Ferill 297. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 439  —  297. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Örnu Láru Jónsdóttur um veggjöld í jarðgöngum.

     1.      Hvernig á að útfæra gjaldtöku af umferð um jarðgöng sem kynnt er í drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034?
    Veggjöld hafa verið lengi í umræðunni á Íslandi. Innheimta veggjalda í jarðgöngum af því tagi sem kynnt er í samgönguáætlun var sett fram í áliti umhverfis- og samgöngunefndar við umfjöllun um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og sem sjö nefndarmenn skrifuðu undir:     „Meiri hlutinn leggur áherslu á að gjaldtöku verði háttað með eftirfarandi hætti:
    ...
       3.      Innheimta megi veggjald í jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nánari útfærslu, með undantekningum þar sem svo er ákveðið. Gjaldtöku í jarðgöngum verði ætlað að standa undir þjónustu og rekstri jarðganga, sem er hærri fjárhæð en á samsvarandi löngum stofnvegakafla, og einnig hlut í nýbyggingum. Gjaldtakan verði liður í nýrri jarðgangaáætlun sem væri hluti af samgönguáætlun með það að markmiði að ekki verði hlé á uppbyggingu jarðganga. Í þeirri áætlun verði jafnframt tilgreint hvaða jarðgöng falla undir gjaldtöku og í hversu langan tíma.“
    Umræða um þann hátt að leggja gjöld á umferð í einum jarðgöngum til að standa straum af gerð annarra er því nokkurra mánaða gömul hér á landi en hún er hliðstæð þeirri hugmyndafræði sem Færeyingar fylgja í sinni jarðgangaáætlun.
    Hugmyndin er svo í uppfærðri samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 sem var í samráðsgátt stjórnvalda til 1. nóvember sl.:
    „Gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Stefnt er að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi. Sú innheimta mun fjármagna rekstur og viðhald ganganna, sem og að standa undir því sem uppá vantar í framkvæmdakostnað.“

     2.      Stendur til að innheimta veggjöld af umferð um jarðgöng:
                  a.      þar sem þau eru eini valkosturinn á milli staða eins og á t.d. við um Bolungarvíkurgöng,
                  b.      sem uppfylla ekki almennar kröfur um umferðaröryggi og eru t.d. einbreið eins og á við í Múlagöngum, Strákagöngum og Vestfjarðagöngum,
                  c.      sem tengja hverfi innan sama sveitarfélags eins og á við um Héðinsfjarðargöng, Vestfjarðagöng, Norðfjarðargöng og Fáskrúðsfjarðargöng?

    Ekki er tímabært að ræða nákvæma útfærslu gjaldtökunnar, þ.m.t. mismunandi gjaldtöku eftir göngum, á þeim forsendum sem tilgreindar eru í fyrirspurninni. Umfjöllun þingsins um samgönguáætlun skiptir máli, m.a. um þau sjónarmið sem fram koma í fyrirspurninni um þær leiðir sem fyrir valinu verða. Greiningarvinnu þarf að vinna áður en hægt er að taka ákvörðun um endanlega útfærslu. Við ákvörðunartökuna verður horft til sjónarmiða sem eðlilegt og réttmætt þykir að taka tillit til, m.a. jafnræðissjónarmiða. Ef ráðist yrði í samvinnuverkefni í jarðgangaframkvæmdum yrði gjaldið byggt á kostnaði að hluta til eða öllu leyti, t.d. yrði gjaldtaka fyrir tvöföldun Hvalfjarðarganga byggð á sömu sjónarmiðum og þegar þau voru byggð í upphafi. Á þeim svæðum þar sem umferðin er minni legði ríkið fram fjárframlag til framkvæmdanna á móti þeim hluta sem fjármagnaður yrði með jarðgangagjaldi. Í þeim tilvikum þegar gjaldtaka yrði byggð á sömu sjónarmiðum og þeim sem fram koma í fyrrnefndu áliti umhverfis- og samgöngunefndar þyrfti aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.