Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 127  —  127. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum.


Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Magnússon, Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Ari Trausti Guðmundsson, Oddný G. Harðardóttir, Karl Gauti Hjaltason, Vilhjálmur Árnason, Smári McCarthy.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp um stefnumótun náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum. Hópnum verði falið að kanna hvernig best megi fjölga námsplássum á svæðinu með hliðsjón af fólksfjölgun og fjölbreyttum menningarlegum bakgrunni íbúa og auka framboð námsleiða m.a. á sviði tækni og nýsköpunar sem og að tryggja rekstur náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum til framtíðar. Hópurinn leggi einnig fram tillögu að framtíðaruppbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og skoði í samvinnu við sveitarfélögin á Suðurnesjum hvort breyta þurfa staðsetningu hans með tilliti til stækkunarmöguleika og aðgengis. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.

Greinargerð.

    Fjölgun landsmanna undanfarin ár hefur verið hlutfallslega mest á Suðurnesjum og langt umfram meðalfólksfjölgun í landinu. Á árinu 2018 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 5,2% en árið 2017 var fólksfjölgunin um 7,4% árið 2017. Samsetning íbúa á Suðurnesjum er einnig ólík því sem gerist í öðrum landshlutum þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn. Menntunarmöguleikar þurfa að endurspegla þörfina og það fjölbreytta samfélag sem þrífst á Suðurnesjum. Annað atriði sem taka þarf tillit til við skipulag náms á framhaldsskólastigi á svæðinu er hátt hlutfall vaktavinnufólks. Fjölbreyttar námsleiðir og sveigjanlegar kennsluaðferðir verða að vera í boði fyrir þann hóp, bæði fyrir framhaldsmenntun og símenntun.
    Mikil uppbygging hefur verið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, FS, undanfarin ár og eru áform um frekari uppbyggingu skólans á næstu árum. Ásókn í skólann er hins vegar mikil og ljóst að hún mun aukast enn meira á næstu árum og áratugum. Vandséð er hversu mikið skólinn getur stækkað á þeim stað sem hann er á núna og þarf að líta til framtíðar með það í huga hvar námi á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum sé best fyrir komið. Rétt er að líta til framtíðarskipulags sveitarfélaga á Suðurnesjum í þeirri vinnu og leitast við að hafa skólann miðsvæðis bæði með tilliti til almenningssamgangna og stækkunarmöguleika til næstu áratuga. Tryggja þarf að fjárheimildir skólans séu í samræmi við íbúafjölda.
    Ásókn hefur verið mikil í nám í nýjum menntaskóla á Ásbrú sem er hýstur í aðalbyggingu Keilis, en þar er reiknað með að um 150 nemendur leggi árlega stund á nám til stúdentsprófs. Fisktækniskóli Suðurnesja var stofnaður árið 2009. Hlutverk hans er m.a. að mennta fólk til starfa í sjávarútvegi að loknu grunnskólanámi og að veita endurmenntun fyrir starfsfólk í sjávarútvegi. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) var stofnuð árið 1997. Hugmyndin með stofnun miðstöðvarinnar var frá upphafi að styrkja starfsmenntun á Suðurnesjum, skapa jarðveg fyrir nýjar starfstengdar brautir við Fjölbrautaskólann og tengja jafnframt saman grunn- og símenntun. Enn fremur þótti mikilvægt að auka framboð á menntun og námskeiðum fyrir fullorðna á Suðurnesjum, efla ráðgjöf og gæði og skapa farveg fyrir ný verkefni.
    Menntaskólinn Ásbrú (Keilir), Fisktækniskólinn og MSS eru stofnanir sem orðið hafa til vegna frumkvæðis einkaaðila, sveitarfélaga á Suðurnesjum og fyrirtækja á svæðinu. Þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir, starfsþjálfun og endurmenntun hefur verið áþreifanleg. Nú eru þessar menntastofnanir orðnar rótgrónar í samfélaginu og hafa sannað gildi sitt. Menntunarstig fólks á svæðinu hefur hækkað, sérstaklega kvenna. Það er ekki síst bættu aðgengi að námi að þakka sem og fjölbreyttum námsleiðum og sveigjanlegum kennsluháttum.
    Sjálfvirknivæðing undanfarinna ára og hraðar tæknibreytingar munu ekki hægja á sér. Með þeim breytingum er einsýnt að kröfur um fjölbreytta menntun á framhaldsskólastigi sem og ákall eftir nútímalegum og sveigjanlegum kennsluháttum muni halda áfram að aukast. Í skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna kemur fram að líkur á sjálfvirknivæðingu starfa minnka með hærra menntunarstigi. Líklegt er að mörg störf sem krefjast lítillar menntunar muni hverfa eða taka miklum breytingum. Vægi framhaldsskólanáms verður því sífellt meira og þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir vex. Því þarf að auka áherslu á tæknigreinar og nýsköpun auk þess að halda áfram að bjóða upp á hefðbundið bóknám og iðngreinar.
    Fjölbreytt námsframboð og sveigjanlegt námsumhverfi, sem skapað er í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, verður þannig lykilþáttur í því að mæta kröfum og þörfum atvinnulífsins. Á Suðurnesjum má finna dæmi um hvernig skólar hafa brugðist við þessum þörfum með nýjum námsleiðum á framhaldsskólastigi í nánu samstarfi við atvinnulífið.
    Markmið tillögunnar er að styrkja stoðir náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum með tilliti til þarfa atvinnulífsins á svæðinu, mikillar mannfjölgunar og fjölbreytts menningarlegs bakgrunns íbúa. Móta þarf stefnu um uppbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tryggja fjármögnun menntastofnana á svæðinu til framtíðar. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.