greinargerðinni eru möguleikar og kostnaðaráhrif þessara ráðstafana metin en í aðalatriðum eru þrjár reglugerðir sem taka þarf tillit til. Gera þarf breytingar á viðauka 1 við reglugerð nr. 866/2017, um för yfir landamæri, með síðari breytingum, og bæta Hornafjarðarflugvelli við lista yfir skilgreindar landamærastöðvar. Auk þess þarf að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 75/2016, um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, með síðari breytingum, vegna mannvirkja og vegna öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis og skilyrði reglugerðar nr. 750/2016, um flugvernd, með síðari breytingum.
    Við vinnslu tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015– 2018 sagði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar í nefndaráliti vert að skoða að veita minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda, m.a. á Hornafirði. Það gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna auk þess að minnka álag á Keflavíkurflugvelli og auka öryggi í flugi yfir landið (145. löggjafarþing, þskj. 1679, 638. mál). Þá áréttaði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar málefni Hornafjarðarflugvallar í áliti sínu við vinnslu tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Sagði meiri hlutinn að veita ætti minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda á Hornafirði. Slíkt gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna auk þess sem það minnkar álag á Keflavíkurflugvelli og eykur öryggi í flugi eins og rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur bent á í skýrslum sínum (149. löggjafarþing, þskj. 879, 172. og 173. mál).
    Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í að skoða hvort á Hornafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi til að treysta enn frekar atvinnulíf í Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu og vexti Vatnajökulsþjóðgarðs.