Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 375  —  331. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.1. gr.
Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 58 frá 18. júlí 2019, bls. 216, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 172/2019, frá 14. júní 2019, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.

2. gr.
Stjórnsýsla.

    Ráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum.
    Ráðherra er heimilt að tilnefna eitt eða fleiri lögbær yfirvöld, miðlæga tengiskrifstofu og stofnanir sem bera ábyrgð á beitingu laganna. Ráðherra getur með reglugerð veitt viðeigandi aðilum heimild til að gefa út utanaðkomandi viðvaranir samkvæmt lögunum.

3. gr.
Reglugerð.

    Reglugerðir eða tilskipanir Evrópusambandsins, sem teknar verða upp í EES-samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við viðauka reglugerðar skv. 1. gr., er ráðherra heimilt að innleiða með reglugerð.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna og samvinnu yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd.

4. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 17. janúar 2020, nema 2. mgr. 2. gr. sem öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp um breytingar á lögum á sviði neytendaverndar sem reglugerðin hefur áhrif á.
    Samráðshópur var stofnaður þann 20. júní 2019 til að meta nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar reglugerðarinnar. Í samráðshópnum sátu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, fjölmiðlanefndar, Lyfjastofnunar, Neytendastofu og Samgöngustofu auk fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Samráðshópurinn lauk störfum þann 25. október 2019.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Almennt.
    Stjórnvöld á sviði neytendamála á Evrópska efnahagssvæðinu hafa haft með sér samvinnu í nokkurn tíma. Í ályktun ráðsins frá 8. júlí 1996 um samvinnu milli stjórnsýslustofnana um framkvæmd löggjafarinnar um innri markaðinn hvatti ráð Evrópubandalagsins aðildarríki Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að gera það að forgangsverkefni að kanna möguleikann á að styrkja samstarf stjórnvalda við framkvæmd löggjafar. Á grundvelli ályktunarinnar var komið á samstarfi eftirlitsstjórnvalda á sviði neytendaverndar. Hinn 29. desember 2005 tók gildi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2006, frá 7. júlí 2006. Reglugerðin var innleidd í íslenskan rétt hinn 27. mars 2007 með lögum um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007, sem enn eru í gildi. Lögbær yfirvöld á sviði neytendaverndar hér á landi hafa tekið þátt í samstarfinu á grundvelli laganna.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004 kemur í stað reglugerðar (EB) nr. 2006/2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019, frá 14. júní 2019. Reglugerðin inniheldur ítarlegri ákvæði um samvinnu og leggur auknar skyldur á aðildarríkin og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um samvinnu, sérstaklega þegar um er að ræða brot sem varða mörg aðildarríki eða fjölda neytenda. Reglugerðin kveður einnig á um lágmarksheimildir til rannsókna og framfylgdar laga um neytendavernd. Í reglugerðinni er sérstök áhersla lögð á aðgerðir til að stöðva brot í hinu stafræna umhverfi. Þá heyra fleiri gerðir á sviði neytendaverndar undir hina nýju reglugerð en áður. Reglugerðin tekur gildi í Evrópusambandinu hinn 17. janúar 2020.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 í íslenskan rétt. Samhliða er lagt til að lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007, verði felld úr gildi. Ástæða þess er að með reglugerðinni er felld úr gildi eldri reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd og er eldri reglugerðin einnig felld brott úr EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019, frá 14. júní 2019.
    Auk þess að taka reglugerðina upp í íslenskan rétt er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum á sviði neytendaverndar til að innleiða reglugerðina með fullnægjandi hætti. Miða breytingarnar að því að tryggja að stjórnvöld þau sem fara með framkvæmd þeirra laga sem reglugerðin tekur til hafi þær heimildir sem reglugerðin gerir kröfu um. Eru gerðar tillögur um þessar breytingar í sérstöku frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
    Markmið lagasetningarinnar er að kröfur reglugerðarinnar séu uppfylltar í íslenskum rétti.

2.2. Mat á leið til innleiðingar.
    Við mat á færum leiðum til að innleiða reglugerðina var ákveðið að setja ný heildarlög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd ásamt sérstökum lögum um breytingar á einstökum ákvæðum annarra laga sem innleiðing reglugerðarinnar hefur áhrif á. Ástæða þess er að efni reglugerðarinnar er nokkuð frábrugðið efni eldri reglugerðar um sama efni auk þess sem hún hefur verið felld úr gildi og felld úr EES-samningnum. Við matið var einnig litið til þess að um er að ræða reglugerð Evrópusambandsins. Reglugerðir skal sem slíkar taka upp í landsrétt samningsaðila EES-samningsins í samræmi við a-lið 7. gr. EES-samningsins. Reglugerðin veitir lítið svigrúm við innleiðingu og er því lagt til að innleiða hana í heild sinni með tilvísunaraðferð, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í því felst að reglugerðinni er veitt lagagildi með því að vísa til efnis hennar í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar er nauðsynlegt að útfæra nánar með sérstökum lagaákvæðum. Í 9. gr. eru taldar þær lágmarksheimildir sem sérhvert lögbært yfirvald skal hafa vegna beitingar reglugerðarinnar. Ákvæði 9. gr. eru almennt orðuð og veita nokkuð svigrúm við útfærslu. Margar valdheimildir gildandi laga uppfylla nú þegar kröfur 9. gr. reglugerðarinnar og er ekki þörf á lagabreytingum vegna þeirra. Aðrar valdheimildir eru ófullnægjandi eða ekki til staðar og er þörf á að innleiða þær með sérstökum lagaákvæðum. Í 9. gr. segir að beita skuli heimildunum í samræmi við 10. gr. reglugerðarinnar. Ekki er talin þörf á að innleiða 10. gr. með sérstöku lagaákvæði heldur leiðir efni hennar af þeim valdheimildum sem þegar eru fyrir hendi eða sem lagðar eru til við innleiðingu 9. gr. auk meginreglna á sviði einkamálaréttarfars og stjórnsýsluréttar. Valdheimildirnar eru útfærðar í sérstöku frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu og vísast til athugasemda í greinargerð þess frumvarps.
    Ákvæði 11.–37. gr. reglugerðarinnar um samvinnu gilda sem slík og nægir að innleiða þau með tilvísunaraðferð. Önnur ákvæði reglugerðarinnar nægir að innleiða með tilvísunaraðferð sem og með ákvæðum 2. og 3. gr. frumvarpsins. Ráðherra fer með öll verkefni sem sérstaklega eru falin aðildarríki samkvæmt reglugerðinni en getur falið undirstofnun að fara með þau verkefni með reglugerð, sbr. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394.
Inngangsákvæði.

    Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 er mælt fyrir um það með hvaða hætti lögbær yfirvöld aðildarríkjanna hafa samstarf og samræma aðgerðir á milli sín og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í I. kafla reglugerðarinnar (1.–4. gr.) er að finna ákvæði um efni, gildissvið, skilgreiningar og tilkynningar um fyrningarfresti. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins og efla vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda, sbr. 1. gr. hennar. Í 2. gr. er kveðið á um gildissvið reglugerðarinnar. Reglugerðin gildir um rannsóknir og framfylgdaraðgerðir laga á sviði neytendaverndar og tekur til Evrópugerða sem tilgreindar eru í viðauka reglugerðarinnar eins og þær hafa verið innleiddar í landsrétt. Reglugerðin gildir um brot gegn lögum á sviði neytendaverndar yfir landamæri, sbr. skilgreiningar á þeim brotum sem heyra undir reglugerðina í 2.–4. tölul. 3. gr. hennar. Reglugerðin gildir fyrir, eftir og á meðan á broti stendur, sbr. 2. tölul. 3. gr. hennar. Í 2.–10. tölul. 2. gr. er sérstaklega kveðið á um þau svið sem reglugerðin gildir ekki um. Í 4. gr. er kveðið á um að aðildarríki skuli tilkynna um fyrningarfresti í landslögum fyrir framfylgdarráðstafanir skv. 4. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar.

Lágmarksheimildir lögbærra yfirvalda.
    Í II. kafla reglugerðarinnar (5.–9. gr.) er kveðið á um lögbær yfirvöld og valdheimildir þeirra. Hvert aðildarríki skal tilnefna eitt eða fleiri lögbær yfirvöld og miðlæga tengiskrifstofu sem bera ábyrgð á beitingu reglugerðarinnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. hennar. Í 6. og 7. gr. er fjallað um samstarf, rannsókn og hlutverk lögbærra yfirvalda og tilnefndra stofnana. Í 8. gr. er kveðið á um að aðildarríki skuli senda framkvæmdastjórninni upplýsingar um lögbær yfirvöld, miðlægu tengiskrifstofuna, tilnefndar stofnanir og aðila sem gefa út utanaðkomandi viðvaranir skv. 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar.
    Í 9. gr. er kveðið á um lágmarksheimildir sem sérhvert lögbært yfirvald skuli hafa til rannsókna og framfylgdar. Í 3. mgr. 9. gr. er kveðið á um rannsóknarheimildir lögbærra yfirvalda. Þar segir að lögbær yfirvöld skuli hafa heimild til að afla skjala, gagna eða upplýsinga sem tengjast broti eða til að ákvarða hvort brot hafi átt sér stað eða standi yfir, heimild til að framkvæma nauðsynlegar vettvangsskoðanir og haldlagningu og heimild til að prufukaupa á vörum og þjónustu undir fölsku nafni ef nauðsyn krefur. Í 4. mgr. 9. gr. er kveðið á um framfylgdarheimildir lögbærra stjórnvalda. Þar segir að lögbær yfirvöld skuli hafa heimildir til að samþykkja bráðabirgðaráðstafanir, skuldbinda seljanda til að láta af broti, skuldbinda seljanda til að bjóða neytendum úrlausn við hæfi, leiðbeina neytendum um hvernig þeir geti sótt bætur, fyrirskipa skriflega stöðvun brota, stöðva eða banna brot og heimild til að leggja á viðurlög, svo sem sektir eða févíti. Þá er kveðið á um að lögbær yfirvöld skuli hafa heimild til að fjarlægja efni af eða takmarka aðgang að netskilfleti eða fyrirskipa að birt sé skýr viðvörun til neytenda þegar þeir fara inn á netskilflöt, heimild til að fyrirskipa hýsingaraðila að fjarlægja, gera óvirkan eða takmarka aðgang að netskilfleti, eða eftir því sem við á, heimild til að fyrirskipa skráningaraðilum eða skráningarmiðlunum léna að eyða fullgildu lénsheiti og heimila hlutaðeigandi lögbæru yfirvaldi að skrá það, þ.m.t. að fara fram á að þriðji aðili eða annað opinbert yfirvald framkvæmi slíkar ráðstafanir. Skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar er að engin önnur skilvirk leið sé fyrir hendi til að stöðva eða banna brot sem heyrir undir reglugerðina og til að forðast það að heildarhagsmunir neytenda bíði alvarlegan skaða. Í 5.–8. mgr. 9. gr er kveðið á um að heimild til að leggja á viðurlög, svo sem sektir eða févíti hafi ekki áhrif á heimildir yfirvalda til að leggja á viðurlög samkvæmt innlendum reglum, rannsókn og málsmeðferð að eigin frumkvæði, birtingu ákvarðana, skuldbindinga og fyrirmæla og samráði við neytendasamtök.
    Í 1. mgr. 10. gr. er kveðið á um að valdheimildum 9. gr. skuli beitt annaðhvort beint af hálfu lögbærra yfirvalda samkvæmt eigin heimildum þeirra, með því að vísa máli til annarra lögbærra yfirvalda, ef við á eða annarra opinberra yfirvalda, með fyrirmælum til tilnefndra stofnana ef við á, eða með því að vísa máli til dómstóla. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 10. gr. að beiting valdheimilda skuli samræmast meðalhófsreglu, lögmætisreglu, réttarfarsreglum og grundvallarréttindum og að valdheimildirnar skuli hæfa brotinu.

Reglur um samvinnu landsyfirvalda.
    Í III.–VI. kafla reglugerðarinnar er að finna reglur um samvinnu milli landsyfirvalda. Reglurnar gilda um samvinnu milli lögbærra yfirvalda, miðlægra tengiskrifstofa og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við að rannsaka og stöðva brot gegn lögum um neytendavernd sem ná yfir landamæri.
    Mál landsyfirvalda sem ná yfir landamæri og falla ekki undir þær Evrópugerðir sem taldar eru upp í viðauka við reglugerðina ásamt öllum innlendum málum landsyfirvalda falla utan gildissviðs reglugerðarinnar. Reglugerðin gildir um brot sem varða heildarhagsmuni neytenda yfir landamæri en í 2.–4. mgr. 3. gr. eru nánar skilgreindir þrír flokkar slíkra brota.
    Í fyrsta lagi er um að ræða svokallað „brot innan Sambandsins“, sem er aðgerð eða aðgerðaleysi andstætt lögum Sambandsins til verndar hagsmunum neytenda, sem hefur skaðað, skaðar, eða er líklegt til að skaða, heildarhagsmuni neytenda sem hafa búsetu í öðru aðildarríki en því aðildarríki þar sem:
     a.      aðgerðin eða aðgerðaleysið var upprunnið eða átti sér stað,
     b.      seljandinn, sem ber ábyrgð á aðgerðinni eða aðgerðarleysinu, hefur staðfestu, eða
     c.      sönnunargögn finnast eða eignir seljanda sem tengjast aðgerðinni eða aðgerðaleysinu.
    Í öðru lagi er um að ræða svokallað „víðtækt brot“ sem telst vera aðgerð eða aðgerðaleysi andstætt lögum Sambandsins til verndar hagsmunum neytenda, sem hefur skaðað, skaðar, eða er líklegt til að skaða heildarhagsmuni neytenda sem hafa búsetu í a.m.k. tveimur öðrum aðildarríkjum en því aðildarríki þar sem:
     a.      aðgerðin eða aðgerðaleysið var upprunnið eða átti sér stað,
     b.      seljandinn, sem ber ábyrgð á aðgerðinni eða aðgerðarleysinu, hefur staðfestu, eða
     c.      finnast sönnunargögn eða eignir seljanda sem tengjast aðgerðinni eða aðgerðaleysinu.
    Víðtækt brot telst einnig vera til staðar ef um er að ræða aðgerðir eða aðgerðaleysi andstætt lögum Sambandsins til verndar hagsmunum neytenda, sem hafa skaðað, skaða, eða eru líkleg til að skaða heildarhagsmuni neytenda og sem hafa sameiginleg einkenni, þ.m.t. sama ólöglega athæfi eða brot gegn sömu hagsmunum, sem gerast samhliða og af hálfu sama seljanda, í a.m.k. þremur aðildarríkjum.
    Í þriðja lagi er um að ræða svokallað „víðtækt brot á Sambandsvísu“ sem telst vera víðtækt brot sem hefur skaðað, skaðar eða er líklegt til að skaða heildarhagsmuni neytenda í a.m.k. tveimur þriðju hlutum aðildarríkjanna sem saman samsvara a.m.k. tveimur þriðju hlutum íbúafjölda Sambandsins. Ákvæði 4. mgr. 3. gr. var sérstaklega aðlagað við upptöku í EES-samninginn. Þannig segir í a-lið 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019, frá 14. júní 2019 að þrátt fyrir ákvæði bókunar 1 við samninginn skuli ekki taka mið af yfirráðasvæðum og íbúum EFTA-ríkjanna að því er varðar 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.
    Ákvæði III. kafla reglugerðarinnar (11.–14. gr.) gilda um málsmeðferð vegna gagnkvæmrar aðstoðar, þ.e. beiðnir um upplýsingar og beiðnir um framfylgdarráðstafanir. Yfirvöld geta beðið yfirvöld annars aðildarríkis um upplýsingar til þess að ákvarða hvort brot hafi átt sér stað, standi yfir og til að stöðva brotið, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar. Beiðni skal svarað innan 30 daga. Yfirvöld geta einnig beðið yfirvöld annars aðildarríkis um allar nauðsynlegar ráðstafanir til að knýja fram stöðvun brots eða bann við broti með því að beita heimildum sem getið er um í 9. gr., sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. Í 13.–14. gr. er nánar kveðið á um málsmeðferð vegna slíkra beiðna, þar á meðal um skilyrði þess að neita að verða við beiðni um gagnkvæma aðstoð. Eftir því sem við á getur framkvæmdastjórnin gefið út leiðbeiningar og veitt aðildarríkjunum ráðgjöf til að tryggja að gagnkvæma aðstoðarkerfið virki með skilvirkum og árangursríkum hætti.
    Í IV. kafla reglugerðarinnar (15.–25. gr.) er kveðið á um samræmt fyrirkomulag rannsókna og framfylgdar vegna víðtækra brota og víðtækra brota á Sambandsvísu. Ákvarðanir lögbærra yfirvalda skv. 15.–25. gr. skulu teknar með samhljóða samþykki, sbr. 15. gr. reglugerðarinnar. Í 16. gr. er að finna meginreglur um samvinnu þegar um er að ræða víðtækt brot eða víðtækt brot á Sambandsvísu. Samkvæmt þeim skulu lögbær yfirvöld tilkynna hvort öðru þegar grunur leikur á um brot, afla og skiptast á upplýsingum og samræma aðgerðir. Þegar lögbær yfirvöld fara í samræmdar aðgerðir geta þau tilnefnt eitt lögbært yfirvald sem samræmingaraðila, sbr. 17. gr. Ef ekki næst samkomulag um tilnefningu getur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekið að sér hlutverk samræmingaraðila. Í 23. gr. er nánar kveðið á um hlutverk samræmingaraðila. Um tungumál samstarfsins fer skv. 24.–25. gr. reglugerðarinnar. Framkvæmdastjórnin getur einnig tilkynnt lögbærum yfirvöldum þegar rökstuddur grunur er um víðtækt brot á Sambandsvísu. Lögbæru stjórnvöldin sem hið meinta víðtæka brot varðar skulu láta fara fram viðeigandi rannsóknir og gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við 19.–21. gr. reglugerðarinnar. Þegar um er að ræða samræmda aðgerð vegna víðtæks brots á Sambandsvísu skv. 3. mgr. 17. gr. skal framkvæmdastjórnin sjá um að samhæfa aðgerðir. Í 18. gr. er kveðið á um ástæður fyrir því að neita að taka þátt í samræmdri aðgerð. Í 19.–21. gr. er kveðið á um rannsóknarráðstafanir, framfylgdarráðstafanir og skuldbindingar innan ramma samræmdra aðgerða. Til dæmis eiga rannsóknir og skoðanir að vera framkvæmdar með skilvirkum, árangursríkum og samræmdum hætti auk þess að gera grein fyrir niðurstöðu rannsóknar og mati á brotinu í sameiginlegri afstöðu. Seljandinn sem rannsókn beinist að skal fá tækifæri til að skýra frá sjónarmiðum sínum í málum sem fjallað er um í sameiginlegu afstöðunni. Í 20. gr. er kveðið á um að lögbæru yfirvöldin geti lagt til eða fengið að frumkvæði seljenda fram skuldbindingar um úrbætur. Ef samkomulag um fullnægjandi skuldbindingar um úrbætur næst ekki skulu lögbæru yfirvöldin gera allar nauðsynlegar framfylgdarráðstafanir gegn seljandanum, sbr. 21. gr. Í 22. gr. er loks kveðið á um lok samræmdra aðgerða.
    Í V. kafla reglugerðarinnar (26.–32. gr.) er að finna reglur um starfsemi á vettvangi Evrópusambandsins. Þar er kveðið á um viðvaranir, sbr. 26.–27. gr., upplýsingaskipti, sbr. 28. gr., samhæfðar rannsóknaraðgerðir, sbr. 29. gr., samræmingu annarrar starfsemi sem stuðlar að rannsóknum og framfylgd, sbr. 30. gr., skipti á embættismönnum milli lögbærra yfirvalda, sbr. 31. gr. og alþjóðlega samvinnu, sbr. 32. gr.
    Í VI. kafla reglugerðarinnar (33.–37. gr.) er fjallað um sameiginlegt fyrirkomulag. Með þessu er átt við reglur um notkun og birtingu upplýsinga, þagnarskyldu og viðskiptaleynd, sbr. 33. gr., notkun sönnunargagna og niðurstaðna rannsókna, sbr. 34. gr., notkun rafræns gagnagrunns fyrir öll samskipti milli lögbærra yfirvalda, miðlægra tengiskrifstofa og framkvæmdastjórnarinnar. Eftirlitsstofnun EFTA hefur einnig aðgang að rafræna gagnagrunninum, sbr. aðlögun í c-lið 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019, frá 14. júní 2019. Í 36. gr. er kveðið á um endurgreiðslu kostnaðar vegna beitingar reglugerðarinnar og framfylgdarráðstafana og í 37. gr. er að finna ákvæði um forgangsröðun varðandi framfylgd laga við beitingu reglugerðarinnar. Í VII. kafla reglugerðarinnar er að finna ýmis lokaákvæði. Þar er kveðið á um nefnd sem aðstoðar framkvæmdastjórnina, sbr. 38. gr., tilkynningar og skýrslugjöf, sbr. 40. gr., niðurfellingu eldri reglugerðar (EB) 2006/2004 um sama efni, sbr. 41. gr. og gildistöku og beitingu reglugerðarinnar, sbr. 42. gr. hennar.

Tilskipanir og reglugerðir sem falla undir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394.
    Í viðauka með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 eru taldar upp 19 tilskipanir og 7 reglugerðir. Í 1. mgr. 3. gr. er vísað til „laga sambandsins til verndar hagsmunum neytenda“ en með því er átt við reglugerðir og tilskipanir eins og þær eru leiddar í landslög aðildarríkjanna og sem eru tilgreindar í viðaukanum. Þær gerðir sem falla undir reglugerðina eru:
     1.      Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB frá 16. febrúar 1998 um neytendavernd að því er varðar upplýsingar um verð á vöru sem er boðin neytendum.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.
     4.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum (tilskipun um rafræn viðskipti).
     5.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB frá 6. nóvember 2001 um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum: 86.–100. gr.
     6.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta (tilskipun um friðhelgi einkalífsins og rafræn fjarskipti): 13. gr.
     7.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB.
     8.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 261/2004 frá 11. febrúar 2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður og um að fella úr gildi reglugerð (EBE) nr. 295/91.
     9.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum og um breytingu á tilskipun ráðsins 84/450/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB, 98/27/EB og 2002/65/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 (tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti).
     10.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1107/2006 frá 5. júlí 2006 um réttindi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólks sem ferðast með flugi.
     11.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/114/EB frá 12. desember 2006 um villandi auglýsingar og samanburðarauglýsingar: 1. gr., 2. gr. (c-liður) og 4.–8. gr.
     12.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum: 20. gr.
     13.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1371/2007 frá 23. október 2007 um réttindi og skyldur lestarfarþega.
     14.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE.
     15.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 frá 24. september 2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í Bandalaginu: 22., 23. og 24. gr.
     16.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga.
     17.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/13/ESB frá 10. mars 2010 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu (tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu): 9., 10. og 11. gr. og 19.–26. gr.
     18.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010 frá 24. nóvember 2010 um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004.
     19.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004.
     20.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB frá 25. október 2011 um réttindi neytenda, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 85/577/EBE og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB.
     21.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (tilskipun um lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR)): 13. gr.
     22.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (reglugerð um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu (ODR)): 14. gr.
     23.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB frá 4. febrúar 2014 um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði og um breytingu á tilskipun 2008/48/EB og 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 1093/2010: 10.–11. gr., 13.–18. gr., 21.–23. gr., 10. kafli og I. og II. viðauki.
     24.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB frá 23. júlí 2014 um samanburð gjalda er varða greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að almennum greiðslureikningum: 3.–18. gr. og 2. mgr. 20. gr.
     25.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/314/EBE.
     26.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum.

3.2. Önnur ákvæði vegna innleiðingar.
    Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra fari með yfirstjórn samkvæmt lögunum. Víða í reglugerðinni er kveðið á um athafnaskyldu aðildarríkis á grundvelli hennar og er lagt til að ráðherra fari með slíkt hlutverk.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra geti tilnefnt með reglugerð eitt eða fleiri lögbær yfirvöld, miðlæga tengiskrifstofu og stofnanir sem bera ábyrgð á beitingu laganna. Þá getur ráðherra með reglugerð veitt viðeigandi aðilum heimild til að gefa út utanaðkomandi viðvaranir samkvæmt lögunum. Er þetta lagt til svo unnt sé að tilnefna viðeigandi aðila í samræmi við kröfur 1. mgr. 5. gr., 27. gr. og 8. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er að finna reglugerðarheimild vegna viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394. Viðauka við hina eldri reglugerð sem inniheldur lista yfir gerðir sem falla undir reglugerðina hefur verið breytt nokkrum sinnum. Með hliðsjón af því þykir rétt að veita ráðherra reglugerðarheimild í lögunum til að innleiða gerðir sem teknar verða upp í EES-samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við viðaukann.

3.3. Gildandi réttur.
    Í gildandi lögum um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu, nr. 56/2007, er kveðið á um núverandi samvinnu stjórnvalda aðildarríkja EES-samningsins vegna brota á þeim ákvæðum um neytendavernd sem falla undir lögin og eiga uppruna sinn í öðru ríki en afleiðingar þess koma fram í. Lögin voru sett til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd (reglugerð um samvinnu um neytendavernd). Með lögunum var reglugerð (EB) nr. 2006/2004 innleidd með tilvísunaraðferð með áþekkum hætti og lagt er til í frumvarpi þessu. Á grundvelli laganna hafa verið settar þrjár reglugerðir, þ.e. reglugerð nr. 727/2009, sbr. breytingareglugerð nr. 727/2009, reglugerð nr. 444/2009, sbr. breytingareglugerð nr. 244/2015 og reglugerð nr. 254/2013.
    Til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar voru lögbær yfirvöld og miðlæg tengiskrifstofa tilnefnd hér á landi með bréfi ráðherra til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, dags. 12. júlí 2006. Þau stjórnvöld sem voru tilnefnd eru Neytendastofa, Fjármálaeftirlitið, Lyfjastofnun, Flugmálastjórn Íslands (síðar Samgöngustofa) og útvarpsréttarnefnd (síðar fjölmiðlanefnd). Neytendastofa var jafnframt tilnefnd miðlæg tengiskrifstofa.

3.4. Meginbreytingar frá núverandi skipan.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 er að nokkru leyti áþekk eldri reglugerð (EB) nr. 2006/2004. Þannig er kveðið á um tilnefningu lögbærra yfirvalda, lágmarksvaldheimildir, gagnkvæma aðstoð, upplýsingaskipti og aðra framkvæmd samvinnunnar. Hin nýja reglugerð kveður hins vegar á um nokkrar meginbreytingar sem getið er hér að neðan.
    Í nýju reglugerðinni er lögð aukin áhersla á rannsókn og framfylgd brota í hinu stafræna umhverfi. Mikil þróun hefur orðið í stafrænni tækni síðan tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2006/2004 tók gildi árið 2005. Með hinni nýju reglugerð öðlast lögbær yfirvöld skilvirkari úrræði en áður til að bregðast við brotastarfsemi í hinu stafræna umhverfi, sbr. lágmarksvaldheimildir sem kveðið er á um í 9. gr. reglugerðarinnar. Hér má sem dæmi nefna heimild til að taka bráðabirgðaákvarðanir, heimild til að gera prufukaup undir fölsku nafni og heimild til að takmarka aðgang að efni á vefsíðum, smáforrit eða öðrum netskilflötum eða eftir atvikum láta fjarlægja það. Einnig má nefna heimild til að semja við seljendur um að bjóða neytendum sem orðið hafa fyrir áhrifum af broti viðeigandi úrbætur á borð við skaðabætur eða riftun.
    Fleiri Evrópugerðir á sviði neytendaverndar falla undir hina nýju reglugerð en áður, sbr. þær gerðir sem taldar eru í viðauka hennar.
    Líkt og gildandi reglugerð nær hin nýja reglugerð til brota sem skaða eða eru líkleg til að skaða heildarhagsmuni neytenda. Hin nýja reglugerð nær auk þess til brota sem hafa skaðað heildarhagsmuni neytenda, þ.e. brot sem eru yfirstaðin, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði 16.–25. gr. reglugerðarinnar gilda hins vegar ekki um brot sem eru yfirstaðin þegar framfylgd hefst.
    Með nýju reglugerðinni eru settar ítarlegri reglur um samvinnu milli yfirvalda yfir landamæri. Það ræðst af því hvernig brot er um að ræða (brot innan Sambandsins, víðtækt brot og víðtækt brot á Sambandsvísu) hvaða reglur gilda um samvinnuna hverju sinni og hvaða kröfur eru gerðar til lögbæru yfirvaldanna.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gegnir stærra hlutverki vegna samvinnunnar en áður. Þannig getur framkvæmdastjórnin tekið að sér hlutverk samræmingaraðila þegar um er að ræða víðtækt brot á Sambandsvísu og ekki næst samkomulag um tilnefningu lögbærs yfirvalds. Þá getur framkvæmdastjórnin jafnframt gefið út leiðbeiningar og veitt aðildarríkjunum ráðgjöf til að tryggja að gagnkvæma aðstoðarkerfið virki með skilvirkum og árangursríkum hætti.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstaka ástæðu til að ætla að það fari gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 í íslenskan rétt og er lagt til að það sé gert með tilvísunaraðferð. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019, frá 14. júní 2019, um breytingu á XIX. viðauka EES-samningsins og er Ísland skuldbundið til að taka efni hennar upp í íslenskan rétt.
    Í frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu eru gerðar tillögur að breytingum á öðrum lögum til að tryggja að ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar um lágmarksvaldheimildir lögbærra yfirvalda séu innleidd með fullnægjandi hætti. Í g-lið 4. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að lögbær yfirvöld skuli hafa heimild til að fjarlægja efni af eða takmarka aðgang að netskilfleti eða fyrirskipa að birt sé skýr viðvörun til neytenda þegar þeir fara inn á netskilflöt, heimild til að fyrirskipa hýsingaraðila að fjarlægja, gera óvirkan eða takmarka aðgang að netskilfleti, eða eftir því sem við á, heimild til að fyrirskipa skráningaraðilum eða skráningarmiðlunum léna að eyða fullgildu lénsheiti og heimila hlutaðeigandi lögbæru yfirvaldi að skrá það. Heimildinni er einungis hægt að beita ef engin önnur skilvirk leið er fyrir hendi til að stöðva eða banna brot sem heyrir undir reglugerðina og til að forðast það að heildarhagsmunir neytenda bíði alvarlegan skaða. Nánar er kveðið á um að lögbæra yfirvaldið geti þar með talið farið fram á að þriðji aðili eða annað opinbert yfirvald framkvæmi slíkar ráðstafanir. Ákvæði þetta kann að hafa í för með sér lögbundna takmörkun á viðskiptalegri tjáningu. Innleiðing ákvæðisins gaf tilefni til að meta samræmi við réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og tjáningarfrelsi skv. 70. og 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Vísast nánar um það mat til frumvarpsins sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Frumvarpið snertir fyrst og fremst þau lögbæru yfirvöld sem fara með eftirlit með þeim gerðum sem falla undir reglugerðina. Samráðshópur var stofnaður þann 20. júní 2019 til að meta nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar reglugerðarinnar og sátu í honum fulltrúar Fjármálaeftirlits, fjölmiðlanefndar, Lyfjastofnunar, Neytendastofu og Samgöngustofu auk fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Samráðshópurinn lauk störfum þann 25. október 2019. Við ritun frumvarpsins var sérstakt samráð haft við Póst- og fjarskiptastofnun, Ferðamálastofu, fjármála- og efnahagsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
    Áform um lagasetninguna voru send til kynningar hjá öðrum ráðuneytum þann 11. júní 2019. Í framhaldi af samráði við haghafa í samráðshópnum voru frumdrög frumvarpsins birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 8. október 2019 og frestur til umsagna veittur til 18. október 2019, sbr. mál nr. 249/2019. Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Neytendasamtökunum, Neytendastofu og Samtökum atvinnulífsins. Umsagnirnar vörðuðu að mestu frumvarp sem er lagt fram samhliða frumvarpi þessu. Umsagnirnar gáfu ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á reglum um samvinnu lögbærra yfirvalda yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu. Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á framkvæmd þeirrar samvinnu. Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukin verkefni lögbærra yfirvalda umfram það sem nú er.
    Frumvarpið mun hafa jákvæð áhrif á neytendavernd með aukinni skilvirkni í samvinnu eftirlitsstjórnvalda vegna brota yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ekkert af ákvæðum frumvarpsins leggur auknar skyldur á atvinnulífið. Reglurnar hafa ekki stjórnsýsluleg eða efnahagsleg áhrif á atvinnurekendur umfram það sem nú er. Áhrif fyrir atvinnulíf eru fyrst og fremst vegna hugsanlegrar beitingar nýrra valdheimilda og vísast nánar um mat á áhrifum þeirra til frumvarpsins sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
    Ávinningur af samþykkt frumvarpsins er meiri en hugsanleg neikvæð eða íþyngjandi áhrif þess. Frumvarpið tryggir þátttöku íslenskra eftirlitsstjórnvalda í samstarfi á Evrópska efnahagssvæðinu og bætir skilvirkni í framkvæmd laga á sviði neytendaverndar yfir landamæri. Þá tryggir frumvarpið að þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands séu uppfylltar.
Frumvarpið felur hvorki í sér auknar tekjur eða gjöld fyrir ríkissjóð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir neinum fjárhagsáhrifum á ríkissjóð vegna lagabreytinganna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 58 frá 18. júlí 2019, bls. 216, skulu hafa lagagildi hér á landi. Reglugerðir skal sem slíkar taka upp í landsrétt samningsaðila EES-samningsins í samræmi við a-lið 7. gr. EES-samningsins. Reglugerðin veitir lítið svigrúm við innleiðingu og er því lagt til að hún sé innleidd með tilvísunaraðferð.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að ráðherra fari með yfirstjórn samkvæmt lögunum. Í reglugerðinni er aðildarríkjum falið að hafa með höndum nokkur verkefni. Ráðherra getur hins vegar falið undirstofnun að fara með slík verkefni á grundvelli reglugerðar, sbr. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra geti tilnefnt viðeigandi yfirvöld á grundvelli reglugerðarinnar. Æskilegt er að tilnefning viðeigandi stofnana sé sveigjanleg ef breytingar eru gerðar á verkefnum stofnana samkvæmt lögum. Því er lagt til að viðeigandi stofnanir verði tilnefndar með reglugerð sem ráðherra setur og tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA. Ákvæði 2. mgr. byggir á þeim tilnefningum sem gert er ráð fyrir í reglugerðinni. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir að hvert aðildarríki skuli tilnefna eitt eða fleiri lögbær yfirvöld og miðlæga tengiskrifstofu sem beri ábyrgð á beitingu hennar. Í 27. gr. segir að sérhvert aðildarríki skuli, nema slíkt væri ekki réttlætanlegt, veita tilnefndum stofnunum, Evrópsku neytendamiðstöðvunum, neytendasamtökum og eftir því sem við á, samtökum seljenda, sem búa yfir nauðsynlegri sérfræðiþekkingu, heimild til að gefa út svokallaða utanaðkomandi viðvörun til lögbærra yfirvalda hlutaðeigandi aðildarríkja og framkvæmdastjórnarinnar vegna gruns um brot sem heyra undir reglugerðina og til að veita upplýsingar sem eru á færi þeirra og sem tilgreindar eru í 3. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar. Í 8. mgr. 3. gr. segir jafnframt að tilnefnd stofnun sé stofnun, sem hefur lögmæta hagsmuni af því að brot á lögum Sambandsins til verndar hagsmunum neytenda verði stöðvuð eða bönnuð og sem tilnefnd er af aðildarríki og fær fyrirmæli frá lögbæru yfirvaldi um að afla nauðsynlegra upplýsinga og um að grípa til nauðsynlegra framfylgdarráðstafana, sem stofnuninni eru heimilar samkvæmt landslögum í því skyni að stöðva eða banna brotið, og sem kemur fram fyrir hönd þess lögbæra yfirvalds.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að gera breytingar á viðauka reglugerðarinnar ef breytingar eru gerðar á honum og þær teknar upp í EES-samninginn. Heimildin er með svipuðu sniði og 2. mgr. 1. gr. gildandi laga og var sú heimild nýtt nokkrum sinnum í gildistíð laganna.
    Í 2. mgr. er lagt til að fela ráðherra almenna reglugerðarheimild til skipulagningar á framkvæmd laganna hér á landi og samvinnu að öðru leyti ef þörf krefur.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að lögin öðlist gildi 17. janúar 2020. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2394 kemur til framkvæmda frá og með 17. janúar 2020. Brýnt er að lögin taki gildi sama dag svo íslensk stjórnvöld geti þegar í stað tekið þátt í samvinnunni ásamt undirbúningi fyrir framkvæmd reglugerðarinnar. Í 1. mgr. er lagt til að 2. mgr. 2. gr. taki þegar gildi. Er þetta gert til þess að lögbær yfirvöld hafi verið tilnefnd þegar lögin taka gildi.
    Í 2. mgr. er lagt til að lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007, falli úr gildi. Reglugerðin hefur verið felld úr EES-samningnum og kemur hin nýja reglugerð í hennar stað.