Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 188  —  186. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri,
nr. 34/1991, með síðari breytingum (afnám búsetuskilyrða).


Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


1. gr.

    Í stað orðanna „enda séu viðkomandi aðilar búsettir eða með heimilisfesti í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: eða þá sem eru búsettir þar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: og þá sem eru búsettir þar.
     b.      Í stað orðanna „sem búsettir eru í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum teljast“ í 2. mgr. kemur: og einstaklingar búsettir þar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Tilefnið má rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna skilyrða um búsetu og heimilisfesti framkvæmdastjóra og stjórnenda í íslenskum atvinnufyrirtækjum. ESA hefur gert athugasemd við núgildandi kröfu um að framkvæmdastjórar og meirihluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum sem eru ríkisborgarar Færeyja, þeirra ríkja sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) eða þeirra ríkja sem eru aðilar að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), þurfi að vera búsettir í aðildarríkjum EES-samningsins, aðildarríkjum EFTA eða í Færeyjum. ESA hefur bent á að krafan sé ekki í samræmi við EES-samninginn. ESA benti einnig á að ríkisborgarar annarra ríkja sem búsettir eru á framangreindum svæðum þyrftu ekki að vera búsettir hér á landi heldur væri nóg að vera búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu. Með öðrum orðum er verið að breyta núgildandi búsetuskilyrði á þann veg að framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna þurfa að vera búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu, á svæði ríkja sem eiga aðild að stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Búsetuskilyrðið á þó ekki við um ríkisborgara þessara ríkja.
    ESA vakti fyrst athygli á fyrrgreindu 22. janúar 2014. Athugasemdir voru gerðar við fimm lagabálka. Þremur af þeim lagabálkum hefur þegar verið breytt í samræmi við athugasemdir ESA, þ.e. lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, sbr. lög um hlutafélög o.fl., nr. 25/2017.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum ESA um að skilyrði um búsetu og heimilisfesti stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í íslenskum fyrirtækjum sé ekki í samræmi við EES-samninginn. Aðrir valkostir en lagabreyting eru ekki mögulegir. Ef ekkert er aðhafst er von á frekari aðgerðum af hálfu ESA. Nú þegar hefur ESA sent íslenska ríkinu formlegar athugasemdir (e. letter of formal notice) með bréfi dags. 4. nóvember 2015. Næsta aðgerð ESA verður í formi rökstudds álits (e. reasoned opinion). Ef ekkert yrði aðhafst í kjölfar þess getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.
    Markmið lagasetningarinnar er að tryggja frelsi launþega á grundvelli ríkisfangs innan EES og tryggja staðfesturétt einstaklinga. Ekki er hægt að setja höft á rétt ríkisborgara á evrópska efnahagssvæðinu til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði einhvers annars ríkis á svæðinu. Staðfesturétturinn felur m.a. í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki. Til nánari glöggvunar á fyrrgreindum reglum er vísað til 28. og 31. gr. EES-samningsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, skulu framkvæmdastjórar og meirihluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum vera búsettir hér á landi óháð eignarhlut, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila. Í lögunum kemur fram að búsetuskilyrði gildi þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að EES-samningnum, aðilar að EFTA eða um Færeyinga, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki EES-samningsins, aðildarríki EFTA eða Færeyjum.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að ekki verði gerð krafa um að viðkomandi ríkisborgarar séu búsettir í aðildarríki EES-samningsins, aðildarríki EFTA eða Færeyjum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Tillögurnar eru í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Breytingarnar eru tilkomnar vegna athugasemda ESA vegna skilyrða um búsetu og heimilisfesti stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í íslenskum atvinnufyrirtækjum.
    Lagaákvæði sem gera kröfu um búsetu í EES-ríki að skilyrði fyrir réttindum geta falið í sér mismunun sem telst ólögmæt á grundvelli EES-samningsins, enda á rétturinn til frjálsrar atvinnustarfsemi að tengjast ríkisfangi en ekki búsetu.

5. Samráð.
    Drög að frumvarpinu voru sett inn á samráðsgátt stjórnvalda 9.–20. september 2019. Engar athugasemdir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skilyrðum um búsetu framkvæmdastjóra og stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum þannig að búsetuskilyrði gildi ekki fyrir ríkisborgara EES-ríkis, aðildarríkis stofnsamnings EFTA og Færeyja sama hvar þeir eru búsettir í heiminum. Búsetuskilyrði fyrir aðra ríkisborgara mun eiga við um allt það svæði en ekki eingöngu Ísland eins og í núgildandi lögum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér nein fjárhagsáhrif á ríkissjóð. Fyrirtækjaskrá þarf að þó að sannreyna þær upplýsingar sem um ræðir en ekki er talið að það hafi teljandi áhrif á stofnunina. Búsetuskilyrðið mun því gera fyrirtækjum kleift að fá ríkisborgara fyrrgreindra svæða til að gegna stjórnarsetu eða vera framkvæmdastjórar óháð búsetu. Enn fremur ríkisborgara annarra ríkja sem eru búsettir á þeim svæðum sem tilgreind eru. Áhrif á atvinnulífið verða óveruleg enda er ekki vitað til þess að núgildandi regla hafi haft áhrif á íslenskt atvinnulíf. Þess ber að geta að lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, sbr. lög um hlutafélög o.fl., nr. 25/2017, var breytt með sambærilegum hætti og nær því breytingin sem lögð er til í frumvarpinu eingöngu til fyrirtækja í atvinnurekstri sem eru ekki hlutafélög, einkahlutafélög eða sjálfseignarstofnanir.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að búsetuskilyrði verið afnumið fyrir ríkisborgara EES-ríkja, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja. Með ákvæðinu er verið að rýmka búsetuskilyrði ríkisborgara annarra ríkja og þurfa þeir því ekki að eiga búsetu hér á landi heldur er nægjanlegt að þeir hafi búsetu á fyrrgreindum svæðum.

Um 2. gr.

    Lagðar eru til breytingar á skilyrðum um búsetu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra vegna athugasemda ESA. Ákvæðið mælir fyrir um að búsetuskilyrði gildi ekki um ríkisborgara ríkja sem eru aðilar að EES-samningum, aðilar að stofnsamningi EFTA eða um Færeyinga og þá aðila sem búsettir eru á þeim svæðum.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.