Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 489  —  383. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (öldungaráð).

Frá félags- og barnamálaráðherra.1. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála.

2. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er breyting sem gerð var á stjórnsýslu öldrunarmála með lögum nr. 37/2018, um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem m.a. var gerð breyting á svæðaskiptingu og skipan fulltrúa í öldungaráð. Samhliða var gerð sú breyting á lögum um málefni aldraðra að hugtakinu „þjónustuhópur aldraðra“ var breytt í hugtakið „öldungaráð“. Hins vegar var ekki gerð breyting á svæðaskiptingu og skipun fulltrúa til samræmis við breytta skipan í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Nauðsynlegt er að samræma lög um málefni aldraðra og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga hvað varðar svæðaskiptingu og skipan í öldungaráð. Ekki þykja aðrar leiðir færar en að breyta ákvæðum laga um málefni aldraðra til samræmis við ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins snýr að því að samræma ákvæði laga um málefni aldraðra að nýlegum ákvæðum í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Annars vegar fjalla breytingarnar um að í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skuli starfa formlegur samráðsvettvangur sem nefnist öldungaráð. Í öldungaráði er fjallað um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála í víðu samhengi.
    Hins vegar snúa breytingarnar að skipan í öldungaráð en þar skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins þykir ekki gefa sérstakt tilefni til að meta samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var tekið til umfjöllunar í samstarfsnefnd um málefni aldraðra sem starfar skv. 5. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Þá fór frumvarpið í opið umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda í október sl. þar sem hagsmunaaðilum gafst kostur á að koma með athugasemdir við drög að frumvarpinu. Umsögn barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kom að nauðsynlegt væri að gera umræddar breytingar en að öðru leyti gerði sambandið ekki efnislegar athugasemdir við efni frumvarpsdraganna.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta er eingöngu til að samræma ákvæði um skipan í öldungaráð milli laga um málefni aldraðra og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ekki verður séð að efni frumvarpsins geti haft í för með sér neikvæðar eða íþyngjandi afleiðingar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 6. gr. laganna að öldungaráð skuli starfrækja í hverju sveitarfélagi eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um öldrunarmál en ekki í heilsugæsluumdæmum, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna verði breytt til samræmis við 2. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, en í 1. mgr. 7. gr. segir að skipa skuli fimm fulltrúa í öldungaráð að loknum sveitarstjórnarkosningum. Yfirlæknir heilsugæslu tilnefnir lækni með sérmenntun á sviði öldrunar- eða heimilislækninga og hjúkrunarforstjóri heilsugæslu tilnefnir hjúkrunarfræðing með þekkingu á öldrunarþjónustu. Sveitarstjórnir skipa án tilnefningar tvo fulltrúa sem hafa þekkingu á félagslegri þjónustu við aldraða. Skal annar þeirra vera félagsráðgjafi eða hafa hliðstæða menntun. Samtök eldri borgara á svæðinu tilnefna einn fulltrúa úr sínum röðum. Við gildistöku laga nr. 37/2018, um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, breyttist skipan í öldungaráð þannig að í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.