Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 262  —  174. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um rekstur hjúkrunarheimila.


     1.      Hver á og rekur einkahlutafélagið Vigdísarholt, hverjir skipa þar stjórn og hvað rekur Vigdísarholt mörg hjúkrunarheimili samkvæmt samningi við ráðuneytið?
    Ríkissjóður Íslands á og rekur Vigdísarholt ehf. Stjórn þess skipa Steingrímur Ari Arason, Kristinn Hjörtur Jónasson og Þórhildur Kristinsdóttir. Félagið rekur hjúkrunarheimilin Sunnuhlíð í Kópavogi og Seltjörn á Seltjarnarnesi. Ekki hefur verið gerður samningur um reksturinn við heilbrigðisráðuneytið en félagið fær greitt fyrir veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrám Sjúkratrygginga Íslands, annars vegar gjaldskrá fyrir þjónustu hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands (nr. 195/2019) og hins vegar gjaldskrá fyrir dagdvöl aldraðra á vegum stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og eru án samnings um verð við Sjúkratryggingar Íslands (nr. 385/2019).

     2.      Áformar eða aðhyllist ráðherra útvistun á þjónustu fleiri hjúkrunarheimila til einkahlutafélaga?
    Ráðherra áformar ekki útvistun á þjónustu fleiri hjúkrunarheimila til einkahlutafélaga. Þess ber þó að geta að rekstur nýrra hjúkrunarheimila getur þurft að bjóða út, eins og lög um opinber innkaup, nr. 120/2016, gera ráð fyrir, þar sem einkahlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða aðrir aðilar hafa tækifæri til að bjóða í og taka að sér rekstur þeirra.

     3.      Hefur komið til álita að setja á laggirnar stofnun sem taki yfir starfsemi þessara hjúkrunarheimila eða að útvista rekstur þeirra til sveitarfélaga, í stað þess að fela einkahlutafélagi reksturinn?
    Sjúkratryggingar Íslands hafa samið um rekstur hjúkrunarheimila við sveitarfélög og sjálfseignarstofnanir, auk þess sem heilbrigðisstofnanir reka hjúkrunarheimili vítt og breitt um landið og ekki eru áform um breytingar á því. Ekki hefur komið til álita að setja á laggirnar stofnun sem taki yfir starfsemi þessara hjúkrunarheimila.