Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 422  —  256. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um biðtíma og stöðugildi sálfræðinga.


     1.      Hversu langur biðtími er nú eftir viðtali við sálfræðing hjá eftirfarandi stofnunum:
                  a.      Heilbrigðisstofnun Austurlands,
                  b.      Heilbrigðisstofnun Norðurlands,
                  c.      Heilbrigðisstofnun Suðurlands,
                  d.      Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,
                  e.      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,
                  f.      Heilbrigðisstofnun Vesturlands,
                  g.      Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins?


Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Eins til tveggja mánaða biðtími er hjá mæðra- og foreldravernd, en þó er alltaf haft samband í gegnum síma innan tveggja vikna.
    Eins til fjögurra mánaða biðtími er hjá geðheilsuteymi. Meðalbiðtími eftir matsviðtali er nú fimm vikur en biðtími eftir meðferð tveir mánuðir.
    Biðtími fyrir sálfræðiviðtöl fyrir fullorðna sem ekki eru innan geðheilsuteymis er um þrír til fimm mánuðir.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
    Biðtími fyrir börn 0–17 ára er víðast hvar tvær til fjórar vikur nema á Akureyri, þar er biðtíminn fjórar til tólf vikur.
    Biðtími fyrir konur í mæðravernd er innan við tvær vikur.
    Biðtími fyrir 18–25 ára er frá fjórum vikum (á Akureyri) upp í fjóra til fimm mánuði (á Húsavík).
    Biðtími fyrir 30 ára og eldri er frá því að vera innan við fjögurra vikna bið og upp í fjögurra til sex mánaða bið, misjafnt eftir byggðakjörnum.
    Þjónustutilboð til fullorðinna er aðeins breytilegt á milli starfsstöðva en miðað er við að fullorðnir með vægar kvíða- og lyndisraskanir eigi kost á hópmeðferð þegar því verður við komið. Fullorðnir með áfallastreituröskun og verðandi og nýbakaðir foreldrar eiga að jafnaði kost á stuttri einstaklingsmeðferð.
    Nýtt geðteymi er nýtekið til starfa og gera má ráð fyrir að starfsemi þess hafi áhrif á þjónustuna og biðtímann á næstu mánuðum.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Biðtími er aðeins breytilegur eftir starfsstöðvum innan Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Getur hann verið allt frá því að vera enginn og upp undir 10 mánuðir, nema ef um forgangsmál er að ræða. Sem stendur er börnum að 18 ára aldri og fjölskyldum þeirra sinnt en nýtt geðheilsuteymi fyrir fullorðna hefur störf á næstu vikum og þess er vænst að áhrifa af þeirri þjónustu gæti fljótt.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Biðtími innan forvarna- og meðferðarteymis barna er um fjórar vikur.
    Biðtími fyrir konur í mæðravernd og konur með börn á fyrsta aldursári er um fimm mánuðir.
    Biðtími eftir þjónustu geðteymis fyrir fullorðna er um fimm mánuðir.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    Á heilsugæslunni er þeim sem þurfa vísað til geðheilsuteymis/hjúkrunarfræðings sem metur hvort viðkomandi þurfi sálfræðitíma, námskeið eða stuðningsviðtöl hjúkrunarfræðings. Biðtími eftir sálfræðingi meðal fullorðinna er að meðaltali tveir mánuðir. Þess ber að geta að þetta fyrirkomulag hefur aðeins verið í gildi frá því í júní svo innköllun eldri beiðna stendur enn yfir.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
    Biðtími eftir viðtali fyrir börn er að meðaltali allt að 12 mánuðir. Málum er raðað eftir alvarleika og alvarlegustu málin komast að innan tveggja til þriggja vikna. Önnur staða barnasálfræðings bíður ráðningar en ekki hefur tekist að manna þá stöðu.
    Biðtími fyrir fullorðna er um tveir til þrír mánuðir. Alvarleg mál fá þó forgang. Námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) eru í gangi reglubundið og ekki er bið eftir slíkum námskeiðum.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
    Á 15 heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er biðtími eftir þjónustu mismunandi, oftast tvær til fjórar vikur. Málum er þó forgangsraðað eftir alvarleika og þá er biðtíminn ein til tvær vikur. Í geðheilsuteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ekki bið eftir sálfræðiþjónustu.

     2.      Hversu mörg stöðugildi sálfræðinga eru nú við hverja þessara stofnana og hversu mörg telur ráðherra að þau þurfi að vera til að tryggja viðunandi þjónustu?

Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Við Heilbrigðisstofnun Austurlands eru 2,9 stöðugildi sálfræðinga.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
    Við Heilbrigðisstofnun Norðurlands eru 8,3 stöðugildi sálfræðinga.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Við Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru 3,3 stöðugildi sálfræðinga.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru 9,4 stöðugildi sálfræðinga.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    Við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eru tveir sálfræðingar í hálfu stöðugildi samtals.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
    Við Heilbrigðisstofnun Vesturlands eru 3 stöðugildi sálfræðinga.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
    Hjá Heilsugæslu höfðborgarsvæðisins er heildarfjöldi stöðugilda sálfræðinga á heilsugæslustöðvum og í geðheilsuteymum 22,8.
    Á öllum 15 heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru barna- og unglingasálfræðingar í 12,5 stöðugildum.
    Á 10 af 15 heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru sálfræðingar fyrir 18 ára og eldri í 6,5 stöðugildi.
    Í geðheilsuteymum austur og vestur eru sálfræðingar í 3,8 stöðugildum. Geðheilsuteymi suður tekur til starfa í janúar 2020 og hefur nú þegar verið ráðið í 1,8 stöðugildi sálfræðinga þar.

    Á höfuðborgarsvæðinu eru einnig fjórar einkareknar heilsugæslustöðvar, þ.e. Heilsugæslan í Salahverfi, Heilsugæslan í Urðarhvarfi, Heilsugæslan í Lágmúla og Heilsugæslan Höfða. Þessar heilsugæslustöðvar bjóða einnig upp á þjónustu sálfræðinga en mismunandi er hvort sálfræðingarnir eru þar í föstum stöðugildum, verktakar hjá viðkomandi heilsugæslustöð eða á stofnun með sérstakan samning við heilsugæslustöðina. Biðtíminn þar er frá þremur dögum til fjögurra vikna en getur þó farið upp í fimm mánuði.
    Til að tryggja sem best viðunandi þjónustu þarf að leggja mat á þörfina. Þegar þörf fólks fyrir geðheilbrigðisþjónustu er áætluð er meðal annars miðað við tölfræði um algengi mismunandi sjúkdómaflokka og þjónustuþörf hjá þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við. Uppbygging heilbrigðisþjónustu þeirra þjóða er þó að mörgu leyti ólík uppbyggingu okkar heilbrigðisþjónustu og því gefur beinn samanburður ekki endilega rétta mynd af stöðu mála hér á landi. Taka þarf til greina að þjónustuþörf er mismunandi og því þarf að mæta henni á viðeigandi þjónustustigum. Þörfin fyrir þjónustu getur líka verið breytileg eftir landshlutum og bæjarfélögum eða staðbundin eftir samfélagsaðstæðum, svo sem vegna efnahagsástæðna, kreppu eða náttúruhamfara. Með því að efla geðrækt og forvarnir má ætla að dragi úr þjónustuþörf enda er þetta ferli sem þarf að vera sveigjanlegt og taka mið af breytilegum aðstæðum. Mikilvægt er að kortleggja reglulega, með skipulögðum hætti, þörf fólks fyrir geðheilbrigðisþjónustu á landinu öllu til að geta mætt þörfinni enn betur. Í þessu sambandi er rétt að nefna lýðheilsuvísa. Þeir gefa ákveðna mynd af líðan fólks og eru eitt þeirra tækja sem hægt er að nota við skipulag þjónustu á starfssvæði hverrar stofnunar. Með því að skilgreina lýðheilsuvísa út frá gögnum og greina niður á sveitarfélög eða heilbrigðisumdæmi er unnt að bregðast við ef fram kemur breyting á líðan þeirra sem búa á tilteknu svæði. Nú hafa geðheilsuteymi verið fjármögnuð í öllum heilbrigðisumdæmum og er verið að byggja þau upp og skipuleggja. Með eflingu geðheilbrigðisþjónustu á landinu öllu verður hægt að fylgjast með og mæta þjónustuþörfum fólks betur eftir því sem við á á hverjum tíma og miðað við mat á þörf á hverju svæði.