Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 78  —  78. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um kjötrækt.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kanna stöðu kjötræktar og skipuleggja aðgerðaáætlun um innleiðingu tækni fyrir íslenskan landbúnað með það að markmiði að flýta fyrir því að kjötrækt verði samkeppnishæf við afurðir af hefðbundinni veiði eða ræktun dýra til manneldis.
    Samantekt um stöðu kjötræktar liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2020 og ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda hvað varðar kjötrækt eigi síðar en 1. nóvember 2020.

Greinargerð.

    Tillaga þessi hefur áður verið flutt á 146., 147., 148. og 149. löggjafarþingi (102. mál).
    Kjötrækt er aðferð til þess að búa til kjöt án þess að slátra þurfi dýri. Hugmyndin hefur verið til síðan 1912 en Alexis Carrel tókst að halda frumum úr hjarta kjúklings á lífi í 34 ár, 1912–1946, utan líkama lifandi lífveru. Winston Churchill spáði því árið 1931 að innan 50 ára yrðum við laus við þann fáránleika að þurfa að rækta heilan kjúkling til þess að borða bara læri eða bringu. Árið 1995 samþykkti matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) tilraunir til að rækta kjöt með það að markmiði að matur yrði ekki vandamál í löngum geimferðum.
    Helsti kostur þess að rækta kjöt umfram dýrarækt til manneldis eru umhverfisáhrifin og, þótt það eigi síður við á Íslandi, að ekki þarf að nota sýklalyf í kjötrækt. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umhverfisáhrifum kjötræktar. Kjötrækt sendir 78–96% minna af gróðurhúsalofttegundum frá sér en hefðbundin dýrarækt, notar 99% minna landrými og 82– 96% minna af vatni. Einungis fuglarækt notar minni orku, annars þarf kjötrækt 7–45% minni orku en hefðbundin dýrarækt.
    Á eftirfarandi slóð má sjá súlurit sem sýnir umhverfisáhrif af framleiðslu nautakjöts, kindakjöts, svínakjöts, alifuglakjöts og ræktaðs kjöts skipt eftir því hvort áhrifin felast í orkunotkun, losun gróðurhúsalofttegunda, landnotkun eða vatnsnotkun:
pubs.acs.org/doi/abs/10.1021/es200130u.
    Óháð því hvað Ísland gerir til þess að undirbúa tilkomu þessarar tækni til matvælaframleiðslu mun hérlendis þurfa að glíma við þær breytingar sem kjötrækt hefur á neysluvenjur. Þó að eftirspurn eftir kjöti af dýrum hverfi örugglega ekki minnkar hún líklega mjög, þó ekki væri nema vegna umhverfisáhrifa. Það hefur mögulega veruleg áhrif á landbúnað og sjávarútveg á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Því er mjög brýnt að Ísland sé undirbúið fyrir þessar tækniframfarir, bæði með aðgerðaáætlun og stefnu.
    Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) þarf tæplega helming allrar uppskeru heimsins til þess að fæða dýr til manneldis; um 1,4 milljarð kúa, 1 milljarð svína, 20 milljarða hænsna og 1,9 milljarð kinda og geita. 1 Það þarf þónokkur kíló af fóðri til þess að búa til kíló af kjöti og ef einungis er reiknað í kaloríum mundi 44% af núverandi landbúnaðarframleiðslu duga til þess að fæða mannkynið en ekki 83%. Með hamfarahlýnun, og þar af leiðandi breytingum á því hvar og hvort hægt er að rækta nægilega mikið fóður fyrir dýr til manneldis, og vegna þess að mannkyninu mun fjölga um 2,5 milljarða á næstu þremur til fjórum áratugum verður það gríðarleg áskorun að viðhalda núverandi fyrirkomulagi. Eitthvað verður undan að láta og vissulega eru margir sem kjósa kjötlausan lífsstíl þar sem alls konar kjötlausar lausnir hafa komið fram en rembast þó við að líkjast kjöti sem mest. Staðreyndin er sú að kjöt verður áfram neysluvara og þó að margir skipti yfir í kjötlausan lífsstíl verður hlutdeild kjöts áfram viðamikil í mataræði jarðarbúa. Vandamálið er verksmiðjuframleiðsla á dýrum til manneldis. Það er ekki sjálfbær aðferð til kjötframleiðslu fyrir þann mannfjölda sem jörðin mun hýsa á næstu áratugum né við þær loftslagsbreytingar sem við sjáum fram á að muni verða. Það er því nauðsynlegt að breyta til og möguleg lausn er til staðar, það eina sem þarf að gera er að greiða þeirri lausn leið. Þetta er nýsköpunarverkefni sem hefur gríðarlega möguleika, bæði vegna loftslagsmála og þeirra áskoranna sem við stöndum frammi fyrir vegna fólksfjölgunar.
1     www.atkearney.com/retail/article/?/a/how-will-cultured-meat-and-meat-alternatives-disrupt-the-agricultural-and-food-industry