Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 433  —  363. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.


Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Greinargerð.

    Nú er liðinn áratugur frá því að Ísland sótti um að hefja aðildarviðræður um inngöngu í Evrópusambandið og nær sjö ár frá því að hlé var gert á aðildarviðræðum. Samninganefnd Íslands var leyst upp árið 2013 og vorið 2015 sendi þáverandi utanríkisráðherra bréf til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins og framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna sambandsins þess efnis að ríkisstjórn Íslands hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og að ekki bæri að líta á Ísland sem umsóknarríki. Ákveðin óvissa ríkir þó um stöðu aðildarumsóknar Íslands.
    Í kjölfar bréfsins lýsti talsmaður stækkunardeildar Evrópusambandsins því yfir að sambandið liti ekki svo á að Ísland hefði dregið aðildarumsóknina til baka og að bréfið væri ekki ígildi uppsagnar. Á heimasíðu Evrópusambandsins er sagt að breytingar hafi verið gerðar á verklagi í kjölfar þess að ríkisstjórn Íslands hafi beðið um að ekki yrði litið á Ísland sem umsóknarríki. Ekki er þó ljóst hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka eða hvort sambandið hafi einungis fært Ísland af lista yfir umsóknarríki til málamynda en telji umsóknina enn fullgilda.
    Aðildarumsókn Íslands var lögð fram í kjölfar þess að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu þess efnis að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Alþingi hefur aftur á móti aldrei samþykkt tillögu um að umsóknin verði dregin til baka. Tillögur þess efnis hafa verið lagðar fram en ekki hlotið brautargengi.
    Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram til þess að tryggja að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu.