Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 426  —  361. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. ÞÁTTUR

Almenn ákvæði.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara eru að varðveita fjármálastöðugleika og lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla með því að vernda tryggðar innstæður og fjárfesta, eignir viðskiptavina og nauðsynlega starfsemi fyrirtækja og lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um:
     a.      Lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki.
     b.      Fjármálastofnanir ef þær eru dótturfélög fyrirtækis skv. a-lið eða eignarhaldsfélaga skv. c- eða d-lið og lúta eftirliti móðurfélags á samstæðugrunni.
     c.      Eignarhaldsfélög á fjármálasviði, blönduð eignarhaldsfélög og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi.
     d.      Blönduð móðureignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi í aðildarríki, blönduð móðureignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu, móðureignarhaldsfélög á fjármálasviði í aðildarríki og móðureignarhaldsfélög á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu.
     e.      Útibú sem lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki með staðfestu í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins starfrækja hér á landi að uppfylltum skilyrðum laga þessara.

3. gr.

Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og hugtaka sem hér segir:
     1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyja.
     2.      Á fallanda fæti: Fyrirtæki eða eining er á fallanda fæti ef:
                  a.      afturkalla má starfsleyfi þess eða ætla má að það megi í náinni framtíð,
                  b.      það er eða ætla má að það verði í náinni framtíð ógjaldfært, eða
                  c.      það þarfnast sérstaks opinbers fjárstuðnings, nema ef hann er nauðsynlegur til að varna eða ráða bót á efnahagslegu áfalli og felst í:
                      1.      ríkisábyrgð á lausafjárfyrirgreiðslu seðlabanka í samræmi við skilyrði hans eða nýútgefnum skuldbindingum, eða
                      2.      eiginfjárframlagi eða kaupum á fjármagnsgerningum á markaðskjörum sem eru nauðsynleg til að mæta eiginfjárþörf sem álagspróf, mat á gæðum eigna eða önnur hliðstæð skoðun af hálfu opinberra aðila leiðir í ljós enda séu ekki fyrir hendi aðstæður skv. a- eða b-lið þessa töluliðar eða 1. mgr. 27. gr.
     3.      Blandað eignarhaldsfélag: Móðurfélag sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, lánastofnun, verðbréfafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi þar sem a.m.k. eitt dótturfélag er fjármálafyrirtæki.
     4.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, þar sem a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.
     5.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í einhverju aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í einhverju aðildarríki.
     6.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi sem hvorki er dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða annars blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í sama aðildarríki.
     7.      Brúarstofnun: Lögaðili undir stjórn skilavalds sem er að minnsta kosti að hluta í eigu opinberra aðila eða skilasjóðs og er ætlað að viðhalda aðgangi að nauðsynlegri starfsemi sem er framseld skv. 46. gr. fram að sölu hennar.
     8.      Eftirlitsaðili á samstæðugrunni: Eftirlitsstjórnvald á Evrópska efnahagssvæðinu sem ber ábyrgð á framkvæmd eftirlits á samstæðugrunni með einhverju eftirtalinna félaga:
                  a.      Móðurfélagi á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  b.      Lánastofnun sem móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.
                  c.      Lánastofnun sem blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.
                  d.      Verðbréfafyrirtæki sem móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.
                  e.      Verðbréfafyrirtæki sem blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.
     9.      Eftirlitsstjórnvald: Sú stofnun eða stjórnvald sem falið er að landsrétti að annast eftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum og er slíkt eftirlit hluti af eftirlitsstarfsemi í viðkomandi aðildarríki.
     10.      Eignarhaldsfélag á fjármálasviði: Fjármálastofnun sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi þar sem dótturfélögin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki eða fjármálastofnanir og a.m.k. eitt dótturfélagið er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki.
     11.      Eignarhluti: Hlutabréf eða hlutir, aðrir gerningar sem eru ávísun á eignarhald, gerningar sem hægt er að umbreyta í eða veita rétt til hlutabréfa eða eignarhluta og gerningar sem veita rétt til arðs af hlutabréfum eða eignarhlutum.
     12.      Eignaumsýslufélag: Lögaðili undir stjórn skilavalds sem er að minnsta kosti að hluta í eigu opinberra aðila eða skilasjóðs og er ætlað að koma eignum, réttindum og skuldbindingum sem eru framseldar skv. 51. gr. í verð.
     13.      Eining: Fjármálastofnun skv. b-lið 2. gr. eða eignarhaldsfélag skv. c- eða d-lið 2. gr.
     14.      Félagsaðili: Eigandi eignarhluta í fyrirtæki eða einingu.
     15.      Fjárhagslegur samningur: Samningur eða samkomulag sem hefur fjárhagslegt gildi fyrir aðila, þ.m.t. samningar sem tengjast verðbréfum, hrávöruafleiður, framtíðarsamningar, framvirkir samningar, skiptasamningar, millibankalánssamningar þar sem lánstími er styttri en þrír mánuðir og rammasamningar fyrir allar framangreindar samningstegundir.
     16.      Fjármálastofnun: Fyrirtæki, annað en fjármálafyrirtæki, sem hefur að meginstarfsemi að afla eignarhluta eða sinna einni eða fleiri tegundum starfsemi sem um getur í 2.–12. og 15. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki, þ.m.t. eignarhaldsfélög á fjármálasviði, blönduð eignarhaldsfélög, rekstraraðilar sérhæfðra sjóða og greiðslustofnanir í skilningi laga um greiðsluþjónustu, en að undanskildum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði eins og þau eru skilgreind í lögum um vátryggingastarfsemi.
     17.      Fyrirtæki: Lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki.
     18.      Hæf skuldbinding: Fjármagnsgerningur eða skuldbinding sem telst ekki almennt eigið fé þáttar 1, viðbótar eigið fé þáttar 1 eða þáttar 2 samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og er ekki undanskilin eftirgjöf skv. 1. mgr. 56. gr.
     19.      Nauðsynleg starfsemi: Starfsemi, þjónusta eða rekstur sem er svo mikilvæg fyrir raunhagkerfið eða fjármálastöðugleika að veruleg hætta yrði á röskun efnahagsstarfsemi eða stöðugleika ef henni yrði hætt vegna þess hversu umfangsmikil hún er, vegna markaðshlutdeildar hennar, tengsla við aðra starfsemi, flækjustigs eða starfsemi yfir landamæri enda sé sambærileg starfsemi, þjónusta eða rekstur ekki í boði.
     20.      Kjarnastarfsemi: Sú starfsemi lánastofnunar, verðbréfafyrirtækis eða samstæðu sem stendur undir verulegum hluta rekstrartekna, hagnaðar eða vörumerkjatekna þess.
     21.      Lánastofnun: Fjármálafyrirtæki sem tekur á móti innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi og veitir lán fyrir eigin reikning. Fjármálafyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki telst vera lánastofnun.
     22.      Mikilvægt útibú: Útibú eins og það er skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki auk þess sem það uppfyllir a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða:
                  a.      Er með meira en 2% markaðshlutdeild innlána í gistiríkinu.
                  b.      Lokun útibúsins hefði veruleg áhrif á laust fé í umferð, greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi í gistiríkinu.
                  c.      Fjöldi viðskiptavina, stærð og mikilvægi útibúsins skiptir máli fyrir fjármálakerfi gistiríkisins.
     23.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu: Eignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í einhverju aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í einhverju aðildarríki.
     24.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki: Eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem hvorki er dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis sem hefur starfsleyfi í sama aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða annars blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í sama aðildarríki.
     25.      Móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu: Lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki sem staðsett er í aðildarríki og er hvorki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í einhverju aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í einhverju aðildarríki.
     26.      Móðurfélag í aðildarríki: Lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki í aðildarríki sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
                  a.      Á dótturfélag sem er lánastofnun, verðbréfafyrirtæki eða fjármálastofnun.
                  b.      Á hlutdeild í lánastofnun, verðbréfafyrirtæki eða fjármálastofnun, þannig að eitthvert framantalinna fyrirtækja teljist hlutdeildarfélag í eigu lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins.
                  c.      Er ekki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis sem fengið hefur starfsleyfi í sama aðildarríki.
                  d.      Er ekki dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem staðsett er í sama aðildarríki.
     27.      Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurfélag sem er móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu, móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu eða blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
     28.      Samstæðuskilavald: Stjórnvald sem fer með undirbúning og framkvæmd skilameðferðar í aðildarríki þar sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni er staðsettur.
     29.      Sérstakur opinber fjárstuðningur: Hvers kyns aðstoð skv. 2. kafla IV. hluta laga um Evrópska efnahagssvæðið eða annar fjárstuðningur sem jafna mætti til ríkisaðstoðar ef veittur yrði í þeim tilgangi að varðveita eða endurbyggja rekstrarhæfi, laust fé eða gjaldfærni viðkomandi fyrirtækis, einingu eða samstæðu sem slíkt fyrirtæki eða eining er hluti af.
     30.      Skilaaðgerð: Ákvörðun um að setja fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, beita einu eða fleiri skilaúrræði skv. X. kafla eða skilaheimildum skv. IX., XI. eða XII. kafla laganna.
     31.      Skilaheimild: Sérhver heimild skv. IX., XI. eða XII. kafla.
     32.      Skilastjórnvald: Stjórnvald sem fer með undirbúning og framkvæmd skilameðferðar.
     33.      Skilaúrræði: Úrræði skilavalds skv. X. kafla. Skilaúrræðin eru eftirfarandi:
                  a.      Eftirgjöf: Niðurfærsla eða umbreyting skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, sbr. E-hluta X. kafla.
                  b.      Sala rekstrar: Sala á eignarhlutum sem útgefnir eru af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð eða eigna, réttinda og skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til kaupanda sem ekki er brúarstofnun, sbr. B-hluta X. kafla.
                  c.      Framsal til brúarstofnunar: Framsal eignarhluta sem útgefnir eru af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, eða eigna, réttinda eða skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til brúarstofnunar, sbr. C-hluta X. kafla.
                  d.      Uppskipting eigna: Framsal á eignum, réttindum eða skuldbindingum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til eignaumsýslufélags, sbr. D-hluta X. kafla.
     34.      Verðbréfafyrirtæki: Verðbréfafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a sömu laga.
     35.      Viðeigandi fjármagnsgerningur: Fjármagnsgerningur sem telst til viðbótar eigin fé þáttar 1 eða þáttar 2 samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     36.      Tryggingarhæf innstæða: Tryggingarhæf innstæða í skilningi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
     37.      Tryggð innstæða: Tryggð innstæða í skilningi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
     38.      Örfélög, lítil og meðalstór félög: Félög þar sem árleg velta fer ekki umfram jafnvirði 50 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um skilgreiningu hugtakanna nauðsynlega starfsemi og kjarnastarfsemi.

II. KAFLI

Stjórnsýsla, starfsemi, málshöfðun o.fl.

4. gr.

Hlutverk og verkefni Seðlabanka Íslands.

    Skilavald, sem er hluti af Seðlabanka Íslands, fer með framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. og 5. gr. Skilavald skal vera aðgreint frá annarri starfsemi í skipulagi bankans.
    Ákvarðanir um hvort fyrirtæki, eining eða samstæða telst rekstrarhæf skv. 27. gr. og hvort fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti skv. 34. gr. skulu teknar af Fjármálaeftirlitinu.
    Ákvarðanir um skilaáætlun og skilabærni skv. III. kafla, um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar skv. IV. kafla og um mat á áætlun um endurskipulagningu rekstrar skv. 60. gr. skulu ekki teknar nema að undangengnu samráði við Fjármálaeftirlitið.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um þagnarskyldu og upplýsingaskipti innan bankans.

5. gr.

Hlutverk og verkefni ráðherra.

    Ákvarðanir um samþykkt skilaáætlunar fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki skv. 9. eða 10. gr. og ákvarðanir sem geta haft bein áhrif á ríkissjóð eða kerfislæg áhrif, þ.m.t. um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla og skilameðferð fyrirtækis eða einingar skv. 35. gr., verða ekki teknar nema að undangengnu samþykki ráðherra.
    Ráðherra tekur ákvörðun um opinber fjármálastöðgunarúrræði skv. XIII. kafla.
    Ráðherra skal reglulega upplýstur um ákvarðanir samkvæmt lögum þessum. Ráðherra getur krafið Seðlabanki Íslands um upplýsingar sem ráðherra telur nauðsynlegar vegna ákvarðana samkvæmt lögum þessum.

6. gr.

Ákvarðanir. Málshöfðun.

    Ákvarðanir samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
    Nú vill aðili ekki una ákvörðun sem tekin er samkvæmt lögum þessum og getur hann þá höfðað mál fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá tilkynningu ákvörðunar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.
    Ákvörðun um mat á eignum og skuldbindingum skv. VII. kafla og um skilameðferð og beitingu skilaaðgerða skv. 3. þætti laganna skal taka gildi og koma til framkvæmda þegar í stað. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku skilavaldsins vegna ákvörðunar skv. 1. málsl.
    Heimilt er að ákveða að aðrar ákvarðanir samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. aðgerðir vegna annmarka á skilabærni skv. 15. gr. og niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga skv. VI. kafla, taki gildi og komi til framkvæmda þegar í stað. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku skilavaldsins skv. 1. málsl.
    Ef ágreiningur í dómsmáli varðar skilaaðgerðir samkvæmt 3. þætti laganna skal hraða meðferð slíks máls hjá dómstólum.
    Ef aðili hefur í góðri trú keypt eignarhluti, eignir, réttindi eða skuldbindingar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð á grundvelli ákvarðana skv. 3. mgr. skal ógilding ákvörðunar með dómi ekki hafa áhrif á síðari aðgerðir eða ráðstafanir sem byggðust á ógiltu ákvörðuninni. Í því tilviki getur sá sem varð fyrir tjóni vegna hinnar ógiltu ákvörðunar einungis krafist skaðabóta fyrir það tap sem af ákvörðuninni hlaust.

7. gr.

Skylda til að veita upplýsingar.

    Einstaklingum og lögaðilum er skylt að láta skilavaldinu í té allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg í tengslum við framkvæmd laga þessara. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um.
    Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.

8. gr.

Þagnarskylda.

    Stjórnvöld, skilastjórn, brúarstofnun og eignaumsýslufélag og aðrir sem koma að framkvæmd laga þessara eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar framkvæmd laganna, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um sérfræðinga, verktaka, mögulega kaupendur eignarhluta eða eigna fyrirtækis eða einingar sem skilavaldið hefur samband við og aðra sem starfa fyrir eða á vegum þess. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Öllum þeim er falla undir þagnarskyldu skv. 1. mgr. er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar sem þeir komast yfir vegna framkvæmd laga þessara, þar á meðal í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að miðla upplýsingum sem eru háðar þagnarskyldu skv. 1. mgr. til aðila sem lúta þagnarskyldu skv. 1. mgr., skilastjórnvalda og eftirlitsstjórnvalda annarra aðildarríkja, Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, enda samræmist slíkt lögmæltu hlutverki bankans eða móttakanda.
    Stjórnvöld sem koma að framkvæmd laga þessara, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, brúarstofnun og eignaumsýslufélag skulu setja sér verklagsreglur um meðferð upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu skv. 1. mgr.

2. ÞÁTTUR

Fyrirbyggjandi aðgerðir og undirbúningur skilameðferðar.

III. KAFLI

Skilaáætlun og skilabærni.

9. gr.

Skilaáætlun lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis.

    Skilavaldið skal gera skilaáætlun fyrir fyrirtæki þar sem eftirfarandi atriði skulu m.a. koma fram:
     1.      Þær skilaaðgerðir sem hægt er að grípa til gagnvart fyrirtæki ef skilyrði skilameðferðar skv. 1. mgr. 35. gr. eru uppfyllt.
     2.      Sviðsmyndir sem gera m.a. ráð fyrir að rekstrarerfiðleikar fyrirtækis stafi af atvikum sem eiga aðeins við um viðkomandi fyrirtæki, eru afleiðing óstöðugleika á fjármálamörkuðum eða kerfislegs ójafnvægis.
     3.      Greining á því hvenær og með hvaða hætti fyrirtæki getur sótt um lausafjárfyrirgreiðslu seðlabanka, umfram þá sem fellur undir regluleg viðskipti, og hvaða eignir það geti lagt fram sem tryggingu. Ekki skal gera ráð fyrir nokkurs konar sérstakri lausafjárfyrirgreiðslu eða annars konar opinberum fjárstuðningi í skilaáætlun.
     4.      Mismunandi leiðir við beitingu á skilaúrræðum og skilaheimildum gagnvart fyrirtæki.
    Við gerð skilaáætlunar skal skilavaldið, ef við á, hafa samráð við skilastjórnvöld í aðildarríkjum þar sem viðkomandi fyrirtæki er með mikilvæg útibú. Fjármálaeftirlitið skal hafa aðgang að samþykktum skilaáætlunum fyrirtækja.
    Skilaáætlun skal yfirfarin að lágmarki árlega og uppfærð ef tilefni er til, þ.m.t. ef breytingar verða á rekstri fyrirtækjanna eða ef annað í starfsemi þeirra veldur verulegum breytingum á áætluninni. Fyrirtæki skulu tilkynna skilavaldinu tímanlega um allar breytingar sem gefa tilefni til uppfærslu.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur sem kveða nánar á um efni skilaáætlana skv. 1. mgr.

10. gr.

Skilaáætlun samstæðu.

    Ef skilavaldið fer með samstæðuskilavald skal það útbúa og uppfæra skilaáætlun fyrir samstæðu á grundvelli upplýsinga skv. 12. gr. Samþykkt skilaáætlunar samstæðu skal eiga sér stað að undangengnu samstarfi við skilastjórnvöld dótturfélaga og ef við á í samráði við skilastjórnvöld þar sem mikilvæg útibú eru með starfsemi. Skilaáætlun samstæðu, þ.m.t. allar breytingar sem verða á áætluninni, skal senda til viðeigandi eftirlitsstjórnvalda.
    Þegar skilavaldið fer ekki með samstæðuskilavald skv. 1. mgr. getur það þó ákveðið að gera sjálfstæða skilaáætlun skv. 9. gr. fyrir dótturfélög sem eru lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki. Um málsmeðferð vegna skilaáætlunar dótturfélags fer skv. 6. og 7. mgr.
    Í skilaáætlun samstæðu skulu koma fram aðgerðir vegna skilameðferðar samstæðu í heild sem og aðgerðir sem taka til einstakra fyrirtækja eða eininga innan samstæðu og skilameðferðar þeirra. Skilaáætlun samstæðu skal taka mið af þeim efnisatriðum sem fram koma í 9. gr., þ.m.t. uppfærslu skilaáætlunar.
    Skilaáætlun samstæðu skal, eftir því sem við á, tilgreina aðgerðir fyrir alla eftirfarandi aðila:
     1.      Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu.
     2.      Hvert einstakt dótturfélag í aðildarríki.
     3.      Eignarhaldsfélög skv. c- og d-lið 2. gr.
    Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu skal taka saman og afhenda skilavaldinu nauðsynlegar upplýsingar fyrir gerð skilaáætlunar, sem sendir mótteknar upplýsingar til eftirfarandi aðila:
     1.      Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.
     2.      Skilastjórnvalda dótturfélaga.
     3.      Skilastjórnvalda þar sem mikilvæg útibú eru staðsett.
     4.      Viðeigandi eftirlitsstjórnvalda.
     5.      Skilastjórnvalda í aðildarríkjum þar sem eignarhaldsfélög skv. c- og d-lið 2. gr. eru staðsett.
    Skilavaldið skal leitast við að taka sameiginlega ákvörðun um skilaáætlun samstæðu með aðilum skv. 5. mgr. Ef sameiginleg ákvörðun liggur ekki fyrir innan fjögurra mánaða frá því að skilavaldið, sem fer með samstæðuskilavald, sendi upplýsingar skv. 5. mgr. skal það taka sjálfstæða ákvörðun um áætlunina. Tilkynna skal móðurfélagi og lögbærum stjórnvöldum um ákvörðunina.
    Fresta skal ákvörðun skv. 6. mgr. hafi eitthvert þeirra lögbæru stjórnvalda skv. 2.–5. tölul. 5. mgr. vísað ákvörðun bankans til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, fyrir lok tímafrests skv. 6. mgr., og skal skilavaldið í þeim tilvikum bíða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka. Ákvörðun skal vera í samræmi við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur sem kveða nánar á um efni skilaáætlunar samstæðu skv. 3. mgr.

11. gr.

Einföld skilaáætlun.

    Skilavaldið ákveður hvort gera skuli einfalda skilaáætlun fyrir fyrirtæki eða samstæðu. Skilyrði fyrir einfaldri skilaáætlun eru að rekstrarerfiðleikar fyrirtækis eða samstæðu og eftir atvikum slitameðferð hafi ekki í för með sér verulega neikvæð áhrif á fjármálakerfið, önnur fyrirtæki, miðlun fjármagns í fjármálakerfinu eða hagkerfið.
    Heimilt er að falla frá ákvörðun um einfalda skilaáætlun skv. 1. mgr. hvenær sem er.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um viðmið vegna ákvarðana um einfaldar skilaáætlanir skv. 1. mgr.

12. gr.

Upplýsingagjöf og aðstoð við gerð skilaáætlunar.

    Skilavaldið getur krafist þess að fyrirtæki, eining eða móðurfélag veiti því upplýsingar sem eru viðeigandi að mati þess og varða undirbúning og gerð skilaáætlunar. Fyrirtæki, einingu eða móðurfélagi ber að veita aðstoð við gerð og uppfærslu skilaáætlunar skv. 9. eða 10. gr. að beiðni skilavaldsins.
    Ráðherra skal setja reglugerð um þær upplýsingar sem heimilt er að krefja fyrirtæki eða móðurfélag um samkvæmt þessari grein í þeim tilgangi að útbúa eða uppfæra skilaáætlanir.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um verklag og form fyrir veitingu upplýsinga samkvæmt þessari grein.

13. gr.

Mat á skilabærni lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis.

    Skilavaldið skal, ef við á að undangengnu samráði við skilastjórnvöld í aðildarríkjum þar sem viðkomandi fyrirtæki er með mikilvægt útibú, leggja mat á hvort fyrirtækið sé skilabært. Mat á skilabærni skal fara fram samhliða gerð skilaáætlunar skv. 9. gr.
    Mat á því hvort fyrirtæki telst skilabært skv. 1. mgr. grundvallast á því að hægt sé að beita einhverjum skilaaðgerðum gagnvart því eða að fyrirtækið fari í slitameðferð, án þess þó að aðgerðirnar hafi verulega neikvæð áhrif á fjármálakerfi í aðildarríkjum og að tryggt sé áframhald nauðsynlegrar starfsemi fyrirtækis.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um viðfangsefni og viðmið við mat á skilabærni fyrirtækis skv. 1. mgr.
    Ráðherra skal setja reglugerð um viðfangsefni við mat á skilabærni fyrirtækis skv. 1. mgr.

14. gr.

Mat á skilabærni samstæðu.

    Ef skilavaldið fer með samstæðuskilavald skal það leggja mat á skilabærni samstæðu. Mat á skilabærni skal fara fram samhliða gerð skilaáætlunar samstæðu skv. 10. gr. og taka mið af þeim efnisatriðum sem fram koma í 13. gr.
    Mat á skilabærni samstæðu skal framkvæmt í samstarfi við skilastjórnvöld dótturfélaga og að höfðu samráði við eftirlitsstjórnvöld dótturfélaga og skilastjórnvöld þar sem mikilvæg útibú eru með starfsemi. Fjalla skal um mat á skilabærni samstæðu innan skilaráðs skv. 89. gr.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um viðfangsefni og viðmið við mat á skilabærni samstæðu skv. 1. mgr.
    Ráðherra skal setja reglugerð um viðfangsefni við mat á skilabærni samstæðu skv. 1. mgr.

15. gr.

Annmarkar á skilabærni.

    Komi í ljós verulegir annmarkar á skilabærni fyrirtækis við mat skv. 13. gr. skal tilkynna það skriflega til fyrirtækisins og skilastjórnvalda þar sem mikilvæg útibú eru með starfsemi. Tilkynning skv. 1. málsl. skal fresta gerð skilaáætlunar uns skilavaldið samþykkir aðgerðir sem ætlað er að ráða bót á þeim annmörkum sem um ræðir.
    Fyrirtæki skal innan fjögurra mánaða frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr. senda skilavaldinu tillögur um aðgerðir til að ráða bót á þeim annmörkum sem taldir eru vera fyrir hendi. Skilavaldið leggur mat á aðgerðir fyrirtækisins og hvort úrbætur séu mögulegar.
    Teljist aðgerðir fyrirtækisins ekki nægjanlegar til þess að ráða bót á annmörkum á skilabærni skal þess krafist með skriflegri tilkynningu að gripið verði til einhverra eftirfarandi aðgerða:
     1.      Að fyrirtækið endurskoði samninga um fjárstuðning innan samstæðu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða fari yfir hvort gera skuli slíka samninga.
     2.      Að fyrirtækið geri þjónustusamninga við aðila innan eða utan samstæðunnar til að tryggja áframhaldandi nauðsynlega starfsemi.
     3.      Að fyrirtækið takmarki safn áhættuskuldbindinga, bæði gagnvart einstökum aðilum og eins að samtölu.
     4.      Að fyrirtækið veiti tíðari eða reglulegar viðbótarupplýsingar um atriði sem varða skilameðferð.
     5.      Að fyrirtækið selji tilteknar eignir.
     6.      Að fyrirtækið dragi úr eða hætti tiltekinni starfsemi eða fyrirhugaðri starfsemi.
     7.      Að dregið verði úr eða hætt sölu eða þróun á tilteknum fjármálaafurðum.
     8.      Að skipulag fyrirtækisins eða lögaðila undir beinum eða óbeinum yfirráðum þess verði einfaldað þannig að hægt sé að aðskilja nauðsynlega starfsemi frá öðrum starfsþáttum við beitingu skilaúrræða.
     9.      Að fyrirtækið eða móðurfélag þess stofni eignarhaldsfélag á fjármálasviði annaðhvort hér á landi eða í öðru aðildarríki.
     10.      Að fyrirtækið eða eining gefi út hæfar skuldbindingar til þess að mæta lágmarkskröfum um eigið fé og hæfar skuldbindingar skv. IV. kafla.
     11.      Að fyrirtækið eða eining grípi til annarra aðgerða til þess að mæta lágmarkskröfum um eigið fé og hæfar skuldbindingar skv. IV. kafla., svo sem endursemji um skilmála hæfra skuldbindinga, viðbótar eigið fé þáttar 1 eða þáttar 2 sem það hefur gefið út, til þess að ákvörðun um niðurfærslu eða umbreytingu slíkra skuldbindinga eða fjármagnsgerninga nái fram að ganga.
     12.      Að blandað eignarhaldsfélag, sé það móðurfélag fyrirtækisins, stofni aðskilið eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem taki við stjórn fyrirtækisins til að auðvelda skilameðferð og koma í veg fyrir að skilaaðgerðir hafi neikvæð áhrif á ófjárhagslegan hluta samstæðu.
    Fyrirtæki skal innan mánaðar frá móttöku tilkynningar skv. 3. mgr. senda skilavaldinu áætlun um hvernig það hyggst framfylgja þeim aðgerðum sem það krefst.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einnig við mat á skilabærni samstæðu skv. 14. gr. og, ef við á, fer um málsmeðferð skv. 16. gr.

16. gr.

Málsmeðferð vegna annmarka á skilabærni samstæðu.

    Komi í ljós við mat á skilabærni samstæðu skv. 14. gr. að verulegir annmarkar eru á því að samstæða sé skilabær skal skilavaldið hafa samráð við lögbær stjórnvöld og afhenda eftirtöldum aðilum skýrslu sem unnin er í samstarfi við Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina:
     1.      Móðurfélagi í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu.
     2.      Skilastjórnvöldum dótturfélaga.
     3.      Skilastjórnvöldum þar sem mikilvæg útibú eru staðsett.
    Í skýrslu skv. 1. mgr. skal eftirfarandi koma fram:
     1.      Greining á þeim verulegu annmörkum sem koma í veg fyrir skilvirkni skilaúrræða og skilaheimilda.
     2.      Umfjöllun og mat á áhrifum annmarkanna á viðskiptaáætlun viðkomandi fyrirtækis eða einingar.
     3.      Nauðsynlegar og æskilegar leiðir til að ráða bót á þeim annmörkum sem um ræðir.
    Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu skal innan fjögurra mánaða frá móttöku skýrslu skv. 1. mgr. gera athugasemdir og koma með tillögur um aðrar aðgerðir til að ráða bót á þeim annmörkum sem koma fram í skýrslunni. Skilavaldið tilkynnir athugasemdir og tillögur móðurfélagsins til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar og skilastjórnvalda skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr.
    Skilavaldið skal innan fjögurra mánaða frá tilkynningu samkvæmt síðari málsl. 3. mgr. leitast við að taka sameiginlega ákvörðun með skilastjórnvöldum skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. um aðgerðir á grundvelli 3. mgr. og 3. mgr. 15. gr. til að ráða bót á annmörkum á skilabærni samstæðu. Ef engar athugasemdir eða tillögur berast frá móðurfélagi í efsta þrepi samstæðu samkvæmt fyrri málsl. 3. mgr. skal skilavaldið leitast við að taka sameiginlega ákvörðun með skilastjórnvöldum skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. innan fjögurra mánaða frá því að frestur til athugasemda samkvæmt fyrri málsl. 3. mgr. er liðinn.
    Ef sameiginleg ákvörðun liggur ekki fyrir innan tímamarka skv. 4. mgr. skal skilavaldið taka sjálfstæða ákvörðun um aðgerðir skv. 3. mgr. 15. gr. og tilkynna ákvörðunina til móðurfélags og skilastjórnvalda skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. Ákvörðunin skal rökstudd og taka tillit til mats skilastjórnvalda að því marki sem unnt er. Ákvörðuninni skal frestað hafi skilastjórnvald skv. 2. eða 3. tölul. 1. mgr. vísað málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar í samræmi við lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði fyrir lok tímafrests skv. 4. mgr. og skal skilavaldið bíða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka. Ákvörðun skilavaldsins skal vera í samræmi við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Ef skilavaldið fer ekki með samstæðuskilavald getur það, þrátt fyrir 5. mgr., krafist þess að dótturfélag grípi til aðgerða skv. 2. og 3. mgr. 15. gr.
    Móðurfélag skal innan mánaðar frá móttöku ákvörðunar skv. 4. eða 5. mgr. senda skilavaldinu áætlun um hvernig það hyggst framfylgja þeim aðgerðum sem það krefst.

IV. KAFLI

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar.

17. gr.

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar.

    Fyrirtæki skulu ávallt uppfylla lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Lágmarkskröfuna skal reikna sem fjárhæð eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga í hlutfalli af samtölu heildarskuldbindinga og eiginfjárgrunns fyrirtækis. Skuldbindingar vegna afleiðusamninga skulu teljast með heildarskuldbindingum að því gefnu að tekið sé fullt tillit til greiðslujöfnunarréttar mótaðila.
    Hæfar skuldbindingar skv. 1. mgr. skulu uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
     1.      Gerningurinn skal vera útgefinn og innborgaður að fullu.
     2.      Skuldbindingin skal hvorki vera gagnvart fyrirtækinu né skal það hafa tryggt eða ábyrgst hana.
     3.      Kaup gerningsins mega ekki hafa verið fjármögnuð beint eða óbeint af fyrirtækinu.
     4.      Eftirstöðvatími skuldbindingarinnar skal vera a.m.k. eitt ár. Eftirstöðvatími skuldbindingar, sem felur í sér rétt til að krefjast endurgreiðslu áður en samningstími er liðinn, skal miðast við þann dag sem slíkur réttur verður fyrst virkur.
     5.      Skuldbindingin má ekki vera vegna afleiðu.
     6.      Skuldbindingin má ekki vera vegna innstæðu sem nýtur forgangs í réttindaröð skv. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
    Skilavaldið ákveður lágmarkskröfu skv. 1. mgr. og skal ákvörðunin að lágmarki grundvallast á eftirfarandi atriðum:
     1.      Að ljúka megi skilameðferð fyrirtækis með viðeigandi skilaúrræðum, þ.m.t. eftirgjöf ef við á, á þann hátt að markmiðum skilameðferðar skv. 1. gr. verði náð.
     2.      Að hæfar skuldbindingar fyrirtækis séu nægar til að tryggja að við eftirgjöf búi fyrirtækið við fullnægjandi tapþol og hægt sé að endurreisa hlutfall almenns eigin fjár þáttar 1 þannig að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis verði uppfyllt og fyrirtækið viðhaldi trausti markaðarins.
     3.      Að aðrar hæfar skuldbindingar fyrirtækis en þær sem gert er ráð fyrir að geti fallið utan eftirgjafar skv. 2. mgr. 56. gr. eða verið framseldar í heild samkvæmt skilaáætlun fyrirtækis séu nægar til að tryggja að tapþol þess sé fullnægjandi og mögulegt að endurreisa hlutfall almenns eigin fjár þáttar 1 þannig að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis verði uppfyllt.
     4.      Stærð, viðskiptalíkani, fjármögnunarlíkani og áhættusniði fyrirtækisins.
     5.      Að hvaða marki Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta geti komið að fjármögnun skilameðferðar skv. 82. gr.
     6.      Áhrifum ógjaldfærs fyrirtækis á fjármálastöðugleika, þ.m.t. vegna innbyrðis tengsla þess við aðrar lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki eða aðra hluta fjármálakerfisins.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal undanskilja lánastofnanir sem eingöngu veita lán með veði í fasteign og fjármögnuð eru með útgáfu sértryggðra skuldabréfa frá lágmarkskröfu skv. 1. mgr., enda fari slík fyrirtæki í slitameðferð eða skilaúrræðum skv. B-, C- eða D-hluta X. kafla verði beitt.
    Þegar löggjöf ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins gildir um skuldbindingu getur skilavaldið krafið fyrirtæki um að sýna fram á að ákvörðun þess um niðurfærslu eða umbreytingu á slíkri skuldbindingu geti náð fram að ganga samkvæmt löggjöf hlutaðeigandi ríkis. Í slíkum tilfellum skal tekið tillit til samningsskilmála skuldbindingarinnar, alþjóðlegra samninga um viðurkenningu á skilameðferð og annarra atriða sem máli skipta. Telji skilavaldið að ákvörðun um niðurfærslu eða umbreytingu skuldbindingar í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins nái ekki fram að ganga samkvæmt löggjöf hlutaðeigandi ríkis skal skuldbindingin undanskilin við útreikning á lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um aðferðafræði og viðmið vegna ákvörðunar um lágmarkskröfu eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga skv. 3. mgr.

18. gr.

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni.

    Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu skal uppfylla lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni.
    Skilavaldinu er heimilt að krefjast þess að fjármálastofnun skv. b-lið 2. gr. og eignarhaldsfélög skv. c- og d-lið 2. gr. uppfylli lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á einingargrunni.
    Ef skilavald fer með samstæðuskilavald ákveður það lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni skv. 1. mgr. Ákvörðunin skal tekin með hliðsjón af atriðum 3. mgr. 17. gr. og samræmast 1.–4. mgr. 19. gr. Ákvörðunin skal einnig, ef við á samkvæmt skilaáætlun, taka tillit til þess hvort dótturfélag samstæðu utan Evrópska efnahagssvæðisins lúti sérstakri skilameðferð.

19. gr.

Málsmeðferð á samstæðugrunni.

    Í þeim tilfellum þegar samstæða skv. 18. gr. veitir þjónustu í öðru aðildarríki eða á dótturfélag sem starfar í öðru aðildarríki skal leitast við að taka sameiginlega ákvörðun með öðrum skilastjórnvöldum um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni skv. 3. mgr. 18. gr. Sameiginlega ákvörðun skal rökstyðja að fullu og skal skilavaldið tilkynna hana móðurfélagi skv. 1. mgr. 18. gr.
    Skilavaldið skal taka sjálfstæða ákvörðun um lágmarkskröfu á samstæðugrunni, að teknu tilliti til mats skilastjórnvalda einstakra dótturfélaga, að fjórum mánuðum liðnum, ef ekki næst sameiginleg ákvörðun skv. 1. mgr.
    Hafi, fyrir lok tímafrests skv. 2. mgr., eitthvert þeirra skilastjórnvalda sem aðild eiga að málinu vísað ákvörðun skilavaldsins til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, skal skilavaldið fresta ákvörðun sinni og bíða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka. Ákvörðun skilavaldsins skal vera í samræmi við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Skilavaldið skal ákveða lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á einingargrunni fyrir fyrirtæki sem hefur staðfestu hér á landi en er dótturfélag fyrirtækis með staðfestu erlendis. Í slíkum tilfellum skal ákvörðun taka mið af 3. mgr. 17. gr. og lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni samkvæmt ákvörðun skilastjórnvalds móðurfélagsins. Jafnframt skal leitast við að taka sameiginlega ákvörðun um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar með skilastjórnvaldi móðurfélagsins, eða eftir atvikum öðrum skilastjórnvöldum, að því er varðar viðkomandi fyrirtæki með staðfestu hér á landi, systurfélög þess og móðurfélag. Sameiginleg ákvörðun skal vera rökstudd og skal skilavaldið tilkynna hana því fyrirtæki sem hefur staðfestu hér á landi. Líði fjórir mánuðir án þess að til sameiginlegrar ákvörðunar komi skal skilavaldið ákveða lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar viðkomandi fyrirtækis með staðfestu hér á landi að teknu tilliti til mats skilastjórnvalds móðurfélagsins. Hafi skilastjórnvald móðurfélagsins, fyrir lok tímafrestsins, vísað ákvörðun skilavaldsins til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, skal skilavaldið fresta ákvörðun sinni og bíða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka í samræmi við 3. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar. Ákvörðun skilavaldsins skal vera í samræmi við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Ef ekki næst sameiginleg ákvörðun varðandi lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar, sbr. 1. og 4. mgr., er skilavaldinu heimilt að vísa máli til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, til að ná fram endanlegri ákvörðun varðandi lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Slíku máli skal vísað til Eftirlitsstofnunar EFTA innan fjögurra mánaða frá því að sameiginleg ákvörðun átti að liggja fyrir. Þó er ekki hægt að vísa máli til Eftirlitsstofnunar EFTA ef munur á ákvörðun þess og ákvörðun annarra skilastjórnvalda er innan við eitt prósentustig.
    Skilavaldið skal reglulega endurskoða ákvarðanir samkvæmt þessari grein og uppfæra þær þegar við á.

20. gr.

Undanþágur á einingargrunni vegna samstæðu.

    Þrátt fyrir 1. mgr. 17. gr. getur skilavaldið ákveðið að gera ekki lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á einingargrunni vegna móðurfélags á Evrópska efnahagssvæðinu. Í slíkum tilfellum þurfa bæði eftirtalin skilyrði að vera uppfyllt:
     1.      Viðkomandi fyrirtæki uppfyllir lágmarkskröfu á samstæðugrunni skv. 18. gr.
     2.      Fjármálaeftirlitið hefur undanþegið fyrirtækið frá því að uppfylla eiginfjárkröfur á einingargrunni eða eftirlitsstjórnvöld aðildarríkis hafa nýtt sér sambærilega undanþágu í viðkomandi aðildarríki.
    Heimilt er að veita dótturfélagi undanþágu frá því að uppfylla lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á einingargrunni skv. 1. mgr. 17. gr., að uppfylltum öllum eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Viðkomandi dótturfélag og móðurfélag þess hafa starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og lúta eftirliti þess.
     2.      Dótturfélagið heyrir undir samstæðueftirlit með móðurfélaginu.
     3.      Móðurfélagið uppfyllir lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni skv. 18. gr.
     4.      Hvorki eru kunnar né fyrirséðar verulegar hömlur, lagalegar eða aðrar, á tilfærslu eiginfjárgrunns eða endurgreiðslu skuldbindinga frá móðurfélagi til dótturfélags.
     5.      Móðurfélag uppfyllir annaðhvort kröfur og skilyrði Fjármálaeftirlitsins um varfærna stjórnun dótturfélags og hefur gefið yfirlýsingu, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, um að það ábyrgist skuldbindingar fyrirtækisins, eða áhættuþættir í starfsemi dótturfélagsins teljast óverulegir.
     6.      Aðferðir móðurfélagsins við að meta, mæla og stjórna áhættu ná til dótturfélags.
     7.      Móðurfélag ræður yfir meira en 50% atkvæðisréttar sem fylgir hlutum í hlutafé dótturfélags eða hefur rétt til að tilnefna eða leysa frá störfum meiri hluta aðila í stjórn dótturfélagsins.
     8.      Fjármálaeftirlitið hefur undanþegið dótturfélagið frá því að uppfylla eiginfjárkröfur á einingargrunni.

21. gr.

Gerningar um samningsbundna eftirgjöf.

    Heimilt er að ákveða að lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar séu að hluta til uppfylltar á samstæðu- eða einingargrunni með gerningum um samningsbundna eftirgjöf.
    Gerningur um samningsbundna eftirgjöf skv. 1. mgr. þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Í samningsskilmálum slíks gernings skal vera kveðið á um að þegar eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla er beitt gagnvart viðkomandi fyrirtæki eða einingu verði að niðurfæra gerninginn eða umbreyta honum að því marki sem þörf krefur áður en aðrar hæfar skuldbindingar eru niðurfærðar eða þeim umbreytt.
     2.      Um slíkan gerning skal gilda bindandi samningur, samkomulag eða ákvæði um undirskipun þar sem fram kemur að við slitameðferð sé gerningurinn víkjandi og aftar í forgangsröð en aðrar hæfar skuldbindingar og verði ekki endurgreiddur fyrr en þær hafa verið gerðar upp.

22. gr.

Eftirlit skilavalds.

    Skilavaldið skal krefjast þess og sannreyna að fyrirtæki og einingar skv. b–d-lið 2. gr. uppfylli skyldur skv. 17., 18., 20. og 21. gr. Ákvarðanir skilavaldsins skulu teknar samhliða þróun og viðhaldi skilaáætlana.
    Evrópska bankaeftirlitsstofnunin skal upplýst um lágmarkskröfu eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga vegna fyrirtækja eða eininga sem falla undir eftirlit samkvæmt þessari grein.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um form og skilgreiningar vegna upplýsingaskipta skv. 2. mgr.

V. KAFLI

Ýmsar aðgerðir til að undirbúa skilameðferð og forðast fall fyrirtækis.

23. gr.

Samningsskilmálar vegna niðurfærslu eða umbreytingar, þ.m.t. við eftirgjöf.

    Fyrirtæki eða eining skv. b–d-lið 2. gr. skal tryggja að samningar þess innihaldi samningsskilmála, sem gagnaðili viðurkennir, um að skuldbindingin sem samninginn varðar geti verið háð heimildum til niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla og eftirgjöf skv. 54. og 55. gr., sbr. E-hluta X. kafla. Einnig skulu samningarnir innihalda samningsskilmála þar sem gagnaðili viðurkennir að hann sé bundinn af hvers konar lækkun á höfuðstól eða útistandandi fjárhæð, umbreytingu eða niðurfærslu vegna áhrifa af framkvæmd þessara heimilda.
    Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um skuldbindingu sem:
     1.      er undanþegin eftirgjöf skv. 2. mgr. 56. gr.,
     2.      er innstæða sem fellur undir 1. tölul. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki,
     3.      getur verið háð niðurfærslu eða umbreytingu á grundvelli heimildar samkvæmt lögum í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða á grundvelli heimildar samkvæmt bindandi samningi sem gerður hefur verið við viðkomandi ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Skilavaldið getur krafið viðkomandi fyrirtæki eða einingu um lögfræðiálit á skuldbindingargildi samningsskilmála skv. 1. mgr. fyrir gagnaðila.
    Þrátt fyrir að fyrirtæki eða eining vanræki að setja samningsskilmála skv. 1. mgr. um skuldbindingu getur skilavaldið beitt heimildum sínum og niðurfært eða umbreytt viðkomandi skuldbindingu.
    Seðlabanki Íslands skal setja nánari reglur um efni samningsskilmála skv. 1. mgr. og skrá yfir skuldbindingar sem undanþága skv. 3. mgr. gildir um.

24. gr.

Samskipti við hugsanlega kaupendur.

    Skilavaldið getur krafist þess að fyrirtæki hafi samband við hugsanlega kaupendur til þess að undirbúa skilameðferð á því þegar aðstæður vegna tímanlegra inngripa samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eru fyrir hendi.

25. gr.

Skrá yfir fjárhagslega samninga.

    Lánastofnun skal halda skrá yfir fjárhagslega samninga sem hún er aðili að.
    Skilavaldið getur ákveðið að verðbréfafyrirtæki, fjármálastofnun skv. b-lið 2. gr. og eignarhaldsfélög skv. c- eða d-lið 2. gr. haldi skrá yfir fjárhagslega samninga.
    Skilavaldið getur krafist þess að upplýsingar úr skrá skv. 1. og 2. mgr. séu afhentar innan 24 klukkustunda gerist þess þörf. Fjármálaeftirlitið skal hafa aðgang að upplýsingum sem afhentar eru samkvæmt þessari grein.
    Seðlabanki Íslands setur reglur um skrá yfir fjárhagslega samninga, þ.m.t. um hvaða lágmarksupplýsingar skuli koma fram í slíkri skrá og hvaða samningar teljist fjárhagslegir samningar.

26. gr.

Undirbúningur niðurfærslu og umbreytingar, þ.m.t. við eftirgjöf.

    Í tengslum við gerð og uppfærslu skilaáætlunar skal leggja mat á samþykktir fyrirtækis eða einingar að teknu tilliti til þess hvort samþykktirnar heimili skilaaðgerðir sem krefjast lækkunar eða hækkunar hlutafjár. Skilavaldið getur krafist þess að fyrirtæki eða eining breyti samþykktum sínum ef nauðsyn krefur til að auðvelda framkvæmd skilaaðgerða.
    Skilavaldið getur krafist þess að fyrirtæki eða eining hafi ávallt heimild til útgáfu viðeigandi fjölda gerninga sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1, sem eru fullnægjandi til að framfylgja ákvörðun um niðurfærslu og umbreytingu skv. VI. kafla og eftirgjöf skv. 54. og 55. gr., sbr. E-hluta X. kafla. Útgáfa eignarhluta skal vera möguleg án samþykkis félagsaðila og annarra krafna samkvæmt lögum um hlutafélög.

VI. KAFLI

Niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga.

27. gr.

Skilyrði fyrir niðurfærslu og umbreytingu.

    Skilavaldið skal án tafar, í samræmi við 28. gr., niðurfæra eða umbreyta fjármagnsgerningum fyrirtækis eða einingar skv. b–d-lið 2. gr. í eignarhluti ef einhver af eftirtöldum tilvikum eiga við:
     1.      Ákvörðun liggur fyrir um að skilyrði skilameðferðar skv. 1. mgr. 35. gr. séu uppfyllt, án þess þó að gripið hafi verið til skilaaðgerða.
     2.      Fjármálaeftirlitið hefur tekið ákvörðun um að fyrirtækið eða einingin sé ekki lengur rekstrarhæf nema gripið verði til niðurfærslu eða umbreytingar fjármagnsgerninga.
     3.      Þegar Fjármálaeftirlitið og lögbært stjórnvald dótturfélags eða samstæðu hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að samstæða sé ekki lengur rekstrarhæf nema með niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga, enda sé um að ræða fjármagnsgerninga sem útgefnir eru af dótturfélagi í þeim tilgangi að uppfylla kröfur um eiginfjárgrunn þess og samstæðu.
     4.      Þegar Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni, hefur tekið ákvörðun um að samstæða sé ekki lengur rekstrarhæf nema með niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga, enda sé um að ræða fjármagnsgerninga sem útgefnir eru af móðurfélagi í þeim tilgangi að uppfylla kröfur um eiginfjárgrunn þess eða samstæðu.
     5.      Þegar fyrirtæki eða eining hefur óskað eftir sérstökum opinberum fjárstuðningi nema um sé að ræða aðstæður sem kveðið er á um í 2. tölul. c-liðar 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.
    Niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga skv. 1. mgr. má ýmist beita án skilaaðgerða eða samhliða þeim enda séu þá skilyrði skilameðferðar skv. 1. mgr. 35. gr. uppfyllt.
    Fyrirtæki, eining eða samstæða telst ekki rekstrarhæf skv. 2.–4. tölul. 1. mgr. ef bæði eftirfarandi skilyrði eru fyrir hendi:
     1.      Fyrirtæki, eining eða samstæða er á fallanda fæti.
     2.      Ólíklegt er að aðrar aðgerðir en niðurfærsla eða umbreyting skv. 1. mgr. geti komið í veg fyrir ógjaldfærni fyrirtækis, einingar eða samstæðu innan nauðsynlegra tímamarka. Með öðrum aðgerðum er m.a. átt við aðkomu einkaaðila eða aðgerðir eftirlitsstjórnvalds, þ.m.t. tímanleg inngrip.
    Niðurfærsla eða umbreyting skv. 1. mgr. skal grundvallast á mati á eignum og skuldbindingum skv. VII. kafla.
    Viðeigandi fjármagnsgerning dótturfélags skv. 3. tölul. 1. mgr. má ekki niðurfæra meira eða umbreyta á verri kjörum en fjármagnsgerninga móðurfélags sem hafa verið niðurfærðir eða umbreytt og hafa sömu forgangsröð.
    Ákvörðun skv. 1. mgr. skal þegar í stað tilkynnt viðeigandi skilastjórnvöldum.

28. gr.

Framkvæmd niðurfærslu og umbreytingu.

    Niðurfærsla eða umbreyting fjármagnsgerninga skv. 27. gr. skal fara fram á eftirfarandi hátt, að teknu tilliti til meginreglna um forgangsröð krafna við slit eða gjaldþrot:
     1.      Almennt eigið fé þáttar 1 er fyrst niðurfært sem nemur tapi fyrirtækis eða einingar og að því marki sem geta þess leyfir. Gripið er til annarrar eða beggja aðgerða skv. 1. mgr. 63. gr. gagnvart eigendum gerninga sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1.
     2.      Höfuðstóll viðbótar eigin fjár þáttar 1 er því næst niðurfærður og honum umbreytt í almennt eigið fé þáttar 1, eða hvort tveggja, að því marki sem nauðsynlegt er til að ná markmiðum skilameðferðar skv. 1. gr. eða að því marki sem unnt er miðað við umfang viðeigandi fjármagnsgerninga, hvort sem er lægra.
     3.      Höfuðstóll gerninga sem teljast til þáttar 2 er að lokum niðurfærður og honum umbreytt í almennt eigið fé þáttar 1, eða hvort tveggja, að því marki sem nauðsynlegt er til að ná markmiðum skilameðferðar skv. 1. gr. eða að því marki sem unnt er miðað við umfang viðeigandi fjármagnsgerninga, hvort sem er lægra.
    Þegar höfuðstóll viðeigandi fjármagnsgernings er niðurfærður:
     1.      Skal niðurfærslan vera endanleg en þó með fyrirvara um mögulega uppfærslu skv. 3. mgr. 55. gr.
     2.      Er hvorki til staðar skuldbinding gagnvart eiganda viðeigandi fjármagnsgernings vegna niðurfærðrar fjárhæðar gerningsins nema um sé að ræða skuldbindingu sem þegar var áfallin né skuldbinding vegna skaðabótakröfu sem kann að koma fram vegna ágreinings um lögmæti niðurfærslunnar.
     3.      Á eigandi viðeigandi fjármagnsgernings ekki rétt á öðrum skaðabótum en skv. 3. mgr.
    Skilavaldið getur krafist þess að fyrirtæki eða eining gefi út fjármagnsgerninga sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1 til eigenda viðeigandi fjármagnsgerninga til að koma umbreytingu á viðeigandi fjármagnsgerningum í framkvæmd skv. 2. tölul. 1. mgr. Slík umbreyting er einungis heimil þegar eftirfarandi skilyrði eru fyrir hendi:
     1.      Fjármagnsgerningarnir eru gefnir út af fyrirtækinu eða móðurfélagi þess með samþykki skilavaldsins eða ef við á skilastjórnvaldi móðurfélagsins.
     2.      Fjármagnsgerningarnir eru gefnir út á undan sérhverjum gerningum vegna fjárframlags úr ríkissjóði skv. XIII. kafla.
     3.      Fjármagnsgerningarnir eru gefnir út og framseldir án tafar eftir umbreytingu.
     4.      Umreikningsgengi, sem ákvarðar fjölda útgefinna gerninga sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1, er í samræmi við 64. gr.
    Skilavaldið getur krafist þess að í samþykktum fyrirtækis eða einingar sé ávallt heimild til útgáfu viðeigandi fjölda gerninga sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1 í þeim tilgangi að unnt sé að framfylgja ákvæði 3. mgr.

29. gr.

Málsmeðferð niðurfærslu og umbreytingu á samstæðugrunni.

    Áður en ákvörðun er tekin um niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga skv. 2.–5. tölul. 1. mgr. 27. gr., sem gefnir eru út af dótturfélagi til að uppfylla kröfur um eiginfjárgrunn þess og samstæðu, skal:
     1.      tilkynna án tafar viðeigandi lögbærum stjórnvöldum þegar til greina kemur að taka ákvörðun um niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga,
     2.      tilkynna það án tafar lögbærum stjórnvöldum fyrirtækis eða einingar sem gaf út þá fjármagnsgerninga sem til greina kemur að taka ákvörðun um að niðurfæra eða umbreyta skv. 3. tölul. 1. mgr. 27. gr.
    Tilkynningu skv. 1. mgr. skal fylgja rökstuðningur fyrir því hvers vegna niðurfærsla eða umbreyting fjármagnsgerninga kemur til greina. Skilavaldið skal í kjölfar tilkynningar, að undangengnu samráði við viðkomandi lögbær stjórnvöld, leggja mat á eftirfarandi atriði:
     1.      Hvort tímanleg inngrip, aðgerðir, sem kveðið er á um í 4. mgr. 86. gr. g laga um fjármálafyrirtæki, eða yfirfærsla á fjármunum eða eigin fé frá móðurfélagi komi til greina.
     2.      Ef aðgerðir skv. 1. tölul. koma til greina skal meta hvort raunhæfar líkur eru á því að þær geti innan hæfilegs tíma komið í stað niðurfærslu eða umbreytingar fjármagnsgerninga skv. 1. mgr. 27. gr.
    Komi aðrar aðgerðir skv. 1. tölul. 2. mgr. til greina skal tryggja að þeim verði beitt. Leiði mat á grundvelli 2. tölul. 2. mgr. til þess að engin önnur aðgerð telst viðeigandi skal ákveða hvort niðurfærsla eða umbreyting fjármagnsgerninga skv. 1. mgr. 27. gr. er viðeigandi aðgerð.
    Ákvörðun um niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga skv. 3. tölul. 1. mgr. 27. gr. skal þegar í stað tilkynnt viðeigandi lögbærum stjórnvöldum í þeim aðildarríkjum þar sem þau dótturfélög sem í hlut eiga eru staðsett og skal ákvörðunin vera sameiginleg með stjórnvöldunum í samræmi við 3. mgr. 91. gr. Ef ekki næst sameiginleg ákvörðun skal skilavaldið ekki taka ákvörðun skv. 3. tölul. 1. mgr. 27. gr.

VII. KAFLI

Mat á eignum og skuldbindingum.

30. gr.

Virðismat.

    Skilavaldið skal láta óháðan aðila framkvæma sanngjarnt, varfærið og raunhæft mat á virði eigna og skuldbindinga fyrirtækis eða einingar skv. b–d-lið 2. gr. áður en gripið er til skilaaðgerða eða niðurfærslu og umbreytingar fjármagnsgerninga skv. 27. gr.
    Virðismat skal upplýsa um hvort skilyrði skilameðferðar skv. 1. mgr. 35. gr. eða niðurfærslu og umbreytingar fjármagnsgerninga skv. 27. gr. eru fyrir hendi. Þá skal virðismatið leggja grunn að ákvörðun um eftirfarandi:
     1.      hvaða skilaaðgerðir eru viðeigandi gagnvart fyrirtæki eða einingu,
     2.      umfang niðurfærslu á hlutafé eða öðrum eignarhlutum og umfang niðurfærslu eða umbreytingar fjármagnsgerninga,
     3.      umfang niðurfærslu eða umbreytingar á hæfum skuldbindingum þegar skilaúrræðinu eftirgjöf er beitt,
     4.      hvaða eignir, réttindi, skuldbindingar eða eignarhluti skuli framselja þegar skilaúrræðum um framsal til brúarstofnunar eða uppskiptingar eigna er beitt og hvaða endurgjald skuli greiða til fyrirtækis eða einingar í skilameðferð eða ef við á félagsaðila,
     5.      hvaða eignir, réttindi, skuldbindingar eða eignarhluti skuli selja þegar úrræði um sölu rekstrar er beitt og hvað telst til viðskiptalegra forsendna skv. B-hluta X. kafla,
     6.      hvernig tryggja megi að tekið sé fullt tillit til rýrnunar eigna á þeim tíma þegar skilaúrræðum eða niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga er beitt.
    Virðismat skal innihalda mat á væntanlegri stöðu krafna í forgangsröð við slit eða gjaldþrot fyrirtækis eða einingar sem og líklegri meðferð fjármuna félagsaðila og krafna lánardrottna ef fyrirtæki eða einingu verður slitið samkvæmt reglum um slitameðferð eða gjaldþrotaskipti.
    Við virðismat skal ekki gera ráð fyrir hugsanlegri framtíðarlausafjárfyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands, umfram þá sem fellur undir regluleg viðskipti, eða annars konar opinberum fjárstuðningi.
    Við virðismat skal taka tillit til eftirfarandi atriða ef skilaúrræði verður beitt:
     1.      Skilavaldið og skilasjóður eiga rétt á að fá kostnað endurgreiddan frá fyrirtæki eða einingu í skilameðferð í samræmi við 81. gr.
     2.      Skilasjóður á rétt á að krefjast vaxta eða þóknunar vegna láns eða ábyrgðar sem veitt hefur verið til fyrirtækis eða einingu í skilameðferð í samræmi við 87. gr.
    Eftirfarandi upplýsingar eins og þær koma fram í reikningum eða öðrum skrám fyrirtækisins skulu fylgja með virðismati:
     1.      Uppfærður efnahags- og rekstrarreikningur og skýrsla um fjárhagsstöðu fyrirtækisins eða einingarinnar.
     2.      Greining og mat á bókfærðu virði eigna.
     3.      Skrá um útistandandi skuldbindingar innan sem utan efnahagsreiknings fyrirtækisins eða einingarinnar ásamt upplýsingum um forgangsröð þeirra við slit eða gjaldþrotaskipti.
    Þegar kröfur þessarar greinar eru uppfylltar telst virðismati lokið. Ef í ljós kemur við gerð virðismats að ekki verði unnt að uppfylla kröfur þessarar greinar skal það þá meðhöndlað sem bráðabirgðavirðismat skv. 31. gr. þar til virðismat sem uppfyllir kröfur þessarar greinar hefur farið fram, sbr. 3. mgr. 31. gr. Hraða skal vinnslu leiðrétts virðismats og er þá heimilt að sami aðilinn vinni það samhliða endanlegu virðismati skv. 32. gr., enda sé hvort um sig aðgreint frá öðru.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um nánari framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um aðferðafræði við mat á eignum og skuldbindingum fyrirtækis eða einingar, óhæði matsmanns gagnvart bæði skilavaldi og fyrirtæki eða einingu og aðgreiningu á virðismati, sbr. einnig 32. gr.

31. gr.

Bráðabirgðavirðismat.

    Skilavald getur framkvæmt bráðabirgðavirðismat á eignum og skuldbindingum fyrirtækis eða einingar ef ekki er hægt að afla óháðs virðismats skv. 30. gr. Bráðabirgðavirðismat telst fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar um beitingu skilaaðgerða.
    Bráðabirgðavirðismat skal uppfylla kröfur skv. 30. gr. að því marki sem mögulegt er. Þá skal það fela í sér varúðarfrádrag vegna óvissu um frekara tap.
    Þegar bráðabirgðavirðismat skv. 1. mgr. hefur farið fram skal, eins fljótt og auðið er, láta fara fram óháð virðismat skv. 30. gr.
    Ef hrein eign fyrirtækisins eða einingarinnar er meira virði á grunni virðismats skv. 30. gr. en á grunni bráðabirgðavirðismats skv. 1. mgr. er heimilt að:
     1.      hækka virði á kröfum lánardrottna eða eigenda viðeigandi fjármagnsgerninga sem voru niðurfærðar skv. 27 gr. eða við beitingu eftirgjafar skv. 54. og 55. gr.,
     2.      gefa brúarstofnun eða eignaumsýslufélagi fyrirmæli um að greiða frekara endurgjald fyrir eignir, réttindi eða skuldbindingar til fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, eða ef við á til félagsaðila.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um aðferðafræði fyrir útreikning á varúðarfrádragi til að mæta viðbótartapi skv. 2. mgr.

32. gr.

Endanlegt virðismat.

    Skilavaldið skal eins fljótt og auðið er, eftir að skilaaðgerð hefst, láta óháðan aðila framkvæma endanlegt virðismat sem felst meðal annars í því að metahvort félagsaðilar og lánardrottnar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð hefðu fengið betri meðferð ef fyrirtækið eða einingin hefði verið tekin til slitameðferðar eða gjaldþrotaskipta.
    Endanlegt virðismat skal ákvarða eftirfarandi:
     1.      þá meðferð sem fjármunir félagsaðila og kröfur lánardrottna og ef við á Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefðu fengið ef fyrirtækið eða einingin hefði verið tekin til slitameðferðar eða gjaldþrotaskipta á þeim tíma þegar ákvörðun um skilameðferð skv. 35. gr. var tekin.,
     2.      þá meðferð sem fjármunir félagsaðila og kröfur lánardrottna fengu við skilameðferð fyrirtækisins eða einingarinnar,
     3.      hvort einhver munur var á meðferð fjármuna félagsaðila og krafna lánardrottna skv. 1. og 2. tölul.
    Í endanlegu virðismati skal:
     1.      gengið út frá því að fyrirtæki eða eining hefði farið í slitameðferð eða gjaldþrotaskipti á þeim tíma þegar ákvörðun um skilameðferð skv. 35. gr. var tekin,
     2.      gengið út frá því að skilaaðgerð hefði ekki verið beitt,
     3.      ekki taka tillit til sérstaks opinbers fjárstuðnings hafi hann verið veittur til fyrirtækis eða einingar í skilameðferð.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um nánari framkvæmd þessarar greinar, svo sem um aðferðafræði við mat á eignum og skuldbindingum fyrirtækis eða einingar og um óhæði matsmanns gagnvart skilavaldinu og fyrirtæki eða einingu.

33. gr.

Endurskoðunarvald dómstóla vegna virðismats.

    Virðismat sem fer fram skv. 30. og 31. gr. verður einungis borið undir dómstóla samhliða ákvörðun um beitingu skilaaðgerða, sbr. 6. gr.

3. ÞÁTTUR

Skilameðferð.

VIII. KAFLI

Ákvörðun um skilameðferð.

34. gr.

Ákvörðun um hvort fyrirtæki sé á fallanda fæti.

    Fjármálaeftirlitið ákvarðar að höfðu samráði við skilavaldið hvort fyrirtæki eða eining skv. b–d-lið 2. gr. sé á fallanda fæti og skal tilkynna viðeigandi aðilum um niðurstöðu þess án tafar.

35. gr.

Ákvörðun um skilameðferð.

    Skilavaldið ákveður að fenginni tilkynningu um að fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti skv. 34. gr. hvort nauðsynlegt sé að grípa til skilaaðgerðar gagnvart því til að ná markmiðum laga þessara.
    Áður en ákvörðun um skilaaðgerð skv. 1. mgr. er tekin, sem varðar starfsmenn fyrirtækis eða einingar, skal leitast við að upplýsa og hafa samráð við fulltrúa fyrirtækisins eða einingarinnar.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal ekki grípa til skilaaðgerðar gagnvart eftirfarandi einingum:
     1.      Fjármálastofnun skv. b-lið 2. gr. nema móðurfélag hennar sé einnig á fallanda fæti.
     2.      Eignarhaldsfélagi skv. c- eða d-lið 2. gr. nema dótturfélag þess, sem er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki, sé einnig á fallanda fæti eða ef dótturfélag þess, sem er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki, er á fallanda fæti og eignir og skuldir dótturfélagsins eru slíkar að fall þess stefni annarri lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki í samstæðunni eða samstæðunni í heild í hættu. Ef dótturfélag er með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst það á fallanda fæti í skilningi þessa töluliðar ef það fullnægir að mati þarlendra yfirvalda skilyrðum fyrir skilameðferð samkvæmt lögum þess ríkis.
     3.      Blönduðu eignarhaldsfélagi ef dótturfélag þess, sem er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki, er beint eða óbeint í eigu eignarhaldsfélags á fjármálasviði, sem er milliliður, heldur gagnvart eignarhaldsfélaginu á fjármálasviði.
    Skilastjórnvald eignarhaldsfélags og skilastjórnvald fyrirtækis, sem er dótturfélag eignarhaldsfélagsins, geta að því er varðar 2. tölul. 3. mgr. sammælst um að líta fram hjá hvers konar hreyfingum á fjármagni innan samstæðunnar eða tapi milli fyrirtækisins og einingarinnar við mat á því hvort skilyrðum fyrir skilaaðgerð sé fullnægt vegna dótturfélagsins.
    Viðeigandi aðilum skal send tímasett og rökstudd ákvörðun um skilaaðgerð sem gripið er til svo fljótt sem auðið er. Skilavaldið skal jafnframt tryggja að ákvörðunin eða samantekt á áhrifum hennar, einkum á almenna viðskiptavini fyrirtækisins eða einingarinnar, og skilmálar og tímafrestir takmarkana sem vísað er til í 70.–72. gr., ef við á, séu birtir svo fljótt sem auðið er á vefsíðu fyrirtækisins eða einingarinnar, Seðlabankans og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Sama efni skal birt með sömu aðferð og notuð er við opinberar birtingar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti hafi eignarhalds- eða skuldagerningar fyrirtækisins eða einingarinnar verið teknir til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði, en ella skal senda sama efni til félagsaðila og lánardrottna og skilavaldið hefur upplýsingar um í skrám fyrirtækisins.

36. gr.

Reglur Seðlabanka Íslands.

    Seðlabanki Íslands getur sett reglur um framkvæmd þessa kafla, þar á meðal tilkynningar skv. 34. og 35. gr.

IX. KAFLI

Upphafsaðgerðir skilameðferðar.

37. gr.

Yfirráð við skilameðferð.

    Skilavaldið getur, í því skyni að grípa til og beita skilaaðgerðum, tekið yfir vald hluthafafundar og ákvörðunarvald stjórnar fyrirtækis eða einingar skv. b–d-lið 2. gr. í skilameðferð og stýrt starfsemi þess og þjónustu ásamt því að hlutast til um og selja eignir fyrirtækisins eða einingarinnar.
    Skilavaldinu er heimilt að fara sjálft með yfirráð skv. 1. mgr. eða fela það skilastjórn skv. 38. gr.

38. gr.

Skilastjórn.

    Skilavaldið getur skipað fyrirtæki eða einingu í skilameðferð skilastjórn til allt að árs í senn. Sérfræðingar í skilastjórn mega vera einn eða fleiri. Þeir skulu uppfylla þær hæfiskröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum og ekki vera í slíkum tengslum við fyrirtæki eða einingu, einstaka félagsaðila eða lánardrottna eða aðra haghafa að draga megi í efa óhlutdrægni þeirra. Skilavaldið semur við skilastjórn um þóknun og greiðir kostnað af störfum hennar. Heimilt er að draga skipun skilastjórnar til baka hvenær sem er.
    Skilastjórn fer með heimildir félagsaðila og stjórnar fyrirtækis eða einingar. Hún vinnur að markmiðum laga þessara, framfylgir ákvörðunum skilavaldsins og gefur því reglubundnar skýrslur um störf sín og stöðu fyrirtækisins eða einingarinnar, þar á meðal við upphaf og lok skipunartíma síns.
    Ef skilastjórnvald í öðru aðildarríki hyggst skipa skilastjórn yfir fyrirtæki eða einingu sem tilheyrir sömu samstæðu og fyrirtæki eða eining skv. 1. mgr. skal kanna hvort tilefni sé til að skipa sameiginlega skilastjórn yfir bæði fyrirtæki eða einingar.

X. KAFLI

Skilaúrræði.

A. Sameiginleg ákvæði.

39. gr.

Áskilnaður um niðurfærslu eða umbreytingu.

    Skilaúrræði sem veldur lánardrottnum fyrirtækis eða einingar skv. b–d-lið 2. gr. tapi eða umbreytir kröfum þeirra skal ekki beita nema rétt áður eða samhliða hafi viðeigandi fjármagnsgerningar fyrirtækisins eða einingarinnar verið niðurfærðir eða þeim umbreytt skv. 27. gr.

40. gr.

Undanþágur frá takmörkunum á framsali.

    Sala rekstrar, framsal til brúarstofnunar og uppskipting eigna krefst ekki samþykkis fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, félagsaðila eða lánardrottna þess eða annarra þriðju aðila. Eigendur eigna, réttinda eða skuldbindinga sem eru ekki framseldar hafa engin réttindi gagnvart framseldum eignum, réttindum og skuldbindingum, sbr. þó 80. gr.
    Kröfur um málsmeðferð á sviði félaga- eða verðbréfamarkaðsréttar skulu ekki standa í vegi fyrir sölu rekstrar, framsali til brúarstofnunar eða uppskiptingu eigna.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. 3. gr. og 4. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda ekki um aðilaskipti við sölu rekstrar, framsal til brúarstofnunar eða uppskiptingu eigna.

B. Sala rekstrar.

41. gr.

Sala rekstrar.

    Skilavaldið getur selt eignarhluti í fyrirtæki eða einingu skv. b–d-lið 2. gr. og eignir, réttindi og skuldbindingar þess til lögaðila sem er ekki brúarstofnun eða eignaumsýslufélag.
    Sala rekstrar skal vera eins opin og gagnsæ og aðstæður leyfa, leitast skal við að hámarka söluverðið, án þess þó að sala dragist óhæfilega, og ekki skal mismuna mögulegum kaupendum. Víkja má frá 1. málsl. ef markmið laga þessara krefjast þess.

42. gr.

Hæfi til að fara með virkan eignarhlut.

    Sala rekstrar getur komið til framkvæmda þótt Fjármálaeftirlitið hafi ekki lokið mati á hæfi kaupanda til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Meðan á því stendur fer skilavaldið með atkvæðisrétt sem fylgir hinum selda eignarhlut.
    Ef Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að kaupandi sé ekki hæfur til að fara með virka eignarhlutinn fer skilavaldið áfram með atkvæðisrétt sem fylgir eignarhlutnum fram að sölu hans en það getur sett kaupanda frest til að selja hann.
    Skilavaldið ber enga ábyrgð gagnvart kaupanda á því hvort eða hvernig það nýtir atkvæðisrétt samkvæmt grein þessari.

43. gr.

Réttarstaða kaupanda.

    Kaupandi tekur við réttindum og skyldum og gengur inn í samninga sem tengjast seldum eignum, réttindum og skuldbindingum.
    Kaupandi er undanþeginn skilyrðum um lánshæfismat fyrir þátttöku í greiðslu-, greiðslujöfnunar- og verðbréfauppgjörskerfum, kauphöll, bótakerfi fyrir fjárfesta og innstæðutryggingakerfi. Heimilt er að skylda aðila skv. 1. málsl. til að veita kaupanda aðgang að kerfunum til allt að 24 mánaða í senn þótt hann fullnægi ekki öðrum skilyrðum fyrir þátttöku.

44. gr.

Framsal til fyrri eigenda.

    Skilavaldið getur, með samþykki kaupanda, framselt eignarhluti eða eignir, réttindi og skuldbindingar sem seldar hafa verið við sölu rekstrar aftur til fyrri eigenda og er þeim skylt að taka við þeim og endurgreiða það endurgjald sem þeir fengu.

C. Framsal til brúarstofnunar.

45. gr.

Stofnsetning brúarstofnunar.

    Skilavaldið getur stofnað brúarstofnun í þeim tilgangi að taka við og viðhalda nauðsynlegri starfsemi sem framselja á til hennar.
    Skilavaldið samþykkir stofnskjöl, viðskiptaáætlun og áhættusnið brúarstofnunar. Það skipar eða samþykkir stjórn og framkvæmdastjóra brúarstofnunar, ákvarðar ábyrgðarsvið og samþykkir starfskjör þeirra.
    Fjármálaeftirlitið getur, að ósk skilavaldsins, veitt brúarstofnun tímabundið starfsleyfi til að starfrækja starfsemi sem framselja á til hennar þótt hún fullnægi ekki skilyrðum starfsleyfis ef það er nauðsynlegt til að ná markmiðum laga þessara.

46. gr.

Framsal til brúarstofnunar.

    Skilavaldið getur framselt eignarhluti í fyrirtæki eða einingu skv. b–d-lið 2. gr. og eignir, réttindi og skuldbindingar til brúarstofnunar ef það er nauðsynlegt til að viðhalda nauðsynlegri starfsemi.
    Endurgjald fyrir framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar skal miðast við virðismat skv. VII. kafla. Heildarvirði skuldbindinga sem framseldar eru til brúarstofnunar má ekki vera meira en heildarvirði eigna sem framseldar eru til hennar eða henni lagðar til með öðrum hætti.

47. gr.

Réttarstaða brúarstofnunar.

    Brúarstofnun tekur við réttindum og skyldum og gengur inn í samninga sem tengjast framseldum eignum, réttindum og skuldbindingum.
    Brúarstofnun er undanþegin skilyrðum um lánshæfismat fyrir þátttöku í greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfum, kauphöll, bótakerfi fyrir fjárfesta og innstæðutryggingakerfi. Heimilt er að skylda aðila skv. 1. málsl. til að veita brúarstofnun aðgang að kerfunum til allt að 24 mánaða í senn þótt hún fullnægi ekki öðrum skilyrðum fyrir þátttöku.
    Brúarstofnun, stjórn hennar og framkvæmdastjóri eru einungis ábyrg fyrir tjóni sem þau valda félagsaðilum eða lánardrottnum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð í störfum sínum ef tjónið stafar af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

48. gr.

Sala brúarstofnunar.

    Brúarstofnun eða eignir, réttindi og skuldbindingar hennar skulu seldar einkaaðilum þegar aðstæður leyfa og eigi síðar en tveimur árum frá framsali til brúarstofnunar. Skilavaldið má með rökstuddri ákvörðun framlengja frestinn um ár í senn ef það er nauðsynlegt til að viðhalda nauðsynlegri starfsemi eða greiða fyrir sölu.
    Sala skv. 1. mgr. skal vera eins opin og gagnsæ og aðstæður leyfa, leitast skal við að hámarka söluverðið, án þess þó að sala dragist óhæfilega, og ekki skal mismuna mögulegum kaupendum.
    Skilavaldið getur framselt eignarhluti eða eignir, réttindi og skuldbindingar sem framseldar hafa verið til brúarstofnunar aftur til fyrri eigenda og er þeim skylt að taka við þeim og endurgreiða það endurgjald sem þeir fengu ef:
     1.      fyrirvari var gerður um slíkt í ákvörðun um framsal til brúarstofnunarinnar, eða
     2.      skilyrðum fyrir framsali til brúarstofnunarinnar samkvæmt ákvörðuninni var ekki fullnægt.

49. gr.

Slit á brúarstofnun.

    Brúarstofnun skal tekin til slita að kröfu skilavaldsins þegar öllum eignum, réttindum og skuldbindingum hennar sem nokkru varða hefur verið ráðstafað eða að liðnum fresti skv. 1. mgr. 48. gr.
    Hafi eignarhlutir eða eignir, réttindi og skuldbindingar frá fleiri en einu fyrirtæki eða einingu verið framseldar til brúarstofnunar og eignarhlutir eða eignir, réttindi og skuldbindingar frá stöku fyrirtæki eða einingu ekki verið seldar innan frests skv. 1. mgr. 48. gr. skal þeim komið fyrir í sérstöku félagi sem skal tekið til slita eða bú þess til gjaldþrotaskipta.

D. Uppskipting eigna.

50. gr.

Stofnsetning eignaumsýslufélags.

    Skilavaldið getur stofnað eignaumsýslufélag í þeim tilgangi að hafa umsjón með eignum, réttindum og skuldbindingum sem framselja á til þess.
    Skilavaldið samþykkir stofnskjöl, viðskiptaáætlun og áhættusnið eignaumsýslufélags. Það skipar eða samþykkir stjórn og framkvæmdastjóra eignaumsýslufélags, ákvarðar ábyrgðarsvið og samþykkir starfskjör þeirra.

51. gr.

Uppskipting eigna.

    Skilavaldið getur framselt eignir, réttindi og skuldbindingar fyrirtækis, einingar skv. b–d-lið 2. gr. eða brúarstofnunar til eignaumsýslufélags ef ráðstöfun þeirra við slitameðferð eða gjaldþrotaskipti gæti haft neikvæð áhrif á fjármálamarkað eða ef framsalið er nauðsynlegt til að tryggja eðlilega starfsemi fyrirtækisins, einingarinnar eða brúarstofnunarinnar eða til þess að hámarka söluandvirði eigna. Uppskiptingu eigna verður einungis beitt ásamt öðru skilaúrræði.
    Endurgjald fyrir framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar skal miðast við virðismat skv. VII. kafla.

52. gr.

Takmörkun á bótaábyrgð.

    Eignaumsýslufélag, stjórn þess og framkvæmdastjóri eru einungis ábyrg fyrir tjóni sem þau valda félagsaðilum eða lánardrottnum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð í störfum sínum ef tjónið stafar af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

53. gr.

Sala eignaumsýslufélags.

    Eignaumsýslufélag eða eignir, réttindi og skuldbindingar þess skulu seldar þegar aðstæður leyfa.
    Sala skv. 1. mgr. skal vera eins opin og gagnsæ og aðstæður leyfa, leitast skal við að hámarka söluverðið, án þess þó að sala dragist óhæfilega, og ekki skal mismuna mögulegum kaupendum.
    Skilavaldið getur framselt eignir, réttindi og skuldbindingar sem framseldar hafa verið til eignaumsýslufélags aftur til fyrirtækisins eða einingarinnar og er því skylt að taka við þeim og endurgreiða það endurgjald sem það fékk ef:
     1.      fyrirvari var gerður um slíkt í ákvörðun um framsal til eignaumsýslufélagsins, eða
     2.      skilyrðum fyrir framsali til eignaumsýslufélagsins samkvæmt ákvörðuninni var ekki fullnægt.

E. Eftirgjöf.

54. gr.

Eftirgjöf.

    Skilavaldið getur beitt eftirgjöf í eftirfarandi tilgangi:
     1.      Til að endurfjármagna fyrirtæki eða einingu skv. b–d-lið 2. gr. í skilameðferð svo að það fullnægi skilyrðum starfsleyfis, haldi áfram starfsemi í samræmi við starfsleyfið og viðhaldið fullnægjandi trausti á fjármálamarkaði.
     2.      Til að umbreyta í eigið fé eða lækka höfuðstól krafna eða skuldaskjala sem framseld eru, til brúarstofnunar, með sölu rekstrar eða við uppskiptingu eigna skv. B-, C- eða D-hluta X. kafla.
    Einungis er heimilt að beita eftirgjöf skv. 1. tölul. 1. mgr. ef verulegar líkur eru á því að eftirgjöf og aðrar viðeigandi ráðstafanir um endurskipulagningu rekstrar skv. 60. gr. séu fullnægjandi til þess að endurreisa fjárhag fyrirtækisins eða einingarinnar og tryggja rekstrargrundvöll til framtíðar. Þrátt fyrir að skilyrði skv. 1. málsl. séu ekki uppfyllt er heimilt að beita eftirgjöf skv. 2. tölul. 1. mgr. og öðrum skilaúrræðum.
    Heimilt er að beita eftirgjöf án tillits til félagaforms fyrirtækisins eða einingarinnar og breyta félagaformi þess ef nauðsyn krefur.

55. gr.

Umfang eftirgjafar.

    Við beitingu eftirgjafar skal meta í samræmi við VII. kafla, eftir því sem við á:
     1.      hversu mikið þarf að lækka hæfar skuldbindingar til þess að verðmæti hreinnar eignar fyrirtækisins eða einingarinnar verði núll, og
     2.      hversu mikið þarf að umbreyta hæfum skuldbindingum í hlutafé eða aðra fjármagnsgerninga til þess að endurreisa almennt eigið fé þáttar 1 hjá fyrirtækinu, einingunni eða brúarstofnuninni.
    Eftirgjöf má ekki valda félagsaðila eða lánardrottni meira tapi en hann hefði orðið fyrir hefði fyrirtækið eða einingin verið tekin til slitameðferðar eða gjaldþrotaskipta.
    Ef fjármagnsgerningar hafa verið niðurfærðir skv. VI. kafla og eftirgjöf skv. 54. gr. beitt er heimilt að beita uppfærslu til hagsbóta fyrir lánardrottna og síðan ef við á félagsaðila, ef niðurfærsla sem grundvallast hefur á bráðabirgðavirðismati skv. 31. gr. var meiri en ástæða var til miðað við endanlegt virðismat skv. 32. gr.
    Skilavaldið skal á hverjum tíma hafa aðgang að upplýsingum og ráða yfir kerfi til þess að geta lagt mat á virði eigna og skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð.

56. gr.

Takmarkanir eftirgjafar.

    Eftirgjöf má beita á skuldbindingar fyrirtækis eða einingar. Óheimilt er þó að beita eftirgjöf gagnvart eftirfarandi skuldbindingum:
     1.      Tryggðum innstæðum, sbr. lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
     2.      Tryggðum skuldbindingum, þ.m.t. sértryggðum skuldabréfum, sbr. lög um sértryggð skuldabréf, og fjármálagerningum sem ætlaðir eru til áhættuvarna og teljast hluti tryggingasafns og njóta sambærilegrar verndar að lögum og sértryggð skuldabréf.
     3.      Skuldbindingum vegna eigna sem fyrirtæki eða eining heldur utan um fyrir hönd viðskiptavina sinna, þ.m.t. eigna verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða, sbr. lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, og njóta verndar skv. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     4.      Skuldbindingum vegna fjárvörslusambands milli fyrirtækis eða einingar og rétthafa enda njóti slíkur rétthafi verndar skv. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eða öðrum lögum.
     5.      Skuldbindingum gagnvart fyrirtækjum, öðrum en þeim sem eru innan sömu samstæðu, sem falla til greiðslu innan sjö daga.
     6.      Skuldbindingum sem gjaldfalla innan sjö daga gagnvart greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfum, sbr. lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, eða þátttakendum í slíkum kerfum sem stafa af þátttöku þeirra í kerfunum.
     7.      Skuldbindingum gagnvart starfsmönnum, þ.m.t. ógreiddum áunnum launum, iðgjaldi í lífeyrissjóð, áunnu orlofi og öðrum starfskjörum, en þó ekki kaupaukum nema þeir séu ákveðnir með almennum kjarasamningum.
     8.      Viðskiptaskuldum vegna kaupa á vöru og þjónustu sem nauðsynleg er til daglegrar starfsemi fyrirtækisins eða einingarinnar.
     9.      Skuldum við skattyfirvöld og almannatryggingar ef þær njóta forgangs við gjaldþrotaskipti.
     10.      Ógreiddum iðgjöldum til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Við sérstakar aðstæður er skilavaldinu heimilt við eftirgjöf að undanskilja í heild eða að hluta tilteknar skuldbindingar þegar:
     1.      ekki er unnt að beita eftirgjöf gagnvart skuldbindingu innan hæfilegra tímamarka,
     2.      skuldbindingin er nauðsynleg til að halda áfram nauðsynlegri starfsemi og kjarnastarfsemi og viðheldur getu fyrirtækis í skilameðferð til að stunda viðskipti og veita þjónustu,
     3.      skuldbindingin er nauðsynleg til að komast hjá smitáhrifum, sérstaklega hvað varðar tryggingarhæfar innstæður einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga, og henni er ætlað að stemma stigu við óstöðugleika á fjármálamörkuðum og innviðum þeirra sem gæti leitt til alvarlegra truflana í efnahagsstarfsemi hér á landi eða á Evrópska efnahagssvæðinu, eða
     4.      beiting eftirgjafar á skuldbindinguna leiðir til fjártjóns annarra lánardrottna umfram það sem yrði væri skuldbindingin undanskilin eftirgjöf.
    Áður en tekin er endanleg ákvörðun um að undanþiggja skuldbindingu eftirgjöf skv. 2. mgr. skal fyrirhuguð ákvörðun tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA. Ef kröfur samkvæmt þessari grein og 57. gr. eru ekki uppfylltar og gert er ráð fyrir fjárframlagi úr skilasjóði fyrir undanþágunni eða annarri opinberri fjármögnun skv. 57. gr. getur Eftirlitsstofnun EFTA innan 24 klukkustunda frá slíkri tilkynningu bannað eða takmarkað slíka undanþágu. Frestinn má lengja í samráði við skilavaldið.
    Ráðherra skal setja reglugerð um aðstæður sem heimila undanþágu skv. 2. mgr.

57. gr.

Heimild til að undanskilja hæfar skuldbindingar eftirgjöf.

    Þegar fyrir liggur ákvörðun um að undanskilja í heild eða að hluta hæfar skuldbindingar eða flokka þeirra skv. 2. mgr. 56. gr. er heimilt að auka hlutfallslega eftirgjöf annarra hæfra skuldbindinga til að mæta áhrifum undanþágunnar. Engin hæf skuldbinding skal þó sæta meiri niðurfærslu en orðið hefði ef fyrirtækið eða einingin hefði verið tekin til slitameðferðar eða gjaldþrotaskipta.
    Þegar ákveðið er að undanskilja í heild eða að hluta hæfar skuldbindingar eða flokka þeirra eftirgjöf skv. 2. mgr. 56. gr. og fjárhæð eftirgjafar sem þessar skuldbindingar hefðu annars sætt er ekki jafnað yfir á aðrar hæfar skuldbindingar í samræmi við 1. mgr. er heimilt að leggja til fjárframlag til fyrirtækis eða einingar í skilameðferð úr skilasjóði til að ná öðru hvoru eða báðum eftirfarandi markmiðum:
     1.      Bæta þá fjárhæð sem ekki er jafnað yfir á aðrar hæfar skuldbindingar að því marki að eiginfjárstaða viðkomandi fyrirtækis eða einingar í skilameðferð standi á núlli, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 55. gr.
     2.      Kaupa eignarhluti eða fjármagnsgerninga útgefna af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð í þeim tilgangi að endurfjármagna það, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 55. gr.
    Einungis er heimilt að leggja til fjárframlag skv. 2. mgr. úr skilasjóði þegar:
     1.      félagsaðilar, eigendur fjármagnsgerninga og eigendur hæfra skuldbindinga hafa með eftirgjöf eða öðrum hætti lagt fyrirtæki eða einingu í skilameðferð til a.m.k. 8% af heildarskuldbindingum þess, þ.m.t. eigið fé, eins og þær eru metnar skv. VII. kafla við beitingu skilaaðgerða, og
     2.      fjárframlag skilasjóðs fer ekki umfram 5% af heildarskuldbindingum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, þ.m.t. eigið fé, eins og þær eru metnar skv. VII. kafla við beitingu skilaaðgerða.
    Skilavaldið getur við sérstakar aðstæður leitað frekari fjárframlaga þegar viðmiðunarmarkinu skv. 2. tölul. 3. mgr. er náð og allar ótryggðar og forgangslausar skuldbindingar, aðrar en tryggingarhæfar innstæður, hafa verið niðurfærðar eða þeim umbreytt að fullu.
    Þegar allar skuldbindingar fyrirtækis eða einingar sem heimilt er að beita eftirgjöf skv. 56. gr. hafa verið niðurfærðar eða þeim umbreytt, og Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur lagt til fjárframlag í samræmi við 82. gr., getur skilasjóður lagt til fjárframlag skv. 2. og 3. mgr.

58. gr.

Röð niðurfærslu og umbreytingar við eftirgjöf.

    Þegar eftirgjöf er beitt skal niðurfærsla eða umbreyting fylgja eftirfarandi röð:
     1.      Almennt eigið fé þáttar 1 er niðurfært skv. skilyrðum 1. tölul. 1. mgr. 27. gr.
     2.      Ef niðurfærsla skv. 1. tölul. nær ekki samtölu fjárhæða sem leiða af 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. skal færa niður höfuðstól fjármagnsgerninga sem teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 að því marki sem nauðsynlegt er miðað við umfang þeirra.
     3.      Ef niðurfærsla skv. 1. og 2. tölul. nær ekki samtölu fjárhæða sem leiða af 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. skal færa niður höfuðstól fjármagnsgerninga sem teljast til þáttar 2 að því marki sem nauðsynlegt er miðað við umfang þeirra.
     4.      Ef niðurfærsla skv. 1.–3. tölul. nær ekki samtölu fjárhæða sem leiða af 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. skal færa niður höfuðstól víkjandi lána sem hvorki teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 né þáttar 2 í samræmi við meginreglur um forgangsröð krafna við slit eða gjaldþrot að því marki sem nauðsynlegt er til þess að ná þeim fjárhæðum sem leiða af 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr.
     5.      Ef niðurfærsla skv. 1.–4. tölul. nær ekki samtölu fjárhæða sem leiða af 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. skal færa niður höfuðstól annarra hæfra skuldbindinga sem eftir standa, sem ekki eru undanþegnar eftirgjöf, í samræmi við meginreglur um forgangsröð krafna við slit eða gjaldþrot, þ.m.t. forgangsröðun innstæðna skv. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 56. gr., að því marki sem nauðsynlegt er til þess að ná þeim fjárhæðum sem leiða af 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr.
    Þegar eftirgjöf er beitt skal fjárhæð taps skv. 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. vera hlutfallslega sú sama á milli annars vegar eignarhluta og hins vegar jafnrétthárra hæfra skuldbindinga, nema ákvæði 2. mgr. 56. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr., eigi við. Ákvæði 1. málsl. kemur ekki í veg fyrir að skuldbindingar sem eru undanskildar eftirgjöf skv. 1. og 2. mgr. 56. gr. hljóti hagstæðari meðferð en jafnréttháar skuldbindingar við slit eða gjaldþrot.
    Áður en höfuðstóll skuldbindinga skv. 5. tölul. 1. mgr. er niðurfærður skal umbreyta eða niðurfæra höfuðstól gerninga sem vísað er til í 2.–4. tölul. 1. mgr., ef þeim hefur ekki þegar verið umbreytt eða þeir niðurfærðir, enda hafi þeir að geyma ákvæði sem gera ráð fyrir lækkun höfuðstóls þeirra við tilteknar aðstæður sem tengjast fjárhagsstöðu, gjaldfærni eða stöðu eigin fjár fyrirtækis eða einingar eða umbreytingar í eignarhluta við hliðstæðar aðstæður.
    Ef gerningar sem vísað er til í 2.–4. tölul. 1. mgr. hafa einungis verið niðurfærðir að hluta vegna aðstæðna skv. 3. mgr. skal beita eftirstandandi fjárhæð eftirgjöf í samræmi við 1. mgr.

59. gr.

Afleiðusamningar.

    Við upphaf skilameðferðar er skilavaldinu heimilt að segja upp eða gera upp afleiðusamninga. Þá er heimilt að beita eftirgjöf gagnvart þeim skuldbindingum sem myndast vegna afleiðusamninga, við eða eftir uppgjör þeirra, nema þeir séu undanþegnir eftirgjöf skv. 2. mgr. 56. gr. Ekki skal gripið til niðurfærslu eða umbreytingar á afleiðusamningi nema honum hafi áður verið sagt upp og hann gerður upp.
    Ef afleiðuviðskipti eru hluti af greiðslujöfnunarsamningi skal virðismat skv. VII. kafla ná til skuldbindingarinnar sem myndast vegna viðskiptanna á hreinum grunni í samræmi við skilmála samningsins.
    Skuldbindingar sem myndast vegna afleiðusamninga skal meta í samræmi við eftirfarandi:
     1.      Hver flokkur afleiðusamninga, þ.m.t. viðskipti vegna greiðslujöfnunarsamninga, skal metinn samkvæmt viðeigandi aðferðafræði.
     2.      Meginreglur um viðeigandi tímamörk á virði einstakra afleiðusamninga.
     3.      Viðeigandi aðferðafræði til að bera saman virðisrýrnun sem mundi annars vegar leiða af uppgjöri og eftirgjöf afleiðusamnings og hins vegar tapi á afleiðusamningi vegna eftirgjafar.
    Seðlabanki Íslands gefur út reglur sem tilgreina nánar aðferðafræði og meginreglur við mat skv. 3. mgr.

60. gr.

Endurskipulagning rekstrar í kjölfar eftirgjafar.

    Þegar eftirgjöf skv. 54. gr. er beitt til að endurfjármagna fyrirtæki eða einingu skal fela stjórn fyrirtækisins eða einingarinnar, eða skilastjórn sem skipuð er skv. skv. 2. mgr. 37. gr., sbr. 38. gr., að endurskipuleggja rekstur og vinna eftir áætlun þar um.
    Áætlun um endurskipulagningu rekstrar skal tilgreina aðgerðir sem grípa þarf til í þeim tilgangi að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækis eða einingar og skal hún byggjast á raunhæfu mati á efnahags- og fjárhagslegum skilyrðum á þeim markaði sem fyrirtækið eða einingin starfar á. Áætlunin skal taka mið af núverandi aðstæðum á fjármálamarkaði og framtíðarhorfum með tilliti til sviðsmynda um bestu og verstu skilyrði þar sem horft er til helstu veikleika í rekstri fyrirtækisins eða einingarinnar og skal hún a.m.k. innihalda eftirfarandi:
     1.      Ítarlega greiningu á þeim þáttum og vandamálum hjá fyrirtæki eða einingu sem urðu til þess að fyrirtækið eða einingin var á fallanda fæti og þær aðstæður sem leiddu til erfiðleikanna.
     2.      Lýsingu á aðgerðum sem fyrirhugað er að ráðast í til þess að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækisins eða einingarinnar til framtíðar.
     3.      Tímasetta áætlun um framkvæmd aðgerða.
    Innan mánaðar frá beitingu eftirgjafar skal stjórn fyrirtækisins eða einingarinnar, eða skilastjórn sem tekið hefur yfir stjórn skv. 2. mgr. 37., sbr. 38. gr., afhenda Skilvaldinu áætlun um endurskipulagningu rekstrar. Við sérstakar aðstæður er heimilt að framlengja frestinn um einn mánuð.
    Skilavaldið skal innan mánaðar frá móttöku áætlunar um endurskipulagningu rekstrar meta hvort sennilegt sé að hún nái að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækisins eða einingarinnar til framtíðar. Áætlunin skal samþykkt ef talið er að markmið hennar gangi eftir.
    Ef ekki er talið að markmið áætlunarinnar gangi eftir skv. 4. mgr. skal tilkynna það stjórn fyrirtækisins, einingarinnar eða skilastjórn. Í tilkynningunni skal tilgreina hvaða þættir eru ófullnægjandi og krefjast úrbóta. Stjórn fyrirtækis eða einingar eða skilastjórn hefur að hámarki tvær vikur til þess að afhenda uppfærða áætlun til samþykktar. Innan viku frá móttöku uppfærðrar áætlunar skal samþykkja hana eða koma frekari athugasemdum á framfæri.
    Stjórn fyrirtækis, einingar eða skilastjórn skal hrinda áætluninni í framkvæmd þegar samþykki liggur fyrir og senda skýrslu um framvindu vinnunnar á sex mánaða fresti.
    Stjórn fyrirtækis, einingar eða skilastjórn skal endurskoða áætlun um endurskipulagningu rekstrar eftir að framkvæmd hennar er hafin ef skilavaldið telur það nauðsynlegt til að markmið hennar gangi eftir skv. 2. mgr. Senda skal skilavaldinu allar breytingar á áætluninni til samþykktar.
    Ef eftirgjöf er beitt gagnvart fleiri en einu fyrirtæki eða einingu innan samstæðu skal móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu gera áætlun um endurskipulagningu rekstrar sem nær til allra fyrirtækja eða eininga samstæðunnar. Móðurfélagið skal senda áætlunina til samstæðuskilavalds sem skal miðla henni áfram til annarra skilastjórnvalda þar sem samstæðan er með starfsemi og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.
    Seðlabanki Íslands gefur út reglur sem kveða nánar á um efni áætlunar skv. 2. mgr. og skýrslna skv. 6. mgr.

XI. KAFLI

Almennar skilaheimildir o.fl.

61. gr.

Almennar heimildir.

    Skilavaldið skal hafa nauðsynlegar skilaheimildir, sem heimilt er að beita hverri fyrir sig eða í sameiningu, til að grípa til skilaúrræða gagnvart fyrirtæki eða einingu skv. b–d-lið 2. gr. sem uppfyllir skilyrði skilameðferðar. Almennar skilaheimildir felast í að:
     1.      krefjast upplýsinga frá einstaklingum og lögaðilum vegna framkvæmdar laganna, sbr. 7. og 12. gr.,
     2.      öðlast yfirráð yfir fyrirtæki eða einingu í skilameðferð og beita öllum þeim valdheimildum sem félagsaðilar og stjórn fyrirtækisins eða einingarinnar hafa, sbr. IX. kafli,
     3.      framselja eignarhluti sem eru útgefnir af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, sbr. t.d. B- og C-hluta X. kafla,
     4.      framselja réttindi, eignir eða skuldbindingar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til framsalshafa með samþykki hans, sbr. B-, C- og D-hluta X. kafla.
     5.      niðurfæra höfuðstól eða útistandandi gjaldfallna fjárhæð skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, sbr. VI. kafla og E-hluta X. kafla,
     6.      umbreyta skuldbindingum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð í eignarhluti í því fyrirtæki, einingu, móðurfélagi eða brúarstofnun sem eignirnar, réttindin eða skuldbindingarnar eru framseldar til, sbr. VI. kafla og E-hluta X. kafla,
     7.      ógilda skuldaskjöl útgefin af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, sbr. VI. kafla, E-hluta X. kafla og 63. gr., þó ekki skuldbindingar sem eru undanþegnar eftirgjöf skv. 1. mgr. 56. gr.,
     8.      lækka nafnverð eignarhluta fyrirtækis eða einingar í skilameðferð eða afskrifa slíka eignarhluti, sbr. VI. kafla og 39. gr.,
     9.      krefjast þess að fyrirtæki eða eining í skilameðferð gefi út nýja eignarhluti eða fjármagnsgerninga, þ.m.t. forgangshluti og skilyrta breytanlega gerninga.
     10.      segja upp eða gera upp fjárhagslega samninga eða afleiðusamninga í þeim tilgangi að beita 59. gr.,
     11.      beina því til Fjármálaeftirlitsins að það meti tímanlega hæfi kaupanda til að fara með virkan eignarhlut með því að víkja frá tímafresti skv. VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 42. gr.,
     12.      víkja stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra fyrirtækis eða einingar í skilameðferð frá störfum. Stjórn og framkvæmdastjóra fyrirtækis eða einingar skal skipt út nema annað sé nauðsynlegt til að ná markmiðum skilameðferðar skv. 1. gr.,
     13.      krefjast þess að stjórn og framkvæmdarstjóri fyrirtækis eða einingar í skilameðferð veiti skilavaldinu, og ef við á skilastjórn skv. 38. gr., alla nauðsynlega aðstoð, hafi þeim ekki verið vikið frá störfum,
     14.      krefjast þess að fyrirtæki eða eining í skilameðferð eða brúarstofnun verði tekin til slita.
    Þegar skilavaldið beitir heimildum skv. 1. mgr. er það ekki bundið af eftirfarandi:
     1.      Heimild eða samþykki frá ákveðnum einstaklingum eða lögaðilum, hvort sem þeir eru opinberir aðilar eða einkaaðilar, þ.m.t. félagsaðilar eða lánardrottnar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, nema annað leiði af lögum þessum.
     2.      Fyrirframtilkynningu til ákveðinna aðila, m.a. um að birta tilkynningar eða lýsingar eða skjalfesta eða skrá gögn hjá öðrum aðila, sbr. þó 5. mgr. 35. gr.
    Beiting heimilda skv. 1. mgr. er án tillits til takmarkana eða kröfu um samþykki fyrir framsali viðeigandi fjárhagslegra samninga, réttinda, eigna eða skuldbindinga sem annars kunna að eiga við.

62. gr.

Viðbótarheimildir.

    Við beitingu skilaheimilda er skilavaldinu heimilt að:
     1.      ákveða að framsal taki gildi án þess að skuldbinding eða ábyrgð hafi áhrif á fjármálagerninginn, réttindin, eignirnar eða skuldbindingarnar sem framseldar eru, sbr. þó 75. gr.,
     2.      afturkalla réttindi til að kaupa frekari eignarhluti,
     3.      beina því til Fjármálaeftirlitsins að það stöðvi viðskipti með fjármálagerninga eða taki þá úr viðskiptum, og
     4.      krefjast þess að fyrirtæki eða eining í skilameðferð og mótaðili þess skiptist á upplýsingum og veiti hvor öðrum aðstoð.
    Einungis er heimilt að beita heimildum skv. 1. mgr. ef það er nauðsynlegt til að tryggja skilvirka beitingu skilaaðgerða eða til að ná einu eða fleiri af markmiðum skilameðferðar skv. 1. gr.
    Skilavaldið skal hafa nauðsynlegan aðgang að allri þjónustu eða aðstöðu hjá fyrirtæki eða einingu í skilameðferð eða fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu til að gera viðtakanda kleift að starfrækja með skilvirkum hætti þann rekstur sem framseldur er.
    Við beitingu skilaheimilda skal tryggja áframhaldandi fyrirkomulag þannig að viðtakandi geti starfrækt framseldan rekstur fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Slíkt fyrirkomulag skal einkum fela í sér eftirfarandi:
     1.      Áframhald þeirra samninga sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð er aðili að þannig að viðtakandinn taki við öllum réttindum og skuldbindingum af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð í tengslum við alla fjármálagerninga, réttindi, eignir eða skuldbindingar sem hafa verið framseldar og skal hann taka skýrt og fortakslaust við öllum viðeigandi samningsbundnum skjölum fyrirtækisins eða einingarinnar sem er í skilameðferð.
     2.      Aðilaskipti við hvers konar málarekstur í tengslum við fjármálagerning, réttindi, eign eða skuldbindingu sem hefur verið framseld.
    Heimildir ákvæðisins skulu ekki hafa áhrif á rétt starfsmanns fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til að segja upp ráðningarsamningi. Þá skulu heimildirnar ekki hafa áhrif á rétt samningsaðila til að beita þeim réttindum sem leiðir af samningi, þ.m.t. uppsagnarrétti, í samræmi við samningsskilmála vegna athafna eða athafnaleysis fyrirtækis eða einingar í skilameðferð fyrir viðkomandi framsal, eða af viðtakanda eftir framsal, sbr. þó 70.–73. gr.

63. gr.

Staða félagsaðila við niðurfærslu eða umbreytingu, þ.m.t. við eftirgjöf.

    Þegar fjármagnsgerningar eru niðurfærðir eða þeim umbreytt skv. 27. gr. eða þegar eftirgjöf er beitt skv. 54. gr. skal fara eftir annarri eða báðum eftirfarandi aðferðum:
     1.      Afskrifa hlutafé eða aðra eignarhluta í fyrirtækinu eða einingunni eða framselja þá til lánardrottna sem sætt hafa eftirgjöf.
     2.      Þynna út eignarhluti félagsaðila enda verði hrein eign fyrirtækisins eða einingarinnar jákvæði samkvæmt virðismati, sbr. VII. kafla.
    Ákvæði 1. mgr. á einnig við um eignarhluti sem orðið hafa til:
     1.      vegna umbreytingar skuldagerninga í eignarhluti í samræmi við samningsákvæði gerninganna, áður eða á sama tíma og metið er hvort skilyrði skilameðferðar gagnvart fyrirtæki eða einingu eru uppfyllt,
     2.      vegna umbreytingar fjármagnsgerninga í almennt eigið fé þáttar 1 skv. 28. gr.
    Við mat á aðferð skv. 1. mgr. skal skilavaldið taka mið af:
     1.      virðismati skv. VII. kafla,
     2.      fjárhæð sem þarf að lækka almennt eigið fé þáttar 1 og fjárhæð sem færa þarf niður eða umbreyta viðeigandi fjármagnsgerningum skv. 1. mgr. 28. gr., og
     3.      umfangi eftirgjafar skv. 55. gr.
    Ákvæði 42. gr. gildir ef eftirgjöf eða umbreyting leiðir til þess að talið er að viðtakandi hafi eignast eða aukið við virkan eignarhlut sinn í fyrirtækinu eða einingunni.

64. gr.

Umreikningsgengi.

    Þegar fjármagnsgerningar eru niðurfærðir eða þeim umbreytt skv. 27. gr. eða þegar eftirgjöf er beitt skv. 54. gr. er heimilt að notast við mismunandi umreikningsgengi fyrir mismunandi flokka fjármagnsgerninga og skuldbindinga í samræmi við aðra eða báðar eftirfarandi aðferðir:
     1.      Umreikningsgengið skal endurspegla hæfilegt endurgjald til lánardrottins vegna taps sem hann varð fyrir.
     2.      Ef notast er við mismunandi umreikningsgengi skal umreikningsgengið vera hærra eftir því sem skuldbindingarnar standa framar í forgangsröð við slit eða gjaldþrot.

65. gr.

Réttaráhrif eftirgjafar.

    Niðurfærsla eða umbreyting fjármagnsgerninga skv. 27. gr., sbr. þó 4. mgr. 6. gr., eða eftirgjöf skv. 54. gr. skal taka gildi þegar í stað og binda fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, lánardrottna og félagsaðila.
    Heimilt er að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir til þess að fram fari niðurfærsla, umbreyting eða eftirgjöf. Öðrum stjórnvöldum og viðeigandi aðilum er skylt að veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmdina, þar á meðal við:
     1.      breytingu á viðeigandi skráningu,
     2.      afskráningu eignarhluta eða skuldagerninga,
     3.      skráningu nýrra eignarhluta eða töku þeirra til viðskipta, og
     4.      endurskráningu áður afskráðra og niðurfærðra skuldagerninga án þess að gefa út útboðslýsingu eða sambærileg skjöl samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
    Ef höfuðstóll skuldbindingar er niðurfærður að fullu eða gjaldfallin fjárhæð skuldbindingar telst skuldbindingin ásamt öðrum skyldum og kröfum sem af henni leiða endanlega fallnar niður. Ef skuldbinding er niðurfærð að hluta telst sú niðurfærsla endanleg en eftirstandandi gerningur eða samningur sem stofnaði skuldbindinguna skal áfram gilda.

66. gr.

Gildissvið gagnvart öðrum lögum.

    Ákvæði 1., 6., 7., 9., 13., 19., 20., 33., 34., 36.–38., 40., 41., 43., 45., 47., 51., 53., 54., 81., 84., 86., 88. a – 88. e, 93., 94., 119.–131., 133. – 133. f, 134., 148.–151. og 160. gr. í lögum um hlutafélög og 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti gilda ekki ef skilaaðgerðum hefur verið beitt gagnvart fyrirtæki eða einingu í skilameðferð.
    Ákvæði 5., 7. og 8. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir gilda ekki ef takmarkanir verða á fullnustu fjárhagslegra tryggingarráðstafana á áhrifum samninga um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingarráðstöfun, greiðslujöfnun til uppgjörs eða skuldajöfnun við beitingu heimilda skv. VI., IX., þessa kafla eða XII. kafla.
    Ef skilaaðgerðum hefur verið beitt gilda ákvæði XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, þó ekki 106. gr. laganna, einnig ef við á um einingar skv. b–d-lið 2. gr.

67. gr.

Frestun málsmeðferðar.

    Skilavaldið getur farið fram á að dómstóll fresti málsmeðferð á dómsmáli sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð á aðild að ef það er nauðsynlegt til að skilaaðgerð nái fram að ganga.

XII. KAFLI

Heimildir til ráðstafana vegna samninga.

68. gr.

Heimild til að fella úr gildi eða breyta samningsskilmálum.

    Skilavaldinu er heimilt að fella úr gildi eða breyta skilmálum samninga sem stofnað var til af fyrirtæki eða einingu skv. b–d-lið 2. gr. í skilameðferð þegar það er nauðsynlegt til að tryggja framkvæmd skilaaðgerða. Við beitingu á ákvæði fyrri málsliðar skal taka mið af þeirri meginreglu að samningsaðilar og lánardrottnar verði ekki fyrir meira tjóni vegna skilaaðgerða en þeir hefðu orðið fyrir við slit eða gjaldþrotaskipti á búi fyrirtækis eða einingar, sbr. 80. gr.

69. gr.

Samningsskilmálum vikið til hliðar.

    Ef gripið er til aðgerða skv. 15., 16., 27. gr. eða skilaaðgerða gagnvart fyrirtæki eða einingu skulu aðgerðirnar, þ.m.t. atburðir sem leiða af þeim, hvorki samsvara vanefnd samkvæmt samningi um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir né jafngilda úrskurði um heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamningsumleitana eða gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði fyrri málsliðar er háð því skilyrði að fyrirtæki eða eining haldi áfram að efna meginskyldur samningssambands, m.a. um greiðslur, afhendingu og veitingu tryggingarréttinda.
    Efni fyrirtæki eða eining áfram meginskyldur samningssambands skv. síðari málsl. 1. mgr. veita aðgerðir samkvæmt fyrri málsl. 1. mgr. samningsaðilum fyrirtækisins eða einingarinnar ekki sjálfkrafa rétt til að:
     1.      beita rétti til uppsagnar, gjaldfellingar, frestunar eða breytingar samningsskuldbindinga eða greiðslu- eða skuldajöfnunar á grundvelli samnings,
     2.      öðlast eignarhald, fá yfirráð eða ganga að tryggingarréttindum í eigu fyrirtækisins eða einingarinnar,
     3.      hafa áhrif á samningsbundin réttindi fyrirtækisins eða einingarinnar.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um samninga sem dótturfélag hefur gert og móðurfélag eða annað fyrirtæki eða eining innan samstæðu ábyrgist eða styður á annan hátt. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um samninga á milli fyrirtækja eða eininga innan samstæðu sem fela í sér víxlvanefndarákvæði.
    Takmarkanir á samningsbundnum réttindum og skyldum sem leiða af 70.–73. gr. teljast ekki til vanefndar eða brots á samningsskyldum skv. 1. og 3. mgr.
    Ákvæði þessarar greinar takmarkar á engan hátt heimildir skv. 86. gr. k laga um fjármálafyrirtæki.

70. gr.

Heimild til að fresta tilteknum skuldbindingum.

    Skilavaldinu er heimilt að fresta greiðslu eða afhendingu samkvæmt samningum sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð hefur stofnað til, sbr. þó 4. mgr. Frestunin gildir frá birtingu tilkynningar um frestun skv. 5. mgr. 35. gr. til miðnættis næsta virka dag.
    Greiðsla eða afhending samkvæmt samningi sem koma átti til framkvæmda á tímabili frestunar skal innt af hendi þegar í stað eftir að tímabili frestunar er lokið.
    Ef greiðsla eða afhending samkvæmt samningi frestast skv. 1. mgr. skal greiðslu- eða afhendingarskylda samningsaðila fyrirtækisins eða einingarinnar einnig frestast á sama tímabili.
    Frestun á greiðslu eða afhendingu skv. 1. mgr. gildir ekki um eftirfarandi:
     1.      Tryggðar innstæður, sbr. lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
     2.      Skuldbindingar við greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi og þátttakendur slíkra kerfa, sbr. lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, miðlæga mótaðila og seðlabanka.
     3.      Kröfur viðskiptavina sem njóta tryggingaverndar verðbréfadeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

71. gr.

Heimild til að fresta rétti lánardrottna til að ganga að tryggingum.

    Skilavaldinu er heimilt að fresta rétti lánardrottna til að ganga að tryggingum hjá fyrirtæki eða einingu í skilameðferð. Frestunin gildir frá birtingu tilkynningar um frestun skv. 5. mgr. 35. gr. til miðnættis næsta virka dag.
    Frestun skv. 1. mgr. gildir ekki um tryggingar greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa og þátttakendur slíkra kerfa, sbr. lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, miðlæga mótaðila og Seðlabanka.
    Ef ákvæði 78. gr. á við skal tryggt að frestun skv. 1. mgr. sé fari fram á samræmdan hátt gagnvart öllum fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu, sem skilaaðgerðum er beitt gegn.

72. gr.

Heimild til að fresta uppsagnarrétti.

    Skilavaldinu er heimilt að fresta uppsagnarrétti samningsaðila samkvæmt samningi við fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, sbr. þó 73. gr. Frestunin gildir frá birtingu tilkynningar um frestun skv. 5. mgr. 35. gr. til miðnættis næsta virka dag.
    Skilavaldinu er heimilt að fresta uppsagnarrétti samningsaðila vegna samnings við dótturfélag fyrirtækis eða einingar í skilameðferð ef:
     1.      fyrirtæki eða eining í skilameðferð ábyrgist eða styður á annan hátt skuldbindingar samkvæmt samningnum,
     2.      uppsagnarréttur samningsins grundvallast á fjárhagsstöðu eða ógjaldfærni fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, og
     3.      eignir, réttindi eða skuldbindingar hafa verið framseldar eða slíkt er fyrirhugað frá fyrirtæki eða einingu í skilameðferð til annars lögaðila og allar eignir og skuldbindingar dótturfélaga fyrirtækisins eða einingarinnar, sem tengjast viðkomandi samningi, hafa verið eða verða framseldar til lögaðilans eða skilavaldið tryggir á annan hátt efndir á slíkri skyldu.
    Frestun á uppsagnarrétti skv. 2. mgr. gildir frá birtingu tilkynningar um frestun skv. 5. mgr. 35. gr. til miðnættis næsta virka dag í því aðildarríki þar sem dótturfélag er skráð.
    Heimild til frestunar skv. 1 og 2. mgr. gildir ekki um greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi og þátttakendur slíkra kerfa, sbr. lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, miðlæga mótaðila og seðlabanka.

73. gr.

Takmarkanir á heimild til að fresta uppsagnarrétti.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 72. gr. er samningsaðila heimilt að beita uppsagnarrétti samkvæmt samningi áður en tímafrestur skv. 2. málsl. 1. mgr. eða 3. mgr. 72. gr. er liðinn, ef samningsaðilinn hefur móttekið tilkynningu frá skilavaldinu um að réttindin og skuldbindingarnar samkvæmt samningnum muni ekki verða framseldar til annars lögaðila eða niðurfærðar eða þeim umbreytt við beitingu eftirgjafar skv. 54. gr.
    Samningsaðila er heimilt að beita uppsagnarrétti samnings í samræmi við samningsákvæði að liðnum tímafresti skv. 2. málsl. 1. mgr. eða 3. mgr. 72. gr., sbr. þó 2. mgr. 69. gr., ef eftirfarandi á við:
     1.      Skilavaldið hefur framselt réttindi og skuldbindingar samkvæmt samningi til annars lögaðila og hann uppfyllir ekki samningsákvæði sem veita samningsaðilanum rétt til uppsagnar.
     2.      Réttindi og skuldbindingar samkvæmt samningnum eru ekki framseldar til annars lögaðila og eftirgjöf skv. 54. gr. hefur ekki verið beitt.

74. gr.

Samningar um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, skulda- og greiðslujöfnun.

    Skilavaldið skal tryggja áframhald samninga um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu, sbr. lög um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, samninga um skuldajöfnun og greiðslujöfnunarsamninga til að koma í veg fyrir að framseldur verði hluti réttinda og skuldbindinga sem falla undir slíka samninga milli fyrirtækis eða einingar í skilameðferð og samningsaðila. Hið sama gildir um breytingu eða uppsögn réttinda og skuldbindinga sem falla undir slíka samninga, sbr. þó 77. gr.
    Áframhald samnings skv. 1. mgr. telst tryggt ef samningsaðilar eiga rétt á að skuldajafna og greiðslujafna öllum réttindum og skuldbindingum sem heyra undir viðkomandi samning.
    Ráðherra skal setja reglugerð sem kveður nánar á um flokka samninga sem falla undir þessa grein.

75. gr.

Samningar um tryggingar.

    Skilavaldið skal tryggja áframhald samninga um tryggingar vegna skuldbindinga sem heyra undir samningana, sbr. þó 77. gr., til að koma í veg fyrir eftirfarandi:
     1.      framsal eigna sem settar hafa verið sem tryggingar fyrir skuldbindingu, nema skuldbindingin og veðtryggingin sem henni tengist verði einnig framseld,
     2.      framsal skuldbindingar sem trygging hefur verið sett fyrir, nema tryggingarréttindi skuldbindingarinnar verði einnig framseld,
     3.      framsal tryggingarréttinda, nema skuldbindingin sem tengist réttindunum verði einnig framseld, eða
     4.      breytingu eða uppsögn samnings um tryggingu á skuldbindingu sem stafar af beitingu annarra skilaheimilda, ef sú breyting eða uppsögn samnings veldur því að ekki er lengur trygging fyrir þeirri skuldbindingu sem samningurinn tekur til.
    Ráðherra skal setja reglugerð sem kveður nánar á um flokka samninga sem falla undir þessa grein.

76. gr.

    Samsettir fjárhagslegir samningar.

    Skilavaldið skal tryggja áframhald samsettra fjárhagslegra samninga, svo sem sértryggðra skuldabréfa, sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð er aðili að, sbr. þó 77. gr., til að koma í veg fyrir eftirfarandi:
     1.      framsal hluta eigna, réttinda eða skuldbindinga sem leiða af slíkum samsettum fjárhagslegum samningi, eða
     2.      uppsögn eða breytingu á réttindum og skuldbindingum sem leiða af slíkum samsettum fjárhagslegum samningi eða breytingu á stöðu eignar.
    Ráðherra skal setja reglugerð sem kveður nánar á um flokka samninga sem falla undir þessa grein.

77. gr.

Takmarkanir vegna tryggðra innstæðna.

    Þrátt fyrir 74.–76. gr. er skilavaldinu heimilt að framselja tryggðar innstæður til að tryggja aðgengi að innstæðum, sbr. lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem eru hluti af samningum skv. 74.–76. gr. án þess að framselja aðrar eignir, réttindi eða skuldbindingar sem falla undir sama samning. Jafnframt er heimilt að framselja eignir eða framselja, breyta eða segja upp réttindum og skuldbindingum án þess að framselja tryggðar innstæður.

78. gr.

Áhrif á greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi.

    Beiting skilaaðgerða skal ekki hafa áhrif á starfsemi greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfa samkvæmt lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum þegar skilavaldið:
     1.      framselur hluta eigna, réttinda eða skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til annars lögaðila, eða
     2.      beitir skilaheimildum til að fella niður eða breyta skilmálum samnings, sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð er aðili að, eða skiptir um samningsaðila.
    Framsal, niðurfelling eða breyting á samningsskilmálum skv. 1. mgr. skal hvorki afturkalla greiðslufyrirmæli skv. II. kafla laga um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum né breyta eða ógilda framkvæmd greiðslufyrirmæla eða greiðslujöfnunar skv. II. og IV. kafla sömu laga.

XIII. KAFLI

Opinber fjármálastöðgunarúrræði.

79. gr.

Opinber fjármálastöðgunarúrræði.

    Við sérstakar og óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði getur ráðherra sem fer með opinber fjármál, að höfðu samráði við þá fastanefnd Alþingis sem fjallar um fjármál ríkisins, fyrir hönd ríkissjóðs lagt fyrirtæki eða einingu skv. b–d-lið 2. gr. til fjármagn í formi eigin fjár þáttar 1 eða þáttar 2 samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða framselt eignarhluti í fyrirtækinu eða einingunni til ríkisins að öllum eftirtöldum skilyrðum fullnægðum:
     1.      Fyrirtækið eða einingin er í skilameðferð eða skilyrðum fyrir því að taka það til skilameðferðar er fullnægt.
     2.      Ráðherra telur, að fengnu áliti skilavaldsins, beitingu skilaúrræða ekki nægja til að tryggja eitt af eftirfarandi:
                  a.      að fjármálastöðugleika sé viðhaldið,
                  b.      hagsmuni almennings enda hafi Seðlabanki Íslands áður veitt fyrirtækinu lán til þrautavara,
                  c.      hagsmuni almennings, enda sé um að ræða framsal á eignarhutum í fyrirtækinu eða einingunni til ríkisins, og fyrirtækið eða einingin áður fengið eiginfjárframlag samkvæmt þessari grein.
     3.      Félagsaðilar fyrirtækisins eða einingarinnar og eigendur viðeigandi fjármagnsgerninga og hæfra skuldbindinga hafa lagt af mörkum til endurfjármögnunar fyrirtækisins eða einingarinnar fjárhæð sem samsvarar a.m.k. 8% af heildarskuldbindingum þess, að meðtöldum eiginfjárgrunni, eins og þær eru metnar skv. VII. kafla.
    Skilavaldið framfylgir ákvörðunum ráðherra samkvæmt þessari grein og getur beitt skilaheimildum í því skyni.
    Ráðherra skal stuðla að því að fyrirtæki eða eining sem fær eiginfjárframlag eða er tekin yfir samkvæmt grein þessari viðhafi góða viðskiptahætti að því marki sem eignaraðild ríkisins leyfir. Ráðherra skal selja eignarhlut ríkisins til einkaaðila þegar aðstæður leyfa.

XIV. KAFLI

Önnur ákvæði um skilameðferð.

80. gr.

Takmörkun á tapi félagsaðila og lánardrottna.

    Skilavaldið skal tryggja að félagsaðili og lánardrottinn, þ.m.t. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, tapi ekki meira á skilameðferð fyrirtækis eða einingar skv. b–d-lið 2. gr. en hann hefði gert við slit á fyrirtækinu eða gjaldþrotaskipti á búi þess. Heimilt er að greiða honum bætur úr skilasjóði ef tap verður meira en það hefði orðið við slit eða gjaldþrotaskipti.

81. gr.

Endurheimt kostnaðar við skilaaðgerðir.

    Skilavaldið og skilasjóður geta endurheimt réttmætan kostnað í tengslum við skilaaðgerðir eða opinber fjármálastöðgunarúrræði á einn eða fleiri hátt með því að:
     1.      draga kostnaðinn frá endurgjaldi sem er greitt, félagsaðilum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, eða fyrirtækinu eða einingunni,
     2.      krefja fyrirtæki eða einingu í skilameðferð um kostnaðinn, eða
     3.      gera kröfu um kostnaðinn við slit eða gjaldþrotaskipti á brúarstofnun eða eignaumsýslufélagi.
    Krafa skv. 2. eða 3. tölul. 1. mgr. nýtur rétthæðar skv. 2. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, við slit á skuldaranum.

82. gr.

Notkun fjármuna innstæðutryggingakerfis við skilameðferð.

    Ef lánastofnun er tekin til skilameðferðar með því að beita einu eða fleiri skilaúrræðum skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiða skilavaldinu í samræmi við 2. og 3. mgr.
    Ef eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla er beitt skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiða fjárhæð sem samsvarar niðurfærslu á tryggðum innstæðum sem hefði átt sér stað skv. 1. tölul. 1. mgr. 55. gr. ef tryggðar innstæður hefðu fallið undir eftirgjöf.
    Ef einu eða fleiri skilaúrræðum, öðrum en eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla, er beitt skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiða upphæð sem svarar til þeirrar fjárhæðar sem innstæðueigendur tryggðra innstæðna hefðu tapað við slit á lánastofnuninni.
    Skilavaldið ákveður þá fjárhæð sem sjóðurinn skal greiða til skilameðferðar lánastofnunar skv. 1. mgr. og skal ákvörðunin tekin í samræmi við 30. eða 31. gr.
    Sú fjárhæð sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiðir skv. 1. mgr. skal ekki vera hærri en það tap sem sjóðurinn hefði orðið fyrir við slit lánastofnunarinnar. Þá skal fjárhæðin ekki vera hærri en sem nemur 175% af viðmiðunarmarki skv. 14. mgr. 5. gr. b laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Endurgreiða skal úr skilasjóði skv. 80. gr. til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ef greiðsla sjóðsins skv. 2. eða 3. mgr. hefur verið hærri en tapið sem sjóðurinn hefði orðið fyrir við slit lánastofnunarinnar samkvæmt endanlegu virðismati skv. 32. gr.
    Þegar eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla er beitt verður Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ekki krafinn um eiginfjárframlag til lánastofnunar eða brúarstofnunar samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 55. gr.
    Ef tryggingarhæfar innstæður lánastofnunar í skilameðferð eru framseldar skv. B- eða C-hluta X. kafla á innstæðueigandi enga kröfu á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta fyrir þann hluta innstæðu sem ekki er framseld, ef fjárhæð framseldra innstæðna er jöfn eða hærri en tryggingaverndin skv. 2. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

83. gr.

Takmörkun á riftun.

    Framsali eigna, réttinda eða skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags samkvæmt lögum þessum verður ekki rift á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

84. gr.

Krafa um slit á fyrirtæki.

    Héraðsdómur skal þegar í stað tilkynna skilavaldinu um kröfu um slit eða gjaldþrotaskipti á fyrirtæki eða einingu. Héraðsdómur skal synja kröfunni hafi skilavaldið þegar ákveðið að grípa til skilaaðgerðar gagnvart fyrirtækinu eða einingunni eða tilkynni héraðsdómi innan sjö daga að það hyggist gera það. Grein þessi á ekki við um kröfu skilavaldsins um slit á fyrirtæki eða einingu, sbr. 14. tölul. 1. mgr. 61. gr.

85. gr.

Lok skilameðferðar.

    Skilavaldið skal ljúka skilameðferð þegar frekari skilaaðgerða er ekki þörf.
    Fyrirtæki eða eining skal að skilameðferð lokinni tekið til slita að kröfu skilavaldsins svo skjótt sem samræmist markmiðum laga þessara nema skilameðferð hafi miðað að áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins eða einingarinnar.

XV. KAFLI

Skilasjóður.

86. gr.

Skilasjóður.

    Koma skal á fót fjármögnunarfyrirkomulagi sem nefnist skilasjóður. Skilavaldið tekur ákvarðanir um greiðslur úr skilasjóði.
    Stærð skilasjóðs skal vera 1% af tryggðum innstæðum fyrir árslok 2027.

87. gr.

Ráðstöfun fjár úr skilasjóði.

    Skilavaldið getur notað fjármuni úr skilasjóði ef nauðsyn krefur til að tryggja skilvirka beitingu skilaúrræða í samræmi við lög þessi. Ráðstafa má fé úr skilasjóði til að:
     1.      ábyrgjast eignir og skuldbindingar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, dótturfélags, brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags,
     2.      veita lán til fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, dótturfélags, brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags,
     3.      kaupa eignir fyrirtækis eða einingar í skilameðferð,
     4.      greiða fjárframlag til brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags,
     5.      greiða félagsaðilum eða lánardrottnum bætur í samræmi við 80. gr.,
     6.      greiða fyrirtæki eða einingu í skilameðferð fjárframlag í stað þess að fram fari niðurfærsla eða umbreyting á tilteknum skuldbindingum lánardrottna við eftirgjöf, þ.e. þegar eftirgjöf er beitt sem skilaúrræði og tilteknir lánardrottnar eru að hluta eða öllu leyti undanskildir eftirgjöf í samræmi við 56. og 57. gr.
     7.      greiða fyrirtæki eða einingu í skilameðferð fjárframlag í samræmi við 5. mgr. 57. gr., eða
     8.      framfylgja ráðstöfunum skv. 1.–7. tölul.
    Við Skilameðferð samstæðu skv. 90. og 91. gr. skal skilavaldið og viðeigandi skilastjórnvöld semja í sameiningu fjármögnunaráætlun þar sem ákvörðuð er skipting fjárframlaga úr skilasjóði og hliðstæðu fjármögnunarfyrirkomulagi í hverju einstöku aðildarríki.

4. ÞÁTTUR

Samskipti við önnur ríki.

XVI. KAFLI

Skilameðferð samstæðu með starfsemi í öðru aðildarríki.

88. gr.

Ákvarðanir og aðgerðir sem hafa áhrif í öðru aðildarríki.

    Skilavaldið skal við skilameðferð fyrirtækis eða einingar skv. b–d-lið 2. gr., sem er hluti af samstæðu þar sem dótturfélag er staðsett í öðru aðildarríki, taka tilhlýðilegt tillit til þeirra áhrifa sem ákvarðanir og aðgerðir samkvæmt lögunum geta haft í aðildarríkinu, m.a. á fjármálastöðugleika, ríkisfjármál, fjármögnunarfyrirkomulag hliðstætt skilasjóði og á innstæðutryggingakerfi eða bótakerfi fyrir fjárfesta. Skilavaldið skal við skilameðferð fyrirtækis sem starfrækir mikilvægt útibú í öðru aðildarríki taka tilhlýðilegt tillit til áhrifa á fjármálastöðugleika í gistiríkinu.
    Ákvæði 1. mgr. gildir við ákvarðanir og aðgerðir sem varða mikilvægt útibú eða dótturfélag hér á landi, sem tilheyrir eða er í eigu fyrirtækis með staðfestu í öðru aðildarríki.
    Ráðstafanir skv. 1. eða 2. mgr. skulu teknar eins fljótt og unnt er í kjölfar tilkynningar, upplýsingagjafar og samráðs við skilastjórnvald í viðeigandi aðildarríki.

89. gr.

Skilaráð.

    Ef skilavaldið fer með samstæðuskilavald skal það koma á fót samstarfsvettvangi sem nefnist skilaráð með öðrum skilastjórnvöldum, eftirlitsstjórnvöldum og Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni. Ef við á skal viðeigandi ráðuneytum og aðili sem ber ábyrgð á innstæðutryggingakerfi einnig boðin þátttaka í skilaráði.
    Hlutverk skilaráðs er að skiptast á upplýsingum og skapa vettvang fyrir samstarf um þau verkefni sem kveðið er á um í lögum þessum.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um starfsemi skilaráða samkvæmt þessari grein.

90. gr.

Skilameðferð dótturfélags með móðurfélag í öðru aðildarríki.

    Ef skilavaldið ákvarðar að fyrirtæki eða eining, sem er dótturfélag móðurfélags sem staðsett er í öðru aðildarríki, uppfyllir skilyrði skilameðferðar skv. 35. gr. skal það tilkynna það til samstæðuskilavalds og aðila skilaráðs samstæðu skv. 89. gr.
    Í tilkynningu skv. 1. mgr. skulu koma fram upplýsingar um ákvörðun skv. 35. gr. og útlistun á þeim skilaaðgerðum sem fyrirhugað er að fram fari gagnvart dótturfélaginu. Skilavaldinu er heimilt að hrinda skilaaðgerðum í framkvæmd ef samstæðuskilavald gerir ráð fyrir að fyrirhugaðar aðgerðir muni ekki hafa þau áhrif á samstæðuna að líklegt sé að skilyrði skilameðferðar verði uppfyllt gagnvart fyrirtæki eða einingu í öðru aðildarríki.
    Skilavaldinu er óheimilt að hefja skilaaðgerð ef samstæðuskilavald hefur innan 24 klukkustunda frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr. sent upplýsingar um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu til skilaráðsins, sem tilgreinir skilaaðgerðir fyrir einstök fyrirtæki eða einingar innan samstæðu og samræmingu aðgerða.
    Skilavaldið skal leitast við að taka sameiginlega ákvörðun um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu skv. 3. mgr. með samstæðuskilavaldi og ef við á öðrum skilastjórnvöldum dótturfélaga sem falla undir fyrirkomulagið.
    Þrátt fyrir 4. mgr. er skilavaldinu heimilt að grípa til þeirra skilaaðgerða gagnvart dótturfélagi sem það telur viðeigandi. Skal þá tilgreina ástæður ágreinings um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu og tilkynna þær til samstæðuskilavalds og annarra skilastjórnvalda sem falla undir fyrirkomulagið.
    Ef eitthvert skilastjórnvald fellur frá fyrirkomulagi um skilameðferð samstæðu er skilavaldinu heimilt að taka sameiginlega ákvörðun með öðrum skilastjórnvöldum um fyrirkomulagið sem gildir þá um fyrirtæki eða einingar innan samstæðu í viðkomandi aðildarríkjum.

91. gr.

Skilameðferð móðurfélags samstæðu með dótturfélag í öðru aðildarríki.

    Ef skilavaldið fer með samstæðuskilavald og það ákvarðar að móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem á dótturfélag í öðru aðildarríki, uppfylli skilyrði skilameðferðar skv. 35. gr. skal það tilkynna það aðilum í skilaráði skv. 89. gr.
    Í tilkynningu skv. 1. mgr. skulu koma fram upplýsingar um ákvörðun skv. 35. gr. og útlistun á þeim skilaaðgerðum sem fyrirhugaðar eru. Tilkynningin getur falið í sér upplýsingar um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu þar sem tilgreindar eru skilaaðgerðir fyrir einstök fyrirtæki eða einingar innan samstæðu, auk samræmingu aðgerða, ef eitthvað af eftirfarandi á við:
     1.      Búast má við að skilaaðgerðir gagnvart móðurfélagi muni leiða til þess að skilyrði skilameðferðar verði einnig uppfyllt gagnvart fyrirtæki eða einingu innan samstæðu í öðru aðildarríki.
     2.      Búast má við að skilaaðgerðir gagnvart móðurfélagi einu og sér muni ekki nægja til að stöðga aðstæður eða skila ákjósanlegri niðurstöðu.
     3.      Skilastjórnvald í öðru aðildarríki hefur ákvarðað að skilyrði skilameðferðar séu uppfyllt gagnvart dótturfélagi þar í landi.
     4.      Dótturfélag í öðru aðildarríki mun njóta sérstaks ávinnings af skilaaðgerðum á samstæðugrunni.
    Ef tilkynning skv. 1. mgr. felur ekki í sér upplýsingar um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu skv. 2. mgr. getur skilavaldið, að undangengnu samráði við aðila í skilaráði, tekið ákvörðun á grundvelli þessa kafla fyrir samstæðuna. Ef tilkynningin inniheldur upplýsingar um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu skal ákvörðunin vera sameiginleg með þeim skilastjórnvöldum dótturfélaga sem falla undir fyrirkomulagið.
    Ef eitthvert skilastjórnvald fellur frá fyrirkomulagi skilameðferðar samstæðu er skilavaldinu heimilt að taka sameiginlega ákvörðun með öðrum skilastjórnvöldum um áætlunina sem gildir þá um fyrirtæki eða einingar innan samstæðu í viðkomandi aðildarríkjum.

XVII. KAFLI

Starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins.

92. gr.

Skilameðferð útibús stofnsetts hér á landi af fjármálafyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Skilavaldið getur ákveðið að útibú fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skuli tekið til skilameðferðar hér á landi ef almannahagsmunir krefjast þess og eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Útibúið uppfyllir ekki eða líkur er á því að það uppfylli ekki lengur skilyrði fyrir leyfi sínu og ekki eru líkur á því að aðkoma einkaaðila, aðgerðir Fjármálaeftirlitsins eða stjórnvalds heimaríkis muni innan hæfilegs tímafrests tryggja að kröfur leyfisins verði virtar.
     2.      Fyrirtækið getur ekki eða mun ekki geta, að mati skilavaldsins, staðið við skuldbindingar sínar hér á landi eða þær skuldbindingar sem stafa af starfsemi útibúsins hér á landi þegar þær falla í gjalddaga.
     3.      Skilameðferð er hafin í heimaríkinu eða tilkynnt hefur verið um að slíkt sé fyrirhugað.
    Ákvörðun um skilameðferð útibús skv. 1. mgr. skal taka á grundvelli 35. gr., að teknu tilliti til markmiða skilameðferðar, sbr. 1. gr. laganna. Ákvæði 69. gr. gildir við skilameðferð útibús og skal skilameðferðin eftir því sem við á fylgja meginreglum skv. 12. og 13. tölul. 1. mgr. 61. gr. og 80. gr. ásamt þeim kröfum sem gerðar eru fyrir beitingu skilaúrræða skv. X. kafla.

5. ÞÁTTUR

Ýmis ákvæði.

XVIII. KAFLI

Þvingunarúrræði og viðurlög.

93. gr.

Úrbætur og dagsektir.

    Komi í ljós að fyrirtæki eða eining skv. b–d-lið 2. gr. fylgi ekki lögum þessum, reglugerðum eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra getur skilavaldið krafist þess að úr verði bætt innan hæfilegs frests.
    Seðlabanki Íslands getur lagt dagsektir á aðila sinni viðkomandi ekki kröfum um úrbætur innan frests skv. 1. mgr. Dagsektir leggjast á uns farið hefur verið að kröfum skilavaldsins. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
    Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum skilavaldsins nema Seðlabankinn samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra.
    Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
    Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

94. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Seðlabanki Íslands getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      12. gr. um veitingu upplýsinga við gerð skilaáætlunar.
     2.      25. gr. um að halda skrá yfir fjárhagslega samninga.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100.000 kr. til allt að 771 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500.000 kr. til allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
    Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
     a.      alvarleika brots,
     b.      hvað brotið hefur staðið lengi,
     c.      ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðila,
     d.      fjárhagsstöðu hins brotlega,
     e.      ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
     f.      hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
     g.      hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
     h.      samstarfsvilja hins brotlega,
     i.      fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Seðlabankans skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum og reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra, og fyrir liggur fjárhagslegur ávinningur af broti, er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 2. mgr., orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur af brotinu nemur.

95. gr.

Brot á þagnarskyldu.

    Fyrir brot á þagnarskyldu skv. 8. gr. skal refsað með sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.

96. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglugerða og reglna settra á grundvelli þeirra eða ákvarðanir skilavaldsins á grundvelli þeirra er Seðlabanka Íslands heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Seðlabankinn setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

97. gr.

Réttur til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Seðlabanki Íslands skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

98. gr.

Frestur til að leggja á stjórnvaldssektir.

    Heimild Seðlabanka Íslands til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Seðlabankinn tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

99. gr.

Tímabundið bann vegna brottvikningar stjórnar og framkvæmdastjóra.

    Ef skilavaldið víkur stjórn fyrirtækis eða einingar frá í heild eða að hluta eða framkvæmdastjóra skv. 12. tölul. 1. mgr. 61. gr. er Seðlabanka Íslans heimilt að banna hlutaðeigandi að taka tímabundið sæti í stjórn eða verða framkvæmdastjóri fyrirtækis eða einingar, enda hafi fyrirtækið eða einingin brotið alvarlega gegn ákvæðum laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samþykkta fyrirtækis eða einingar eða ef alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við stjórnun hlutaðeigandi.

100. gr.

Birting viðurlaga.

    Seðlabanki Íslands skal birta ákvarðanir um viðurlög sem beitt er vegna brota á lögunum, reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra. Ákvarðanir skulu birtar eins fljótt og unnt er eftir að brotlegum aðila hefur verið tilkynnt ákvörðunin. Í tilkynningunni skal að lágmarki upplýsa um tegund og eðli brots og hver ber ábyrgð á brotinu. Ekki er skylt að birta upplýsingar um viðurlög ef brotið sætir enn rannsókn.
    Ef birting skv. 1. mgr. veldur hlutaðeigandi aðila tjóni sem er ekki í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir eða birtingin verður talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins eða rannsóknarhagsmunum í hættu skal Seðlabankinn:
     a.      fresta birtingu þar til slíkar aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi,
     b.      birta upplýsingar um beitingu viðurlaga en fresta nafngreiningu þar til slíkar aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi,
     c.      ekki birta upplýsingar ef birting skv. a- eða b-lið stefnir hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu eða ef réttmæti fyrir birtingu ákvörðunarinnar, samanborið við þá hagsmuni sem um ræðir, er minni háttar.
    Seðlabankinn skal birta með sama hætti og greinir í 1. mgr. ef mál hefur verið höfðað til ógildingar á ákvörðun um viðurlög og niðurstöður málsins.
    Upplýsingar sem birtar eru samkvæmt þessari grein skulu vera aðgengilegar á vefsíðu Seðlabankans að lágmarki í fimm ár. Persónuupplýsingar skulu þó ekki vera aðgengilegar lengur en málefnalegar ástæður krefjast samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

101. gr.

Upplýsingar um viðurlög til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.

    Seðlabanki Íslands skal tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni um viðurlög sem lögð eru á samkvæmt lögum þessum, þar á meðal hvort mál hafi verið höfðuð til ógildingar á viðurlagaákvörðunum og niðurstöðu þeirra mála.

XIX. KAFLI

Önnur ákvæði.

102. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

103. gr.

Breyting á öðrum lögum.

     1.      Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                      1.      Orðin „eða ákvæða um inngrip Fjármálaeftirlitsins í eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis skv. 100. gr. a“ í 6. tölul. 1. mgr. falla brott.
                      2.      Í stað orðsins „bráðabirgðastjórn“ í 3. mgr. kemur: bráðabirgðastjórnanda.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. a laganna:
                      1.      Í stað orðanna „Seðlabanka Íslands“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: seðlabanka.
                      2.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Skilavald í skilningi laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja skal hafa aðgang að endurbótaáætlun lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og greina hvort aðgerðir í henni geti haft skaðleg áhrif á skilabærni viðkomandi fyrirtækis þegar áætlunin liggur fyrir. Skilavaldið getur lagt til við Fjármálaeftirlitið að fjalla um þau áhrif.
                  c.      Í stað orðanna „kerfislega mikilvægrar starfsemi“ í 4. tölul. 4. mgr. 82. gr. c laganna kemur: nauðsynlegrar starfsemi.
                  d.      Síðari málsl. 1. mgr. 82. gr. d laganna orðast svo: Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsaðili á samstæðugrunni skal það móttaka endurbótaáætlun og áframsenda til lögbærra yfirvalda dótturfélaga og mikilvægra útibúa, samstæðuskilavalds og skilastjórnvalda dótturfélaga.
                  e.      3. mgr. 82. gr. e laganna orðast svo: Seðlabanki Íslands setur reglur um viðmið vegna ákvörðunar um einfalda endurbótaáætlun skv. 1. mgr.
                  f.      82. gr. g laganna fellur brott.
                  g.      Eftirfarandi breytingar verða á 86. gr. laganna:
                      1.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórn lánastofnunar, verðbréfafyrirtækis, fjármálastofnunar eða eignarhaldsfélaga sem falla undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja skal þegar í stað tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef líkur eru á að fyrirtækið teljist vera á fallanda fæti í skilningi þeirra laga.
                      2.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Ef Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning skv. 4. málsl. 1. mgr. skal það upplýsa skilavaldið um tilkynninguna og aðgerðir skv. 82. gr. c og 86. gr. g – 86. gr. j ef það hefur eða hyggst grípa til þeirra.
                      3.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tilkynning um brot gegn varfærniskröfum og um að fyrirtæki sé á fallanda fæti.
                  h.      Á eftir 3. mgr. 86. gr. h kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við aðstæður skv. 1 eða 2. tölul. 1. mgr. er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki skylt að veita Fjármálaeftirlitinu allar þær upplýsingar sem þykja nauðsynlegar til að hægt sé að uppfæra skilaáætlun og meta eignir og skuldbindingar viðkomandi fyrirtækis og mögulega skilameðferð þess samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Skilavaldið skal hafa aðgang að þeim upplýsingum. Fjármálaeftirlitið skal þegar í stað upplýsa skilastjórnvöld lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis ef aðstæður eru þannig að heimilt sé að beita tímanlegum inngripum skv. 1. mgr.
                  i.      7. mgr. 86. gr. j laganna fellur brott.
                  j.      Við lögin bætist ný grein, 86. gr. l, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tímanleg inngrip á samstæðugrunni.

                      Ef skilyrði fyrir aðgerðum skv. 86. gr. h eða 86. gr. j eru fyrir hendi gagnvart móðurfélagi í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem er staðsett hér á landi, skal Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni ráðfæra sig við önnur lögbær yfirvöld innan samstarfshóps eftirlitsaðila og tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni áður en gripið er til aðgerða gagnvart móðurfélaginu. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um aðgerðir skal svo tilkynnt lögbærum yfirvöldum í samstarfshópi eftirlitsaðila og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.
                      Ef Fjármálaeftirlitið móttekur, sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni, tilkynningu frá lögbæru yfirvaldi dótturfélags í samræmi við 2. mgr. 86. gr. m skal það leggja fram mat sitt á því hvaða áhrif fyrirhugaðar aðgerðir hafa á samstæðu innan þriggja virkra daga frá móttöku tilkynningarinnar.
                      Þegar fleiri en eitt lögbært yfirvald innan samstarfshóps eftirlitsaðila vilja grípa til einnar eða fleiri aðgerða í samræmi við 86. gr. h eða 86. gr. j, gagnvart fleiri en einni lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki innan samstæðu, skal Fjármálaeftirlitið, í samstarfi við önnur lögbær yfirvöld í samstarfshópnum, meta hvort viðeigandi sé að skipa sama bráðabirgðastjórnanda skv. 86. gr. j fyrir öll viðeigandi fyrirtæki eða samhæfa beitingu einnar eða fleiri aðgerða skv. 86. gr. h gagnvart einu eða fleiri af fyrirtækjunum.
                      Fjármálaeftirlitið skal leitast við að taka sameiginlega ákvörðun með viðeigandi lögbærum yfirvöldum í samstarfshópi eftirlitsaðila og skal sú ákvörðun liggja fyrir eigi síðar en fimm virkum dögum eftir að upplýsingar voru tilkynntar lögbærum yfirvöldum skv. 1. mgr. Sameiginleg ákvörðun skal rökstudd og tilkynnt móðurfélagi.
                      Ef sameiginleg ákvörðun liggur ekki fyrir eftir samráð skv. 1. mgr. innan tímafrests skv. 4. mgr. skal Fjármálaeftirlitið taka ákvörðun um að beita einni eða fleiri aðgerðum skv. 86. gr. h eða 86. gr. j gagnvart móðurfélaginu. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna móðurfélaginu og lögbærum yfirvöldum í samstarfshópi eftirlitsaðila um ákvörðunina.
                      Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum skv. 1. og 5. mgr. ef eitthvert lögbært yfirvald í samstarfshópi eftirlitsaðila hefur vísað ákvörðun þess til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, fyrir lok tímabils samráðs skv. 1. mgr. eða tímafrests skv. 4. mgr., og bíða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal vera í samræmi við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA.
                  k.      Við lögin bætist ný grein, 86. gr. m, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tímanleg inngrip gagnvart dótturfélagi móðurfélags í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu.

                      Ef Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með einu eða fleiri dótturfélögum, sem eru lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a, skal það ráðfæra sig við eftirlitsaðila á samstæðugrunni og tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni ef skilyrði skv. 86. gr. h eða 86. gr. j fyrir aðgerðum gagnvart dótturfélagi eru uppfyllt, áður en ákvörðun um beitingu aðgerðanna er tekin. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um aðgerðir skal svo tilkynnt eftirlitsaðilum á samstæðugrunni og viðeigandi lögbærum yfirvöldum í samstarfshópi eftirlitsaðila.
                      Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka ákvörðun um beitingu aðgerða skv. 86. gr. h eða 86. gr. j gagnvart dótturfélagi sem lýtur eftirliti þess skv. 1. mgr. ef ekki næst sameiginleg ákvörðun með eftirlitsaðila á samstæðugrunni og, ef við á, öðrum lögbærum yfirvöldum innan tímafrests skv. 4. mgr. 86. gr. l. Skal Fjármálaeftirlitið tilkynna dótturfélaginu um ákvörðunina. Fjármálaeftirlitið skal fresta því að hrinda ákvörðuninni í framkvæmd ef lögbært yfirvald hefur vísað ákvörðuninni til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, og bíða þeirrar ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal vera í samræmi við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA.
                  l.      Eftirfarandi breytingar verða á 98. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðsins „lánastofnana“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis.
                      2.      Á eftir orðinu „lánastofnun“ í síðari málsl. 1. mgr. kemur: og verðbréfafyrirtæki.
                      3.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í fyrri málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: og verðbréfafyrirtækis.
                      4.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til endurskipulagningar fjárhags teljast einnig skilaaðgerðir sem gripið er til á grundvelli laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                      5.      4. mgr. orðast svo:
                              Ákvæði A-hluta XII. kafla taka til verðbréfafyrirtækja, og útibúa þeirra, sem ekki falla undir 3.–5. mgr. 25. gr.
                      6.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Þegar lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki undirgengst endurskipulagningu fjárhags eða slitameðferð sem hluti skilameðferðar á grundvelli laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja skal ákvæði þeirra laga gilda um þagnarskyldu vegna samráðs við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum.
                      7.      Heiti A-hluta XII. kafla verður: Endurskipulagning fjárhags lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  m.      Eftirfarandi breytingar verða á 99. gr. laganna:
                      1.      Á eftir orðinu „lánastofnun“ í 1. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtæki.
                      2.      Á eftir orðinu „lánastofnunin“ í 1. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækið.
                      3.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í c-, e- og g-lið 2. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækis.
                      4.      Á eftir orðinu „lánastofnun“ í e-, f- og h-lið 2. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtæki.
                      5.      Á eftir orðunum „sem um samninginn gilda“ í 1. málsl. j-liðar 2. mgr. kemur:,sbr. þó 69. og 72. og 73. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                      6.      Á eftir orðunum „sbr. þó ákvæði i-liðar“ í k-lið 2. mgr. kemur: 69. gr., 72. og 73. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                      7.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í fyrri málsl. 3. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækis.
                      8.      Á eftir orðinu „lánastofnunarinnar“ í síðari málsl. 3. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækisins.
                      9.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í 4. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækis.
                      10.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Ákvæði 5. mgr. 35. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja gildir um tilkynningar skv. síðari málsl. 3. mgr. og 4. mgr. ef lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hefur verið tekið til skilameðferðar á grundvelli þeirra laga.
                      11.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: eða verðbréfafyrirtækis.
                  n.      Eftirfarandi breytingar verða á 100. gr. laganna:
                      1.      Á eftir orðinu „lánastofnun“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtæki.
                      2.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í síðari málsl. 1. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækis.
                      3.      Á eftir orðinu „lánastofnunin“ í síðari málsl. 1. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækið.
                      4.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í fyrri málsl. 2. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtækis.
                      5.      Á eftir orðinu „lánastofnun“ tvisvar sinnum í 4. mgr. kemur: eða verðbréfafyrirtæki.
                      6.      Á eftir orðinu „lánastofnunar“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: eða verðbréfafyrirtækis.
                  o.      100. gr. a laganna fellur brott.
                  p.      Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðsins „bráðabirgðastjórnar“ í 2. og 3. tölul. 2. mgr. kemur: bráðabirgðastjórnanda.
                      2.      Orðin „eða bráðabirgðastjórn“ í 4. málsl. 4. mgr. falla brott.
                      3.      Í stað orðanna „eða skipað því bráðabirgðastjórn skv. 100. gr. a“ í 5. mgr. kemur: það hefur verið tekið til skilameðferðar skv. 35. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                      4.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Ákvæði 2. mgr. gilda ekki ef fjármálafyrirtæki hefur verið tekið til skilameðferðar samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  q.      5. mgr. 101. gr. a laganna fellur brott.
                  r.      Í stað 3. mgr. 102. gr. laganna koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
                      Við slit fjármálafyrirtækja gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu:
                      1.      kröfur vegna tryggðra innstæðna samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og kröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur tekið yfir vegna tryggðra innstæðna teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.,
                      2.      kröfur vegna tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga í skilningi laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja ganga næstar kröfum skv. 1. tölul.
                      Að því leyti sem rétthæð krafna getur ráðist samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. af þeim tíma sem úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skal miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita.
                  s.      Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
                      1.      Í stað tilvísunarinnar „5. mgr. 102. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 6. mgr. 102. gr.
                      2.      Orðin „eða skilanefnd“ í 3. málsl. 3. mgr. falla brott.
                  t.      Í stað tilvísunarinnar „5. mgr. 102. gr.“ í 7. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laganna kemur: 6. mgr. 102. gr.
                  u.      Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. d laganna:
                      1.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fjárstuðningur veikir ekki grundvöll skilabærni samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, hjá því fyrirtæki sem veitir fjárstuðninginn.
                      2.      Í stað orðanna „reglugerð sem ráðherra setur og skal í reglugerðinni a.m.k. kveðið“ í 2. mgr. kemur: reglum Seðlabanka Íslands sem skulu a.m.k. kveða.
                  v.      Í stað orðanna „Ráðherra setur reglugerð“ í 2. mgr. 109. gr. f laganna kemur: Seðlabanki Íslands setur reglur.
                  w.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
                      1.      Við 45. tölul. bætist: eða tilkynningu um að fyrirtæki sé á fallanda fæti.
                      2.      64. tölul. fellur brott.
                  x.      Við 25. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laganna bætist: eða tilkynningu um að fyrirtæki sé á fallanda fæti.
                  y.      Við lögin bætist ný grein, 112. gr. f, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tímabundið bann vegna brottvikningar stjórnar og framkvæmdastjóra.

                      Ef Fjármálaeftirlitið víkur stjórn lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a frá í heild eða að hluta eða framkvæmdastjóra skv. 86. gr. h eða 86. gr. i er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna hlutaðeigandi að taka tímabundið sæti í stjórn eða verða framkvæmdastjóri fyrirtækis eða einingar sem fellur undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
     2.      Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum:
                  a.      Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Markmið laganna er jafnframt að koma að fjármögnun skilameðferðar samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. b laganna:
                      1.      Á undan orðinu „innstæðum“ fjórvegis í 3. mgr. kemur: tryggðum.
                      2.      Orðin „öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd samkvæmt lögum þessum“ í 3. mgr. falla brott.
                      3.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Innstæðudeild skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tiltækum fjármunum sem nema að lágmarki 0,8% af tryggðum innstæðum hjá aðildarfyrirtækjum.
                  c.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                      1.      Á undan orðinu „innstæðu“ í 1., 2., 4., 5. og 6. málsl. 1. mgr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: tryggður.
                      2.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Greiðslur til hvers innstæðueiganda skulu nema heildarfjárhæð tryggingarhæfra innstæðna hans hjá hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki, þó aldrei hærri fjárhæð en að jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum.
                      3.      Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem verða 5. og 6. mgr., svohljóðandi:
                              Með tryggingarhæfri innstæðu er átt við innstæðu sem ekki er undanskilin tryggingu skv. 9. mgr.
                              Með tryggðri innstæðu skv. 1. mgr. er átt við þann hluta tryggingarhæfrar innstæðu sem er innan fjárhæðarmarka skv. 2. mgr.
                      4.      1., 3., 5. og 6. tölul. 6. mgr. falla brott.
                      5.      Við 6. mgr., sem verður 9. mgr., bætast sjö nýir töluliðir, svohljóðandi:
                              a.      innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning,
                              b.      eiginfjárgrunnur lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eins og hann er samsettur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki,
                              c.      innstæður fjármálastofnana eins og þær eru skilgreindar í lögum um fjármálafyrirtæki,
                              d.      innstæður verðbréfafyrirtækja í skilningi laga um fjármálafyrirtæki,
                              e.      innstæður vátryggingafélaga og endurtryggingafélaga eins og þau eru skilgreind í lögum um vátryggingastarfsemi,
                              f.      innstæður sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
                              g.      skuldabréf útgefin af lánastofnun og skuldbindingar vegna eigin víxla, svo og skuldaviðurkenningar.
                  d.      Í stað 1. mgr. 10. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Nú hrökkva eignir innstæðudeildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr þeirri deild skipt þannig milli kröfuhafa að þeir fái bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir deildarinnar hrökkva til. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
                      Nú hrökkva eignir verðbréfadeildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr þeirri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra er bætt að fullu allt að 1,7 millj. kr. en allt sem umfram er þá fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir deildarinnar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
     3.      Lög um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018: Við 2. gr. laganna bætist: og þeim breytingum sem leiða af 126. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og breytingu á tilskipun ráðsins 82/891/EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/ EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 25 frá 19. apríl 2018, bls. 4.
     4.      Lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017: Við 1. tölul. 3. gr. laganna bætist: með þeim breytingum sem leiðir af 125. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og breytingu á tilskipun ráðsins 82/891/ EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 25 frá 19. apríl 2018, bls. 4.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Stofna skal sérstaka deild í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta er nefnist skilasjóður. Fjármunum skilasjóðs skal haldið aðgreindum frá öðrum deildum sjóðsins og sérstaklega skal gera grein fyrir tekjum hans og eignum í ársreikningi sjóðsins. Fyrir árin 2020 og 2021 skulu framlög til skilasjóðs ákvörðuð þannig að eigi síðar en 1. mars, hvort ár, skal færa 1,2 milljarða kr. úr innstæðudeild sjóðsins í skilasjóð.
    Stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skal sjá um flutning fjármuna milli deilda og hlutast til um ávöxtun fjármunanna.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lögð til ný heildarlög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Verði frumvarpið að lögum verður innleiddur í íslenskan rétt annar hluti og meginefni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Fyrsti hluti tilskipunarinnar, sem fjallaði um helstu verkefni lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og Fjármálaeftirlitsins, þá sérstaklega gerð og mat á endurbótaáætlunum og heimild til tímanlegra inngripa í rekstur fyrirtækis, var innleiddur með lögum nr. 54/2018 sem breyttu lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Tilskipun 2014/59/ESB var birt í Stjórnartíðindum ESB 12. júní 2014 og tók gildi í ríkjum ESB 2. júlí 2014. Samkvæmt tilskipuninni áttu aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) að innleiða ákvæði hennar í landsrétt fyrir 31. desember 2014 og áttu reglurnar að gilda frá sama tímamarki að undanskildum ákveðnum ákvæðum sem tóku gildi í aðildarríkjum ESB 1. janúar 2016. Tilskipun 2014/59/ESB, sem er á ensku, er jafnan kölluð „Bank Recovery and Resolution Directive“ eða „BRRD Directive“ og var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) 9. febrúar 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 og verður hér eftir vísað til hennar sem tilskipunarinnar.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með aðkomu nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Vegna aðildar Íslands að EES-samningnum byggist stór hluti íslenskrar löggjafar á sviði fjármálaþjónustu á gerðum ESB. Á undanförnum árum hefur ESB lagt mikla áherslu á að bæta regluverk á sviði fjármálaþjónustu til að draga úr líkum á því að fjármálaáföll á borð við þau sem áttu sér stað árið 2008 endurtaki sig. Endurskoðun ESB hefur náð til nær allra þátta fjármálaþjónustunnar og leitt til grundvallarbreytinga á reglum Evrópuréttar, m.a. til aukinnar einsleitni á innri markaðnum.
    Alþjóðlega fjármálakreppan sem hófst árin 2007–2008 leiddi í ljós ófullnægjandi valdheimildir eftirlitsstjórnvalda, bæði innan og utan Evrópu, til að takast á við rekstrarerfiðleika eða áföll hjá fjármálafyrirtækjum. Stjórnvöld víða um heim lögðu gjarnan fjármálafyrirtækjum til opinbert fjármagn til að takast á við rekstrarerfiðleika eða fjármálaáföll, m.a. í þeim tilgangi að vernda fjármálastöðugleika. Ein helsta ástæða þess að ESB ákvað að semja nýjar samræmdar reglur um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja var sú að með þeim mætti sporna við því að gripið væri inn í rekstur fallandi fjármálafyrirtækja með opinberum fjármunum. Meginmarkmið nýs regluverks er því að hluthafar og lánardrottnar fyrirtækis, sem ekki getur staðið við skuldbindingar sínar, taki á sig það tap sem hlýst af erfiðleikum fyrirtækisins.
    Með setningu laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, var tekið á þeim miklu erfiðleikum sem sköpuðust hér á landi við bankahrunið 2008. Með lögunum var fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, veitt heimild við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði til að leggja fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða að hluta. Með frumvarpinu voru einnig samþykktar ýmsar breytingar á öðrum lögum. Ber þar helst að nefna breytingar sem gerðar voru á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með þeim breytingum voru kröfur vegna innstæðna gerðar að forgangskröfum samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og við lög um fjármálafyrirtæki bættist nýtt ákvæði, 100. gr. a, sem veitti Fjármálaeftirlitinu víðtækar heimildir til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja til að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Ákvæði 100. gr. a var lögfest sem bráðabirgðaákvæði VI við lög um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 44/2009. Gildistími ákvæðisins hefur verið framlengdur sex sinnum, nú síðast með lögum nr. 94/2017, sem samþykkt voru á 148. löggjafarþingi. Heimildir tilskipunarinnar eru um margt sambærilegar þeim heimildum sem Fjármálaeftirlitinu voru faldar með setningu neyðarlaganna. Gildissvið tilskipunarinnar er þó mun víðtækara, inntakið meira og aðferðafræðin nákvæmari. Þegar innleiðingu á tilskipuninni og undirgerðum hennar verður að fullu lokið, samhliða innleiðingu á tilskipun 2014/49/ESB um innstæðutryggingakerfi sem unnið er að, verður til nýtt heildstætt regluverk á fjármálamarkaði sem leysir þá umgjörð af hólmi sem komið var á fót haustið 2008. Tilskipanirnar tvær, ásamt tilskipun 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja, mynda samtengdan hluta af nýrri heildarumgjörð fyrir fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaðinn sem ætlað er að taka á erfiðleikum og áföllum í rekstri fjármálafyrirtækja. Saman mynda þessar þrjár tilskipanir hornstein bankabandalags Evrópu.
    Heildarendurskoðun á regluverki fyrir fjármálafyrirtæki og fjármálamarkað ætti að draga úr líkum á fjármálakreppu í framtíðinni og efla viðnámsþrótt gagnvart efnahagslegu álagi, hvort sem það stafar af kerfislægu ójafnvægi, óstöðugleika á fjármálamörkuðum eða rekstrarerfiðleikum sem eru bundnir við ákveðið fyrirtæki. Slík endurskoðun hefur verið umfangsmikil hér á landi undanfarin ár meðal annars með auknum kröfum um laust fé og eigin fé lánastofnana, auknum kröfum um áhættustýringu fjármálafyrirtækja og breyttri nálgun í opinberu eftirlit á fjármálamarkaði. Það er þó ekki hægt að móta reglu- og eftirlitsumgjörð sem komið getur að öllu leyti í veg fyrir að fyrirtæki lendi í rekstrarerfiðleikum og því er nauðsynlegt að aðildarríki hafi ríkar heimildir og úrræði til að takast á við slíka erfiðleika. Tilskipuninni er ætlað að færa aðildarríkum þessar heimildir og úrræði og aðferðafræði við beitingu þeirra.

2.1. Um tilskipun 2014/59/ESB.
    Í tilskipuninni er mælt fyrir um viðbrögð og aðgerðir til að takast á við erfiðleika eða áföll í rekstri lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Helstu markmið tilskipunarinnar eru annars vegar að koma í veg fyrir erfiðleika eða áföll í rekstri fjármálafyrirtækja. Til að ná því markmiði þurfa fyrirtæki sem heyra undir gildissvið tilskipunarinnar og stjórnvöld að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana og undirbúningsaðgerða í því skyni að bregðast við erfiðleikum. Hins vegar er það markmið að lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla ef til þeirra kemur með því að tryggja stjórnvöldum nauðsynlegar valdheimildir til inngripa í rekstur fyrirtækis og úrræði til að greiða úr stöðu fyrirtækis á fallanda fæti. Með því er lagt upp með að vernda fjármálastöðugleika, tryggja áframhaldandi nauðsynlega starfsemi fyrirtækis, draga úr hættu á að ráðstafa þurfi fé úr ríkissjóði og vernda tryggðar innstæður, fé og eignir viðskiptamanna fyrirtækis. Fjallað er um einstök efnisatriði tilskipunarinnar í skýringum við III. kafla frumvarpsins.
    Tilskipunin kveður á um að sérstakt stjórnvald eða aðskilin eining innan starfandi stjórnvalds (e. resolution authority) skuli fara með skilavald, þ.e. undirbúning og framkvæmd skilameðferðar. Í tilskipuninni er einnig kveðið á um skyldu stjórnvalda til að setja á stofn sérstakt fjármögnunarfyrirkomulag (e. resolution financing arrangement) sem gjarnan er fjallað um sem skilasjóð í daglegu tali (e. resolution fund). Hlutverk skilasjóðs er að tryggja skammtímafjármögnun vegna aðgerða sem hægt er að grípa til við skilameðferð þannig að skilvirkni hennar sé tryggð án opinberra fjárframlaga frá aðildarríkjum. Fjallað er um aðgreinda einingu innan Seðlabanka Íslands sem fer með skilavald í kafla 3.2 og kafla 3.12 í greinargerð.
    Nánari útfærslur einstakra ákvæða tilskipunarinnar koma meðal annars fram í framseldum reglugerðum (e. delegated regulation) eða framkvæmdarreglugerðum (e. implementing regulation) framkvæmdastjórnar ESB sem byggjast flestar á tæknilegum eftirlitsstöðlum eða framkvæmdarstöðlum sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin leggur drög að. Þessar Evrópugerðir verða innleiddar hér á landi með stjórnvaldsfyrirmælum. Þar að auki eru einstök ákvæði tilskipunarinnar útfærð nánar í viðmiðunarreglum sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin gefur út.

2.2. Afmörkun við innleiðingu á tilskipun 2014/59/ESB í íslenskan rétt.
    Á starfstíma nefndar sem kom að innleiðingu tilskipunarinnar var lagt upp með að efnisákvæði hennar yrðu innleidd hér á landi með nýjum heildarlögum um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja þannig að fylgt væri uppbyggingu tilskipunarinnar við samningu slíkra laga. Jafnframt var lagt upp með að efnisákvæði XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki um endurskipulagningu fjárhags og slit, sem byggist á tilskipun 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana, yrðu sameinuð nýju lögunum. Með því að sameina ákvæði XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki frumvarpi til nýrra heildarlaga yrði til heildstæður lagabálkur um viðbrögð við rekstrarerfiðleikum og um skilameðferð og slit lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
    Að teknu tilliti til umfangs tilskipunarinnar var tekin sú ákvörðun í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við nefndina að skipta efninu upp í fleiri en einn hluta og innleiða tilskipunina í áföngum með fleiri en einu lagafrumvarpi. Tilskipunin er yfirgripsmikil en í heild spannar hún 132 greinar og er 159 blaðsíður með viðaukum. Þá er regluverk tilskipunarinnar nokkuð flókið og afar nákvæmt enda um að ræða nýjar efnisreglur sem byggjast ekki á grunni eldri Evrópureglna. Ríki Evrópu hafa nú þegar innleitt regluverk tilskipunar 2014/59/ESB í landsrétt sinn. Vegna aðildar að EES-samningnum þarf Ísland að tryggja einsleitni á innri markaðnum og brýnt þykir að ljúka innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt.
    Norðurlandaþjóðirnar hafa beitt nokkuð mismunandi aðferðum við innleiðingu tilskipunarinnar. Danir hafa innleitt hluta af ákvæðum hennar með breytingu á lögum um fjármálastarfsemi (d. lov om finansiel virksomhed) og hluta með nýjum lögum um endurskipulagningu og skilameðferð tiltekinna fjármálafyrirtækja (d. lov om restrukturering og afvikling af visse finansielle virksomheder). Hið sama á við um Svía sem innleiddu ákvæði tilskipunarinnar meðal annars með breytingu á lögum um banka- og fjármálastarfsemi (s. lag om bank- och finansieringsrörelse) og nýjum lögum um skilameðferð (s. lag om resolution). Þau ákvæði tilskipunarinnar sem lagt er til að verði að nýjum heildarlögum hér á landi með frumvarpi þessu voru lögfest með sambærilegum hætti í Danmörku og Svíþjóð. Í Noregi voru ákvæði tilskipunarinnar hins vegar innleidd í heild sinni með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og fjármálastarfsemi (n. lov om finansforetak og finanskonsern (n. finansforetaksloven)).
    Lagt er upp með að fara sambærilega leið og farin var í Danmörku og Svíþjóð við innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Þau ákvæði tilskipunarinnar sem lögfest voru með gildistöku laga nr. 54/2018 og eru á verksviði Fjármálaeftirlitsins verða áfram í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Önnur ákvæði tilskipunarinnar sem ætlunin er að innleiða með þessu frumvarpi verða í nýjum heildarlögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Það er svo sjálfstætt verkefni að endurskoða XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, sem kveður á um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja, og þegar farið verður í þá vinnu verður tekin afstaða til hvort rétt þyki að sameina þau ákvæði heildarlögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
    Að teknu tilliti til umfangs frumvarpsins er það byggt upp með þeim hætti að því er skipt upp í fimm þætti og innan hvers þáttar eru nokkrir kaflar. Í 1. þætti frumvarpsins er að finna almenn ákvæði í tveimur köflum. I. kafli frumvarpsins kveður á um markmið laganna, gildissvið og skilgreiningar og II. kafli um stjórnsýslu, málshöfðun, upplýsinga- og þagnarskyldu. Í 2. þætti frumvarpsins er kveðið á um fyrirbyggjandi aðgerðir og undirbúning skilameðferðar í fimm köflum. Vikið frá uppbyggingu tilskipunarinnar í þessum þætti og ákvæðin sett framar en þau koma fyrir í tilskipuninni. Er það gert í því skyni að frumvarpið endurspegli betur eðlilega tímalínu aðgerða. Þær reglur sem koma fram í III., IV. og V. kafla um skilaáætlun og skilabærni, lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar og ýmsar aðgerðir til að undirbúa skilameðferð og forðast fall fyrirtækis fela í sér reglubundin verkefni samkvæmt frumvarpinu óháð rekstrarerfiðleikum fyrirtækis. Ákvæði VI. kafla um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga fjalla um vægari aðgerð en beitingu á skilaúrræðum við skilameðferð og skal beita úrræðinu ef það er nægjanlegt til að endurreisa fyrirtæki. Þá skal mat á eignum og skuldbindingum samkvæmt VII. kafla frumvarpsins koma til áður en gripið er til skilaaðgerða við skilameðferð. Grípa skal til aðgerða skv. VI. og VII. kafla frumvarpsins fyrr í tíma en annarra aðgerða sem koma fyrir í síðari köflum frumvarpsins. Í 3. þætti frumvarpsins er að finna meginefni þess, þ.e. ákvæði sem varða skilameðferð. Í þessum þætti eru kaflar sem kveða á um ákvörðun um skilameðferð, upphafsaðgerðir hennar, skilaúrræðin fjögur, skilaheimildir, opinber fjármálastöðgunarúrræði, skilasjóð og önnur ákvæði sem varða skilameðferð. Í 4. þætti frumvarpsins er kveðið á um samskipti við önnur ríki í tveimur köflum. Annars vegar er um að ræða samskipti við önnur aðildarríki sem skulu gilda við skilameðferð samstæðu og hins vegar þær reglur sem gilda í tilviki útibús hér á landi sem er hluti af fyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í 5. þætti frumvarpsins er svo að finna ákvæði um viðurlög og önnur atriði, þ.m.t. gildistöku og breytingar á öðrum lögum. Nokkuð viðamiklar breytingar eru lagðar til á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í þættinum sem tengjast þeim breytingum á lagaumgjörð sem kveðið er á um í frumvarpi þessu. Einnig eru lagðar til til afmarkaðar breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, en þær breytingar eru nauðsynlegar til að tryggja efnislega rétta framkvæmd laganna um skilameðferð til samræmis við efni tilskipunarinnar.
    Tilskipunin kveður á um lágmarkssamræmingu og er aðildarríkjum heimilt að ganga lengra við innleiðingu hennar og setja reglur sem eru strangari eða til viðbótar þeim sem kveðið er á um í tilskipuninni. Þá er einnig að finna ýmis valkvæð ákvæði í tilskipuninni sem aðildarríkjum er heimilt en ekki skylt að innleiða í landsrétt. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til reglur sem eru meira íþyngjandi eða til viðbótar þeim sem fram koma í tilskipuninni. Vert er þó að nefna fjögur efnisatriði þar sem gengið er lengra en skylt er samkvæmt tilskipuninni. Í fyrsta lagi er tekið mið af heimildarákvæði tilskipunarinnar um takmörkun á bótaábyrgð gagnvart brúarstofnun og eignaumsýslufélagi. Bótaábyrgðin er takmörkuð við ásetning eða stórkostlegt gáleysi sem er í samræmi við löggjöf annarra Norðurlandaþjóða, sbr. 3. mgr. 47. og 52. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi er kveðið á um að heimilt sé að ráðstafa hærri fjárhæð úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta við skilameðferð lánastofnunar en sem nemur því lágmarki sem kveðið er á um í tilskipuninni. Lágmarkið er 50% af viðmiðunarmarki tryggðra innstæðna sem er 0,8% en aðildarríkjum er heimilt að ganga lengra og leggja til hærra hlutfall. Í 5. mgr. 82. gr. frumvarpsins er hlutfallið 175% lagt til í ljósi sterkrar stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta en um síðustu áramót námu eignir sjóðsins um 4,5% af áætluðum gjaldstofni samkvæmt breyttri skilgreiningu á tryggðum innstæðum. Einnig var litið til þess að kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki sem fara í skilameðferð ef þau eru á fallandi fæti greiða meginhluta iðgjalda í tryggingarsjóðinn. Enn fremur byggist útfærslan á löggjöf annarra Norðurlandaþjóða þar sem hlutfallið er til dæmis 100% í Danmörku og 200% í Svíþjóð. Í þriðja lagi er kveðið á um það í 1. mgr. 85. gr. frumvarpsins hvernig skilameðferð skuli lokið, en í tilskipuninni er ekki kveðið á um það. Skilameðferð er þó ætlað að standa tímabundið og æskilegt þykir að skýrt sé hvenær henni, og þeim réttaráhrifum sem henni fylgja, telst lokið. Í því skyni er lagt til að skilavaldið taki formlega ákvörðun um endalok skilameðferðar þegar frekari skilaaðgerða er ekki þörf. Í fjórða lagi er í bráðabirgðaákvæði við lögin kveðið á um tímabundinn flutning fjármuna úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til að hefja uppbyggingu skilasjóðs sem koma skal á fót samkvæmt tilskipuninni. Fjallað er um röksemdir fyrir þessari tilhögun í kafla 3.12 í greinargerðinni.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er kveðið á um ný heildarlög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem eru innleiðing ákvæða tilskipunar 2014/59/ESB. Jafnframt eru lagðar til einstakar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem einnig byggjast að hluta til á efni tilskipunarinnar. Þar að auki eru lagðar til afmarkaðar breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, vegna innbyrðis tengsla þeirra við ákvæði frumvarpsins. Frumvarpið er annar áfangi innleiðingar á efnisreglum tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Verði frumvarpið samþykkt mun eftir standa að innleiða afmörkuð ákvæði tilskipunarinnar sem varða skilasjóð en að öðru leyti verður tilskipunin innleidd að fullu.

3.1. Gildissvið.
    Ákvæði frumvarpsins gilda um lánastofnanir og stærri verðbréfafyrirtæki. Hugtakið lánastofnun er skilgreint í 21. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Um er að ræða sömu skilgreiningu og kemur fyrir í lögum um fjármálafyrirtæki. Hugtakið verðbréfafyrirtæki er skilgreint í 34. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins með vísan til þess skilnings sem lagt er í hugtakið samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki með því viðbótarskilyrði að það sé með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Skilgreining á hugtakinu verðbréfafyrirtæki byggist á skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja með þeirri viðbót sem fram kemur í skilgreiningu tilskipunar 2014/59/ESB um lágmarksstofnfé verðbréfafyrirtækis. Með hugtakinu „verðbréfafyrirtæki“ er í frumvarpinu átt við fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. sömu laga, að undanskildum þeim sem bera takmarkaðar starfsskyldur skv. 3. mgr. 25. gr. þeirra laga. Þá þarf stofnframlag verðbréfafyrirtækis að lágmarki að nema jafnvirði 730 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum, sbr. 2. mgr. 14. gr. a laganna. Í frumvarpinu er vísað til verðbréfafyrirtækja með stofnframlag, skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, enda stofnframlag verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur lægra en jafnvirði 730 þúsund evra í íslenskum krónum. Notast er við hugtakið „fyrirtæki“ í frumvarpinu sem samheiti yfir lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, sbr. skilgreiningu í 17. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um valdheimildir sem heimilt verður að beita gagnvart tilteknum fyrirtækjum innan samstæðu. Slík fyrirtæki þurfa ekki að vera lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki. Ástæða þess að tilskipunin kveður á um þessar heimildir er sú hætta sem skapaðist við alþjóðlegu bankakreppuna. Þannig getur ógjaldfærni fyrirtækja innan sömu samstæðu haft margvísleg áhrif á gjaldfærni samstæðu í heild, þar á meðal smitáhrif og kerfisleg áhrif. Frumvarpið gildir um fjármálastofnanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og ýmis eignarhaldsfélög og móðureignarhaldsfélög þeirra sem eru skilgreind í 3.–6., 10. og 23. og 24. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Skilgreining á hugtakinu „fjármálastofnun“ í 16. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er víðtækari en þær fjármálastofnanir sem heyra undir gildissvið frumvarpsins, sbr. b-lið 2. gr. frumvarpsins. Notast er við hugtakið „eining“ í frumvarpinu sem samheiti yfir fjármálastofnanir, eignarhaldsfélög og móðureignarhaldsfélög sem falla undir gildissvið laganna, sbr. skilgreiningu í 13. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

3.2. Skilavald Seðlabanka Íslands.
    Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að lögfest verði ákvæði tilskipunarinnar um stjórnvald eða aðgreinda einingu innan starfandi stjórnvalds (e. resolution authority) sem falið verði skilavald, þ.e. stjórnsýsluvald til að grípa til aðgerða og sinna verkefnum eins og kveðið er á um í frumvarpinu og tengist undirbúningi og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Ríki á Evrópska efnahagssvæðinu skulu tilnefna eitt stjórnvald sem skilavald og er það meginregla tilskipunarinnar að það verði seðlabanki, viðeigandi ráðuneyti eða annað stjórnvald. Einnig er heimilt að sjálfstæð stofnun fái skilavald.

3.2.1. Aðskilið skipulag skilavalds.
    Tilskipunin gerir áskilnað um að skipulag skilavalds sé aðskilið (e. operational independence) gagnvart öðrum verkefnum þess stjórnvalds sem skilavaldi verður komið fyrir hjá. Með þeirri tilhögun er markmiðið að tryggja skilvirkni í aðgerðum, sjálfstæði og komast hjá hagsmunaárekstrum. Þá eru strangari kröfur gerðar til aðskilnaðar milli þeirrar starfsemi sem snýr að fjármálaeftirliti með bönkum og skilavalds ef sú starfsemi er starfrækt innan sama stjórnvalds. Ástæðu þess má rekja til kenninga um umburðarlyndi eftirlitsstjórnvalds (e. regulatory forbearance) sem kunni að draga það að grípa til nauðsynlegra aðgerða vegna rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækis í þeirri von að leyst verði úr erfiðleikunum með öðrum og vægari hætti. Eftirlitsstjórnvald verði þannig ekki fyrir álitshnekki vegna ásakana um mistök við dagleg eftirlitsstörf.
    Í frumvarpinu er lagt til að Seðlabanka Íslands verði falið að fara með skilavald hér á landi og notast er við heitið skilavald sem heyrir þá undir Seðlabankann. Gerðar eru kröfur um aðskilið skipulag skilavalds innan Seðlabankans og skal sú starfsemi vera aðskilin annarri starfsemi bankans. Upplýsingar starfsfólks skilavaldsins skulu þannig aðskildar með aðgangsstýringu frá öðrum upplýsingum sem ætlaðar eru starfsfólki sem fer með aðra starfsemi innan Seðlabankans. Starfsfólk skilavalds skal geta unnið að verkefnum sínum aðskilið frá öðrum verkefnum bankans og skal ekki vera heft í aðgerðum sínum vegna ákvarðana sem teknar eru vegna annarra starfa Seðlabankans.
    Ekki ber þó að túlka kröfur um aðskilnað með víðtækari hætti en efni standa til enda nauðsynlegt að viðhafa samstarf og samráð við aðrar starfseiningar Seðlabankans, þ.m.t. Fjármálaeftirlitið. Víða í frumvarpinu er gert ráð fyrir upplýsingaskiptum, samráði og samstarfi, þ.m.t. við ákvarðanatöku. Seðlabankinn skal setja reglur um upplýsingaskipti innan bankans vegna ákvæða laganna, sbr. 4. gr. frumvarpsins.

3.2.2. Sjálfstæðar boðleiðir.
    Boðleiðir skilavaldsins þurfa að vera skilvirkar og aðskildar öðrum boðleiðum Seðlabankans. Af þessu leiðir að starfsfólk skal beina tilkynningum og upplýsingum sínum í gegnum aðra ferla en snúa að starfsfólki bankans sem sinnir öðrum verkefnum og skal starfsfólkið hafa sjálfstæðar boðleiðir. Endanleg ákvörðunartaka um málefni skilameðferðar verður í höndum æðstu stjórenda Seðlabankans en gera má ráða fyrir því að stjórnendur sem bera þær meginskyldur að fara með eindareftirlit (e. micro-prudential supervision) með kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum komi ekki að formlegri ákvarðanatöku sem skilavald. Líkt og fjallað er um í kafla 3.2.1 útilokar þetta ekki eðlilegt samráð, samstarf og upplýsingaskipti, þ.m.t. milli fjármálaeftirlits Seðlabankans og skilavalds bankans.

3.3. Hlutverk og verkefni ráðherra.
    Leita skal staðfestingar ráðherra vegna ákvarðana á grundvelli frumvarpsins sem geta haft bein áhrif á ríkissjóð eða kerfislæg áhrif, svo sem um samþykkt skilaáætlunar fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga samkvæmt VI. kafla og um að taka fyrirtæki til skilameðferðar samkvæmt VIII. kafla frumvarpsins. Þrátt fyrir að ráðherra fari ekki með almennar eftirlits- og stjórnunarheimildir gagnvart sjálfstæðum stjórnvöldum á borð við Seðlabanka Íslands er kveðið á um það í 5. gr. frumvarpsins að Seðlabankinn upplýsi ráðherra reglulega um ákvarðanir og að ráðherra geti óskað eftir upplýsingum frá Seðlabankanum. Er það lagt til vegna eðlis verkefna frumvarpsins fyrir ríkisfjármál og mögulega aðkomu ráðherra að framkvæmd laganna.
    Í XIII. kafla frumvarpsins er fjallað um svokölluð opinber fjármálastöðgunarúrræði og tekur ráðherra ákvörðun um notkun slíkra úrræða. Ef ráðherra tekur ákvörðun um notkun úrræðanna er lagt til í frumvarpinu að skilavaldinu verði falið að framkvæma í samræmi við ákvarðanir ráðherra enda fer það með framkvæmd laganna. Sú leið að fela Seðlabankanum að framfylgja ákvörðunum ráðherra í stað ríkisstjórnar og/eða ráðuneytis líkt og virðist gert ráð fyrir í tilskipuninni samræmist innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku og Noregi. Nánar er fjallað um opinber fjármálastöðgunarúrræði í kafla 3.10.

3.4. Skilaáætlun og skilabærni.
    Í III. kafla frumvarpsins eru innleidd ákvæði tilskipunarinnar um skilaáætlun (e. resolution plan) og skilabærni (e. resolvability). Skilaáætlun skal gerð af skilavaldinu og í henni skulu tilgreindar þær skilaaðgerðir sem skilavaldið getur gripið til og hvernig þeim verður hrint í framkvæmd ef skilyrði skilameðferðar eru uppfyllt. Hugtakið skilaaðgerð er skilgreint í 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í ákvæðum kaflans er fjallað um skilaáætlanir fyrir samstæður og einfaldar skilaáætlanir sem gera má að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimilt er að krefja fyrirtækið sem áætlunin nær til um aðstoð og ítarlegar upplýsingar við gerð hennar. Í skilaáætlun skal fjallað um hvernig aðskilja megi nauðsynlega starfsemi (e. critical functions) og kjarnastarfsemi (e. core business lines) lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis frá annarri starfsemi fyrirtækisins. Þá skal áætlunin innihalda lýsingu á aðferðum til að tryggja aðgengi að greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfum ásamt öðrum innviðum svo og mat á möguleikum á flutningi viðskiptamanna til annarra þjónustuveitenda. Í skilaáætlunum skal gert ráð fyrir mismunandi sviðsmyndum rekstrarerfiðleika, t.d. um að erfiðleikar fyrirtækis séu einangrað tilvik (e. idiosyncratic), órói sé á fjármálamörkuðum (e. broader financial instability) eða kerfislegt ójafnvægi sé í fjármálakerfinu (e. system wide events).
    Við gerð skilaáætlunar metur skilavaldið hvort fyrirtæki sé skilabært (e. resolvability), þ.e. hvort unnt sé að taka það til skila- eða slitameðferðar án þess að það hafi verulega neikvæð áhrif á fjármálakerfi og fjármálastöðugleika og að áframhaldandi nauðsynleg starfsemi sé tryggð. Ekki er gert ráð fyrir að öll fyrirtæki verði tekin til skilameðferðar þrátt fyrir að vera á fallanda fæti og því skal matið einnig grundvallst á því að hægt sé að slíta fyrirtækinu eftir hefðbundnum reglum XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í stað þess að taka það til skilameðferðar. Fyrirtækið skal afhenda skilavaldinu áætlun um hvernig það hyggst ráða bót á annmörkum á skilabærni, ef þeir eru taldir vera til staðar. Telji skilavaldið áætlunina ekki fullnægjandi hefur það víðtækar heimildir til að krefjast þess að gripið verði til aðgerða, t.d. sölu eigna, takmarkana eða stöðvunar á tiltekinni starfsemi, takmarkana á safni áhættuskuldbindinga, einföldunar félagaforms og stjórnskipulags fyrirtækisins o.fl.

3.5. Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar.
    Í IV. kafla frumvarpsins eru innleidd ákvæði tilskipunarinnar um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (e. minimum requirement for own funds and elegible liabilities – MREL). Markmið lágmarkskröfunnar er að fyrirtæki hafi nægt eigið fé og hæfar skuldbindingar komi til þess að beita þurfi skilaúrræðinu eftirgjöf til þess að bregðast við tapi fyrirtækis og endurreisa eiginfjárgrunn þess þannig að fyrirtækið uppfylli skilyrði fyrir starfsleyfi. Hugtakið „hæf skuldbinding“ er skilgreint í víðum skilningi í 18. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins en kveðið er á um skilyrði þess að skuldbinding teljist hæf í IV. kafla, sbr. 17. gr. frumvarpsins. Með MREL-kröfunni er ætlunin að koma í veg fyrir að fyrirtæki hagi uppbyggingu skuldbindinga sinna þannig að þær séu með einum eða öðrum hætti undanþegnar skilaúrræðinu eftirgjöf. Skilavaldið ákveður hver lágmarkakrafan skuli vera fyrir hvert og eitt fyrirtæki og skal ákvörðunin meðal annars tekin með hliðsjón af því að krafan styðji við skilaaðgerðir fyrirtækis.

3.6. Niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga.
    Í VI. kafla frumvarpsins er kveðið á um sjálfstæða heimild skilavaldsins til að niðurfæra og umbreyta fjármagnsgerningum (e. write down or convert capital instruments). Kaflinn gildir um fjármagnsgerninga en fjallað er um þá í 84. gr. a – 84. gr. c laga um fjármálafyrirtæki. Til fjármagnsgerninga getur til dæmis talist almennt hlutafé, skilyrt skuldabréf, forgangshlutir og víkjandi lán.
    Ákveðin skilyrði eru fyrir beitingu heimildarinnar, svo sem að ákvörðun hafi verið tekið um að skilyrði skilameðferðar skv. VIII. kafla séu uppfyllt án þess þó að gripið hafi verið til skilaaðgerða. Þá þarf Fjármálaeftirlitið að hafa tekið ákvörðun um að fyrirtæki verði ekki lengur rekstrarhæft nema gripið sé til úrræðisins. Niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga skal svo grundvallast á mati á eignum og skuldbindingum samkvæmt VII. kafla frumvarpsins.
    Úrræðið svipar til skilaúrræðisins eftirgjöf, sbr. E-hluta X. kafla frumvarpsins, sem einnig kveður á um heimild til niðurfærslu og umbreytingar. Tilgangur beggja úrræða er að mæta tapi fyrirtækis (e. loss absorbing) og endurfjármagna (e. restructuring) fyrirtæki með því að endurreisa eiginfjárhlutfall þess. Ef úrræðið niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga þykir fullnægjandi til að bregðast við rekstrarerfiðleikum fyrirtækis skal því frekar beitt eftir atvikum samhliða öðrum vægari úrræðum á borð við tímanleg inngrip Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki þannig að komast megi hjá skilameðferð fyrirtækis. Gildissvið eftirgjafar samkvæmt E-hluta X. kafla frumvarpsins er víðtækara en úrræðið um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga en eftirgjöf gildir um allar skuldbindingar fyrirtækis sem ekki eru sérstaklega undanþegnar samkvæmt E-hluta X. kafla. Niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga gildir hins vegar einungis um fjármagnsgerninga. Andstætt við formlega skilameðferð og beitingu skilaúrræða er ekki gerð krafa um að niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga sé nauðsynleg vegna almannahagsmuna til að hægt sé að beita úrræðinu. Ef fyrirtæki er hins vegar tekið til skilameðferðar er sá áskilnaður gerður að fjármagnsgerningar verði niðurfærðir eða þeim umbreytt á grundvelli ákvæða kaflans áður eða samtímis því þegar gripið er til skilaúrræðis ef það mundi valda lánardrottnum fyrirtækis tapi eða að kröfum þeirra yrði umbreytt, sbr. 39. gr. frumvarpsins.

3.7. Mat á eignum og skuldbindingum.
    Í VII. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um mat á eignum og skuldbindingum. Virðismat skal fara fram og skal matið upplýsa hvort skilyrði skilameðferðar skv. VIII. kafla séu fyrir hendi eða niðurfærslu og umbreytingar fjármagnsgerninga skv. VI. kafla. Þá skal virðismatið meðal annars undirbyggja hvaða skilaaðgerðir eru viðeigandi gagnvart fyrirtæki, hvert umfang niðurfærslu og umbreytingar skuli vera hvað varðar eignarhluti, fjármagnsgerninga og hæfar skuldbindingar og hvaða eignir, réttindi skuldbindingar og eignarhluti skuli framselja og hvaða endurgjald skuli greiða fyrir framsalið.
    Virðismatið skal framkvæmt af aðila sem er óháður bæði skilavaldinu og viðkomandi fyrirtæki. Það skal vera sanngjarnt, varfærið og raunhæft. Heimilt er að fram fari bráðabirgðavirðismat ef ekki gefst tími til að afla óháðs virðismats. Einnig getur óháð virðismat orðið að bráðabirgðavirðismati ef ekki tekst að uppfylla kröfur óháða virðismatsins áður en ákvarðanir eru teknar. Bráðabirgðavirðismat telst fullnægjandi grundvöllur fyrir ákvarðanatöku en mælt er fyrir um það í kaflanum að óháð virðismat skuli fara fram eins fljótt og því verði við komið. Endanlegt virðismat skal svo fara fram eftir að skilaaðgerð hefur komið til framkvæmda og skal það einnig framkvæmt af óháðum aðila. Í endanlega virðismatiðinu skal metið hvort félagsaðilar og lánardrottnar fyrirtækis í skilameðferð hefðu fengið betri meðferð ef fyrirtækið hefði verið tekið til slitameðferðar.
    Í kjölfar bankahrunsins hér á landi reyndist mjög flókið að meta virði eigna föllnu viðskiptabankanna þriggja. Í neyðarlögunum var ekki að finna ákvæði um aðferðafræði og endanleika á virðismati framseldra eigna. Í tilskipuninni og afleiddum gerðum hennar eru nákvæmar reglur um mat á eignum og skuldbindingum. Þessar reglur koma fram í VII. kafla frumvarpsins og einnig í reglum sem Seðlabankinn skal setja með stoð í kaflanum. Í reglugerðinni verður meðal annars kveðið nákvæmlega á um aðferðafræði og óhæði matsmanns gagnvart bæði skilavaldinu og viðkomandi fyrirtæki sem uppfyllir skilyrði skilameðferðar. Þá hefur Evrópska bankaeftirlitsstofnunin nýlega gefið út handbók um mat á eignum og skuldbindingum. 1

3.8. Skilameðferð.
    Í VIII. kafla frumvarpsins eru ákvæði um á hvaða forsendum ákvörðun um að taka fyrirtæki til skilameðferðar skuli byggjast. Markmið skilameðferðar eru þau sömu og markmið 1. gr. Meginmarkmið skilameðferðar er að tryggja að greiða megi skjótt úr rekstrarerfiðleikum fjármálafyrirtækis þannig að unnt verði að vernda fjármálastöðugleika og tryggja nauðsynlega starfsemi. Þessu markmiði skal ná án þess að það hafi neikvæð áhrif á hagkerfið og án þess að skattgreiðendur þurfi að bera það tjón sem hlýst af því að gera fyrirtæki í fjárhagserfiðleikum rekstrarhæft. Markmið skilameðferðar eru umtalsvert víðtækari en markmið slitameðferðar sem ætlað er að hámarka virði eigna fyrirtækis og deila út til kröfuhafa.
    Skilavaldið tekur ákvörðun um hvort gripið verði til skilaaðgerða gagnvart fyrirtæki en með því er fyrirtækið tekið til formlegrar skilameðferðar. Ákvörðunin skal vera tímanleg og tekin áður en fyrirtæki verður ógjaldfært og eigið fé þess uppurið. Þrjú skilyrði þurfa öll að vera uppfyllt til þess að fyrirtæki verði tekið til skilameðferðar: Í fyrsta lagi þarf Fjármálaeftirlitið, að höfðu samráði við skilavaldið, að hafa komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi fyrirtæki sé á fallanda fæti. Skilgreining á hugtakinu „á fallanda fæti“ er að finna í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi þarf skilavaldið að hafa réttmæta ástæðu til að ætla að aðkoma einkaaðila eða aðrar opinberar aðgerðir, þ.m.t. tímanleg inngrip samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða niðurfærsla eða umbreyting fjármagnsgerninga skv. VI. kafla frumvarpsins, komi ekki í veg fyrir fall fyrirtækis innan ásættanlegs tíma. Í þriðja lagi þarf skilameðferð að vera nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Ákvörðun um skilameðferð er háð fyrirframsamþykki ráðherra, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
    Ef ákvörðun er tekin um að nauðsynlegt sé að lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki fari í skilameðferð skal fara fram mat á eignum og skuldbindingum fyrirtækisins samkvæmt VII. kafla frumvarpsins. Þá skal hrinda skilaáætlun fyrirtækisins í framkvæmd en við gerð og samþykki hennar á að vera búið að ráða bót á annmörkum sem komið geta í veg fyrir skilvirka skilameðferð og leggja upp með til hvaða skilaaðgerða æskilegt er að grípa gagnvart fyrirtæki. Skilavaldið hrindir svo í framkvæmd viðeigandi skilaaðgerðum, þ.e. skilaúrræðum og skilaheimildum, samhliða ákvörðun um skilameðferð. Hugtökin „skilaaðgerð“, „skilaúrræði“ og „skilaheimild“ eru skilgreind í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Skilavaldið er þó ekki bundið við þær skilaaðgerðir sem gert hefur verið ráð fyrir að gripið verði til í skilaáætlun.

3.9. Skilaaðgerðir.
    Í frumvarpinu er víða fjallað um hugtakið „skilaaðgerð“ (e. resolution action) en það er skilgreint í 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Innan skilgreiningarinnar rúmast ákvörðun um skilameðferð samkvæmt VIII. kafla frumvarpsins, skilaúrræði og skilaheimildir. Hugtökin „skilaheimild“ og „skilaúrræði“ eru einnig skilgreind, þ.e. í 31. og 33. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Þegar vísað er til hugtaksins „skilaaðgerð“ í frumvarpinu er það yfirleitt notað sem samheiti yfir skilaúrræði og skilaheimildir.

3.9.1. Skilaúrræði.
    Í X. kafla frumvarpsins eru ákvæði um skilaúrræði (e. resolution tools), þ.e. þær aðgerðir sem skilavaldið getur gripið til þegar fyrirtæki hefur verið tekið til skilameðferðar. Um er að ræða fjögur úrræði, þ.e. sölu rekstrar (e. sale of business tool), framsal til brúarstofnunar (e. bridge institution tool), uppskiptingu eigna (e. asset separation tool) og eftirgjöf (e. bail-in tool), sem hægt er að beita saman eða sjálfstætt. Eingöngu má þó grípa til skilaúrræðisins um uppskiptingu eigna samhliða beitingu annars skilaúrræðis. Skilaúrræðin sala rekstrar, framsal til brúarstofnunar og uppskipting eigna eru vel þekkt enda hefur þeim verið beitt við fjármálaáföll bæði í Bandaríkjunum og Evrópu frá árinu 2009. Þau fela öll í sér sölu eða framsal á eignarhlutum fyrirtækis í skilameðferð eða eigna, réttinda og skuldbindinga fyrirtækis en gegna misjöfnu hlutverki. Skilaúrræðið eftirgjöf er nýtt úrræði sem veitir heimild til að niðurfæra eigið fé og skuldbindingar fyrirtækis í skilameðferð, sem ekki eru sérstaklega undanskildar eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla, eða umbreyta þeim í eigið fé.

A. Sala rekstrar.
    Skilavaldinu er heimilt að selja eignarhluti í fyrirtæki og eignir, réttindi og skuldbindingar til einkaaðila. Sala rekstrar miðar almennt að því að tryggja áframhaldandi aðgang að nauðsynlegri starfsemi fyrirtækis á fallanda fæti. Kaupandi verður að hafa lögbundin leyfi til að stunda þá starfsemi sem selja á til hans. Sala rekstrar á almennt að fara fram á viðskiptalegum forsendum. Söluferlið á því að vera eins opið og gagnsætt og aðstæður leyfa þar sem fram kemur greinargóð lýsing á því sem skal selja. Skilavaldið getur að eigin frumkvæði nálgast mögulega kaupendur en söluferlið skal vera laust við hagsmunaárekstra. Leitast skal við að hámarka söluverð án þess þó að sala dragist óhæfilega. Við sölu rekstrar skal hafa hliðsjón af virðismati samkvæmt VII. kafla frumvarpsins. Ef það er nauðsynlegt til að ná markmiðum frumvarpsins er heimilt að víkja frá áskilnaði um að sala fari fram á viðskiptalegum forsendum. Ef nauðsynlegt er að takmarka dreifingu upplýsinga til að varðveita fjármálastöðugleika er heimilt að beita úrræðinu og selja rekstur í lokuðu útboði enda sé kaupandi talinn hæfur til að viðhalda aðgangi að nauðsynlegri starfsemi. Sala rekstrar skal þó alltaf vera á eins viðskiptalegum forsendum og aðstæður leyfa.

B. Framsal til brúarstofnunar.
    Skilavaldið getur komið á fót brúarstofnun og framselt eignarhluti í fyrirtæki og eignir, réttindi og skuldbindingar þess til brúarstofnunarinnar enda sé slíkt nauðsynlegt til að viðhalda aðgangi að nauðsynlegri starfsemi. Brúarstofnun er skilgreind í 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins þar sem kemur meðal annars fram að hún sé lögaðili undir stjórn skilavaldsins sem er að minnsta kosti að hluta í eigu opinberra aðila eða skilasjóðs. Skilavaldið samþykkir stofnskjöl brúarstofnunar, skipar eða samþykkir stjórn og framkvæmdastjóra hennar, ákvarðar ábyrgðarsvið og samþykkir starfskjör þeirra. Endurgjald fyrir framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar skal miðast við virðismat samkvæmt VII. kafla frumvarpsins. Brúarstofnun tekur við réttindum og skyldum og gengur inn í samninga sem tengjast framseldum eignum, réttindum og skuldbindingum. Brúarstofnun skal seld einkaaðilum þegar aðstæður leyfa og eigi síðar en tveimur árum frá framsali til hennar. Brúarstofnun skal svo tekin til slita að kröfu skilavaldsins þegar eignum, réttindum og skuldbindingum hennar sem nokkru varða hefur verið ráðstafað eða að liðnum tveggja ára frestinum. Heimilt er þó að framlengja starfstíma brúarstofnunar um eitt ár í senn ef það er nauðsynlegt til að viðhalda nauðsynlegri starfsemi eða greiða fyrir sölu.

C. Uppskipting eigna.
    Skilavaldið getur komið á fót eignaumsýslufélagi og framselt eignir, réttindi og skuldbindingar fyrirtækis eða brúarstofnunar til þess. Framsalið er háð því að ráðstöfun við slitameðferð geti haft neikvæð áhrif á fjármálamarkað eða það þyki nauðsynlegt til tryggja starfsemi fyrirtækisins eða brúarstofnunar eða til að hámarka söluandvirði eigna. Uppskiptingu eigna er því almennt ætlað að aðgreina traustar eignir frá þeim sem hafa rýrnað eða skilað slökum árangri og treysta þannig rekstrarhæfi fyrirtækis eða brúarstofnunar. Eignaumsýslufélag er skilgreint í 12. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins en líkt og á við um brúarstofnun er um að ræða lögaðila undir stjórn skilavaldsins sem er að minnsta kosti að hluta í eigu opinberra aðila eða skilasjóðs. Skilavaldið samþykkir stofnskjöl eignaumsýslufélags, skipar eða samþykkir stjórn og framkvæmdastjóra þess, ákvarðar ábyrgðasvið og samþykkir starfskjör þeirra. Endurgjald fyrir framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar miðast við virðismat skv. VII. kafla frumvarpsins. Eignaumsýslufélag skal selt þegar aðstæður leyfa en sölunni er ekki settur tiltekinn tímafrestur líkt og gildir um sölu brúarstofnunar enda fer eignaumsýslufélag jafnan ekki með nauðsynlega starfsemi og því ekki jafnáríðandi að finna eignum, réttindum og skuldbindingum þess varanlegra eignarhald. Líkt og fram hefur komið verður skilaúrræðinu um uppskiptingu eigna ekki beitt nema samhliða öðrum skilaúrræðum. Er það áskilið í því skyni að koma í veg fyrir að fyrirtæki á fallandi fæti öðlist óeðlilegt samkeppnisforskot á önnur fyrirtæki.

D. Eftirgjöf.
    Segja má að skilaúrræðið eftirgjöf sé kjarninn í regluverki tilskipunarinnar sem frumvarpið byggist á. Um er að ræða hugmyndafræði sem er ætlað að draga úr eða koma í veg fyrir það sem var algengt í kjölfar bankahrunsins 2008 þegar stjórnvöld komu fjármálafyrirtækjum til bjargar með opinberu fé. Eftirgjöf er því andstæðan við meðgjöf (e. bail-out).
    Skilavaldið getur beitt eftirgjöf sem felur það í sér að skuldbindingar fyrirtækis eru niðurfærðar eða þeim umbreytt. Eftirgjöf er beitt í þrenns konar tilgangi. Í fyrsta lagi til þess að niðurfæra eða umbreyta skuldbindingum fyrirtækis í skilameðferð til að endurfjármagna það með þeim hætti að fyrirtækið geti í kjölfarið haldið áfram starfsemi sinni. Í öðru lagi til þess að niðurfæra eða umbreyta skuldbindingum sem framseldar eru frá fyrirtæki til brúarstofnunar með það að markmiði að fjármagna hana og í þriðja lagi til þess að niðurfæra eða umbreyta skuldbindingum fyrirtækis sem seldar eru með skilaúrræðinu sala rekstrar eða framseldar til eignaumsýslufélags. Eftirgjafarúrræðið gerir skilavaldinu þannig kleift að færa niður eða umbreyta skuldbindingum og láta með því félagsaðila og lánardrottna bera tapið án þess að grípa til hefðbundinnar slitameðferðar og nota fjármuni skattgreiðenda.

3.9.2. Skilaheimildir.
    Í IX., XI. og XII. kafla frumvarpsins er að fjallað um þær skilaheimildir sem hægt er að beita við skilameðferð fyrirtækis. Í IX. kafla er kveðið á um upphafsaðgerðir sem hægt er að grípa til við skilameðferð. Kaflinn kveður í fyrsta lagi á um heimild til að taka yfir vald hluthafafundar og ákvörðunarvald stjórnar og fara með yfirráð yfir fyrirtæki. Í öðru lagi er að finna heimild til að skipa skilastjórn og fela henni að fara með heimildir félagsaðila og stjórnar fyrirtækis. Skilastjórn vinnur þá að markmiðum laganna og framfylgir ákvörðunum skilavaldsins sem fer með óbein yfirráð. Um er að ræða sambærilegar heimildir og þær sem voru færðar Fjármálaeftirlitinu með 5. gr. neyðarlaganna. Heimildirnar voru síðar lögfestar sem annars vegar bráðabirgðaákvæði VI við lög um fjármálafyrirtæki, sem fellur úr gildi í árslok 2020, og hins vegar 100. gr. a sömu laga um afhendingu fjármálafyrirtækis til bráðabirgðastjórnar. Lagt er til að 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki falli brott með frumvarpi þessu.
    Í XI. kafla er að finna ákvæði um almennar skilaheimildir, viðbótarheimildir o.fl. sem teljast nauðsynlegar til að framkvæma þær skilaaðgerðir sem kveðið er á um í frumvarpinu. Ýmsar heimildir í kaflanum má leiða af öðrum greinum frumvarpsins, til dæmis um framsal, niðurfærslu og umbreytingu samkvæmt X. kafla frumvarpsins sem kveður á um skilaúrræðin. Aðrar heimildir kaflans eru sjálfstæðar heimildir. Má þar meðal annars nefna heimild til að víkja stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra fyrirtækis frá störfum, heimild til að krefjast slita á fyrirtæki í skilameðferð, heimild til að stöðva viðskipti með fjármálagerninga eða taka þá úr viðskiptum og heimild til að tryggja að viðtakandi rekstrar sem hefur verið framseldur til hans hafi aðgang að allri þjónustu eða aðstöðu sem nauðsynleg er til að hann geti áfram rekið framseldan rekstur.
    Í XII. kafla frumvarpsins er kveðið á um heimildir til að gera ráðstafanir vegna samninga fyrirtækis í skilameðferð. Á grundvelli ákvæða kaflans er heimilt að fella úr gildi eða breyta samningum, fresta greiðslu eða afhendingu samkvæmt samningum, fresta rétti lánardrottna til að ganga að tryggingum, fresta uppsagnarrétti samningsaðila o.fl. Skilavaldið skal svo tryggja áframhald á tilteknum fjárhagslegum samningum, til dæmis um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, skulda- og greiðslujöfnun og sértryggð skuldabréf. Skilavaldinu er þó ávallt heimilt að framselja tryggðar innstæður sem eru hluti af þeim samningum sem því ber að tryggja áframhald á án þess að framselja aðrar eignir, réttindi eða skuldbindingar sem falla undir sama samning.

3.10. Opinber fjármálastöðgunarúrræði.
    Í XIII. kafla eru innleidd ákvæði um opinber fjármálastöðgnunarúrræði (e. government financial stabilisation tools) sem eru eiginfjárframlög úr ríkissjóði til fyrirtækis eða yfirtaka ríkisins á fyrirtæki. Heitið vísar til þess að úrræðunum er ætlað að tryggja stöðugleika á fjármálamarkaði. Markmið tilskipunarinnar er að draga úr líkum á því að áfall verði á fjármálamörkuðum og, þegar ekki verður hjá slíkum áföllum komist, að almenningur beri sem minnstar byrðar af þeim. Þrátt fyrir talsvert auknar kröfur um laust fé og eigin fé lánastofnana, auknar kröfur um áhættustýringu fjármálafyrirtækja, breytta nálgun í opinberu eftirliti á fjármálamarkaði og þær heimildir og aðgerðir sem finna má í frumvarpi þessu er ekki með öllu útilokað að þörf verði á eiginfjárframlögum úr ríkissjóði til fjármálafyrirtækis í vanda eða yfirtöku ríkisins á slíku fyrirtæki. Heimilt verður að beita opinberu fjármálastöðgunarúrræði ef beiting skilaúrræða gagnvart félagi sem uppfyllir skilyrði skilameðferðar er ekki talin nægja til þess að viðhalda fjármálastöðugleika eða tryggja hagsmuni almennings. Framlag til að bregðast við tapi og endurfjármagna fyrirtæki sem svarar til 8% af heildarskuldbindingum fyrirtækis, að meðtöldum eiginfjárgrunni þess, eins og þær eru metnar samkvæmt VII. kafla frumvarpsins, verður þá þegar að hafa verið lagt fram, til dæmis með eftirgjöf, af félagsaðilum og eigendum viðeigandi fjármagnsgerninga og hæfra skuldbindinga.

3.11. Vernd félagsaðila og lánardrottna.
    Í frumvarpinu er kveðið á um íþyngjandi inngrip í eignarréttindi sem njóta verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Frumvarpið veitir þannig til dæmis heimild til að framselja eignarhluti og eignir, réttindi og skuldbindingar, niðurfæra og umbreyta fjármagnsgerningum og öðrum skuldbindingum og gera ráðstafanir vegna samninga. Þessar ráðstafanir eru allar háðar ströngum skilyrðum og skulu gerðar í þágu markmiða laganna, sem er meðal annars að varðveita fjármálastöðugleika, vernda viðskiptamenn, þ.m.t. innstæðueigendur, og tryggja nauðsynlega starfsemi fyrirtækis. Þá er það einnig grundvallarmarkmið að lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði á kostnað skattgreiðenda. Ef gripið er til skilameðferðar verður slíkt að vera nauðsynlegt í þágu almannahagsmuna.
    Í frumvarpinu er víða fjallað um vernd félagsaðila og lánardrottna vegna þeirrar skerðingar á réttindum sem þeir geta orðið fyrir ef úrræðum og heimildum frumvarpsins verður beitt. Í tilskipuninni er sérstakur kafli um öryggisákvæði (e. safeguards) sem er ætlað að tryggja vernd þeirra. Skilavaldið skal tryggja áframhald á ákveðnum samningum samkvæmt XII. kafla frumvarpsins. Þá kemur grundvallarákvæði í þessu samhengi fram í 80. gr. í XIV. kafla frumvarpsins sem kveður á um að félagsaðili og lánardrottinn skuli ekki tapa meira á skilameðferð fyrirtækis en hann hefði gert við slit á fyrirtækinu eða gjaldþrotaskipti á búi þess. Eins fljótt og hægt er eftir að skilaaðgerðir eru komnar til framkvæmda metur óháður aðili hvort svo hafi verið samkvæmt 32. gr. í VII. kafla frumvarpsins. Fyrirkomulag skilameðferðar miðast almennt við að félagsaðilar sæti fyrst skerðingu og svo lánardrottnar í samræmi við forgangsröð krafna við slitameðferð. Skilameðferð ætti því ekki að leiða til þess að félagsaðilar eða lánardrottnar verði fyrir umframtapi en leiði endanlegt virðismat skv. 32. gr. frumvarpsins slíkt engu að síður í ljós skal skilavaldið að eigin frumkvæði greiða bætur sem því nemur úr skilasjóði.

3.12. Skilasjóður.
    Tilskipunin mælir fyrir um skyldu aðildarríkja til að koma á fót sérstöku fjármögnunarfyrirkomulagi – skilasjóði til að koma í veg fyrir að skammtímaþörf fyrir fjármagn vegna skilameðferðar verði mætt með framlagi úr ríkissjóði. Aðildarríkjum er frjálst að ákveða hvernig stjórnskipulag skilasjóðs er háttað en sérstaklega er tekið fram í tilskipuninni að aðildarríkjum sé heimilt að notast við sama stjórnskipulag og innstæðutryggingakerfi viðkomandi ríkis. Framlög í skilasjóðinn skulu greidd fyrir fram en ef ráðstöfunarfé sjóðsins dugir ekki til að mæta útgjöldum sjóðsins skal innheimta viðbótargjald af gjaldskyldum aðilum til að fjármagna það sem upp á vantar.
    Um aðferðafræði við útreikning gjalds í skilasjóðinn er fjallað í reglugerð (ESB) nr. 2015/63. Sú reglugerð var tekin upp í EES-samninginn 27. september sl. með stjórnskipulegum fyrirvara. Reglugerðin kveður á um talsvert flókinn útreikning á gjaldi sem mundi miðað við núverandi stöðu á fjármálamarkaði leggjast á nokkurn veginn sömu aðila og nú greiða iðgjald til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Verðbréfafyrirtæki geta einnig verið gjaldskyld ef þau falla undir gildissvið frumvarpsins og eru því með stofnframlag sem nemur að lágmarki jafnvirði 730 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum. Lágmarksfjárhæð í skilasjóðnum skal vera 1% af tryggðum innstæðum og skal því lágmarki hafa verið náð fyrir árslok 2027. Miðað við núverandi stöðu tryggðra innstæðna, og að teknu tilliti til þeirra afleiddu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, voru tryggðar innstæður í lok árs 2018 ríflega 850 milljarðar kr. Sé tekið mið af þeirri fjárhæð má reikna með að lágmarksstærð skilasjóðs þurfi að vera um 8,5 milljarðar kr. í árslok 2027.
    Í frumvarpinu er lagt til að hafist verði handa við að byggja upp skilasjóð með tilfærslu á fjármunum úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) í tvö ár. Nánar tiltekið er lagt til að stofnuð verði ný deild í TIF sem beri heitið skilasjóður. Lagt er til að á næstu tveimur árum verði færðir 1,2 milljarðar kr. á ári úr innstæðudeild TIF í nýju deildina. Lagt er til að stjórn TIF verði falið að sjá um tilfærsluna og ávaxta fjármunina en skilavaldið taki ákvarðanir um útgreiðslur úr skilasjóðnum. Um bráðabirgðaráðstöfun er að ræða því að þegar er hafinn undirbúningur að því að hefja gjaldskyldu í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 2015/63 og áformað er að gjaldtakan verði að fullu komin til framkvæmda að þessum tveimur árum liðnum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á meginhluta ákvæða tilskipunar 2014/59/ESB í íslenskan rétt. Í frumvarpinu er kveðið á um inngrip í eignarréttindi sem njóta verndar 1. mgr. 72. gr. laga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Slík inngrip eru þó háð ströngum skilyrðum, m.a. um almannahagsmuni ef fyrirtæki verður tekið til skilameðferðar, auk þess sem kveðið er á um vernd þeirra sem orðið geta fyrir skerðingu á eignarréttindum sínum. Ekki er talið að úrræði og heimildir frumvarpsins brjóti gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um aðkomu og heimildir Eftirlitsstofnunar EFTA til ákvörðunartöku ef til ágreinings kemur milli Skilvaldsins og skilastjórnvalds annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu um undirbúning eða framkvæmd skilameðferðar fyrirtækis sem starfar yfir landamæri. Ekki er talið að eðli þeirra heimilda sé verulega íþyngjandi eða umfram það sem áður hefur verið talið heimilt á grundvelli EES-samningsins.

5. Samráð.
    Frumvarpið var unnið með aðkomu nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði. Í nefndinni sátu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, Samtaka fjármálafyrirtækja og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Við vinnslu frumvarpsins gafst þeim aðilum sem fulltrúa hafa í nefndinni kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Auk hefðbundins samráðs við nefndarstörf var haft sérstakt samráð við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna breytinga á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sem fram koma í 2. tölul. 103. gr. frumvarpsins. Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 25.02.2019–08.03.2019 og barst engin umsögn um áformin. Þá voru drög að frumvarpinu einnig kynnt í samráðsgáttinni á tímabilinu 12.07.2019–04.09.2019. Ein umsögn barst um frumvarpið frá Sambandi íslenskra sparisjóða þar sem stuðningi var lýst við meginsjónarmið þess. Í umsögninni var meðal annars fjallað um að æskilegt væri að nánari skilgreiningar á aðferðum við útreikning á MREL-kröfu kæmu fram í frumvarpinu. Tilskipun 2014/59/ESB sem er innleidd með frumvarpinu fjallar um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar í víðu samhengi, þ.m.t. skilyrði þess að skuldbinding teljist hæf og atriði sem lágmarkskrafan skal grundvallast á. Skilavaldið tekur svo endanlega ákvörðun um kröfuna meðal annars með hliðsjón af atriðum sem kveðið er á um í ákvæðum IV. kafla frumvarpsins, sem fjallað er nánar um í skýringum við ákvæði kaflans og reglugerð (ESB) nr. 2016/1450 sem innleidd verður með reglum Seðlabankans.

6. Mat á áhrifum.
    Innleiðing tilskipunar 2014/59/ESB mun breyta mjög eftirliti á fjármálamarkaði fyrir Seðlabankann, þ.m.t. Fjármálaeftirlitið, lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki. Frumvarp þetta er annar áfangi í innleiðingu tilskipunarinnar. Verði það að lögum munu nýjar reglur er varða viðbrögð og aðgerðir vegna rekstrarerfiðleika lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eða fjármálaáfalla líta dagsins ljós. Er hér meðal annars um að ræða skilaáætlanir, lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar, skilameðferð, skilaúrræði, skilaheimildir og aðra starfsemi skilavalds innan Seðlabanka Íslands.

6.1. Áhrif á almenning.
    Eitt af meginmarkmiðum tilskipunarinnar er að tryggja áframahaldandi nauðsynlega starfsemi fyrirtækis í skilameðferð, svo sem greiðslumiðlun og aðgengi að innstæðum. Þá er leitast við að draga úr líkum á því að rekstrarerfiðleikar lánastofnana eða verðbréfafyrirtækja leiði af sér meiri erfiðleika innan hvers fyrirtækis eða hafi áhrif á önnur fyrirtæki á markaði og raski þannig fjármálastöðugleika eða feli í sér kostnað sem lenda mundi beint eða óbeint á almenningi.
    Nýjar reglur munu fela í sér aukinn kostnað fyrir fjármálafyrirtækin sem undir reglurnar falla, sem kann að einhverju leyti að koma fram í kjörum viðskiptamanna þeirra.

6.2. Áhrif á eftirlitsskylda aðila.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun aðskilin starfsemi innan Seðlabankans gera skilaáætlanir og meta skilabærni lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Við undirbúning skilaáætlana er hægt að kalla eftir upplýsingum og aðstoð frá fyrirtækjunum sem mun fela í sér vinnuframlag af þeirra hálfu. Skilavaldinu er einnig heimilt að óska eftir aðstoð frá fyrirtækjunum við árlega uppfærslu skilaáætlunar. Framlag vegna þessa verður mismunandi milli fyrirtækja þar sem skilavaldið ákveður, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að gerð skuli einföld skilaáætlun fyrir tiltekin fyrirtæki.
    Verði lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki tekið til skilameðferðar munu þær leiðir sem færar eru fyrir fyrirtækið í þeim efnum liggja fyrir og umgjörðin vera formfastari en nú er.
    Ný krafa um samsetningu eigin fjár verður gerð til lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Um er að ræða lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (e. minimum erquirement for own funds and elegible liabilities – MREL). Með kröfunni er komið í veg fyrir að fyrirtæki hagi uppbyggingu skuldbindinga sinna þannig að þær séu með einum eða öðrum hætti undanþegnar skilaúrræðinu eftirgjöf. Skilavaldið mun ákveða með hvaða hætti MREL-kröfurnar verða endanlega innleiddar á Íslandi. Þar skiptir mestu máli útfærslan á kvörðun (e. calibration) sem og krafan um undirskipan (e. subordination). Aðildarríki hafa innleitt þessar reglur með mismunandi hætti. Sem dæmi má nefna að í Danmörku er MREL-krafan jafnhá fjárhæð og tvöföld heildarkrafa um eiginfjárgrunn. Þessar laga og reglubreytingar munu hafa í för með sér breytta fjármagnsskipan íslensku bankanna og aukið vaxtaálag á skuldabréf sem flokkast sem hæfar skuldbindingar. Það mun hafa í för með sér meiri vaxtakostnað hjá bönkunum en erfitt er að leggja mat á það fyrir fram hve mikið hann mun aukast. Rétt er þó að geta þess að bankarnir munu fá rúman tíma til að uppfylla lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar.
    Á næstu misserum er gert ráð fyrir að gjaldtaka hefjist í skilasjóð í kjölfar upptöku reglugerðar (ESB) nr. 2015/63 í EES-samninginn en vikið er að reglugerðinni í almennri umfjöllun um skilasjóð sem er að finna í kafla 3.12. Í þessu frumvarpi er hins vegar ekki kveðið á um gjaldtöku í skilasjóð heldur lagt til að fjármunir verði fyrst um sinn færðir úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta yfir í skilasjóð.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á tryggingavernd samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Kveðið er á um nýtt hámark tryggingaverndar sem nemur jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum. Sú ráðstöfun breytir gjaldstofni iðgjalda í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og mun sú breyting hafa þau áhrif að aðildarfélög innstæðudeildar munu greiða til sjóðsins umtalsvert lægra iðgjald en þau gera nú. Kemur sú lækkun til viðbótar við þá lækkun á iðgjaldi sem hlýst af lægra gjaldhlutfalli iðgjaldsins sem varð með lögum nr. 59/2019, um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sem tóku gildi 1. september sl.
    Einhver kostnaður mun hljótast af rekstri skilavalds en ekki liggur fyrir hvort honum verður mætt með hækkun eftirlitsgjalds eða öðrum ráðstöfunum.

6.3. Áhrif á markaði.
    Eitt af meginmarkmiðum tilskipunarinnar er að draga úr líkum á áföllum á fjármálamarkaði, en verði slík áföller markmiðið að þau verði í minna mæli borin af ríkissjóði og almenningi. Þetta sjónarmið endurspeglast í allri endurskoðun á regluverki á fjármálamarkaði í Evrópu. Þessi breyting kemur skýrt fram í frumvarpi þessu, og verði það að lögum getur það haft í för með sér að hluthafar, og í einhverjum tilfellum eigendur skuldabréfa sem útgefin eru af fjármálafyrirtækjum, munu þurfa að taka á sig meiri áhættu af rekstri fyrirtækja. Þessu gæti fylgt minni áhugi fjárfesta eða hærri ávöxtunarkrafa.

6.4. Áhrif á ríkissjóð.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að draga úr líkum á því að nýta þurfi fjármuni skattgreiðenda til að koma fjármálafyrirtækjum í rekstrarerfiðleikum til hjálpar. Í undantekningartilvikum getur ráðherra ákveðið að beita opinberum fjármálastöðgunarúrræðum (yfirtaka ríkisins á fyrirtæki í skilameðferð eða eiginfjárframlag til þess) og komi til þess mun það hafa bein fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmd laganna muni að öðru leyti hafa bein áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.
    Aukinn undirbúningur og viðnámsþróttur gagnvart rekstrarerfiðleikum eða áföllum á fjármálamarkaði mun stuðla að fjármálastöðugleika og draga úr líkum á því að ríkissjóður þurfi að veita fjármálafyrirtækjum fjárhagsaðstoð líkt og raunin varð í kjölfar fjármálaáfallsins haustið 2008.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.

    Í I. kafla frumvarpsins er að finna almenn ákvæði um markmið, gildissvið og skilgreiningar.

Um 1. gr.

    Ákvæðið byggist á inngangsorðum og 31. gr. tilskipunarinnar. Það tilgreinir þau markmið sem leggja skal til grundvallar við túlkun og framkvæmd laganna.
    Grundvallarmarkmið laganna er að viðhalda fjármálastöðugleika. Í því skyni er fyrirtækjum og einingum gert að búa sig undir rekstrarerfiðleika og mælt fyrir um aðgerðir sem grípa má til þegar þeirra verður vart. Það getur verið nauðsynlegt til að takmarka neikvæð smitáhrif af erfiðleikum einstakra fyrirtækja á fjármálakerfið, einkum á kerfislega þýðingarmikil greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi, eða til að koma í veg fyrir að þau stefni fjármálastöðugleika með öðrum hætti í voða. Jafnframt verður þó að huga að því að aðgerðir ýti ekki undir freistnivanda sem komi niður á markaðsaga. Fyrirtæki og fjárfestar verða áhættusæknari ef þeir treysta því að hið opinbera komi þeim til bjargar ef eitthvað bjátar á, sem grefur undan markmiðinu um fjármálastöðugleika til lengri tíma litið. Ef aðgerðir beinast að samstæðu sem starfar í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu verður að leitast við að haga þeim þannig að skaðleg áhrif á fjármálastöðugleika þar séu lágmörkuð.
    Vernda þarf innstæður og fjárfesta sem falla undir lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999. Æskilegt er að staða tryggðra innstæðueigenda og fjárfesta raskist sem minnst vegna erfiðleika einstakra fyrirtækja. Þannig skal til dæmis stefnt að því að tryggðir innstæðueigendur haldi óslitnum aðgangi að innstæðum sínum en þurfi ekki að bíða eftir útgreiðslum úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta eða útgreiðslum við slit á fyrirtæki. Tryggðar innstæður njóta sérstakrar verndar við skilaaðgerðir, sbr. einkum 1. tölul. 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins. Einnig skal leitast við að vernda eignir viðskiptavina. Stefnt skal að því að fjármunir og aðrar eignir viðskiptavina hjá fyrirtæki skerðist sem minnst vegna erfiðleika þess. Markmiðið tekur ekki til venjulegra kröfuréttinda. Vernd lánardrottna fyrirtækis réttlætir því almennt ekki aðgerðir gagnvart því.
    Standa þarf vörð um nauðsynlega starfsemi fyrirtækja. Löggjöfinni er ekki ætlað að tryggja tilvist einstakra fyrirtækja. Þvert á móti er henni ætlað að stuðla að því að einstök fyrirtæki geti horfið af markaði, óháð stærð og samtengingu við önnur fyrirtæki, án þess að það valdi kerfislægri röskun. Röskun á hluta af starfsemi fyrirtækja gæti þó haft verulega neikvæð áhrif á raunhagkerfið eða fjármálastöðugleika, einkum þegar sambærileg þjónusta er ekki í boði annars staðar, sbr. skilgreiningu 19. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins á nauðsynlegri starfsemi. Almannahagsmunir kunna því að kalla á opinber inngrip til að viðhalda tiltekinni starfsemi fyrirtækja, svo sem með sölu hennar eða framsali til brúarstofnunar, þótt fyrirtækin sjálf kunni að hverfa af markaði.
    Þá er lögunum ætlað að vernda fjárhag hins opinbera með því að lágmarka hættu á því að veita þurfi fyrirtækjum opinbera fjárhagsaðstoð og með því er spornað gegn því að rekstrarerfiðleikar einstakra fyrirtækja komi niður á afkomu hins opinbera en auk þess er það veigamikill þáttur í fyrrgreindu markmiði að vinna gegn freistnivanda og viðhalda markaðsaga.

Um 2. gr.

    Greinin er innleiðing 1. gr. tilskipunarinnar og afmarkar gildissvið frumvarpsins við ákveðin fyrirtæki og einingar á fjármálamarkaði. Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins eru þau fyrirtæki og einingar sem vísað er til í a–d-lið ákvæðisins skilgreind. Hugtakið fjármálastofnun, sbr. b-lið ákvæðisins, takmarkast við fjármálastofnun sem dótturfélag fyrirtækja eða eininga sem heyra undir gildissvið frumvarpsins. Gildissviðið gagnvart fjármálastofnun er því þrengra en leiðir af skilgreiningu 16. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins en í frumvarpinu getur einnig verið átt við fjármálastofnun í víðtækari merkingu til samræmis við skilgreiningu hugtaksins, til dæmis þegar eignarhaldsfélag á fjármálasviði á í hlut. Gildissvið frumvarpsins tekur einnig til útibúa hjá fyrirtækjum sem staðsett eru í aðildarríki þrátt fyrir að þau séu ekki tilgreind berum orðum í ákvæðinu. Í skilgreiningu tilskipunarinnar á útibúi er vísað til skilgreiningar í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja en af þeirri skilgreiningu leiðir að útibú sé starfsstöð sem lögum samkvæmt er háð lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki. Víða í frumvarpinu er kveðið á um samráð við mikilvægt útibú en það hugtak er skilgreint í 22. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í e-lið ákvæðisins er kveðið á um gildissvið gagnvart útibúum fyrirtækja með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem starfrækt eru hér á landi, að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins. Í 92. gr. frumvarpsins er kveðið á um þau skilyrði sem skulu vera uppfyllt til að heimilt sé að grípa til sjálfstæðrar skilameðferðar gagnvart útibúi skv. e-lið frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Lagt er til að hluti 2. gr. tilskipunarinnar, sem fjallar um skilgreiningar, verði innleidd í 3. gr. frumvarpsins.
     Um 1. tölul. Í ákvæðinu er hugtakið aðildarríki skilgreint. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins nái til aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyja, með vísan til svokallaðra Hoyvíkur- og Vaduz-samninga.
     Um 2. tölul. Töluliðurinn er innleiðing 4. mgr. 32. gr. tilskipunarinnar. Meginskilyrði þess að gripið verði til skilaaðgerða gagnvart fyrirtækjum er almennt að þau séu á fallanda fæti, sbr. VIII. kafla frumvarpsins. Svo telst vera ef eitt eða fleiri þeirra þriggja atriða sem tilgreind eru í stafliðunm eiga við. Við túlkun þeirra er unnt að hafa hliðsjón af viðmiðunarreglum EBA/GL/2015/07 um hvenær fyrirtæki telst vera á fallanda fæti sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út á grundvelli 6. mgr. 32. gr. tilskipunarinnar. 2
    Um a-lið 2. tölul. Fjallað er um starfsleyfi fjármálafyrirtækja í II. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í 9. gr. þeirra laga er greint frá því hvenær Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta. Það getur átt við vegna fjárhagslegra þátta, svo sem varðandi eigið fé og laust fé, en einnig ófjárhagslegra, svo sem vegna upplýsingagjafar og stjórnarhátta.
    Um b-lið 2. tölul. Fyrirtæki er ógjaldfært ef virði eigna þess er minna en virði skuldbindinga þess eða ef það er ófært um að standa í skilum með skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga. Meta þarf heildstætt hvort fyrirtæki sé eða verði í náinni framtíð ógjaldfært, svo sem með tilliti til eiginfjár- og lausafjárstöðu þess, afkomu af rekstri, vaxtabyrði, yfirvofandi gjalddaga, aðgangs að fjármagni, umfangs vanskila af veittum lánum og yfirvofandi málaferla eða lagabreytinga. Fjallað er um laust fé og eigið fé fjármálafyrirtækja í X. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017.
    Um c-lið 2. tölul. Lögunum er ætlað að koma á fót kerfi sem kemur almennt í veg fyrir að nauðsynlegt sé að veita fyrirtækjum opinbera fjárhagsaðstoð. Þarfnist fyrirtæki slíks er það jafnan til marks um að þau séu á fallanda fæti og að skilaaðgerð geti átt við. Þó kunna almannahagsmunir að réttlæta tímabundna og takmarkaða fjárhagsaðstoð til gjaldfærs fyrirtækis ef það er nauðsynlegt til þess að varna eða ráða bót á áfalli í hagkerfinu, svo sem vegna kerfislægs lausafjárskorts, en ekki til að jafna tap sem fyrirtækið hefur orðið fyrir eða líklegt er að það verði fyrir í náinni framtíð. Óheppilegt væri að slík fyrirgreiðsla leiddi til skilaaðgerðar gagnvart fyrirtækinu. Sem dæmi má nefna fyrirgreiðslu sem Seðlabankinn veitir lánastofnun sem skortir laust fé en ekki eigið fé til að fleyta henni yfir tímabundna erfiðleika í því skyni að varðveita traust á fjármálakerfinu og varna mögulegri keðjuverkun, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Gæta verður þess að aðstoðin samræmist ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við túlkun stafliðarins má hafa hliðsjón af viðmiðunarreglum EBA/GL/2014/09 varðandi álagspróf, mat á gæðum eigna og aðra hliðstæða skoðun skv. iii-lið d-liðar 4. mgr. 32. gr. tilskipunarinnar sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út. 3
     Um 3. tölul. Töluliðurinn byggist á 11. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og er samhljóða skilgreiningu á sama hugtaki í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 15. tölul. 1. mgr. 1. gr. a þeirra laga, að því undanskildu að hugtakinu „fjármálafyrirtæki“ er skipt út fyrir hugtökin „lánastofnun“ og „verðbréfafyrirtæki“ þar sem þau koma fyrir í skilgreiningunni. Þegar rætt er um hugtakið „institution“ í tilskipuninni er einungis átt við hugtökin lánastofnun og verðbréfafyrirtæki en ekki einnig rekstrarfélög verðbréfasjóða sem rúmast innan skilgreiningar á hugtakinu „fjármálafyrirtæki“ í lögum um fjármálafyrirtæki.
     Um 4.–6. tölul. Töluliðirnir byggjast á 10. tölul. og 14. og 15. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningarnar eru samhljóða skilgreiningum 16., 43. og 45. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um 7. tölul. Töluliðurinn byggist á 59. tölul. 1. mgr. 2. gr., hluta af 2. mgr. 40. gr. og a–c-liði 3. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Brúarstofnun er að minnsta kosti að hluta til í eigu opinberra aðila eða skilasjóðs en getur verið að hluta til í eigu einkaaðila. Megintilgangur hennar er að tryggja áframhaldandi aðgang að nauðsynlegri starfsemi fyrirtækis eða einingar sem tekið er til skilameðferðar. Brúarstofnun er þó, líkt og nafnið getur til kynna, tímabundið úrræði og gert er ráð fyrir að hún eða eignir og skuldbindingar hennar verði seldar þegar aðstæður leyfa, sbr. 48. gr. frumvarpsins. Falli aðili ekki lengur að skilgreiningu töluliðarins, til dæmis því að hann hefur runnið saman við annan lögaðila eða verið alfarið seldur til einkaaðila, telst hann ekki lengur brúarstofnun og ákvæði C-hluta X. kafla um brúarstofnun eiga þá ekki lengur við um hann.
     Um 8. tölul. Töluliðurinn byggist á 37. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. 41. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja og er samhljóða 47. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.
     Um 9. tölul. Töluliðurinn byggist á 21. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Vegna ákvæða frumvarpsins um víðtækt samstarf og upplýsingaskipti þegar samstæður starfa í fleiri en einu aðildarríki er lagt upp með að skilgreina hugtakið eftirlitsstjórnvald (e. competent authority). Í frumvarpinu er víða fjallað um samráð og/eða veitingu upplýsinga til annars vegar eftirlitsstjórnvalda og hins vegar skilastjórnvalda í öðrum aðildarríkjum. Lagt er til að hugtakið „eftirlitsstjórnvald“ verði notað yfir enska heitið „competent authority“ í stað hugtaksins „lögbært yfirvald“ en það hugtak er ásamt öðrum hugtökum notað á ýmsum stöðum yfir sama enska hugtak í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Á það meðal annars við í lögum nr. 54/2018 sem innleiddu hluta tilskipunarinnar. Ástæða þess að hugtakið „eftirlitsstjórnvald“ er notað í þessu frumvarpi er sú að það þykir meira lýsandi til aðgreiningar við önnur hugtök yfir stjórnvöld sem notuð eru í frumvarpinu, þ.e. „skilastjórnvald“ og „lögbært stjórnvald“ en hið síðarnefnda er notað yfir hóp stjórnvalda.
     Um 10. tölul. Töluliðurinn byggist á 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og er samhljóða 14. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki að því undanskildu að vísað er til lánastofnana og verðbréfafyrirtækja í skilgreiningunni í stað fjármálafyrirtækja, sbr. umfjöllun um 3. tölul. greinarinnar.
     Um 11. tölul. Töluliðurinn byggist á 61. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Hann skilgreinir eignarhluta með nokkuð víðtækum hætti. Hugtakið tekur ekki aðeins til hlutdeildar félagsaðila í hlutafélögum, einkahlutafélögum og eigin fé annarra félaga heldur einnig til gerninga sem unnt er að umbreyta í eða veita rétt til hlutabréfa eða eignarhluta og gerninga sem veita rétt til arðs frá fyrirtæki eða einingu.
     Um 12. tölul. Töluliðurinn byggist á 56. tölul. 1. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Eignaumsýslufélag er að minnsta kosti að hluta til í eigu opinberra aðila eða skilasjóðs en getur verið að hluta til í eigu einkaaðila. Megintilgangur þess er að koma eignum, réttindum og skuldbindingum sem framseldar eru til þess í verð, sbr. 50. gr. frumvarpsins. Falli aðili ekki lengur að skilgreiningu töluliðarins, til dæmis því að hann hefur runnið saman við annan lögaðila eða verið alfarið seldur til einkaaðila, telst hann ekki lengur eignaumsýslufélag og ákvæði D-hluta X. kafla eiga þá ekki lengur við um hann.
     Um 13. tölul. Töluliðurinn skilgreinir hugtakið „eining“ með vísan til gildissviðs frumvarpsins. Sú nálgun að gera greinarmun á annars vegar „fyrirtæki“ og hins vegar „einingu“ er líkt og fram kemur í skýringum við 16. tölul. ætlað að auka skýrleika en einnig til hagræðingar þar sem mikið er vísað til fyrirtækja og/eða eininga skv. b–d-lið 2. gr. frumvarpsins. Hugtakið „eining“ er lagt til í stað hugtaksins „félag“ þar sem síðarnefnda hugtakið er rótgrónara og til dæmis skilgreint í lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Skilgreiningin er tekin upp að danskri fyrirmynd þar sem teknar voru upp sambærilegar skilgreiningar í þarlenda löggjöf um endurskipulagningu og skilameðferð tiltekinna fjármálafyrirtækja (d. lov om restrukturering og afvikling af visse finansielle virksomeheder) á annars vegar „fyrirtæki“ (d. virksomhed) og hins vegar „einingu“ (d. enhed). Við innleiðingu í Svíþjóð var einnig notast við sambærilega nálgun þar sem greinarmunur er gerður á lánastofnun og verðbréfafyrirtæki (s. institut) og fyrirtæki (s. företag). Hið síðarnefnda er gjarnan notað í þarlendri löggjöf með skírskotun til þeirra eininga sem eiga einnig undir gildissviðið en eru hvorki lánastofnanir né verðbréfafyrirtæki.
     Um 14. tölul. Töluliðurinn byggist á 62. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Félagsaðilar eru hluthafar og aðrir eigendur eignarhluta í fyrirtækjum eða einingum. „Fyrirtæki“ og „eining“ eru skilgreind í 13. og 17. tölul. sömu málsgreinar.
     Um 15. tölul. Töluliðurinn byggist á 100. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin á því hvað telst til fjárhagslegra samninga er ekki tæmandi. Þar er að finna helstu yfirheiti eða flokka fjárhagslegra samninga en í 100. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar er eftir atvikum nánar fjallað um inntak og einkenni hvers flokks, sbr. einnig reglur sem Seðlabankinn skal setja með stoð í 4. mgr. 25. gr. frumvarpsins.
     Um 16. tölul. Töluliðurinn byggist á 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og er samhljóða 17. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Fjallað er um hugtakið „fjármálastofnun“ í bæði víðum og þröngum skilningi þess í frumvarpi þessu. Þegar vísað er til gildissviðs frumvarpsins, sbr. b-lið 2. gr., eða skilgreiningar á „einingu“ í 13. tölul. málsgreinarinnar er átt við fjármálastofnun í þrengri skilningi en að öðru leyti er átt við fjármálastofnun í víðtækari skilningi samkvæmt skilgreiningu þessari, sbr. til dæmis þegar rætt er um hugtakið „eignarhaldsfélag á fjármálasviði“ sem skilgreint er í 10. tölul. sömu málsgreinar.
     Um 17. tölul. Í töluliðnum er hugtakið „fyrirtæki“ skilgreint með vísan til gildissviðs frumvarpsins. Skilgreiningunni er ætlað að auka skýrleika og gera greinarmun á lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, sbr. a-lið 2. gr., og einingum sem falla undir gildissvið frumvarpsins, sbr. b–d-lið 2. gr., og skilgreiningu 13. tölul. sömu málsgreinar.
     Um 18. tölul. Töluliðurinn byggist á 71. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja er eiginfjárgrunnsgerningum, þ.e. gerningum sem uppfylla skilyrði þess að geta talist til eiginfjárgrunns samkvæmt reglugerðinni, skipt upp í þrjár tegundir. Á grundvelli laga nr. 96/2016 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, var þessum gerningum skipt upp í almennt eigið fé þáttar 1, sbr. 84. gr. a, viðbótareigiðfé þáttar 1, sbr. 84. gr. b, og þátt 2, sbr. 84. gr. c þeirra laga. Hæf skuldbinding telst ekki skuldbinding eða fjármagnsgerningur sem uppfyllir skilyrði þess að teljast til gernings samkvæmt ákvæðum 84. gr. a – 84. gr. c. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þá felst það í inntaki hugtaksins að ekki er heimilt að undanskilja skuldbindinguna skv. 1. mgr. 56. gr. við beitingu á skilaúrræðinu eftirgjöf.
     Um 19. tölul. Töluliðurinn byggist á 35. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið felur í sér skilgreiningu á þeirri starfsemi fyrirtækis sem telst nauðsynleg. Skilgreiningunni er ætlað að ná yfir starfsemi, rekstur eða þjónustu en notast er við orðið starfsemi sem samheiti enda víðtækast af orðunum þremur.
     Um 20. tölul. Töluliðurinn byggist á 36. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Kjarnastarfsemi er skilgreind út frá þremur viðmiðum, þ.e. sem hlutfall af rekstrartekjum, hagnaði eða vörumerkjatekjum. Síðastnefnda viðmiðinu er ætlað að ná yfir enska heitið „franchise value“.
     Um 21. tölul. Töluliðurinn byggist á 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og skilgreinir hugtakið lánastofnun. Ákvæðið er samhljóða 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, að því undanskildu að notast er við hugtakið „fjármálafyrirtæki“ í stað hugtaksins „fyrirtæki“ í upphafi ákvæðisins enda hið síðarnefnda hugtak skilgreint í lögum þessum.
     Um 22. tölul. Töluliðurinn byggist á 34. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1. mgr. 51. gr. tilskipunar 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim. Í skilgreiningunni eru taldir upp í þremur stafliðum þeir efnisþættir sem uppfylltir skulu vera til að um mikilvægt útibú sé að ræða í skilningi frumvarpsins. Með tilvísun til gistiríkis er átt við það aðildarríki þar sem útibúið er staðsett.
     Um 23.–27. tölul. Töluliðirnir byggjast á 12., 13., 49., 50. og 85. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningarnar eru samhljóða skilgreiningum 40.–42., 44. og 46 tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Skýringar á skilgreiningunum má finna í umfjöllun um 1. gr. við frumvarp sem varð að lögum nr. 54/2018.
     Um 28. tölul. Töluliðurinn byggist á 44. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Samstæðuskilavald móttekur upplýsingar frá móðurfélagi og leiðir samstarf skilastjórnvalda við undirbúning og framkvæmd skilameðferðar samstæðu. Þá getur samstæðuskilavald tekið ákvarðanir fyrir samstæðu í heild. Með undirbúningi og framkvæmd skilameðferðar er átt við þau verkefni sem fjallað er um í 2. og 3. þætti frumvarpsins, sbr. þó verkefni skv. VI. kafla en aðildarríkin hafa val um það hvort slíku verkefni er komið fyrir hjá skilastjórnvaldi eða eftirlitsstjórnvaldi.
     Um 29. tölul. Töluliðurinn byggist á 28. tölul. 1. mgr. 2 gr. tilskipunarinnar. Í skilgreiningunni er vísað til 2. kafla IV. hluta laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem kveðið er á um ríkisaðstoð, en inntak ákvæðisins er víðtækara en leiðir af þeim lögum. Hefðbundin lausafjárfyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands eða neyðarlán bankans til þrautavara, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, telst ekki sérstakur fjárstuðningur í skilningi ákvæðisins.
     Um 30. tölul. Töluliðurinn byggist á 40 tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og skilgreinir hugtakið „skilaaðgerð“. Ef ákvörðun er tekin um að taka fyrirtæki til skilameðferðar skv. 35. gr. frumvarpsins rúmast sú ákvarðanataka innan skilgreiningarinnar. Hugtakið „skilaaðgerð“ kemur víða fyrir í frumvarpinu og er þá yfirleitt verið að vísa til þess sem samheitis yfir skilaúrræði og skilaheimildir, sbr. 31. og 33. tölul. sömu málsgreinar.
     Um 31. tölul. Töluliðurinn byggist á 20. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilaheimildir eru þær valdheimildir sem hægt er að grípa til, ýmist samhliða beitingu skilaúrræða eða sjálfstætt. Fjallað er um einstakar skilaheimildir í IX., XI. og XII. kafla og almennt í kafla 3.9.2 í greinargerð frumvarpsins.
     Um 32. tölul. Töluliðurinn byggist á 18. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Lagt er til að skilgreint verði í ákvæðinu hvað sé átt við með skilastjórnvaldi. Hér á landi fer skilavaldið með undirbúning og framkvæmd skilameðferðar í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Sjá skýringu við 28. tölul. sömu málsgreinar hvað varðar skýringu á því hvað felst í undirbúningi og framkvæmd skilameðferðar.
     Um 33. tölul. Töluliðurinn byggist á 19., 55., 57., 58. og 60. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilaúrræðin eru fjögur og er umfjöllun um þau að finna í kafla 3.9.1 í greinargerð frumvarpsins.
     Um 34. tölul. Töluliðurinn byggist á 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og er skilgreining á hugtakinu „verðbréfafyrirtæki“. Með hugtakinu „verðbréfafyrirtæki“ í frumvarpinu er átt við fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. sömu laga, að undanskildum þeim sem bera takmarkaðar starfsskyldur skv. 3. mgr. 25. gr. þeirra laga. Þá þarf stofnframlag verðbréfafyrirtækis að lágmarki að nema jafnvirði 730 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum, sbr. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Skilgreining á hugtakinu „verðbréfafyrirtæki“ byggist á skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja með þeirri viðbót sem fram kemur í skilgreiningu 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um lágmarksstofnfé verðbréfafyrirtækis. Skilgreining frumvarpsins takmarkast við verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki enda stofnframlag verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur skv. 3. mgr. 25. gr. þeirra laga lægra en jafnvirði 730 þúsund evra í íslenskum krónum. Rétt er að fram komi að skilgreiningin er frábrugðin skilgreiningu tilskipunar 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga („MiFID II-tilskipunin“) á „verðbréfafyrirtæki“ sem áformað er að verði innleidd með lagafrumvarpi á yfirstandandi löggjafarþingi.
     Um 35. tölul. Töluliðurinn byggist á 74. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Í 84. gr. b og 84. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, er kveðið á um fjármagnsgerninga sem teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 og þáttar 2. Hugtakið „viðeigandi fjármagnsgerningur“ er notað sem samheiti yfir þessa tvo gerninga.
     Um 36. og 37. tölul. Töluliðirnir byggjast á 94. og 95. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Til skýringar vísast til umfjöllunar um nýjar skilgreiningar á sömu hugtökum sem bætast við lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sbr. 3. tölul. c-liðar 2. tölul. 103. gr. frumvarpsins.
     Um 38. tölul. Töluliðurinn byggist á 107. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er að finna skilgreiningu á þeim félögum sem teljast örfélög, lítil eða meðalstór í skilningi frumvarpsins. Skilgreiningin hefur fyrst og fremst þýðingu hvað varðar tvö veigamikil atriði. Annars vegar við heimild til að undanskilja tilteknar skuldbindingar við beitingu á skilaúrræðinu eftirgjöf, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 56. gr. frumvarpsins, og hins vegar um forgangsröð krafna vegna innstæðna við slitameðferð lánastofnunar, sbr. breyting sem lögð er til á 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki með r-lið 1. tölul. 103. gr. frumvarpsins.

Um II. kafla.

    Í II. kafla frumvarpsins er að finna almenn ákvæði um opinbera stjórnsýslu, starfsemi, ákvarðanir, málshöfðun, skyldu til að veita upplýsingar og þagnarskyldu. Nánari umfjöllun um kröfur og inntak skipulegs aðskilnaðar innan Seðlabanka Íslands vegna verkefna sem varða undirbúning og framkvæmd skilameðferðar er að finna í kafla 3.2 í greinargerðinni. Í kaflanum er bæði að finna ákvæði sem taka mið af tilskipuninni og ákvæði til fyllingar efnisákvæðum tilskipunarinnar.

Um 4. gr.

    Greinin er innleiðing 1.–4. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar og kveður á um hlutverk og verkefni Seðlabanka Íslands sem framkvæmdaraðila laganna.
     Um 1. mgr. Lagt er til að skilavaldinu, sem er hluti af Seðlabanka Íslands, verði falið að fara með framkvæmd laganna. Í ákvæðinu segir að starfsemi skilavaldsins skuli vera aðgreind frá annarri starfsemi í skipulagi Seðlabankans. Fjallað er um inntak skipulegs aðskilnaðar (e. operational independence) í kafla 3.2 í greinargerðinni. Aðgreint skipulag og aðskildar boðleiðir innan þess stjórnvalds sem fer með skilavald er áskilið samkvæmt tilskipuninni og er þeirri tilhögun meðal annars ætlað að tryggja skilvirkni í aðgerðum og komast hjá hagsmunaárekstrum. Í aðgreindu skipulagi skilavalds innan Seðlabankans felst að bankinn skuli tryggja að annað starfsfólk hafi ekki óhindraðan aðgang að gögnum sem tengjast framkvæmd laganna og skulu upplýsingaskipti að jafnaði vera að frumkvæði skilavaldsins. Sérstaklega ber að gæta að þessu hvað varðar upplýsingaskipti og samstarf við Fjármálaeftirlitið. Útfærsla á aðgangstakmörkunum hvað varðar verkefni skilavalds er á forræði Seðlabankans, sbr. 4. mgr., en slíkar takmarkanir skulu þó ekki hefta eðlilega upplýsingagjöf, sem og samráð og samstarf innan mismunandi starfseininga bankans vegna ákvæða frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Í ákvæðinu er tiltekið hvaða ákvarðanir samkvæmt lögunum skulu teknar af Fjármálaeftirlitinu. Framkvæmdin er að öðru leyti falin skilavaldinu sem skal þó viðhafa samráð við Fjármálaeftirlitið, sbr. skýringu á 3. mgr. greinarinnar.
     Um 3. mgr. Í ákvæðinu er að finna þær ákvarðanir þar sem ástæða þykir að kveða sérstaklega á um samráð við Fjármálaeftirlitið áður en ákvarðanirnar eru teknar. Skilavaldið og Fjármálaeftirlitið skulu viðhafa náið samstarf og samráð við framkvæmd laganna. Ríkari skyldur eru þó gerðar um þær ákvarðanir sem nefndar eru í ákvæðinu og verða þær ekki teknar nema samráð hafi verið haft við Fjármálaeftirlitið fyrir ákvarðanatöku. Með samráði felst a.m.k. það að Fjármálaeftirlitið fái fullnægjandi upplýsingar um málið ásamt aðgangi að viðeigandi gögnum og skal skilavaldið bíða eftir sjónarmiðum og mati þess áður en ákvarðanir eru teknar.
     Um 4. mgr. Í ákvæðinu segir að Seðlabankinn setji reglur sem skulu að lágmarki varða þagnarskyldu og upplýsingaskipti innan mismunandi sviða bankans vegna verkefna skilavaldsins sem framkvæmdaraðila laganna. Reglurnar skal birta opinberlega.

Um 5. gr.

    Greinin er innleiðing 5. og 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar og kveður á um hlutverk og verkefni ráðherra.
     Um 1. mgr. Í ákvæðinu segir að tilteknar ákvarðanir verði ekki teknar án samþykkis ráðherra. Hafi ákvarðanir bein áhrif á ríkissjóð (e. direct fiscal impact) eða kerfislæg áhrif (e. systemic implications) eru þær háðar staðfestingu ráðherra. Í ákvæðinu er einnig tilgreint í dæmaskyni þrenns konar ákvarðanir sem háðar eru staðfestingu ráðherra og gera má ráð fyrir að tvær þeirra hafi þau áhrif sem að framan er lýst. Þrátt fyrir að ákvörðun um samþykkt á skilaáætlun kerfislega mikilvægs fjármálafyrirtækis, sem er ein þeirra ákvarðana sem tilgreindar eru í ákvæðinu, hafi ekki bein áhrif á ríkissjóð eða kerfislæg áhrif við samþykkt áætlunar leggur sú ákvarðanataka grunninn að því hvernig skilameðferð viðkomandi fyrirtækis verði háttað ef til hennar kemur og verði áætluninni hrint í framkvæmd mun það hafa þau áhrif enda ferli skilameðferðar þá hafið.
     Um 2. mgr. Í XIII. kafla frumvarpsins er kveðið á um opinber fjármálastöðgunarúrræði og er ákvörðun um notkun á slíkum úrræðum tekin af ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins. Fjallað er almennt um opinber fjármálastöðgunarúrræði í kafla 3.10 í greinargerðinni.
     Um 3. mgr. Í tilskipuninni er fjallað um að það stjórnvald sem fari með skilavald skuli upplýsa viðeigandi ráðuneyti um einstakar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli tilskipunarinnar. Upplýsingaskyldan sem mælt er fyrir um í ákvæðinu skal vera að frumkvæði skilavaldsins en henni er ekki markaður ákveðinn farvegur. Miðlun upplýsinga til ráðherra getur því farið fram á vettvangi fjármálastöðugleikaráðs ef aðilar kjósa það. Vegna sérstaks eðlis þessa frumvarps og grundvallarmarkmiðs þess að vernda fjármálastöðugleika er nauðsynlegt að ráðherra sé upplýstur um framkvæmd laganna, sbr. einnig aðkomu ráðherra að ákvörðunartöku skv. 1. mgr. greinarinnar. Er því lagt upp með að ráðherra geti krafið Seðlabankann um upplýsingar sem tengjast ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laganna. Á þetta við þrátt fyrir sjálfstæði Seðlabankans gagnvart stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.

Um 6. gr.

    Greinin er innleiðing 2.–4. mgr. 85. gr. tilskipunarinnar.
     Um 1. mgr. Kveðið er á um að ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna séu endanlegar innan stjórnsýslunnar. Á sama hátt og gildir um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er mikilvægt að skilavaldið njóti fyllsta sjálfstæðis í störfum sínum við þau verkefni sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og verður ákvörðunum þess því ekki skotið til ráðherra.
     Um 2. mgr. Af ákvæðinu leiðir að aðili sem hefur lögvarða hagsmuni getur höfðað mál fyrir dómstólum innan þriggja mánaða frá því að honum var tilkynnt um ákvörðunina. Í málsgreininni er kveðið á um þriggja mánaða málshöfðunarfrest með sambærilegum hætti og í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um gjaldeyrismál. Afar brýnt þykir að mál sem varða ágreining um ákvarðanir samkvæmt frumvarpi þessu, verði það að lögum, komi sem fyrst til kasta dómstóla enda um mikilvæga hagsmuni að ræða sem varðað geta almannahagsmuni.
     Um 3. mgr. Kveðið er á um að tilteknar ákvarðanir skuli taka gildi strax og koma til framkvæmda þegar í stað. Um er að ræða þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að komi hratt til framkvæmda til að hægt sé að tryggja skilvirka skilameðferð og uppfylla markmið laganna, m.a. um almannahagsmuni. Af ákvæðinu leiðir að ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um málsmeðferð og þær ákvarðanir sem ákvæðið tilgreinir. Því er gert ráð fyrir að ákvæðum stjórnsýslulaga um andmælarétt, birtingu ákvörðunar o.fl. verði vikið til hliðar, enda kalla þessar ákvarðanir á skjót viðbrögð og að öðrum kosti útilokað að grípa til nauðsynlegra aðgerða.
     Um 4. mgr. Skilavaldið hefur heimild til að ákveða að aðrar ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt frumvarpi þessu, verði það að lögum, taki strax gildi og komi til framkvæmda. Á sama hátt og leiðir af 3. mgr. hefur slík ákvörðun þau réttaráhrif að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, sbr. ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, gilda ekki. Í ákvæðinu eru tvær íþyngjandi aðgerðir nefndar í dæmaskyni. Í fyrsta lagi er um að ræða ákvörðun um að grípa til tiltekinna aðgerða vegna annmarka á skilabærni, sbr. 3. mgr. 15. gr. Hvað þessa ákvarðanatöku varðar er bent á að ákvörðun verður ekki tekin nema að undangenginni ítarlegri málsmeðferð, sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. þar sem fyrirtæki er gefinn kostur á því að koma með tillögur að úrbótum til að ráða bót á annmörkum á skilabærni. Í öðru lagi er ákvörðun um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla frumvarpsins tilgreind sérstaklega. Slíka ákvörðun getur verið nauðsynlegt að taka skjótt enda getur markmið þess úrræðis verið að ráða bót á hratt versnandi rekstrarerfiðleikum fyrirtækis og forða því frá skilameðferð. Í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar skal skilavaldið þó ekki ganga lengra en nauðsyn krefur við beitingu þessa ákvæðis.
     Um 5. mgr. Af ákvæðinu leiðir að ágreiningsmálum fyrir dómstólum, sem varða skilaaðgerðir, skal hraðað innan dómskerfisins. Ekki er talin þörf á því að málin skuli lúta þeim reglum sem kveðið er á um í XIX. kafla laga um meðferð einkamála þannig að dómari gefi út stefnu í málinu heldur er lögð áhersla á að mál fái eins skjóta meðferð og unnt er. Við það mat ber þó að hafa í huga að mál geta verið flókin og umfangsmikil. Dómstólar byggja þó forsendur sínar á sömu efnahagslegu greiningu og viðkomandi ákvörðun byggðist á. Mikilvægt er að niðurstaða fáist í ágreiningsmál um lögmæti skilaaðgerða hið fyrsta enda varða aðgerðirnar almannahagsmuni. Ákvæðið felur í sér að máli sé veittur forgangur fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum, frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Ákvæðið gildir ekki um allar ákvarðanir samkvæmt 3. þætti frumvarpsins heldur einskorðast það við ákvörðun um skilameðferð og beitingu skilaaðgerða en það hugtak er skilgreint í 30 tölul. 1. mgr. 3. gr. Hvað varðar ákvarðanir um mat á eignum og skuldbindingum skv. VII. kafla, sem skulu taka gildi þegar í stað, sbr. 3. mgr. ákvæðisins, er rétt að benda á að slíkar ákvarðanir verða ekki bornar undir dómstóla einar og sér heldur einungis samhliða ákvörðun um beitingu skilaaðgerða, sbr. 33. gr.
     Um 6. mgr. Í málsgreininni er kveðið á um réttarstöðu tjónþola vegna ákvörðunar sem ógilt hefur verið fyrir dómi. Framkvæmd ákvarðana verður ekki stöðvuð nema slíkt sé metið nauðsynlegt með almannahagsmuni að leiðarljósi. Tjónþoli skal því einungis eiga rétt á skaðabótum vegna hinnar ógiltu ákvörðunar, sem skulu ef við á greiðast úr skilasjóði, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 87. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Greinin tekur mið af a-lið 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar og kveður á um heimild skilavaldsins til upplýsingaöflunar vegna ákvæða frumvarpsins. Einnig er kveðið á um heimildir til upplýsingaöflunar í 12. gr., þ.m.t. reglugerð ráðherra skv. 2. mgr. þeirrar greinar og í 1. tölul. 1. mgr. 61. gr. Innan ákvæðis 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar rúmast heimild til að krefjast þess að upplýsingar séu veittar við vettvangskannanir. Mikilvægt er að skilavaldið hafi rúmar heimildir til upplýsingaöflunar og því er heimildin almenns eðlis en þó með þeim takmörkunum að upplýsingarnar verði að vera nauðsynlegar vegna framkvæmdar laganna. Ákvæði síðari málsl. 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar er að mestu samhljóða 3. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, og vísast til skýringa við þá grein í því frumvarpi er varð að þeim lögum.
    Í 2. mgr. greinarinnar segir að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum en það eigi þó ekki við um upplýsingar sem lögmaður öðlast til hagsbóta fyrir skjólstæðing sinn í tengslum við dómsmál. Ákvæðið er til dæmis samhljóða 3. og 4. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, 3. og 4. málsl. 1. mgr. 15. gr. e laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, og 3. og 4. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.

Um 8. gr.

    Greinin felur í sér innleiðingu á hluta 81. gr. og 84. gr. tilskipunarinnar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. og 3. mgr. 84. gr. tilskipunarinnar. Tilgreint er að þeir sem koma að framkvæmd laganna, svo og mögulegir kaupendur sem skilavaldið eða Fjármálaeftirlitið hefur samband við, séu bundnir þagnarskyldu.
    Þagnarskyldan tekur til stjórnvalda sem koma að framkvæmd laganna, þar á meðal Seðlabankans, fjármálastöðugleikaráðs og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Sama gildir um skilasjóð, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, brúarstofnun og eignaumsýslufélag ef því er komið á fót á grundvelli laganna. Ákvæðið tekur einnig til þeirra sem stjórnvöld og aðrir sem falla undir ákvæðið kalla sér til aðstoðar við framkvæmd laganna, þar á meðal skilastjórn, endurskoðanda, bókara, lögfræðinga og matsaðila, sbr. einnig 4. mgr. 42. gr. stjórnsýslulaga sem bættist við þau lög með gildistöku laga nr. 71/2019 (tjáningarfrelsi og þagnarskylda). Þá tekur þagnarskyldan einnig til mögulegra kaupenda sem skilavaldið eða Fjármálaeftirlitið hefur samband við á grundvelli heimilda í lögunum. Það gildir þótt ekki verði af kaupum.
    Þagnarskyldan tekur til allra upplýsinga sem nauðsynlegt er að halda leyndum til að vernda verulega opinbera eða einkahagsmuni. Á þessum grundvelli ættu til dæmis upplýsingar um efni skilaáætlana, um niðurstöðu mats á þeim og skilabærni fyrirtækja eða eininga og upplýsingar um að skilaaðgerðir gagnvart þeim séu til skoðunar almennt að vera háðar þagnarskyldu. Seðlabankanum er heimilt að miðla og birta upplýsingar ef slíkt samræmist lögmæltu hlutverki skilavalds eða Fjármálaeftirlits samkvæmt frumvarpi þessu, verði það að lögum. Í því sambandi má hafa hliðsjón af viðmiðunarreglum EBA/GL/2016/03 um upplýsingagjöf í formi útdráttar eða samantektar sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út á grundvelli 7. mgr. 84. gr. tilskipunarinnar. 4
    Bent skal á að auk þagnarskyldu samkvæmt ákvæði þessu kunna sérstök þagnarskylduákvæði að gilda um einstaka aðila sem koma að framkvæmd laganna, sbr. til dæmis 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, X. kafla stjórnsýslulaga, sbr. lög nr. 71/2019, og 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. og 5. mgr. 84. gr. tilskipunarinnar, að frátöldum fyrirmælum 4. mgr. um miðlun upplýsinga til yfirvalda þriðju ríkja. Henni er ætlað að tryggja að nauðsynleg skipti á upplýsingum fyrir framkvæmd laganna geti farið fram.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 81. gr. og 2. mgr. 84. gr. tilskipunarinnar. Verklagsreglum samkvæmt málsgreininni er ætlað að tryggja að þagnarskylda skv. 1. mgr. greinarinnar sé virt, m.a. þegar upplýsingum er miðlað til þeirra aðila sem 2. mgr. tilgreinir.

Um III. kafla.

    Kaflinn innleiðir hluta af I. kafla og II. kafla II bálks tilskipunarinnar sem fjallar um skilaáætlun og skilabærni. Skilavaldið skal útbúa og uppfæra skilaáætlanir fyrir lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki og samstæður samkvæmt ákvæðum kaflans. Efni skilaáætlunar skal vera í samræmi við kerfislegt mikilvægi viðkomandi fyrirtækis eða samstæðu. Heimilt er að beita mismunandi kröfum eða draga verulega úr þeim ef unnt er að heimila fyrirtæki að fara í hefðbundna ógjaldfærnimeðferð, þ.e. slitameðferð í tilviki fjármálafyrirtækja. Af þeim sökum er kveðið á um heimild til að ákveða að gerð skuli einföld skilaáætlun fyrir fyrirtæki, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Þá skal skilavaldið leggja mat á skilabærni fyrirtækis að höfðu samráði við önnur viðeigandi stjórnvöld. Fyrirtæki telst skilabært ef hægt er að taka það til skilameðferðar og beita einhverjum skilaaðgerðum gagnvart því eða að fyrirtækið fari í slitameðferð, án þess þó að það hafi verulega neikvæð áhrif á fjármálakerfið. Ákvæði kaflans hafa svo að geyma reglur og aðgerðir sem heimilt er að grípa til í því skyni að ráða bót á annmörkum á skilabærni.

Um 9. gr.

    Greinin er innleiðing á 1., 3.–7. og 9. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar og kveður á um skilaáætlun lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis. Greinin kveður á um skyldu skilavaldsins til að gera, samþykkja og viðhalda skilaáætlun fyrir fyrirtæki sem heyra undir a-lið 2. gr. frumvarpsins, þ.e. lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Fjallað er almennt um skilaáætlun í kafla 3.4 í greinargerðinni.
     Um 1. mgr. Ákvæðið snýr að meginefni skilaáætlana en kveðið verður nánar á um efni skilaáætlunar í reglum Seðlabankans sem settar verða með stoð í 4. mgr. greinarinnar.
     Um 1. tölul. Töluliðurinn er innleiðing hluta 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Í skilaáætlun skal fjalla um þær skilaaðgerðir sem heimilt er að grípa til í tilviki hverrar lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis. Skilaaðgerðir samanstanda af skilaúrræðum og skilaheimildum, líkt og fram kemur í skilgreiningu hugtaksins „skilaaðgerð“ í 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Þættir á borð við eignarhald, skipulag, rekstraráherslur og fjárhagsstöðu hafa áhrif á það hvaða skilaaðgerðir skulu fara fram hjá fyrirtæki ef nauðsynlegt er að taka það til skilameðferðar. Viðeigandi skilaaðgerðir skulu taka mið af því hvernig vernda megi nauðsynlega starfsemi fyrirtækis og aðskilja hana og kjarnastarfsemi frá öðrum starfsþáttum fyrirtækisins.
     Um. 2. tölul. Töluliðurinn er innleiðing á hluta 3. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Skilaáætlanir skulu gerðar þegar rekstur er í eðlilegu horfi og skilameðferð því ekki yfirvofandi. Skilaáætlun verður því að byggjast á sviðsmyndum en áætlanir um aðgerðir geta verið ólíkar eftir aðstæðum. Í fyrsta lagi er um að ræða aðstæður þar sem erfiðleikar fyrirtækis eru bundnir við það sjálft (e. idiosyncratic). Í öðru lagi getur verið óstöðugleiki á fjármálamörkuðum (e. broader financial instability) og í þriðja lagi kerfislegt ójafnvægi í fjármálakerfinu (e. system wide events).
     Um 3. tölul. Töluliðurinn er innleiðing á hluta 3. mgr. og 4. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Tilgangur nýrra reglna um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er m.a. að forðast notkun á opinberum fjármunum til að greiða úr rekstrarerfiðleikum fyrirtækja. Af þeim sökum skal ekki gera ráð fyrir lausafjárfyrirgreiðslu seðlabanka í skilaáætlunum. Í skilaáætlunum skal á hinn bóginn koma fram undir hvaða kringumstæðum hægt er að sækja um fyrirgreiðslu en erfiðleika fyrirtækis á ekki að leysa með óreglulegum fjárstuðningi Seðlabanka Íslands eða öðrum opinberum fjárstuðningi, hvers eðlis sem hann kanna að vera. Fjárframlag frá skilasjóði telst ekki opinber fjárstuðningur.
     Um 4. tölul. Töluliðurinn er innleiðing 7. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Í skilaáætlun skal fjalla um leiðir, eina eða fleiri, sem varða það með hvaða hætti unnt er að beita skilaúrræðum og skilaheimildum við skilameðferð einstakra fyrirtækja. Eðli máls samkvæmt er flækjustig og umfang skilaáætlana stærri lánastofnana meira en annarra fyrirtækja sem gera skal skilaáætlun fyrir. Ólíkar leiðir við beitingu skilaaðgerða taka því mið af eðli fyrirtækja en fyrir stærri lánastofnanir geta ólíkar leiðir t.d. markast af aðstæðum sem varða einungis fyrirtækið sjálft eða óstöðugleika í fjármálakerfinu.
     Um 2. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing á hluta 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar, er kveðið á um samráð við gerð skilaáætlunar. Skilavaldið skal að jafnaði eiga samráð við Fjármálaeftirlitið vegna ýmissa verkefna sem varða skilameðferð, þ.m.t. um gerð skilaáætlunar, sbr. 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins, og afhenda því samþykktar skilaáætlanir fyrirtækja. Þá skal einnig viðhafa samráð við skilastjórnvöld í aðildarríkjum þar sem mikilvæg útibú eru staðsett. Kveðið er á um þau atriði sem líta ber til við mat á því hvort útibú telst mikilvægt í 22. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 6. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að skilaáætlun skuli uppfærð í hvert skipti sem veigamiklar breytingar verða á þáttum sem skipta máli varðandi skilameðferð fyrirtækis. Er hér átt við þætti á borð við stjórnskipulag, eignarhald, starfsemi eða fjárhagslega stöðu fyrirtækisins. Nauðsynlegt er að skilavaldið hafi á hverjum tíma upplýsingar um þessa þætti og er því kveðið á um skyldu fyrirtækja til að upplýsa í tíma um þætti sem gefa tilefni til uppfærslu. Afhending þeirra upplýsinga sem kveðið er á um sækir einnig stoð í ákvæði 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing 9. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að Seðlabankinn setji reglur um efni skilaáætlana. Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út framselda reglugerð nr. 2016/1075 sem byggist á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Í efnisatriðum reglna Seðlabankans mun 1. undirkafli II. kafla reglugerðar (ESB) verða innleiddur.

Um 10. gr.

    Greinin er innleiðing 12. og 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar og kveður á um skilaáætlun samstæðu og málsmeðferð við gerð slíkrar áætlunar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. og 2. mgr. 12. gr., 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu kemur fram að skilavaldið skuli semja, samþykkja og uppfæra skilaáætlun fyrir samstæðu. Þessi ábyrgð er háð því að skilavaldið fari með samstæðuskilavald en það hugtak er skilgreint í 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er bæði fjallað um samstarf og samráð við lögbær stjórnvöld í öðrum aðildarríkjum við gerð skilaáætlunar samstæðu og af ákvæðinu leiðir að ríkari kröfur eru gerðar ef um dótturfélag er að ræða en mikilvægt útibú.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 6. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að heimilt er að ákveða að gerð skuli sjálfstæð skilaáætlun fyrir dótturfélög sem eru lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ákvæðið á við þegar skilavaldið fer með valdheimildir gagnvart einstökum dótturfélögum en ekki með samstæðuskilavald. Það leiðir af 6. mgr. greinarinnar að leitast skuli við að taka sameiginlega ákvörðun með lögbærum stjórnvöldum um skilaáætlun samstæðu, þ.m.t. um hvort sjálfstæð skilaáætlun skuli gerð fyrir einstök dótturfélög. Ef þar til bært lögbært stjórnvald hefur vísað ákvörðun skilavaldsins um að gera sjálfstæða skilaáætlun fyrir dótturfélag til Eftirlitsstofnunar EFTA eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar innan tímafrests skv. 6. mgr. skal fresta ákvörðun um að gera sjálfstæða skilaáætlun fyrir dótturfélag og taka ákvörðun um hvort það verði gert í samræmi við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, sbr. 7. mgr.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. og 5. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að skilaáætlun samstæðu skuli innihalda aðgerðir um skilameðferð samstæðu í heild sem og aðgerðir um skilameðferð einstakra fyrirtækja, eininga og útibúa innan samstæðu. Með aðgerðum er bæði átt við skilaaðgerðir og aðrar aðgerðir sem heimilt er að grípa til og m.a. er kveðið á um í reglum sem Seðlabankinn skal setja skv. 8. mgr. greinarinnar. Í ákvæðinu kemur einnig fram að 9. gr. frumvarpsins gildi um skilaáætlun samstæðu. Af því leiðir að sömu efnisatriði skulu koma fram í skilaáætlun samstæðu og skilaáætlun lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis. Viðbótarreglur er þó að finna um skilaáætlun samstæðu, þ.m.t. um samhæfingu á aðgerðum, samskipti milli lögbærra stjórnvalda og aðkomu skilasjóðs og hliðstæðs fjármögnunarfyrirkomulags í öðrum aðildarríkjum að fjármögnun skilameðferðar samstæðu. Nánari útlistun á þessum efnisatriðum ásamt öðrum koma fram í reglum Seðlabankans. Telji skilavaldið að skilameðferð samstæðu kunni að hafa áhrif í öðru aðildarríki skal það gæta þess að áhrifin komi sem jafnast niður.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar og kveður á um til hvaða aðila skilaáætlun samstæðu skal taka, eftir atvikum. Skulu aðgerðir skilaáætlunar ná til hvers fyrirtækis og einingar innan samstæðu.
     Um 5. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að samráð og samstarf sé viðhaft milli skilavaldsins, annarra lögbærra stjórnvalda og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar við gerð skilaáætlunar samstæðu. Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 27. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins, ber ábyrgð á að taka saman upplýsingar og afhenda skilavaldinu.
     Um 6. og 7. mgr. Málsgreinarnar eru innleiðing 4. og 5. mgr. og 7.–10. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Þar er kveðið á um tímasettan verkferil sem ætlað er að tryggja að niðurstaða náist við gerð skilaáætlunar samstæðu. Skilavaldið skal taka sjálfstæða ákvörðun um skilaáætlun samstæðu ef það fer með samstæðuskilavald og ekki næst sameiginleg ákvörðun með skilastjórnvöldum um skilaáætlun samstæðu. Skilastjórnvöldum er heimilt að leita til Eftirlitsstofnunar EFTA eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar ef ágreiningur er fyrir hendi um skilaáætlun samstæðu, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Ef Eftirlitsstofnun EFTA tekur ákvörðun um skilaáætlun samstæðu ber skilavaldinu að hlíta þeirri ákvörðun. Sá verkferill sem kveðið er á um í málsgreinunum er samhljóða þeim verkferli sem gildir við mat eftirlitsstjórnvalda á endurbótaáætlun samstæðu skv. 82. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um 8. mgr. Málsgreinin er innleiðing 6. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar og kveður á um að setja skuli nánari reglur um efni skilaáætlunar samstæðu. Reglurnar koma fram í reglugerð (ESB) nr. 2016/1075 og verða innleiddar með reglum Seðlabankans.

Um 11. gr.

    Greinin er innleiðing 1.–6. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um einfaldar skuldbindingar (e. simplified obligations) fyrir tilteknar lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki eða samstæðu. Ákvæði 4. gr. tilskipunarinnar gildir bæði um endurbótaáætlanir og skilaáætlanir. Ákvæði um endurbótaáætlun voru innleidd með lögum nr. 54/2018 á 148. löggjafarþingi með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ákvæði þessarar greinar er efnislega samhljóða 82. gr. e laga um fjármálafyrirtæki með því fráviki að greinin varðar skilaáætlanir sem eru á verksviði skilavaldsins en ekki endurbótaáætlanir en yfirferð þeirra og samþykki er á verksviði Fjármálaeftirlitsins. Sömu efnisreglur gilda því um heimildina til að gera einfalda endurbótaáætlun og einfalda skilaáætlun. Varðandi skýringar á greininni vísast til skýringa við e-lið 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 54/2018. Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út framselda reglugerð nr. 2019/348 sem fjallar um þessi viðmið og munu reglur Seðlabankans skv. 3. mgr. 11. gr. innleiða reglugerð ESB.

Um 12. gr.

     Um 1. mgr. Í málsgreininni felst innleiðing 5. mgr. 10. gr., 1. og 2. mgr. 11. gr. og hluta 1. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið snýr að upplýsingagjöf og aðstoð vegna gerðar skilaáætlunar. Í samstarfi við Fjármálaeftirlitið skal lagt mat á það hvort og þá hvaða upplýsingar, sem heimilt er að afla á grundvelli ákvæðisins, eru þegar tiltækar. Ekki verður ráðið af greininni að heimilt sé að krefja fyrirtæki eða móðurfélag um samstarf varðandi alla þætti skilaáætlunar. Þó er heimilt að krefjast þess að fyrirtæki eða móðurfélag eigi með sér nauðsynlegt samstarf við að semja ákveðna þætti áætlunarinnar að því marki sem upplýsingarnar koma ekki fram í endurbótaáætlunum, t.d. um skipulag fyrirtækis eða samstæðu sem tekur bæði til lagalegrar uppbyggingar og stjórnskipulags.
     Um 2. mgr. Í málsgreininni er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð sem varðar þær upplýsingar sem heimilt er að krefja lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki um í tengslum við gerð eða uppfærslu skilaáætlana. Í reglugerð ráðherra mun sá hluti þáttar B í viðauka tilskipunarinnar verða innleiddur þar sem kveðið er á um lágmarksupplýsingar sem lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum ber að veita skilavaldinu að kröfu þess. Ákvæðið takmarkar ekki aðrar heimildir til upplýsingaöflunar, sbr. 7. gr. og 1. tölul. 61. gr. frumvarpsins.
     Um 3. mgr. Í málsgreininni felst innleiðing 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að Seðlabankinn setji reglur um verklag og form fyrir veitingu upplýsinga samkvæmt þessari grein. Framkvæmdarreglugerð (ESB) nr. 2016/1066 verður innleidd með reglum Seðlabankans.

Um 13. gr.

    Greinin er innleiðing 15. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um mat á skilabærni lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 10. gr. og hluta 1. mgr. og 3. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að skilavaldið leggur mat á skilabærni lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis eftir að hafa ráðfært sig við önnur stjórnvöld þegar við á samhliða því að útbúa skilaáætlun fyrir viðkomandi fyrirtæki. Kveðið er á um þau atriði sem líta ber til við mat á því hvort útibú telst mikilvægt í 22. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Séu verulegir annmarkar á skilabærni fyrirtækis að mati skilavaldsins getur það krafist þess að gripið verði til ýmissa aðgerða við að ráða bót á annmörkum skv. 2. og 3. mgr. 15. gr. frumvarpsins. Á sama hátt og á við um mat Fjármálaeftirlitsins á endurbótaáætlunum skv. IX. kafla A laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og gerð skilavaldsins á skilaáætlunum skv. 9. gr. frumvarpsins skal ekki gera ráð fyrir opinberum fjárstuðningi, þ.m.t. sérstökum opinberum fjárstuðningi, neyðaraðstoð eða sérstakri lausafjárfyrirgreiðslu frá seðlabanka sem ekki telst til reglulegra viðskipta, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, til að fyrirtæki teljist skilabært. Hugtakið „sérstakur opinber fjárstuðningur“ er skilgreint í 29. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta af 1. og 2. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er fjallað um þau efnisatriði sem skulu vera uppfyllt til að fyrirtæki teljist skilabært. Af ákvæðinu leiðir að aðstæður þurfa annaðhvort að vera með þeim hætti að unnt sé að beita skilaaðgerðum og fyrirtæki þannig tækt til skilameðferðar eða að möguleiki sé á því að hámarka virði eigna og deila þeim út til kröfuhafa með slitameðferð. Þegar mat er lagt á skilabærni hefur það því ekki ávallt þann tilgang að fyrirtæki verði tekið til skilameðferðar, heldur kann slitameðferð að vera eðlileg leið í tilfelli smærri fyrirtækja þar sem slíkt hefur takmörkuð neikvæð áhrif á fjármálakerfið. Við mat á skilabærni skal það haft að leiðarljósi að grundvöllur þess að fyrirtæki geti talist skilabært er að nauðsynleg starfsemi verði áfram tryggð. Mat á skilabærni skal að lágmarki grundvallast á atriðum sem fram koma í reglum Seðlabankans skv. 3. mgr.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Kveðið er á um að Seðlabankinn setji reglur um viðfangsefni og viðmið við mat á skilabærni lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2016/1075 verður innleidd með reglum Seðlabankans.
     Um 4. mgr. Í ákvæðinu er að finna reglugerðarheimild ráðherra. Í reglugerðinni mun þáttur C í viðauka tilskipunarinnar verða innleiddur.

Um 14. gr.

    Greinin er innleiðing 4. mgr. 12. gr. og 16. gr. tilskipunarinnar og kveður á um mat á skilabærni samstæðu. Af greininni leiðir að skilavaldinu ber að leggja mat á skilabærni samstæðu fari það með samstæðuskilavald. Skilgreiningu á samstæðuskilavaldi er að finna í 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Efnisatriði skv. 13. gr., reglur Seðlabankans skv. 3. mgr. þessarar greinar sem og reglugerð ráðherra skv. 4. mgr. gilda um mat á skilabærni samstæðu. Líkt og á við um mat á skilabærni lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis skal ekki gera ráð fyrir opinberum fjárstuðningi aðildarríkja til að samstæða teljist skilabær. Ef verulegir annmarkar eru á skilabærni samstæðu gildir ákvæði 16. gr. frumvarpsins þar sem m.a. er kveðið á um aðgerðir sem heimilt er að grípa til í því skyni að ráða bót á annmörkunum. Í 3. mgr. er kveðið á um að Seðlabankinn setji reglur um viðfangsefni og viðmið við mat á skilabærni samstæðu. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2016/1075 mun verða innleidd með reglum Seðlabankans. Í 4. mgr. er svo kveðið á um reglugerð ráðherra sem mun fela í sér innleiðingu á þætti C í viðauka tilskipunarinnar.

Um 15. gr.

    Greinin felur í sér innleiðingu 17. gr. og hluta 18. gr. tilskipunarinnar og kveður á um annmarka á skilabærni.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. og 2. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er heimild til þess að bregðast við annmörkum á skilabærni fyrirtækis í samstarfi við önnur lögbær stjórnvöld. Líkt og fram kemur í 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins skal mat á skilabærni fara fram samhliða gerð skilaáætlunar. Komist skilavaldið að því, í samstarfi við önnur lögbær stjórnvöld, að verulegir annmarkar séu á skilabærni skal fresta gerð skilaáætlunar.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að fyrirtæki skal leggja fram tillögur innan fjögurra mánaða ef skilavaldið metur það svo að verulegir annmarkar séu á skilabærni þess. Tillögurnar snúast um hvaða aðgerðir fyrirtækið telur rétt að ráðast í til að bregðast við þeim annmörkum sem það hefur fengið tilkynningu um. Ákvæðið grundvallast á meðalhófi þar sem fyrirtæki er gefið færi á því að grípa til aðgerða, enda hefur það bestu þekkinguna á eigin starfsemi. Sé það mat skilavaldsins að þær aðgerðir sem fyrirtækið leggur til séu ófullnægjandi getur það krafist breytinga sem það telur nauðsynlegar til að einfalda skipulag og starfsemi fyrirtækisins þannig að greiða megi fyrir skilameðferð, sbr. 3. mgr.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 4. mgr. og 5.–8. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið snýr að þeim aðgerðum sem heimilt er að krefjast að lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki eða eftir atvikum eining innan samstæðu, þ.e. fjármálastofnun skv. b-lið 2. gr. eða eignarhaldsfélag skv. c- eða d-lið 2. gr., grípi til í því skyni að ráða bót á þeim annmörkum sem koma í veg fyrir skilabærni og þar af leiðandi skilvirka skilameðferð fyrirtækis eða einingar. Sé heimild ákvæðisins nýtt skal rökstutt hvers vegna tillögur fyrirtækisins sjálfs, skv. 2. mgr., teljast ófullnægjandi og með hvaða hætti þeim aðgerðum sem krafist er sé ætlað að bæta úr annmörkunum. Við mat á nauðsynlegum aðgerðum skal annars vegar hafa hliðsjón af því hvaða áhrif annmarkarnir hafa á fjármálastöðugleika og hins vegar meta áhrif aðgerðanna á rekstur og stöðugleika fyrirtækisins og getu þess til að styðja við hagkerfið. Heimildir til að krefjast tiltekinna aðgerða eru víðtækar og lúta m.a. að endurskipulagningu rekstrar, sölu eigna, breytingu á fjármögnun og skipulagi, þ.m.t. félagaformi og stjórnskipulagi. Þegar heimildunum er beitt skal gæta meðalhófs og skulu aðgerðir stjórnvaldsins vera réttlætanlegar á grundvelli almannahagsmuna. Varðandi nákvæmari lýsingu á aðgerðum skv. 3. mgr. og útfærslu á þeim aðstæðum sem réttlæta beitingu þeirra er rétt að horfa til viðmiðunarreglna EBA/GL/2014/11 sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) hefur gefið út um annmarka á skilabærni með stoð í 8. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar. 5 Þá skal skilavaldið taka tillit til og fjalla um hvaða áhrif þær aðgerðir sem ætlunin er að grípa til geti haft á fyrirtækið sjálft, fjármálakerfið og fjármálastöðugleika í aðildarríkjum og skal það gert áður en aðgerðirnar eru staðfestar.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 4. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að fyrirtæki hefur einn mánuð til að leggja fram áætlun um hvernig það hyggst framfylgja kröfum um eina eða fleiri aðgerðir skv. 3. mgr. greinarinnar. Áætlun fyrirtækisins skal innihalda upplýsingar um hvernig fyrirtækið hyggst fylgja ákvörðuninni eftir og á hvaða tímabili ef ekki er unnt að koma aðgerðum strax í framkvæmd.
     Um 5. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 18. gr. tilskipunarinnar en í þeirri grein er kveðið á um að 17. gr. tilskipunarinnar, sem innleidd er með þessari grein, gildi einnig um annmarka á skilabærni samstæðu. Á það meðal annars við um þær aðgerðir sem heimilt er að grípa til skv. 3. mgr. greinarinnar ásamt því að fresta skal gerð skilaáætlunar samstæðu ef verulegir annmarkar eru á skilabærni hennar að mati skilavaldsins. Í málsgreininni er einnig vísað til ákvæðis 16. gr. frumvarpsins um málsmeðferð vegna annmarka á skilabærni samstæðu. Ákvæði 16. gr. gilda þó einungis um samstæðu með starfsemi yfir landamæri og því skal málsmeðferð grundvallast á þessari grein þegar samstæða er einungis með starfsemi hér á landi.

Um 16. gr.

    Greinin er innleiðing 18. gr. tilskipunarinnar og mælir fyrir um heimildir til að bregðast við annmörkum á skilabærni þegar um samstæðu er að ræða með starfsemi í fleiri en einu aðildarríki. Ákvæðið útvíkkar heimildir skilavaldsins sem skal taka ákvörðun um skilabærni samstæðu í heild í samstarfi og að undangengnu samráði við lögbær stjórnvöld í ríkjum þar sem samstæðan er með starfsemi.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 2. mgr. 18. gr. tilskipunarinnar og kveður á um að skilavaldið skuli semja skýrslu ef fram kemur við mat á skilabærni skv. 15. gr. að verulegir annmarkar séu á skilabærni samstæðu. Skýrsluna skal semja í samstarfi við Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina að undangengnu samráði við lögbær stjórnvöld. Með hugtakinu „lögbær stjórnvöld“ er átt við viðeigandi stjórnvöld sem haft hefur verið samráð við þegar skilabærni skv. 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins er metin. Skýrsluna skal svo afhenda móðurfélagi og lögbærum skilavöldum í ríkjum þar sem samstæðan hefur starfsemi.
     Um 2. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing á hluta 2. mgr. 18. gr. tilskipunarinnar, er kveðið á um efni skýrslunnar sem skal semja á grundvelli 1. mgr. Tilmæli skýrslunnar skulu vera markviss og ekki ganga lengra en nauðsynlegt er svo að samstæðan geti komið þeim til framkvæmda.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. og hluta 4. mgr. 18. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að móðurfélagið getur gert athugasemdir við efni skýrslunnar og lagt til að gripið verði til annarra aðgerða en þeirra sem fram koma í skýrslunni. Athugasemdir og tillögur móðurfélagsins skulu berast innan fjögurra mánaða frá því að það tekur við skýrslunni. Skilavaldið áframsendir svo athugasemdir móðurfélagsins til lögbærra stjórnvalda.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu kemur fram að skilavaldið hafi fjóra mánuði til að taka sameiginlega ákvörðun með lögbærum stjórnvöldum frá tilkynningu þess til viðeigandi stjórnvalda. Af ákvæðinu leiðir einnig að berist engar athugasemdir eða tillögur frá móðurfélaginu hefst fjögurra mánaða tímabil þar sem skilavaldið leitast við að ná sameiginlegri ákvörðun með lögbærum stjórnvöldum. Fjögurra mánaða tímabilið hefst þegar hinn fjögurra mánaða frestur sem móðurfélagið hefur til að koma að athugasemdum og tillögum er liðinn. Sameiginleg ákvörðun skal taka til viðeigandi aðgerða sem hægt er að grípa til skv. 2. og 3. mgr. 15. gr., þ.m.t. tillögur að aðgerðum sem móðurfélagið leggur til skv. 3. mgr. þessarar greinar, ef við á. Leita skal allra leiða til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um tillögur móðurfélagsins og lögbærra stjórnvalda svo að ráða megi bót á annmörkum á skilabærni og skal það gerast innan skilaráðsins skv. 89. gr. Taka skal tillit til þess hvaða afleiðingar tillögurnar geta haft á starfsemina í þeim aðildarríkjum þar sem samstæðan er starfandi.
     Um 5. mgr. Af málsgreininni, sem er innleiðing 6. og 8. mgr. 18. gr. tilskipunarinnar, leiðir að skilavaldið skal taka sjálfstæða ákvörðun um aðgerðir ef ekki næst sameiginleg niðurstaða innan tímamarka skv. 4. mgr. Við slíka ákvörðun skal, eftir því sem unnt er, taka tillit til þess mats sem lögbær stjórnvöld hafa komið með í ferli sameiginlegrar ákvarðanatöku. Af ákvæðinu má einnig ráða hvernig leysa skal úr ágreiningi milli stjórnvalda ef þar til bært stjórnvald hefur vísað málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Varðandi nánari skýringar á því ferli vísast m.a. til skýringa á 6. og 7. mgr. 10. gr. um skilaáætlun samstæðu.
     Um 6. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing 7. mgr. 18. gr. tilskipunarinnar, kemur fram að þrátt fyrir að skilavaldið fari ekki með samstæðuskilavald getur það tekið ákvörðun um viðeigandi aðgerðir fyrir einstök dótturfélög sem það fer með skilavald yfir. Með slíkri ákvörðun er gengið út frá því að ekki hafi verið hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu innan fjögurra mánaða tímafrestsins. Ákvörðunin skilavaldsins skal vera rökstudd og taka tillit til sjónarmiða og mats samstæðuskilavalds. Ákvörðunina skal senda til viðeigandi dótturfélaga og samstæðuskilavalds. Ef gripið er til heimildar ákvæðisins er heimilt að grípa til þeirra aðgerða sem móðurfélagið leggur til, aðgerða sem dótturfélag leggur til eða aðgerða sem fram koma í 3. mgr. 15. gr. frumvarpsins.
     Um 7. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing á hluta 4. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar, er kveðið á um áætlun sem móðurfélagi er skylt að gera þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir eru útlistaðar með vísan í kröfur skilavaldsins. Líkt og á við um áætlun sem fyrirtæki skal gera skv. 4. mgr. 15. gr. skal áætlun móðurfélags innihalda upplýsingar um hvernig það hyggst fylgja ákvörðuninni eftir og á hvaða tímabili ef ekki er unnt að koma aðgerðum í framkvæmd þegar í stað.

Um IV. kafla.

    Kaflinn felur í sér innleiðingu á 45. gr. IV. kafla IV. bálks tilskipunarinnar og tekur til lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfra skuldbindinga (e. Minimum Requirement for Own Funds and Eligible Liabilities – MREL). Markmið lágmarkskröfunnar er að fyrirtæki búi yfir nægum skuldbindingum sem hægt er að gefa eftir til þess að mæta tapi og tryggja nægjanlegt eigin fé til grundvallar áframhaldandi rekstri fyrirtækis eða einingar sem tekið verður til skilameðferðar.

Um 17. gr.

    Greinin er innleiðing 1.–6. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar sem fjalla um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (e. Minimum Requirement for Own Funds and Eligible Liabilities – MREL). Ákvæðið snýr að skyldu lánastofnana og verðbréfafyrirtækja til að hafa nægt eigið fé og fjármagna sig að ákveðnu marki með hæfum skuldbindingum. Krafan sem slík felur í sér að fyrirtækin þurfa að hafa eigið fé, þ.e. eiginfjárgrunn, og hæfar skuldbindingar sem uppfylla ákveðin skilyrði, í afmörkuðu hlutfalli af heildarskuldbindingum og eiginfjárgrunni. Skilavaldið ákvarðar hið afmarkaða hlutfall samkvæmt reiknireglu 1. mgr., sem byggist á 1. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu kemur fram að MREL-hæfar skuldbindingar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Þær þurfa fyrst og fremst að teljast til hæfra skuldbindinga, sem ákvarðast af því hvort þær eru eftirgefanlegar eða ekki. Til viðbótar þeim skilyrðum þurfa hæfar skuldbindingar að vera innborgaðar og þær mega ekki vera skuldbindingar gagnvart fyrirtækinu sjálfu eða tryggðar eða á ábyrgð fyrirtækisins. Þær mega ekki heldur hafa verið fjármagnaðar af fyrirtækinu beint eða óbeint. Eftirstöðvatími skuldbindingar skal að lágmarki vera eitt ár, en ef skuldbindingin felur í sér heimild til gjaldfellingar eða rétt til að krefjast endurgreiðslu fyrir samningstíma ber að miða við þá dagsetningu þegar slíkur réttur virkjast. Þá mega skuldbindingar ekki koma til vegna afleiðna, tryggðra innstæðna eða tryggingarhæfra innstæðna örfélaga, lítilla eða meðalstórra félaga, sbr. 1 og 2. tölul. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 6. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu er það skilavaldsins að taka endanlega ákvörðun um nákvæma lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis. Í aðdraganda slíkrar ákvörðunar þarf að hafa samráð við Fjármálaeftirlitið, sbr. 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Ákvörðunin skal tekin með hliðsjón af því að krafan styðji við aðgerðir vegna skilameðferðar fyrirtækis, ef slíkt á við. Ákvörðunin skal einnig tekin með hliðsjón af því að fyrirtækið þarf að hafa nægar hæfar skuldbindingar, komi til beitingar á skilaúrræðinu eftirgjöf, þannig að það búi við fullnægjandi tapþol (e. loss-absorbency) og að hægt verði að endurreisa eiginfjárgrunn þess svo að fyrirtækið uppfylli skilyrði fyrir starfsleyfi. Þá skal ákvörðunin tekin með hliðsjón af stærð fyrirtækis, viðskiptalíkani þess, því hvernig það hagar fjármögnun sinni (þ.e. fjármögnunarlíkani) og áhættusniði. Einnig skal ákvörðun skilavaldsins tekin með hliðsjón af aðkomu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna fjármögnunar skilameðferðar. Að lokum skal ákvörðunin tekin með hliðsjón af áhrifum á fjármálastöðugleika ef fyrirtæki verður ógjaldfært. Þannig skal huga að innbyrðis tengslum (e. interconnectedness) þess við aðrar lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki eða jafnvel aðra hluta fjármálakerfisins, og mögulegum smitáhrifum (e. contagion) milli fyrirtækjanna.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar. Skylt er að undanskilja lánastofnanir sem eingöngu veita lán með veði í fasteign (e. mortgage credit institutions) og eru eingöngu fjármögnuð með útgáfu sértryggðra skuldabréfa frá lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Skilyrðið fyrir slíkri undanþágu er að lánastofnanirnar fari í slitameðferð eða beitt verði skilaúrræðunum sala rekstrar, brúarstofnun eða uppskiptingu eigna, sbr. B-, C- eða D-hluta X. kafla. Ákvæði tilskipunarinnar snýst um að við slitameðferð eða þegar umræddum skilaúrræðum er beitt muni lánardrottnar viðkomandi lánastofnana, þ.e. eigendur sértryggðra skuldabréfa, bera tap með þeim hætti að markmiðum skilameðferðar, sbr. 1. gr. laganna, verði náð.
     Um 5. mgr. Málsgreinin er innleiðing 5. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar. Heimilt er að krefjast þess að fyrirtæki sýni fram á að ákvarðanir þess um niðurfærslu og umbreytingu á skuldbindingum muni ná fram að ganga í ljósi gildandi löggjafar ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í slíkum tilfellum þurfa skilavaldið og viðkomandi fyrirtæki m.a. að huga að samningsskilmálum skuldbindinganna og alþjóðlegum samningum um viðurkenningu á skilameðferð. Telji skilavaldið að ákvörðun um niðurfærslu eða umbreytingu skuldbindingar í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins muni ekki ná fram að ganga samkvæmt löggjöf hlutaðeigandi ríkis skal undanskilja skuldbindinguna við útreikning á lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar.
     Um 6. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu skal Seðlabankinn setja reglur sem kveða nánar á um aðferðafræði og viðmið vegna ákvörðunar um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Reglum Seðlabankans er ætlað að innleiða reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2016/1450.

Um 18. gr.

    Greinin er innleiðing 7. og 8. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni.
     Um 1. mgr. Á grundvelli ákvæðisins er lánastofnunum, verðbréfafyrirtækjum og eignarhaldsfélögum með staðfestu hér á landi skylt að uppfylla lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni, ef þau teljast til móðurfélaga í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu. Sú krafa kemur til viðbótar kröfu samkvæmt ákvæðum 17. gr. og er ákveðin af skilavaldinu samhliða ákvörðun um lágmarkskröfu á einingargrunni.
     Um 2. mgr. Ákvæðið hefur að geyma heimild til að krefjast þess að fjármálastofnanir, skv. b-lið 2. gr., og eignarhaldsfélög uppfylli lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á einingargrunni. Þótt almenna reglan sé sú að lágmarkskrafan eigi eingöngu við um lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki á einingargrunni, og að fjármálastofnanir og eignarhaldsfélög geti þurft að uppfylla hana á samstæðugrunni, er mögulegt að fjármálastofnanir og eignarhaldsfélög kunni einnig að þurfa að uppfylla kröfuna á einingargrunni. Við slíkt mat skal meðal annars taka mið af 3. mgr. 17. gr.
     Um 3. mgr. Í ákvæðinu segir að skilavaldið taki ákvörðun um lágmarkskröfuna á samstæðugrunni með hliðsjón af atriðum 3. mgr. 17. gr. og að höfðu samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvald líkt og kveðið er á um í 19. gr. Séu dótturfélög samstæðu staðsett í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins þarf skilavaldið að taka mið af því hvort skilaáætlun fyrir að þau lúti sérstakri skilameðferð.

Um 19. gr.

    Með greininni eru innleiddar 9. og 10. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar um ákvarðanir hvað varðar lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á samstæðugrunni og sameiginlegar ákvarðanir með skilastjórnvöldum annarra ríkja.
     Um 1. mgr. Kveðið er á um þá skyldu að leitast við að taka ákvarðanir um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar með skilastjórnvöldum í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þegar skilavaldið telst samstæðuskilavald er því skylt að taka ákvarðanir fyrir samstæðuna. Skilavaldið skal jafnframt tilkynna móðurfélaginu, sem skylt er að uppfylla lágmarkskröfuna á samstæðugrunni, hver sú krafa er fyrir samstæðuna í heild og rökstuðning fyrir henni. Ef upp kemur ágreiningur við önnur skilastjórnvöld reynir á 2. –5. mgr. greinarinnar.
     Um 2. mgr. Af ákvæðinu leiðir að ef reynt hefur verið í fjóra mánuði að komast að sameiginlegri niðurstöðu með öðrum skilastjórnvöldum án árangurs skal Skilvaldið taka ákvörðun um hver lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar verður fyrir samstæðuna, að teknu tilliti til mats annarra skilastjórnvalda. Samhliða því getur skilavaldið sem og önnur skilastjórnvöld skotið málinu og ágreiningnum til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, eða eftir atvikum Eftirlitsstofnunar EFTA, í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, til að fá fram bindandi niðurstöðu frá evrópsku eftirlitsstofnunum vegna ágreiningsins. Sé málinu ekki vísað áfram stendur ákvörðun Skilvaldsins fyrir samstæðuna í heild.
     Um 3. mgr. Í ákvæðinu eru nefnd tilvik þegar skilastjórnvald einhvers dótturfélags sem tilheyrir samstæðunni hefur skotið málinu til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, eða eftir atvikum Eftirlitsstofnunar EFTA, í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Í slíkum málum ber skilavaldinu að fresta ákvörðun sinni og bíða þar til ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA liggur fyrir. Ákvörðunin skal vera í samræmi við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA. Ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA skal í þessu sambandi tekin innan eins mánaðar. Liggi ákvörðunin ekki fyrir innan þess tíma gildir ákvörðun skilavaldsins fyrir samstæðuna. Ekki er hægt að vísa máli til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA eftir að fjögurra mánaða tímabilinu, sem fjallað er um í 2. mgr. ákvæðisins, lýkur eða eftir að sameiginleg ákvörðun hefur verið tekin.
     Um 4. mgr. Í ákvæðinu eru nefnd tilvik þegar skilavaldið þarf að taka ákvarðanir sem skilastjórnvald dótturfélags sem tilheyrir móðurfélagi erlendis og lýtur skilastjórnvaldi annars ríkis. Málsmeðferð í slíkum málum er í stórum dráttum eins og málsmeðferðin samkvæmt 1.–3. mgr. ákvæðisins. Skilavaldinu ber því ávallt að taka ákvarðanir um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar þess fyrirtækis sem tilheyrir samstæðu skv. 1. mgr. 18. gr., ef það hefur staðfestu hér á landi. Skiptir í þeim efnum ekki máli hvort skilavaldið sé skilastjórnvald á samstæðugrunni eða ekki. Ákvörðun vegna dótturfélags þarf jafnframt ávallt að vera tekin með tilliti til ákvarðana annarra skilastjórnvalda. Líkt og gildir um ákvörðun vegna lágmarkskröfu móðurfélags innan samstæðu kann það þó að fresta áhrifum ákvörðunarinnar ef ágreiningi er vísað til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, eða eftir atvikum Eftirlitsstofnunar EFTA.
     Um 5. mgr. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að vísa ágreiningsmálum til Eftirlitsstofnunar EFTA að því er varðar ákvarðanir varðandi lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Sú heimild byggist á 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, ásamt ákvæðum 9. og 10. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar. Á þessari heimild eru þó þau takmörk að ekki er hægt að vísa málum til Eftirlitsstofnunar EFTA sé munur á milli ákvarðana skilastjórnvaldanna innan við eitt prósentustig.
     Um 6. mgr. Samkvæmt ákvæðinu skal reglulega endurskoða ákvarðanir samkvæmt greininni og uppfæra þær þegar við á. Þessari skyldu er ætlað að tryggja að ákvarðanir taki mið af stöðu á hverjum tíma og af breytingum sem orðið geta.

Um 20. gr.

    Greinin er innleiðing 11. og 12. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar um undanþágur frá lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á einingargrunni vegna fyrirtækja sem tilheyra samstæðum. Gert er ráð fyrir tvenns konar undanþágum. Sú fyrri, sem kveðið er á um í 1. mgr., nær til lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og gerir ráð fyrir að ef fyrirtæki uppfyllir lágmarkskröfuna á samstæðugrunni og hafi þegar fengið heimild til að uppfylla eiginfjárkröfur eingöngu á samstæðugrunni þá sé heimilt að veita fyrirtækinu sambærilega heimild vegna lágmarkskröfunnar. Síðari undanþágan, sbr. 2. mgr., er bundin ítarlegum skilyrðum og nær eingöngu til dótturfélaga sem eru eftirlitsskyld og hafa starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu.

Um 21. gr.

    Greinin er innleiðing 13. og 14. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar um gerninga um samningsbundna eftirgjöf (e. contractual bail-in instruments).
     Um 1. mgr. Heimilt er að ákveða að hluta lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar viðeigandi fyrirtækja, hvort heldur sem er á samstæðugrunni eða einingargrunni, verði mætt með gerningum sem kveðið er á um í greininni.
     Um 2. mgr. Í ákvæðinu koma fyrir þau skilyrði sem gerningar um samningsbundna eftirgjöf þurfa að uppfylla. Fyrra skilyrðið er að í skilmálum slíkra gerninga þurfi að vera skýrt að ef skilavaldið ákveður að gefa þurfi eftir hluta af skuldbindingum fyrirtækis verði umræddur gerningur færður niður eða honum umbreytt á undan öðrum hæfum skuldbindingum. Síðara skilyrðið er að um gerninginn gildi bindandi samningur (e. agreement), bindandi samkomulag (e. undertaking) eða bindandi ákvæði (e. provision) sem felur í sér undirskipan (e. subordination) gerningsins, þ.e. að hann er víkjandi og aftar í forgangsröð en aðrar hæfar skuldbindingar. Gerningurinn verður því ekki endurgreiddur fyrr en aðrar hæfar skuldbindingar, sem eru útistandandi á þeim tíma, hafa verið gerðar upp.

Um 22. gr.

    Greinin er innleiðing 15.–17. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar og kveður meðal annars á um eftirlitsstarfsemi skilavaldsins.
     Um 1. mgr. Í ákvæðinu kemur fram að skilavaldið skuli taka ákvarðanir varðandi lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar samhliða því að það muni til framtíðar litið vinna að gerð skilaáætlana og þróun þeirra auk þess sem þeim verði reglubundið haldið við.
     Um 2. mgr. Í ákvæðinu felst upplýsingaskylda skilavaldsins gagnvart Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni varðandi lágmarkskröfuna, en sú skylda er afmörkuð nánar í framkvæmdarreglugerð (ESB) 2018/308 sem innleidd verður með reglum Seðlabankans, sbr. 3. mgr. Í henni verður m.a. kveðið á um hvaða form og eyðublöð skuli notast við vegna upplýsingagjafarinnar auk skilgreininga á hugtökum.

Um V. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um ýmsar aðgerðir sem bæði er ætlað að hafa fyrirbyggjandi áhrif og undirbúa skilameðferð. Hinn 7. júní 2019 var birt í Stjórnartíðindum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2019/879/ESB um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB. Kveðið er á um ýmsar breytingar í þeirri tilskipun og þar á meðal eru breytingar á 55. gr. tilskipunarinnar, sem sætt hefur nokkurri gagnrýni, en lagt er til að sú grein verði innleidd í 23. gr. frumvarpsins. Ekki ber að túlka þá grein rýmra en efni standa til með hliðsjón af þeim breytingum sem kveðið er á um í tilskipun 2019/879/ESB.
    Einnig er vert að nefna að ákvæði 25. gr. frumvarpsins bættist við lög um fjármálafyrirtæki með gildistöku laga nr. 54/2018. Líkt og fram kemur í skýringum við þá grein er lagt til að greinin verði flutt úr lögum um fjármálafyrirtæki í ný heildarlög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem kveðið er á um í þessu frumvarpi.

Um 23. gr.

    Greinin er innleiðing 55. gr. tilskipunarinnar um samningsskilmála í samningum fyrirtækis eða einingar enda geti viðkomandi samningur varðað skuldbindingu sem kann að vera háð niðurfærslu og umbreytingu.
     Um 1. mgr. Sú skylda sem kveðið er á um í málsgreininni og varðar samningsskilmála í samningum fyrirtækja eða eininga gildir bæði um skuldbindingar vegna fjármagnsgerninga sem kunna að vera niðurfærðir eða þeim umbreytt á grundvelli VI. kafla og um skuldbindingar sem kunna að vera niðurfærðar eða umbreytt við eftirgjöf skv. 54. og 55. gr. E-hluta X. kafla. Ákvæðið tekur einungis til samninga sem stofnað er til eftir gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt óbreytt.
     Um 2. mgr. Kveðið er á um takmarkanir á skyldu skv. 1. mgr. greinarinnar. Ef skuldbinding er undanþegin eftirgjöf er hún ekki háð niðurfærslu og umbreytingu og því ekki ástæða til að samningar sem varða þess háttar skuldbindingar kveði á um samningsskilmála um mögulega niðurfærslu eða umbreytingu, sbr. 1. tölul. ákvæðisins. Þá er ekki nauðsynlegt að samningar innihaldi samningsskilmála ef skilavaldið getur niðurfært eða umbreytt fjármagnsgerningum og öðrum skuldbindingum við eftirgjöf í samræmi við lög í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða á grundvelli bindandi samnings við viðkomandi ríki, sbr. 3. tölul. ákvæðisins.
     Um 3. mgr. Í ákvæðinu felst heimild til að krefjast lögfræðiálits á skuldbindingargildi samningsskilmála gagnvart gagnaðila. Með hugtakinu skuldbindingargildi er átt við bæði bindandi áhrif og heimild til fullnustu (e. enforcement) í samræmi við samningsskilmálann. Með heimild ákvæðisins um lögfræðiálit getur Skilvaldið tryggt sig fyrir því að samningsskilmáli sé lagalega bindandi fyrir gagnaðila fyrirtækis eða einingar.
     Um 4. mgr. Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.
     Um 5. mgr. Kveðið er á um að Seðlabankinn setji reglur til innleiðingar á þeirri undirgerð tilskipunarinnar sem varðar efni greinarinnar. Í V. kafla framseldrar reglugerðar (ESB) nr. 2016/1075 er fjallað um þessi atriði og munreglugerð framkvæmdastjórnar ESB verða innleidd með reglum Seðlabankans.

Um 24. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 2. mgr. 27. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að heimilt er að krefjast þess að fyrirtæki hafi samband við hugsanlega kaupendur með það að markmiði að þeir gætu eignast hluta eða alla starfsemi fyrirtækis, til dæmis í gegnum skilaúrræðið sala rekstrar skv. B-hluta X. kafla frumvarpsins, ef fyrirtæki yrði tekið til skilameðferðar. Fyrirmæli skilavaldsins til fyrirtækisins sem hefur svo samband við mögulega kaupendur geta einungis komið til eftir að það hefur móttekið upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu um að aðstæður vegna tímanlegra inngripa samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki séu fyrir hendi. Brýnt er að mögulegir kaupendur séu upplýstir eins fljótt og auðið er eigi þeir að hafa tíma til að kanna viðkomandi fyrirtæki og starfsemi þess svo að þeir séu í stakk búnir til að leggja fram tilboð í opnu söluferli við sölu rekstrar.

Um 25. gr.

    Greinin er innleiðing 8. mgr. 5. gr., 8. mgr. 10. gr. og 7. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar sem kveða á um skrá yfir fjárhagslega samninga (e. financial contracts). Hugtakið „fjárhagslegur samningur“ er skilgreint í 15. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Efnislega samhljóða ákvæði var lögfest sem 82. gr. g með lögum nr. 54/2018, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, að undanskilinni lokamálsgrein greinarinnar. Í tilskipuninni er kveðið á um skyldu fyrirtækja og eininga til að afhenda því stjórnvaldi sem fer með undirbúning og framkvæmd skilameðferðar upplýsingar úr skrá yfir fjárhagslega samninga. Í tilskipuninni er einnig að finna heimildarákvæði um að aðildarríki geti kveðið á um að eftirlitsstjórnvöldum verði einnig afhentar þessar upplýsingar. Ekki þykir nauðsynlegt að heimild þessi sé í tvennum lögum og er því lagt til að ákvæðið verði fært úr lögum um fjármálafyrirtæki í lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, verði þetta frumvarp að lögum, enda hefur það meiri þýðingu hvað varðar efnisákvæði þess. Með öðrum orðum, verði frumvarpið samþykkt óbreytt fellur 82. gr. g laga um fjármálafyrirtæki brott, sbr. breyting sem lögð er til í f-lið 1. tölul. 103. gr. frumvarpsins.
     Um 1. mgr. Í ákvæðinu er þess krafist að lánastofnanir haldi sérstaka skrá þar sem tilgreindar eru viðeigandi upplýsingar um alla þá fjárhagslegu samninga sem viðkomandi lánastofnun hefur stofnað til og eru í gildi. Slíkar skrár skulu vera aðgengilegar í viðeigandi kerfum sem tryggja að hægt sé að óska m.a. eftir upplýsingum um efni, tegund og aðila samninga með skömmum fyrirvara.
     Um 2. mgr. Í ákvæðinu er heimild til að krefjast þess að verðbréfafyrirtæki eða einingar skv. b–d-lið 2. gr. frumvarpsins haldi skrá um þá fjárhagslegu samninga sem þau eru aðilar að. Þessi heimild á m.a. við ef fyrirtæki eða eining er hluti af samstæðu og nauðsynlegt er að mati skilavaldsins að fyrirtæki eða eining haldi slíka skrá vegna stærðar fyrirtækisins, einingarinnar eða samstæðunnar, mögulegra smitáhrifa á viðkomandi fyrirtæki eða einingu vegna versnandi fjárhagsstöðu annarra aðila, mögulegra áhrifa á viðskiptavini eða af öðrum ástæðum. Getur slíkt einnig átt við ef skilavaldið metur það svo að fjöldi fjármálasamninga eða umfang þeirra hjá fyrirtækinu eða einingunni sé með þeim hætti að nauðsynlegt sé að slík skrá liggi fyrir.
     Um 3. mgr. Ákvæðið snýr að afhendignu upplýsinga úr skrá yfir fjárhagslega samninga. Líklegt þykir að þess verði krafist að viðkomandi lánastofnun, verðbréfafyrirtæki eða aðrar einingar er undir ákvæðið falla afhendi upplýsingar úr skránni eftir að endurbótaáætlun skv. IX. kafla A laga um fjármálafyrirtæki hefur verið virkjuð. Þegar svo háttar til getur því verið nauðsynlegt að grípa til viðeigandi ráðstafana innan skamms tíma og því er talið nauðsynlegt að upplýsingarnar geti borist skilavaldinu innan 24 tíma, sé tilefni til. Um er að ræða sama frest og Danir lögðu til við innleiðingu sömu ákvæða tilskipunarinnar í 245. gr. a dönsku laganna um fjármálastarfsemi. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um það að Fjármálaeftirlitið skuli hafa aðgang að upplýsingum sem aflað er samkvæmt þessari grein. Vegna takmarkana á flæði upplýsinga frá skilavaldinu innan Seðlabankans, vegna verkefna þess samkvæmt frumvarpinu, þykir rétt að kveða á um aðgang Fjármálaeftirlitsins að gögnunum.
     Um 4. mgr. Seðlabankinn skal setja reglur þar sem nánar er kveðið á um þær upplýsingar sem þurfa að lágmarki að koma fram í skrá er heldur utan um upplýsingar um samningsaðilann og efni viðkomandi samnings. Með reglunum verður innleidd framseld reglugerð (ESB) nr. 2016/1712. Fyrirtækjum er heimilt að vera með ítarlegri skráningu slíkra samninga.

Um 26. gr.

    Greinin er innleiðing 54. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt greininni er lagt til að heimilt verði að krefja fyrirtæki eða einingu um að breyta samþykktum sínum í tengslum við gerð skilaáætlunar þannig að þær kveði á um heimild til að hækka eða lækka hlutafé. Ákvæði 2. mgr. er nánari útfærsla á 1. mgr. ákvæðisins þar sem heimilt er að krefjast þess að fyrirtæki bæti inn í samþykktir sínar heimild til að gefa út hlutafé eða aðra eignarhluti sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1 til að tryggja að unnt verði að framkvæma umbreytingu skuldbindinga í eignarhluti með skilvirkum hætti. Útgefið hlutafé eða aðrir gerningar sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1 skulu vera fullnægjandi til að ná yfir samtölu fjárhæða skv. 2. og 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. frumvarpsins.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum eru ákvæði V. kafla IV. bálks tilskipunarinnar innleidd en þau taka til niðurfærslu og umbreytingar fjármagnsgerninga. Niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga er sjálfstætt úrræði sem getur meðal annars haft þann tilgang að komast hjá skilameðferð fyrirtækis eða einingar. Ákvæði kaflans gilda um fjármagnsgerninga, sbr. 84. gr. a – 84. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. einnig skilgreiningu á „viðeigandi fjármagnsgerningi“ í 35. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Ekki eru jafnríkar kröfur gerðar fyrir beitingu ákvæða kaflans og gerðar eru um skilaúrræði þar sem ekki er farið fram á mat á nauðsyn vegna almannahagsmuna áður en fjármagnsgerningar eru niðurfærðir eða þeim umbreytt. Samspil er á milli ákvæða kaflans og skilaúrræða þar sem áskilið er að fjármagnsgerningar verði niðurfærðir eða þeim umbreytt samkvæmt ákvæðum kaflans áður eða samhliða því að gripið er til skilaúrræðis sem mun valda lánardrottnum fyrirtækis eða einingar tapi eða að kröfum þeirra yrði umbreytt, sbr. 39. gr. Eftirgjöf samkvæmt E-hluta X. kafla, þar sem einnig er kveðið á um heimildir til niðurfærslu og umbreytingar, tekur til allra skuldbindinga fyrirtækis eða einingar, sem ekki eru sérstaklega undanskildar samkvæmt þeim kafla og hefur því víðtækara gildissvið en niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga samkvæmt þessum kafla.

Um 27. gr.

    Greinin er innleiðing 59. og 61. gr. tilskipunarinnar og kveður á um skilyrði og ákvörðun um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga. Með hugtakinu fjármagnsgerningur er átt við gerning sem telst til almenns eigin fjár þáttar 1 skv. 84. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, gerning sem telst til viðbótar eigin fjár þáttar 1 skv. 84. gr. b og gerning, þ.m.t. víkjandi lán, sem telst til þáttar 2 skv. 84. gr. c sömu laga. Inntak hugtaksins „viðeigandi fjármagnsgerningur“ er þrengra en „fjármagnsgerningur“ þar sem það tekur einungis til gerninga sem teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 og þáttar 2, sbr. 35. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Greinin tekur til niðurfærslu og umbreytingar hjá lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum og einingum innan samstæðu, enda hafi gerningar verið gefnir út til að uppfylla kröfur um eiginfjárgrunn samstæðu. Greinin gildir því hvort sem skilavaldið fer með samstæðuskilavald, og þar af leiðandi framkvæmd skilameðferðar á móðurfélagi og fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu, eða þegar skilavaldið fer með framkvæmd skilameðferðar á einingargrunni gagnvart ákveðnum fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu með staðfestu hér á landi.
     Um 1. mgr. Í málsgreininni felst innleiðing 2. og 3. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Þar að auki eru ákvæði 61. gr. tilskipunarinnar innleidd með skýringum við ákvæðið. Kveðið er á um skyldu skilavaldsins til að niðurfæra eða umbreyta fjármagnsgerningum við ákveðnar aðstæður. Ákvæðið snýr bæði að niðurfærslu sem getur verið að hluta eða með þeim hætti að hún standi í núlli og umbreytingu fjármagnsgerninga í almennt eigið fé þáttar 1, þ.m.t. hlutafé. Í ákvæðinu er tilgreint í fimm töluliðum þau tilvik sem réttlæta það að fjármagnsgerningar séu niðurfærðir eða þeim umbreytt. Fleiri en eitt af þeim tilvikum sem tilgreind eru í ákvæðinu geta verið fyrir hendi á sama tíma en sammerkt er með þeim flestum að Fjármálaeftirlitið og eftir atvikum önnur lögbær stjórnvöld meta það svo að fyrirtæki, eining eða samstæða reynist ekki vera rekstarhæf nema gripið verði til niðurfærslu eða umbreytingar fjármagnsgerninga. Rætt er um lögbært stjórnvald í ákvæðinu þar sem aðildarríkin geta valið hjá hvaða stjórnvaldi, þ.e. eftirlitsstjórnvaldi eða skilastjórnvaldi, ákvörðun um beitingu úrræðisins liggur. Það getur því komið í hlut skilavaldsins að sjá um niðurfærslu eða umbreytingu þegar ákvörðun hefur verið tekin í samstarfi við önnur lögbær stjórnvöld.
     Um 1. tölul. Töluliðurinn er innleiðing a-liðar 3. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Bæði skilyrði ákvæðisins þurfa að vera uppfyllt svo að skylda til að niðurfæra eða umbreyta fjármagnsgerningum virkjist.
     Um 2. tölul. Töluliðurinn er innleiðing b-liðar 3. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Fjármálaeftirlitið er það stjórnvald hér á landi sem tekur ákvörðun um rekstrarhæfi viðkomandi fyrirtækis eða einingar. Ákvæðið gildir þegar viðeigandi fjármagnsgerningar eru gefnir út á bæði einingargrunni og samstæðugrunni. Þegar viðeigandi fjármagnsgerningar sem útgefnir eru af fyrirtæki eða einingu, sem er dótturfélag í þeim tilgangi að uppfylla kröfur um eiginfjárgrunn þess og samstæðu, er Fjármálaeftirlitið eftirlitsstjórnvald enda sé viðkomandi fyrirtæki eða eining með starfsleyfi hér á landi og hafi útgefið þá fjármagnsgerninga sem til greina kemur að niðurfæra eða umbreyta.
     Um 3. tölul. Töluliðurinn er innleiðing c-liðar 3. mgr. og 9. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Með lögbæru stjórnvaldi í ákvæðinu er átt við það stjórnvald í aðildarríki þar sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni er staðsettur eða stjórnvald í aðildarríki þar sem fyrirtæki eða eining er með starfsleyfi enda hafi fyrirtækið eða einingin gefið út þá fjármagnsgerninga sem til greina kemur að niðurfæra eða umbreyta. Fjármálaeftirlitið er því eðli málsins samkvæmt annað hvort eftirlitsaðili á samstæðugrunni eða eftirlitsstjórnvald fyrirtækis sem hefur gefið út fjármagnsgerninga. Ákvörðun sem tekin er samkvæmt þessum tölulið skal grundvallast á málsmeðferðarreglum skv. 29. gr.
     Um 4. tölul. Töluliðurinn er innleiðing d-liðar 3. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Skilavaldið getur tekið ákvörðun um niðurfærslu og umbreytingu ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsaðili á samstæðugrunni og það er mat þess að samstæða verði ekki áfram rekstrarhæf nema gripið verði til niðurfærslu eða umbreytingar fjármagnsgerninga. Fjármálaeftirlitið skal viðhafa samráð við önnur lögbær stjórnvöld, sbr. 29. gr., en er ekki bundið af sameiginlegri ákvörðun enda eru fjármagnsgerningar sem ákvæðið gildir um útgefnir á einingargrunni af móðurfélagi eða á samstæðugrunni en ekki af dótturfélagi líkt og á við skv. 3. tölul. ákvæðisins.
     Um 5. tölul. Töluliðurinn er innleiðing e-liðar 3. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Ef fyrirtæki eða eining hefur óskað eftir sérstökum opinberum fjárstuðningi án þess að þær takmarkanir sem um getur í 2. tölul. c-liðar 2. tölul. 3. gr. eigi við skal niðurfæra eða umbreyta fjármagnsgerningum. Hugtakið „sérstakur opinber fjárstuðningur“ er skilgreint í 29. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Í málsgreininni felst innleiðing 1. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að heimildinni til að niðurfæra og umbreyta fjármagnsgerningum má beita óháð skilaúrræðum eða samhliða þeim þegar skilyrði skilameðferðar eru uppfyllt. Ef skilyrði skilameðferðar eru uppfyllt gagnvart fyrirtæki eða einingu og skilavaldið ákveður að beita skilaúrræðum gagnvart fyrirtækinu eða einingunni skal þó fyrst beita ákvæði 1. mgr. þessarar greinar. Hvað varðar samspil milli niðurfærslu og umbreytingar á annars vegar fjármagnsgerningum samkvæmt þessari grein og hins vegar með eftirgjöf skv. 54. og 55. gr., sbr. E-hluta X. kafla frumvarpsins, skal niðurfærsla og umbreyting samkvæmt þessari grein ávallt eiga sér stað áður eða á sama tíma og eftirgjöf, sbr. 39. gr. Framkvæmd á skilaúrræðinu eftirgjöf gerir þannig ráð fyrir að allir fjármagnsgerningar, þ.m.t. víkjandi lán í þætti 2, sbr. 84. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, hafi verið niðurfærðir að fullu eða umbreytt í almennt eigið fé þáttar 1. Eftirgjöf skv. 54. og 55. gr. frumvarpsins er niðurfærsla og umbreyting á skuldbindingum sem ekki hafa verið færðar niður eða umbreytt samkvæmt þessari grein, að teknu tilliti til þess að skuldbindingin sé ekki undanþegin eftirgjöf skv. 56. gr. frumvarpsins.
     Um 3. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing 4.–6. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar, er kveðið á um þau skilyrði sem skulu vera fyrir hendi til að fyrirtæki, eining eða samstæða teljist ekki rekstrarhæf.
     Um 1. tölul. Í töluliðnum felst innleiðing a-liðar 4. mgr. og 5. og 6. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Fyrirtæki eða eining telst á fallanda fæti ef eitt þeirra þriggja atriða sem eru tilgreind í a–c-lið 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins eiga við. Samstæða er á fallanda fæti ef hlutlægir mælikvarðar gefa ekki til kynna að hún verði rekstrarhæf í náinni framtíð. Samstæðan hafi þannig eða sé líkleg til að brjóta gegn varfærniskröfum á samstæðugrunni sökum þess að hún hafi orðið fyrir tapi eða sé líkleg til þess að verða fyrir tapi sem muni tæma allt eða umtalsverðan hluta af eigin fé samstæðunnar. Skilavaldið leggur mat á það hvað eru eðlileg tímamörk í skilningi ákvæðisins.
     Um 2. tölul. Í töluliðnum felst innleiðing b-liðar 4. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Leiði viðræður við einkaaðila til þess að líklegt sé að aðkoma þeirra eða aðrar aðgerðir, þ.m.t. tímanleg inngrip Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, séu nægjanlegar skal frekar beita þeim aðgerðum en niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga. Þegar litið er til þeirra rekstrarerfiðleika sem fyrirtæki, eining eða samstæða stendur frammi fyrir á þessum tímapunkti er líklegt að á meðal annarra aðgerða sem kveðið er á um í ákvæðinu felist aðgerð um umbreytingu á hluta af fjármagnsgerningum í almennt eigið fé þáttar 1.
     Um 4. mgr. Af málsgreininni, sem er innleiðing 10. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar, leiðir að niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga skal grundvallast á mati á eignum og skuldbindingum samkvæmt ákvæðum 30. og 31. gr. VII. kafla frumvarpsins. Virðismatið skal vera óháð, sanngjarnt, varfærið og raunhæft og skal skilavaldið tryggja að matið fari fram. Nánari umfjöllun um þær reglur sem gilda um mat á eignum og skuldbindingum koma fram í VII. kafla.
     Um 5. mgr. Af málsgreininni, sem er innleiðing 7. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar, leiðir að viðeigandi fjármagnsgerninga dótturfélags má einungis niðurfæra eða umbreyta að sama umfangi og viðeigandi fjármagnsgerninga móðurfélags sem hafa sömu stöðu í forgangsröð við rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Þetta skal þó ekki hafa þau áhrif að niðurfærsla og umbreyting á fjármagnsgerningum dótturfélags takmarkist við fjármagnsgerninga í sömu stöðu hjá móðurfélagi. Niðurfærsla og umbreyting á fjármagnsgerningum dótturfélags getur því haldið áfram þrátt fyrir að allir fjármagnsgerningar móðurfélags hafi verið niðurfærðir eða þeim umbreytt. Framangreint hefur þó ekki áhrif á þá meginreglu sem ávallt skal gilda um að lánardrottnar skulu ekki fá minna í sinn hlut en ef fyrirtækið eða einingin hefði farið í slitameðferð eða gjaldþrotaskipti (e. no creditor worse off principle)
     Um 6. mgr. Í málsgreininni felst innleiðing 8. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar þar sem kveðið er á um tilkynningarskyldu skilavaldsins til annarra skilastjórnvalda.

Um 28. gr.

    Með greininni er 60. gr. tilskipunarinnar innleidd. Greinin kveður á um framkvæmd niðurfærslu og umbreytingar fjármagnsgerninga. Framkvæmdin grundvallast á virðismati, sbr. 4. mgr. 27. gr., og skal ekki hafa áhrif á rétt félagsaðila og lánardrottna til skaðabóta skv. 80. gr. ef endanlegt virðismat skv. 32. gr. leiðir til þess að kröfur þeirra hafi fengið verri meðferð en ef fyrirtæki eða eining hefði verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta.
     Um 1. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing 1. mgr. 60. gr. tilskipunarinnar, er kveðið á um það í hvaða röð niðurfærsla og umbreyting skuli fara fram. Í ákvæðinu er vísað til þess að taka skuli mið af meginreglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, þ.m.t. XVII. kafla þeirra laga, og XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Við beitingu á þeim reglum skal niðurfærsla og umbreyting fara fram í þeirri röð sem fram kemur í 1.–3 tölul. ákvæðisins. Röðin kveður á um að almennt eigið fé þáttar 1 skuli niðurfært að fullu, sbr. 1. tölul., áður en viðeigandi fjármagnsgerningar, þ.e. viðbótar eigið fé þáttar 1 og þáttur 2, eru niðurfærðir eða þeim umbreytt. Að sama skapi skal viðbótar eigið fé þáttar 1 niðurfært að fullu, sbr. 2. tölul., áður en hægt er að niðurfæra eða umbreyta gerningum í þætti 2, sbr. 3. tölul.
     Um 2. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing 2. mgr. 60. gr. tilskipunarinnar, er kveðið á um réttaráhrif niðurfærslu fjármagnsgerninga.
     Um 1. tölul. Niðurfærsla fjármagnsgerninga á grundvelli 27. gr. telst endanleg og þar af leiðandi er lækkun á höfuðstól gerninga varanleg. Ef niðurfærsla fjármagnsgerninga hefur grundvallast á bráðabirgðavirðismati skv. 31. gr. og umfang niðurfærslu reynist meira en það hefði átt að vera á grundvelli virðismats sem fer fram skv. 30. gr., sbr. 3. mgr. 31. gr., er heimilt að uppfæra hlutafjáreign félagsaðila og síðan kröfur lánardrottna að því marki sem nauðsynlegt er, sbr. 3. mgr. 55. gr.
     Um 2. tölul. Niðurfærsla fjármagnsgerninga er endanleg, sbr. 1. tölul., og þar af leiðandi stofnast ekki skuldbinding gagnvart eiganda gernings sem hefur verið niðurfærður. Kveðið er á um takmarkanir hvað þetta varðar ef skuldbinding er áfallin, t.d. vextir eða skaðabætur sem hafa verið dæmdar, eða skaðabætur hafa verið dæmdar í ágreiningsmáli fyrir dómstólum. Kröfur um áfallna vexti sem ekki hafa verið greiddir í tengslum við niðurfærslu fjármagnsgerninga og dæmdar skaðabætur teljast eftirstæðar kröfur skv. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
     Um 3. tölul. Engar aðrar skaðabætur skal greiða til eigenda viðeigandi fjármagnsgerninga en í þeim tilvikum þar sem viðeigandi fjármagnsgerningum er breytt í almennt eigið fé þáttar 1 og fyrirtækið gefur út slíka gerninga til eigenda viðeigandi fjármagnsgerninga, sbr. 3. mgr. þessarar greinar. Ákvæðið hefur þó ekki áhrif á sjálfstæðan rétt félagsaðila og lánardrottna til skaðabóta ef við á skv. 80. gr. frumvarpsins.
     Um 3. mgr. Í málsgreininni felst innleiðing 3. mgr. 60. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að heimilt er að krefjast þess að fyrirtæki eða eining gefi út almennt eigið fé þáttar 1 til eigenda viðeigandi fjármagnsgerninga og er það forsendan fyrir því að gerningarnir séu gefnir út af hlutaðeigandi fyrirtæki eða einingu, eða ef við á móðurfélagi, og að fengnu samþykki skilavaldsins eða skilastjórnvalds móðurfélagsins. Útgáfa fjármagnsgerninga skal eiga sér stað á undan útgáfu gerninga sem gefnir eru út vegna fjárframlags sem ríkissjóði er heimilt að leggja til samkvæmt XIII. kafla frumvarpsins. Með þessu er ætlað að tryggja að engin útþynning verði vegna fjárframlaga frá ríkissjóði. Skilavaldið ákveður umreikningsgengi á grundvelli virðismats. Þá skal umreikningsgengið vera í samræmi við þær reglur sem kveðið er á um í 64. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir svigrúmi fyrir mismunandi umreikningsgengi fyrir mismunandi fjármagnsgerninga, að teknu tilliti til stöðu krafna í forgangsröð við rétthæð þeirra á hendur þrotabúi. Við mat á ákvörðun á umreikningsgengi er rétt að horfa til viðmiðunarreglna EBA/GL/2017/03 sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út um umreikningsgengi skulda í eigið fé við eftirgjöf með stoð í 4. mgr. 50. gr. tilskipunarinnar. 6
     Um 4. mgr. Málsgreinin byggist á 4. mgr. 60. gr. tilskipunarinnar og þarfnast ekki skýringar.

Um 29. gr.

    Greinin er innleiðing 62. gr. tilskipunarinnar og kveður á um þá málsmeðferð sem gildir við niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga á samstæðugrunni. Greinin gildir þegar skilavaldið fer með samstæðuskilavald og þar af leiðandi framkvæmd skilameðferðar á móðurfélagi og öðrum fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu og þegar skilavaldið fer með framkvæmd skilameðferðar gagnvart ákveðnum fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu. Greinin gildir um ákvarðanatöku skv. 2.–5. tölul. 3. mgr. 27. gr. þegar samstæða er með starfsemi yfir landamæri, sbr. þó 2. tölul. 1. mgr. og 4. mgr. greinarinnar, sem gildir einungis um málsmeðferð niðurfærslu og umbreytingar skv. 3. tölul. 1. mgr. 27. gr.
    Við ákvörðun um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 27. gr. hjá fyrirtæki, einingu eða samstæðu með starfsemi yfir landamæri skal taka mið af áhrifum skilameðferðar í öllum þeim aðildarríkjum þar sem fyrirtæki, eining eða samstæða er með starfsemi.
    Skilavaldið skal tilkynna lögbærum stjórnvöldum þegar til greina kemur að niðurfæra eða umbreyta fjármagnsgerningum. Með lögbærum stjórnvöldum í 1. tölul. 1. mgr. er átt við eftirlitsaðila á samstæðugrunni og ef við á annað stjórnvald í aðildarríkinu þar sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni er staðsettur. Annað stjórnvald en eftirlitsaðili á samstæðugrunni færi þá með framkvæmd niðurfærslu og umbreytingar í aðildarríkinu. Með lögbærum stjórnvöldum í 2. tölul. 1. mgr. er átt við eftirlitsstjórnvald fyrirtækis eða einingar og stjórnvöld í öðrum aðildarríkjum þar sem eftirlitsstjórnvald og eftirlitsaðili á samstæðugrunni eru staðsettir.
    Leggja skal mat á aðrar aðgerðir og hvort þær séu til þess fallnar að geta komið í stað niðurfærslu og umbreytingar skv. 27. gr., sbr. 2. mgr. greinarinnar. Um er að ræða sambærilegar aðgerðir og kveðið er á um í síðari málsl. 2. tölul. 3. mgr. 27. gr. um mat á rekstarhæfi fyrirtækis, einingar eða samstæðu. Skilavaldið skal viðhafa samráð við viðkomandi stjórnvöld um mat á aðgerðum skv. 2. mgr. og ákvörðun um hvort beita eigi aðgerðunum, sbr. 3. mgr.

Um VII. kafla

    Kaflinn er innleiðing á III. kafla og hluta VII. kafla IV. bálks tilskipunarinnar og tekur á mati á eignum og skuldbindingum fyrirtækis eða einingar. Virðismat sem framkvæma skal í samræmi við ákvæði kaflans skal undirbyggja ákvörðun um beitingu og framkvæmd á aðgerðum samkvæmt VI. kafla og skilaaðgerðum, þ.m.t. umfangi niðurfærslu og umbreytingar fjármagnsgerninga skv. VI. kafla og skuldbindinga skv. E-hluta X. kafla frumvarpsins. Heimilt er að framkvæma bráðabirgðavirðismat ef ekki gefst tími til að afla óháðs virðismats. Einnig getur óháð virðismat orðið að bráðabirgðavirðismati ef ekki tekst að uppfylla kröfur óháða virðismatsins áður en ákvarðanir eru teknar. Bráðabirgðavirðismat telst fullnægjandi grundvöllur fyrir ákvarðanatöku en við fyrsta tækifæri skal óháð virðismat þó ávallt fara fram. Endanlegt virðismat skal fara fram eftir að skilaaðgerð hefur komið til framkvæmda. Rétt þykir að nefna að Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur nýlega gefið út handbók um mat á eignum og skuldbindingum. 7

Um 30. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 36. gr. tilskipunarinnar og kveður á um virðismat á eignum og skuldbindingum fyrirtækis eða einingar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að skilavaldið skuli tryggja að virðismat fari fram og skal það gerast áður en ákvörðun er tekin um skilaaðgerðir eða niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga. Virðismatið skal framkvæmt af óháðum aðila en með því er átt við einn eða fleiri aðila sem eru óháðir öllum opinberum stjórnvöldum, þ.m.t. skilavaldinu, og hlutaðeigandi fyrirtæki, einingu eða fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu. Virðismatið skal vera sanngjarnt, varfærið og raunhæft. Útreikningur á virði eigna og skuldbindinga skal fara samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (e. going concern) sem gilda fyrir viðkomandi fyrirtæki eða einingar en þó með þeim hætti að útreikningurinn sé varfærinn, þ.m.t. um vanskil og rýrnun eigna.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3.–4. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er kveðið á um markmið virðismatsins og þá ákvarðanatöku sem það skal undirbyggja. Meginmarkmið virðismatsins er að meta virði eigna og skuldbindinga fyrirtækis, þ.e. lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eða ef við á eininga innan samstæðu. Virðismatið skal liggja fyrir áður en skilaaðgerðum eða niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla frumvarpsins er beitt. Með því er ætlunin að tryggja að hugsanlegt tap á eignum viðkomandi fyrirtækis eða einingar sé að fullu viðurkennt þegar skilaaðgerðir eða niðurfærsla og umbreyting fjármagnsgerninga koma til framkvæmda.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 8. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu skal virðismat fela í sér skiptingu á kröfum í samræmi við rétthæð þeirra, sbr. XVII. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þá skal við virðismat áætla þá meðferð sem ætla má að félagsaðilar og kröfur lánardrottna fái verði viðkomandi fyrirtæki slitið eða einingin tekin til gjaldþrotaskipta á grundvelli framangreindra laga. Virðismatið veitir því fjárhagslegt yfirlit og með hliðsjón af því skal gerð áætlun um fjárhagslega stöðu félagsaðila og lánardrottna við slit eða gjaldþrotaskipti. Slík áætlun hefur engin áhrif á endanlegt virðismat skv. 32. gr. frumvarpsins sem kveður á um meginregluna um að félagsaðilar og lánardrottnar skuli ekki verða fyrir meira tjóni en ef fyrirtæki eða eining hefði verið tekin til slitameðferðar eða gjaldþrotaskipta, sbr. 80. gr. frumvarpsins.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 5. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að í virðismati skuli ekki gera ráð fyrir opinberum fjárstuðningi, þ.m.t. sérstökum opinberum fjárstuðningi, neyðaraðstoð eða lausafjárfyrirgreiðslu frá seðlabanka umfram það sem fellur undir regluleg viðskipti. Hugtakið „sérstakur opinber fjárstuðningur“ er skilgreint í 29. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
     Um 5. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 5. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að taka skal kostnað skilavalds og skilasjóðs með í virðismatið. Undir ákvæðið fellur meðal annars kostnaður vegna starfa óháðs aðila sem framkvæmdi matið, eins eða fleiri, ásamt kostnaði vegna lögfræðiráðgjafar og stjórnsýslu. Þá á skilasjóður rétt á greiðslu vaxta eða þóknunar vegna lána eða ábyrgða sem hann veitir fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, sbr. 2. tölul. ákvæðisins. Í þessu samhengi verður þó að líta til þess að kostnaður af skilameðferð fyrirtækis skal greiðast að því marki sem hægt er við skilameðferðina sjálfa en ekki í gegnum framlög úr skilasjóði.
     Um 6. mgr. Málsgreinin er innleiðing 6. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu eru tilgreindar þær viðbótarupplýsingar sem fylgja skulu virðismati enda um nauðsynlegar upplýsingar að ræða til að gera grein fyrir fjárhagslegri stöðu viðkomandi fyrirtækis eða einingar.
     Um 7. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. og hluta 10. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að þegar kröfur skv. 1. og 3.–6. mgr. þessarar greinar eru uppfylltar telst virðismati lokið. Í þeim tilfellum þegar kröfur greinarinnar eru ekki uppfylltar, t.d. ef ekki hefur verið unnt að afla óháðs virðismats innan skamms tíma sökum brýnnar nauðsynjar á að mat á eignum og skuldbindingum liggi fyrir, telst fyrirliggjandi mat til bráðabirgðavirðismats skv. 31. gr. skilavaldið framkvæmir þá bráðabirgðavirðismat en í framhaldi af því skal það láta gera óháð virðismat sem uppfyllir kröfur þessarar greinar, sbr. 3. mgr. 31. gr. frumvarpsins. Er þá heimilt að fela sama óháða aðilanum að framkvæma virðismat og endanlegt virðismat skv. 32. gr. og mega bæði virðismötin vera framkvæmd samtímis. Í þeim tilfellum þegar bráðabirgðavirðismat liggur fyrir getur falist í því hagræði, m.a. í ljósi kostnaðarsjónarmiða, að láta sama eða sömu aðila framkvæma bæði leiðrétt virðismat og endanlegt virðismat á sama tíma. Virðismötin skulu þó aðskilin, þ.e. tvö sjálfstæð virðismöt. Með kröfunni um aðskilin virðismöt er þó ekki tekið fyrir að efni sem fram kemur í virðismati samkvæmt þessari grein sé nýtt við framkvæmd endanlegs virðismats skv. 32. gr.
     Um 8. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 14. mgr. og hluta 15. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Kveðið er á um að Seðlabankinn skuli setja reglur um nánari framkvæmd greinarinnar. Reglur Seðlabankans munu byggjast á framseldum reglugerðum (e. delegated regulation) framkvæmdarstjórnar ESB. Um er að ræða innleiðingu kafla IV í reglugerð (ESB) nr. 2016/1075 og reglugerð (ESB) nr. 2018/345.

Um 31. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 36. gr. tilskipunarinnar og kveður á um heimild til að framkvæma bráðabirgðavirðismat á eignum og skuldbindingum fyrirtækis eða einingar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr., hluta 9. mgr. og 12. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er heimild til að framkvæma bráðabirgðavirðismat. Erfitt getur reynst að framkvæma óháð og endanlegt virðismat áður en gripið er til nauðsynlegra aðgerða. Þar að auki getur það verið erfiðleikum háð að finna óháðan aðila sem hefur getu og vilja til að framkvæma virðismat á skömmum tíma án þess að slíkt virðismat sé háð ýmsum fyrirvörum sem veldur því þá að það telst ekki endanlegt og því nauðsynlegt að framkvæma bráðabirgðavirðismat, eftir atvikum á grunni óháðs virðismats sem hafið er. Bráðabirgðavirðismat sem er í samræmi við þessa grein telst fullnægjandi grundvöllur fyrir ákvörðun um beitingu skilaaðgerða, eins og að taka yfir stjórn fyrirtækis eða ef við á einingar, sem getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, eða til að taka ákvörðun um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 9. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að við framkvæmd á bráðabirgðavirðismati skal að því marki sem hægt er framfylgja þeim kröfum sem gilda um óháð virðismat. Gera verður þó ráð fyrir að virði eigna verði metið hærra í óháðu virðismati skv. 30. gr. en samkvæmt bráðabirgðavirðismati. Samkvæmt ákvæðinu skal bráðabirgðavirðismat fela í sér varúðarfrádrag sem ætlað er að mæta frekara tapi (e. buffer for additional losses). Er varúðarfrádraginu þannig ætlað að tryggja að ef bráðabirgðavirðismat er of hátt verði unnt að grípa til mótvægisaðgerða með fremur einföldum hætti, t.d. með frekari niðurfærslu fjármagnsgerninga eða með eftirgjöf. Við ákvörðun á varúðarfrádragi skal skilavaldið sjá til þess að það sé nægjanlega varfærið og getur umfang varúðarfrádragsins því tengst þeirri óvissu sem er til staðar við virðismat hjá viðkomandi fyrirtæki eða einingu.
     Um 3. mgr. Málsgreinin felur í sér innleiðingu á hluta 10. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að fram skuli fara óháð virðismat eins fljótt og unnt er í kjölfar bráðabirgðavirðismats. Óháð virðismat skal þá miða að því að tryggja að hugsanlegt tap fyrirtækis eða einingar verði viðurkennt í bókhaldi þeirra og skal virðismatið innihalda mat á því hvort fara skuli fram frekari niðurfærsla á skuldbindingum lánardrottna eða hvort hækka skuli virði krafna eða greiða frekara endurgjald í samræmi við 4. mgr.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing 11. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu eru teknar fram þær aðgerðir sem heimilt er að grípa til ef hrein eign (e. net asset value) er meira virði á grundvelli óháðs virðismats skv. 3. mgr. en bráðabirgðavirðismats.
     Um 5. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing c-liðar 15. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar, er kveðið á um skyldu Seðlabankans til að setja reglur sem ætlað er að innleiða reglugerð (ESB) nr. 2018/345.

Um 32. gr.

    Greinin er innleiðing 74. gr. tilskipunarinnar og kveður á um endanlegt virðismat á eignum og skuldbindingum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. mgr. 74. gr. tilskipunarinnar. Í kjölfar þess að skilaaðgerð, einni eða fleirum, hefur verið beitt skal samkvæmt ákvæðinu fara fram samanburður á þeirri meðferð sem fjármunir félagsaðila og kröfur lánardrottna fengu og þeirri meðferð sem þeir hefðu fengið ef viðkomandi fyrirtæki eða eining hefði farið í gjaldþrotaskiptameðferð samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eða verið slitið eftir reglum XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ef það er niðurstaða endanlega virðismatsins að félagsaðilar og lánardrottnar hefðu fengið betri meðferð við slitameðferð eiga þeir rétt á að fá mismuninn greiddan úr skilasjóði, sbr. 80. gr. frumvarpsins. Skilavaldið skal tryggja að endanlegt virðismat fari fram og skal það gerast eins fljótt og mögulegt er eftir að skilaaðgerðir hefjast. Mat á því hversu fljótt er hægt að láta endanlegt virðismat fara fram kann meðal annars að velta á þeim skilaaðgerðum sem hefur verið beitt og þeim tíma sem þarf til að ráða óháðan aðila til að sjá um matið.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 74. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu skal endanlegt virðismat fela í sér skiptingu á kröfum lánardrottna til samræmis við reglur um forgangsröð krafna við slit eða gjaldþrot, sbr. XVII. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, auk þess skal áætla þá meðferð sem fjármunir félagsaðila og kröfur lánardrottna hefðu fengið ef fyrirtæki eða eining hefði verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta. Þá niðurstöðu skal svo bera saman við þá meðferð sem félagsaðilar og lánardrottnar fengu við skilameðferð. Við mat á því hvaða meðferð krafna félagsaðilar og lánardrottnar hefðu fengið ef fyrirtæki eða eining hefði verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta skal horfa til þeirrar aðferðarfræði sem kveðið er á um í reglum Seðlabankans sem settar verða með stoð í 4. mgr.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. 74. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að endanlegt virðismat skuli byggjast á því að fyrirtæki eða eining hefði verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta á þeim tímapunkti þegar skilaaðgerðir komu til framkvæmda, sbr. 1. tölul., og ekkert hefði orðið af aðgerðunum, sbr. 2. tölul. Þá ber að líta fram hjá sérstökum opinberum fjárstuðningi til fyrirtækis í skilameðferð, sbr. 3. tölul. Hugtakið „sérstakur opinber fjárstuðningur“ er skilgreint í 29. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 74. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að Seðlabankinn skuli setja reglur um nánari framkvæmd greinarinnar. Framseldar reglugerðir framkvæmdarstjórnar ESB verða innleiddar með reglum Seðlabankans. Um er að ræða innleiðingu kafla IV í reglugerð (ESB) nr. 2016/1075 og reglugerð (ESB) nr. 2018/345.

Um 33. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 13. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar og kveður á um að virðismat verði ekki borið undir dómstóla eitt og sér heldur aðeins samhliða beitingu skilaaðgerða. Ákvæðið takmarkar ekki rétt félagsaðila, lánardrottna og þriðja aðila, sem verða fyrir áhrifum af skilaaðgerðum, til að gæta réttar síns fyrir dómstólum en það skal gert þegar aðgerðirnar eru komnar til framkvæmda. Nánari skýringar er að finna í skýringum við 6. gr.

Um VIII. kafla

    Kaflinn er innleiðing á hluta I. kafla og hluta VIII. kafla IV. bálks tilskipunarinnar og kveður á um ákvörðun um skilameðferð. Fjármálaeftirlitið er það lögbæra stjórnvald sem tekur ákvörðun um hvort fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti sem er skilyrði fyrir skilameðferð. Hugtakið „á fallanda fæti“ er skilgreint í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Skilavaldið er það lögbæra stjórnvald sem tekur svo ákvörðun um skilameðferð fyrirtækis eða einingar en slík ákvörðun er þó háð staðfestingu ráðherra, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Fyrirtæki eða einingu skal ekki taka til skilameðferðar með tilheyrandi skilaaðgerðum ef hægt er að ná markmiðum laganna með öðru og vægara móti, t.d. með aðgerðum einkaaðila, svo sem með lánsfé eða hlutafjáraukningu, eða opinberra aðila, svo sem tímanlegum inngripum Fjármálaeftirlitsins eða niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla, eða með hefðbundinni slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð.

Um 34. gr.

    Greinin er innleiðing a-liðar 1. mgr. 32. og 3. mgr. 81. gr. tilskipunarinnar.
    Fjármálaeftirlitinu er falið að meta, í samráði við skilavaldið, hvort fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti, þ.e. hvort eitt þeirra þriggja atriða sem tilgreind eru í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins eigi við. Við matið getur Fjármálaeftirlitið haft hliðsjón af viðmiðunarreglum EBA/GL/2015/07 Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar um hvenær fyrirtæki eða eining teljist á fallanda fæti, sem gefnar voru út á grundvelli 6. mgr. 32. gr. tilskipunarinnar. 8 Fjármálaeftirlitið getur metið hvort fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti í kjölfar ábendingar um að það kunni að standa höllum fæti, t.d. tilkynningar frá héraðsdómi skv. 84. gr. eða frá stjórn fyrirtækis eða einingar skv. 1. mgr. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. breyting sem lögð er til í g-lið 1. tölul. 103. gr. frumvarpsins. Fjármálaeftirlitið metur það einnig að eigin frumkvæði með viðvarandi hætti, einkum á grundvelli könnunar- og matsferlis skv. 80. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Mat á því hvort fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti fer fram áður en gripið er til skilaaðgerðar gagnvart því. Æskilegt er að matið sé nógu tímanlegt til að mögulegt sé að grípa til skilaaðgerðar þegar ljóst er að ella stefni í óefni, áður en fyrirtæki eða eining er orðin ógjaldfær eða staðan slík að afturkalla megi starfsleyfi eða þörf sé á sérstökum opinberum fjárstuðningi. Ekki er nauðsynlegt að endurtaka matið í hvert sinn sem beita á einstökum skilaúrræðum eða -heimildum.
    Telji Fjármálaeftirlitið fyrirtæki eða einingu á fallanda fæti skal það tilkynna öðrum viðeigandi aðilum um það. Gert er ráð fyrir að Seðlabankinn útfæri með reglum skv. 36. gr. frumvarpsins hverjir teljist aðrir viðeigandi aðilar, en til þeirra teljast a.m.k. fjármálastöðugleikaráð, fjármála- og efnahagsráðuneytið, skilasjóður og Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta þegar starfsemi sjóðanna krefst þess, eftirlitsstjórnvöld og skilastjórnvöld útibúa fyrirtækisins og á samstæðugrunni ef við á og Evrópska kerfisáhætturáðið.

Um 35. gr.

    Greinin er innleiðing 33., 82. og 83. gr. tilskipunarinnar og hluta 32. og 34. gr.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. og 5. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 82. gr. tilskipunarinnar. Í henni birtist meginregla greinarinnar um að fyrirtæki skuli tekið til skilameðferðar ef það er á fallanda fæti og það er nauðsynlegt til að ná einu eða fleiri markmiðum frumvarpsins, verði það að lögum, sbr. 1. gr.
    Skilaaðgerð kemur ekki til greina ef markmiðunum má ná með öðru og vægara móti, hvort sem er með aðgerðum einkaaðila, svo sem með lánsfé eða hlutafjáraukningu, eða opinberra aðila, svo sem tímanlegum inngripum Fjármálaeftirlitsins eða niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga, eða með hefðbundinni slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð. Ekki er þó áskilið að slík úrræði hafi verið reynd ef útséð er að þau dugi ekki til. Jafnframt verður að gæta hófs við beitingu þeirrar skilaaðgerðar sem valin er og ekki ganga lengra en nauðsyn þykir. Skilavaldinu ber þannig að lágmarka kostnað af skilaaðgerð og forðast að skerða verðmæti nema það sé nauðsynlegt til að ná markmiðum skilaaðgerðar. Ef fyrirtæki eða eining tilheyrir samstæðu skal leitast við að lágmarka áhrif á önnur fyrirtæki eða einingar innan samstæðunnar og á samstæðuna í heild.
    Gæta þarf jafnræðis við ákvörðun um skilaaðgerðir, m.a. með því að gera ekki upp á milli félagsaðila eða lánardrottna nema fyrir því liggi málefnaleg sjónarmið. Ekki má mismuna félagsaðilum eða lánardrottnum, beint eða óbeint, á grundvelli þjóðernis. Gæta þarf réttinda félagsaðila og lánardrottna samkvæmt frumvarpinu, sbr. t.d. 2. mgr. 41. gr., 2. mgr. 46. gr, 2. mgr. 51. gr., 2. mgr. 55. gr. og 80. gr. frumvarpsins.
    Skilaaðgerðir þurfa að samræmast ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Á það getur til dæmis reynt ef nýttir eru fjármunir úr skilasjóði til að aðstoða við skilameðferð fyrirtækis eða einingar.
    Skilaaðgerðir hnika ekki lagalegri ábyrgð einstaklinga og lögaðila á stöðu fyrirtækis eða einingar, hvort sem er að einkarétti eða allsherjarrétti. Þær hafa til dæmis ekki áhrif á skaðabótaskyldu eða refsiábyrgð sem stjórnendur fyrirtækis eða einingar kunna að hafa bakað sér.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 5. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar. Áður en ákvörðun um skilaaðgerð sem varðar starfsmenn fyrirtækis eða einingar er tekin skal viðhafa almennt samráð við fulltrúa þeirra. Aðstæður geta þó takmarkað svigrúm til þess, svo sem ef þörf er á mjög skjótum viðbrögðum.
     Um 3. mgr. Í málsgreininni eru tilgreind skilyrði fyrir skilaaðgerðum gagnvart einstökum tegundum fyrirtækja.
     Um 1. tölul. Töluliðurinn er innleiðing 1. mgr. 33. gr. tilskipunarinnar. Áskilið er að Fjármálaeftirlitið ákvarði bæði fjármálastofnun og móðurfélag hennar á fallanda fæti.
     Um 2. tölul. Töluliðurinn er innleiðing 2. mgr. og hluta 4. mgr. 33. gr. tilskipunarinnar. Hann tekur til eignarhaldsfélaga á fjármálasviði, blandaðra eignarhaldsfélaga, blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi og móðureignarhaldsfélaga, sbr. c- og d-lið 2. gr. frumvarpsins. Almennt er áskilið að Fjármálaeftirlitið ákvarði bæði eignarhaldsfélag og dótturfélag þess sem er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki á fallanda fæti. Þó má grípa til skilaaðgerðar gagnvart eignarhaldsfélagi þótt það sé ekki á fallanda fæti ef dótturfélag þess, sem er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki, er á fallanda fæti og eignir og skuldir dótturfélagsins eru slíkar að fall þess stefni annarri lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki í samstæðunni eða samstæðunni í heild í hættu. Í lokamálslið töluliðarins er undantekning frá þeirri meginreglu frumvarpsins að skilavaldið sé bundið af mati Fjármálaeftirlitsins á því hvort fyrirtæki sé á fallanda fæti. Samkvæmt málsliðnum telst dótturfélag samkvæmt töluliðnum, sem er með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, á fallanda fæti ef það fullnægir að mati þarlendra yfirvalda skilyrðum fyrir skilameðferð samkvæmt lögum þess ríkis. Við þær aðstæður þarf ekki að leita eftir mati Fjármálaeftirlitsins á því hvort dótturfélagið sé á fallanda fæti.
     Um 3. tölul. Töluliðurinn er innleiðing 3. mgr. 33. gr. tilskipunarinnar. Ef lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki er dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði og eignarhaldsfélagið á fjármálasviði er dótturfélag blandaðs eignarhaldsfélags telst lánastofnunin eða verðbréfafyrirtækið jafnframt dótturfélag blandaða eignarhaldsfélagsins. Þegar svo háttar til skal skilaaðgerð vegna samstæðunnar beinast að eignarhaldsfélaginu á fjármálasviði fremur en blandaða eignarhaldsfélaginu.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 4. mgr. 33. gr. tilskipunarinnar. Hún felur í sér að unnt er að líta fram hjá tilfærslum innan samstæðu eignarhaldsfélags og lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis, m.a. með beitingu á heimild til niðurfærslu eða umbreytingar, þegar metið er hvort skilyrðum fyrir skilaaðgerð sé fullnægt vegna dótturfélagsins.
     Um 5. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 82. gr. og 83. gr. tilskipunarinnar. Hún felur í sér skyldu til að birta og senda tilteknum aðilum ákvörðun um skilaaðgerðir sem gripið er til. Gert er ráð fyrir að Seðlabankinn útfæri með reglum með stoð í 36. gr. hverjir teljist viðeigandi aðilar, en að til þeirra teljist a.m.k. viðkomandi fyrirtæki eða eining, fjármálastöðugleikaráð, fjármála- og efnahagsráðuneytið, skilasjóður, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ef fyrirtækið á aðild að honum, rekstraraðili greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfa sem fyrirtækið eða einingin á aðild að, eftirlitsstjórnvöld og skilastjórnvöld útibúa fyrirtækisins og á samstæðugrunni ef við á, Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin, Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin, Evrópska kerfisáhætturáðið, Seðlabanki Evrópu og Eftirlitsstofnun EFTA. Fyrirmælin eru nánar útfærð í II. þætti V. kafla framseldrar reglugerðar (ESB) 2016/1075 um viðbætur við tilskipunina sem ráðgert er að innleiða með reglum Seðlabankans.
    Samkvæmt ákvörðuninni verður að gera grein fyrir skilaaðgerðum og öðrum aðgerðum sem ætlunin er að grípa til og hvenær þær koma til framkvæmda. Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni þarf a.m.k. að koma fram af hverju fyrirtæki eða eining teljist fullnægja skilyrðum fyrir skilaaðgerð og á hvaða heimild skilaaðgerð byggist.
    Um þær aðferðir sem notaðar eru við opinberar birtingar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti vísast einkum til VII.–IX. og XIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og III. kafla reglugerðar um upplýsingagjöf og tilkynningarskyldu samkvæmt þeim lögum, nr. 707/2008.

Um 36. gr.

    Í greininni felst innleiðing 3. mgr. 82. gr. tilskipunarinnar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett framselda reglugerð (ESB) nr. 2016/1075 um viðbætur við tilskipunina. Í II. þætti V. kafla reglugerðarinnar eru útfærðar nánar skyldur um tilkynningar og birtingu. Gert er ráð fyrir að fyrirmælin verði innleidd með reglum Seðlabankans.

Um IX. kafla.

    Kaflinn er innleiðing tveggja greina í tilskipuninni, 72. og 35. gr., sem kveða á um upphafsaðgerðir við skilameðferð. Skilavaldið getur tekið yfir stjórn fyrirtækis eða einingar og farið með yfirráð þess. Þá getur skilavaldið skipað skilastjórn yfir fyrirtæki eða einingu, sem fer þá með heimildir félagsaðila og stjórnar fyrirtækis eða einingar en er með óbein yfirráð.

Um 37. gr.

    Greinin er innleiðing 72. gr. tilskipunarinnar og veitir heimild til að taka yfir stjórn fyrirtækis eða einingar til að tryggja að hægt sé að hrinda skilaaðgerð í framkvæmd.
     Um 1. mgr. Við yfirráð tekur skilavaldið við öllum þeim valdheimildum sem félagsaðilar og stjórn fyrirtækisins eða einingarinnar höfðu fyrir skilameðferð, þ.m.t að halda utan um og selja eignir þess. Ákvæðið ber að skoða í samhengi við aðrar skilaheimildir, þ.m.t. meginregluna um að víkja stjórn og framkvæmdastjóra frá störfum, sbr. 12. tölul. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins. Ef skilavaldið fer með yfirráð yfir fyrirtæki eða einingu og tekur þannig við stjórn þess, beint eða óbeint, getur það á sama tíma vikið stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra frá. Atkvæðisréttur sem fylgir eignarhlutum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð verður því ekki nýttur af félagsaðilum á meðan skilameðferð varir ef skilavaldið hefur tekið yfir stjórn fyrirtækisins eða einingarinnar. Yfirráð í skilameðferð eru ekki bundin við ákveðið tímabil en þau þurfa að vera nauðsynleg fyrir framkvæmd skilaaðgerða. Ef skilavaldið tekur yfir fyrirtæki eða einingu tekur það á sama tíma yfir ábyrgð á þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu eða einingunni samkvæmt frumvarpinu, t.d. um að leggja fram ársreikninga. Þetta felur í sér að breyta þarf skráningu prókúruhafa hjá fyrirtækjaskrá þannig að ljóst megi vera hver hafi umboð til að skuldbinda fyrirtækið eða eininguna.
     Um 2. mgr. Af ákvæðinu leiðir að heimild 1. mgr. má nýta á þann hátt að skilavaldið fari sjálft með óskoruð yfirráð eða óbein með því að skipa einn eða fleiri aðila. Óbein yfirráð ber að skilja sem skipun skilastjórnar skv. 38. gr. frumvarpsins. Skilavaldið skal ekki teljast skuggastjórnandi þegar það grípur til aðgerða á grundvelli frumvarpsins.

Um 38. gr.

    Greinin er innleiðing 35. gr. tilskipunarinnar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. og 6. mgr. og hluta af 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar. Skilastjórn má skipa til allt að árs í senn. Framlengja má skipun hennar ef það er nauðsynlegt til þess að ná markmiðum 1. gr. frumvarpsins. Til samræmis við 5. mgr. 35. gr. ber að tilkynna opinberlega um skipun skilastjórnar. Einnig ber að tilkynna ríkisskattstjóra um breytingu á stjórn til samræmis við þau lög sem gilda um félagaform fyrirtækisins eða einingarinnar, sbr. einkum 1. mgr. 149. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995.
    Skilastjórnarmenn skulu fullnægja sömu hæfisskilyrðum og stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, einkum 52. gr., og reglur nr. 150/2017 um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja. Meðal skilyrða er að þeir hafi yfir að ráða reynslu og þekkingu eða hafi lokið námi sem nýtist í starfi og hafi þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fyrirtæki eða eining stundar, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Gæta þarf að því að þeir hafi ekki slík tengsl við fyrirtækið eða eininguna, einstaka félagsaðila eða lánardrottna eða aðra haghafa að draga megi í efa óhlutdrægni þeirra. Það gæti til dæmis átt við ef þeir ættu umtalsvert hlutafé í fyrirtækinu eða sætu í stjórn lánardrottins.
    Skilavaldið semur við skilastjórn um þóknun og greiðir kostnað af störfum hennar, þar á meðal fyrir þóknun þeirra sem hún kann að fá sér til liðsinnis. Heimilt er að endurheimta kostnaðinn til samræmis við 81. gr. frumvarpsins.
    Heimilt er að draga skipun skilastjórnar til baka hvenær sem er, t.d. ef talið er æskilegt að skipa aðra skilastjórn eða ef skilastjórn er ekki lengur nauðsynleg.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2., 3. og 5. mgr. ásamt hluta 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar. Skilastjórn tekur við valdheimildum félagsaðila og stjórnar sem vikið hefur verið frá skv. 12. tölul. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins. Skilastjórn getur til dæmis ákveðið að hækka hlutafé félags, endurskipulagt eignarhald þess eða gengið til samninga við fjárhagslega traust félag um yfirtöku á því.
    Verði frumvarpið samþykkt er hlutverk skilastjórnar að vinna að markmiðum laganna og framfylgja ákvörðunum skilavaldsins, þar á meðal um skilaaðgerðir. Ósamrýmanleg ákvæði í öðrum lögum eða í samþykktum fyrirtækis eða einingar um hlutverk hluthafafundar eða stjórnar víkja. Skilastjórn starfar í umboði og undir eftirliti skilavaldsins og ber að hlíta ákvörðunum þess. Heimilt er að takmarka athafnir skilastjórnar og gera henni að leita samþykkis fyrir tilgreindum ráðstöfunum. Skilavaldið ákveður hve oft skilastjórn skuli skila skýrslu um störf sín og stöðu fyrirtækis eða einingar, en miða verður við að hún geri það í upphafi og lok skipunartíma og nógu reglulega þar á milli til að skilavaldið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Í skýrslunni verður að greina frá þeim aðgerðum sem skilastjórn hefur gripið til frá síðustu skýrsluskilum, efnahagslegri og fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins eða einingarinnar og öðrum þeim þáttum sem skilavaldið ákveður.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 7. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar. Ef skilastjórnvald í öðru aðildarríki hyggst skipa skilastjórn yfir fyrirtæki eða einingu sem tilheyrir sömu samstæðu og fyrirtæki eða eining skv. 1. mgr. greinarinnar skal skilavaldið kanna, í samstarfi við erlenda skilastjórnvaldið, hvort tilefni sé til að skipa sameiginlega skilastjórn yfir bæði fyrirtæki eða einingu. Með því móti kann að mega liðka fyrir úrbótum á vandkvæðum hlutaðeigandi fyrirtækis eða einingar og auðvelda framgang skilameðferðar.

Um X. kafla.

    Kaflinn snýst um skilaúrræðin fjögur, þ.e. sölu rekstrar, framsal til brúarstofnunar, uppskiptingu eigna og eftirgjöf. Fyrri þrjú úrræðin fela í sér framsal eignarhluta í fyrirtæki eða einingu eða eigna, réttinda og skuldbindinga fyrirtækis eða einingar, en gegna misjöfnu hlutverki. Sala rekstrar og framsal til brúarstofnunar miðar almennt að því að tryggja áframhaldandi aðgang að nauðsynlegri starfsemi fyrirtækis eða einingar á fallanda fæti með því að framselja hana til traustari lögaðila sem tekur við réttindum og skyldum sem hana varða. Í kjölfarið er unnt að taka fyrirtækið eða eininguna sem er á fallanda fæti til slita. Uppskiptingu eigna er almennt ætlað að aðgreina traustar eignir fyrirtækis eða einingar á fallanda fæti frá þeim sem hafa rýrnað eða skilað slökum árangri og treysta þannig rekstrarhæfi fyrirtækisins eða einingarinnar svo að það geti haldið áfram rekstri. Eftirgjöf felur svo í sér niðurfærslu skuldbindinga fyrirtækis eða einingar eða umbreytingu þeirra í eigið fé til að rétta fjárhagsstöðuna af.
    Gripið er til skilaúrræða að uppfylltum almennum skilyrðum VIII. kafla og 39. gr. frumvarpsins og sérstökum skilyrðum sem viðkomandi skilaúrræði eru sett. Heimilt er að beita einu eða fleiri skilaúrræðum eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni í ljósi markmiða 1. gr. Þó verður aðeins gripið til uppskiptingar eigna ásamt öðru skilaúrræði, sbr. síðari málsl. 1. mgr. 51. gr.
    Tryggja þarf að gætt sé að réttindum félagsaðila og lánardrottna, sbr. t.d. 2. mgr. 41. gr., 2. mgr. 46. gr, 2. mgr. 51. gr., 2. mgr. 55. gr. og 80. gr. frumvarpsins, við beitingu skilaúrræða og að þau samræmist samkeppnisreglum og reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisaðstoð.

Um 39. gr.

    Greinin er innleiðing 2. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar. Með viðeigandi fjármagnsgerningum er átt við fjármagnsgerninga sem teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 eða þáttar 2 samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. skilgreiningu 35. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í greininni felst að viðbótar eigið fé þáttar 1 og þáttar 2 skuli látið standa undir tapi fyrirtækis eða einingar sem er á fallanda fæti samhliða því sem gripið er til skilaúrræðis sem mun valda lánardrottnum tapi eða því að kröfum þeirra verði umbreytt.

Um 40. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 34., 38., 40 og 42. gr. tilskipunarinnar og kveður á um undanþágur frá takmörkunum á framsali við beitingu skilaúrræða.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. og 13. mgr. 38. gr., hluta 1. mgr. og 11. mgr. 40. gr. og hluta 1. mgr. og 12. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 41., 46. og 51. gr. frumvarpsins heimila framsal eignarhluta fyrirtækis eða einingar í skilameðferð eða eigna, réttinda og skuldbindinga þess. Af ákvæðinu leiðir að skilavaldið þarf ekki samþykki annarra en framsalshafa fyrir framsalinu, hvorki fyrirtækisins eða einingarinnar í skilameðferð né félagsaðila eða lánardrottna þess eða annarra þriðju aðila. Það hnikar þó ekki rétti aðila til að höfða dómsmál vegna framsals sem viðkomandi telur ólögmætt, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Félagsaðilar og lánardrottnar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð og aðrir þriðju aðilar, sem eiga eignir, réttindi eða skuldbindingar sem eru ekki framseldar, hafa engin réttindi í tengslum við eignir, réttindi eða skuldbindingar sem eru framseldar, að undanskildum réttindum þeirra skv. 80. gr. frumvarpsins. Þeir njóta á móti góðs af endurgjaldi sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð kann að fá fyrir framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing hluta 1. mgr. 38. gr., hluta 1. mgr. 40. gr. og hluta 1. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Hún felur í sér að heimildir til sölu rekstrar, framsals til brúarstofnunar og uppskiptingar eigna takmarkast ekki af kröfum um málsmeðferð á sviði félaga- eða verðbréfamarkaðsréttar, svo sem í samþykktum félags, lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, eða lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar. Hún felur í sér að ákvæði 1. og 2. mgr. 3. gr. og 4. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, sem lúta einkum að kjörum starfsmanna og vernd gegn uppsögnum við aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta þeirra, gilda ekki við aðilaskipti vegna sölu rekstrar, framsals til brúarstofnunar eða uppskiptingar eigna. Sömu undanþágur eru gerðar vegna aðilaskipta þegar bú fyrirtækja hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta, sbr. 5. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Um 41. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 38., 39 og 73. gr. tilskipunarinnar og kveður á um heimild til að beita skilaúrræðinu sala rekstrar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing hluta 1. mgr. og 5. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar. Hún heimilar sölu eignarhluta í fyrirtæki eða einingu, eða eigna, réttinda og skuldbindinga þess, í heild eða að hluta, til eins eða fleiri kaupenda sem eru ekki brúarstofnun eða eignaumsýslufélag. Heimildina má nýta oftar en einu sinni vegna sama fyrirtækis eða einingar.
    Kaupandi verður að hafa lögbundin leyfi til að stunda þá starfsemi sem á að selja honum, sbr. einkum II. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, um starfsleyfi. Sæki hann um starfsleyfi í aðdraganda fyrirhugaðra kaupa er áríðandi að Fjármálaeftirlitið fjalli um og afgreiði umsóknina eins hratt og mögulegt er.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2.–4. mgr. 38. gr., 39. gr. og a-liðar 73. gr. tilskipunarinnar hvað sölu rekstrar varðar. Sala rekstrar á almennt að fara fram á viðskiptalegum forsendum. Söluferlið skal vera eins gagnsætt og opið og aðstæður leyfa og almennt skal lýsa með greinargóðum hætti þeim eignarhlutum í fyrirtæki eða einingu, eða eignum, réttindum og skuldbindingum þess sem til sölu eru. Leitast skal við að hámarka söluverðið, án þess þó að sala dragist óhæfilega, með hliðsjón af virðismati skv. VII. kafla. Í því skyni getur skilavaldið að eigin frumkvæði nálgast mögulega kaupendur. Söluferlið skal þó ekki hygla eða mismuna mögulegum kaupendum á ótilhlýðilegan hátt. Það skal einnig vera laust við hagsmunaárekstra. Þannig verður til dæmis að tryggja að tengsl starfsmanna skilavaldsins við mögulega kaupendur hafi ekki óeðlileg áhrif á söluferlið. Sala rekstrar getur farið fram í einu lagi eða í áföngum og markaðssetja má réttinda-, eigna- og skuldbindingasöfn hvert í sínu lagi.
    Skilavaldinu er heimilt að víkja frá áskilnaði um að sala fari fram á viðskiptalegum forsendum ef það er nauðsynlegt til að ná markmiðum 1. gr. Þannig er t.d. heimilt að selja rekstur í lokuðu útboði ef nauðsynlegt er að takmarka dreifingu upplýsinga um stöðu fyrirtækis eða einingar til að viðhalda fjármálastöðugleika eða selja rekstur til annars en hæstbjóðanda ef hæstbjóðandi er ekki talinn jafnhæfur til að viðhalda nauðsynlegri starfsemi. Sala skal þó ávallt vera á eins viðskiptalegum forsendum og aðstæður leyfa. Við mat á því hvenær sjónarmið er varða fjármálastöðugleika krefjast þess að vikið sé frá áskilnaði um viðskiptalegar forsendur er heimilt að hafa til hliðsjónar viðmiðunarreglur EBA/GL/2015/04 sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út á grundvelli 4. mgr. 39. gr. tilskipunarinnar. 9
    Söluandvirði rennur til fyrri eigenda, að frádregnum réttmætum kostnaði skilavaldsins og skilasjóðs í tengslum við söluna, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. Andvirði seldra eignarhluta í fyrirtæki eða einingu rennur því til fyrri eigenda þeirra en til fyrirtækisins eða einingarinnar rennur andvirði seldra eigna, réttinda og skuldbindinga sem voru í eigu þess.
    Þar sem endurgjaldið miðast jafnan við markaðsverð ættu fyrri eigendur almennt ekki að fá minna í sinn hlut en þeir hefðu fengið hefði fyrirtækið eða einingin verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta þegar ákveðið var að grípa til skilameðferðar. Fái þeir minna í sinn hlut gætu þeir átt rétt á bótum úr skilasjóði vegna mismunarins, sbr. 80. gr. frumvarpsins.

Um 42. gr.

    Greinin er innleiðing 8. og 9. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar og kveður á um hæfi til að fara með virkan eignarhlut í kjölfar sölu rekstrar. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skal aðili sem hyggst eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki eða auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur nái eða fari yfir 20%, 33% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfélag hans tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Kaupin geta ekki komið til framkvæmda nema Fjármálaeftirlitið meti kaupanda hæfan til að fara með eignarhlutinn eða niðurstaða þess liggi ekki fyrir innan tilgreinds frests, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Fjármálaeftirlitinu ber að ljúka við matið svo fljótt sem unnt er samkvæmt málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og upplýsa skilavaldið og tilkynna kaupanda skriflega þegar niðurstaða þess liggur fyrir. Sérstaklega áríðandi er að máli sé hraðað þegar matið fer fram í tengslum við beitingu skilaúrræðisins sala rekstrar svo að skilaaðgerðin nái markmiðum sínum. Ekki er þó víst að unnt sé að ljúka matinu áður en sala rekstrar á að fara fram.
    Í greininni felst að sala rekstrar geti náð fram að ganga þótt ekki takist áður að ljúka mati á hæfi kaupanda til að fara með virkan eignarhlut, en kaupandi fer þá ekki með atkvæðisrétt sem fylgir eignarhlutnum fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur metið hann hæfan. Fram að því fer skilavaldið með atkvæðisréttinn. Að öðru leyti fer kaupandi löglega með þau réttindi sem fylgja seldum eignarhlut og sætir eðli máls samkvæmt engum viðurlögum þess vegna.
    Ef Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að kaupandi sé hæfur til að fara með virkan eignarhlut færist atkvæðisrétturinn til hans. Komist Fjármálaeftirlitið á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að kaupandi sé ekki hæfur til að fara með eignarhlutinn fer skilavaldið áfram með atkvæðisrétt sem honum fylgir og getur það sett kaupanda frest til að selja eignarhlutinn. Settur frestur þarf að taka mið af möguleika á sölu við ríkjandi markaðsaðstæður. Selji kaupandi ekki hlutinn innan setts frests getur Fjármálaeftirlitið lagt á hann dagsektir skv. 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Skilavaldinu er ekki skylt að nýta atkvæðisrétt sem það fer með samkvæmt greininni eða nýta hann á tiltekinn veg til að þjóna hagsmunum kaupanda. Skilavaldið sætir ekki bótaábyrgð gagnvart kaupanda vegna þess hvernig eða hvort það nýtir réttinn.

Um 43. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 1. mgr. og 11. og 12. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar og kveður á um réttarstöðu kaupanda við sölu rekstrar. Kaupandi telst vera framhald á fyrirtækinu eða einingunni í skilameðferð hvað seldan rekstur varðar. Í því felst m.a. að kaupandi heldur rétti sem fyrirtækið eða einingin hafði til að veita þjónustu eða öðlast staðfestu í öðru aðildarríki og til þátttöku í greiðslu-, greiðslujöfnunar- og uppgjörskerfum, kauphöllum, bótakerfum fyrir fjárfesta og innstæðutryggingakerfum, að því tilskildu að hann fullnægi skilyrðum fyrir þátttöku. Kaupandi er þó undanþeginn þeim þátttökuskilyrðum að hafa mat frá lánshæfismatsfyrirtæki eða að lánshæfismat nái tilteknu stigi. Heimilt er að skylda greiðslu-, greiðslujöfnunar- og uppgjörskerfi, kauphallir, bótakerfi fyrir fjárfesta og innstæðutryggingakerfi til að veita kaupanda aðgang að kerfunum til allt að 24 mánaða þótt hann uppfylli ekki skilyrði fyrir þátttöku. Skilavaldið getur framlengt þann frest sæki kaupandi um það.

Um 44. gr.

    Greinin er innleiðing 6. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar og kveður á um framsal til fyrri eigenda í kjölfar sölu rekstrar. Ákvæðið heimilar skilavaldinu að láta sölu rekstrar ganga til baka, í heild eða að hluta. Til þess þarf samþykki kaupanda en ekki fyrri eigenda.
    Fyrri eigendum er skylt að taka við viðkomandi eignarhlutum eða eignum, réttindum og skuldbindingum og endurgreiða endurgjald sem þeir kunna að hafa fengið vegna þeirra. Ákvæðið er því íþyngjandi og skapar óvissu fyrir fyrri eigendur. Því ætti að gæta hófs við beitingu þess og láta framsalið ekki dragast að óþörfu.

Um 45. gr.

    Greinin er að hluta innleiðing 40. og 41. gr. tilskipunarinnar og kveður á um stofnsetningu brúarstofnunar við beitingu á skilaúrræðinu framsal til brúarstofnunar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 12. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Heimilt er að koma á fót brúarstofnun til að taka við nauðsynlegri starfsemi frá fyrirtæki eða einingu sem taka á til skilameðferðar. Má í því skyni stofna nýjan lögaðila eða notast við lögaðila sem var til fyrir.
    Hlutverk brúarstofnunar er viðhalda nauðsynlegri starfsemi fram að sölu hennar, sbr. 48. gr. frumvarpsins. Hlutverkið skal ekki fela í sér neins konar skyldu eða ábyrgð gagnvart félagsaðilum eða lánardrottnum fyrirtækisins eða einingarinnar í skilameðferð og er eðlilegt að það endurspeglist í lýsingu á tilgangi stofnunarinnar í samþykktum hennar eða hliðstæðu skjali.
    Brúarstofnun hlítir þeim reglum og sætir því eftirliti sem gildir um viðkomandi starfsemi. Gæta verður þess að starfsemi brúarstofnunar samræmist samkeppnisreglum og reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisaðstoð.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 2. mgr. 40. gr. og hluta 1. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Í skilgreiningu á brúarstofnun, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins, segir að hún sæti stjórn skilavaldsins og útfæri ákvæði 2. mgr. 45. gr. um hvernig það getur tryggt stjórn sína yfir brúarstofnun.
    Ákvæðið gildir óháð því hvort skilavaldið eigi meiri hluta hlutafjár eða haldi utan um meiri hluta atkvæða í brúarstofnun. Umbreyting krafna á hendur brúarstofnun í hlutafé hnikar til dæmis ekki stjórn skilavaldsins yfir brúarstofnun samkvæmt ákvæðinu. Eignarhald á brúarstofnun getur þó haft áhrif á það hvort skilavaldið skipar stjórn og framkvæmdarstjóra eða lætur nægja að samþykkja stjórn og framkvæmdarstjóra sem fundur félagsaðila eða stjórn leggja til. Ákvörðun skilavaldsins á ábyrgðarsviði stjórnar getur til dæmis falist í því að setja stjórnarmönnum erindisbréf við skipun þeirra eða samþykkja starfsreglur um framkvæmd starfa stjórnar.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Brúarstofnun verður að hafa lögbundið leyfi til að stunda þá starfsemi sem framselja á til hennar, sbr. einkum II. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, um starfsleyfi. Af málsgreininni leiðir að Fjármálaeftirlitið getur veitt brúarstofnun tímabundið starfsleyfi þótt hún fullnægi ekki almennum skilyrðum starfsleyfis ef það er nauðsynlegt til að skilameðferð nái markmiðum sínum. Tilgreina þarf hve lengi tímabundna starfsleyfið gildir.

Um 46. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 40. gr. tilskipunarinnar og kveður á um framsal til brúarstofnunar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. og 5. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu er framsal eignarhluta í fyrirtæki eða einingu, eða eigna, réttinda og skuldbindinga þess, í heild eða að hluta, heimilt til eins eða fleiri brúarstofnana ef það er nauðsynlegt til að viðhalda nauðsynlegri starfsemi sem fyrirtækið eða einingin starfrækti. Heimildina má nýta oftar en einu sinni vegna sama fyrirtækis eða einingar.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. og 4. mgr. 40. gr. og a-liðar 73. gr. tilskipunarinnar hvað varðar framsal til brúarstofnunar. Framsal til brúarstofnunar getur ekki farið fram á viðskiptalegum forsendum. Til að tryggja að fyrri eigendur fái samt sem áður hæfilegt endurgjald fyrir framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar skal það miðast við mat á virði þeirra skv. VII. kafla, að frádregnum réttmætum kostnaði skilavaldsins og skilasjóðs í tengslum við framsalið, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. frumvarpsins. Þeir ættu þannig að lágmarki að fá jafnmikið í sinn hlut og þeir hefðu fengið hefði fyrirtækið eða einingin verið tekin til slita eða búið tekið til gjaldþrotaskipta þegar ákveðið var að grípa til skilameðferðar, sbr. 32. gr. frumvarpsins. Andvirði framseldra eignarhluta í fyrirtæki eða einingu rennur til fyrri eigenda þeirra og andvirði framseldra eigna, réttinda og skuldbindinga fyrirtækisins eða einingarinnar til fyrirtækisins eða einingarinnar. Síðari málsliður málsgreinarinnar tryggir að brúarstofnun hefji ekki starfsemi með neikvætt eigið fé. Hann útilokar ekki að framseldar séu meiri skuldbindingar en eignir frá fyrirtæki eða einingu í skilameðferð til brúarstofnunar en þá ber að leggja brúarstofnuninni til mismuninn með öðrum hætti, svo sem með framlagi úr skilasjóði skv. 87. gr., niðurfærslu, umbreytingu fjármagnsgerninga skv. 27. gr. eða eftirgjöf skuldbindinga skv. 54. gr. Virði framseldra eigna, réttinda og skuldbindinga er metið skv. VII. kafla frumvarpsins.

Um 47. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 40. gr. tilskipunarinnar og kveður á um réttarstöðu brúarstofnunar.
     Um 1. og 2. mgr. Málsgreinarnar eru innleiðing á hluta 1. mgr., 9. og 10. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar. Brúarstofnun telst vera framhald á fyrirtæki eða einingu í skilameðferð hvað varðar framseldan rekstur. Í því felst m.a. að brúarstofnun heldur þeim rétti sem fyrirtækið eða einingin hafði til að veita þjónustu eða öðlast staðfestu í öðru aðildarríki og til þátttöku í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, kauphöllum, bótakerfum fyrir fjárfesta og innstæðutryggingakerfum, að því tilskildu að hún fullnægi skilyrðum fyrir þátttöku. Brúarstofnun er þó undanþegin þeim þátttökuskilyrðum að hafa mat frá lánshæfismatsfyrirtæki eða að lánshæfismat nái tilteknu stigi. Heimilt er að skylda greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi, kauphallir, bótakerfi fyrir fjárfesta og innstæðutryggingakerfi til að veita brúarstofnun aðgang að kerfunum til allt að 24 mánaða þótt hún uppfylli ekki skilyrði fyrir þátttöku. Skilavaldinu er heimilt að framlengja þann frest sæki brúarstofnun um það.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 12. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar. Hún takmarkar bótaábyrgð brúarstofnunar og stjórnenda hennar gagnvart félagsaðilum og lánardrottnum þess fyrirtækis eða einingar sem tekið var til skilameðferðar.

Um 48. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 40. og hluta 41. gr. tilskipunarinnar og kveður á um sölu brúarstofnunar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing b-liðar 6. mgr. 40. gr., hluta 2. og 5.–7. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Brúarstofnun er tímabundið úrræði. Selja á hana eða eignir, réttindi og skuldbindingar sem framseldar hafa verið til hennar, þar á meðal eignarhluti í fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, einum eða fleiri einkaaðilum þegar aðstæður leyfa og í síðasta lagi innan tveggja ára frá framsali til brúarstofnunar.
    Hafi framsal til brúarstofnunar átt sér stað í áföngum miðast tveggja ára fresturinn við lok síðasta framsals frá viðkomandi fyrirtæki eða einingu. Hafi framsal til brúarstofnunar átt sér stað frá fleiri en einu fyrirtæki eða einingu miðast tveggja ára fresturinn við framsal frá hverju fyrirtæki eða einingu fyrir sig. Hafi eignir, réttindi og skuldbindingar frá fyrirtæki A t.d. verið framseldar til brúarstofnunar í tveimur áföngum um mitt ár 2019 og í byrjun árs 2020 og eignarhlutir í fyrirtæki B verið framseldir til brúarstofnunarinnar í einu lagi í lok árs 2020 þyrfti að selja eignirnar og skuldbindingarnar frá fyrirtæki A fyrir byrjun árs 2022 og eignarhlutina í fyrirtæki B fyrir lok árs 2022.
    Skilavaldinu er heimilt að framlengja frestinn um ár í senn. Það mætti til dæmis gera ef kaupandi þyrfti meiri tíma til að búa sig undir að taka við nauðsynlegri starfsemi frá brúarstofnun eða ef ekki væri fyrirséð að unnt yrði að selja eignir, réttindi og skuldbindingar innan frestsins. Í rökstuðningi fyrir framlengingu verður að koma fram ítarlegt mat á þeim aðstæðum, þar á meðal markaðsaðstæðum og -horfum, sem réttlæta framlenginguna.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Sala brúarstofnunar eða eigna, réttinda og skuldbindinga hennar á að fara fram á viðskiptalegum forsendum. Söluferlið skal vera eins gagnsætt og opið og aðstæður leyfa og lýsa skal með greinargóðum hætti þeim eignum, réttindum og skuldbindingum sem eru til sölu. Leitast skal við að hámarka söluverðið, án þess þó að sala dragist óhæfilega. Í því skyni getur skilavaldið eða brúarstofnun haft samband við mögulega kaupendur. Söluferlið skal þó ekki hygla eða mismuna mögulegum kaupendum á ótilhlýðilegan hátt og vera laust við hagsmunaárekstra. Þannig verður til dæmis að tryggja að tengsl starfsmanna skilavaldsins eða brúarstofnunar við mögulega kaupendur hafi ekki óeðlileg áhrif á söluferlið. Sala getur farið fram í einu lagi eða í áföngum og markaðssetja má eigna- og skuldbindingasöfn hvert í sínu lagi.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing a-liðar 6. mgr. og 7. mgr. 40. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið heimilar að láta framsal til brúarstofnunar ganga til baka, í heild eða að hluta, hafi skýrlega verið gerður fyrirvari um það í ákvörðun um framsalið eða hafi skilyrðum fyrir framsali viðkomandi eigna, réttinda eða skuldbindinga samkvæmt ákvörðuninni ekki verið fullnægt. Hið síðarnefnda gæti til dæmis átt við hafi eignir, réttindi eða skuldbindingar sem ekki átti að framselja samkvæmt ákvörðun skilavaldsins verið framseldar fyrir mistök.
    Fyrri eigendum er skylt að taka við viðkomandi eignum, réttindum og skuldbindingum og endurgreiða það endurgjald sem þeir kunna að hafa fengið fyrir. Ákvæðið er því íþyngjandi og skapar óvissu fyrir fyrri eigendur. Því ætti að gæta hófs við beitingu þess og láta hana ekki dragast að óþörfu.

Um 49. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 41. gr. tilskipunarinnar og kveður á um slit brúarstofnunar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 3., 5., 6. og 8. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Selja á brúarstofnun eða eignir, réttindi og skuldbindingar sem framseldar hafa verið til hennar þegar aðstæður leyfa og í síðasta lagi innan tveggja ára frá framsali til brúarstofnunar, eða eftir atvikum innan viðbótarfrests sem veittur hefur verið, sbr. 1. mgr. 48. gr. frumvarpsins. Þegar öllum eignum, réttindum og skuldbindingum brúarstofnunar sem nokkru varða hefur verið ráðstafað hefur hún lokið hlutverki sínu og skal slitið samkvæmt B-hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Hið sama gildir ef ekki tekst að selja eignir, réttindi og skuldbindingar hennar innan frestsins skv. 1. mgr. 48. gr. frumvarpsins. Eftir að kröfur hafa verið greiddar við slit brúarstofnunar rennur það sem eftir stendur til félagsaðila.
    Ákvæðið á ekki við ef brúarstofnunin sjálf er að fullu seld til einkaaðila. Þá telst hún ekki lengur brúarstofnun, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins, og ákvæði þessa hluta frumvarpsins, þ.e. C-hluta X. kafla, um brúarstofnun eiga því ekki lengur við.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 9. mgr. 41. gr. tilskipunarinnar. Hafi brúarstofnun verið nýtt til að taka við eignarhlutum eða eignum, réttindum og skuldbindingum frá fleiri en einu fyrirtæki eða einingu getur sú staða komið upp að ekki hafi tekist að selja eignarhluti eða eignir, réttindi og skuldbindingar vegna staks fyrirtækis eða einingar innan frestsins skv. 1. mgr. 48. gr. frumvarpsins án þess þó að fresturinn sé liðinn vegna eignarhluta eða eigna, réttinda og skuldbindinga frá öðrum fyrirtækjum. Þegar svo háttar til skal brúarstofnunin í heild ekki tekin til slita heldur skal eignarhlutum eða eignum, réttindum og skuldbindingum frá viðkomandi fyrirtæki eða einingu komið fyrir í sérstöku félagi sem skal tekið til slita.

Um 50. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 42. gr. tilskipunarinnar og kveður á um stofnsetningu eignaumsýslufélags þegar gripið er til skilaúrræðisins uppskiptingar eigna.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. og hluta 13. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Skilavaldið getur komið á fót eignaumsýslufélagi til að taka við eignum, réttindum og skuldbindingum frá fyrirtæki eða einingu sem er á fallanda fæti. Heimilt er að stofna nýjan lögaðila í því skyni eða notast við lögaðila sem var til fyrir.
    Hlutverk eignaumsýslufélags er að halda utan um framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar til að hámarka virði þeirra við sölu skv. 53. gr. frumvarpsins. Hlutverkið skal ekki fela í sér neins konar skyldu eða ábyrgð gagnvart félagsaðilum eða lánardrottnum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð og er eðlilegt að það endurspeglist í lýsingu á tilgangi félagsins í samþykktum þess eða hliðstæðu skjali.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Í skilgreiningu á eignaumsýslufélagi skv. 12. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að það sæti stjórn skilavaldsins og er útfært í ákvæði þessu hvernig það geti tryggt stjórn sína yfir eignaumsýslufélagi.
    Ákvæðið gildir óháð því hvort skilavaldið á meiri hluta hlutafjár eða heldur utan um meiri hluta atkvæða í eignaumsýslufélagi. Eignarhald á eignaumsýslufélagi getur þó haft áhrif á það hvort skilavaldið skipar stjórn og framkvæmdarstjóra eða lætur nægja að samþykkja stjórn og framkvæmdarstjóra sem fundur félagsaðila eða stjórn gera tillögu um. Ákvörðun skilavalds á ábyrgðarsviði stjórnar getur til dæmis falist í því að það setji stjórnarmönnum erindisbréf við skipun þeirra eða samþykki starfsreglur um framkvæmd á störfum stjórnar.

Um 51. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 42. gr. og hluta 73. gr. tilskipunarinnar og kveður á um beitingu á skilaúrræðinu uppskiptingu eigna.
     Um 1. mgr. Fyrri málsliður málsgreinarinnar er innleiðing á hluta 1. mgr., 5. og 8. mgr. og hluta 9. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Hann heimilar framsal eigna, réttinda og skuldbindinga fyrirtækis, einingar eða brúarstofnunar, í heild eða að hluta, til eins eða fleiri eignaumsýslufélaga. Heimildina má nýta oftar en einu sinni vegna sama fyrirtækis, einingar eða brúarstofnunar ef talin er þörf á frekara framsali. Málsliðurinn heimilar ekki framsal á eignarhlutum í fyrirtæki eða einingu í skilameðferð eða brúarstofnun til eignaumsýslufélags.
    Til framsalsins þarf eitt af eftirtöldu að eiga við:
     1.      Aðstæður á mörkuðum fyrir viðkomandi eignir, réttindi og skuldbindingar eru þannig að ráðstöfun þeirra við slitameðferð gæti haft neikvæð áhrif á einum eða fleiri fjármálamörkuðum. Það gæti til dæmis átt við ef slík ráðstöfun væri líkleg til að lækka verulega verð fyrir viðkomandi eignarflokka með tilfinnanlega neikvæðum áhrifum á stöðu annarra markaðsaðila. Við mat á skilyrðinu er hægt að hafa hliðsjón af viðmiðunarreglum EBA/GL/2015/05 sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út á grundvelli 14. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. 10
     2.      Framsal til eignaumsýslufélags er nauðsynlegt til að tryggja eðlilega starfsemi fyrirtækis eða einingar í skilameðferð eða brúarstofnunar. Það gæti til dæmis átt við ef eignarhald fyrirtækis eða einingar á áhættusömum eignum skapaði óvissu um fjárhagsstöðu þess sem torveldaði fjármögnun.
     3.      Framsal til eignaumsýslufélags er nauðsynlegt til að hámarka söluandvirði eigna. Tímabundið eignarhald eignaumsýslufélags gæti greitt fyrir skipulegri sölu við eðlilegar markaðsaðstæður og þannig skilað hærra verði en ráðstöfun við slitameðferð.
    Síðari málsliður málsgreinarinnar er innleiðing 5. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar. Uppskiptingu eigna má einungis beita í tengslum við önnur skilaúrræði, þ.e. sölu rekstrar, framsal til brúarstofnunar og/eða eftirgjöf, til að takmarka skaðleg áhrif á samkeppni og freistnivanda.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 6. og 7. mgr. 42. gr. og a-liðar 73. gr. tilskipunarinnar hvað varðar uppskiptingu eigna. Uppskipting eigna getur ekki farið fram á viðskiptalegum forsendum. Til að tryggja að fyrirtæki eða eining í skilameðferð fái samt sem áður hæfilegt endurgjald fyrir framseldar eignir, réttindi og skuldbindingar skal endurgjaldið þess í stað miðast við mat á virði þeirra skv. VII. kafla, að frádregnum réttmætum kostnaði skilavalds og skilasjóðs í tengslum við framsalið, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. frumvarpsins. Félagsaðilar og lánardrottnar fyrirtækisins eða einingarinnar ættu þannig ekki að verða fyrir meira tapi vegna framsalsins en þeir hefðu orðið fyrir hefði fyrirtækið eða einingin verið tekin til slita eða búiðtekið til gjaldþrotaskipta þegar ákveðið var að grípa til skilameðferðar, sbr. 32. gr. frumvarpsins. Endurgjald frá eignaumsýslufélagi getur, í heild eða að hluta, verið í formi skuldabréfa eða annarra skuldagerninga sem það gefur út. Endurgjaldið kann að vera ekkert eða neikvætt.

Um 52. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 13. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Hún takmarkar bótaábyrgð eignaumsýslufélags og stjórnenda þess gagnvart félagsaðilum og lánardrottnum þess fyrirtækis eða einingar sem var í skilameðferð.

Um 53. gr.

    Greinin kveður á um sölu eignaumsýslufélags og er innleiðing á hluta 42. gr. tilskipunarinnar ásamt því sem lagt er til ákvæði til fyllingar þeim efnisatriðum sem fjallað er um í tilskipuninni.
     Um 1. mgr. Málsgreinina skortir beina hliðstæðu í tilskipuninni. Eignaumsýslufélag er tímabundið úrræði. Selja á það eða eignir, réttindi og skuldbindingar sem framseldar hafa verið til þess einum eða fleiri aðilum þegar aðstæður leyfa. Við mat á því þarf að horfa til markaðsaðstæðna og markmiða 1. gr. frumvarpsins. Sölunni er ekki settur tiltekinn tímafrestur líkt og gildir við sölu brúarstofnunar skv. 1. mgr. 48. gr. enda fer eignaumsýslufélag jafnan ekki með nauðsynlega starfsemi og því ekki jafnáríðandi að finna eignum, réttindum og skuldbindingum þess varanlegt eignarhald.
     Um 2. mgr. Málsgreinina skortir beina hliðstæðu í tilskipuninni. Sala eignaumsýslufélags eða eigna, réttinda og skuldbindinga þess á að fara fram á viðskiptalegum forsendum. Söluferlið skal vera eins gagnsætt og opið og aðstæður leyfa og lýsa skal með greinargóðum hætti þeim eignum, réttindum og skuldbindingum sem eru til sölu. Leitast skal við að hámarka söluverðið, án þess þó að sala dragist óhæfilega. Í því skyni getur skilavald eða eignaumsýslufélag haft samband við mögulega kaupendur. Söluferlið skal þó ekki hygla eða mismuna mögulegum kaupendum á ótilhlýðilegan hátt og vera laust við hagsmunaárekstra. Þannig verður til dæmis að tryggja að tengsl starfsmanna skilavalds eða eignaumsýslufélags við mögulega kaupendur hafi ekki óeðlileg áhrif á söluferlið. Sala getur farið fram í einu lagi eða í áföngum og markaðssetja má eigna- og skuldbindingasöfn hvert í sínu lagi.
     Um 3 mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 9. mgr. og 10. mgr. 42. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið heimilar að láta framsal til eignaumsýslufélags ganga til baka, í heild eða að hluta, hafi skilavaldið skýrlega gert fyrirvara um það í ákvörðun um framsalið eða hafi skilyrðum fyrir framsali viðkomandi eigna, réttinda eða skuldbindinga samkvæmt ákvörðuninni ekki verið fullnægt. Hið síðarnefnda gæti til dæmis átt við hafi eignir, réttindi eða skuldbindingar sem ekki átti að framselja samkvæmt ákvörðun skilavaldsins verið framseldar fyrir mistök.
    Fyrri eigendum er skylt að taka við viðkomandi eignum, réttindum og skuldbindingum og endurgreiða endurgjald sem þeir kunna að hafa fengið fyrir. Ákvæðið er því íþyngjandi og skapar óvissu fyrir fyrri eigendur. Því ætti að gæta hófs við beitingu þess og láta ákvörðun þar að lútandi ekki dragast að óþörfu.

Um 54. gr.

    Með greininni er 43. gr. tilskipunarinnar innleidd.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. og 2. mgr. 43. gr. tilskipunarinnar og felur í sér heimild til að beita eftirgjöf (e. bail-in) til að ná markmiðum 1. gr. frumvarpsins. Eftirgjöf felur í sér niðurfærslu og/eða umbreytingu skuldbindinga hjá fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, sbr. a-lið 33. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Unnt er að beita eftirgjöf með tvenns konar hætti. Annars vegar til þess að endurfjármagna fyrirtæki eða einingu í skilameðferð að því marki sem nægir til að þess að það fullnægi skilyrðum starfsleyfis samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þannig að það geti haldið áfram starfsemi í samræmi við hlutaðeigandi starfsleyfi og viðhaldið fullnægjandi trausti á fjármálamarkaði. Eftirgjöf samkvæmt þessari aðferð felur í sér að sá lögaðili sem er skráður fyrir starfsemi fyrirtækisins eða einingarinnar er varðveittur og rekstri er haldið áfram. Unnt er að beita þessari aðferð einni og sér án annarra skilaúrræða eða samhliða öðrum skilaúrræðum. Meginatriðið er að kjarnastarfsemin verði áfram í hlutaðeigandi fyrirtæki eða einingu. Hins vegar er unnt að beita eftirgjöf til að umbreyta höfuðstól krafna eða skuldagerninga (e. debt instruments) eða lækka höfuðstól þeirra við framsal til brúarstofnunar og fjármögnunar á henni eða við sölu rekstrar eða uppskiptingu eigna. Með fyrrnefndu aðferðinni er tilgangur eftirgjafarinnar að fjármagna brúarstofnunina en með sölu rekstrar eða uppskiptingu eigna er tilgangurinn ekki að endurfjármagna þann aðila sem tekur við hlutaðeigandi eignum og skuldbindingum með sama hætti.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 3. mgr. 43. gr. tilskipunarinnar, kveður á um viðbótarskilyrði fyrir því að unnt sé að beita eftirgjöf skv. 1. tölul. 1. mgr. þessarar greinar. Þar segir að verulegar líkur þurfi að vera fyrir því að eftirgjöf og ráðstafanir, sem grípa á til samkvæmt áætlun um endurskipulagningu rekstrar í kjölfar eftirgjafar skv. 60. gr. frumvarpsins, séu fullnægjandi til þess að endurreisa fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fyrirtækis eða einingar í skilameðferð þannig að rekstrargrundvöllurinn verði tryggður til framtíðar. Í síðari málslið málsgreinarinnar er áréttað að unnt sé að beita eftirgjöf og öðrum skilaúrræðum skv. 2. tölul. sömu málsgreinar jafnvel þótt skilyrði fyrir því að beita eftirgjöf skv. 1. tölul. málsgreinarinnar séu ekki uppfyllt.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 4. mgr. 43. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að heimilt sé að beita eftirgjöf án tillits til þess hvert félagaform fyrirtækis eða einingar í skilameðferð er og er því einnig heimilt að breyta félagaformi þess ef það er nauðsynlegt.

Um 55. gr.

    Greinin er innleiðing 46. gr. og hluta 73. gr. tilskipunarinnar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 1. og 2. mgr. 46. gr. tilskipunarinnar, kveður á um umfang eftirgjafar. Fram kemur að umfangið skuli metið í samræmi við matsreglur VII. kafla frumvarpsins. Annars vegar skal meta hversu mikið þarf að lækka hæfar skuldbindingar til þess að verðmæti hreinnar eignar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð verði núll og hins vegar hversu mikið þarf að umbreyta hæfum skuldbindingum í hlutafé eða aðra fjármagnsgerninga til þess að endurreisa almennt eigið fé þáttar 1 fyrirtækis eða einingar í skilameðferð eða brúarstofnunar. Markmið matsins er að eftirgjöf, að teknu tilliti til framlags úr skilasjóði, viðhaldi trausti fjármálamarkaðarins á hlutaðeigandi fyrirtæki eða einingu og að það geti fullnægt skilyrðum starfsleyfis síns í a.m.k. eitt ár. Sé gripið til uppskiptingar eigna skv. 51. gr. skal horft til fjármögnunarþarfar hlutaðeigandi eignaumsýslufélags með sambærilegum hætti.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing b-liðar 73. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið byggist á þeirri meginreglu að félagsaðilar og lánardrottnar eigi ekki að bera meira tap af skilaaðgerðum en þeir hefðu þurft að gera hefði fyrirtæki eða eining þess í stað verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta þegar ákveðið var að grípa til skilameðferðar. Óháður aðili metur hvort svo hafi verið til samræmis við 32. gr. frumvarpsins.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 3. mgr. 46. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að heimilt sé að bæta lánardrottnum og síðan hluthöfum það upp, að því marki sem nauðsynlegt er, þegar fjármagnsgerningar hafa verið færðir niður skv. VI. kafla og eftirgjöf beitt skv. 54. gr., ef umfang niðurfærslunnar miðað við bráðabirgðavirðismat skv. 31. gr. reynist meira en kröfurnar að teknu tilliti til niðurstöðu endanlegs virðismats skv. 32. gr.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 4. mgr. 46. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að skilavaldið eigi ávallt að hafa aðgang að upplýsingum um eignir og skuldbindingar fyrirtækis eða einingar í skilameðferð og búa yfir kerfi til að leggja mat á virði þeirra.

Um 56. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 44. gr. tilskipunarinnar og kveður á um almennar og sértækar takmarkanir á eftirgjöf.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 1. og 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar, kveður á um þær skuldbindingar sem óheimilt er að beita eftirgjöf.
     Um 1. tölul. Töluliðurinn er innleiðing a-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur tryggðar innstæður (e. covered deposits) eftirgjöf. Hugtakið „tryggð innstæða“ er skilgreint í 37. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í 2. tölul. c-liðar 2. tölul. 103. gr. frumvarps þessa eru lagðar til breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, þess efnis að innstæður að hámarki jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum teljist tryggðar samkvæmt frumvarpinu. Af því leiðir að heimilt er að beita eftirgjöf gagnvart sérhverri innstæðufjárhæð sem fer yfir fyrrnefnt tryggingaverndarstig, sem og öðrum innstæðum sem teljast ekki tryggðar í þessum skilningi. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um c-lið 2. tölul. 103. gr. frumvarpsins.
     Um 2. tölul. Töluliðurinn er innleiðing b-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur tryggðar skuldbindingar, þ.m.t. sértryggð skuldabréf, sbr. lög um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, einkum VII. kafla þeirra laga, og fjármálagerninga sem ætlaðir eru til áhættuvarna og teljast hluti tryggingasafns og njóta sambærilegrar verndar að lögum frá eftirgjöf og sértryggð skuldabréf. Ákvæðið kemur þó ekki í veg fyrir að eftirgjöf sé beitt á þann hluta eigna í tryggingasafni sem nemur hærri fjárhæð en uppreiknaðri heildarfjárhæð höfuðstóls útgefinna sértryggðra skuldabréfa. Markmið ákvæðisins er að tryggja að aðgerðir skilavaldsins raski ekki verðmæti þeirra eignasafna sem standa til tryggingar útgefnum sértryggðum skuldabréfum.
     Um 3. tölul. Töluliðurinn er innleiðing c-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur eftirgjöf þær skuldbindingar sem eru vegna eigna sem fyrirtæki eða eining hefur umsjón með fyrir hönd viðskiptavina sinna, svo sem eigna í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum eins og þeir eru skilgreindir samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011, t.d. á safnreikningi. Áskilið er að slíkar eignir falli undir 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem kveður á um svonefndar sértökukröfur.
     Um 4. tölul. Töluliðurinn er innleiðing d-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur eftirgjöf þær skuldbindingar sem eru vegna umsýslu og vörslu fyrirtækis eða einingar á eignum fyrir annan aðila (rétthafa) á sama hátt og skuldbindingar sem falla undir skv. 3. tölul. sömu málsgreinar frumvarpsins.
     Um 5. tölul. Töluliðurinn er innleiðing e-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur eftirgjöf skuldbindingar gagnvart fyrirtækjum, öðrum en þeim sem eru í sömu samstæðu, sem greiðast skulu innan sjö daga.
     Um 6. tölul. Töluliðurinn er innleiðing f-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur skuldbindingar eftirgjöf sem gjaldfalla innan sjö daga gagnvart greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfum, sbr. lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, eða þátttakendum í slíkum kerfum vegna þátttöku þeirra í kerfunum.
     Um 7. tölul. Töluliðurinn er innleiðing i.-liðar g-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur skuldbindingar gagnvart starfsmönnum eftirgjöf, þ.m.t. ógreidd áunnin laun, iðgjald í lífeyrissjóð, áunnið orlof og önnur starfskjör. Þetta gildir þó ekki um kaupauka, sbr. 57. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, nema þeir teljist til kjarasamningsbundinna réttinda.
     Um 8. tölul. Töluliðurinn er innleiðing ii.-liðar g-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur eftirgjöf þær skuldbindingar sem eru vegna viðskiptaskuldar sem myndaðist við kaup á vöru og þjónustu sem telst nauðsynleg til daglegrar starfsemi fyrirtækisins eða einingarinnar, þ.m.t. vegna kaupa á upplýsingatækniþjónustu, húsögnum og öðrum nytjahlutum, leigu á húsnæði og kaupa á þjónustu tengdri húsnæði sem og viðhaldi á því.
     Um 9. tölul. Töluliðurinn er innleiðing iii.-liðar g-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur skuldir við skattyfirvöld og almannatryggingar eftirgjöf. Áskilið er að slíkar skuldir njóti forgangs samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
     Um 10. tölul. Töluliðurinn er innleiðing iv.-liðar g-liðar 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar og undanskilur eftirgjöf ógreidd iðgjöld til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. II. kafla laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 3. mgr. og 9. og 10. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar, kveður á um skuldbindingar sem heimilt er, við sérstakar aðstæður, að undanskilja eftirgjöf í heild eða að hluta. Í ákvæðinu eru tilgreindar ferns konar aðstæður sem réttlæta að slíkri heimild verði beitt. Í fyrsta lagi þegar skilavaldið, þrátt fyrir hafa gripið til viðeigandi úrræða, getur ekki beitt eftirgjöf á hlutaðeigandi skuldbindingu vegna tímaskorts. Í öðru lagi þegar skuldbindingin er nauðsynleg til áframhaldandi nauðsynlegrar starfsemi og kjarnastarfsemi fyrirtækis eða einingar og viðheldur getu þess til að stunda viðskipti og veita þjónustu. Í þriðja lagi ef hlutaðeigandi skuldbinding er nauðsynleg til að forða smitáhrifum, sérstaklega hvað varðar tryggingarhæfar innstæður einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga og er ætlað að stemma stigu við óstöðugleika á fjármálamörkuðum og innviðum þeirra sem gæti leitt til alvarlegra truflana á efnahagsstarfsemi á Íslandi eða Evrópska efnahagssvæðinu. Örfélög, lítil og meðalstór félög eru skilgreind í 38. tölul. 1. mgr. 3. gr. og hugtakið „tryggingarhæf innstæða“ í 36. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í fjórða lagi ef beiting eftirgjafar á skuldbindinguna leiðir til fjártjóns annarra lánardrottna umfram það sem yrði væri skuldbindingin undanskilin eftirgjöf. Undanþágur sem heimilaðar eru samkvæmt málsgreininni skulu ekki ganga lengra en þörf krefur auk þess sem ávallt skal hafa hliðsjón af eftirfarandi atriðum þegar skilavaldið heimilar þær: (1) að tap skuli fyrst borið af félagsaðilum og síðan, að jafnaði, af lánardrottnum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, (2) geta fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til að mæta tapi sem yrði viðvarandi ef skuldbindingin eða flokkur skuldbindinga yrði undanskilinn og (3) sú þörf að viðhalda fullnægjandi tekjum til að fjármagna skilameðferð fyrirtækis eða einingar.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 12. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar, kveður á um tilkynningarskyldu til Eftirlitsstofnunar EFTA áður en undanþáguheimildar skv. 2. mgr. er beitt og um málsmeðferðina ef skilyrði fyrir henni eru ekki uppfyllt og heimildin kallar á fjárframlag úr skilasjóði eða annars staðar frá.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 11. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að ráðherra skuli setja í reglugerð nánari ákvæði um undanþágu skv. 2. mgr. Gert er ráð fyrir að með þessum reglum verði innleidd í íslenskan rétt framseld reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 2016/860.

Um 57. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 44. gr. tilskipunarinnar og kveður á um sérreglur þegar heimild skv. 2. mgr. 56. gr. frumvarpsins er nýtt til að undanskilja hæfar skuldbindingar eða flokka þeirra.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 3. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að auka megi umfang eftirgjafar sem beitt er á aðrar hæfar skuldbindingar þegar skilavaldið ákveður að undanskilja í heild eða að hluta hæfar skuldbindingar eða flokka þeirra skv. 2. mgr. 56. gr. frumvarpsins. Umfang eftirgjafarinnar, sem beitt er á aðrar hæfar skuldbindingar, skal vera í samræmi við meginregluna um að engin hæf skuldbinding skuli sæta meiri niðurfærslu en orðið hefði ef fyrirtækið eða einingin hefði verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 4. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar. Þegar ákveðið er að undanskilja í heild eða að hluta hæfar skuldbindingar eða flokka þeirra eftirgjöf skv. 2. mgr. 56. gr. og fjárhæð eftirgjafar sem þessar skuldbindingar hefðu annars sætt er ekki jafnað yfir á aðrar hæfar skuldbindingar í samræmi við 1. mgr. greinarinnar er heimilt að leggja fyrirtæki eða einingu í skilameðferð til fjárframlag úr skilasjóði til að bæta þá fjárhæð sem ekki er jafnað yfir á aðrar hæfar skuldbindingar að því marki að eiginfjárstaða hlutaðeigandi fyrirtækis eða einingar í skilameðferð standi á núlli og/eða kaupa hlutafé, aðra eignarhluti eða fjármagnsgerninga útgefna af hlutaðeigandi fyrirtæki eða einingu í þeim tilgangi að endurfjármagna fyrirtækið eða eininguna.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 5. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar, kveður á um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo að heimilt sé að leggja til fjárframlag úr skilasjóði við þær aðstæður þegar hæfar skuldbindingar eða flokkar þeirra eru undanskildir og fjárhæð eftirgjafar sem þessar skuldbindingar hefðu annars sætt er ekki jafnað yfir á aðrar hæfar skuldbindingar.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 7. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að heimilt sé við óvenjulegar aðstæður að leita frekari fjárframlaga eftir öðrum leiðum og hvaða skilyrði séu fyrir því.
     Um 5. mgr. Kveðið er á um hvenær heimilt er að greiða fjárframlag úr skilasjóði. Sjóðurinn skal fyrst greiða fjárframlag þegar að lágmarki 8% af heildarskuldbindingum fyrirtækis eða einingar hafa verið niðurfærðar eða þeim umbreytt á grundvelli virðismats skv. VII. kafla frumvarpsins. Þar að auki má fjárframlagið úr skilasjóði ekki vera umfram 5% af heildarskuldbindingum fyrirtækis eða einingar. Þá er það skilyrði að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hafi lagt til það fjárframlag sem honum bar að greiða í samræmi við 82. gr. frumvarpsins.

Um 58. gr.

    Greinin er innleiðing 48. gr. tilskipunarinnar og kveður á um forgangsröð skuldbindinga þegar skilaúrræðinu eftirgjöf er beitt.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 1. mgr. 48. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að fyrst sé almennt eigið fé þáttar 1 (e. common equity tier 1) fært niður. Dugi það ekki til verði viðbótar eigið fé þáttar 1 (e. additional tier 1) fært niður. Því næst er þáttur 2 (e. tier 2) færður niður. Síðan eru víkjandi lán (e. subordinated debt), sem hvorki teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 né þáttar 2, niðurfærð og loks aðrar hæfar skuldbindingar sem eftir standa. Forgangsröð krafna við slit eða gjaldþrot samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þ.m.t. 3. mgr. 102. gr. laganna, sbr. 56. gr. frumvarpsins, skiptir máli varðandi innbyrðis forgangsröðun þegar um niðurfærslu víkjandi lána og annarra hæfra skuldbindinga er að ræða. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur EBA/GL/2017/02 á grundvelli 6. mgr. 48. gr. tilskipunarinnar, um innbyrðis tengsl tilskipunar 2014/59/ESB og tilskipunar 2013/36/ESB, sbr. reglugerð (ESB) nr. 575/2013, sem áhrif hafa á röð niðurfærslu. 11
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 48. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um að eftirgjöf hæfra skuldbindinga, sem eru innan sömu forgangsraðar, skuli niðurfærðar hlutfallslega jafnt.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 3. mgr. 48. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að áður en eftirgjöf er beitt á hæfar skuldbindingar, sem falla undir 5. tölul. 1. mgr. þessarar greinar, skuli niðurfæra hæfar skuldbindingar skv. 2.–4. tölul. sömu málsgreinar enda kveði samningsskilmálar, sem um þær gilda, á um niðurfærslu við tilteknar aðstæður.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 4. mgr. 48. gr. tilskipunarinnar, kveður á um það þegar einungis hluti hæfra skuldbindinga, sem falla undir 2.–4. tölul. 1. mgr. hefur verið niðurfærður skv. 3. mgr., skuli niðurfæra þær að fullu.

Um 59. gr.

    Greinin innleiðir 49. gr. tilskipunarinnar og kveður á um eftirgjöf skuldbindinga sem myndast hafa vegna afleiðusamninga.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 1. og 2. mgr. 49. gr. tilskipunarinnar, felur annars vegar í sér heimild til að segja upp eða gera upp afleiðusamninga við upphaf skilameðferðar fyrirtækis eða einingar og hins vegar beita eftirgjöf gagnvart skuldbindingum sem myndast vegna afleiðusamninga við eða eftir uppgjör þeirra.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 3. mgr. 49. gr. tilskipunarinnar, kveður á um sérreglu við mat á skuldbindingu vegna afleiðuviðskipta sem eru hluti af greiðslujöfnunarsamningum (e. netting agreements), sbr. skilgreiningu í 48. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 4. mgr. 49. gr. tilskipunarinnar, kveður almennt á um til hvers skuli horfa við mat á skuldbindingu sem myndast hefur vegna afleiðusamninga.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 5. mgr. 49. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að Seðlabankinn skuli setja nánari reglur um aðferðafræði og meginreglur við mat skv. 3. mgr. greinarinnar. Gert er ráð fyrir að með þessum reglum verði innleidd í íslenskan rétt framseld reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 2016/1401.

Um 60. gr.

    Greinin er innleiðing 51. og 52. gr. tilskipunarinnar og kveður á um endurskipulagningu rekstrar fyrirtækis eða einingar við eftirgjöf.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 51. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að við beitingu eftirgjafar í því augnamiði að endurfjármagna fyrirtæki eða einingu skuli skilavaldið fela stjórn þess að endurskipuleggja reksturinn og vinna eftir áætlun þar um. Einnig er heimilt að skipa sérfræðing, einn eða fleiri, skv. 2. mgr. 37., sbr. 38. gr. frumvarpsins, til þess að gera slíka áætlun og vinna eftir henni í stað stjórnar hlutaðeigandi fyrirtækis eða einingar. Sérfræðingarnir sitja þá í skilastjórn.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 4.–6. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um efni áætlunar um endurskipulagningu rekstrar fyrirtækis eða einingar. Í áætluninni skal tilgreina þær aðgerðir sem grípa þarf til í þeim tilgangi að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækis eða einingar. Áætlunin skal byggjast á raunhæfu mati á efnahags- og fjárhagslegum skilyrðum á þeim markaði sem fyrirtækið eða einingin starfar á. Hún skal taka mið af núverandi aðstæðum á fjármálamarkaði og framtíðarhorfum, með tilliti til sviðsmynda um bestu og verstu skilyrði, þar sem horft er til helstu veikleika í rekstri fyrirtækisins eða einingarinnar. Áætlunin skal a.m.k. innihalda ítarlega greiningu á þeim þáttum og vandamálum fyrirtækisins eða einingarinnar sem leiddu til þess að fyrirtækið eða einingin var á fallanda fæti og þær aðstæður sem komu fyrirtækinu eða einingunni í þá erfiðleika, lýsingu á þeim aðgerðum sem fyrirhugað er að ráðast í til þess að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækisins eða einingarinnar til framtíðar, t.d. breytingu á rekstrarkerfum og innviðum, hvort leggja eigi af starfsemi sem rekin er með tapi, selja eignir eða gera aðrar breytingar á rekstri, auk þess sem tímalína aðgerða skal koma fram í áætluninni.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 1. og 3. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að innan mánaðar frá beitingu eftirgjafar skuli stjórn fyrirtækis eða einingar eða skilastjórn afhenda skilavaldinu áætlun um endurskipulagningu rekstrar. Heimilt er að framlengja þennan frest við sérstakar aðstæður.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 7. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að innan mánaðar frá móttöku áætlunar um endurskipulagningu rekstrar skuli meta, í samráði við Fjármálaeftirlitið, sbr. 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins, hvort sennilegt sé að áætlunin nái að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækisins eða einingarinnar til framtíðar. Skilavaldið skal samþykkja áætlunina telji það hana raunhæfa og líklega til standast. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur EBA/GL/2015/21 á grundvelli 13. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, um lágmarksviðmið þegar lagt er mat á áætlanir um endurskipulagningu rekstrar. 12
     Um 5. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 8. og 9. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um málsmeðferðina þegar áætlun um endurskipulagningu rekstrar telst ófullnægjandi og krafist er úrbóta á henni.
     Um 6. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 10. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um framvinduskýrslu sem skila skal til skilavaldsins á sex mánaða fresti.
     Um 7. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 11. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að skilavaldið geti krafist endurskoðunar á áætlun um endurskipulagningu rekstrar eftir að hún hefur komið til framkvæmda, teljist það nauðsynlegt. Allar breytingar sem gerðar eru á áætluninni eftir slíka endurskoðun skulu samþykktar af skilavaldinu.
     Um 8. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 2. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um gerð áætlunar um endurskipulagningu rekstrar þegar eftirgjöf er beitt gagnvart fleiri en einu fyrirtæki eða einingu innan samstæðu. Slíka áætlun skal móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu gera og skal hún og ná til allra fyrirtækja, þ.e. lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, innan samstæðunnar. Hugtakið „móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu“ er skilgreint í 25. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Áætlunin skal send til samstæðuskilavalds, sbr. 28. tölul. 1. mgr. 3. gr., sem miðlar henni áfram til annarra skilastjórnvalda þar sem samstæðan er með starfsemi og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.
     Um 9. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 14. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að Seðlabankinn skuli gefa út reglur sem kveða nánar á um efni áætlunar og skýrslugjafar skv. 2. og 6. mgr. greinarinnar. Gert er ráð fyrir að með þessum reglum verði reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 2016/1400 innleidd í íslenskan rétt.

Um XI. kafla.

    Í kaflanum felast almennar skilaheimildir, viðbótarheimildir ásamt reglum sem teljast nauðsynlegar til að framkvæma þær skilaaðgerðir sem kveðið er á um í frumvarpinu. Allar heimildir kaflans teljast til skilaheimilda eins og hugtakið er skilgreint í 31. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Ýmsar heimildir í 61. gr. frumvarpsins má leiða af öðrum greinum frumvarpsins, t.d. í VI. og X. kafla um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga og skilaúrræði. Aðrar heimildir kaflans sem eru að hluta til í 61. gr. og 62. gr. eru sjálfstæðar skilaheimildir. Má þar meðal annars nefna heimild til að víkja stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra fyrirtækis eða einingar frá störfum, heimild til að krefjast slita á fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, heimild til að stöðva viðskipti með fjármálagerninga eða taka þá úr viðskiptum og heimild til að tryggja að viðtakandi rekstrar, sem hefur verið framseldur til hans, hafi aðgang að allri þjónustu eða aðstöðu sem nauðsynleg er til að hann geti áfram rekið framseldan rekstur. Í kaflanum er einnig að finna þrjú ákvæði sem gilda bæði um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla og eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla frumvarpsins. Ákvæðin er að finna í 63.–65. gr. og varða stöðu félagsaðila, mismunandi umreikningsgengi sem heimilt er að beita og réttaráhrif niðurfærslu og umbreytingar, þ.m.t. við eftirgjöf. Að endingu koma fram ákvæði í kaflanum um takmarkanir á gildissviði annarra laga og beiðni til dómstóls um frestun á málsmeðferð.

Um 61. gr.

    Greinin er innleiðing 63. gr., sbr. þó j-lið 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar sem innleiddur er í 68. gr. frumvarpsins, hluta 34. og hluta 86. gr. tilskipunarinnar. Greininni er ætlað að tryggja að skilavaldið hafi yfir að ráða heimildum til að tryggja eins skilvirka skilameðferð og kostur er í samræmi við markmið 1. gr. frumvarpsins.
     Um 1. mgr. Í ákvæðinu eru tilgreindar almennar og nauðsynlegar skilaheimildir sem eru undirstaða þess að hægt sé að hrinda í framkvæmd þeim skilaaðgerðum sem kveðið er á um í frumvarpinu. Hugtakið „skilaheimild“ er skilgreint í 31. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins og innan þeirrar skilgreiningar rúmast fleiri heimildir en er að finna í þessari grein. Ýmsar heimildir í 1. mgr. greinarinnar leiða af öðrum greinum frumvarpsins en rétt þykir að taka þessar almennu heimildir upp í eina grein enda nauðsynlegt að grundvallarheimildir skilavaldsins komi skýrt fram. Tilteknar heimildir ákvæðisins, þ.e. heimildir skv. 8. tölul. að hluta, 9 tölul. og 12.–14. tölul. ákvæðisins, eru sjálfstæðar heimildir sem ekki má leiða af öðrum greinum frumvarpsins. Skilaheimildunum almennt, þ.m.t. heimildum þessarar greinar, er hægt að beita sjálfstætt eða í sameiningu eftir mat á því hvaða heimildir séu best til þess fallnar að uppfylla markmið frumvarpsins, verði það að lögum.
     Um 1. tölul. Töluliðurinn, ásamt 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins, er innleiðing a-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið heimilar skilavaldinu að krefjast upplýsinga sem eru nauðsynlegar vegna undirbúnings og framkvæmdar skilameðferðar. Tilskipunin kveður á um ítarlegar heimildir til upplýsingaöflunar og ber að skoða ákvæðið í samhengi við 7. og 12. gr., þ.m.t. áskilnað um reglugerð ráðherra skv. 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
     Um 2. tölul. Töluliðurinn er innleiðing b-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Heimild ákvæðisins til að öðlast yfirráð yfir fyrirtæki eða einingu í skilameðferð og beita öllum réttindum og heimildum félagsaðila og stjórnar fyrirtækis eða einingar ber að skoða í samhengi við 37. og 38. gr. frumvarpsins sem ætlað er að tryggja að hægt sé að hrinda í framkvæmd ráðstöfunum gagnvart fyrirtækinu eða einingunni.
     Um 3. tölul. Töluliðurinn er innleiðing c-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið heimilar framsal á eignarhlutum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Heimildin gildir fyrst og fremst um sölu rekstrar og brúarstofnun, sbr. B- og C-hluta X. kafla frumvarpsins, en henni getur einnig verið beitt við aðrar aðstæður, t.d. við eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla, ásamt niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla frumvarpsins.
     Um 4. tölul. Töluliðurinn er innleiðing d-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið heimilar framsal á réttindum, eignum eða skuldbindingum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til annars lögaðila með samþykki þess fyrirtækis eða einingar sem framselt er til. Ákvæðinu er ætlað að hafa víðtækt gildi þar sem heimildin tengist nokkrum ráðstöfunum, t.d. sölu rekstrar, framsali til brúarstofnunar og uppskiptingu eigna.
     Um 5. tölul. Töluliðurinn er innleiðing e-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Heimild ákvæðisins um niðurfærslu skuldbindinga skal skoða í samhengi við ákvæði frumvarpsins um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga, sbr. VI. kafla, og eftirgjöf, sbr. E-hluta X. kafla. Ákvæðið gildir um allar skuldbindingar, m.a. hæfar skuldbindingar en það hugtak er skilgreint í 17. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins og geta skuldbindingarnar verið færðar niður að fullu eða í núll.
     Um 6. tölul. Töluliðurinn er innleiðing f-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið heimilar umbreytingu skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð í eignarhluti í því fyrirtæki, einingu eða móðurfélaginu. Þá er heimilt að umbreyta skuldbindingum í eignarhluti í brúarstofnun sem eignir, réttindi og skuldbindingar eru framseldar til. Ákvæðið ber að skoða í samhengi við niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga, sbr. VI. kafla, og eftirgjöf, sbr. E-hluta X. kafla.
     Um 7. tölul. Töluliðurinn er innleiðing g-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Heimild ákvæðisins til að ógilda skuldaskjöl, þó ekki skuldbindingar sem eru undanskildar eftirgjöf skv. 1. mgr. 56. gr. frumvarpsins, ber að skoða í samhengi við heimildir um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga, sbr. VI. kafla., eftirgjöf, sbr. E-hluta X. kafla og 63. gr. frumvarpsins.
     Um 8. tölul. Töluliðurinn er innleiðing h-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Heimild ákvæðisins skal skoða í samhengi við 39. gr. og VI. kafla frumvarpsins. Einnig ber að skoða heimildina í samhengi við þá meginreglu að félagsaðilar skuli fyrstir bera tap vegna skilameðferðar, sbr. 80. gr. frumvarpsins. Á grundvelli heimildar til lækkunar á nafnvirði eignarhluta getur nafnverðið verið fært niður í núll. Eignarhlutir geta einnig verið afskrifaðir á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið tekur þannig bæði til lækkunar og afskriftar. Ef eignarhlutir eru lækkaðir niður í núll eru þeir enn til en virði þeirra er ekkert. Afskrift eignarhlutanna felur hins vegar í sér að réttindin líða undir lok að fullu.
     Um 9. tölul. Töluliðurinn er innleiðing i-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðinu er meðal annars ætlað að tryggja að í tengslum við ráðstafanir um niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla og við eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla séu til staðar nauðsynlegir eignarhlutir.
     Um 10. tölul. Töluliðurinn er innleiðing k-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu er skilavaldinu heimilt að segja upp eða gera upp fjárhagslega samninga eða afleiðusamninga í þeim tilgangi að beita svo 59. gr. við eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla frumvarpsins.
     Um 11. tölul. Töluliðurinn er innleiðing m-liðar 1. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Heimild ákvæðisins ber að skoða í samhengi við 42. gr. frumvarpsins. Að ósk skilavaldsins skal Fjármálaeftirlitið flýta mati sínu á hæfi kaupanda sem keypt hefur rekstur fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Á grundvelli heimildar ákvæðisins getur Fjármálaeftirlitið vikið frá tímafrestum skv. VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og kaup á virkum eignarhlut komið fyrr til framkvæmda en leiðir af ákvæðum þess kafla.
     Um 12. tölul. Töluliðurinn er innleiðing l-liðar 1. mgr. 63. gr. og c-liðar 1. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið heimilar að stjórn og framkvæmdastjóra sé vikið frá störfum og ber að skoða það í samhengi við 37. og 38. gr. þegar skilavaldið hefur tekið við stjórn fyrirtækis eða einingar, beint eða óbeint. Almennt skal skipta stjórn og framkvæmdastjóra í fyrirtæki eða einingu sem er til skilameðferðar út fyrir nýja. Heimilt er þó að halda í stjórnendahópinn, í heild eða að hluta, ef það er nauðsynlegt til að skilameðferð skili tilætluðum árangri, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
     Um 13. tölul. Töluliðurinn er innleiðing d-liðar 1. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið felur í sér að stjórnendur fyrirtækis eða einingar í skilameðferð skulu veita skilavaldinu, og skilastjórn ef við á, þá aðstoð sem þarf til að vinna að markmiðum skilameðferðar skv. 1. gr. frumvarpsins.
     Um 14. tölul. Töluliðurinn, ásamt 2. málsl. 2. mgr. 84. gr. frumvarpsins, er innleiðing 1. mgr. 86. gr. tilskipunarinnar um að fyrirtæki eða eining í skilameðferð skuli ekki sæta hefðbundinni ógjaldfærnimeðferð nema að frumkvæði skilavaldsins. Almennt ætti það að krefjast slita á fyrirtæki þegar sá hluti rekstrar þess sem ætti að viðhalda hefði verið seldur öðru fyrirtæki eða framseldur til brúarstofnunar. Um slitameðferðina fer að öðru leyti samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eftir því sem við getur átt. Heimild ákvæðisins gildir við skilameðferð fyrirtækis eða einingar og takmarkar því ekki sjálfstæðar heimildir til að krefjast slita skv. 2. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ef fyrirtæki er ekki í skilameðferð. Ef fyrirtæki hefur ekki verið tekið til skilameðferðar og skilaaðgerðum beitt er Fjármálaeftirlitið því enn hið lögbæra yfirvald sem krefst slita á fjármálafyrirtæki.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 2. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að engar kröfur, þ.m.t. um málsmeðferðarreglur, hindri viðeigandi beitingu skilaheimilda sem þurfa að öllum líkindum að komast til framkvæmda á skömmum tíma. Því leiðir af ákvæðinu að heimilt er að beita skilaheimildum án þess að heimild eða samþykki liggi fyrir frá viðeigandi aðilum, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, nema annað leiði af frumvarpinu, sbr. t.d. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins um staðfestingu ráðherra á tilteknum ákvörðunum. Þar að auki er skilavaldið ekki bundið af kröfum, þ.m.t. um málsmeðferðarreglur, um fyrirframtilkynningar til viðeigandi aðila, sbr. 2. tölul. ákvæðisins, nema annað leiði af frumvarpinu. Þrátt fyrir framangreint skal skilavaldið þó afla heimildar viðeigandi aðila ef tími gefst fyrir slíkar tilkynningar. Notast er við orðið „aðilar“ þar sem því er ætlað að hafa víðtæka skírskotun og getur átt við opinbera aðila eða einkaaðila, þ.m.t. verðbréfaskráningu eða kauphöll þegar við á.
     Um 3. mgr. Í málsgreininni, sem er innleiðing á hluta 2. mgr. 63. gr. tilskipunarinnar, er að finna sérreglu sem tekur til framsals. Þegar heimildum skv. 1. mgr., sem varða framsal, er beitt er slíkt heimilt án takmarkana eða kröfu um samþykki fyrir framsalinu, sem annars kynni að eiga við, nema annað leiði af frumvarpi þessu.

Um 62. gr.

    Greinin er innleiðing 64. gr. tilskipunarinnar, sbr. þó f-lið sem innleiddur er í 68. gr. frumvarpsins, og 65. gr. tilskipunarinnar.
     Um 1. mgr. Í ákvæðinu eru ýmsar viðbótarheimildir sem ætlað er að tryggja að hægt sé að koma almennum skilaheimildum skv. 61. gr. til framkvæmda.
     Um 1. tölul. Töluliðurinn er innleiðing a-liðar 1. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að tryggja að framsal geti farið fram án skuldbindinga og ábyrgða sem hafa áhrif á viðkomandi fjármálagerning, réttindi, eignir eða skuldir. Í ákvæði 75. gr. frumvarpsins er þó að finna takmörkun á þessum rétti. Mögulegur réttur til bóta í samræmi við frumvarp þetta felur ekki í sér skuldbindingu eða ábyrgð í skilningi ákvæðisins.
     Um 2. tölul. Töluliðurinn er innleiðing b-liðar 1. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar. Heimilt er að afnema réttindi og auka við eignarhluti. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að ekki séu fyrir hendi aðrir samningar eða gerningar sem gefa rétt til eignarhluta og geta komið í veg fyrir skilvirka skilameðferð.
     Um 3. tölul. Töluliðurinn er innleiðing c-liðar 1. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er heimild til að beina því til Fjármálaeftirlitsins að stöðva viðskipti með fjármálagerninga eða taka þá úr viðskiptum. Í þessu samhengi er þó rétt að hafa í huga að náið samstarf skal vera á milli skilavaldsins og Fjármálaeftirlitsins og því líklegra að um sameiginlega ákvörðun verði að ræða.
     Um 4. tölul. Töluliðurinn er innleiðing e-liðar 1. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar. Að kröfu skilavaldsins skal fyrirtæki í skilameðferð og mótaðili þess viðhafa gagnkvæma skyldu til upplýsingagjafar og aðstoðar.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að beita má heimildum skv. 1. mgr. í tvíþættum tilgangi. Annars vegar ef slíkt er nauðsynlegt til að tryggja beitingu skilaaðgerða og hins vegar til að ná einu eða fleiri af markmiðum skilameðferðar, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Gera má ráð fyrir að þessi tvíþætti tilgangur fari saman og beiting heimildanna falli því að báðum atriðum.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 65. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að skilavaldið skuli hafa aðgang að allri þeirri þjónustu eða aðstöðu fyrirtækis eða einingar innan samstæðu, sem nauðsynlegur er, til að viðtakandi geti áfram starfrækt þann rekstur sem er framseldur til hans. Fer það saman við grundvallarmarkmið frumvarpsins um að skilavaldið leitist við að tryggja að áframhald verði á nauðsynlegri starfsemi fyrirtækis eða einingar. Þjónusta og aðstaða samkvæmt ákvæðinu takmarkast við hvers konar rekstrarþjónustu eða rekstraraðstöðu og fellur því fjárstuðningur, hvers eðlis sem hann kann að vera, ekki undir ákvæðið. Ef þjónustan og aðstaðan hefur verið veitt fyrirtæki eða einingu á grundvelli samnings skal sama þjónusta og aðstaða veitt skilavaldinu á sömu kjörum og grundvallast á samningnum. Þjónustan og aðstaðan skal vara í þann tíma sem samningur milli fyrirtækis eða einingar og þjónustuveitanda er í gildi. Ef enginn samningur er milli fyrirtækis eða einingar og þjónustuveitanda eða samningstími er liðinn skal afhending til skilavaldsins vera á sanngjörnum kjörum. Hafa má hliðsjón af viðmiðunarreglum EBA/GL/2015/06 sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út á grundvelli 5. mgr. 65. gr. tilskipunarinnar um mat á þeirri lágmarksþjónustu og -aðstöðu sem þykir nauðsynleg til að gera viðtakanda kleift að starfrækja á skilvirkan hátt þann rekstur sem framseldur er til hans. 13
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing d-liðar 1. mgr. og 3. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að tryggja skal fyrirkomulag við beitingu skilaheimilda sem leiðir til þess að viðtakandi geti áfram rekið framseldan rekstur. Þetta felur í sér að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að gera viðtakanda kleift að taka við stöðu fyrirtækis eða einingar hvað samninga fyrirtækisins eða einingarinnar varðar og þarf slíkt að koma fram í samningsbundnum skjölum, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, þannig að viðtakandi verði aðili í stað fyrirtækis eða einingar í skilameðferð vegna hvers konar málarekstrar í tengslum við framsal, sbr. 2. tölul. ákvæðisins. Með því er meðal annars ætlunin að tryggja að viðtakandi sé réttur aðili að dómsmáli, sbr. III. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
     Um 5. mgr. Af málsgreininni sem er innleiðing 4. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar, leiðir að ákvæði þessarar greinar sé ekki ætlað að hafa áhrif á samningsbundin réttindi sem leiða má af samningi, þ.m.t. uppsagnarrétti starfsmanna fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Ákvæðið takmarkast þó af þeim réttindum sem kveðið er á um í 70.–73. gr. XII. kafla frumvarpsins, sem heimilt er að fresta í stuttan afmarkaða tíma.

Um 63. gr.

    Greinin er innleiðing 47. gr. tilskipunarinnar og kveður á um stöðu félagsaðila við eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla og niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga skv. VI. kafla frumvarpsins.
     Um 1. og 2. mgr. Málsgreinarnar, sem eru innleiðing 1. og 2. mgr. 47. gr. tilskipunarinnar, kveða á um tvær aðferðir sem heimilt er að beita við eftirgjöf og niðurfærslu eða umbreytingu fjármagnsgerninga. Aðferðirnar eru annars vegar að afskrifa hlutafé eða aðra eignarhaldsgerninga í fyrirtækinu eða einingunni eða framselja gerningana til lánardrottna sem hafa sætt eftirgjöf og hins vegar þynna út eignarhluta félagsaðila enda verði hrein eign fyrirtækisins eða einingarinnar jákvæð samkvæmt virðismati, sbr. VI. kafla frumvarpsins. Umbreyting samkvæmt síðarnefndu aðferðinni skal fara fram á umreikningsgengi sem þynnir verulega út hlutafé eða aðra eignarhluta, sbr. 64. gr. Sömu aðferðum er beitt þegar um er að ræða hlutafé eða aðra eignarhluti, sem annars vegar hafa orðið til vegna umbreytingar skuldagerninga í hlutafé eða aðra eignarhluti í samræmi við samningsákvæði gerninganna, áður eða á sama tíma og metið er hvort skilyrði skilameðferðar gagnvart hlutaðeigandi fyrirtæki eða einingu er uppfyllt, og hins vegar vegna umbreytingar fjármagnsgerninga í almennt eigið fé þáttar 1. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur EBA/GL/2017/04 á grundvelli 6. mgr. 47. gr. tilskipunarinnar. Reglurnar kveða nánar á um stöðu félagsaðila við eftirgjöf og niðurfærslu eða umbreytingu, sem unnt er að taka mið af við framkvæmd ákvæðisins. 14
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 3. mgr. 47. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að taka beri mið af ákvæðum VII. kafla, 1. mgr. 28. gr. og 55. gr. frumvarpsins þegar mat er lagt á það til hvaða aðgerða skuli grípa skv. 1. mgr. greinarinnar.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 4. og 5. mgr. 47. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að ákvæði 42. gr. frumvarpsins gildi þegar eftirgjöf eða umbreyting leiðir til þess að viðtakandi eignast eða eykur við virkan eignarhlut sinn í fyrirtækinu, sbr. VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Vísast að öðru leyti til umfjöllunar um 42. gr. frumvarpsins.

Um 64. gr.

    Greinin er innleiðing 50. gr. tilskipunarinnar og kveður á um að við niðurfærslu eða umbreytingu skv. 27. gr. VI. kafla frumvarpsins eða beitingu eftirgjafar skv. 54. gr. E-hluta X. kafla frumvarpsins sé heimilt að notast við mismunandi umreikningsgengi fyrir mismunandi flokka fjármagnsgerninga og skuldbindinga. Heimildinni skal beitt í samræmi við tvær meginreglur. Annars vegar að umreikningsgengið endurspegli hæfilegt endurgjald til lánardrottins vegna þess taps sem hann verður fyrir og hins vegar skal umreikningsgengið vera hærra eftir því sem skuldbindingarnar standa framar í forgangsröð við slit eða gjaldþrot. Reglan er í samræmi við meginreglu frumvarps þessa um að enginn lánardrottinn skuli tapa meiru en hann hefði gert við slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur EBA/GL/2017/03 er skýra nánar umrætt umreikningsgengi sem unnt er að taka mið af við framkvæmd ákvæðisins. 15

Um 65. gr.

    Greinin er innleiðing 53. gr. tilskipunarinnar og kveður á um réttaráhrif eftirgjafar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 1. mgr. 53. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að niðurfærsla eða umbreyting fjármagnsgerninga skv. 27. gr. frumvarpsins, sbr. þó 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins, eða eftirgjöf skv. 54. gr. taki gildi þegar í stað og bindi fyrirtæki eða einingu í skilameðferð, lánardrottna og félagsaðila. Ákvæði 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins sem vísað er til í ákvæði þessu getur frestað gildistöku niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga skv. 27. gr. frumvarpsins enda veitir það skilavaldinu svigrúm til að ákveða að niðurfærsla eða umbreyting fjármagnsgerninga skuli ekki taka gildi þegar í stað og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, því gilda um málsmeðferð skilavaldsins við slíka ákvarðanatöku. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 6. gr. frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 2. mgr. 53. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að skilavaldið geti tekið allar nauðsynlegar ákvarðanir til þess að fram fari niðurfærsla, umbreyting eða eftirgjöf og er öðrum stjórnvöldum og viðeigandi aðilum skylt að liðsinna því við framkvæmdina. Í dæmaskyni má hér nefna fjármálafyrirtæki, kauphallir, verðbréfamiðstöðvar, þinglýsingarstjóra, Þjóðskrá Íslands, Einkaleyfastofu, fjarskiptafyrirtæki, stjórnir félaga sem bera ábyrgð á skráningu réttinda í hlutaskrá, hýsingaraðila léna og aðra aðila sem hafa með skráningu réttinda að gera. Við ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. haustið 2008 var tilteknum aðilum falið að skrá eða yfirfæra réttindi og/eða eignarheimildir þeirra nýju banka sem stofnaðir voru á grunni þeirra gömlu til allra fasteigna, verðbréfa, lausafjár, bankainnstæðna og/eða allra annarra réttinda.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 3. og 4. mgr. 53. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að þær skuldbindingar sem niðurfærðar eru að fullu falli endanlega niður sem og aðrar skyldur eða kröfur sem af þeim leiða. Ef skuldbinding er aðeins niðurfærð að hluta telst sú niðurfærsla endanleg en eftirstandandi gerningur eða samningur sem um skuldbindinguna gildir skal áfram gilda.

Um 66. gr.

    Greinin er innleiðing 116. og 118.–123. gr. ásamt hluta 117. gr. tilskipunarinnar og kveður á um takmarkanir á gildissviði annarra laga gagnvart lögum þessum.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 116. og 119.–123. gr. tilskipunarinnar sem gera breytingar á ákveðnum félagaréttartilskipununum Evrópusambandsins og tilskipun um tilboðsskyldu við yfirtöku vegna verðbréfa sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Viðkomandi tilskipanir eða ákvæði þeirra skulu ekki gilda ef fyrirtæki eða eining er tekin til skilameðferðar og skilaaðgerðum beitt. Tilskipanirnar hafa verið innleiddar hér á landi með lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og skulu tilgreind ákvæði því ekki gilda ef til skilameðferðar kemur.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 118. gr. tilskipunarinnar sem gerir breytingar á tilskipun 2002/47/EB sem var innleidd hér á landi með lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46/2005. Tilgreind ákvæði í lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir skulu ekki gilda ef takmarkanir á þeim réttindum sem kveðið er á um í ákvæðinu verða þegar skilaheimildum frumvarpsins er beitt.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. 117. gr. tilskipunarinnar, sbr. ný 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Ákvæði nýrra 3. og 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB breyta gildissviði endurskipulagningar fjárhags og slita en reglur um þessar heimildir eru lögfestar í XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Gildissviðið er í fyrsta lagi rýmkað með almennum hætti þannig að það taki ekki einungis til lánastofnana heldur einnig verðbréfafyrirtækja. Gerðar eru nauðsynlegar breytingar vegna þessa í l–n-lið 1. tölul. 103. gr. frumvarpsins og gildissvið endurskipulagningar fjárhags rýmkað þannig að heimildin gildi ekki einungis um lánastofnanir heldur einnig um verðbréfafyrirtæki. Ákvæði B-hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki sem varða slit gilda um öll fjármálafyrirtæki og því er ekki þörf á breytingum sem varða gildissvið á þeim undirkafla. Í öðru lagi breytir ný 4. mgr. tilskipunar 2001/24/EB gildissviðinu á sértækan hátt og skulu reglur A og B-hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki einnig gilda um fjármálastofnanir skv. b-lið 2. gr. og eignarhaldsfélög skv. c- og d-lið 2. gr. frumvarpsins ef slíkt fyrirtæki hefur verið tekið til skilameðferðar og skilaaðgerðum beitt samkvæmt tilskipun 2014/59/ESB. Lagt er til að sú breyting á gildissviði verði lögfest með þessari grein og komi þannig fram í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja enda varðar hún sérstaklega efnisatriði þeirra laga.

Um 67. gr.

    Greinin er innleiðing 3. mgr. 86. gr. tilskipunarinnar. Skilavaldið getur farið fram á að dómstóll fresti meðferð máls sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð á aðild að. Það á við óháð tegund og stigi máls og hvort sem það hófst áður en eða eftir að fyrirtæki eða eining var tekin til skilameðferðar. Viðkomandi dómstóll metur hvort nauðsynlegt sé að fresta máli til að markmið skilaaðgerðar náist, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Ekki skal fresta máli lengur en er nauðsynlegt er í því skyni.

Um XII. kafla.

    Kaflinn innleiðir hluta VI. og hluta VII. kafla IV. bálks tilskipunarinnar og kveður á um heimildir til að gera ráðstafanir vegna samninga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Á grundvelli ákvæða kaflans er skilavaldinu meðal annars heimilt að fella úr gildi eða breyta samningum, fresta greiðslu eða afhendingu samkvæmt samningum, fresta rétti lánardrottna til að ganga að tryggingum og fresta uppsagnarrétti samningsaðila. Í kaflanum er einnig að finna ákvæði um að skilavaldið skuli tryggja áframhald á tilteknum fjárhagslegum samningum, t.d. um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, skulda- og greiðslujöfnun og sértryggð skuldabréf. Þó er ávallt heimilt að framselja tryggðar innstæður sem eru hluti af þeim samningum sem skilavaldinu ber að tryggja áframhald á án þess að framselja aðrar eignir, réttindi eða skuldbindingar sem falla undir sama samning. Í kaflanum er að endingu að finna ákvæði sem ætlað er að tryggja að rekstur greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa verði ekki fyrir áhrifum ef skilaaðgerðum er beitt.

Um 68. gr.

    Greinin er innleiðing j-liðar 1. mgr. 63. gr. og f-liðar 1. mgr. 64. gr. tilskipunarinnar og felur í sér víðtæka heimild til að hafa áhrif á samninga fyrirtækis eða einingar sem uppfyllir skilyrði skilameðferðar þegar nauðsynlegt er til að tryggja framkvæmd skilaaðgerða. Innan ákvæðisins rúmast meðal annars breyting á gjalddögum (e. maturity), breyting á fjárhæð gjaldfallinna vaxta eða vaxtagjalddaga, frestun á greiðslum fyrirtækisins eða einingarinnar í afmarkaðan tíma og ákvörðun um að framsalshafi taki yfir samning.
    Heimild ákvæðisins skal beita til að tryggja að hægt sé að endurfjármagna fyrirtæki eða einingu í þeim tilgangi að það geti starfað áfram að hluta eða í heild. Ákvæðið gildir um alla samninga fyrirtækis eða einingar, þ.m.t. skuldagerninga (e. debt instruments) og hæfar skuldbindingar, óháð því hvort samningarnir hafa verið gerðir í samræmi við gildandi rétt hér á landi eða erlendis, en því skal beita á þann hátt að breyting samninga verði framkvæmd þannig að hlutaðeigandi samningsaðilar og lánardrottnar verði ekki fyrir meira tjóni en þeir hefðu orðið fyrir ef fyrirtækið hefði verið tekið til slita eða gjaldþrotaskipti farið fram á búi einingarinnar.
    Staða samningsaðila skal taka mið af samsvarandi stöðu annarra lánardrottna í sama flokki samkvæmt forgangsröð krafna. Ef lánardrottnar í sama flokki eru meðhöndlaðir á mismunandi hátt, sem hluti af skilameðferð fyrirtækis eða einingar, skal slík meðhöndlun vera réttlætanleg til að hægt sé að ná markmiðum skilameðferðar, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Mat á stöðu lánardrottna skal gert af skilavaldinu miðað við aðstæður þegar fyrirtæki eða eining er tekin til skilameðferðar og skal það framkvæmt á sama tíma og virðismat skv. VII. kafla frumvarpsins.
    Líkt og á við um ákvæði 74.–78. gr. frumvarpsins gilda takmarkanir um heimild til að hafa áhrif á skilmála sem viðkomandi samningur nær yfir.

Um 69. gr.

    Greinin er innleiðing 68. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um réttaráhrif aðgerða skilavaldsins gagnvart samningsaðilum fyrirtækis eða einingar sem aðgerðirnar beinast gegn. Ákvæði 1.–3. mgr. greinarinnar eru samhljóða 86. gr. k laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en sú grein kveður á um aðgerðir sem varða tímanleg inngrip og Fjármálaeftirlitið getur gripið inn í á grundvelli þeirra laga. Þessi grein tekur til tilgreindra aðgerða skilavaldsins samkvæmt lögum þessum, þ.e. aðgerða vegna annmarka á skilabærni fyrirtækis eða samstæðu skv. 15. og 16. gr. frumvarpsins, aðgerða vegna niðurfærslu og umbreytingar fjármagnsgerninga skv. 27. gr. eða beitingu skilaaðgerða, sbr. 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Varðandi nánari skýringar á þessari grein vísast til skýringa við d-lið 7. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 54/2018.

Um 70. gr.

    Greinin er innleiðing 69. gr. tilskipunarinnar og kveður á um heimild til að fresta greiðslu og afhendingarskyldu samkvæmt samningum. Þegar heimild ákvæðisins er beitt skal hafa til hliðsjónar þau áhrif sem frestun kann að hafa á fjármálamarkaði, þ.m.t. fjármálastöðugleika.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. mgr. 69. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er heimild til að fresta tímabundið samningsskuldbindingum. Frestur á skyldu samkvæmt ákvæðinu er afmarkaður tími, þ.e. til miðnættis næsta virka dag eftir að tilkynning hefur verið birt í samræmi við 5. mgr. 35. gr. frumvarpsins. Ákvæðið veitir því skamman tíma til að fá yfirlit yfir reglulegar greiðslur og afhendingu skuldbindinga. Með greiðslu- og afhendingarskyldu er meðal annars átt við alla almenna skyldu samkvæmt lánssamningum, skuldabréfaútgáfum og fjárhagslegum samningum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Heimild til frestunar gildir einnig um skuldbindingar sem falla í gjalddaga á meðan tímabil frestunar varir. Á sama hátt og á við um ákvæði 68. gr. frumvarpsins gildir þetta ákvæði einnig um alla samninga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Ef samningsskuldbindingu er frestað á grundvelli ákvæðisins samsvarar það ekki vanefnd samnings eða broti á samningsskyldum, sbr. 4. mgr. 69. gr. frumvarpsins, og veitir því samningsaðila ekki sjálfstæðan rétt til að grípa til samningsbundinna vanefndaúrræða.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 69. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að ef skuldbindingu er frestað samkvæmt 1. mgr. greinarinnar fellur hún í gjalddaga strax að frestinum liðnum.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. 69. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að samningsaðilar skulu njóta sama réttar og skilavaldið og hljóta frest á sambærilegum skuldbindingum. Réttindi samningsaðila samkvæmt samningi, t.d. til skulda- eða greiðslujöfnunar, munu því geta komið til eftir að fresturinn er liðinn. Samningsaðilar teljast því ekki vanefna skuldbindingar sínar með því að fresta skulda- eða greiðslujöfnun.
     Um 4. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 69. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu eru tæmandi taldar undantekningar frá frestun á greiðslu og afhendingarskyldu. Þar á meðal eru tryggðar innstæður og kröfur sem grundvallast á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sbr. 1. og 3. tölul. ákvæðisins. Innstæðueigendur munu því hafa aðgang að tryggðum innstæðum sínum óháð frestun. Það samræmist einu af meginmarkmiðum 1. gr. frumvarpsins að tryggja aðgengi að innstæðum. Undantekning hvað varðar innstæður er nauðsynleg í því skyni að takmarka smitáhrif og koma í veg fyrir að stór hluti innstæðueigenda leitist við að taka út innstæður sínar með tilheyrandi bankaáhlaupi. Af ákvæðinu leiðir einnig að skuldbindingar við greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi og þátttakendur slíkra kerfa eru undanskildir frestun skv. 1. mgr., sbr. 2. tölul. ákvæðisins. Ákvæði um þessi kerfi og aðila sem starfa við slík kerfi er að finna í lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, sem meðal annars fela í sér innleiðingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf. Hugtökin „kerfi“ og „þátttakandi“ eru skilgreind í lögum nr. 90/1999, sbr. 1. og 9. tölul. 2. gr. þeirra laga. Auk greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa eru miðlægir mótaðilar og seðlabankar einnig undanskildir frestun. Hugtakið „miðlægur mótaðili“ (e. central counterparty) ber að skilja í samræmi við 1. tölul. 2. gr. reglugerðar (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, sbr. lög nr. 15/2018, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Allir lánardrottnar skv. 2. tölul. þessa ákvæðis vísa til þess mikilvægis sem leiðir af tilskipuninni um að fjármálainnviðum verði ekki raskað. Ákvæðið skal tryggja að fyrirtæki eða eining í skilameðferð valdi ekki truflun á almennu uppgjöri verðbréfaviðskipta. Í 3. tölul. ákvæðisins er vísað til krafna viðskiptavinar á hendur fyrirtæki eða einingu í skilameðferð sem njóta tryggingaverndar verðbréfadeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. 9. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í tilvitnuðu ákvæði laga nr. 98/1999, sér í lagi 1. mgr., er meðal annars kveðið á um greiðslur úr verðbréfadeild sjóðsins til fjárfesta við tilteknar aðstæður, þ.e. þá tryggingavernd sem fjárfestar njóta samkvæmt lögunum.

Um 71. gr.

    Greinin er innleiðing 70. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um heimild til að fresta rétti lánardrottna til að ganga að tryggingum, þ.m.t. á grundvelli samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Þegar heimild ákvæðisins er beitt skal hafa til hliðsjónar þau áhrif sem frestun kann að hafa á fjármálamarkaði, m.a. fjármálastöðugleika, þannig að inngrip í viðkomandi samninga og afleiðingar á markaði verði eins takmarkaðar og mögulegt er.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. mgr. 70. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að skilavaldinu er í skamman tíma heimilt að koma í veg fyrir að lánardrottnar leiti fullnustu á tryggingum sem veittar eru af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð. Ákvæðið gildir um allar tryggingar sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð hefur veitt, þ.m.t. ábyrgðaryfirlýsingar, ábyrgðir og fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Skulda- og greiðslujöfnun eiga einnig undir ákvæðið sem kemur í veg fyrir að samningsaðili skuldajafni eða jafni samningsgreiðslur. Réttur lánardrottna til að ganga að tryggingum takmarkast þannig við vanefnd á samningi sem telst ekki vera til staðar þegar heimildum þessa kafla er beitt að uppfylltum kröfum samkvæmt greinum hans. Ákvæðið gildir einnig um tryggingar sem veittar hafa verið af fyrirtæki eða einingu í skilameðferð vegna samninga sem heimila að gengið sé að tryggingum án þess að skýrt sé kveðið á um vanefndir í samningi. Þetta á til dæmis við um rétt samningsaðila til að ganga að tryggingum ef ýmis skilyrði eru uppfyllt án vanefnda í skilningi samningsins. Ákvæðið gildir þó ekki um tryggingar, svo sem ábyrgðaryfirlýsingar og ábyrgðir, sem veittar eru af þriðja aðila til tryggingar fyrir skuldbindingum fyrirtækisins eða einingarinnar. Samningsaðili mun því geta gengið að slíkum tryggingum enda eru þær veittar af öðrum en fyrirtækinu eða einingunni sem trygging fyrir útistandandi skuld fyrirtækisins eða einingarinnar.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. mgr. 70. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að frestun skv. 1. mgr. greinarinnar gildir ekki um tryggingar vegna greiðslukerfa, verðbréfauppgjörskerfa, miðlægra mótaðila og Seðlabanka. Ákvæðið er samhljóða 2. tölul. 4. mgr. 70. gr. og um nánari skýringar á því vísast til skýringa við það ákvæði.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 3. mgr. 70. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að tryggja skal samræmda frestun hjá fyrirtækjum eða einingum innan samstæðu, sem eru hluti af skilameðferð ef ráðstafanir skv. 78. gr. eiga við.

Um 72. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 71. gr. tilskipunarinnar og kveður á um heimild sem ætlað er að tryggja að samningsaðili geti beitt uppsagnarrétti í tengslum við framkvæmd skilaaðgerða. Uppsagnarréttur getur frestast í samræmi við skyldur samkvæmt 70. gr. frumvarpsins. Líkt og á við um ákvæði 70. og 71. gr. frumvarpsins skal hafa til hliðsjónar þau áhrif sem frestun kann að hafa á fjármálamarkaði, þ.m.t. fjármálastöðugleika.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið gildir um uppsögn á samningum vegna vanefnda og samkvæmt skilmálum samninga. Ákvæðið nær einnig yfir samninga sem eru í vanefndum áður en skilaaðgerðum er beitt. Á sama hátt og á við um ákvæði 69.–71. gr. frumvarpsins er ákvæðinu ætlað að tryggja að skilaaðgerðir geti komið til framkvæmda á sama tíma og áframhald verður á samningum fyrirtækisins eða einingarinnar til að koma í veg fyrir að mikill fjöldi samninga fyrirtækisins eða einingarinnar gjaldfalli við skilameðferð. Tímabil frestunar er hið sama og gildir um frestun skv. 70. og 71. gr. og hefst einnig við birtingu tilkynningar um frestun skv. 5. mgr. 35. gr. frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 2. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar. Heimild 1. mgr. greinarinnar til frestunar tekur einnig til dótturfélaga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Rétturinn til frestunar er háður þremur skilyrðum sem öll skulu vera uppfyllt. Ákvæði 3. tölul. er ætlað að tryggja að ekki komi til þess þegar uppsagnarréttur verður virkur að viðkomandi samningur verði nýttur til að framselja eignir, réttindi eða skuldbindingar frá fyrirtæki eða einingu í skilameðferð.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 2. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar. Ef frestun er beitt samkvæmt ákvæðinu og hún varðar skuldbindingar dótturfélags sem skráð er í öðru aðildarríki skal frestunin framlengjast og taka mið af birtingu tilkynningar í viðkomandi ríki.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 3. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar, kveður á um sams konar takmörkun og gildir um ákvæði 70. og 71. gr. sem varðar greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi og þátttakendur slíkra kerfa, miðlæga mótaðila og Seðlabanka.

Um 73. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 71. gr. tilskipunarinnar og varðar aðstæður þar sem ekki er hægt að fresta uppsagnarrétti samningsaðila þrátt fyrir ákvæði 72. gr. frumvarpsins. Ákvæði þetta kveður á um aðstæður sem takmarka heimild til að beita uppsagnarrétti skv. 72. gr. og geta samningar sem ákvæðið nær yfir því áfram haldið gildi sínu eða þeim sagt upp í samræmi við samningsskilmála.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að heimild til að beita uppsagnarrétti gildir ekki hafi skilavaldið sent tilkynningu til samningsaðila um að það hyggist ekki ráðstafa réttindum eða skuldbindingum samkvæmt samningi með framsali eða við eftirgjöf. Samningsaðila er því heimilt að beita uppsagnarrétti innan tímamarka frestunar þegar hann fær tilkynningu frá skilavaldinu.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 5. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er samningsaðila veitt heimild til að beita uppsagnarrétti að fresti liðnum ef samningur hefur verið framseldur og uppsagnarréttur hefur enn þýðingu fyrir hagsmuni samningsaðila, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, og ef samningur hefur ekki verið framseldur og skilavaldið ekki beitt eftirgjöf, sbr. 2. tölul. ákvæðisins. Uppsagnarrétturinn takmarkast þó af ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 69. gr. frumvarpsins ef ákvæði 69. gr. á við og fyrirtæki eða eining efnir áfram meginskyldur samnings.

Um 74. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 76. gr. og hluta 77. gr. tilskipunarinnar og er ætlað að tryggja að tiltekin gagnkvæm réttindi samnings séu virt.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing b–d-liðar 2. mgr. 76. gr. og hluta 1. mgr. 77. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið takmarkar rétt skilavaldsins með þeim hætti að það getur ekki aðskilið samtengd réttindi eða skuldbindingar og skilavaldið getur því ekki valið úr réttindi eða skuldbindingar samkvæmt samningi eða tengdum samningum. Ákvæðið gildir um samninga um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu (e. title transfer financial collateral arrangement), sbr. samninga sem skilgreindir eru í 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46/2005. Þá gildir ákvæðið um samninga um skuldajöfnun sem og greiðslujöfnunarsamninga. Hugtakið „greiðslujöfnunarsamningur“ er skilgreint í 48. tölul. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Algengt einkenni þessara samninga er að þeir geta byggst á svokölluðum aðalsamningi (e. master agreement) eða verið hluti af víðtækara samkomulagi eða lögskiptum aðila. Ákvæðið gildir um samninga við sama gagnaðila sem rúmast undir aðalsamningi, t.d. við afleiðuviðskipti þar sem aðalsamningurinn hefur að geyma ýmis jöfnunarákvæði sem taka til ýmiss konar afleiðuviðskipta. Ákvæðið gildir einnig um aðalsamninginn ef undirsamningar eru um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, skuldajöfnun eða eru greiðslujöfnunarsamningar, m.a. um greiðslujöfnun til uppgjörs (e. close-out netting agreement). Á grundvelli ákvæðisins er því til dæmis óheimilt að framselja eignarhluta samnings til brúarstofnunar þar sem samið hefur verið um greiðslujöfnun eða önnur samningsbundin gagnkvæm réttindi sem rúmast innan ákvæðisins án þess að skuldahluti samnings fylgi með. Skylt er að vernda tryggðar innstæður og gildir ákvæði 77. gr. frumvarpsins óháð því hvort innstæða sé í tengslum við tryggingu samkvæmt ákvæði þessu.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. 77. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að skilavaldið telst hafa tryggt áframhald samninga ef réttindi og skuldbindingar samkvæmt samningum um skuldajöfnun, uppgjör og jöfnun á réttindum og skuldbindingum eru virtar. Ef framsal eigna brýtur í bága við 1. og 2. mgr. þessarar greinar heldur samningsaðili rétti sínum til að skulda- eða greiðslujafna samkvæmt skilmálum samnings. Ákvæðið ber ekki að skilja á þann hátt að það sé með öllu útilokað að skilavaldið ráðstafi hluta af samningi sem fellur undir 1. mgr. greinarinnar ef tryggt er að samningsaðilinn verði ekki fyrir meira tjóni vegna skilaaðgerða en hann hefði orðið fyrir við slit eða gjaldþrotaskipti á fyrirtæki eða einingu.

Um 75. gr.

    Greinin er innleiðing a-liðar 2. mgr. 76. gr. og 1. mgr. 78. gr. tilskipunarinnar og er ætlað að tryggja að skilavaldið geti einungis ráðstafað samningum um tryggingar ásamt þeirri tryggingu sem hefur verið veitt. Ákvæðið takmarkar því heimild til að ráðstafa samningum fyrirtækis eða einingar í skilameðferð. Ákvæðið varðar samninga þar sem slík tengsl eru á milli skuldbindingar og tryggingar að réttlætanlegt er að líta á samningsskilmála sem eina heild. Ákvæði þetta hefur því að geyma víðtækari skírskotun en samningar um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem falla undir 74. gr. frumvarpsins. Við mat á því hvort samningur fellur undir ákvæðið ber að líta til þess hvort skuldbinding og trygging á rætur að rekja til sömu lögskipta og hvort tryggingin varðar tiltekna skuldbindingu en ekki fjölda skuldbindinga. Skilavaldið skal þó ekki koma í veg fyrir ráðstöfun samninga um tryggingar í heild eða að hluta enda séu réttindi samningsaðila virt og þess gætt að þeir verði ekki fyrir meira tjóni en þeir hefðu orðið fyrir við slit eða gjaldþrotaskipti á fyrirtæki eða einingu, sbr. 80. gr. frumvarpsins. Líkt og á við um ákvæði 74. gr. takmarkast ákvæði þetta af 77. gr. frumvarpsins og er því heimilt að grípa til ráðstafana samkvæmt því ákvæði óháð þessari grein til að vernda tryggðar innstæður.

Um 76. gr.

    Greinin er innleiðing e- og f-liðar 2. mgr. 76. gr. og 1. mgr. 79. gr. tilskipunarinnar og er ætlað að tryggja að skilavaldið aðskilji ekki eignir og skuldbindingar sem rúmast innan samsettra fjárhagslegra samninga og ráðstafi hluta þeirra. Um er að ræða samninga sem varða eignir og skuldbindingar sem til dæmis tengjast heildarútgáfu verðbréfa og fjármögnun þar sem nokkrir lánveitendur eru aðilar samnings eða annars konar samsettrar fjármögnunar. Ákvæðið gildir um sértryggð skuldabréf en þau eru fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa sem njóta fullnusturéttar í svokölluðu tryggingarsafni (e. cover pool) eigna. Um sértryggð skuldabréf gilda samnefnd lög, nr. 11/2008. Ákvæðið gildir einnig um aðra samsetta fjárhagslega samninga, svo sem heildarfjármögnun fjölda eigna eða annarra verðbréfaviðskipta og áhættuvarna til dæmis vegna vaxta- eða gjaldeyrisáhættu fyrirtækisins eða einingarinnar, eða annars konar samninga. Skylt er að tryggja áframhald þessara samninga eins og hægt er. Skilavaldið skal þó ekki koma í veg fyrir ráðstöfun samsettra samninga í heild eða að hluta enda séu réttindi samningsaðila virt og þess gætt að þeir verði ekki fyrir meira tjóni en þeir hefðu orðið fyrir við slit eða gjaldþrotaskipti fyrirtækis eða einingar. Líkt og á við um ákvæði 74. og 75. gr. takmarkast ákvæði þetta af 77. gr. frumvarpsins og er því heimilt að grípa til ráðstafana samkvæmt því ákvæði óháð þessari grein til að vernda tryggðar innstæður.

Um 77. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 76. gr., 2. mgr. 77. gr., 2. mgr. 78. og 2. mgr. 79. gr. tilskipunarinnar. Tillögur að ákvæðum 74.–76. gr. frumvarpsins varða samninga milli fyrirtækis eða einingar og samningsaðila þar sem gagnkvæmar skyldur hvíla á báðum aðilum, t.d. um greiðslujöfnun, tryggingar o.fl. eða annars konar sérstakt samband, svo sem samsetta fjármögnun, þ.m.t. sértryggð skuldabréf. Ákvæði 74.–76. gr. kveða í grundvallaratriðum á um að skilavaldinu beri að ráðstafa slíkum samningum og virða gagnkvæmar skyldur samningsaðila til að koma í veg fyrir mismunun á innbyrðis tengdum réttindum og skuldbindingum. Ákvæði þessarar greinar veitir frekari heimild ef ráðstöfun á samningi er gerð til að tryggja aðgengi að tryggðum innstæðum, sbr. lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.

Um 78. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 76. gr. og 80. gr. tilskipunarinnar og er ætlað að tryggja að rekstur greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa verði ekki fyrir áhrifum af beitingu skilaaðgerða gagnvart fyrirtæki eða einingu í skilameðferð. Rekstur slíkra kerfa þar sem fyrirmæli þátttakenda, t.d. um millibankaviðskipti, gjaldeyris- og verðbréfaviðskipti, fara fram eru mikilvæg fyrir fjármálakerfið og því nauðsynlegt að tryggja að ekki verði röskun á slíkum kerfum vegna ógjaldfærni markaðsaðila.
     Um 1. mgr. Málsgreinin kveður á um að þegar skilaaðgerðum er beitt skuli taka mið af því að aðgerðirnar hafi ekki áhrif á uppgjör í greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfum, þ.m.t. í þeim tilfellum þegar skilavaldið framselur hluta réttinda og skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð til annars lögaðila, t.d. brúarstofnunar.
     Um 2. mgr. Í málsgreininni er kveðið á um að framsal, niðurfelling eða breyting á samningsskilmálum skv. 1. mgr. skuli ekki sjálfkrafa valda afturköllun á greiðslufyrirmælum skv. 4. gr. laga um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, og breyti því ekki eða ógildi framkvæmd greiðslufyrirmæla eða greiðslujöfnunar skv. II. og IV. kafla sömu laga. Því er óheimilt að eiga við greiðslufyrirmæli sem búið er að senda í kerfið og skal kröfum eða skuldbindingunum, eftir því sem við á, umbreytt á grundvelli greiðslujöfnunar eða viðskiptin fara fram lögum samkvæmt.

Um XIII. kafla.

    Í kaflanum eru ákvæði um opinber fjármálastöðgunarúrræði (e. government financial stabilisation tools) sem eru eiginfjárframlög úr ríkissjóði til fyrirtækis eða einingar eða yfirtaka ríkisins á fyrirtæki eða einingu. Heitið vísar til þess að úrræðunum er ætlað að tryggja stöðugleika á fjármálamarkaði.

Um 79. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 37. gr. og 56.–58. gr. tilskipunarinnar og kveður á um opinber fjármálastöðgunarúrræði.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 10. mgr. 37. gr., 1. og 3.–5. mgr. 56. gr., 1. mgr. 57. gr. og 1. og 2. mgr. 58. gr. tilskipunarinnar.
    Ákvæðið gerir íslenska ríkinu kleift að beita opinberum fjármálastöðgunarúrræðum til að bregðast við sérstökum og óvenjulegum aðstæðum á fjármálamarkaði. Með sérstökum og óvenjulegum aðstæðum á fjármálamarkaði er átt við að fjármálakerfið standi frammi fyrir röskun sem gæti haft í för með sér alvarlegar neikvæðar afleiðingar fyrir hagkerfið (e. systemic crisis), sbr. 30. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Ráðherra sem fer með opinber fjármál tekur ákvörðun um beitingu úrræðanna en skal þó áður hafa samráð við þá fastanefnd Alþingis sem fjallar um fjármál ríkisins enda geta úrræðin haft í för með sér veruleg fjárútlát fyrir ríkissjóð.
    Opinberu fjármálastöðgunarúrræðin eru annars vegar eiginfjárframlag til fyrirtækis eða einingar í rekstrarerfiðleikum og hins vegar yfirtaka ríkisins á fyrirtækinu eða einingunni. Ríkið getur lagt fyrirtæki eða einingu til almennt eigið fé þáttar 1, viðbótar eigið fé þáttar 1 og eigið fé þáttar 2 skv. 84. gr. a – 84. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í skiptum fyrir hlutabréf, stofnfjárbréf eða önnur skírteini fyrir framlaginu. Ríkið getur einnig tímabundið tekið fyrirtæki eða einingu undir sín yfirráð með því að framselja eignarhluti í því til sín. Eignarhald ríkisins getur verið beint eða óbeint í gegnum félag eða félög í þess eigu. Úrræðið svipar til framsals til brúarstofnunar. Sá meginmunur er þó á úrræðunum að aðeins nauðsynleg starfsemi fyrirtækis eða einingar er framseld til brúarstofnunar og eftirstöðvar fyrirtækisins eða einingarinnar eru teknar til slita, en þegar ríkið beitir opinberu fjármálastöðgunarúrræði til að taka yfir fyrirtæki eða einingu heldur fyrirtækið eða einingin áfram starfsemi.
    Meðal markmiða frumvarpsins er að lágmarka hættu á að veita þurfi framlög úr ríkissjóði, sbr. 1. gr. Opinber fjármálastöðgunarúrræði eru því neyðarúrræði sem á aðeins að beita þegar skilaúrræði duga ekki til og þá aðeins að því marki sem nauðsynlegt er. Beitingu þeirra er því sett þrjú ströng skilyrði sem þurfa öll að vera uppfyllt.
     Í fyrsta lagi verður viðkomandi fyrirtæki eða eining að vera í skilameðferð eða skilyrðum fyrir því að taka fyrirtækið eða eininguna til skilameðferðar að vera fullnægt. Skilyrði fyrir skilameðferð koma fram í 1. mgr. 35. gr. frumvarpsins. Þeirra á meðal er skilyrði fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti.
     Í öðru lagi skulu skilaúrræði skv. X. kafla frumvarpsins vera ófullnægjandi að mati ráðherra til að viðhalda fjármálastöðugleika eða tryggja hagsmuni almennings. Ekki er áskilið að öll skilaúrræðin hafi verið reynd en ella þarf að liggja fyrir mat ráðherra á því af hverju þau duga ekki til. Ekki má beita opinberu fjármálastöðgunarúrræði til að standa vörð um aðra almannahagsmuni en fjármálastöðugleika nema viðkomandi fyrirtæki hafi áður fengið lán til þrautavara skv. 2. mgr. 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, eða, ef um framsal á eignarhlutum til ríkisins er að ræða, eiginfjárframlag samkvæmt greininni. Ráðherra þarf að afla álits skilavaldsins við mat á því hvort skilyrði sé uppfyllt til að tryggja að það byggist á traustum grunni. Samráðið getur farið fram á vettvangi fjármálastöðugleikaráðs samkvæmt lögum um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014.
     Í þriðja lagi er áskilið að félagsaðilar og lánardrottnar hafi axlað hluta byrðinnar við endurfjármögnun fyrirtækis eða einingar með niðurfærslu, umbreytingu eða á annan veg.
    Beita má opinberum fjármálastöðgunarúrræðum samhliða skilaúrræðum eða í stað þeirra. Gæta verður þess að beiting þeirra samræmist reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisaðstoð.
     Um 2. mgr. Tilskipunin virðist gera ráð fyrir að ríkisstjórn eða ráðuneyti komi opinberum fjármálastöðgunarúrræðum í framkvæmd, sbr. 2. mgr. 56. gr. tilskipunarinnar. Með frumvarpinu er lagt til að skilavaldinu fremur en ríkisstjórn eða ráðuneytum verði falið að framkvæma í samræmi við ákvarðanir ráðherra um beitingu opinberra fjármálastöðgunarúrræða enda fer það almennt með framkvæmd laganna, verði frumvarpið að lögum. Það samræmist innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku og Noregi þar sem stjórnvöldum sem fara með skilavald eða fjármálaeftirlit er falið að hrinda opinberum fjármálastöðgunarúrræðum í framkvæmd fremur en ríkisstjórn eða ráðuneytum.
    Heimilt er að beita skilaheimildum skv. IX., XI. og XII. kafla frumvarpsins til að hrinda opinberum fjármálastöðgunarúrræðum í framkvæmd, t.d. með því að beita heimild 3. tölul. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins í því skyni að yfirfæra eignarhluti fyrirtækis til ríkisins. Tilkynna skal um beitingu skilaheimilda með þeim hætti sem greinir í 5. mgr. 35. gr.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. og 3. mgr. 57. gr. og 3. mgr. 58. gr. tilskipunarinnar. Eignaraðild ríkisins vegna beitingar opinberra fjármálastöðgunarúrræða á að vera tímabundin og selja skal viðkomandi eignarhluti þegar aðstæður á markaði leyfa. Fram að því skal ráðherra beita sér fyrir því að fyrirtæki eða eining viðhafi góða viðskiptahætti. Með því er átt við að það sé rekið á faglegum viðskiptalegum forsendum án pólitískra afskipta af daglegum ákvörðunum. Það má til dæmis tryggja með því að Bankasýsla ríkisins fari með eignarhluti ríkisins, sbr. samnefnd lög, nr. 88/2009, eða með öðru hliðstæðu fyrirkomulagi.

Um XIV. kafla

    Í kaflanum eru ákvæði um ýmis atriði sem varða skilameðferð. Kaflinn hefur þannig að geyma ákvæði um vernd félagsaðila og lánardrottna, sbr. 80. gr. frumvarpsins sem er grundvallarákvæði í frumvarpinu enda tryggir það skilvirkni skilaaðgerða. Þá hefur kaflinn að geyma ákvæði um endurheimt kostnaðar við skilaaðgerðir, sbr. 81. gr., þar sem tilgreint er hvernig skilavaldið og skilasjóður geta endurheimt réttmætan kostnað í tengslum við skilaaðgerðir eða opinber fjármálastöðgunarúrræði. Í kaflanum er kveðið á um aðkomu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að skilameðferð lánastofnunar, sbr. 82. gr. Tilgangur þess ákvæðis er að tryggja að innstæðutryggingakerfi stuðli að fjármögnun skilameðferðar með því að mæta hreinu tapi sem kerfið hefði orðið fyrir ef það hefði þurft að greiða út tryggðar innstæður við slit lánastofnunar. Innstæðueigendur tryggðra innstæðna hafa áfram aðgengi að innstæðum sínum í kjölfar skilameðferðar sem fer meðal annars saman við tilgang innstæðutryggingakerfisins. Þá hefur kaflinn að geyma reglur um takmörkun á réttindum, sbr. 83. gr., afmörkun á gildissviði vegna hefðbundinnar ógjaldfærnimeðferðar, þ.e. gjaldþrotaskipta og slita, sbr. 84. gr., og ákvæði um lok skilameðferðar, sbr. 85. gr.

Um 80. gr.

    Greinin er innleiðing a-, b- og g-liðar 1. mgr. 34. gr. og 75. gr. tilskipunarinnar. Hún felur í sér þá grundvallarreglu að félagsaðilar og lánardrottnar, þar á meðal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta vegna greiðslna skv. 82. gr. frumvarpsins, eigi ekki að verða fyrir meira tapi vegna skilameðferðar en þeir hefðu orðið fyrir hefði fyrirtækið eða einingin verið tekin til gjaldþrotaskipta eða slita þegar ákveðið var að grípa til skilameðferðar. Óháður aðili metur hvort svo hafi verið skv. 32. gr. í VII. kafla frumvarpsins.
    Endurgjald til fyrirtækis, einingar eða félagsaðila við sölu rekstrar ræðst af markaðsverði, sbr. 41. gr. frumvarpsins, og endurgjald við framsal til brúarstofnunar og uppskiptingu eigna af virðismati skv. VII. kafla, sbr. 46. og 51. gr. frumvarpsins. Endurgjaldið ætti því almennt að tryggja að tap félagsaðila og lánardrottna verði ekki meira en það hefði orðið við slit eða gjaldþrotaskipti. Þá skal niðurfærsla eða umbreyting skuldbindinga fyrirtækis eða einingar ekki valda félagsaðila eða lánardrottni meira tapi en hann hefði orðið fyrir hefði fyrirtækið eða einingin verið tekin til slita eða gjaldþrotaskipta, sbr. 2. mgr. 55. gr. frumvarpsins. Fyrirkomulag skilameðferðar miðast jafnframt almennt við að félagsaðilar sæti fyrst skerðingu og svo lánardrottnar í samræmi við forgangsröðun krafna við slitameðferð. Almennt ætti skilameðferð því ekki að leiða til þess að félagsaðilar eða lánardrottnar verði fyrir umframtapi.
    Leiði mat skv. 32. gr. frumvarpsins eigi að síður í ljós að félagsaðili eða lánardrottinn hafi orðið fyrir umframtapi vegna skilameðferðar greiðir skilavaldið honum bætur sem því nema úr skilasjóði að eigin frumkvæði. Það er því ekki háð því að félagsaðili eða lánardrottinn krefjist greiðslu.

Um 81. gr.

    Greinin er innleiðing 7. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar. Hún tilgreinir hvernig skilavaldið og skilasjóður geta endurheimt réttmætan kostnað sem stofnað hefur verið til á eðlilegan hátt í tengslum við skilaaðgerðir eða fjármálastöðgunarúrræði. Sem dæmi má nefna kostnað vegna vinnu starfsfólks, kaupa á ráðgjafarþjónustu og virðismats skv. VII. kafla. Í 3. tölul. ákvæðisins er tilvísun í gjaldþrotaskipti og slit samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Í frumvarpinu er ekki áskilið að eignaumsýslufélag fari í slitameðferð samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og því má gera ráð fyrir að bú þess félags verði tekið til skipta samkvæmt almennum reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

Um 82. gr.

    Greinin er innleiðing 109. gr. tilskipunarinnar og kveður á um notkun fjármuna innstæðutryggingakerfis við skilameðferð lánastofnunar. Ef fjármunir Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta eru greiddir til skilameðferðar lánastofnunar í samræmi við þessa grein og tiltækir fjármunir innstæðudeildar sjóðsins lækka í kjölfarið niður í minna en tvo þriðju viðmiðunarmarks skv. 14. mgr. 5. gr. b laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, skulu regluleg iðgjöld í sjóðinn vera með þeim hætti að viðmiðunarmarkinu verði náð innan sex ára.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. og 3. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar. Af ákvæðinu leiðir að ef skilavaldið hefur hafið skilameðferð lánastofnunar með því að grípa til eins eða fleiri skilaúrræða, enda tryggi beiting þess að innstæðueigendur haldi áfram að hafa aðgang að innstæðum sínum, skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta leggja að mörkum fjárframlag til skilameðferðarinnar. Ákvörðun um beitingu skilaúrræða er háð því að skilyrði skilameðferðar séu uppfyllt. Af ákvæðinu verður því leidd skýr krafa en ekki heimild um að nýta fjármuni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við skilameðferð lánastofnunar á grundvelli ákvæða frumvarpsins, þó með þeirri takmörkun sem leiðir af 5. mgr. greinarinnar. Greiðsla Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta verður að vera í reiðufé.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing a-liðar 1. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar, kveður á um greiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til skilameðferðar þegar skilaúrræðinu eftirgjöf er beitt. Ef eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla frumvarpsins er beitt skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiða fjárhæð til skilameðferðar sem samsvarar niðurfærslu á tryggðum innstæðum hefðu þær fallið undir eftirgjöf og verið niðurfærðar að sama marki og kröfur lánardrottna sem hafa sama forgang við slit lánastofnunar. Ef tryggðar innstæður hefðu t.d. átt að vera niðurfærðar um 40%, þ.e. ef eftirgjöf hefði verið beitt á tryggðar innstæður, ætti Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta að greiða fjárhæð sem nemur 40% af tryggðum innstæðum lánastofnunarinnar til skilameðferðarinnar að því tilskyldu að fjárhæðin færi ekki yfir þær takmarkanir sem leiða af 5. mgr. greinarinnar.
     Um 3. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing b-liðar 1. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar, kveður á um þær aðstæður þegar öðrum skilaúrræðum en eftirgjöf er beitt, þ.e. sölu rekstrar, framsali til brúarstofnunar eða uppskiptingu eigna, sbr. B-, C- eða D-hluta X. kafla frumvarpsins. Við slíkar aðstæður skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiða fjárhæð til skilameðferðar lánastofnunar sem samsvarar því tapi sem innstæðueigendur tryggðra innstæðna hefðu orðið fyrir ef lánastofnun hefði verið slitið samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ef innstæðueigendur tryggðra innstæðna hefðu t.d. fengið fjárhæð sem næmi 80% af tryggðum innstæðum við greiðslu úr búi lánastofnunar ætti Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta að leggja til fjármuni sem næmu 20% af tryggðum innstæðum þar sem sú fjárhæð samsvarar því tapi sem innstæðueigendur hefðu orðið fyrir ef lánastofnunin hefði verið tekin til slita. Hugtakið „tryggð innstæða“ er skilgreind í 37. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins, sbr. einnig breyting í 3. tölul. c-liðar 2. tölul. 103. gr. frumvarpsins.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 2. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar, kveður á um ákvörðun þeirrar fjárhæðar sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta skal greiða til skilameðferðar lánastofnunar. Ákvörðunin skal tekin af skilavaldinu í samræmi við virðismat eða bráðabirgðavirðismat sem hefur farið fram samkvæmt VII. kafla frumvarpsins og að teknu tilliti til hagsmuna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
     Um 5. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 1. mgr. og hluta 5. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar, kveður um takmörkun á þeim greiðslum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta skal greiða til skilameðferðar lánastofnunar. Greiðslur úr sjóðnum mega ekki vera hærri en það tap sem hann hefði orðið fyrir ef lánastofnun hefði verið tekin til slita samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta kemur í stað innstæðueigenda tryggðra innstæðna og á því kröfu á hendur viðkomandi lánastofnun. Slík krafa nýtur sömu stöðu í forgangsröð og tryggðar innstæður, sbr. breyting sem lögð er til í r-lið 1. tölul. 103. gr. frumvarpsins. Greiðslur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skulu að sama skapi ekki nema hærri fjárhæð en 175% af viðmiðunarmarki tryggðra innstæðna, sem er 0,8%, sbr. breyting sem lögð er til í 3. tölul. b-liðar 2. tölul. 103. gr. frumvarpsins. Þetta hlutfall er lagt til í ljósi sterkrar stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta en um síðustu áramót námu eignir sjóðsins um 4,5% af áætluðum gjaldstofni samkvæmt breyttri skilgreiningu á tryggðum innstæðum. Þar að auki verður að líta til þess hverjir hafa fjármagnað sjóðinn en yfir 90% af eignum hans má rekja til greiðslna kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Við afmörkun á hlutfalli sem hægt er að krefja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta um vegna skilameðferðar lánastofnunar var einnig litið til löggjafar annars staðar á Norðurlöndunum þar sem hlutfallið er t.d. 100% í Danmörku og 200% í Svíþjóð.
     Um 6. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á rétt á greiðslu úr skilasjóði, sbr. 80. gr. frumvarpsins, ef endanlegt virðismat samkvæmt VII. kafla leiðir í ljós að greiðsla sjóðsins var meiri en hún hefði átt að vera ef lánastofnun hefði verið tekin til slita. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á kröfu um mismun þeirrar fjárhæðar sem hann greiddi til skilameðferðar lánastofnunar og þeirrar fjárhæðar sem ákvörðuð er samkvæmt endanlegu virðismati, sbr. 32. gr., að sjóðurinn hefði átt að greiða við slit lánastofnunarinnar.
     Um 7. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta þarf ekki að leggja fram fé í tengslum við endurfjármögnun lánastofnunar í skilameðferð við beitingu á skilaúrræðinu eftirgjöf. Þetta breytir þó ekki skyldu sjóðsins til að leggja til fjárframlag til skilameðferðar. Það er skilavaldsins að ákveða hvort Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta leggi til fjárframlag og er slík ákvörðun bindandi fyrir sjóðinn.
     Um 8. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4. mgr. 109. gr. tilskipunarinnar. Ef tryggingarhæfar innstæður eru framseldar að hluta eða í heild með beitingu skilaúrræðanna sölu rekstrar eða framsals til brúarstofnunar, sbr. C- eða C-hluta X. kafla frumvarpsins, getur innstæðueigandi ekki átt kröfu á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta vegna þess hluta innstæðna sem ekki eru framseldar. Hugtakið „tryggingarhæf innstæða“ er skilgreint í 36. tölul. 3. gr., sbr. einnig breyting í 3. tölul. c-liðar 2. tölul. 103. gr. frumvarpsins. Tryggðar innstæður njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og er það því forsenda að fjárhæð framseldra innstæðna sé ekki lægri en tryggingaverndin skv. 2. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, þ.e. 100.000 evra fjárhæðarmarkið. Ákvæðinu er þannig ætlað að tryggja að innstæðueigandi fái ekki hærri tryggingavernd en leiðir af lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.

Um 83. gr.

    Greinin er innleiðing 8. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar. Hún felur í sér að framsali eigna, réttinda eða skuldbindinga fyrirtækis eða einingar í skilameðferð, brúarstofnunar eða eignaumsýslufélags í tengslum við skilaúrræði, skilaheimild eða opinbert fjármálastöðgunarúrræði samkvæmt frumvarpinu verður ekki rift á grundvelli XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þannig verður sölu rekstrar, framsali til brúarstofnunar eða uppskiptingu eigna til dæmis ekki rift á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Um 84. gr.

    Greinin, ásamt 14. tölul. 1. mgr. 61. gr., er innleiðing 1. og 2. mgr. 86. gr. tilskipunarinnar. Fyrirtæki eða einingu á ekki að taka til slita eða bú þess til gjaldþrotaskipta ef skilaaðgerðir gagnvart því eru yfirvofandi eða yfirstandandi eða ef skilavaldið telur þörf á þeim, en það verður ekki gert nema að frumkvæði skilavaldsins, sbr. 14. tölul. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er tekið á gjaldþrotaskiptum og slitum sem grundvallast á lögum um fjármálafyrirtæki. Ástæða þess er sú að viðkomandi ógjaldfærnimeðferð ræðst af því hvort um fyrirtæki eða einingu er að ræða. Bú fjármálafyrirtækis verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Fyrirtæki, þ.e. lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, samkvæmt lögum þessum fara því í slitameðferð samkvæmt sérreglum XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Eining samkvæmt skilgreiningu laga þessara, þ.e. fjármálastofnun skv. b-lið 2. gr. og eignarhaldsfélag skv. c- og d-lið 2. gr., ætti hins vegar ekki að falla undir almennt gildissvið slita og því að sæta gjaldþrotaskiptum samkvæmt almennum reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Ef eining hefur hins vegar verið tekin til skilameðferðar heyrir hún undir XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 3. mgr. 66. gr. frumvarpsins, sem kveður á um gildissvið gagnvart öðrum lögum, og fer því í slitameðferð að kröfu skilavaldsins, sbr. 14. tölul. 1. mgr. 61. gr. og 2. mgr. 85. gr. frumvarpsins.
    Tilkynning héraðsdóms um framkomna kröfu gefur skilavaldinu kost á að benda á skilaaðgerðir sem kunna að vera yfirvofandi eða yfirstandandi eða Fjármálaeftirlitinu að meta hvort fyrirtæki eða eining sé á fallanda fæti sem getur leitt til þess að nauðsynlegt sé að grípa til skilaaðgerðar gagnvart því. Berist héraðsdómi ekki tilkynning um skilaaðgerð innan sjö daga, og er ókunnugt um að tekin hafi verið ákvörðun um skilaaðgerð, getur hann tekið kröfu um slit eða gjaldþrotaskipti fyrir með hefðbundnum hætti. Sama gildir tilkynni skilavaldið innan sjö daga frestsins að skilaaðgerð sé hvorki yfirstandandi né standi til. Eðli máls samkvæmt er óþarft að tilkynna skilavaldinu um beiðni þess sjálfs um slit og héraðsdómur getur tekið beiðnina fyrir án þess að leita sérstaklega eftir samþykkis þess fyrir því.

Um 85. gr.

     Um 1. mgr. Í tilskipuninni er ekki mælt sérstaklega fyrir um hvernig skilameðferð skuli lokið. Skilameðferð er þó ætlað að standa tímabundið og æskilegt þykir að skýrt sé hvenær henni, og þeim réttaráhrifum sem henni fylgja, telst lokið. Í því skyni er lagt til að skilavaldið taki formlega ákvörðun um endalok skilameðferðar þegar frekari skilaaðgerða er ekki þörf.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing 6. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar sem felur í sér að hafi hluti eigna, réttinda og skuldbindinga fyrirtækis eða einingar verið framseldar við sölu rekstrar eða til brúarstofnunar skuli eftirstöðvar fyrirtækisins eða einingarinnar teknar til slita að kröfu skilavaldsins. Ákvæðið er þó víðtækara. Það á til dæmis við þegar allar eignir, réttindi og skuldbindingar fyrirtækis eða einingar eru framseldar við sölu rekstrar eða til brúarstofnunar en ekki aðeins hluti þeirra. Ákvæðið á ekki við ef skilameðferð miðaði að áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins eða einingarinnar, svo sem við uppskiptingu eigna.
    Slit samkvæmt ákvæðinu skulu fara fram svo skjótt sem samræmist markmiðum 1. gr. Við mat á því þarf m.a. að taka mið af því hvort framsalshafi þarfnist aðstoðar fyrirtækisins eða einingarinnar til að starfrækja framseldan rekstur, sbr. 3. mgr. 65. gr.
    Um slitin fer að öðru leyti samkvæmt viðkomandi lagaákvæðum, sbr. einkum B-hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Um XV. kafla

    Kaflinn felur í sér innleiðingu á hluta VII. bálks tilskipunarinnar og kveður um sérstakt fjármögnunarfyrirkomulag sem nefnist skilasjóður. Í VII. bálki tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem lúta að gjaldtöku til að fjármagna skilasjóð en þau ákvæði og önnur tengd ákvæði bíða síðari innleiðingar, t.d. um lántökur og aðra fjármögnun skilasjóðs. Nánari umfjöllun um skilasjóð er að finna í kafla 3.12. í greinargerð.

Um 86. gr.

    Greinin er innleiðing á hluta 100. gr. tilskipunarinnar og kveður á um stofnun sérstaks fjármögnunarfyrirkomulags sem nefnist skilasjóður. Skilavaldið tekur ákvörðun um greiðslur úr skilasjóði en einungis er heimilt að nota fjármunina í samræmi við markmið 1. gr. og þær meginreglur sem fram koma í 12. og 13. tölul. 1. mgr. 61. og 80. gr. frumvarpsins. Nefndar eru helstu aðgerðir sem heimilt er að fjármagna með fjármunum skilasjóðs í 87. gr. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða við frumvarp þetta er lagt til að fjármunir verði færðir úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til bráðabirgða en á næstu misserum verði hafist handa við gjaldtöku í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Stærð skilasjóðs skal nema að lágmarki 1% af tryggðum innstæðum í árslok 2027. Miðað við núverandi stöðu tryggðra innstæða má reikna með að lágmarksfjárhæð skilasjóðs þurfi að vera um 8,5 milljarðar kr. í árslok 2027. Nánari umfjöllun um skilasjóð má finna í kafla 3.12 í greinargerð.

Um 87. gr.

    Greinin er innleiðing 101. og 107. gr. tilskipunarinnar og kveður á um ráðstöfun fjár úr skilasjóði. Óheimilt er að nota skilasjóð beinlínis til þess að mæta tapi fyrirtækis eða einingar eða til að endurfjármagna fyrirtæki eða einingu. Ef notkun skilasjóðs felur í sér að hluti taps, sem fyrirtæki, eining eða útibú hefur orðið fyrir, fellur óbeint á skilasjóðinn gilda um það meginreglur um beitingu skilaúrræðisins eftirgjafar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 101. gr. tilskipunarinnar, kveður á um þær aðgerðir sem heimilt er að ráðstafa fjármunum skilasjóðs til. Í þeim tilfellum þegar skilasjóður er nýttur til að veita lán, sbr. 2. tölul. ákvæðisins, getur skilavaldið krafist tryggingar fyrir lánveitingunni. Tryggingin getur meðal annars verið eignir fyrirtækisins eða einingarinnar eða áhættulitlar eignir. Lánin skulu taka mið af markaðskjörum. Ekki ber að skilja ákvæðið á þann veg að ráðstöfun á fjármunum úr skilasjóði skuli án undantekninga einskorðast við aðgerðir sem taldar eru upp í ákvæðinu. Að meginstefnu til eru þetta þó þær aðgerðir sem fjármunir skilasjóðs skulu nýttir til að fjármagna. Aðgerðirnar eiga það sameiginlegt að tengjast beitingu skilaaðgerða. Ef um aðrar aðgerðir er að ræða en kveðið er á um í ákvæðinu, sem tengjast beitingu skilaaðgerða og leiða af ákvæðum frumvarpsins, getur komið til þess að kostnaður verði greiddur úr skilasjóði. Undantekningar frá þeim aðgerðum sem ákvæðið tekur til ber þó að skýra þröngt. Ekki er heimilt að nýta fjármuni skilasjóðs til almenns rekstrar skilavalds, skilasjóðs eða til greiðslu á öðrum stjórnunarkostnaði.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 107. gr. tilskipunarinnar, kveður á um notkun skilasjóðs í tengslum við fyrirtæki, einingu eða samstæðu með starfsemi í öðru aðildarríki. Í þeim tilfellum skal útbúa fjármögnunaráætlun um skiptingu kostnaðar. Áætlunin skal unnin af samstæðuskilavaldi í samstarfi við skilastjórnvöld í öðrum aðildarríkjum og samþykkt í samræmi við ákvörðunarferli skv. 90. og 91. gr. frumvarpsins. Fjármögnunaráætlun skal meðal annars ná yfir virðismat sem hefur farið fram og tap fyrirtækis eða einingar innan samstæðu á þeim tíma sem gripið er til skilaúrræða. Þar að auki skal áætlunin tilgreina það tap sem sérhver flokkur félagsaðila og lánardrottna mundi verða fyrir að því er varðar hvert fyrirtæki eða einingu innan samstæðu, ásamt þeim framlögum sem innstæðutryggingakerfi skulu leggja til við skilameðferð. Í tengslum við skilasjóðinn skal meðal annars koma fram heildarframlag fjármögnunar, grundvöllur útreiknings fyrir sérhvert fjármögnunarfyrirkomulag, hvað hver þarf að leggja til og tímalína um notkun fjármuna. Ef annað er ekki tekið fram í fjármögnunaráætluninni verður grundvöllur fjárframlags frá hverju fjármögnunarfyrirkomulagi í aðildarríki að taka mið af eftirfarandi:
     1.      hlutfalli áhættuveginna eigna samstæðunnar, sem eru í vörslu fyrirtækja eða eininga í aðildarríki viðeigandi fjármögnunafyrirkomulags, vegna skilameðferðar,
     2.      hlutfalli eigna samstæðunnar, sem eru í vörslu fyrirtækja eða eininga í aðildarríki viðeigandi fjármögnunarfyrirkomulags, vegna skilameðferðar,
     3.      hlutfalli taps sem hefur valdið því að þörf er á skilameðferð samstæðu og stafar af fyrirtækjum eða einingum sem eru undir eftirliti eftirlitsstjórnvalda í aðildarríki viðeigandi fjármögnunarfyrirkomulags, og
     4.      hlutfalli aðfanga (e. resources) fjármögnunarfyrirkomulagsins vegna skilameðferðar samstæðu sem má vænta að verði notuð samkvæmt fjármögnunaráætluninni í þágu fyrirtækja eða eininga innan samstæðu í aðildarríki viðeigandi fjármögnunarfyrirkomulags.

Um XVI. kafla

    Kaflinn er innleiðing V. bálks tilskipunarinnar sem kveður á um samskipti við önnur aðildarríki. Ákvæði kaflans hafa meðal annars að geyma reglur um samstarfsvettvang ásamt málsmeðferð og ákvörðunartöku við skilameðferð þegar annaðhvort dótturfélag eða móðurfélag er staðsett hér á landi.

Um 88. gr.

    Greinin er innleiðing 87. gr. tilskipunarinnar og kveður á um ákvarðanatöku þegar fleiri en eitt aðildarríki eiga í hlut. Víða í frumvarpinu segir að skilavaldið skuli þegar við á taka tillit til áhrifa aðgerða þess á fjármálastöðugleika í öðrum aðildarríkjum. Í ákvæðinu eru auk fjármálastöðugleika aðrir helstu áhrifaþættir tilgreindir þegar teknar eru ákvarðanir sem varða samstæðu með starfsemi í öðru aðildarríki. Ákvæðið gildir þegar teknar eru ákvarðanir sem varða málefni fyrirtækja eða eininga óháð því hvort þær varða móðurfélag, dótturfélag eða mikilvægt útibú, sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Til að tryggja að tilhlýðilegt tillit sé tekið til áhrifa í öðrum aðildarríkjum er mikilvægt að farið sé eftir reglum frumvarpsins um upplýsingaskipti stjórnvalda og að samstarf og samráð sé viðhaft þeirra á milli áður en viðeigandi ákvörðun er tekin. Þegar skilavaldið á í samstarfi skal það leitast við að skilgreina vel hlutverk og ábyrgð viðkomandi stjórnvalda og gæta þess að gagnsæi ríki um ákvarðanatöku þess. Þá skulu ákvarðanir teknar og gripið til aðgerða eins tímanlega og hægt er ef slíkt þykir nauðsynlegt, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Um 89. gr.

    Greinin er innleiðing 88. gr. og 12. og 13. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar og kveður á um samstarfsvettvang lögbærra stjórnvalda við framkvæmd ákvæða tilskipunarinnar þegar samstæða á í hlut með starfsemi í fleiri en einu aðildarríki.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr., 2. og 4.–6. mgr. 88. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er lagt til að skilavaldið skuli koma á fót skilaráði með öðrum lögbærum stjórnvöldum samstæðu. Skilaráð skal stofnað um hverja og eina samstæðu með starfsemi yfir landamæri og geta ráðin því orðið fleiri en eitt. Ef skilavald fer með samstæðuskilavald er það leiðandi við stofnun skilaráðs og tilnefnir formann þess. Í því felst meðal annars að koma á skriflegu fyrirkomulagi og málsmeðferðarreglum í samstarfi við aðila í skilaráðinu, samræma starfsemi þess, boða til funda og halda utan um skipulag þeirra ásamt tilkynningum um fundi þannig að aðilar geti óskað eftir þátttöku. Þá skal skilavaldið ákvarða hvaða aðilum og áheyrnarfulltrúum skuli bjóða að sækja fundi ráðsins að teknu tilliti til þeirra málefna sem til stendur að ræða og halda öllum aðilum ráðsins upplýstum um ákvarðanir og niðurstöður funda. Í ákvæðinu er fjallað um aðild að skilaráði. Skilastjórnvöld aðildarríkja skulu eiga aðild að skilaráði, þ.e. skilastjórnvöld þar sem dótturfélag sem fellur undir samstæðueftirlit hefur staðfestu, þar sem móðurfélag sem er eignarhaldsfélag skv. d-lið 2. gr. hefur staðfestu og þar sem mikilvægt útibú er staðsett. Þá skulu eftirlitsstjórnvöld aðildarríkja þar sem skilastjórnvald er aðili að skilaráði einnig hafa aðild að ráðinu. Viðeigandi ráðuneytum skal boðin þátttaka ef skilavaldi er ekki komið fyrir innan þeirra og einnig því yfirvaldi sem ber ábyrgð á innstæðutryggingakerfi aðildarríkis þegar skilastjórnvald þess aðildarríkis á aðild að skilaráði. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin skal fylgjast með starfsemi skilaráða og skal því boðin þátttaka í þeim en skal þó ekki hafa atkvæðisrétt að því marki sem kosning á sér stað innan ramma skilaráðs. Þrátt fyrir framangreint er skilavaldið þó ekki skuldbundið til að stofna skilaráð ef samstæður eða ráð á þeirra vegum annast sömu starfsemi og kveðið er á um í þessari grein þar sem öllum reglum greinarinnar er fylgt, þ.m.t. um aðild að skilaráði. Ef svo háttar til ber að skilja tilvísanir til skilaráðs í frumvarpi þessu sem tilvísun í viðeigandi samstarfsvettvang eða ráð sem stofnaðir hafa verið.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr. 88. gr. og 12. og 13. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar. Hlutverk skilaráðs er fyrst og fremst að skapa umgjörð fyrir lögbær stjórnvöld og aðra viðeigandi aðila til að stjórnvöld geti komið þeim verkefnum í framkvæmd á samstæðugrunni sem kveðið er á um í frumvarpi þessu. Skilaráðið má nota sem samstarfsvettvang til að ræða málefni skilameðferðar samstæðu með starfsemi yfir landamæri en verkefni ráðsins skulu a.m.k. vera þau að þróa skilaáætlanir fyrir samstæðu, sbr. 10. gr., meta skilabærni samstæðu, sbr. 14. gr., beita valdheimildum til að ráða bót á hindrunum á skilabærni samstæðu, sbr. 16. gr., ákvarða lágmarkskröfur fyrir samstæður á samstæðugrunni og hjá dótturfélagi, sbr. IV. kafla, ákveða hvort þörf sé á fyrirkomulagi um skilameðferð samstæðu skv. 90. og 91. gr. og ef svo er ná samkomulagi um slíka áætlun skv. 90 eða 91. gr. Þá skulu stjórnvöld samræma tilkynningar til almennings vegna fyrirkomulags skilameðferðar samstæðu ásamt því að útfæra notkun á því fjármögnunarfyrirkomulagi sem komið hefur verið á fót, sbr. 2. mgr. 87. gr. frumvarpsins.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 7. mgr. 88. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu segir að Seðlabankinn setji reglur um starfsemi skilaráða. Framkvæmdastjórnin hefur gefið út framselda reglugerð (ESB) nr. 2016/1075 sem byggist á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Efnisatriði reglna Seðlabankans munu innleiða VI. kafla reglugerðar (ESB).

Um 90. gr.

    Greinin er innleiðing 91. gr. tilskipunarinnar og kveður á um skilameðferð samstæðu sem tekur til dótturfélags samstæðunnar.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 1. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar, kveður á um tilkynningarskyldu til samstæðuskilavalds, eftirlitsaðila á samstæðugrunni ef um er að ræða annað stjórnvald og annarra aðila í skilaráði samstæðunnar ef dótturfélag hér á landi uppfyllir skilyrði skilameðferðar, sbr. 35. gr. frumvarpsins. Hugtökin „eftirlitsaðili á samstæðugrunni“ og „samstæðuskilavald“ eru skilgreind í 8. og 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 1. mgr., 3. og 5. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar. Í kjölfar tilkynningar skv. 1. mgr. metur samstæðuskilavald, að höfðu samráði við aðila í skilaráði samstæðunnar, hvort fyrirhugaðar skilaaðgerðir séu líklegar til að verða til þess að skilyrði skilameðferðar verði uppfyllt í tengslum við einingu innan samstæðu í öðru aðildarríki. Ef samstæðuskilavald sendir ekki tilkynningu innan 24 klukkustunda eða eftir lengri tíma, ef skilavaldið samþykkir það, er því heimilt að grípa til þeirra skilaaðgerða sem tilgreindar voru í tilkynningu til viðeigandi stjórnvalda.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 4.–6. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar. Ef samstæðuskilavald sendir upplýsingar um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu (e. group resolution scheme) til skilaráðsins innan 24 klukkustunda frá tilkynningu skv. 1. mgr. eða eftir lengri tíma, ef fallist hefur verið á slíkt, er skilavaldinu óheimilt að hrinda fyrirhugaðri skilaaðgerð eða skilaaðgerðum í framkvæmd. Áætlun samstæðuskilavalds um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu skal taka mið af og fylgja skilaáætlunum samstæðu nema skilastjórnvöld telji að markmið skilameðferðarinnar náist betur með öðrum aðgerðum en kveðið er á um í skilaáætlununum. Áætlunin skal einnig fjalla um skilaaðgerðir sem viðeigandi skilastjórnvöld skulu grípa til og tilgreina með hvaða hætti þær skilaaðgerðir skuli samræmdar. Að lokum skal áætlunin leggja grunn að fjármögnunaráætlun sem tekur mið af skilaáætlun samstæðu, þ.m.t. áskilnaði um meginreglur um dreifingu ábyrgðar, og gagnkvæma nýtingu fjármuna sem kveðið er á um í 2. mgr. 87. gr. frumvarpsins.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 7. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu skuli vera sameiginleg ákvörðun skilastjórnvalda. Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni er heimilt að aðstoða skilastjórnvöld við að komast að sameiginlegri niðurstöðu í samræmi við 31. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, að beiðni skilastjórnvalds sem á hlut að máli.
     Um 5. mgr. Málsgreinin er innleiðing 8. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar. Ef það er mat skilavaldsins að nauðsynlegt sé að grípa til annarra skilaaðgerða en þeirra sem eru lagðar til í fyrirkomulagi skilameðferðar samstæðu til að unnt sé að vernda fjármálastöðugleika er því það heimilt. Skilavaldinu er því bæði heimilt að hafna áætluninni á upphafsstigum við mótun hennar og einnig að kljúfa sig frá henni síðar sé það talið nauðsynlegt. Forsenda þess að grípa megi til slíkra ráðstafana er sú að skilavaldið tilkynni það og greini frá ástæðum þess. Skilavaldið skal taka tillit til skilaáætlana samstæðu, mögulegra áhrifa þeirra á fjármálastöðugleika í viðeigandi aðildarríki og mögulegra áhrifa fyrirhugaðra aðgerða á aðra hluta samstæðunnar þegar það greinir frá ástæðum þess að hafna áætluninni um fyrirkomulag skilaáætlunar samstæðu.
     Um 6. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 9. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar, kveður á um þá stöðu þegar annað skilastjórnvald en skilavaldið hafnar fyrirkomulagi skilaáætlunar samstæðu. Skilavaldið getur þá komist að sameiginlegri niðurstöðu um fyrirkomulagið með öðrum skilastjórnvöldum en þeim sem höfnuðu áætluninni.

Um 91. gr.

    Greinin er innleiðing 92. gr. tilskipunarinnar og kveður á um skilameðferð samstæðu sem tekur til móðurfélags eða samstæðunnar í heild.
     Um 1. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 1. mgr. 92. gr. tilskipunarinnar, kveður á um tilkynningarskyldu til annarra viðeigandi stjórnvalda innan skilaráðsins þegar skilavaldið fer með samstæðuskilavald og móðurfélag uppfyllir skilyrði skilameðferðar.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 1. mgr. 92. gr. tilskipunarinnar, kveður á um inntak þeirrar tilkynningar sem kveðið er á um í 1. mgr. Þegar skilavald fer með samstæðuskilavald skal líkt og á við um tilkynningu samkvæmt 90. gr. frumvarpsins tilkynningin innihalda upplýsingar um ákvörðun um skilameðferð og þær skilaaðgerðir sem fyrirhugaðar eru. Í ákvæðinu eru nefndar kringumstæður þegar tilkynning getur falið í sér upplýsingar um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu. Slíkt er þó ekki áskilið heldur háð mati skilavaldsins á aðstæðum hverju sinni.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing 2. og 3. mgr. 92. gr. tilskipunarinnar. Ef þær aðgerðir sem skilavaldið leggur til í tilkynningu þess fela ekki í sér fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu skal það þó taka ákvörðun að undangengnu samráði við aðila í skilaráði. Þegar ákvörðun er tekin skal taka tillit til og fylgja skilaáætlunum samstæðu skv. 10. gr. nema skilastjórnvöld meti það svo að markmiðum skilameðferðar verði náð á skilvirkari hátt með því að grípa til aðgerða sem ekki er kveðið á um skilaáætlununum. Þá skal ákvörðun einnig taka mið af fjármálastöðugleika í hlutaðeigandi aðildarríki. Ef tilkynning felur í sér upplýsingar um fyrirkomulag skilameðferðar samstæðu skal fyrirkomulagið vera sameiginleg ákvörðun með viðeigandi skilastjórnvöldum dótturfélaga. Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni er heimilt að beiðni hlutaðeigandi skilastjórnvalds að aðstoða stjórnvöldin við að komast að sameiginlegri niðurstöðu í samræmi við c-lið 31. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing 5. mgr. 92. gr. tilskipunarinnar, er samhljóða 6. mgr. 90. gr. frumvarpsins og tekur til þeirrar stöðu þegar annað skilastjórnvald en skilavaldið hafnar fyrirkomulagi skilaáætlunar samstæðu.

Um XVII. kafla

    Kaflinn, sem inniheldur eina grein, er innleiðing á hluta VI. bálks tilskipunarinnar sem kveður á um samskipti við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Almennt séð felur EES-samningurinn ekki í sér reglusetningu gagnvart ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og því voru ýmsar greinar í VI. bálki tilskipunarinnar aðlagaðar við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn með þeim hætti að þær skulu ekki gilda gagnvart EFTA-/EES-ríkjunum. Sú grein sem lagt er til að verði innleidd í kaflanum kveður á um skilameðferð á útibúi hér á landi sem er hluti af fyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Æskilegt er að skilavaldið hafi slíka heimild ef útibúi hefur verið veitt heimild samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki til að veita þjónustu hérlendis. Ákvæði kaflans tekur mið af sambærilegu ákvæði í norsku lögunum um fjármálafyrirtæki og fjármálastarfsemi (n. finansforetaksloven), sbr. 20.–49. gr. þeirra laga.

Um 92. gr.

    Greinin er innleiðing 95. og 96. gr. tilskipunarinnar og veitir skilavaldinu heimild til að setja útibú fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins í skilameðferð.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 95. gr., hluta 1. mgr. og 2. mgr. 96. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið veitir heimild til að taka útibú fyrirtækis með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins sem staðsett er hér á landi í skilameðferð ef almannahagsmunir krefjast þess og að uppfylltu einu eða fleiri skilyrðum ákvæðisins. Varðandi mat á almannahagsmunum þá ræðst það af því hvort skilameðferð sé nauðsynleg til að ná einu eða fleiri markmiðum 1. gr. frumvarpsins og hefðbundin ógjaldfærnimeðferð mundi ekki ná markmiðunum á sama hátt og skilameðferð. Í 1. tölul. er tilgreint að skilyrði fyrir leyfi útibús séu ekki lengur uppfyllt eða líkur séu á því. Í 33. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, er kveðið á um skilyrði þess að útibú, sem er hluti af fjármálafyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, fái leyfi til að veita þjónustu hér á landi. Í 3. tölul. ákvæðisins er það skilyrði nefnt að skilameðferð sé hafin í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða slíkt sé fyrirhugað. Ástæður þess að skilavaldið kynni að hafna slíkri skilameðferð eru þær að skilameðferðin geti haft skaðleg áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi, að aðskilin skilameðferð útibúsins sé nauðsynleg til ná einu eða fleiri markmiðum með skilameðferð, að lánveitendur, þ.m.t. innstæðueigendur, mundu ekki fá sömu meðhöndlun og þeir fengju í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, að viðurkenning skilameðferðar í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins hefði veruleg fjárhagsleg áhrif hér á landi eða að slíkt brjóti gegn ákvæðum annarra laga. Æskilegt er að ein af framangreindum ástæðum eigi við til að skilavaldið neiti að viðurkenna eða fullnusta skilameðferð ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Um 2. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 1. mgr. og 3. mgr. 96. gr. tilskipunarinnar, tilgreinir þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til skilameðferðar útibús. Ákvæðið ber ekki að skilja á þann veg að önnur ákvæði gildi ekki við skilameðferð útibús. Hægt er að nýta þær heimildir og úrræði sem kveðið er á um í frumvarpinu eftir því sem við á. Þær reglur og kröfur sem tilgreindar eru í ákvæðinu eru hins vegar ófrávíkjanlegar að því marki sem þær eiga við.

Um XVIII. kafla

    Kaflinn er innleiðing 110.–114. gr. tilskipunarinnar. Tilskipunin kveður á um að aðildarríki skuli tryggja að brot gegn þeim lögum, reglugerðum og reglum, sem innleiða ákvæði tilskipunarinnar, sæti viðeigandi stjórnsýsluviðurlögum sem séu í senn áhrifarík, viðeigandi og hafi fullnægjandi varnaðaráhrif. Tilskipunin kveður á um tiltekna lágmarksþætti, svo sem hvaða brot eigi að sæta viðurlögum, hverjir eigi að geta sætt þeim og um lágmarksfjárhæðir sekta, en útfærsluna skuli að öðru leyti setja í hendur aðildarríkja til ákvörðunar. Í kaflanum er kveðið á um að Seðlabanki Íslands taki ákvarðanir um þvingunarúrræði og viðurlög. Aðildarríkjum er veitt svigrúm á grundvelli tilskipunarinnar til ákveða með hvaða hætti viðurlög verða lögð á. Með þeirri tilhögun að mæla fyrir um að Seðlabankinn taki ákvarðanir á grundvelli ákvæða kaflans í stað tiltekinna eininga innan bankans, þ.e. skilavaldið eða Fjármálaeftirlitið, er bankanum eftirlátið svigrúm til að meta og útfæra hvar ákvarðanirnar verða teknar innan bankans.

Um 93. gr.

    Ákvæði 1. mgr. heimilar skilavaldinu að krefjast úrbóta og er sú heimild til viðbótar heimildum þess skv. 61. og 62. gr. Þrátt fyrir að fyrirmæli um úrbætur séu í eðli sínu ekki viðurlög er ákvæðið haft fremst í viðurlagakafla frumvarpsins enda verður úrbótakrafa samkvæmt ákvæðinu eingöngu sett fram ef fyrirtæki eða eining fylgir ekki viðeigandi lögum og reglum í starfsemi sinni. Krafa um úrbætur kemur ekki í veg fyrir beitingu annarra heimilda kaflans, svo sem stjórnvaldssektum. Það fer eftir eðli og umfangi brota hvort úrbótakrafa ein og sér sé viðeigandi eða hvort beita eigi öðrum ákvæðum kaflans samhliða.
    Þá getur úrbótakrafa orðið forsenda ákvörðunar Seðlabankans um dagsektir skv. 2.–5. mgr. greinarinnar fari hlutaðeigandi fyrirtæki eða eining ekki eftir fyrirmælum skilavaldsins um úrbætur skv. 1. mgr.

Um 94. gr.

    Greinin er innleiðing 110., 111. og 114. gr. tilskipunarinnar og byggist á fyrirmynd sambærilegra ákvæða í löggjöf á fjármálamarkaði.
     Um 1. mgr. Ákvæðið heimilar Seðlabankanum að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn tilgreindum ákvæðum laganna og reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra. Þá er í málsgreininni kveðið á um það hvaða brot á lögunum geta sætt stjórnvaldssektum og byggist sú upptalning á 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar. Stjórnvaldssektir geta hvort sem er verið lagðar á einstaklinga og lögaðila. Vert er að vekja athygli á því að hluti af ákvæðum tilskipunarinnar sem sæta skulu viðurlögum samkvæmt henni séu þau brotin, þ.e. um endurbótaáætlanir og fjárstuðning innan samstæðu, voru innleidd með lögum nr. 54/2018, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og sæta brot á þeim ákvæðum viðurlögum samkvæmt þeim lögum. Gert er ráð fyrir að hið sama eigi við vegna brots á tilkynningarskyldu ef fyrirtæki er á fallanda fæti, sbr. breytingar sem lagðar eru til í g-, w- og x-lið 1. tölul. 103. gr. frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Í ákvæðinu eru tilgreindar fjárhæðir sem geta verið lagðar á einstaklinga og lögaðila. Fjárhæðirnar eru í samræmi við d- og e-lið 2. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar.
     Um 3. mgr. Í ákvæðinu er lagt til að við ákvörðun stjórnvaldssekta beri Seðlabankanum að taka tillit til allra atvika sem skipta máli. Talin eru þar upp níu atriði í dæmaskyni og byggist sú upptalning á 114. gr. tilskipunarinnar.
     Um 4. mgr. Í ákvæðinu eru nefnd ýmis atriði sem varða innheimtu stjórnvaldssekta.
     Um 5. mgr. Í ákvæðinu segir að stjórnvaldssektum verði beitt óháð því hvort lögbrot séu framin af ásetningi eða gáleysi.
     Um 6. mgr. Ef unnt er að ákvarða ávinning af broti er samkvæmt ákvæðinu heimilt að ákvarða sektarfjárhæð sem getur orðið allt að tvöfaldri fjárhæð ávinningsins. Ákvæðið byggist á f-lið 2. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar.

Um 95. gr.

    Greinin kveður á um brot á þagnarskyldu og þarfnast ekki skýringa.

Um 96. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að ljúka máli með sátt við tilteknar aðstæður. Gert er ráð fyrir að til þess að unnt sé að ljúka máli með sátt verði samþykki málsaðila að liggja fyrir. Þá er lagt til að sátt sé bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt hana og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að Seðlabankinn setji nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, sbr. reglur um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt, nr. 326/2019.

Um 97. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 112. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 98. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 112. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 99. gr.

    Greinin er innleiðing c-liðar 2. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar og heimilar Seðlabankanum að banna tímabundið hlutaðeigandi stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra fyrirtækis eða einingar að taka sæti í stjórn eða vera framkvæmdastjóri fyrirtækis eða einingar. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins er að skilavaldið hafi vikið hlutaðeigandi frá á grundvelli 12. tölul. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins og að viðkomandi fyrirtæki eða eining hafi brotið alvarlega gegn ákvæðum laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samþykkta fyrirtækis eða einingar eða ef alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við stjórnun hlutaðeigandi. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um afmarkaða tímalengd og Seðlabankanum því eftirlátið mat á hæfilegum tíma bannsins. Slíkt mat mun meðal annars grundvallast á alvarleika brots og hvort brot hafi verið framin kerfisbundið og ítrekað.

Um 100. gr.

    Greinin er innleiðing 112. gr. tilskipunarinnar og kveður á um að Seðlabankinn birti ákvarðanir um viðurlög sem beitt er vegna brota á lögunum, þ.e. stjórnvaldssektir, sættir og brottvikningu, sbr. 94., 96. og 99. gr. frumvarpsins.

Um 101. gr.

    Greinin er innleiðing 113. gr. tilskipunarinnar og kveður á um að Seðlabankinn skuli tilkynna ákvarðanir um viðurlög til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar vegna miðlægs gagnagrunns sem síðarnefnda stofnunin hefur umsjón með. Tilkynningin nær til þeirra viðurlaga sem birt eru opinberlega, þ.e. stjórnvaldssekta, sátta og brottvikningar, sbr. 100. gr. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um XIX. kafla

    Í kaflanum er kveðið á um gildistöku og breytingar á öðrum lögum. Að auki eru gerðar breytingar sem lúta að gildissviði frumvarpsins gagnvart öðrum lögum í 66. gr. frumvarpsins.

Um 102. gr.

    Greinin kveður á um gildistöku og þarfnast ekki skýringa.

Um 103. gr.

    Í 1. tölul. eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um a-lið. Í ákvæðinu eru lagðar til tvær breytingar á 9. gr. laganna sem taka mið af hinni nýju lagaumgjörð um skilameðferð sem kveðið er á um í frumvarpi þessu. Hugtakið „bráðabirgðastjórn“ fellur brott úr lögunum enda lagt til að 100. gr. a falli brott, sbr. breyting sem lögð er til í o-lið 1. tölul. þessarar greinar. Skilavaldið getur skipað skilastjórn yfir fyrirtæki í skilameðferð skv. 38. gr. frumvarpsins og gegnir hún sambærilegu hlutverki og bráðabirgðastjórn sem skipuð er skv. 100. gr. a laganna. Skilastjórn stafar hins vegar óbeint undir yfirráðum skilavaldsins og framfylgir ákvörðunum þess. Þá er það meðal markmiða skilameðferðar að fyrirtæki geti haldið áfram starfsemi í samræmi við starfsleyfi sitt og því kemur ekki til álita að leggja til þá breytingu á ákvæðinu að skipta „bráðabirgðastjórn“ út fyrir „skilastjórn“ sem kann að vera skipuð við skilameðferð fyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er hins vegar heimilt að skipa bráðabirgðastjórnanda, einn eða fleiri, skv. 86. gr. j laganna ef það beitir heimild til tímanlegra inngripa skv. 86. gr. h laganna. Ef tímanlegum inngripum er beitt og bráðabirgðastjórnandi skipaður án þess að fyrirtæki verði tekið til skilameðferðar í framhaldi af þeirri skipun getur komið til afturköllunar á starfsleyfi skv. 9. gr. laganna. Því er lagt til að bráðabirgðastjórnanda verði veitt sú heimild sem bráðabirgðastjórn hefur skv. 3. mgr. núgildandi 9. gr. Skipun bráðabirgðastjórnanda skv. 86. gr. j gefur honum heimild til að leysa stjórn fyrirtækis af í heild sinni og fara með ákvörðunarvald stjórnar. Rétt þykir að bráðabirgðastjórnandi hafi þá heimild sem kveðið er á um að bráðabirgðastjórn hafi í 3. mgr. 9. gr. enda heimildin veitt með samþykki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
     Um b-lið. Lögð er til orðalagsbreyting á 3. tölul. 1. mgr. 82. gr. a laganna, sbr. 1. tölul. stafliðarins, en of þröngt er að tala einungis um Seðlabanka Íslands í ákvæðinu. Lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki geta óskað eftir lausafjárfyrirgreiðslu hjá seðlabanka í öðru ríki ef útibú er starfrækt þar. Ákvæði 2. tölul. er innleiðing 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar sem var ekki innleidd með lögum nr. 54/2018 þar sem fyrirkomulag skilavaldsins lág ekki fyrir. Ákvæðið snýr að afhendingu Fjármálaeftirlitsins á endurbótaáætlun til skilavaldsins sem getur beint tilmælum til Fjármálaeftirlitsins ef það telur að eitthvað í endurbótaáætlun geti haft skaðleg áhrif á skilabærni lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis.
     Um c-lið. Lögð er til orðalagsbreyting til samræmis við hugtakanotkun í frumvarpi til laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Hugtakið „nauðsynleg starfsemi“ þykir ná betur yfir enska heitið „critical functions“.
     Um d-lið. Ákvæðið er innleiðing c- og d-liðar 3. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar og bætir samstæðuskilavaldi og skilastjórnvöldum dótturfélaga við þá aðila sem Fjármálaeftirlitinu ber að áframsenda endurbótaáætlun til. Hugtökin eru skilgreind í 28. og 32. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
     Um e-lið. Breytingunni sem lögð er til í ákvæðinu er ætlað að auka skýrleika. Í kjölfar gildistöku laga nr. 54/2018 hefur ákveðins misskilnings gætt um þá reglugerð sem ráðherra hefur sett á grundvelli 3. mgr. 82. gr. e laganna. Reglugerðinni var einungis ætlað að fjalla um viðmið sem Fjármálaeftirlitinu bæri að styðjast við þegar það tæki ákvörðun um hvort lánastofnun, verðbréfafyrirtæki eða samstæða skyldi gera einfalda endurbótaáætlun. Í frumvarpi þessu er hins vegar lögð til breytt nálgun á því hvernig undirgerðir tilskipunar 2014/59/ESB verða innleiddar. Þær undirgerðir sem verða innleiddar með stoð í lögum þessum verða innleiddar með reglum Seðlabankans en ekki reglugerð ráðherra enda byggjast þær allar á tæknilegum eftirlitsstöðlum eða framkvæmdastöðlum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Reglur Seðlabankans munu ekki hafa að geyma aðrar reglur um efni einfaldra endurbótaáætlana en þær sem leiða má af reglugerð um endurbótaáætlanir lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og samstæður þeirra sem sett hefur verið með stoð í 3. mgr. 82. gr. a og 4. mgr. 82. gr. b laganna, sbr. reglugerð nr. 50/2019. Efni einfaldra endurbótaáætlana grundvallast því á þeirri reglugerð þar til hún verður felld úr gildi og reglur Seðlabankans koma í stað þeirrar reglugerðar. Framkvæmdastjórnin hefur nú gefið út framselda reglugerð nr. 2019/348 sem tekur á þessum viðmiðum og munu reglur Seðlabankans innleiða reglugerð ESB.
     Um f-lið. Lagt er til að 82. gr. g laganna falli brott og ákvæðið verði þess í stað fært í lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Nánar um þessa breytingu vísast til skýringa við 25. gr. frumvarpsins.
     Um g-lið. Lagt er til að ákvæði, sem verður innleiðing 1. og 2. mgr. 81. gr. tilskipunar 2014/59/ESB, verði bætt við 86. gr. laganna. Sú tilhögun að ákvæðið verði í lögum um fjármálafyrirtæki en ekki í fyrirhuguðum lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er í samræmi við innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku og Svíþjóð. Stjórn lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis skal upplýsa Fjármálaeftirlitið ef hún telur fyrirtækið á fallanda fæti, sbr. 2 tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Það á til dæmis við ef skylt er að gefa bú fyrirtækisins upp til gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Fyrirmælin eru nánar útfærð í II. þætti V. kafla framseldrar reglugerðar (ESB) 2016/1075 um viðbætur við tilskipunina sem ráðgert er að innleiða með reglum Seðlabankans, sbr. VIII. kafla frumvarpsins. Samhliða þessari breytingu eru lagðar til orðalagsbreytingar á 110. gr. og 112. gr. b laganna um viðurlög, sbr. breytingar í w- og x-lið þessarar greinar.
     Um h-lið. Ákvæðið er innleiðing h-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 27. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Fjármálaeftirlitið getur aflað allra nauðsynlegra upplýsinga, þ.m.t. með vettvangskönnun, og afhent skilavaldinu. Þá skal Fjármálaeftirlitið upplýsa skilastjórnvöld lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis um leið og aðstæður vegna tímanlegra inngripa eru til staðar.
     Um i-lið. Lagt er til að ákvæði 7. mgr. 86. gr. j falli brott úr lögunum. Ákvæðið tók gildi við gildistöku laga nr. 54/2018 og var því ætlað að tengja saman nýjar og eldri heimildir í lögum um fjármálafyrirtæki til skamms tíma þar til nýtt frumvarp til heildarlaga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja yrði að lögum.
     Um j-lið. Ákvæðið er innleiðing 30. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Af ákvæðinu leiðir að reglurnar um tímanleg inngrip og skipun bráðabirgðastjórnanda skv. 86. gr. h eða 86. gr. j laganna gilda um samstæður þegar Fjármálaeftirlitið er eftirlitsaðili á samstæðugrunni og hefur þar af leiðandi eftirlit með móðurfélagi í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu. Hugtökin „eftirlitsaðili á samstæðugrunni“ og „móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu“ eru skilgreind í 46. og 47. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laganna. Ákvæðið gildir bæði um samstæður sem starfa einungis hér á landi og þær sem eru með starfsemi yfir landamæri.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing 1. og 2. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar. Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni tekur ákvörðun um hvort beita skuli tímanlegum inngripum eða skipa bráðabirgðastjórnanda fyrir móðurfélag, sbr. 86. gr. h eða 86. gr. j laganna. Áður en slík ákvörðun er tekin ber Fjármálaeftirlitinu að ráðfæra sig við lögbær yfirvöld og beina tilkynningu á sama tíma til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Notast er við hugtakið „lögbært yfirvald“ í þessu ákvæði og öðrum greinum sem breyta lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. tölul. greinarinnar, til að halda samfellu enda hugtakið notað í lögum nr. 54/2018 sem voru innleiðing á hluta ákvæða tilskipunarinnar. Í fyrirhugðum lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er hugtakið „eftirlitsstjórnvald“ notað yfir sama enska heiti, þ.e. „competent authority“. Í ákvæðinu segir að samráð skuli eiga sér stað innan samstarfshóps eftirlitsaðila. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að starfrækja slíkan hóp skv. 7. mgr. 108. gr. laganna en einnig er að finna ákvæði um þann hóp í 116. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Við mat Fjármálaeftirlitsins á því hvort aðgerðunum verði beitt skal það hafa hliðsjón af áhrifum ráðstafananna á öll viðkomandi fyrirtæki innan samstæðu.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 3. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar. Þegar Fjármálaeftirlitið móttekur sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni tilkynningu frá lögbæru yfirvaldi dótturfélags um að skilyrði fyrir tímanlegum inngripum eða skipun bráðabirgðastjórnanda séu uppfyllt gagnvart dótturfélagi skal það leggja mat á aðgerðir dótturfélagsins. Matið skal ná til líklegra afleiðinga aðgerða dótturfélags á samstæðu í heild eða einstök fyrirtæki innan samstæðu í öðrum aðildarríkjum. Matið skal undirbúið og tilkynnt lögbæru yfirvaldi dótturfélags innan þriggja virkra daga.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing á hluta 4. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið tekur til þeirra aðstæðna þegar samstæða er með starfsemi í fleiri en einu aðildarríki og fleiri en eitt lögbært yfirvald í samstarfshópi eftirlitsaðila vill beita tímanlegum inngripum eða skipa bráðabirgðastjórnanda gagnvart dótturfélagi. Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni skal við slíkar aðstæður vinna með öðrum lögbærum yfirvöldum og leggja mat á fyrirhugaðar aðgerðir fyrir samstæðu í heild. Með mati Fjármálaeftirlitsins skal leitast við að stuðla að lausnum til að rétta af fjárhagslega stöðu viðeigandi fyrirtækis.
     Um 4. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 4. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar, kveður á um að Fjármálaeftirlitið skuli leitast við að ná sameiginlegri ákvörðun um þær aðgerðir sem fjallað er um í greininni með öðrum lögbærum yfirvöldum. Fjármálaeftirlitið og viðeigandi lögbær yfirvöld hafa fimm virka daga til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni er heimilt að aðstoða lögbær yfirvöld við að ná sameiginlegri ákvörðun í samræmi við 31. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010.
     Um 5. mgr. Málsgreinin, sem er innleiðing á hluta 4. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar, kveður á um ákvarðanatöku þegar sameiginleg ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda næst ekki innan fimm daga. Fjármálaeftirlitið getur þá tekið sjálfstæða ákvörðun um aðgerðir gagnvart móðurfélaginu. Ákvörðunin skal rökstudd og taka tilliti til sjónarmiða og mats sem viðeigandi lögbær yfirvöld hafa lagt fram skv. 4. mgr. greinarinnar ásamt hugsanlegum áhrifum á fjármálastöðugleika í viðeigandi aðildarríkjum.
     Um 6. mgr. Málsgreinin er innleiðing 5.–8. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðun sinni ef eitthvert lögbært yfirvald í samstarfshópi eftirlitsaðila hefur vísað ákvörðun þess til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA. Stofnanirnar geta aðstoðað lögbær yfirvöld við að beita einum eða fleiri aðgerðum sem koma fram í 86. gr. h laganna. Um er að ræða aðgerðir skv. 1. tölul. 2. mgr. 86. gr. h að teknu tilliti til 4., 10., 11. og 19. gr. reglugerðar nr. 50/2019 um endurbótaáætlanir lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og samstæður þeirra og aðgerðir skv. 5. og 7. tölul. 2. mgr. 86. gr. h laganna. Ef málið er tekið fyrir af Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni eða Eftirlitsstofnun EFTA skal Fjármálaeftirlitið bíða ákvörðunar sem kann að vera tekin í samræmi við 3. mgr. 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010 og taka ákvörðun í samræmi við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA. Ef engin ákvörðun hefur verið tekin af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA innan þriggja daga skulu ákvarðanir skv. 2. og 6. mgr. greinarinnar eða 2. mgr. 86. gr. m gilda.
     Um k-lið. Ákvæðið er innleiðing á hluta 3.–8. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar.
     Um 1. mgr. Ákvæðið tekur til þeirra aðstæðna þegar Fjármálaeftirlitið er lögbært yfirvald sem hefur eftirlit með dótturfélögum sem eru lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki og hyggst grípa til tímanlegra inngripa eða skipa bráðabirgðastjórnanda yfir dótturfélaginu. Eftirlitsaðili á samstæðugrunni er því staðsettur í öðru aðildarríki eða eftir atvikum ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Af ákvæðinu leiðir að Fjármálaeftirlitið skal ráðfæra sig við eftirlitsaðila á samstæðugrunni áður en gripið er til aðgerða. Þá skal það taka mat eftirlitsaðila á samstæðugrunni, sbr. ákvæði 3. mgr. 86. gr. l, til skoðunar ásamt hugsanlegum áhrifum á fjármálastöðugleika í viðeigandi aðildarríkjum.
     Um 2. mgr. Ákvæðið tekur á aðstæðum sem fram koma í 4. mgr. 86. gr. l, en Fjármálaeftirlitið er ekki eftirlitsaðili á samstæðugrunni líkt og gildir um það ákvæði. Af ákvæðinu leiðir að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa til tímanlegra inngripa eða skipa bráðabirgðastjórnanda í samræmi við 86. gr. h eða 86. gr. j gagnvart dótturfélagi, ef ekki liggur fyrir sameiginleg ákvörðun skv. 5. mgr. 86. gr. l, þ.e. innan fimm virkra daga frá því tímamarki þegar eftirlitsaðili á samstæðugrunni hefur ráðfært sig við lögbær yfirvöld í samstarfshópi eftirlitsaðila. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal taka mið af sjónarmiðum og mati eftirlitsaðila á samstæðugrunni ásamt hugsanlegum áhrifum á fjármálastöðugleika í viðkomandi aðildarríkjum. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna dótturfélagi um ákvörðunina. Af ákvæðinu leiðir einnig að Fjármálaeftirlitið eða önnur lögbær yfirvöld í samstarfshópi eftirlitsaðila geta leitað til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar í samræmi við 31. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010 með það að markmiði að aðstoða lögbær yfirvöld að ná sameiginlegri ákvörðun. Þá segir jafnframt í ákvæðinu að Fjármálaeftirlitið skuli fresta ákvörðun sinni ef eitthvert lögbært yfirvald í samstarfshópi eftirlitsaðila, þ.m.t. Fjármálaeftirlitið ef við á, hefur vísað máli til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Umfjöllum um þær aðgerðir sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin og Eftirlitsstofnun EFTA geta aðstoðað lögbær yfirvöld við má finna í skýringum við tillögu að nýrri 6. mgr. 86. gr. l, sbr. j-lið 1. tölul. greinarinnar.
     Um l-lið. Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 98. gr. laganna sem kveða á um endurskipulagningu fjárhags lánastofnana. Í 117. gr. tilskipunar 2014/59/ESB eru lagðar til ýmsar breytingar á tilskipun 2001/24/EB um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja. Í 1. mgr. 117. gr. tilskipunar 2014/59/ESB er m.a. lögð til breyting á gildissviði tilskipunar 2001/24/EB, þ.e. að hún taki ekki einungis til lánastofnana heldur einnig verðbréfafyrirtækja eins og þau eru skilgreind í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og útibúa slíkra verðbréfafyrirtækja á EES-svæðinu sbr. 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Lagt er til að gildissviði reglna um endurskipulagningu fjárhags og slit verði breytt þannig að það taki ekki einungis til lánastofnana heldur einnig verðbréfafyrirtækja sem ekki eru með takmarkaðar starfsskyldur eða staðbundin. Gildissvið ákvæðisins er svo rýmkað enn frekar og gildir það einnig um fjármálstofnanir og eignarhaldsfélög skv. b–d-lið 2. gr. frumvarpsins ef skilaaðgerðum hefur verið beitt samkvæmt frumvarpi þessu, sbr. 3. mgr. 66. gr. Er þetta í samræmi við 3. og 4. mgr. 3. gr. tilskipunar 2001/24/EB.
    Í 4. tölul. stafliðarins er lagt til að við skilgreiningu á endurskipulagningu fjárhags bætist tilvísun til skilaaðgerða sem gripið er til á grundvelli frumvarps þessa, verði það að lögum. Ný skilgreining er í samræmi við 2. gr. tilskipunar 2001/24/EB eins og henni var breytt með 2. mgr. 117. gr. tilskipunar 2014/59/ESB.
    Í 6. tölul. ákvæðisins er lagt til að 6. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB verði innleidd í 98. gr. laganna. Með 1. mgr. 117. gr. tilskipunar 2014/59/ESB eru lagðar til breytingar á 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Ein þessara breytinga, sem kemur fram í 6. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB, kveður á um að ákvæði tilskipunar 2014/59/ESB skuli ganga framar þagnarskylduákvæði 33. gr. tilskipunar 2001/24/EB þegar lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki undirgengst endurskipulagningu fjárhags eða slit sem tengd eru beitingu skilaaðgerða á grundvelli tilskipunar 2014/59/ESB.
     Um m-lið. Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 99. gr. laganna sem kveður á um fjárhagslega endurskipulagningu lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.
    Í 1.–4. tölul., 7.–9. tölul. og 11. tölul. stafliðarins eru lagðar til breytingar vegna breytts gildissviðs tilskipunar 2001/24/EB sbr. 3. mgr. 1. gr. þeirrar tilskipunar. Breytingar á gildissviði, sem ekki eru almennar heldur varða þá stöðu ef félag sem ekki heyrir undir almenna gildissviðið hefur verið tekið til skilameðferðar, koma svo fyrir í 3. mgr. 66. gr. frumvarpsins.
    Með breytingu á 5. og 6. tölul. stafliðarins eru lagðar til breytingar á j- og k-lið 2. mgr. 99. gr. laganna, sem kveða á um hvernig fari um samninga um skuldajöfnuð á grundvelli greiðslujöfnunarsamnings og endurkaupasamninga þegar heimildir eru nýttar til þess að fresta uppsagnarfresti í samningum eða um að víkja samningsákvæðum slíkra samninga til hliðar þegar heimildir í lögum um skilameðferð fjármálafyrirtækja eru nýttar. Í 3. og 4. mgr. 117. gr. tilskipunar 2014/59/ESB sem breytti 25. og 26. gr. tilskipunar 2001/24/EB kemur fram að meginreglur 25. og 26. gr. tilskipunar um að lög þau sem gilda um samninga um skuldajöfnuð á grundvelli greiðslujöfnunarsamnings og endurkaupasamnings skuli gilda nema 68. og 71. gr. tilskipunar 2014/59/ESB eigi við. Þessi ákvæði eru innleidd með 69. gr., 72. og 73. gr. frumvarpsins. Verði frumvarp þetta að lögum verður heimilt að fresta uppsagnarfresti eða víkja samningsákvæðum til hliðar og fer þá um samninga skv. j- og k-lið 2. mgr. 99. gr. laganna eftir þeim lögum.
    Sú breyting sem lögð er til í 10. tölul. stafliðarins innleiðir 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB og felur það í sér að ef ákvæði 5. mgr. 35. gr. frumvarpsins, verði það að lögum, eigi við gildi sú grein um tilkynningar en ekki 2. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 99. gr. laganna.
     Um n-lið. Í 100. gr. laganna er kveðið á um fjárhagslega endurskipulagningu lánastofnunar með höfuðstöðvar erlendis en útibú á Íslandi. Allar breytingarnar sem lagðar eru til í ákvæðinu varða innleiðingu á 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001/24/EB eins og henni var breytt með 1. mgr. 117. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Nánari úrlistun er að finna í skýringum við þær breytingar sem lagðar eru til í l- og m-lið 1. tölul. þessarar greinar frumvarpsins.
     Um o-lið. Lagt er til að ákvæði 100. gr. a laganna falli brott. Ákvæðið var lögfest með gildistöku laga nr. 44/2009 til að takast á við þær aðstæður sem sköpuðust hér á landi í kjölfar bankahrunsins. Með ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir fjármálafyrirtæki og skipa því bráðabirgðastjórn. Ef frumvarpið verður samþykkt verður til heildstætt regluverk um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og nýjar heimildir frumvarpsins leysa þær sem kveðið er á um í ákvæði 100. gr. a af hólmi. Fjármálaeftirlitið hefur nú þegar heimild í lögum til að skipa bráðabirgðastjórnanda, einn eða fleiri, sbr. 86. gr. j laganna, og þá er jafnframt á meðal ákvæða frumvarpsins kveðið á um heimild skilavalds til að fara með yfirráð yfir fyrirtæki og skipa því skilastjórn, sbr. 37 og 38. gr. frumvarpsins.
     Um p-lið. Í 101. gr. laganna er kveðið á um skilyrði og upphaf slitameðferðar. Í ákvæðinu eru lagðar til fjórar breytingar. Í 1. tölul. stafliðarins er lögð til orðalagsbreyting og „bráðabirgðastjórn“ skipt út fyrir „bráðabirgðastjórnanda“. Umfjöllun um þá breytingu má finna í skýringum við a-lið 1. tölul. þessarar greinar. Ef fyrirtæki fer í skilameðferð er skilavaldið lögbært stjórnvald sem krefst slita og því ekki rétt að fela skilastjórn sem skipuð kann að vera skv. 37. og 38. gr. frumvarpsins heimild til að krefjast slita á fyrirtæki. Rétt þykir hins vegar að bráðabirgðastjórnandi sem skipaður kann að vera skv. 86. gr. j laganna fái þá heimild sem bráðabirgðastjórn hefur samkvæmt gildandi ákvæði og geti því krafist slita á fyrirtæki ef hann hefur verið skipaður og ekki tekst að rétta af fjárhagslega stöðu fyrirtækis sem ekki verður tekið til skilameðferðar. Í 2. tölul. stafliðarins er lagt til að tilvísun til „bráðabirgðastjórnar“ falli brott. Ekki þykir ástæða til gera orðalagsbreytingu og bæta inn hugtakinu bráðabirgðastjórnandi í stað bráðabirgðastjórnar enda kveðið á um það í 6. mgr. 86. gr. j laganna, sem fjallar um bráðabirgðastjórnanda, að um hæfisskilyrði hans fari skv. 52. gr. og 52. gr. a laganna. Í 3. tölul. stafliðarins er lögð til breyting á aðstæðum sem geta afmarkað frestdag við slit. Ef fyrirtæki hefur verið tekið til skilameðferðar getur frestdagur við slit því ráðist af þeim degi þegar fyrirtæki hefur verið tekið til skilameðferðar skv. 35. gr. frumvarpsins. Sams konar ákvæði var lögfest í Danmörku með innleiðingu tilskipunar 2014/59/ESB þar í landi, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um endurskipulagningu og skilameðferð ákveðinna fjármálafyrirtækja (d. lov om restrukturering og afvikling af visse finansielle virksomheder). Þá er lagt til í 4. tölul. stafliðarins hvernig beri að afmarka 101. gr. laganna gagnvart ákvæðum frumvarps þessa, verði það að lögum. Ef fyrirtæki hefur verið tekið til skilameðferðar er það skilavaldsins að krefjast slita svo fljótt sem það samræmist markmiðum 14. tölul. 1. mgr. 61. gr., sbr. 2. mgr. 85. gr. frumvarpsins. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að öll fyrirtæki verði tekin til skilameðferðar og því standa heimildir Fjármálaeftirlitsins, stjórnar fyrirtækis og ef við á bráðabirgðastjórnanda óhaggaðar ef fyrirtæki verða ekki tekin til skilameðferðar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, verð það að löguma.
     Um q-lið. Í ákvæðinu er lagt til að 5. mgr. 101. gr. a laganna, sem kveður á um sérstakt eftirlit Fjármálaeftirlitsins með fyrirtæki sem stýrt er af bráðabirgðastjórn eða skilanefnd, falli brott. Hugtökin munu ekki koma fyrir í lögunum ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt. Skilanefndir voru skipaðar á grundvelli 5. gr. hinna svonefndu neyðarlaga, nr. 125/2008. Með gildistöku laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki (slitameðferð og kostnaður af störfum skilanefnda), nr. 44/2009, var kveðið á um að skipaðar skilanefndir yrðu bráðabirgðastjórn samkvæmt lögunum. Lagt er til í greininni að ákvæði laganna um bráðabirgðastjórn falli brott, sbr. o-lið 1. tölul. greinarinnar, enda mælt fyrir um nýja heildarumgjörð sem gilda skal við skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja í þessu frumvarpi ásamt frumvarpi um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem varð að lögum nr. 54/2018. Á grundvelli nýrrar heildarumgjarðar er hægt að skipa bráðabirgðastjórnendur, einn eða fleiri, skv. 86. gr. j laganna og skilastjórn skv. 37 og 38. gr. frumvarpsins.
     Um r-lið. Ákvæðið er innleiðing 108. gr. tilskipunar 2014/59/ESB sem kveður á um rétthæð krafna um innstæður við hefðbundna ógjaldfærnimeðferð (e. normal insolvency proceedings). Ákvæði tilskipunar 2014/59/ESB kveður á um að kröfur vegna tryggðra innstæðna og kröfur sem innstæðutryggingakerfi hefur tekið yfir skuli vera rétthærri við hefðbundna ógjaldfærnimeðferð en kröfur vegna tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga. Hugtakið „örfélög, lítil og meðalstór félög“ er skilgreint í 38. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Veltuviðmið þessara félaga, þ.e. jafnvirði 50 millj. evra á ársgrundvelli, er hærra en samkvæmt lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, þar sem fjárhæðarmarkið er að jafnvirði 40 millj. evra á ársgrundvelli. Bæði kröfur samkvæmt 1. og 2. tölul. nýrrar 3. mgr. ákvæðisins skulu svo vera rétthærri en ótryggðir kröfuhafar (e. unsecured, non-preferred creditors). Samkvæmt núgildandi 3. mgr. 102. gr. laganna eru allar innstæður forgangskröfur skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Lagt er til að gerðar verði breytingar á 3. mgr. 102. gr. laganna til innleiðingar á 108. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðinu verði skipt upp í tvær málsgreinar og fyrri málsgreininni í tvo töluliði þannig að kröfur vegna tryggðra innstæðna og kröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur tekið yfir verði rétthærri við slitameðferð en aðrar kröfur um innstæður, þ.e. tryggingarhæfar innstæður einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga. Þá er lagt til að núgildandi 2. málsl. 3. mgr. verði að nýrri 4. mgr. 102. gr. laganna en engar efnislegar breytingar eru gerðar með þeirri breytingu. Lögð er til einföld orðalagsbreyting til að auka skýrleika þar sem orðunum „þeim lögum“ er skipt út fyrir „lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.“
     Um s- og t-lið. Lagfærðar eru millivísanir sem leiða af breytingum sem gerðar eru á 3. mgr. 102. gr. laganna, sbr. r-lið greinarinnar. Þá er lagt til að tilvísun til hugtaksins „skilanefnd“ falli brott en útskýringu á þeirri breytingu er að finna í skýringum við q-lið 1. tölul. greinarinnar.
     Um u-lið. Ákvæðið er innleiðing i-liðar 2. mgr. 23. gr. tilskipunar 2014/59/ESB og tengir saman fjárstuðning innan samstæðu en ákvæði þar að lútandi tóku gildi með lögum nr. 54/2018 og skilabærni, sbr. ákvæði í III. kafla frumvarpsins.
     Um v-lið. Sú breyting sem lögð er til í ákvæðinu byggist á nýrri afmörkun á því hvernig undirgerðir tilskipunar 2014/59/ESB verða innleiddar. Reglugerð ESB nr. 2016/911, sem kveður á um innihald og form opinberrar birtingar um fjárstuðning innan samstæðu, verður innleidd með reglum Fjármálaeftirlitsins enda samþykkir það samning um fjárstuðning innan samstæðu og getur hafnað eða takmarkað veitingu fjárstuðnings.
     Um w- og x-lið. Í ákvæðunum eru lagðar til orðalagsbreytingar sem leiða af breytingu á 86. gr. laganna, sbr. g-lið 1. tölul. greinarinnar. Lagt er til að sömu viðurlög gildi við broti á tilkynningarskyldu um að fyrirtæki sé á fallanda fæti og tilkynningarskyldu um brot gegn varfærniskröfum. Með breytingu í 2. tölul. w-liðar er lagt til brottfall á heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brots á ákvæði um að halda skrá yfir fjárhagslega samninga. Ákvæði 82. gr. í lögunum sem fjallar um skrá yfir fjárhagslega samninga er fært í frumvarp til heildarlaga, sbr. 25. gr. frumvarps, og því færist heimild til að leggja stjórnvaldssekt vegna brots á því ákvæði yfir í fyrirhuguð lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 94. gr.
     Um y-lið. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á c-lið 2. mgr. 111. gr. tilskipunar 2014/59/ESB að því er varðar Fjármálaeftirlitið. Hliðstætt ákvæði sem varðar aðgerðir skilavaldsins er að finna í 98. gr. frumvarpsins.
    Í 2. tölul. er lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.
     Um a-lið. Lagt er til að við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem tekur mið af því nýja hlutverki Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að koma að fjármögnun skilameðferðar, sbr. 82. gr. frumvarpsins.
     Um b-lið. Lögð er til breyting í 1. og 2. tölul. stafliðarins, sem starfar af breyttri skilgreiningu á tryggðri innstæðu í lögunum, sbr. breyting sem lögð er til í 3. tölul. c-liðar 2. tölul. greinarinnar. Hlutfall iðgjalda af tryggðum innstæðum helst óbreytt, þó skilgreining á tryggðum innstæðum og hámark tryggingaverndar valdi breytingu á gjaldstofni iðgjalda. Afleiðing þessa er sú að fjárhæð sem aðildarfélög innstæðudeildar greiða til sjóðsins lækkar umtalsvert, eða sem nemur um 41% frá því sem nú er. Í ákvæðinu er einnig lögð til breyting sem kveður á um lágmarkseign, eða svokallað viðmiðunarmark (e. target level), sem innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skal hafa yfir að ráða á hverjum tíma, sbr. 3. tölul. stafliðarins. Viðmiðunarmarkið tekur mið af Evrópureglum og skal vera 0,8% af tryggðum innstæðum hjá aðildarfélögum. Tiltækir fjármunir innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta eru töluvert hærri en viðmiðunarmarkið sem hér er lagt til, eða um 4,5% af tryggðum innstæðum eins þær eru skilgreindar skv. 3. tölul. c-liðar 2. tölul. þessarar greinar. Ástæða þess að lagt er til að þetta viðmiðunarmark verði lögfest nú er sú að í 82. gr. frumvarpsins er kveðið á um þátttöku innstæðutryggingakerfis í skilameðferð lánastofnana. Í 5. mgr. 82. gr. frumvarpsins er lagt til að fjárhæðin sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta geti þurft að greiða til skilameðferðar nemi ekki hærri fjárhæð en 175% af viðmiðunarmarkinu.
     Um c-lið. Lagðar eru til nokkrar breytingar á 9. gr. laganna. Breyting í 1. tölul. stafliðarins tekur mið af skilgreiningu á tryggðum innstæðum. Í 2. tölul. er kveðið á um umtalsverða breytingu á tryggingavernd innstæðna frá gildandi lögum og tekur breytingin mið af breytingum sem gerðar hafa verið á grundvelli Evrópureglna í öðrum aðildarríkjum. Lagt er til að tryggingarhæfar innstæður hvers innstæðueigenda hjá aðildarfyrirtæki verði tryggðar upp að jafnvirði 100.000 evra í íslenskum krónum. Á grundvelli evrópureglna er mælt fyrir um að miða skuli við gengi evru 3. júlí 2015 og heimilt sé að námunda fjárhæðir svo framarlega sem skekkjumörk séu innan við 5.000 evrur. Hámarkið kveður á um töluverða breytingu frá gildandi lögum þar sem ekkert hámark er á tryggingavernd, en lágmarkstrygging er sem nemur 20.887 evrum. Í 3. tölul. er lagt til að nýjar skilgreiningar á annars vegar tryggðri innstæðu og hins vegar tryggingarhæfri innstæðu bætist við sem nýjar 5. og 6. mgr. 9. gr. laganna. Rétt þykir að lögfesta þetta efni í 9. gr. í stað þess að hafa sérstaka skilgreiningu fremst í lögunum þar sem önnur lykilhugtök á borð við „innstæðu“, „verðbréf“ og „reiðufé“ eru skilgreind í 9. gr. laganna. Hugtökin „tryggð innstæða“ og „tryggingarhæf innstæða“ gegna veigamiklu hlutverki vegna þeirra breytinga sem frumvarpið mælir fyrir um og varða skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Réttarvernd innstæðueigenda tekur mið af þessum hugtökum þegar ýmsum skilaaðgerðum er beitt og njóta tryggðar innstæður ríkrar verndar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Skilgreiningin á hugtakinu „tryggingarhæf innstæða“ er neikvæð og teljast því allar innstæður tryggingarhæfar sem ekki eru undanskildar tryggingavernd skv. 6. mgr. 9. gr., sem verður 9. mgr. 9. gr. laganna, sbr. breyting sem einnig er lögð til í 4.–5. tölul. stafliðarins. Þar er kveðið á um brottfall fjögurra töluliða en í þeirra stað koma sjö nýir töluliðir. Breytingarnar taka mið af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lögum hér á landi undanfarin misseri og grundvallast á Evrópureglum. Ýmis félög hafa nú verið skilgreind til dæmis í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, og taka breytingarnar meðal annars mið af því. Miðað er við endanlegan eiganda viðkomandi innstæðu og hvílir sönnunarbyrðin á hverjum þeim sem heldur því fram að hann eigi tilkall til hennar. Ekki eru innheimt iðgjöld vegna þeirra innstæðna sem eru undanskildar tryggingavernd.
     Um d-lið. Lagt er til að núgildandi 1. mgr. 10. gr. laganna, sem kveður á um greiðslur úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, verði skipt upp í tvær málsgreinar. Fyrri málsgrein ákvæðisins snýr að innstæðudeild sjóðsins og tekur mið af þeirri breytingu sem lögð er til á tryggingavernd samkvæmt frumvarpinu, sbr. 2. tölul. c-liðar 2. tölul. greinarinnar. Hámark greiðslna úr innstæðudeild sjóðsins miðast því við 100.000 evra tryggingaverndina. Ekki er kveðið á um lágmark greiðslna ef eignir sjóðsins hrökkva ekki til greiðslu hámarksfjárhæðarinnar heldur skal þá greitt hlutfallslega í samræmi við gildandi ákvæði eftir því sem eignir hrökkva til. Síðari málsgreinin sem verður ný 2. mgr. er efnislega samhljóða núgildandi 1. mgr. 10. gr. laganna en orðalagi hefur verið breytt þannig að hún gildi eingöngu um greiðslur úr verðbréfadeild sjóðsins.
    Í 3. tölul. greinarinnar er lögð til breyting á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, sem eru innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012. Ákvæði 126. gr. tilskipunar 2014/59/ESB breytir 3. mgr. 81. gr. reglugerðar (ESB) nr. 648/2012 með þeim hætti að skilastjórnvöldum sem eru tilnefnd skv. 3. gr. tilskipunar 2014/59/ESB er bætt á lista þeirra aðila sem afleiðuviðskiptaskrá skal gera upplýsingar aðgengilegar fyrir. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins sem er innleiðing 3. gr. tilskipunar 2014/59/ESB kveður á um skilastjórnvald hér á landi sem nefnist skilavald. Hugtakið skilastjórnvald er svo skilgreint í 32. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 4. tölul. greinarinnar er lögð til breyting á lögum um evróskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Ákvæði 125. gr. tilskipunar 2014/59/ESB breytir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), um breytingu á ákvörðun nr. 716/2009/EB og niðurfellingu ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2009/78/EB. Breytingin varðar breytta skilgreiningu á enska hugtakinu „competent authority“ sem fjallað er um sem „eftirlitsstjórnvald“ í fyrirhuguðum lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sbr. skilgreining í 9. tölul. 1. mgr. 3. gr.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er lagt til að stofnaður verði skilasjóður sem fjármögnunarfyrirkomulag innan sérstakrar deildar hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Jafnframt er lagt til að byrjað verði á því að fjármagna skilasjóðinn með því að færa fjármuni úr innstæðudeild tryggingarsjóðsins í hann. Sérstaklega er áskilið að tekjum og eignum skilasjóðs skuli haldið aðgreindum frá öðrum eignum tryggingarsjóðsins.
    Stjórn Tryggingarsjóðsins er falið að sjá um tilfærslu fjármunanna og einnig að ávaxta þá en skilavaldið mun taka allar ákvarðanir um útgreiðslur úr skilasjóðnum.

1    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/10180/2613666/Valuation+Handbook.pdf
2    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/1156219/EBA-GL-2015-07_EN_GL+on+failing+or+likely+to+fail.pdf/9c8ac238-4882-4a08-a940-7bc6d76397b6
3    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/821335/EBA-GL-2014-09+%28Guidelines+on+Public+Support+Measures%29.pdf/264e609b-135a-443e-8d2a-1e66f5450ba9
4    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/1523874/EBA-GL-2016-03+GL+on+the+provision+of+information+in+summary+or+collective+form_EN.pdf/d9b35825-28e8-4b77-9207-5d4add90df26
5    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/933988/EBA-GL-2014-11+%28Guidelines+on+Impediments+to+Resolvability%29.pdf/d3fa2201-e21f-4f3a-8a67-6e7278fee473
6    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/10180/1903962/Guidelines+on+the+rate+of+conversion++%28EBA-GL-2017-03%29_EN.pdf/673600e0-380f-4537-b7e0-77b0ed3ca800
7    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/10180/2613666/Valuation+Handbook.pdf
8    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/1156219/EBA-GL-2015-07_EN_GL+on+failing+or+likely+to+fail.pdf/9c8ac238-4882-4a08-a940-7bc6d76397b6
9    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/1080767/EBA-GL-2015-04_EN_Guidelines+on+the+sale+of+business+tool.pdf/6c15f73e-7557-48a6-b9f2-a70fda290149
10    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/1080767/EBA-GL-2015-04_EN_Guidelines+on+the+sale+of+business+tool.pdf/6c15f73e-7557-48a6-b9f2-a70fda290149
11    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/10180/1903744/Guidelines+on+interrelationship+BRRD_CRR+%28 EBA-GL-2017-02%29_EN.pdf/852a2f82-6e39-41d4-b476-02df93786fea
12    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/1312845/EBA-GL-2015-21+GLs+on+Business+Reorganisation+Plans.pdf/76c11392-79dc-4db4-bbe5-772133d2f715
13    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/1 0180/1155932/EBA-GL-2015-06_EN_GL+on+the+minimum+list+of+services.pdf/06058e3b-0b78-4ddd-88b6-65b7e78c3f05
14    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/10180/1904221/Guidelines+on+the+treatment+of+shareholders+in+bail-in+%28EBA-GL-2017-04%29_EN.pdf/d156a0cd-f41d-493a-8c0d-3c5d32a14b2b
15    Sjá hér: eba.europa.eu/documents/10180/1903962/Guidelines+on+the+rate+of+conversion++%28EBA-GL-2017-03%29_EN.pdf/673600e0-380f-4537-b7e0-77b0ed3ca800