Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 79  —  79. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum (skilnaður án undanfara).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Helga Vala Helgadóttir, Jón Steindór Valdimarsson.


1. gr.

    Á eftir 43. gr. laganna kemur ný grein, 43. gr. a, sem orðast svo:
    Nú eru aðilar sammála um að leita lögskilnaðar og ber þá að veita hjónum leyfi til slíks skilnaðar án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng komi fram ósk þess efnis frá þeim báðum, enda eigi þau hvorki sameiginlegar eignir né börn undir 18 ára aldri, eða hjón hafa náð samkomulagi um skipan forsjár fyrir börnum, um framfærslueyri og aðra skilnaðarskilmála sem staðfest hefur verið, sbr. 1. mgr. 43. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að hjón geti fengið lögskilnað án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng séu þau sammála um það og hagsmunir barna á þeirra forræði hafi verið tryggðir.
    Í gildandi hjúskaparlögum eru þröng skilyrði fyrir því að hægt sé að veita leyfi til lögskilnaðar án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng. Heimild er til þess ef um er að ræða hjúskaparbrot eða ef annað hjóna hefur verið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti er bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim. Til að hægt sé að láta reyna á það ákvæði þarf að vera sönnun fyrir slíku broti, ýmist í formi játningar eða haldbærra sönnunargagna.
    Hvergi er gert ráð fyrir að tveir fullorðnir einstaklingar vilji einfaldlega skilja, hverjar svo sem ástæðurnar kunni að vera. Flutningsmenn telja það ekki vera hlutverk hins opinbera að takmarka heimild hjóna til lögskilnaðar ef engir sérstakir hagsmunir eru fyrir hendi sem krefjast þess.
    Sambærileg ákvæði eru í hjúskaparlögum í Danmörku og Svíþjóð.